Hæstiréttur íslands

Mál nr. 208/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. apríl 2006.

Nr. 208/2006.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en banninu var markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2006, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 14. júní 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði féllst Hæstiréttur með dómi 7. mars 2006 í máli nr. 126/2006 á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili skyldi sæta farbanni til 12. apríl 2006 vegna fíkniefnabrots sem hann er grunaður um. Var þetta rökstutt með því að nauðsynlegt væri að tryggja nærveru varnaraðila til að ljúka mætti frágangi á rannsókn máls hans og taka ákvörðun um hvort af saksókn yrði. Nú liggur fyrir að þann 23. mars 2006 var gefin út ákæra á hendur varnaraðila og að mál gegn honum verði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. apríl 2006.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrði séu nú til að framlengja farbann varnaraðila. Á hinn bóginn er ljóst, að sérstaka skyldu ber til að hraða rannsókn og meðferð sakamála, þar sem sakborningar sæta þvingunaraðgerðum meðan á stendur. Með vísan til þessa verður hinn kærði úrskurður staðfestur en þó þannig að farbanni verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 31. maí 2006 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2006.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], verði áfram bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 14. júní 2006, kl. 16:00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru útgefinni 23. mars 2006 hafi ríkissaksóknari höfðað opinbert mál á hendur  X fyrir stórfellt fíkniefnabrot, með því að hafa í ágóðaskyni flutt hingað til lands frá Danmörku 999,94 g af amfetamíni og 3.797,55 g af kannabis, ætluðu til söludreifingar, og að hafa haft fíkniefnin í vörslum sínum eins og nánar sé tilgreint í ákæru.  Brot kærða í ákæru séu talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Málið muni verða þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 24. apríl 2006. 

Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 16. til 23. desember 2005, en farbanni frá þeim tíma að frátöldum 3 dögum, 3. til 6. mars sl., er héraðsdómur hafi hafnað kröfu lögreglu um að kærði sætti farbanni til þessa dags. Úrskurður héraðsdóms hafi verið kærður til Hæstaréttar sem með dómi í máli nr. 126/2006 uppkveðnum 7. mars sl. hafi fallist á  kröfuna. Fram hafi komið við rannsókn málsins í desember síðastliðnum að kærði hefði í hyggju að flytja til Danmerkur og leigja þar hús, en sonur hans væri búsettur þar. Kærði hafi nú lýst því yfir að hann sé hættur við þau áform. Þegar litið sé til þess að kærði sé grunaður um stórfellt fíkniefnalagabrot verði, þrátt fyrir nýja yfirlýsingu hans um breytt áform sín, að telja að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila til tryggja nærveru hans til að ljúka megi meðferð málsins fyrir dómi.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/ 1991 um meðferð opinberra mála sé þess beiðst að ofangreind krafa nái fram að ganga.

Kærði hefur mótmælt kröfu ríkissaksóknara um farbann.

Kærði hefur viðurkennt stórfellt fíkniefnalagabrot sem kann að varða hann refsingu skv 173. gr. a alm. hegningarlaga.  Fyrir það sætir hann ákæru sem verður þingfest 24. apríl nk.  Hann hefur lýst yfir að hann sé hættur við áform um að flytja til Danmerkur eins og fram hafði komið við rannsókn málsins og gaf hann þá meginskýringu á mótmælum sínum gegn farbannskröfunni að hann þyrfti að fara til Danmerkur til að sækja búsmuni og persónulega muni sína í hús sem sonur hans hefði keypt þar og ætlunin hefði verið að hann tæki þátt í að greiða en nú væri verið að selja. 

Þrátt fyrir framangreinda skýringu kærða þykir vera tilefni til að tryggja nærveru hans  uns dómur hefur gengið í máli hans.  Fallist er á það með ríkissaksóknara að fyrir hendi séu skilyrði skv. 110. gr., sbr. b lið 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991 til að orðið verði við kröfu hans eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð :

Kærða, X, er  bönnuð för frá Íslandi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 14. júní 2006, kl. 16:00.