Hæstiréttur íslands
Mál nr. 257/2009
Lykilorð
- Gæsluvarðhald
- Farbann
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 25. febrúar 2010. |
|
Nr. 257/2009.
|
Darius Simkevicius (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) og gagnsök |
Gæsluvarðhald. Farbann. Skaðabætur. Gjafsókn.
D krafðist bóta úr hendi Í, þar sem hann hefði saklaus verið látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 4. til 19. október 2007 og farbanni frá þeim tíma til 13. nóvember sama ár. D var handtekinn á dvalarstað sínum við húsleit 3. október 2007. Í íbúðinni og í öðru húsnæði, sem hann vandi komur sínar í, fann lögregla mikið af ætluðu þýfi. Við skýrslugjöf sama dag gerði D enga tilraun til að gera grein fyrir þeim munum sem hann átti í íbúðinni. Vegna þessara aðstæðna og þar sem hann lét það viðgangast að í íbúðinni sem hann dvaldist í var geymdur fjöldi muna, sem gat ekki farið framhjá honum að væri þýfi, var talið að fram væri kominn nægilegur rökstuddur grunur um að hann hefði átt þátt í þeim þjófnuðum sem rannsókn lögreglu beindist að. Rannsóknin var á frumstigi og meira en tíu menn grunaðir um aðild að brotunum. Var því talið að skilyrði hefðu verið fyrir hendi til að úrskurða D í gæsluvarðhald 4. október 2007. Hins vegar var ekki fallist á að skilyrði hefðu verið fyrir hendi til að framlengja gæsluvarðhald hans 10. sama mánaðar. Þá hafði hvergi komið fram í skýrslum annarra sakborninga né í öðrum gögnum að D hefði átt hlut að máli. Á þessum tíma hefði lögregla átt að hafa haft nægan tíma til að kanna hvort hann væri frekar viðriðinn þau brot sem rannsóknin beindist að. Var því talið að D ætti rétt á bótum vegna þess að hann sætti gæsluvarðhaldi lengur en efni stóðu til. Þá var talið að D hefði með ummælum í skýrslu hjá lögreglu viðurkennt háttsemi sem varðaði við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því hefði verið fullt tilefni til að hann sætti farbanni á meðan lokið yrði við rannsókn málsins. Þóttu því engin efni til að taka kröfu hans til greina um bætur vegna farbanns. Var Í gert að greiða D 400.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 2009. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 6.300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. júlí 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 18. júní 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I
Samkvæmt gögnum málsins fannst mikið af þýfi við húsleit 3. október 2007 í íbúð við Fellsmúla 4 í Reykjavík, en þar dvaldi hópur Litháa, sem grunaðir voru um skipulagða þjófnaði á varningi úr fjölda verslana á höfuðborgarsvæðinu. Síðar sama dag var gerð húsleit í íbúð að Háaleitisbraut 46 í Reykjavík, þar sem áfrýjandi hafði dvalið ásamt nokkrum öðrum Litháum, en þá höfðu komið fram upplýsingar um að íbúar þar tengdust þeim mönnum, sem grunaðir voru um þjófnaðina. Við síðari húsleitina var einnig lagt hald á mikið magn þýfis, sem reyndist vera úr áðurgreindum verslunum. Aðaláfrýjandi var handtekinn ásamt nokkrum hinna grunuðu og gaf skýrslu sama dag hjá lögreglu. Hann neitaði að vera viðriðinn þjófnaðina og kvaðst ekkert vita um þá muni sem fundust við húsleit. Var hann úrskurðaður 4. október 2007 til að sæta gæsluvarðhaldi til 10. sama mánaðar á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Aðaláfrýjandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hans með dómi næsta dag, en þar var fallist á með héraðsdómi að rökstuddur grunur léki á að aðaláfrýjandi kynni að hafa gerst sekur um að hafa staðið að þjófnuðunum í félagi við nokkra aðra landa sína.
Aðaláfrýjandi gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 8. október 2007 og skýrði þá frá á svipaðan hátt og áður að öðru leyti en því að hann kvaðst hafa greint rangt frá því hversu margir byggju í íbúðinni, sem hann dvaldi í. Hann sagðist hafa komið nokkrum sinnum í íbúðina við Fellsmúla 4, síðast 3. október 2007, en kannaðist ekki við að hafa orðið var við neitt þýfi. Aðspurður um hvort hann hafi aldrei leitt hugann að því að á dvalarstað hans kynni að vera geymt þýfi sagði hann: „Ég hugsaði stundum með mér að þetta gæti verið þýfi, en ég spurði einskis.“
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess 10. október 2007 að gæsluvarðhald yfir aðaláfrýjanda yrði framlengt til 24. sama mánaðar. Í kröfu um þetta var meðal annars staðhæft að lögregla hafi farið yfir myndskeið úr 21 máli, sem rannsókn málsins lyti að og hafi „hann þekkst á myndskeiðum úr verslunum sem kært hafa þjófnað.“ Með úrskurði, sem kveðinn var upp sama dag, var krafa lögreglustjóra tekin til greina og kærði aðaláfrýjandi ekki þann úrskurð til Hæstaréttar.
Aðaláfrýjandi gaf næst skýrslu hjá lögreglu 13. október 2007 og sagðist þá ekki vita til þess að félagar hans, sem bjuggu í áðurnefndum íbúðum, hafi stundað „neinn þjófnað ... það getur vel verið að einhverjir hafi verið að stela en ég spurði einskis“. Aðaláfrýjanda mun hafa verið sleppt úr haldi 19. október 2007. Frá þeim degi var honum gert að sæta farbanni til 1. nóvember 2007, sem framlengt var til 13. sama mánaðar.
Með ákærum 13. og 23. nóvember 2007 voru sex hinna grunuðu ákærð fyrir þjófnað og hylmingu, en aðaláfrýjandi var ekki meðal þeirra. Með dómi 20. desember sama ár voru fjórir þeirra sakfelldir. Samkvæmt bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 28. mars 2008 til aðaláfrýjanda munu lögreglumál á hendur honum hafa verið felld niður 13. nóvember 2007 með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991, en aðilarnir deila um hvenær hann fékk vitneskju um það, eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi.
II
Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 24. júní 2008 og krafðist bóta úr hendi gagnáfrýjanda samkvæmt 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991. Hann reisir kröfu sína á því að hann hafi saklaus verið látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 4. til 19. október 2007 og farbanni frá þeim tíma til 13. nóvember sama ár. Í fyrsta lagi byggir aðaláfrýjandi á að ekki hafi verið kominn fram rökstuddur grunur um refsiverðan verknað á hendur honum þegar hann sætti gæsluvarðhaldi með úrskurðinum 4. október 2007. Hann hafi neitað að hafa haft vitneskju um ætlaða þjófnaði og þýfi. Þá hafi hann ekki getað torveldað rannsóknina þar sem lögregla hafi tekið þýfið við húsleit og handtekið grunaða. Gagnáfrýjandi byggir meðal annars á því að skaðabótakrafa aðaláfrýjanda sé fyrnd, sbr. 181. gr. laga nr. 19/1991, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Með vísan til forsendna hans er fallist á með aðaláfrýjanda að sex mánaða fyrningarfrestur kröfunnar hafi byrjað að líða 28. mars 2008 og krafan því verið ófyrnd er mál þetta var höfðað.
Aðaláfrýjandi var handtekinn á dvalarstað sínum við húsleitina 3. október 2007. Í íbúðinni og í öðru húsnæði, sem hann vandi komur sínar í, fann lögregla mikið af ætluðu þýfi, sem grunur lék á að hefði verið stolið úr fjölmörgum verslunum. Við skýrslugjöf sama dag gerði hann enga tilraun til að gera grein fyrir þeim munum sem hann átti í íbúðinni. Vegna þessara aðstæðna og þar sem hann lét það viðgangast að í íbúðinni sem hann dvaldist í var geymdur fjöldi muna, sem ekki gat farið framhjá honum að væri þýfi, var fram kominn nægilega rökstuddur grunur um að hann hafi átt þátt í þeim þjófnuðum sem rannsókn lögreglu beindist að. Rannsóknin var á frumstigi og voru meira en tíu menn grunaðir um aðild að brotunum. Skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 voru því fyrir hendi til að úrskurða aðaláfrýjanda í gæsluvarðhald 4. október 2007.
Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína í öðru lagi á því að ekki hafi verið skilyrði til að framlengja gæsluvarðhald hans 10. október 2007. Hann hafi staðfastlega neitað öllum sakargiftum. Stolið hafi verið smávörum úr verslununum á opnunartíma og hafi yfirleitt verið unnt að greina við skoðun á upptökum úr öryggismyndavélum verslananna hverjir voru að verki. Komið hafi í ljós að hvergi í gögnum málsins hafi verið til þess vísað að aðaláfrýjandi hafi sést á upptökunum og nafn hans hafi heldur ekki borið á góma í skýrslum sem teknar höfðu verið af öðrum sakborningum. Er hér var komið sögu hafi verið búið að handtaka þá sem sáust á upptökunum og hvergi verið að finna vísbendingu um þátttöku hans í brotunum.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 1. september 2009 þar sem fram kemur að ekki sé unnt að fullyrða að aðaláfrýjandi hafi sést á umræddum myndskeiðum. Staðhæfing í kröfu 10. október 2007 um áframhaldandi gæsluvarðhald aðaláfrýjanda, sem lögð var fyrir héraðsdómara í þinghaldi þann dag, um að aðaláfrýjandi hafi þekkst á þessum myndskeiðum var því röng. Þrátt fyrir að rannsókn lögreglu hafi tekið til umtalsverðs þýfis, sem grunur lék á að stolið hafði verið úr rúmlega 20 verslunum, var hún hvorki flókin né margbrotin, en á annan tug lögreglumanna unnu að henni. Aðaláfrýjandi gaf skýrslur hjá lögreglu 3., 8. og 13. október 2007 og aðrir sakborningar um svipað leyti, en síðustu skýrslurnar voru teknar af þeim 14. og 15. sama mánaðar. Þegar framlengingar á gæsluvarðhaldi aðaláfrýjanda var krafist hafði hvergi komið fram í skýrslum annarra sakborninga né í öðrum gögnum að hann hafi átt hlut að máli. Á þessum tíma átti lögregla að hafa haft nægan tíma til að kanna hvort hann væri frekar viðriðinn þau brot sem rannsóknin beindist að. Að öllu þessu gættu verður ekki talið að skilyrði hafi verið til að hafa aðaláfrýjanda lengur í gæsluvarðhaldi er hér var komið sögu. Á hann því rétt á bótum samkvæmt b. lið 176. gr., sbr. 175. gr. laga nr. 19/1991, vegna þess að hann sætti gæsluvarðhaldi lengur en efni stóðu til.
Aðaláfrýjandi gerir einnig kröfu um bætur vegna farbanns, sem hann sætti frá 19. október til 13. nóvember 2007. Eins og fyrr greinir viðurkenndi aðaláfrýjandi í skýrslu hjá lögreglu 8. október 2007 að hann hafi grunað að munir á dvalarstað hans gætu verið þýfi, en hann hafi einskis spurt. Með þessum ummælum viðurkenndi hann háttsemi sem varðar við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var því fullt tilefni til að hann sætti farbanni á meðan lokið yrði við rannsókn málsins og ákvörðun tekin um hvort sækja ætti hann til saka, sem þó var ekki gert, þrátt fyrir áðurnefnda játningu hans. Þykja engin efni til að taka kröfu hans að þessu leyti til greina.
Ekki verður ráðið af endurriti úr þingbók varðandi þinghaldið 10. október 2007 eða öðrum gögnum málsins að aðaláfrýjandi hafi þá gert athugasemd við þann málatilbúnað lögreglu að hann hafi þekkst á myndskeiðum úr verslunum sem kært höfðu þjófnað. Hann sá heldur ekki ástæðu til að kæra gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms sama dag til Hæstaréttar til að fá honum hnekkt. Þegar litið er til þessa svo og þess að aðaláfrýjandi viðurkenndi við rannsókn málsins brot sem varðað gat hann fangelsisrefsingu samkvæmt 254. gr. almennra hegningarlaga verður fallist á með gagnáfrýjanda að lækka eigi bætur honum til handa með vísan til lokamálsliðar 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Að því virtu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda hér fyrir dómi fer eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda, Darius Simkevicius, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. mars 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Darius Simkevicius, kt. 310182-2739, gegn íslenska ríkinu, með stefnu sem birt var 24. júní 2008.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.300.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 24. júlí 2008 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukrafa verði lækkuð verulega og málskostnaður verði felldur niður.
Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Upplýst er að húsleit var gerð, hinn 3. október 2007, í íbúð á 4. hæð við Háleitisbraut 46 í Reykjavík í kjölfar upplýsinga þess efnis að íbúar tengdust öðrum aðilum sem grunaðir voru um skipulagðan þjófnað á undanförnum mánuðum. Við húsleitina var lagt hald á mikið magn af munum, svo sem fatnað, snyrtivörur og ýmsar tölvuvörur. Haft er eftir lögreglunni að stefnandi hafi dvalist í íbúðinni og væri tengdur mönnum sem grunaðir væru um skipulagðan þjófnað; og var stefnandi handtekinn. Daginn eftir var stefnanda í héraðsdómi gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til 10. október 2007, á grunvelli þess að hann væri grunaður um þátt eða hlutdeild í auðgunarbrotum. Og þar sem átta aðrir væru einnig undir grun yrði að tryggja að þeim yrði gert ókleift að hafa samband sín á milli og samræma skýrslur sínar.
Hinn 5. október 2007 kærði stefnandi úrskurð héraðsdóms frá 4. sama mánaðar til Hæstaréttar Íslands. Með dómi samdægurs var hinn kærði úrskurður staðfestur. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að rannsókn standi yfir hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á því hvort stefnandi hafi í félagi við þó nokkra menn gerst að undanförnu sekur um þjófnað úr ýmsum verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Við slíkum brotum liggi fangelsisrefsing samkvæmt 244. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940. Og verði að fallast á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991 væri fullnægt fyrir gæsluvarðhaldi.
Hinn 10. október 2007 var af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu krafist úrskurðar um að stefnanda yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 24. október 2007. Krafan var reist á því að lögreglan væri að rannsaka rúmlega 20 þjófnaði úr verslunum, þar sem í öllum tilvikum væri um að ræða að stolið var á opnunartíma verslana með kerfisbundnum hætti dýrum smávarningi.
Í greinargerð með kröfu lögreglunnar um frekara gæsluvarðhald stefnanda er rakið að grundsemdir hafi vaknað um mánaðamótin september/október 2007 að hópur fólks frá Litháen sem hér dvaldi stæði að þjófnuðum. Gerð hafi verið húsleit í íbúð á 3. hæð í Fellsmúla 4 í Reykjavík hinn 2. október 2007. Nokkrir Litháar, þar á meðal stefnandi, hafi haldið til í íbúðinni. Við húsleitina hafi verið lagt hald á mikið magn af munum, svo sem fatnaði, snyrtivörum og ýmsum tæknibúnaði. Í kjölfarið hafi stefnandi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald hinn 3. október 2007. Lögreglan hafi skráð niður alla þá muni sem fundust við húsleitin og farið yfir kærur frá verslunum vegna stórfellds búðahnupls. Búið væri að fara yfir myndskeið úr þeim málum, sem stefnandi var grunaður um að hafa tekið þátt í, og hafi hann þekkst á myndskeiðum úr verslunum, sem kært höfðu þjófnað. Nítján rannsóknarmál voru tínd til hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á hendur tilteknum hóp manna, sem grunaður var um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi, og var stefnandi einn úr hópnum.
Í rökstuðningi með kröfu lögreglunnar um frekara gæsluvarðhald stefnanda er tiltekið að í íbúðum - þar sem stefnandi dvaldi eða hafði aðgang að - hafi lögreglan fundið varning, sem svaraði til þess sem horfið hafði, þegar þjófnaðir, sem til rannsóknar voru og hér um ræðir, áttu sér stað. Þá segir að upplýst væri að innihald póstsendingar á vegum nokkurra hinna kærðu til Litháen hafi m.a. verið smávarningur og snyrtivörur. Í öllum fyrrgreindum nítján málum hafi lögreglan þekkt þjófana sem aðila í umræddum hópi manna, sem skipulagði þjófnaði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu, en stefnandi væri einn af þeim.
Héraðsdómur féllst á kröfu lögreglustjóra og var stefnandi dæmdur til að sæta gæsluvarðhaldi til 24. október 2007. Forsendur úrskurðarins voru að lögreglan hefði til rannsóknar fjölda þjófnaðarmála úr ýmsum verslunum á höfuðborgarsvæðinu og beindist rannsókn að stefnanda og nokkrum félögum hans. Fallist væri á með lögreglu að rökstuddur grunur beindist að stefnanda um þátt eða hlutdeild í brotunum. Þar sem málið væri enn til rannsóknar og félagar hans væru einnig undir grun yrði að tryggja að þeim yrði gert ókleift að hafa samband sín á milli og samræma skýrslur sínar.
Hinn 19. október 2007 krafðist lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu að stefnanda yrði gert að sæta farbanni á meðan lögregla lyki rannsókn og tæki ákvörðun um saksókn í nokkrum málum sem snéru að aðild stefnanda í skipulögðum þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu, þó eigi lengur en til 1. nóvember 2007. Héraðsdómur féllst á þessa kröfu með vísun til rökstuðnings og lagasjónarmiða lögreglustjórans. Hinn 1. nóvember 2007 var farbannið framlengt til 13. nóvember 2007. Þá segir í bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til lögmanns stefnanda, dags. 28. mars 2008, m.a.: „Með vísan til bréfs þíns, dags. 16. nóvember sl., og samtals okkar nú fyrr í dag upplýsist að lögreglumál nr. ... er vörðuðu meint auðgunarbrot umjóðanda þíns, Darius Simkevicius, kt. 310182-2739, voru felld niður 13. nóvember sl. á grundvelli 112. gr. laga nr. 19, 1991, en það var mat lögreglustjóra að það sem fram kom við rannsókn málanna gagnvart skjólstæðingi þínum þótti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Þennan sama dag var umjóðanda þínum tilkynnt ofangreind málalok. ... .“
Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir sem hann byggir á: Stefnandi byggir á því að ekki hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að hann hefði framið verknað sem fangelsisvist eða farbann er lögð við. Ekkert bitastætt hafi legið fyrir í málinu er benti til þess að hann hefði framið afbrot. Í því sambandi væri léttvæg vera hans í íbúð, er tengdist aðilum, sem grunaðir voru um skipulagðan þjófnað. Ekkert í skýrslu stefnanda hjá lögreglu hafi gefið réttmætt tilefni til að ætla hann sekan. Stefnandi hafi staðfastlega neitað að hafa vitneskju um ætlaðan þjófnað. Þá hafi lögreglunni mátt vera ljóst að stefnanda var ekki fært að spilla rannsókn á ætluðum þjófnaði þótt hann gengi frjáls eða færi af landi brott.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína um miskabætur vegna ólögmæts gæsluvarðhalds á þann veg að telja 150.000 kr. fyrir hvern dag í einangrun í sextán daga, þ.e. samtals 2.400.000 kr. og miskabætur 150.000 kr. fyrir hvern dag vegna ólögmæts farbanns í tuttugu og sex daga, þ.e. samtals 3.900.000 kr.
Um réttarheimildir vísar stefnandi til 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, einkum 175. og 176. gr. þeirra laga. Þá er byggt á 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir sem hann byggir á: Stefndi byggir á því að ætla hefði mátt að stefnandi myndi torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, sbr. a-lið 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991. Þegar stefnandi var handtekinn hafi hann dvalið í íbúð að Háaleitisbraut 46, þar sem ýmis varningur fannst sem grunur lék á að væri þýfi. Hvorki gæsluvarðhald né farbann hafi varað lengur en nauðsyn krafði. Fyrir aðgerðum lögreglu hafi verið lögmæt skilyrði og ekki gengið lengra en nauðsyn bar til.
Þá er byggt á því að bótakrafa stefnanda sé fyrnd, sbr. 181. gr. laga nr. 19/1991. Hinn 13. nóvember 2007 hafi stefnanda hafi verið tilkynnt að lögreglurannsókn á hendur honum, vegna ætlaðrar aðildar að fjölmörgum auðgunarbrotum, væri felld niður. Stefna málsins er dagsett 23. júní 2008 og birt stefnda 24. sama mánaðar, en þá hafi verið liðnir meira en sjö mánuðir frá því að stefnandi fékk sannanlega vitneskju um niðurfellingu málsins.
Einnig er byggt á því að bótakrafa stefnanda fullnægi hvorki skilyrðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 né öðrum bótareglum. Nægilegt tilefni hafi verið til umdeildra aðgerða lögreglunnar gagnvart stefnanda og þær hafi ekki verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Kröfu um verulega lækkun á kröfufjárhæð stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður styður stefndi við sömu málsástæður og sjónarmið er fram koma hjá stefnda varðandi aðalkröfu. Stefnandi hafi sjálfur gefið tilefni til þess að sæta gæsluvarðhaldi og farbanni, sbr. 2. ml. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991.
Niðurstaða: Aðalsteinn Aðalsteinsson, rannsóknarlögreglumaður, bar fyrir rétti að umrædd lögreglurannsókn hafi verið gríðarlega umfangsmikil og rannsókn hafist út af hóp fjórtán manna frá Litháen. Hópurinn hafi verið að sækja þýfi, gert tilkall til að fá afhent þýfi. Tveir úr hópnum voru á leiðinni til Litháen og hafa sennileg viljað fá meira. Þegar þeir komu að sækja þýfið þá hafi lögreglan handtekið þá. Í kjölfarið hafi verið farið í húsleit að Fellsmúla 4. Mikið magn af vörum hafi verið í húsinu og hafi allir sem þar voru inni verið handteknir nema stúlka, sem komið hafði frá Litháen daginn áður. Daginn eftir hafi lögreglan farið að Háaleitisbraut 46 og handtekið þar fleiri til viðbótar, eða samtals með þeim sem handteknir voru daginn áður, um fjórtán manns. Af þessum fjórtán hafi níu farið í gæsluvarðhald. Vörurnar sem voru handlagðar hafi verið verðmetnar á um það bil fimm milljónir króna.
Aðalsteinn sagði að enginn af þeim handteknu hafi viljað upplýsa málið, enginn verið samvinnuþýður. Tekist hefði þó að tala einn þeirra til, Mankus að nafni, til að gefa upplýsingar. Hann hefði sagt að verið væri senda gríðarlegt magn að þýfi úr landi og að um skiplagða glæpastarfsemi væri að ræða. Þeir ynnu sem hópur en hver á eigin vegum.
Aðalsteinn sagði að tólf lögreglumenn hefðu unnið í þrjár vikur einungis við að rannsaka þetta mál. Eftir það hafi fjórir lögreglumenn haldið rannsókninni áfram í þrjár vikur.
Aðalsteinn sagði að stefnandi hafi verið einn úr hópi manna frá Litháen, sem hér um ræðir. Eðlilegt hafi verið að taka alla sem lögreglan taldi að tengdist málinu, en reynt hafi verið að beita eins mildum úrræðum og mögulegt var.
Vísað var til þess að í greinargerð lögreglunnar á dskj. nr. 42 komi fram að stefnandi hafi verið handtekinn að Háleitisbraut 46, hinn 3. október 2007. Aðalsteinn staðfesti að svo hafi verið. Bent var á að stefnandi hafi verið sá eini, sem gert var að sæta gæsluvarðhaldi af heimilisfólkinu, er þar var handtekið. Aðalsteinn kvaðst ómögulega geta sagt hvers vegna það var. Hann hafi ekki haft sýn yfir málið. Það hafi verið svo umfangsmikið. Stjórnandinn hafi verið Hákon Sigurjónsson.
Stefndi byggir á því að bótakrafa stefnanda sé fyrnd með vísun til 181. gr. laga nr. 19/1991. Við birtingu stefnu hafi verið liðnir meira en sjö mánuðir frá því að stefnandi fékk sannanlega vitneskju um að lögreglumál á hendur honum var fellt niður.
Karl Ingi Vilbergsson, lögfræðingur hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, bar fyrir rétti að stefnanda hafi, hinn 13. nóvember 2007, verið gert kunnugt að lögreglumál á hendur honum var fellt niður. Sama dag hafi farbann, er stefnanda hafði sætt, runnið út. Kvaðst Karl Ingi hafa gefið út ákærur, hinn 13. nóvember 2007, og óskað eftir við lögreglufulltrúa að hann boðaði alla sakborninga málsins í héraðsdóm, en þar hafi þeim, sem ekki voru ákærðir, þ.m.t. stefnanda, verið tilkynnt með aðstoð tveggja túlka að málin væru felld niður gagnvart þeim og lögreglan myndi ekki aðhafst frekar í málinu. Karl Ingi sagði að samtímis og farbanni er aflétt sé vegabréf afhent. Hann kvaðst ekki hafa sjálfur afhent stefnanda vegabréf og kvaðst ekki muna að það hafi verið gert í héraðsdómi umrætt sinn.
Af hálfu stefnanda var við aðalmeðferð málsins andmælt þeirri málsástæðu stefnda að krafa stefnanda væri fyrnd. Vísað var til þess að lögmaður stefnanda hefði með bréfi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hinn 16. nóvember 2007, óskað eftir upplýsingum um lyktir máls 007-2007-7579 gagnvart skjólstæðingi sínum, Dariusi Simkevicius, er úrskurðaður var í gæsluvarðhald, hinn 4. október 2007, og síðan í farbann frá 19. sama mánaðar. Og jafnfram óskað eftir að öll gögn er vörðuðu rannsókn málsins yrðu send skrifstofu lögmannsins. Þessu hafi ekki verið svarað af lögreglunni þrátt fyrir ítrekanir 20. desember 2007 og 7. febrúar 2008. Að frumkvæði lögmanns stefnanda hafi Umboðsmaður Alþingis síðan með bréfi, dags. 25. mars 2008, til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu óskað eftir upplýsingum um meðferð lögreglunnar á máli Dariusar Simkevicius. Í framhaldi af bréfi Umboðsmanns Alþingis hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sent lögmanninum bréf, dags 28. mars 2008, þar sem orðrétt segir: „Með vísan til bréfs þíns, dags. 16. nóvember sl., og samtals okkar nú fyrr í dag upplýsist að lögreglumál nr. 007-2007-54068, -56665, -61214, -70650, -72499, -75199,-75650, -75840,-76081, -76203, -76210, -76215, -76216, -76222, -76225, -76228, -76233, -76236, -76237, -77491 og -77490, er vörðuðu meint auðgunarbrot umbjóðanda þíns, Darius Simkevicius, kt. 310182-2739, voru felld niður 13. nóvember sl. á grundvelli 112. gr. laga nr. 19, 1991, en það var mat lögreglustjóra að það sem fram kom við rannsókn málanna gagnvart skjólstæðingi þínum þótti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Þennan sama dag var umbjóðanda þínum tilkynnt ofangreind málalok. / Að beiðni þinni verða afrit rannsóknargagna ofangreindra mála send þér og munu þau berast þér á næstu dögum.“
Bótakrafa samkvæmt XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 fyrnist á sex mánuðum frá vitneskju aðila um ákvörðun um niðurfall rannsóknar, sbr. 181. gr. laganna. Ekki er alveg víst að lögreglan hafi skýrt stefnanda með greinargóðum hætti hvað lagalega þýðingu það hafði fyrir hann að lögreglurannsókn á ætluðum auðgunarbrotum hans var felld niður, hinn 13. nóvember 2007, að það væri mat lögreglustjóra að rannsókn hefði ekki leitt neitt í ljós er væri nægilegt eða líklegt til sakfellis. Á hinn bóginn er ljóst af bréfi lögmanns stefnanda til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hinn 16. nóvember 2007, að lyktir málsins voru ekki skýrar í huga lögmannsins. Jafnfram er ljóst að engin frekari tilraun var gerð af lögreglunni til að skýra ákvörðun um að lögreglurannsókn á ætluðum auðgunarbrotum stefnanda var felld niður fyrr en með bréfi til lögmannsins, hinn 28. mars 2008.
Rannsókn var felld niður eins og áður sagði, hinn 13. nóvember 2007. Um þær mundir var naumast fært með greinargóðum hætti fyrir lögmann stefnanda að bera fram málsástæður og réttarheimildir í stefnu, þar sem krafist var miskabóta vegna ætlaðs ólögmæts gæsluvarðhalds og farbanns; raunar varla fyrr en eftir að afrit rannsóknargagna lögreglunnar bárust lögmanni stefnanda að liðnum 28. mars 2008. Óútskýrð töf lögreglunnar, að láta lögmanninum í té afrit af rannsóknargögnum og að tjá honum að frekari rannsókn á ætluðum auðgunarbrotum stefnanda væri lokið, teljast mega vera ígildi þess, að vitneskja um ákvörðun um niðurfall rannsóknar hafi fyrst borist með ótvíræðum hætti til stefnanda eftir 28. mars 2008 og þar með hafi fyrningarfrestur byrjað að líða 28. mars 2008, en ekki 13. nóvember 2007.
Hinn 4. október 2007, var stefnanda með úrskurði héraðsdóms gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. október 2007. Byggt var á því að stefnandi hafði dvöl í íbúð á 4. hæð við Háaleitisbraut 46 í Reykjavík, þegar húsleit fór þar fram daginn áður, en lögreglan hafði upplýsingar um að íbúar þar tengdust aðilum sem grunaðir voru um skipulagðan þjófnað á undanförnum mánuðum. Við húsleitina hafi verið lagt hald á mikið magn af munum, svo sem fatnað, snyrtivörur og ýmsar tölvuvörur sem lögreglan hafi að hluta tengt við þjófnaði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu mánuðum. Staðhæft var af hálfu lögreglunnar að stefnandi tengdist þeim aðilum sem grunaðir voru um skipulagðan þjófnað.
Hinn 10. október 2007, var stefnanda með úrskurði héraðsdóms gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. október 2007. Meðal annars var úrskurðurinn byggður á þeim upplýsingum lögreglunnar að stefnandi hafi þekkst á myndskeiðum úr verslunum, sem kært höfðu þjófnað, og hinn 22. júlí 2007 hafi stefnandi ásamt öðrum manni komið með fatnað á Litla-Hraun, sem reyndist vera þýfi. Í greinargerð stefnda er viðurkennt að rangt sé að stefnandi hafi komið með stolinn fatnað á Litla-Hraun. Þá segir í greinargerð að stefndi muni láta kanna nánar fullyrðingar stefnanda um að stefnandi sjáist ekki á myndbandsupptökum sem lögregla vísar til. Ekkert er hins vegar upplýst hvað sú könnun leiddi í ljós. Hinn 19. október 2007 var stefnandi úrskurðaður í farbann til fimmtudagsins 1. nóvember 2007.
Ekki er nokkur vafi á því að rangar staðhæfingar lögreglunnar um að stefnandi hafi komið með stolinn fatnað á Litla-Hraun og að hann hafi þekkst á myndskeiðum úr verslunum, sem kært höfðu þjófnað, hafi ráðið miklu um að gæsluvarðhald stefnanda var framlengt til 24. október 2007 og að stefnandi var úrskurðaður í farbann til 1. nóvember 2007.
Stefndi byggir á því að fram hafi komið rökstuddur grunur um að stefnandi hefði framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og mátt hafi ætla að hann myndi torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, sbr. a-lið 1.mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Af hálfu stefnanda er þessu andmælt með rökstuddum hætti.
Er kom að framlengingu gæsluvarðhalds og ákvörðun um farbann, verður að líta til þess, að nægur tími hafði gefist fyrir lögregluna að vanda til verka, þ.e. frá 4. október 2007 til 10. sama mánaðar. Fallist er því á með stefnanda, að grunur lögreglunnar um að stefnandi hefði framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við, hafi ekki verið rökstuddur með ásættanlegum hætti. Vera stefnanda í íbúð þar sem ætlað þýfi fannst og íbúar tengdust öðrum aðilum, sem grunaðir voru um skipulagðan þjófnað á undanförnum mánuðum, gat þá ekki talist fullnægjandi ástæða og röksemd fyrir framlengingu gæsluvarðhalds og farbanns, en naumast er nokkuð annað haldbært í málinu sem telja má að hefði getað vakið grun um að stefnandi hefði framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við.
Samkvæmt framangreindu og á grundvelli sömu réttarheimilda og stefnandi vísaði til hér að framan verður krafa stefnanda um miskabætur tekin til greina. Hæfilegar bætur eru 400.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl. 817.031 króna með virðisaukaskatti.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 400.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. júlí 2008 til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 817.031 króna.