Hæstiréttur íslands

Mál nr. 644/2015

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Piotr Pawel Biegun (Jóhannes Ásgeirsson hrl.),
(Margrét Gunnlaugsdóttir réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur
  • Sérálit

Reifun

P var sakfelldur fyrir kynferðisbrot samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við A sem ekki gat spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Var refsing P ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði auk þess sem honum var gert að greiða A 800.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.

Atvik þau sem ákært er fyrir áttu sér stað aðfaranótt 29. desember 2013 og var kæra brotaþola borin fram hjá lögreglu sama dag. Lífsýni, sem tekin voru til DNA-greiningar, voru send til rannsóknar í Svíþjóð og lá niðurstaða hennar fyrir í júlí 2014. Lögreglurannsókn málsins lauk þá um haustið og var ákæra gefin út 24. febrúar 2015. Héraðsdómur var kveðinn upp 27. maí 2015 og sem fyrr greinir var áfrýjunarstefna gefin út 29. júní sama ár. Málsgögn bárust Hæstarétti á hinn bóginn ekki fyrr en 13. apríl 2016 og hefur sú töf ekki verið skýrð.

Að virtum ítarlegum gögnum málsins, sem rakin eru í hinum áfrýjaða dómi, verða ekki vefengdar forsendur fjölskipaðs héraðsdóms fyrir mati á trúverðugleika framburðar þar, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, um að ákærði hafi brotið gegn brotaþola umrætt sinn. Verður því staðfest niðurstaða dómsins um sakfellingu ákærða og jafnframt ákvörðun refsingar.

Brot það sem ákærði er sakfelldur fyrir var til þess fallið að valda brotaþola miska. Á hinn bóginn er slíkur skortur á gögnum til stuðnings framkominni einkaréttarkröfu að óhjákvæmilegt er að lækka miskabætur brotaþola til handa. Verða þær ákveðnar 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Einn dómenda, Ólafur Börkur Þorvaldsson, telur að atvik málsins séu þess eðlis að ekki sé ástæða til að lækka miskabætur frá því sem ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi.

Staðfest verða ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, Piotr Pawel Biegun, greiði brotaþola, A, 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.102.339 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2015

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 12. maí 2015, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 24. febrúar 2015, á hendur Piotr Pawel Biegun, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir nauðgun með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 29. desember 2013, á heimili A að [...] í Reykjavík, haft samræði og önnur kynferðismök við A, með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum svefndrunga og ölvunar. Auk þess að hafa samræði við A hafði ákærði við hana munnmök, setti fingur í leggöng hennar og káfaði á brjóstum hennar. Við þetta hlaut A roða og eymsli á ytri kynfærum, roða, eymsli og punktblæðingar í leggöngum og áberandi roða á vinstri geirvörtu.

Telst brot þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, og málskostnaðar.

                Verjandi krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er aðallega krafist frávísunar bótakröfu, en til vara að bætur sæti verulegri lækkun. Loks krefst verjandi málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

      Sunnudagsmorguninn 29. desember 2013, klukkan 7:27, óskaði A, eftir aðstoð lögreglu á heimili sínu að [...]. Lögreglumenn héldu á vettvang og ræddu við brotaþola, sem greindi frá því að kvöldið áður hefði hún boðið vinafólki í samkvæmi á heimili sínu, en um var að ræða ákærða, Piotr Pawel Biegun og eiginkonu hans, B, ásamt ungum syni þeirra, C, D og E. Brotaþoli lýsti því að áfengi hefði verið haft um hönd í samkvæminu og hefði hún drukkið fjögur til fimm staup af sterku áfengi frá því um klukkan átta til hálfellefu um kvöldið. Hún kvaðst síðast muna eftir sér um það leyti og hefði hún þá setið í sófa í stofu. Hún hefði síðan vaknað í rúmi sínu um klukkan sex um morguninn og þá verið klæðalaus að neðan og hefði henni verið illt í móðurlífi, líkt og eftir kynlíf. Hún hefði aðeins verið klædd í blússu og brjóstahaldara, en hvort tveggja hefði verið upp um hana eins og einhver hefði rifið fötin upp. Dyrnar að íbúð hennar hefði verið lokaðar, en ólæstar. Brotaþoli kvaðst muna óljóst eftir að hafa stundað kynlíf um nóttina, en ekki gera sér grein fyrir með hverjum. Henni fyndist þó að það hefði verið með ákærða. Lýsti hún því þannig að henni fyndist eins og um draum væri að ræða. Hún kvaðst hafa fundið buxur sínar og nærbuxur í kuðli á svefnherbergisgólfinu. Ofan á fötunum hefði legið farsími, sem hún vissi ekki hver átti, en við skoðun mátti sjá skráð nýleg símtöl við eiginkonu og barn ákærða. Þá kemur fram að brotaþoli hafi verið með áverka á upphandleggjum, bláa marbletti. Brotaþoli var flutt á Neyðarmóttöku, en lögreglumenn héldu á heimili ákærða og var hann handtekinn þar.

      Við skýrslutöku hjá lögreglu síðar um daginn greindi brotaþoli jafnframt frá því að þegar hún vaknaði hefði verið mikið af hári á koddanum hennar, eins og rifið hefði verið í hár hennar. Þá hefði brjóstahaldara hennar verið hneppt frá að aftan og hann færður af annarri öxlinni. Hún kvaðst minnast þess eins og í draumi að hafa séð andlit ákærða og hefði hún verið að streitast eða berjast á móti honum og sagt honum að gera þetta ekki. Brotaþoli gaf skýrslu að nýju 28. febrúar 2014 og var þá borinn undir hana framburður ákærða og vitna.

                Ákærði var yfirheyrður af lögreglu að kvöldi sunnudagsins 29. desember 2013. Hann kannaðist við að hafa verið í samkvæminu hjá brotaþola og hefði áfengi verið haft um hönd. Þau hefðu fengið sér nokkur staup af áfengi og hefði brotaþoli orðið veik af því. Henni hefði orðið óglatt og hefði hún farið inn á baðherbergi, en ákærði kvaðst hafa farið að aðstoða hana þar. Þá hefði brotaþoli spurt hann hvort hann gæti komið aftur til hennar á eftir. Ákærði kvað þau gestina hafa yfirgefið íbúðina eftir þetta og hefði hann farið ásamt eiginkonu sinni í íbúð þeirra, að [...], sem er í næsta stigagangi. Þegar eiginkonan var sofnuð hefði hann farið aftur til brotaþola. Þau hefðu heilsast og hann farið að káfa á brjóstum hennar og kynfærum. Síðan hefði hann haft munnmök við hana og hefði hún nefnt nafn hans og einhvers annars manns á meðan á því stóð. Eftir þetta hefðu þau legið saman í rúminu um stund og rætt saman. Hefði komið fram hjá brotaþola að hana langaði að kynnast einhverjum og fá smá hlýju, en hún vildi ekki vera ein. Þá hefði hún talað fallega um eiginkonu ákærða. Brotaþoli hefði síðan sagt honum að fara. Hann hefði sagt henni að læsa á eftir sér, en hún hefði sagst ekki vilja gera það þar sem kannski myndi einhver koma og nauðga henni. Hann kvaðst því næst hafa yfirgefið íbúðina og farið heim til sín.

Ákærði kvaðst hafa komist á milli stigaganga í fjölbýlishúsinu í gegnum sameiginlegt þvottahús. Hurðin að íbúð brotaþola hefði verið ólæst. Hún hefði verið sofandi í rúmi sínu þegar hann kom. Ákærði kvað brotaþola hafa talað við hann á meðan á kynmökunum stóð og sagt að sér væri enn óglatt. Hann kvaðst hafa afklætt brotaþola áður en hann hóf að hafa við hana munnmök. Hann hefði merkt að hún hefði verið ánægð með kynmökin. Eftir að kynmökin voru yfirstaðin hefðu þau setið hlið við hlið á rúmstokknum og rætt saman. Ákærði kvaðst hafa borið brotaþola af baðherberginu inn í rúm áður en hann yfirgaf íbúðina í fyrra skiptið. Hún hefði áður spurt hann hvort hann ætlaði að koma aftur og hefði hann skilið það svo að hún væri að bjóða honum að stunda kynlíf.

Meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla Neyðarmóttöku frá 29. desember 2013 um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola. Í skýrslunni kemur fram að hún hafi verið með mar, 5 x 3 cm, blátt að lit, utanvert á vinstri upphandlegg, rauðleitt mar, 1,5 x 1 cm ofan við hægri olnboga, eymsli og fölan bláma, 2 x 2 cm, á upphandlegg hægra megin. Þá hafi verið áberandi roði og eymsli á vinstri geirvörtu. Við kvenskoðun mátti sjá roða og eymsli á ytri kynfærum, klukkan 18, og roða og eymsli í leggöngum, einnig klukkan 18, ásamt húðblæðingum, sem nánar er lýst sem punktblæðingum.

Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 20. janúar 2014, mældust 0,38‰ alkóhóls í blóðsýni sem tekið var úr brotaþola við skoðun á Neyðarmóttöku klukkan 10:10, en 0,26‰ í blóðsýni sem tekið var klukkan 11:05. Í matsgerðinni kemur fram að niðurstöður mælinga sýni að hlutaðeigandi hafi verið undir vægum áhrifum alkóhóls þegar sýnin voru tekin og að einhver tími hafi liðið frá neyslu þess.

Í málinu er skýrsla tæknideildar lögreglu um rannsókn á nærbuxum brotaþola og sýnum sem tekin voru frá kynfærum hennar og brjóstum á Neyðarmóttöku. Fram kemur að engin lífsýni sem nothæf gætu talist til DNA-kennslagreiningar, hafi fundist í nærbuxum eða sýnum frá kynfærum. Ákærði gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun eftir handtöku og fór fram rannsókn á sýnum teknum af getnaðarlim, naglböndum á fingrum beggja handa og fatnaði hans. Í nærbuxum ákærða fundust tveir blettir sem gáfu jákvæða svörun við prófum sem sæði. Var annar bletturinn á framhlið nærbuxnanna, rétt neðan við streng, en hinn á innanverðri framhlið, vinstra megin við miðjusaum. Við rannsókn á ábreiðu á rúmi brotaþola fannst einnig blettur, sem gaf jákvæða svörun við prófi sem sæði.

Sýni tekin frá getnaðarlim og höndum ákærða, brjóstum brotaþola, úrklippa úr rúmábreiðunni og nærbuxur ákærða, auk samanburðarsýna frá ákærða og brotaþola, voru send til DNA-greiningar hjá Statens Kriminaltekniska Laboratorium í Svíþjóð og liggur fyrir skýrsla rannsóknarstofunnar, dagsett 24. júlí 2014. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að stroksýni, tekið af getnaðarlim ákærða, reyndist innihalda blöndu DNA-sniða frá a.m.k. tveimur einstaklingum og var það snið sem var í meirihluta eins og DNA-snið ákærða sjálfs, en sniðið sem var í minnihluta reyndist ekki vera nægilegt til samkenningar. Stroksýni tekin af naglaböndum á báðum höndum ákærða reyndust innihalda blöndu DNA-sniða frá a.m.k. tveimur einstaklingum. Eitt snið var í meirihluta í báðum sýnum, en það var eins og DNA-snið brotaþola. Snið eins og DNA-snið ákærða greindist í minnihluta í sýni sem tekið var af hægri hendi, en ekki var unnt að samkenna snið sem var í minnihluta í sýni teknu af vinstri hendi. Greining á tveimur sýnum á innanverðri framhlið nærbuxna ákærða leiddi í ljós blöndu DNA-sniða frá a.m.k. þremur einstaklingum og reyndust snið eins og DNA-snið ákærða og brotaþola vera í blöndunni. Þá reyndist sýni tekið af hægra brjósti brotaþola innihalda blöndu DNA-sniða frá a.m.k. tveimur einstaklingum, sem samsvöruðu því að um væri að ræða blöndu DNA-sniða frá grunuðum og brotaþola. Rannsókn á úrklippu úr rúmábreiðu sýndi að sáðfrumur voru þar til staðar, en magn þeirra var ekki nægilegt til greiningar.

Ákærði var yfirheyrður á ný 4. september 2014 og var hann þá spurður nánar um hvernig kynferðismökin hefðu átt sér stað. Hann kvaðst hafa kysst og sleikt kynfæri brotaþola og sett fingur í kynfæri hennar. Sérstaklega spurður kvaðst hann ekki vita hvort hún var með fullri meðvitund á meðan á þessu stóð, en áréttaði að þau hefðu rætt saman eftir á. Brotaþoli hefði virst njóta kynmakanna og hún hefði ekki gefið merki um að hún vildi þetta ekki. Spurður hvort verið geti að hún hafi sofið ölvunarsvefni svaraði ákærði að það væri erfitt til um að segja. Ákærði kvaðst hafa dregið niður buxur sínar og nærbuxur á meðan hann veitti brotaþola munnmök og kynni það að skýra niðurstöðu DNA-rannsóknar á nærbuxum hans. Hann var ítrekað spurður hvort hann hefði haft samræði við brotaþola, en neitaði því.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

Ákærði kvað eiginkonu sína hafa verið í boði heima hjá A þetta kvöld. Hefði kona hans hringt til hans og beðið hann um að koma, sem hann hefði gert. A hefði boðið upp á vodka í samkvæminu. Þegar leið á kvöldið hefði A farið að líða illa og hefði hún farið inn á baðherbergi. Kvaðst ákærði hafa farið að aðstoða hana þar. A hefði verið óglatt þegar hún fór inn á baðherbergið. Hann hefði aðstoðað hana við að rísa upp af baðherbergisgólfinu og fylgt henni inn í svefnherbergi, þar sem hann hefði lagt hana á rúm. Hann kvaðst hafa gripið um upphandleggi hennar og haldið henni uppi þegar hann aðstoðaði hana inn í svefnherbergið. Þegar hann hafði lagt hana á rúmið hefði hún spurt hann hvort hann gæti komið aftur til sín og kvaðst hann hafa skilið það svo að það væri í kynferðislegum tilgangi. Eftir þetta hefðu gestirnir yfirgefið samkvæmið, en klukkan hefði þá verið um ellefu. Hann hefði farið heim með eiginkonu sinni, beðið eftir að hún sofnaði og farið aftur til A. Hefðu þá verið liðnar 30 til 40 mínútur frá því þau yfirgáfu íbúðina. A hefði verið vakandi þegar hann kom aftur og hefði hún legið fullklædd í rúmi sínu. Hann hefði sagt: „hæ A“ og hún svarað: „hæ Piotr“, en þau hefðu ekki rætt meira saman. Ákærði kvaðst hafa kysst A og hjálpað henni að afklæðast. Þá hefði hann sjálfur afklæðst. Hann kvaðst hafa snert brjóst hennar, sett fingur í kynfæri hennar og kysst kynfæri hennar. Hún hefði verið vakandi á meðan á þessu stóð og meðvituð um það sem var að gerast. Þegar hann var að hafa við hana kynmök hefði hún sagt eitthvað sem hann taldi vera „Piotr“, eða eitthvað annað nafn. Ákærði kvað kynmökin ekki hafa verið harkaleg og hefði hann ekki skýringar á áverkum á kynfærum hennar. Þau hefðu rætt saman eftir að kynmökin voru yfirstaðin og hefði A talað fallega um eiginkonu hans. Hann hefði dvalið í um 30 mínútur í íbúðinni.

Ákærði hafnaði því alfarið að hafa haft samræði við A. Ástæða þess hefði verið sú að hann hefði „ekki náð honum upp“. Spurður um niðurstöðu DNA-greiningar kvaðst hann telja að erfðaefni A hefði getað borist af fingri hans í innanverðar nærbuxurnar. Hann kvaðst hafa sett einn fingur í leggöng A á meðan á kynmökun stóð, en það hefði ekki verið lengi. Hann kvaðst ekki telja að áverkar á kynfærum hefðu getað hlotist við þetta, enda hefðu aðfarirnar ekki verið harkalegar.

Ákærði kvaðst hafa verið að neyta áfengis á heimili sínu áður en hann kom í samkvæmið og hefði hann drukkið um 700 ml af vodka frá því um hádegi þennan dag og fram á kvöld. Hann kvað þau A hafa talað mikið saman í samkvæminu og hefði farið vel á með þeim. Ekkert kynferðislegt hefði verið á milli þeirra um kvöldið, enda hefðu eiginkona hans og sonur verið þarna einnig. Hann kvaðst hafa hitt A tvisvar sinnum fyrir þennan atburð, er hún kom á heimili þeirra hjóna til að fá lánuð verkfæri, auk þess sem þau hefðu boðið henni í jólaboð á aðfangadagskvöld.

A kvaðst hafa boðið samstarfskonum sínum í samkvæmi þetta kvöld, þeim B, eiginkonu ákærða, C og E. Um klukkan tíu hefði ákærði hringt í eiginkonu sína og spurt hvernig samkvæmið væri. Hún hefði sagt að hann væri velkomin til þeirra og hefði hann komið með son þeirra B. Þá hefði D, kærasti C, einnig slegist í hópinn. Þau hefðu verið að drekka áfengi og kvaðst A hafa drukkið um tvö til þrjú staup af vodka og eitt glas af mohito. Um klukkan ellefu hefði B rétt henni staup með vodka sem hún hefði drukkið um helminginn af. Hún kvaðst ekkert muna hvað gerðist eftir það. Hún myndi næst eftir sér þegar hún vaknaði morguninn eftir, en það hefði verið um klukkan sex. Hún hefði legið á rúmi sínu inni í svefnherbergi, ofan á rúmábreiðunni. Þegar hún settist upp hefði hún fundið til í kynfærunum. Lýsti hún því nánar þannig að hana hefði sviðið í kynfærin og verið illt í þeim. Hún hefði fundið að einhver hefði haft kynferðismök við hana. Hún hefði enn verið íklædd kjólnum sem hún hafði verið í um kvöldið, en ekki verið í buxum og nærbuxum. Hún hefði fundið buxurnar og nærbuxurnar á gólfinu, við endann á rúminu. Hún hefði tekið fötin upp, en þá hefði dottið úr þeim farsími. Síminn hefði verið vafinn inn í nærbuxurnar og buxurnar. Hún kvaðst þá hafa verið þess fullviss að einhver hefði haft kynferðismök við hana um nóttina og hefði hún því hringt í lögreglu. Hún kvað útilokað að það hefði gerst með hennar samþykki.

A kvaðst ekki vera vön því að drekka áfengi og hefði það ekki hent hana fyrr að missa minnið vegna áfengisneyslu. Hún kvaðst ekki minnast þess að hafa verið veik inni á baðherbergi um kvöldið. Hún kvaðst þó eiga minningarbrot þar sem henni fyndist hún sjá höfuð ákærða aftan frá, eins og hún stæði fyrir aftan hann, og hún væri að segja við hann að hún vildi ekki og endurtekið það, en hann hefði sagt á móti: „Þú vilt“.

                Hún kvaðst ekki kannast við að samskipti þeirra ákærða hefðu verið af kynferðislegum toga um kvöldið. Hún nefndi þó í því sambandi atvik sem hefði átt sér stað um jólahátíðirnar nokkrum dögum fyrr þegar ákærði hefði gert sig líklegan til að kyssa hana, en hún hefði vikið sér undan því. Ákærði hefði verið ölvaður og hún hefði talið þetta vera grín. Hún kvaðst hafa þekkt eiginkonu ákærða, en aðeins hafa hitt hann einu sinni eða tvisvar áður. Hún var spurð um frásögn ákærða af því að hún hefði boðið honum að koma aftur til hennar í íbúðina eftir að samkvæminu lauk. Hún kvaðst ekki muna eftir neinu slíku og vísaði því á bug að hún hefði daðrað við ákærða eða sýnt honum kynferðislega tilburði um kvöldið. Þá kvaðst hún ekki muna eftir því að D hefði sagt henni að læsa á eftir gestunum þegar þau yfirgáfu íbúðina.

                B, þáverandi eiginkona ákærða, kvað A hafa boðið þeim C og E heim þetta kvöld. Auk þeirra hefði mágkona vitnisins verið þarna með ungt barn sitt, en hún hefði staldrað stutt við. Þá hefði [...] ára sonur vitnisins verið með þeim. Áfengi hefði verið haft um hönd og hefði A drukkið óblönduð vodka „skot“. Hún hefði orðið ölvuð, farið að dansa og gera að gamni sínu. Meðal annars hefði hún haft á orði hvort þær ættu að fá nektardansara í samkvæmið, en þær hinar hefðu sagt henni að það væri ekki í boði á Íslandi. A hefði þá viljað fá karlmenn í boðið og hvatt þær til að hringja í ákærða og D, kærasta C. Þeir hefðu síðan komið í samkvæmið. Þegar klukkan var farin að nálgast hálfellefu hefði A verið farið að líða illa og hefði hún farið inn á baðherbergi til að kasta upp. E og ákærði hefðu farið að aðstoða hana á baðherberginu og fylgt henni síðan inn í svefnherbergi. Hún hefði átt erfitt með gang og verið í vandræðum með að halda jafnvægi, en þó ekki verið rænulaus. Þau hefðu lagt hana í rúmið, gengið frá eftir samkvæmið og yfirgefið íbúðina um klukkan hálftólf. Áður en þau fóru út hefði D kallað til A að muna eftir að læsa hurðinni og hefði hún svaraði: „Allt í lagi. Ég læsi.“ Kvaðst vitnið hafa séð að hún lá í rúminu fullklædd, þegar þau fóru út.

                Þau ákærði hefðu farið heim og kvaðst vitnið hafa sett rúmföt í þurrkara og beðið eftir að „prógramminu“ lyki, en það taki 85 mínútur. Hún hefði lagst í sófa inni í stofu og kveikt á sjónvarpi á meðan hún beið, en sennilega sofnað. Þegar hún vaknaði aftur hefði ákærði verið í íbúðinni hjá henni og þurrkarinn enn í gangi. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við að ákærði færi út. 

C kvaðst telja að A hefði drukkið um tvö staup af vodka í samkvæminu. Þegar leið á kvöldið hefði hún farið inn á baðherbergi og kastað upp. Taldi vitnið að D og ákærði hefðu aðstoðað hana í rúmið. Þau gestirnir hefðu yfirgefið samkvæmið saman, en áður en þau fóru út hefðu þau sagt A að læsa á eftir þeim.

                Vitnið kvað A hafa hagað sér undarlega í samkvæminu. Hún hefði talað um að hún þyrfti að fá karlmann og viljað fá nektardansara í heimsókn. Hún hefði dansað „með skrítnum hreyfingum“, sem virtust beinast að ákærða og það hefði verið eins og hún vildi kyssa hann. Vitnið kannaðist þó við að eiginkona ákærða hefði verið þarna allan tímann á meðan á samkvæminu stóð.

                Borin voru undir vitnið ummæli í skýrslu hennar hjá lögreglu 30. desember 2013 þar sem haft var eftir henni að ástand A hefði verið þannig þegar hún var lögð í rúmið að hún hefði „verið út úr heiminum“, hún hefði verið „áfengisdauð“. Hún hefði áður farið á klósettið og ælt og hefði hvorki getað gengið né talað, verið óskiljanleg. Fyrir dóminum kvaðst vitnið hafa skýrt satt og rétt frá við skýrslutökuna.

E, kvað A hafa drukkið tvö eða þrjú staup af óblönduðu vodka þetta kvöld, en ástand hennar hefði þó ekki verið þannig að hún væri sambandslaus við umhverfið. Vitnið kvaðst hafa séð A inni á baðherberginu og hefði hún setið við salernið. Ákærði hefði síðan aðstoðað hana inn í rúm. Þegar þau yfirgáfu íbúðina hefði D sagt við A að það þyrfti að læsa hurðinni. Hún hefði svarað og sagst vita það, hún myndi læsa. Vitnið kvað A hafa verið „hangandi utan í“ ákærða fyrr um kvöldið. Hún hefði sóst eftir því að sitja við hliðina á honum. Spurð hvort A hefði verið að daðra við ákærða játaði vitnið því.

                Vitnið var spurð út í frásögn hennar við skýrslutöku hjá lögreglu 30. desember 2013, þar sem kom fram hjá henni að klukkan rúmlega ellefu hefðu þau heyrt í A æla inni á klósetti. Þau hefðu séð að hún sat við klósettið og ældi. Fyrir dóminum kvað vitnið geta verið að þetta hefði verið með þessum hætti, hún hefði munað atvik betur er hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Borið var undir vitnið það sem komið hefði fram hjá henni við skýrslutökuna að ákærði hefði reynt að reisa A upp með því að taka undir hendur hennar, en hún hefði viljað sitja áfram við klósettið. A hefði verið þarna í 15-20 mínútur þangað til ákærði hjálpaði henni í rúmið. Fyrir dóminum kannaðist vitnið við þessa frásögn og sagði þetta geta hafa verið svona. Loks var borið undir vitnið það sem haft var eftir henni í lögregluskýrslu um að A hefði drukkið mjög mikið og hratt án þess að hafa borðað neitt og hefði verið orðin mjög ölvuð að mati vitnisins. Fyrir dóminum kvað vitnið A hafa drukkið þrjú staup hvert á eftir öðru skömmu eftir að þær komu til hennar, en hún hefði ekki séð hana drekka eftir það.

D lýsti því að A hefði verið orðin mjög ölvuð í samkvæminu. Hún hefði orðið veik og kastað upp inni á baðherbergi. Hún hefði síðan lagst til hvílu og þau hin hefðu yfirgefið íbúðina. Hann kvaðst hafa farið inn í svefnherbergi til hennar og sagt henni að læsa á eftir þeim. Hún hefði svarað „okey“ og þau hefðu farið.

                Vitnið kvað ákærða og E hafa verið að aðstoða A inni á baðherberginu þegar hún var að kasta upp. Þá hefði henni verið hjálpað í rúmið þar sem hún var svo ölvuð. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því að eitthvað kynferðislegt hefði verið í samskiptum ákærða og A í samkvæminu.

F, læknir á Neyðarmóttöku, gerði grein fyrir réttarlæknisfræðilegri skoðun á brotaþola. Hún kvað brotaþola hafa verið miður sín og greinilega liðið mjög illa. Áverkar sem fram komu við skoðunina hefðu verið ferskir. Roði og eymsli á geirvörtu hefðu virst vera eins og eitthvað hefði nuddast þar við. Punktblæðing í leggöngum hefði verið staðsett klukkan 18, eða neðst í leggöngum þegar konan væri í liggjandi stöðu. Þar hefði verið blæðing í slímhúðinni, sem hefði komið til við einhvern þrýsting. Áverkinn hefði hlotist við innþrengingu og gæti það hafa verið eftir getnaðarlim eða fingur. Vitnið kvað áverkann geta komið heim og saman við að samræði hefði verið haft við konuna, en hún hefði lýst óljósri minningu um að hún hefði verið að streitast eitthvað á móti. Slíkur áverki hlytist ekki af hefðbundnum samförum. Þá kvað vitnið áverkann ekki samrýmast sögu ákærða um að hann hefði sett einn fingur inn í leggöng brotaþola. Miðað við áverkann hefði þurft að vera um fleiri en einn fingur að ræða og að þrýst hefði verið vel niður inni í leggöngunum.

G, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði gerði grein fyrir niðurstöðum alkóhólmælingar í blóðsýnum sem tekin voru úr brotaþola á Neyðarmóttöku. Vitnið kvað niðurstöðu rannsóknarinnar benda til þess að þegar sýnin voru tekin hafi nokkuð verið liðið frá því drykkju lauk. Ef drykkju hefði lokið um miðnæturbil mætti álykta að alkóhólmagn í blóði hefði þá verið a.m.k. 1,4‰ hærra en mældist í fyrra blóðsýni, eða um 2‰, miðað við meðaltals brotthvarfshraða alkóhóls úr blóði. Þetta væri þó ekki hægt að reikna af nákvæmni. Vitnið kvað það vera einstaklingsbundið hvaða áfengismagn leiði til rænuleysis. Þó sé unnt að miða við að viðkomandi sé mjög ölvaður þegar áfengismagn í blóði er komið yfir 2‰ og geti það leitt til áfengisdauða. Þá kvað vitnið skipta máli um áfengisáhrif ef áfengis er neytt á skömmum tíma. 

H, sérfræðingur lögreglu, gerði grein fyrir DNA-samanburðarrannsókn, sem fram fór í málinu. Vitnið var spurður út í niðurstöðu greiningar á sýnum sem tekin voru úr innanverðri framhlið nærbuxna ákærða, og tilurð blöndu af DNA frá ákærða og brotaþola sem þar greindist. Hann lýsti því að sjá mætti fyrir sér tvo möguleika með hliðsjón af framburði ákærða og brotaþola, annars vegar þann að ákærði hefði legið við hlið brotaþola og nuddast utan í hana og hins vegar að samræði hefði átt sér stað. Hvorugt væri hægt að útiloka þar sem DNA flytjist með snertingu. Hins vegar leiði snerting við mjúkan þekjuvef innan í leggöngum, s.s. við samræði, til mun meiri flutnings á DNA en núningur við þurra húð. DNA geti síðan hafa færst af getnaðarlim yfir í nærbuxurnar við svokallað „secondary transfer“. Vitnið kvað ólíklegt að svo mikið DNA sem greindist í blöndunni í sýnunum hefði komið við snertingu við þurra húð, þótt það væri ekki útilokað. Meiri líkur væru á því að yfirfærslan hefði orðið við snertingu við mjúkan þekjuvef og þaðan yfir í nærbuxurnar.

Spurður hvort DNA brotaþola hefði getað borist með snertingu af fingri sem stungið hefði verið inn í leggöngin benti vitnið á að þá myndi hafa verið um lengri veg að fara, þ.e. að DNA hefði flust úr leggöngum yfir á fingur, þaðan yfir á getnaðarlim og loks innan á nærbuxurnar. Þá lýsti vitnið því að greinilegir sæðisblettir hefðu verið innan á nærbuxunum. Einnig hefðu verið sæðisblettir í rúmábreiðu á vettvangi. Ekki væri þó hægt að segja til um hvenær þessir blettir væru tilkomnir. 

Loks gaf I lögreglumaður skýrslu fyrir dóminum. Vitnið ræddi við brotaþola á vettvangi í umrætt sinn og ritaði frumskýrslu í málinu. Hún kvað brotaþola hafa verið brugðið og hefði henni ekki liðið vel. Vitnið kvað ónákvæmt orðalag í frumskýrslu þar sem fram kom að brotaþoli myndi óljóst eftir því að hafa „stundað kynlíf“. Það hefði enginn vafi verið um að brotaþoli hefði verið að lýsa kynferðisbroti sem hún hefði orðið fyrir og komið hefði skýrt fram að hún hefði ekki veitt samþykki sitt fyrir kynferðismökunum.

Niðurstaða         

                Ákærði neitar sök. Hann kannast við að hafa haft kynferðismök við brotaþola í umrætt sinn og hefur lýst því að hann hafi haft við hana munnmök, sett fingur í leggöng hennar og strokið brjóst hennar. Hann hefur hins vegar borið að brotaþoli hafi verið meðvituð um kynferðismökin og verið þeim samþykk. Þá hafnar ákærði því að hafa haft samræði við brotaþola. Brotaþoli kveðst ekki muna hvað gerðist, að undanskilinni óljósri minningu um að hún hafi verið að streitast á móti ákærða. Hún hafnar því að kynferðismökin hafi verið með vitund hennar og vilja.

Af framburði brotaþola, B, C og E verður ráðið að brotaþoli hafi drukkið nokkur staup af óblönduðu sterku áfengi á skömmum tíma þetta kvöld. Samkvæmt vitnisburði deildarstjóra Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði getur magn alkóhóls í blóði brotaþola hafa numið um 2‰ um það leyti er samkvæminu lauk. Auk fyrrnefndra vitna hafa ákærði og D borið að brotaþoli hafi verið mjög ölvuð í samkvæminu, að hún hafi orðið veik af þeim sökum og að ákærði hafi orðið að aðstoða hana inn í rúm. Að mati dómsins er ekki trúverðugt að brotaþoli hafi sóst eftir kynferðismökum við ákærða við þessar aðstæður, eins og hann hefur borið um. Breytir engu þar um óljós frásögn vitnanna C og E um að brotaþoli hafi sýnt ákærða áhuga í samkvæminu, en hafa ber í huga að vitnin eru nátengd þáverandi eiginkonu ákærða.

Af niðurstöðu alkóhólrannsóknar og framburði vitna, sem rakinn hefur verið, verður ráðið að brotaþoli hafi orðið mjög ölvuð þetta kvöld og ástand hennar verið bágborið. Þá þykja viðbrögð hennar eftir að hún vaknaði morguninn eftir styðja frásögn hennar um að hún hafi ekki samþykkt kynferðismökin, en lögreglukona, sem kom á vettvang, og læknir, sem ræddi við hana á Neyðarmóttöku, hafa borið að henni hafi verið mjög brugðið. Brotaþoli lýsti því að þegar hún vaknaði hefði hana verkjað og sviðið í kynfærin. Ákærði bar fyrst um það við yfirheyrslu hjá lögreglu 4. september 2014 að hann hefði stungið einum fingri í leggöng hennar. Svo sem rakið hefur verið taldi læknir sem skoðaði brotaþola á Neyðarmóttöku að áverki í leggöngum hefði orðið við innþrengingu og hefði það getað verið með getnaðarlim eða fleiri en einum fingri sem þrýst hefði verið vel niður í mjúkvefinn.  Vitnið taldi áverka brotaþola ekki samrýmast frásögn ákærða um að hann hefði stungið einum fingri inn í leggöng brotaþola og tók jafnframt fram að slíkur áverki hlytist ekki af hefðbundnum samförum. Þá er til þess að líta að við rannsókn á sýni sem tekið var úr nærbuxum ákærða fannst blanda af DNA hans og brotaþola og taldi sérfræðingur lögreglu ólíklegt að slíkt magn DNA frá brotaþola hefði flust yfir í nærbuxurnar með snertingu við húð hennar. Líklegra væri að það hefði gerst við snertingu við mjúkan þekjuvef innan í leggöngum, svo sem við samræði. Loks er til þess að líta að sýnið sem um ræðir var tekið úr sæðisbletti á innanverðum nærbuxum ákærða framanverðum fyrir miðju. Samkvæmt öllu framangreindu þykir, gegn neitun ákærða, hafið yfir skynsamlegan vafa að DNA brotaþola hafi borist þangað með getnaðarlim hans, eftir að hann hafi haft samræði við brotaþola.

Framburður brotaþola er trúverðugur að mati dómsins og hefur verið á einn veg um þau atriði sem skipta máli. Framburður ákærða er að sama skapi ótrúverðugur um tiltekin atriði og í ósamræmi við gögn málsins, sem rakið hefur verið. Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn brotaþola til grundvallar í málinu, en hafna ótrúverðugum framburði ákærða um atvik. Þykir sannað, gegn neitun ákærða, að ástand brotaþola hafi verið þannig að hún hafi ekki getað spornað við kynferðismökunum sökum svefndrunga og ölvunar. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða.

                Ákærði er fæddur árið [...]. Hann hefur ekki áður sætt refsingu. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola, sem ekki gat spornað við verknaðinum sökum ástands síns, og hlaut konan nokkra áverka af. Samkvæmt því og með vísan til 1. og 2. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

                Ákærði verður dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í framburði brotaþola fyrir dómi kom fram að hún hefði búið við mikla vanlíðan eftir verknaðinn, en hún hefur ekki leitað sér sérfræðiaðstoðar nema að litlu leyti. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 320.230 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 739.713 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir aðstoðarsaksóknari.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem dómsformaður, og Símon Sigvaldason, og Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærði, Piotr Pawel Biegun, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Ákærði greiði A, kt. [...], 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 29. desember 2013 til 19. apríl 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 620.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 320.230 krónur, og 739.713 krónur í annan sakarkostnað.