Hæstiréttur íslands
Mál nr. 62/2001
Lykilorð
- Manndráp
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 21. júní 2001. |
|
Nr. 62/2001. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Ásgeiri Inga Ásgeirssyni (Erlendur Gíslason hrl.) |
Manndráp. Miskabætur.
Á var ákærður fyrir manndráp með því að hafa ýtt ÁP yfir handrið á 10. hæð fjölbýlishúss með þeim afleiðingum að hún féll fram af svölunum og lést af völdum mikilla áverka er hún hlaut, er hún lenti á steinstétt. Að virtum gögnum málsins og nokkrum sérstaklega tilteknum atriðum taldi Hæstiréttur það vera hafið yfir skynsamlegan vafa, að Á hefði banað ÁP. Þau hefðu bæði verið verulega ölvuð og hefði atlaga Á að stúlkunni í kjölfar samfara, sem rofnar voru eftir hennar kröfu, og svívirðinga af hans hálfu verið snörp og aflmikil, en hún hefði ekki haft svigrúm eða getu til að verjast henni. Þótti ljóst af álitsgerðum dómkvaddra matsmanna, að Á hefði þurft að fylgja hrindingu sinni eftir með verulegum krafti. Var talið fullvíst, að það hefði hann einmitt gert. Bent var á, að Á væri einn til frásagnar um síðustu atvikin, er leiddu ÁP til dauða. Héraðsdómur hefði ekki talið framburð hans um þau fá staðist og ekki væri efni til að ætla, að mat á sönnunargildi munnlegs framburðar Á fyrir dómi væri rangt svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Var talið, að Á hefði hlotið að vera ljóst, að svo ofsafengin atlaga við jafn hættulegar aðstæður og raun var á myndi óhjákvæmilega leiða til dauða ÁP. Var hann sakfelldur og refsing hans ákveðin 16 ára fangelsi. Á var jafnframt dæmdur til að greiða foreldrum ÁP miskabætur og bætur vegna útfararkostnaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein og Stefán Már Stefánsson prófessor.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2001 að tilhlutan ákærða. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu, þyngingar á refsingu og greiðslu skaðabóta, eins og í ákæru greinir. Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins og verði öllum einkaréttarlegum kröfum vísað frá dómi.
Dómarar Hæstaréttar gengu á vettvang 11. júní 2001 ásamt ríkissaksóknara og skipuðum verjanda ákærða.
I.
Ákærða er gefið að sök manndráp með því að hafa að morgni laugardagsins 27. maí 2000 ýtt Áslaugu Perlu Kristjónsdóttur yfir 119 cm hátt handrið á svölum á 10. hæð fjölbýlishússins við Engihjalla 9 í Kópavogi með þeim afleiðingum, að hún féll fram af svölunum og lést af völdum mikilla áverka, sem hún hlaut, er hún lenti á steinstétt við bakdyrainngang hússins.
Í héraðsdómi er gerð ítarleg grein fyrir málavöxtum og framburði ákærða og vitna. Þar er jafnframt greint frá álitsgerð dr. Þorsteins Vilhjálmssonar prófessors í eðlisfræði, sem dómkvaddur var til að láta í té álit um eðlisfræðilega þætti í falli hinnar látnu. Þar kom fram, að fallið hafi tekið um 2,3 sekúndur og að láréttur hraði stúlkunnar hefði verið um það bil 1,6 1,8 m/s. Kvað hann þann hraða ekki nógu mikinn til þess, að hún hefði á einhvern hátt spyrnt sér af afli og vilja fram af svölunum með fótunum. Hún hefði ekki heldur látið sig falla sem næst lóðrétt niður með húsinu, eins og stundum komi fyrir í sjálfsvígum. Hins vegar kæmi hraðinn vel heim við það, að einhvers konar handalögmál, stympingar eða spyrna með höndum hefði orðið til þess, að hún féll. Meðal annars þyrfti að gera ráð fyrir því, að stúlkan kynni sjálf að hafa ýtt sér ósjálfrátt með höndum frá húsinu, eftir að hún var byrjuð að falla. Matsmaðurinn taldi einnig hugsanlegt, að hinni látnu hefði verið kastað yfir handriðið með takmörkuðum krafti eða hún látin falla niður. Hann taldi það ekki fá staðist, með hliðsjón af lögmálum eðlisfræðinnar og fyrirliggjandi upplýsingum, að hinni látnu hefði verið ýtt fram af handriðinu með svonefndri einfaldri hrindingu.
Eftir uppsögu héraðsdóms óskaði ákærði þess, að dómkvaddur yrði matsmaður til að gefa skriflegt og rökstutt álit um tilteknar spurningar. Héraðsdómur synjaði beiðninni með úrskurði 6. apríl 2001, sem kærður var til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar 27. sama mánaðar var talið, að í ljósi þeirra afdrifaríku afleiðinga, sem niðurstaða slíks mats kynni að geta haft, yrði ákærða ekki meinað að leita álits fleiri kunnáttumanna. Var lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo matsmenn til að veita svör við þremur spurningum í matsbeiðni ákærða. Álitsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, þeirra Þorsteins I. Sigfússonar prófessors í eðlisfræði og Stefáns B. Sigurðssonar prófessors í lífeðlisfræði, hefur verið lögð fyrir Hæstarétt. Fyrsta spurningin laut að því, hvort matsmenn væru sammála áliti dr. Þorsteins Vilhjálmssonar um það, að lárétt hröðun hinnar látnu, 1,6 1,8 m/s, kæmi heim og saman við það, að beitt hafi verið höndum, annaðhvort að stúlkunni hafi verið ýtt eða hún ýtt sér sjálf frá húsinu og hvort ekki hafi getað verið um að ræða meðvitaða fótspyrnu með afli miðað við fjarlægð hennar frá húsinu. Samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar varð þessi spurning borin undir matsmennina sem yfirmatsmenn. Síðari spurningarnar tvær voru hins vegar lagðar fyrir kunnáttumennina sem matsmenn. Önnur þeirra var á þá leið, hvort unnt væri út frá eðlisfræðilegri þekkingu einni saman að álykta, hvort væri líklegra, að stúlkunni hafi verið ýtt eða kastað af svölunum af öðrum eða hún hafi sjálf ýtt sér með handafli frá svölunum eða notað til þess eigin krafta með öðrum hætti. Síðasta spurningin var um það, hvort unnt væri að útiloka á grundvelli eðlisfræðilegrar þekkingar, að stúlkan hafi með eigin handafli eða með eigin kröftum ýtt sér frá svölunum og þannig fengið þá láréttu hröðun, sem þurft hafi til þess, að hún lenti á þeim stað, sem raun var á.
Í svari matsmannanna við fyrstu spurningunni kemur fram, að þeir telji eðlisfræðilega útreikninga dr. Þorsteins Vilhjálmssonar vel gerða. Þrjár forsendur, sem geti haft veruleg áhrif á eðlisfræðilega framvindu atviksins, komi þó ekki fram í álitsgerðinni. Í fyrsta lagi séu líkur á, að hin látna hafi lent utan í húsinu í fallinu. Hafi hún gert það, breyti það verulega eðlisfræðilegum forsendum á mati á láréttum hraða hennar og lendingarstað miðað við upphafsstað. Í öðru lagi hafi hin látna lent á hallandi steinsteyptri stétt, sem leitt hafi til þess, að hún hafi orðið fyrir láréttum krafti samsíða hallanum, þegar hún lenti. Lendingarstaður geti því hafa verið einungis um 3 metrar frá svalavegg, en í matsgerð dr. Þorsteins Vilhjálmssonar var gert ráð fyrir, að fjarlægðin hafi verið 4,3 metrar. Í þriðja lagi bendi krufningarskýrsla sterklega til þess, að hin látna geti hafa lent með fætur á undan og síðan skollið niður á vinstri hliðina. Miðað við þessar forsendur er niðurstaða matsmannanna sú, að láréttur upphafshraði stúlkunnar geti hafa verið tiltölulega lítill, hann breyst við snertingu við húsið og hún snúist og runnið til við lendingu á hallandi stéttinni. Einnig sé hugsanlegt, að lárétti upphafshraðinn hafi verið meiri eða allt að 1,7 m/s og hún hafi ekki snert húsið á leiðinni niður. Álíta matsmennirnir, að ekki sé unnt að ákvarða, hvort lárétta hröðunin hafi verið fengin með höndum eða fótum. Taka þeir undir, að mjög ólíklegt sé, að spyrnt hafi verið með fótum með miklu afli, því að þá hefði hún lent lengra frá húsinu, en hins vegar sé mjög auðvelt að spyrna með minna afli með fótum og fá þannig þá hröðun, sem hér um ræði. Höndum gæti einnig hafa verið beitt og sama niðurstaða fengist. Telja þeir sig þó ekki geta ályktað, að höndum frekar en fótum hafi verið beitt. Annarri spurningunni svara matsmennirnir á þá leið, að ekki sé unnt út frá eðlisfræðilegri þekkingu að álykta, hvort sé líklegra, að hinni látnu hafi verið kastað af svölunum af öðrum eða hún komið sér sjálf fram af. Þyngdarpunktur hennar hafi verið um það bil 20 cm neðan við brún handriðsins og því hafi þurft að ýta mjög kröftuglega og ofarlega á líkama hennar til að þyngdarpunktur hennar færðist upp fyrir brún handriðsins. Aðstæður virðist gera það kleift, að ýtt hafi verið svo kröftuglega, að stúlkan hafi farið yfir handriðið. Með vísan til svara við fyrri spurningunum töldu matsmennirnir í svari við þeirri þriðju, að ekki væri unnt að útiloka, að hin látna hafi ýtt sér frá svölunum með eigin handafli eða með eigin kröftum og fengið á þann hátt þann lárétta hraða, sem þurft hafi til þess, að hún lenti á þeim stað, sem raun var á.
Í þinghaldi í Héraðsdómi Reykjaness 11. júní 2001 var skýrsla tekin af matsmönnunum í síma samkvæmt heimild í 3. mgr. 49. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 36/1999, en þeir voru báðir erlendis. Í svörum Þorsteins I. Sigfússonar kom meðal annars fram, að hann teldi fall Áslaugar Perlu af svölunum hafa „stafað af annað hvort eða hvort tveggja hrindingu með afli sem lyfti og eða þá afli hennar með vilja og við getum ekki gert upp á milli þessara tveggja.” Um orðalagið í matsgerðinni „þarf því að ýta mjög kröftuglega og ofarlega á líkama stúlkunnar” sagði Stefán B. Sigurðsson, að það hefði þurft að ýta það kröftuglega, að þyngdarpunkturinn hefði færst upp fyrir handriðið, „hann þarf sem sagt að fylgja, driftinni, það þarf að ýta og fylgja því vel eftir þannig að stúlkan halli fram yfir handriðið þannig að þyngdarpunktur hennar fari upp fyrir brún handriðsins.”
II.
Eins og fram kemur í héraðsdómi og gögnum málsins var ákærði í fyrstu tregur til að tjá sig um atburði að Engihjalla 9 í Kópavogi umræddan morgun. Hann sagði þó í annarri yfirheyrslu hjá lögreglu þremur dögum síðar, að hann hefði átt „sök á því, að stúlkan féll fram af.” Við síðari yfirheyrslur hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi lýsti ákærði því, að hann hefði hrint Áslaugu Perlu og í framhaldi þess séð hana falla niður af svölunum. Hann hafi jafnframt séð hana lenda á stéttinni fyrir neðan. Hjá lögreglu sagði ákærði, að hann hefði staðið á sama stað, þegar hann hrinti henni og sá hana falla fram af, en svo hafi hann stigið fram og séð hana lenda. Samkvæmt gögnum málsins er einn og hálfur metri frá þeim stað að svalahandriðinu. Fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði hafa talið sig eiga sök á láti stúlkunnar með því að hrinda henni, þangað til hann sá ljósmyndir hjá lögreglu 6. júní 2000, en þær sýndu stúlku af sömu hæð og hin látna við svalahandriðið. Þá hafi hann séð, að „það væri ekki hægt, mjög lítill möguleiki á því.” Hann kvaðst jafnframt vera í algjörum vafa um það, að hún hafi fallið yfir handriðið við þessa hrindingu.
Ákærði sagði fyrir lögreglu og héraðsdómi, að tilgangur sinn með því að fara með Áslaugu Perlu að Engihjalla 9 hafi verið sá að halda áfram drykkju og sofa hjá stúlkunni. Þau hafi haft samfarir á stigaganginum við svalirnar á 10. hæð með samþykki hennar, en hún hafi þó fljótlega viljað hætta þeim til að fá eiturlyf. Hann hafi þá staðið upp og úthúðað henni og ætlað að fara í burtu. Áður hafði hann rifið nærbuxur af stúlkunni og fundust þær tættar í vasa hans við handtöku. Hann gaf ekki aðra skýringu á því en að um hefði verið að ræða „harkalegt kynlíf.” Þá kemur fram í gögnum málsins, að Áslaug Perla hafi verið með 4x1 cm langan áverka aftarlega á vinstri skapabarmi, sem ekki er líklegt, að verði rakinn til falls hennar. Eins og mál þetta liggur fyrir hefur það hins vegar úrslitaþýðingu í málinu, hver voru í raun samskipti þeirra í kjölfarið.
Svo sem greinir í héraðsdómi voru smekkbuxur vafðar um ökkla og kálfa Áslaugar Perlu, þegar lík hennar fannst. Í krufningarskýrslu Gunnlaugs Geirssonar prófessors kemur fram það álit, að þær hafi verið þannig dregnar niður, er konan lenti á jörðinni, því að þær hafi fallið fremur þétt að fótleggjum hennar. Undir þetta tók Þorsteinn I. Sigfússon prófessor í áðurnefndu þinghaldi. Þá voru hliðartölur á buxunum aðhnepptar. Ljósmyndir af Áslaugu Perlu, sem teknar voru kvöldið áður, virðast gefa til kynna, að buxurnar hafi fallið nokkuð þétt að líkama hennar ofan við mjaðmir. Verður að taka undir það mat héraðsdóms, að afar ólíklegt sé, þrátt fyrir frásögn ákærða, að buxurnar hafi verið um mitti hennar, þegar hún féll fram af svölunum.
Í vörn ákærða hefur verið látið að því liggja, að Áslaug Perla hafi grandað sér, þegar ákærði hafði hrint henni frá sér á svölunum. Ekkert í gögnum málsins rennir í raun stoðum undir þessa kenningu. Ákærði sagði bæði fyrir lögreglu og dómi, að hann hefði ekki séð hana stíga upp á steypta kantinn undir handriðinu eða gera nokkuð til að koma sér sjálf yfir það. Haldlaust er að vísa til einhverra orða hennar um slíka ætlun, sem kunna að hafa fallið áður fyrr. Fyrir liggur, að hún átti í baráttu við áfengi og fíkniefni en jafnframt, að hún hafði hug á að sigrast á þeim vanda og átti vísa frekari vistun á meðferðarstofnun eftir helgina. Það er hins vegar fjarstæðukennt, að stúlkan hafi á þessum tíma og við þessar aðstæður, þegar hún var grátt leikin af ákærða, tekið afdráttarlausa ákvörðun um að ráða sér bana. Verður ekki lagt til grundvallar dómi, að svo hafi verið.
Ákærði lýsti því hjá lögreglu og fyrir dómi, að hann hefði ekkert aðhafst, eftir að hann sá Áslaugu Perlu lenda á stéttinni, heldur haldið beint til hálfsystur sinnar á jarðhæð hússins. Þar strunsaði hann inn að hennar sögn, stjarfur og með öllu ólíkur sér frá því fyrr um morguninn og lagðist þegar til svefns. Þegar lögreglumenn voru komnir á vettvang og höfðu handtekið ákærða hafði hann uppi hótanir um að vinna þeim og börnum þeirra mein, þegar hann losnaði úr fangelsi eftir 15 til 20 ár eftir þann verknað, sem hann hefði framið. Við mat á þýðingu þessa framferðis ákærða verður að líta til þeirrar staðhæfingar hans, sem að framan er rakin, að hann hafi í fyrstu talið sig eiga sök á falli stúlkunnar en síðar séð, að það væri miklum vafa bundið.
Í málflutningi fyrir Hæstarétti lagði verjandi ákærða ríka áherslu á, að hvorki ákærði né hin látna hefðu borið sérstök merki þess, að til átaka hefði komið á ögurstund samskipta þeirra. Samkvæmt krufningarskýrslu og framburði Gunnlaugs Geirssonar prófessors fyrir héraðsdómi virðast aðrir áverkar en hlutust af fallinu hafa verið óverulegir. Ekki verður þó fallist á, að þetta hafi sérstaka þýðingu í málinu. Veruleg líkindi eru fyrir því, að átök milli ákærða og stúlkunnar hafi orðið með þeim hætti, að þau hafi ekki borið þeirra sérstök merki, enda hljóta átökin þá með hliðsjón af framburði ákærða sjálfs af hafa tekið afar skamman tíma. Í því efni er þess jafnframt að gæta, að einungis einn íbúa Engihjalla 9 varð á þessum tíma var við einhver hljóð, en hann kvaðst fyrir dómi hafa heyrt einhvern hrópa eitthvað og ekkert meira og taldi það hafa verið unglingspilt að rífast við einhvern.
Fram er komið, að ákærði var 181 cm að hæð og 65 kg að þyngd. Áslaug Perla var tæplega 170 cm há, en ekki liggja fyrir skýrar upplýsingar um þyngd hennar. Samkvæmt krufningarskýrslu Gunnlaugs Geirssonar var hún grannvaxin og líkamsbygging hennar fremur fíngerð.
III.
Þegar virt eru í heild gögn málsins og sérstaklega þau atriði, sem reifuð hafa verið, þykir það vera hafið yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi banað Áslaugu Perlu Kristjónsdóttur að morgni laugardagsins 27. maí 2000 með því að koma henni fram af svölum 10. hæðar Engihjalla 9. Þau voru bæði verulega ölvuð og hefur atlaga hans að stúlkunni í kjölfar samfara, sem rofnar voru eftir hennar kröfu, og svívirðinga af hans hálfu verið snörp og aflmikil, en hún hefur ekki haft svigrúm eða getu til að verjast henni. Það er ljóst af álitsgerðum dómkvaddra matsmanna, að ákærði hefur þurft að fylgja hrindingu sinni eftir með verulegum krafti. Telja verður fullvíst, að það hafi hann einmitt gert. Í þessu sambandi ber að hafa í huga, að ákærði var einn til frásagnar um síðustu atvikin, er leiddu til dauða Áslaugar Perlu. Héraðsdómur telur, að framburður hans um þau fái ekki staðist. Í því felst það mat dómsins, að framburður hans hafi verið ótrúverðugur. Eru ekki efni til að ætla, að þetta mat á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða fyrir dómi sé rangt, svo að einhverju skipti um úrslit málsins, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 37/1994.
Ákærða hlaut að vera ljóst, að svo ofsafengin atlaga við jafn hættulegar aðstæður og raun var á myndi óhjákvæmilega leiða til dauða Áslaugar Perlu. Hefur hann því orðið sekur um háttsemi, sem er réttilega færð undir 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Fallist er á það mat héraðsdóms, að ekki sé ástæða til að efast um sakhæfi ákærða. Sakarferill hans, sem rakinn er í héraðsdómi, skiptir ekki máli við ákvörðun refsingar. Ákærði á sér engar málsbætur. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 16 ár. Rétt er, að óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 28. maí 2000 komi með fullri dagatölu til frádráttar refsingunni, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.
IV.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á, að foreldrar Áslaugar Perlu eigi báðir rétt til miskabóta samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þykja þær hæfilega ákveðnar 800.000 krónur til hvors um sig. Þá á faðir hinnar látnu jafnframt rétt á bótum vegna útfararkostnaðar, sbr. 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga. Af hálfu ákærða hafa ekki verið bornar brigður á tölulega framsetningu kröfunnar og verður hún að fullu tekin til greina með 538.670 krónum. Um vexti mælir í dómsorði.
Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ásgeir Ingi Ásgeirsson, sæti fangelsi í 16 ár og komi óslitin gæsluvarðhaldsvist hans frá 28. maí 2000 refsingu til frádráttar.
Ákærði greiði Gerði Berndsen 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. maí 2000 til 5. febrúar 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði Kristjóni Haraldssyni 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 27. maí 2000 til 5. febrúar 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði Kristjóni jafnframt 538.670 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga af 413.670 krónum frá 1. júlí 2000 til 5. febrúar 2001 en með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlends Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns Gerðar Berndsen og Kristjóns Haraldssonar, Ólafs Gústafssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. febrúar 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 24. janúar sl., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara, út gefnu 10. nóvember 2000, á hendur Ásgeiri Inga Ásgeirssyni, kt. 231176-3309, Lýsubergi 11, Ölfushreppi, „fyrir manndráp, með því að hafa að morgni laugardagsins 27. maí 2000, ýtt Áslaugu Perlu Kristjónsdóttur, kt. 040179-5429, yfir 119 sm hátt handrið á svölum á 10. hæð fjölbýlishússins við Engihjalla 9, Kópavogi, með þeim afleiðingum að hún féll fram af svölunum og lést af völdum mikilla áverka er hún hlaut er líkami hennar lenti á steinstétt við bakdyrainngang hússins.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Þá krefst Gerður Berndsen, kt. 230348-3409, þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér kr. 1.500.000 í miskabætur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. maí 2000 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst Kristjón Haraldsson, kt. 260945-4919, þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur, samtals kr. 538.670 auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 413.670 frá 1. júlí 2000 til dómsuppsögudags en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og kr. 1.000.000 í miskabætur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. maí 2000 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds og þess að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna.
Þann 8. desember 2000 fóru dómarar á vettvang ásamt sækjanda, verjanda og skipuðum réttargæslumanni foreldra hinnar látnu, ásamt stúlku sömu hæðar og hin látna var. Voru aðstæður á svölum skoðaðar. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 12. desember 2000. Þann 18. desember 2000 var málið endurupptekið skv. heimild í 131. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og dómkvaddur matsmaður, sbr. 63. gr. sömu laga. Þann 24. janúar sl. var málið endurflutt og dómtekið að nýju.
I.
1.Laugardaginn 27. maí 2000, kl. 9:27, barst lögreglunni í Kópavogi tilkynning um sjálfsvíg eða dauðsfall að Engihjalla 9, sem er tíu hæða fjölbýlishús í Kópavogi. Við komu lögreglu og sjúkraliðs á vettvang lá líkami ungrar stúlku þar á steyptri stétt sem liggur upp að bakdyrainngangi hússins. Við athugun reyndist hún vera látin. Vísaði höfuð stúlkunnar til austurs og lá hún á bakinu, þó meira á vinstri öxl. Hin látna lá nokkurn veginn þvert í gangvegi bakdyrainngangs. Virtust fætur vera illa brotnir og gengnir saman um lærleggi. Augu voru hálfopin og hafði blóð lekið úr höfði, auk þess sem talsvert blóð hafði lekið undan líkama hennar neðanverðum og var það óþornað. Við snertingu við andlit var húð volg viðkomu, engrar stirnunar var farið að gæta. Hin látna var klædd í flíspeysu að ofanverðu en að neðan í smekkbuxur úr gallaefni, sem voru girtar niður fyrir hné og lágu þær um ökkla. Læknir skoðaði hina látnu við komu sína á staðinn og úrskurðaði hana síðan látna.
Þórir Steingrímsson rannsóknarlögreglumaður fór á vettvang þennan morgun ásamt Grétari Sæmundssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni rannsóknardeildar lögreglunnar í Kópavogi og Gunnlaugi Geirssyni prófessor í réttarlækningum. Eftirfarandi kemur fram í vettvangsskýrslu Þóris frá 27. maí 2000. „Þarna er um að ræða 11 hæða fjöleignarhús sem stendur sunnan götunnnar og gengið er inn í það af götunni að norðanverðu. Fyrst er komið í forstofu, þar sem dyrasímar eru. Þaðan var gengið inní stigahúsið, eftir að íbúar höfðu hleypt viðkomandi inn í lyftuganginn. Þá blasti aðallyfta hússins við, en til hægri á bak við horn var minni lyfta hússins. Þá tók við gangur á báðar hendur. Hægt var að fara með lyftunum á nær allar hæðir, upp á 10. hæð hússins, en síðan varð að ganga upp tröppur upp á þá 11., þar sem lyftuhúsið var. Auk þess var hægt á hverri hæð að fara út á litlar svalir er snéru í suðurátt út í garð. Við nánari athugun kom í ljós að flestar svalahurðirnar, sem og sú á 10. hæð, voru ólæstar. Af öllum þessum svölum var svo hægt að fara í eldvarnar/brunastiga hússins, sem lá neðan úr kjallara og upp á 10. hæð.”
Í vettvangsskýrslunni kemur fram, að kallað var á Bjarna J. Bogason, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá ríkislögreglustjóranum, og Kristján Friðþjófsson og Ómar Pálmason, starfsmenn tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík, og hafi þeir komið á vettvang og hafið rannsóknir en skýrsluhöfundur hafi annast ljósmyndun á vettvangi. Kemur fram í skýrslunni að Gunnlaugur Geirsson prófessor taldi hina látnu hafa látist innan við einni klukkustund frá því hún fannst, enda hafi engir líkblettir verið farnir að myndst.
Við vettvangsrannsókn kom í ljós að lítið svart kvenveski lá á stigapalli eldvarnarstiga á 10. hæð hússins. Við athugun kom í ljós að það var í eigu hinnar látnu, sem reyndist vera Áslaug Perla Kristjónsdóttir, kt. 040179-5429, til heimilis að Kaplaskjósvegi 37, Reykjavík. Nokkur önnur ummerki um mannaferðir voru á stigapallinum, svo sem fótspor o.þ.h. Við mælingu gólfflatar svala reyndust þær vera 155 sm x 150 sm að stærð. Frá gólfi svalanna var lítill u.þ.b. 50 sm hár steinsteyptur veggur. U.þ.b. 15 sm fyrir ofan hann var 53 sm hátt járnhandrið, þannig að frá gólfi svalanna í efri brún handriðsins voru u.þ.b. 120 sm. Var mæld 26 metra bein lína frá efri brún handriðsins niður á stéttina þar sem hin látna fannst.
Í skýrslu Þóris er einnig greint frá því að gefið hafi sig fram við lögreglu á vettvangi Guðmundur Sigurðsson húsvörður, en hann tilkynnti um sjálfsvíg eða dauðsfall til lögreglu. Þá gáfu sig einnig fram á vettvangi Halldóra Björk Norðdahl og Eiríkur Sverrir Björnsson, sem bæði eru íbúar í húsinu.
Fyrir dómi greindi lögreglumaðurinn Ómar Þorgils Pálmason frá því, að hann hefði verið kvaddur á vettvang að Engihjalla 9 til aðstoðar lögreglunni í Kópavogi. Á vettvangi, á tíundu hæð, kvaðst hann hafa dreift þartilgerðu dufi sem setjist á húðfitu og myndi dökkt lag við snertinu við hana. Við þetta hafi svalahandriðið orðið næstum því svart sem bendi til þess að húðfitan á handriðinu hafi verið nýleg. Taldi vitnið greinilegt að bæði hafi verið för eftir hendur og beran líkama á handriðinu. Hafi sést að á miðju handriðinu hafi ber líkami strokist við handriðið. Ekki var hægt að greina eiginleg skóför á svalapalli að sögn vitnisins. Þá kunni vitnið ekki skýringu á því hvers vegna ekki náðust nothæf fingraför á vettvangi en gat sér þess til að skort hefði nauðsynlegan fjölda samanburðareinkenna til þess að hægt væri að ákvarða með fullri vissu hver hefði markað förin.
Í skýrslu Sævars Þórs Finnbogasonar aðstoðarvarðstjóra um leit á vettvangi, sem dagsett er 29. maí 2000, kemur fram að á vettvangi fannst lítið stykki sem slitnað hafði af annarri krækjunni á smekkbuxum hinnar látnu. Einnig fannst lítill krómaður prjónn sem virtist vera hluti af eyrnalokki. Kemur fram í skýrslunni að talið sé að munirnir hafi skolast niður stéttina er hún var þrifin með öflugri brunaslöngu eftir að hin látna hafði verið flutt í líkhús.
Krufning var framkvæmd á hinni látnu þann 28. maí 2000. Í krufningarskýrslu Gunnlaugs Geirssonar prófessors er lýst ítarlega þeim miklu áverkum er voru á líkinu. Í lokaniðurstöðu prófessorsins segir: „Álykta má að stúlkan hafi fallið úr mikilli hæð og var hún lifandi í fallinu enda þótt ekki verði sagt til um meðvitundarástand hennar þá. Hún lést af völdum hinna miklu áverka, sem hún hlaut er líkami hennar lenti á steinstéttinni þar sem hún fannst. Hún var með marbletti á líkama, sem voru eldri en áverkar þeir, sem hún hlaut við fallið en þeir voru lítilfjörlegir og ekki sértækir útlits að hafa stafað af átökum eða barsmíð. Nýleg afrifa fannst á ytri kynfærum, sem ekki er ljóst hvernig var til komin, en ekki er líklegt að hafi orðið við fallið. Einnig sást lítill marblettur vinstra megin á enni, sem ekki er að sjá að hafi orðið til við fallið. Hins vegar voru mjög miklir áverkar á höfði aftantil og vinstra megin eftir ákomu fallsins, sem gera ókleift að meta hvort þar hafi verið áverkar fyrir. Blóð rann úr sárum á höfði, vinstri öxl og vinstri síðu og við komu réttarlæknis á vettvang um kl. 10:15 þann 27.05.2000, var það enn fljótandi og rann undan hallanum þannig að álykta má að ekki hafi liðið langur tími frá því að hún féll og þar til hún fannst. Af blóðtaumum frá sárum þykir sýnt að legu líkamans hafi ekki verið raskað eftir fallið og þar til komið var á vettvang. Í vinstri olnbogabót voru teikn um stunguför og í lungum voru merki þess að hún hafi neytt lyfja með innspýtingu í æð. Í þvagi var vottur af metamfetamíni og merki þess að hún hafi tekið díazepamlyf nokkrum dögum áður en hún lést. Ekki var að finna smit af lifrabólgu né eyðni. Þegar opnað var inn í hálsvef sáust ekki ummerki, sem bentu til kyrkingar. Vísað er til skýrslu um niðurstöður DNA-rannsókna í máli þessu, sem gætu bent til þess að konan hafi orðið fyrir kynferðislegri valdbeitingu. Enda þótt málsatvik geti bent til þess að konan hafi ekki farið fram af svölunum af eignin rammleik liggja ekki fyrir afdráttarlaus, réttarlæknisfræðileg rök, sem taki af skarið með hvaða hætti það gerðist.”
Í niðurstöðum skýrslu Rettsmedisinsk Institutt, Oslo, kemur fram að ekki hafi fundist sæðisfrumur í sýnum sem tekin voru frá Áslaugu Perlu og ekki hafi verið unnt að sýna fram á sæðisvökva í sýnunum með öðrum rannsóknaraðferðum. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að við rannsókn á frumum af bómullarpinnum, sem komu frá yfirborði getnaðarlims ákærða greindist DNA-snið, sem kemur heim við DNA-snið Áslaugar Perlu. Í ályktun Gunnlaugs Geirssonar prófessors, sem dregnar eru af niðurstöðum skýrslunnar, kemur fram að niðurstöður hennar bendi til þess að ákærði og Áslaug Perla hafi haft kynmök án þess þó að ákærða hafi orðið sáðfall.
Í matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents kemur fram að niðurstöður rannsóknar hans á sýnum sem tekin voru úr þvagi og blóði hinnar látnu sýni að Etanól í blóði hafi verið 1,82 og 2,41 í þvagi. Amfetamín, kannabínóíðar, kókaín/benzóýlekgónín eða morfínlyf hafi ekki verið í mælanlegu magni í þvagi. Hin látna hafi því verið ölvuð er hún lést. Vottur af metamfetamíni í þvagi bendi til þess að konan hafi neytt metamfetamíns. Þar sem það var þó ekki í mælanlegu magni í blóði er það niðurstaða Jakobs að hann telur nokkurn tíma hafa liðið frá neyslu efnisins eða þess hafi verið neytt í litlu magni.
2.Vitnin Einar Már Kristjánsson fæddur 1975, Alda Guðjónsdóttir, fædd 1980, Inga Dóra Sigurðardóttir, fædd 1979, Árni Hafsteinsson, fæddur 1973, og Páll Árnason, fæddur 1974, lýsa atburðum aðfaranætur laugardagsins 27. maí með eftirfarandi hætti:
Vitnið Einar Már Kristjánsson segist hafa kynnst Áslaugu Perlu í nóvember 1994 og hafi þau haldið góðu sambandi síðan og verið miklir vinir. Vitnið kveður Áslaugu Perlu hafa hringt í sig að kvöldi 26. maí sl., um kl 22:30, og hafi hann hitt hana á Neshaga þar sem hún var á leiðinni heim til hans að Hjarðarhaga 56. Hafi hún komið upp í bílinn til hans og þau farið heim til hans og verið komin þangað um kl. 22:45. Hafi þau verið tvö ein heima hjá honum allan tímann sem hún dvaldist hjá honum. Greindi vitnið frá fatnaði Áslaugar Perlu og frá því að hún hefði sýnt honum ný nærföt sem hún var í og hafi þau verið blá, nærbuxur og brjóstahaldari í stíl. Greindi vitnið frá því að Áslaug hafi verið „edrú” þegar þau hittust en drukkið þrjár blöndur af vodka og þrjá bjóra heima hjá vitninu. Einnig hafi hún sprautað sig með hvítu uppleystu dufti sem hún hafi sagt vera amfetamín. Kvað vitnið hafa legið mjög vel á henni og hafi hún virst hress og glöð. Vitnið tók tvær ljósmyndir af Áslaugu Perlu þetta kvöld og eru þær meðal rannsóknargagna málsins. Greindi vitnið frá því að hann hafi ekið Áslaugu Perlu til Öldu vinkonu hennar um kl 01:00 - 02:00.
Vitnið Inga Dóra Sigurðardóttir kveðst hafa verið að vinna á veitingahúsinu La Primavera í Austurstræti og hafi hún lokið vinnu um kl. 01:00. Hafi þá áður verið ákveðið að hún færi út að skemmta sér með með Öldu Guðjónsdóttur og Árna Hafsteinssyni, sem sé vinur Öldu. Ákveðið hafi verið að þau hittu hana á La Primavera. Kveðst vitnið hafa hringt heim til Öldu um kvöldið og hafi Áslaug Perla þá verið komin heim til hennar.
Vitnið Alda Guðjónsdóttir kvaðst hafa þekkt Áslaugu Perlu í nokkra mánuði og hafi þær verið góðar vinkonur þann tíma. Umrætt kvöld hafi þær ákveðið að Áslaug Perla kæmi til hennar. Þegar Áslaug Perla kom, um kl. 01:00, hafi vinur hennar Árni Hafsteinsson verið hjá henni. Áslaug Perla hafi komið með vodkapela og hafi þau öll drukkið af honum. Einnig hafi vitnið séð þegar Áslaug Perla sprautaði sig í olnbogabót vinstri handar, að hana minnti. Efnið hafi hún komið með í sprautu og taldi vitnið að um væri að ræða amfetamín. Áslaug Perla hafi þó lítið breyst eftir sprautuna og talað um að efnið væri drasl. Aðspurð um fatnað Áslaugar Perlu greindi vitnið frá því að hún hefði verið í strigaskóm, smekkbuxum úr gallaefni, ljósum bol og þar utanyfir í renndri dökkblárri hettupeysu. Einnig kvaðst vitnið hafa séð nærbuxur Áslaugar, þegar hún sýndi þeim mar eftir spark sem hún hafði fengið á hægra læri. Þetta hafi verið bláar blúndunærbuxur. Fatnaði Áslaugar Perlu var lýst á sama hátt af vitninu Ingu Dóru Sigurðardóttur nema hvað vitnið telur nærbuxur Áslaugar Perlu hafa verið hvítar með blúndu. Vitnið Árni Hafsteinsson bar nokkuð á sama veg um fatnað Áslaugar Perlu en bætti því við, að hann hafi tvisvar séð nærbuxur Áslaugar Perlu þetta kvöld. Áslaug Perla hafi girt niður um sig smekkbuxurnar til að sýna þeim marblett þar sem strákur hafði sparkað í hana fyrr um kvöldið. Hún hafi einnig sýnt þeim nærbuxurnar á Hofsvallagötu og spurt hvort þær væru ekki flottar. Virtist vitninu sem Áslaug Perla væri mjög ánægð með þessar nærbuxur. Taldi vitnið að nærbuxurnar hefðu verið litlar og sennilega hvítar með rauðu í.
Bera vitni á sama veg um atburðarás kvöldsins eftir þetta og lýsir vitnið Inga Dóra Sigurðardóttir atburðarásinni á eftirfarandi hátt: Vitnið kveðst hafa gengið á móti Öldu, Áslaugu Perlu og Árna og hafi þau hist á Hofsvallagötu. Hafi þau síðan setið þar á bekk í talsverðan tíma. Alda, Áslaug Perla og Árni hafi verið búin að drekka eitthvað þegar þau komu, en þau hafi öll drukkið bjór. Síðan hafi þau gengið niður í miðbæ. Þau hafi fyrst farið inn á veitingahúsið Kaffi Austurstræti en staldrað þar við skamma stund. Áslaug Perla hafi þó keypt sér einn bjór þar inni sem þau hafi drukkið saman. Því næst hafi þau farið á veitingahúsið Bláa Engilinn, sem sé þar við hliðina, en verið örstutt þar inni og ekki drukkið neitt. Því næst hafi þau rölt um miðbæinn og hafi Áslaug Perla sest þar á bekk. Þau hafi síðan ákveðið að rölta áfram og reynt að fá Áslaugu Perlu með sér en hún hafi ekki viljað koma. Taldi vitnið Áslaugu hafa verið talsvert drukkna. Þau þrjú hafi því skilið Áslaugu Perlu eftir og gengið „einn hring” en þegar þau komu aftur hafi Áslaug Perla verið á sama stað. Áslaug Perla hafi þá sagt þeim, að hún hafi verið að rífast við strák sem kallaður sé Eyjó og hafi hann sparkað í mjöðmina á henni. Hafi Áslaug Perla sagt að Eyjó væri gamall vinur hennar. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hann. Því næst hafi þau gengið áfram og hafi Áslaug Perla komið með. Því næst hafi þau staðnæmst fyrir framan Hlöllabáta og þar hafi Áslaug Perla rætt við einhverja stráka, sem vitnið kvaðst ekki hafa kannast við. Taldi vitnið að Áslaug Perla hafi ekki þekkt þá. Kvaðst vitnið því næst hafa farið á salernið ásamt Öldu og Árna og hafi þau rætt um það við Áslauga að þau hittust á veitingahúsinu Glaumbar. Þau hafi því næst gengið að Glaumbar og hitt Áslaugu Perlu í biðröðinni. Þegar inn var komið hafi Áslaug sest hjá einhverju fólki en þau hin hafi sest annars staðar. Kveðst vitnið ekki hafa séð Áslaugu Perlu eftir þetta og hafi hún farið heim um kl. 05:00 en Alda og Árni hafi þá enn verið inni á Glaumbar. Greindi vitnið frá því að Áslaug hafi virst eðlileg og kát þetta kvöld. Hún hafi þó verið nokkuð niðurdregin eftir að sparkað var í hana en hafi þó fljótt jafnað sig. Vitnið Alda Guðjónsdóttir kvaðst hafa yfirgefið Glaumbar ásamt Árna um kl. 5:30 og hafi Áslaug orðið þar eftir.
Vitnið Karl Axel Kristjánsson, fæddur 1978, kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa verið að vinna aðfaranótt laugardagsins 27. maí. Hann hafi farið í bæinn eftir vinnu og komið á Glaumbar um kl. 05:00. Hafi hann séð Áslaugu Perlu þar og tekið eftir því að hún var í mikilli vímu og hafi hann talið að um væri að ræða bæði áfengis- og fíkniefnavímu. Eftir að út var komið, um kl. 07:00-07:30, hafi hann reynt að passa upp á hana en hún hafi greinilega verið að reyna að komast í „partý” og nánast gengið manna á milli og spurt hvort þeir ættu vímuefni eða vissu um „partý.” Hann hafi reynt að telja hana á að fara heim en hún hafi ekki viljað það og talað um að þetta væri síðasti dagurinn, þar sem hún færi í meðferð á mánudeginum. Fyrir framan skemmtistaðinn Píanóbarinn hafi hann og Áslaug Perla rekist á strák sem hann hafði aldrei séð áður. Kvaðst vitnið ekki geta lýst honum að öðru leyti en því, að hann hafi verið mjög húðflúraður á handleggjum og klæddur stuttermabol að ofanverðu. Þau Áslaug Perla hafi einnig talað við par sem þau hittu. Hafi þau meðal annars rætt eitthvað um húðflúr og svo hafi virst sem Áslaug Perla hrifist af þeim. Hafi strákurinn með húðflúrið talað um að hann vissi ekki um neitt „partý.” Hann og Áslaug Perla hafi þá gengið áfram austur Hafnarstræti en á horninu við Pósthússtræti hafi leiðir þeirra skilið. Þá hafi parið og stákurinn með húðflúrið verið komin aftur. Hafi Áslaug Perla tekið þetta fólk aftur tali og sagt á eftir að hún ætlaði í samkvæmi með þeim. Hann hafi gengið áfram í átt að veitingastaðnum Kaffi Thomsen. Þegar hann var kominn nokkuð áleiðis hafi Áslaug Perla kallað á eftir honum að henni þætti „rosalega” vænt um hann og væri alls ekki sama um hann. Þetta hafi hún kallað nokkrum sinnum og hann hafi svarað á sömu lund. Kveður vitnið sig hafa staldrað við fyrir utan Kaffi Thomsen í u.þ.b. 15 mínútur en þá gengið til baka og hafi Áslaug Perla þá enn verið á sama stað. Hafi hann þá tekið utan um Áslaugu og beðið hana að koma með sér heim en hún hafi alls ekki viljað fara heldur ætlað sér í „partý.” Hafi hún talað um að hún væri sjúk og að allt myndi lagast þegar hún kæmi úr meðferð. Kvaðst vitnið hafa skilið við hana þarna og hafi hann verið kominn heim til sín vestur á Hagamel um kl. 8.
Vitnið Páll Árnason, fæddur 1974, kvaðst vera gamall vinur Áslaugar Perlu. Slitnað hafi upp úr sambandi þeirra um nokkurn tíma en þau hafi verið að taka upp þráðinn á ný. Fyrir dómi greindi vitnið frá því að Áslaug Perla hafi hringt til hans um kl. 01:00 aðfaranótt laugardagsins 27. maí 2000. Hún hafi þá verið stödd hjá Öldu, vinkonu hennar, og sagt honum að hún ætlaði út að skemmta sér. Kvaðst vitnið hafa ráðið henni frá því þar sem hann hafi vitað að hún var byrjuð aftur neyslu vímuefna eftir að hafa farið í meðferð hjá SÁÁ. Hún hafi hins vegar verið glöð og hress og talað um að hún væri að fara í framhaldsmeðferð eftir helgina.
Fyrir dóminn kom Hallgrímur Sveinn Sævarsson, fæddur 1975. Kvaðst vitnið hafa kannast við hina látnu. Hafi kunningsskapur hans við hana þó eingöngu verið fyrir tilstilli sameiginlegs vinar þeirra, Harðar Hákonar Jónssonar. Greindi vitnið frá því, að hann hefði orðið vitni að því er Áslaug Perla hótaði því að svipta sig lífi með því að stökkva fram af svölum ef hún fengi ekki fíkniefni hjá Herði Hákoni. Þessi hótun hennar hefði beinst að Herði og hafi átt sér stað í samtali milli Áslaugar og Harðar í febrúar 2000. Greindi vitnið frá því að hann teldi að hin látna hefði oftsinnis hótað því að svipta sig lífi. Hefði hún í því sambandi sent Herði Hákoni smáskilaboð, hótað því beint í samtölum við hann og eins og að framan greinir hótað því í gegnum síma.
Vitnið Hörður Hákon Jónsson, fæddur 1976, greindi frá því fyrir dómi, að hann og hin látna hefðu verið góðir vinir síðastliðin sex ár. Milli þeirra hafi verið gott vinasamband. Þau hafi bæði verið í neyslu fíkniefna og oft á tíðum hafi þau neytt þeirra saman. Hafi hann stundum útvegað henni efni. Aðspurður taldi vitnið neysluna ekki hafa haft góð áhrif á geðheilsu Áslaugar Perlu og hafi hún verið orðin þreytt á neyslunni og viljað hætta. Kvaðst vitnið hafa hitt Áslaugu Perlu kvöldið sem hún kom af Vogi. Hún hafi þá verið í tilfinningalegu ójafnvægi og þá þegar búin að neyta áfengis. Áslaug Perla hafi þó verið sátt við meðferðina og viljað fara aftur. Vitnið kannaðist ekki við að Áslaug Perla hefði haft uppi fjölmargar hótanir um að svipta sig lífi. Mundi vitnið aðeins eftir einu tilviki í því sambandi og kvað það hafa verið í febrúar 2000. Þá hafi Áslaug Perla sent honum sjálfsmorðshótun í smáskilaboðum og sagt að hún ætlaði að stytta sér aldur með því að stökkva fram af efstu hæð í fjölbýlishúsinu þar sem hún bjó ásamt móður sinni. Taldi vitnið að hann hafi aðeins sagt vitninu Hallgrími Sveini frá einu slíku atviki og kvaðst hann ekki muna til þess að um fleiri slíkar hótanir hefði verið að ræða. Greindi vitnið frá því að hann hefði, eftir andlát Áslaugar Perlu, farið í meðferð og hafi hann haldið sér frá neyslu vímuefna síðan.
Í framburði Gunnlaugs R. Magnússonar leigubifreiðastjóra, fæddum 1958, kemur fram, að hann hafð flutt pilt og stúlku að Engihjalla 9 í Kópavogi, um kl. 08:45 að morgni laugardagsins 27. maí 2000. Kvað hann fólk þetta hafa gefið upp nöfnin Áslaug Perla Kristjónsdóttir og Ásgeir Ingi Ásgeirsson. Þau hafi ekki getað greitt áfallið ökugjald og því hafi þau skrifað undir skuldaviðurkenningu. Fólk þetta kvaðst vitnið hafa tekið upp í bifreið sína fyrir utan Kaffi Thomsen klukkan rúmlega 8. Hafi þau aðeins verið tvö og kvaðst vitnið hafa ekið með þau sem leið lá að Háaleitisapóteki, þar sem pilturinn hafi farið inní apótekið og keypt sprautunálar. Er hann kom til baka í bifreiðina hafi stúlkan skammast yfir því að hann skyldi ekki hafa keypt sprautur og hún því farið inn í apótekið þeirra erinda. Lýsti vitnið því að þau hafi setið aftast í bifreiðinni, sem hefur þrjár sætaraðir, og því hafi hann ekki heyrt allt sem þeim fór í milli. Þó hafi hann heyrt að þau ræddu um sprauturnar sem þau höfðu keypt og um fíkniefni. Aðspurður um samskipti milli þeirra á leiðinni sagði vitnið í lögregluskýrslu að ekkert „kelerí” hefði verið milli þeirra en þau hafi haldið hvort utan um annað. Fyrir dómi greindi vitnið hins vegar svo frá að eitthvert „kelerí” hafi verið á milli þeirra, „kossar og eitthvað.” Leiðin hafi síðan legið að Engihjalla 9. Pilturinn hafi farið þar út úr bifreiðinni og sagt að hann ætlaði að sækja peninga fyrir ökugjaldinu til systur sinnar sem væri búsett í húsinu. Stúlkan hafi hins vegar beðið í bílnum á meðan. Hafi hún haft á orði að hún þekkti piltinn ekkert og hefði verið að kynnast honum. Á meðan hún beið eftir því að pilturinn kæmi aftur hafi hún rætt við vitnið og sagt honum frá því að hún væri nýkomin úr meðferð og að hún hafi strax fallið aftur. Hafi hún m.a. rætt um samband sitt við foreldra sína. Hún hafi þó ekki verið æst þegar hún skýrði honum frá högum sínum. Eftir stutta stund hafi pilturinn komið aftur og sagt að honum hefði ekki tekist að fá peninga hjá systur sinni og því hafi fyrrnefnd skuldaviðurkenning verið útfyllt. Greindi vitnið svo frá að þau hafi bæði verið í annarlegu ástandi og undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. Sagði vitnið að hann hafi talið nokkuð ljóst að tilgangur þeirra hefði verið að fara og sprauta sig og neyta vímuefna.
3.Í frumskýrslu Sævars Þ. Finnbogasonar aðstoðarvarðstjóra frá 27. maí 2000 er haft eftir vitninu Halldóru Björk Norðdahl, fæddri 1973, hálfsystur ákærða, að ákærði hafi hringt dyrabjöllu íbúðar hennar um kl. 8 um morguninn og beðist gistingar fyrir sig og vinkonu sína. Því hafi verið synjað og hafi ákærði þá farið en komið aftur um klukkustund síðar og þá verið talsvert ölvaður. Fyrir dómi bar vitnið að ákærði hefði komið um 08:40 í fyrra skiptið og hafi hann þá ekki virst drukkinn að ráði og verið kurteis. Í frumskýrslu lögreglu greindi vitnið frá því að hún hafi opnað dyrnar að íbúðinni og hefði ákærði þá ruðst inn framhjá henni. Hefði hann litið niður fyrir sig og gníst tönnum. Hún hafi leyft honum að fara inn í herbergi og hafi hann lagst þar til svefns. Haft var eftir vitninu að hún hefði aldrei áður séð ákærða í slíku ástandi. Ákærði hafi verið í allt öðru ástandi er hann kom í síðara skiptið. Hann hafi þá verið mjög æstur og sýnt af sér undarlega hegðun. Fyrir dómi bar vitnið að ákærði hefði komið með talsverðum látum og hafi hún haft í hyggju að skamma hann en henni hafi ekki gefist tími til þess.
Vitnið Eiríkur Sverrir Björnsson, fæddur 1973, sambýlismaður vitnisins Halldóru, staðfesti að ákærði hefði komið með talsverðum látum til þeirra þennan morgun er hann kom í seinna sinnið. Hafi hann komið með vínflösku með sér sem Halldóra hefði tekið af honum, en ákærði hafi farið rakleiðis inn í herbergi að sofa. Sjálfur hafi hann ekki séð ákærða þegar hann kom í seinna skiptið en Halldóra hafi sagt honum frá andlegu ástandi ákærða og staðfesti hann frásögn hennar eins og henni er hér lýst.
Vitnið Sigurbjörn H. Jakobsson, fæddur 1963, kom fyrir dóm, en hann er íbúi í íbúð 9b að Engihjalla 9, sem snýr í suð-vestur. Kom fram hjá vitninu að hann hafi vaknað um morguninn, sennilega um kl. 9:15, við eitthvert hróp. Kvaðst vitnið aðeins hafa greint eina rödd og hafi hún líkst unglingsrödd en ekki kvaðst vitnið hafa getað greint með fullri vissu hvað var hrópað.
Vitnið Gísli Jóhannsson, fæddur 1970, kom fyrir dóminn. Greindi vitnið frá því að um kl. 9 umræddan morgun hafi hann orðið var við að eitthvað féll í jörðina með talsverðum hvin utan við stofugluggann. Hafi hann ætlað að athuga þetta nánar en síðan gleymt því. Kvaðst vitnið ekki hafa heyrt nein hróp eða öskur þessu samfara.
4.Eftir að leyfi hafði fengist hjá vitnunum Halldóru Björk Norðdahl og Eiríki Sverri Björnssyni fór lögreglan inn í íbúð þeirra og handtók ákærða þar sem hann lá sofandi í barnaherbergi. Er greint svo frá í frumskýrslu lögreglu að ákærði hafi sýnilega verið undir talsverðum áhrifum áfengis og/eða annarra vímuefna. Í matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents, kemur fram að Etanól í blóði hafi verið 1,49 en í þvagi 2,46. Ekki hafi fundust merki um önnur vímuefni. Í frumskýrslu lögreglu er einnig greint frá því að ákærði hafi brugðist illa við afskiptum lögreglu er hún kunngerði honum að hann væri handtekinn vegna gruns um aðild að andláti ungrar stúlku. Því hafi orðið að halda honum í föstum tökum er hann var færður í lögreglubifreiðina sem flutti hann á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til töku blóð- og þvagsýna. Á leiðinni í lögreglubifreiðinni hafi ákærði haft í hótunum við lögreglumennina í lögreglubifreiðinni og m.a. sagt að hann skyldi vinna lögreglumönnunum og börnum þeirra mein þegar hann losnaði úr fangelsi eftir 10-15 ár vegna þess verknaðar sem hann hefði framið.
Í frumskýrslu lögreglu segir ennfremur að á skoðunarstofu neyðarmóttöku þar sem ákærði var vaktaður meðan verið var að vinna að því að fá lækni til að framkvæma réttarfarslega rannsókn á honum hafi ákærði, um kl. 11:50, skyndilega tekið upp á því að blístra eins og hann væri að líkja eftir því að einhver væri að falla úr mikillri hæð niður á harðan flöt. Þetta hafi ákærði síðan endurtekið um kl. 13:05 í fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu í Reykjavík. Einnig hafi ákærði gert sig líklegan til að ráðast á þeldökka ræstingakonu og veist að henni með orðununum „farðu til helvítis svertingjatussan þín” og hefðu lögreglumenn þurft að koma í veg fyrir að ákærði réðist á hana. Lögreglumennirnir og vitnin Þórður Halldórsson, Sigrún K. Jónasdóttir, Sævar Þ. Finnbogason, Bogi Sigvaldason og Páll Egill Winkel, sem voru öll viðstödd handtöku og flutning ákærða, komu fyrir dóm. Fyrir dómi staðfestu þau í öllum megindráttum lýsingu þá er fram kemur í frumskýrslu lögreglu.
Í framburði lögreglumannanna Þórðar Halldórssonar og Sigrúnar K. Jónasdóttur kemur fram að ákærði hafi verið rólegur fyrst eftir að hann var vakinn og honum kynnt að hann væri „handtekinn, grunaður um aðild að andláti ungrar stúlku.” Ákærði hafi síðan verið handjárnaður og beðinn að fylgja lögreglumönnum út í lögreglubíl. Við það hafi ákærði orðið æstur og sýnt mótþróa. Því hafi verið tekið undir báðar hendur ákærða og hann færður í járnum í lögreglubifreiðina þar sem hann hafi verið látinn sitja á bekk. Ákærði hafi fljótlega farið að brjótast um og því hafi hann verið lagður á magann á gólf bifreiðarinnar. Ákærði hafi þá haft uppi fyrrgreinda hótun um að drepa viðstadda og börn þeirra þegar hann kæmi úr fangelsi eftir 10-15 ár vegna þess verknaðar sem hann hefði framið. Vitnin lýstu blístri ákærða með sama hætti og að framan greinir.
Vitnin Páll Egill Winkel og Sigrún K. Jónasdóttir báru og fyrir dómi að ákærði hefði hvatt lögreglumenn til að taka harkalega á sér þar sem áverkar á honum gætu dregið eitt ár frá dómi hans.
Vitnið Þórður Halldórsson bar, að ákærði hefði verið klóraður við handtöku og hafi verið með blóðkögglað sár bakvið eyrað og klóraður á hálsi. Vitnið treysti sér þó ekki til að fullyrða hvort ákærði hefði verið með önnur sár eða klór, utan gamalla brunasára sem ákærði hafi verið með á handleggjum. Aðspurður taldi vitnið að ákærði hafi ekki fengið neina áverka við handtöku en gat þó ekki útilokað að svo hefði verið. Vitnið Sigrún greindi frá því að ákærði hefði rekið ennið í þegar hann var færður af bekk bifreiðarinnar á dúkalagt gólf hennar. Vitnið gat ekki fullyrt að ákærði hefði ekki getað fengið skrámur eða áverka við handtöku.
Lögreglumennirnir Sævar Þ. Finnbogason og Bogi Sigvaldason báru á svipaða lund og að framan er rakið og staðfestu lögregluskýrslur sínar fyrir dómi.
5.Í vottorði Helga Guðbergssonar læknis, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, er greint frá eftirfarandi áverkamerkjum sem læknirinn telur geta verið nokkurra klukkustunda gömul og gætu samrýmst átökum við annan einstakling:
1. Lóðrétt 2-3 cm rispa á lend, ofan og eilítið aftan við hægri mjaðmarspaða.
2. Þrjár stuttar rispur og mar framan á hálsi.
3. Smárispa vinstra megin á hálsi.
4. Bogadregin 3-4 cm löng rispa á hægri vanga. Neðan við þessa rispu eru tveir storknaðir blóðdropar.
5. Smárispa á vinstri þumli við handarbak.
Aðspurður kvaðst vitnið ekki geta útilokað að ofangreindir áverkar stöfuðu frá harðræði við handtöku ákærða.
II.
Ákærði Ásgeir var eins og áður sagði handtekinn að morgni laugardagsins 27. maí 2000. Í framhaldi af því var ákærði oftsinnis yfirheyrður af lögreglu. Verður nú gerð grein fyrir framburði hans við rannsókn málsins.
1.Við skýrslutöku lögreglu þann 27. maí sl. neitaði ákærði að tjá sig um málið. Þann 30. maí sl. var aftur tekin skýrsla af ákærða. Óskaði ákærði fremur eftir því að vera spurður beint í stað þess að hann tjáði sig sjálfstætt. Ákærði kannaðist við að hafa komið með stúlku í leigubifreið að Engihjalla 9 að morgni 27. maí sl. Kvaðst ákærði hafa hringt dyrabjöllu á íbúð systur sinnar til þess að komast inn í húsið. Aðspurður hvort hann gæti rifjað sjálfstætt upp hvað þau hafi gert eftir að komið var inn í húsið kvaðst ákærði ekki geta það. Er ákærða var sýnd mynd af hinni látnu jánkaði ákærði því að þetta væri stúlkan sem farið hefði með honum inn í húsið. Er ákærða var gerð grein fyrir að fyrir lægi að stúlkan hefði látið lífið við fallið niður á stéttina fyrir aftan húsið kvaðst hann ekki geta skýrt hvernig það gerðist. Ákærði var spurður hvort hann hefði verið nærstaddur þegar stúlkan féll niður og játaði hann því. Hann var spurður hvort komið hefði til átaka milli hans og hinnar látnu áður en hún féll niður. Ákærði kvaðst ekki vilja svara þeirri spurningu. Ákærði var spurður hver tilgangurinn hefði verið með ferð þeirra að Engihjalla 9. Hann kvaðst ekki vilja svara því. Gert var hlé á yfirheyrslu yfir ákærða frá kl. 14:53 - 15:06. Eftir að ákærði hafði rætt einslega við verjanda sinn var hann aftur spurður hvort komið hefði til átaka milli hans og hinnar látnu áður en hún féll niður. Ítrekaði ákærði að hann vildi hvorki svara þessari spurningu né því hver hefði verið tilgangur fararinnar að Engihjalla 9. Vildi ákærði hvorki segja hvers vegna þetta gerðist né hvernig það gerðist, en hann ætti sök á því að stúlkan féll fram af. Að svo búnu óskaði ákærði eftir því að tjá sig ekki frekar um málið.
Þann 1. júní sl. var aftur tekin skýrsla af ákærða. Kom þá fram hjá ákærða, að hann hefði komið til Reykjavíkur milli klukkan 22 og 23:30 föstudagskvöldið 26. maí sl. Hafi hann drukkið bjór, viskí og landa allan tímann, en ekki notað önnur vímuefni. Ákærði mundi ekki hvað honum og hinni látnu fór í milli. Hann kvað stúlkuna bersýnilega hafa verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, en þau hafi einungis neytt áfengis eftir að hann hitti hana. Aðspurður kvað ákærði för þeirra í apótek hafa verið að ósk hennar og hafi tilgangurinn verið að kaupa sprautur. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með nein fíkniefni, en kvaðst ekki vita hvort hin látna var með fíkniefni til að sprauta sig. Samskiptum sínum við systur sína og mág lýsti ákærði á þann veg, að hann hefði komið þangað og spurt hvort þau mættu sofa þar en systir hans hafi svarað því til að hann mætti það en hún ekki. Ákærði var spurður hvert hann hefði farið eftir að hann hafði talað við þau tvö. Hann kvaðst ekki muna það. Hann hafi bara farið út. Ákærða var bent á að fram hefði komið að eftir að hann ræddi við systur sína og mág hafi dyrasíma þeirra verið hringt. Hann var spurður hvort hann hefði verið þar á ferð. Kannaðist ákærði þá við að það hefði verið hann. Ákærði sagði að hann og hin látna hefðu farið í lyftuna eftir að þau komu inn að Engihjalla 9. Hafi þau drukkið eitthvað af landa sem hann hefði haft meðferðis. Ákærði var spurður um nærbuxur sem fundust í buxnavasa hans við handtöku. Kvaðst ákærði kannast við að þær hafi verið í eigu hinnar látnu. Ákærði var beðinn um skýringu á því að nærbuxurnar voru rifnar. Svaraði ákærði því til að hann hefði rifið þær. Aðspurður hvernig það gerðist svaraði ákærði: „Það er bara eitt orð yfir það, harkalegt kynlíf.” Inntur eftir hvort hann ætti við að um kynmök hafi verið að ræða svaraði ákærði „að það hafi bara verið eitthvað smá” og með samþykki Áslaugar Perlu. Kom fram hjá ákærða að hann kynni ekki skýringu á því að smella á axlarbandi á smekkbuxum hinnar látnu var brotin. Sagði ákærði að kynmökin hefðu átt sér stað einhversstaðar í stigaganginum. Nánar aðspurður um kynmökin sagði ákærði að hann hafi komið getnaðarlim sínum inn í kynfæri hennar, en honum hafi ekki orðið sáðlát. Ákærði kvað stúlkuna hafa viljað hætta samförunum til þess að fara og fá að sprauta sig og hafi hann þá sagt henni að eiga sig. Er hann var spurður með hvaða hætti hin látna hafi farið fram af handriðinu svaraði ákærði að hann hafi hrint henni. Aðspurður hvort hann gæti lýst því nánar kvaðst hann hafa verið að fara þegar Áslaug Perla kom og æsti sig og hafi hann þá hrint henni. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hann gerði eftir þetta. Hann kvaðst hafa verið á svölunum þegar hann hrinti hinni látnu. Ákærði var spurður hver hafi verið tilgangur hans með því að hrinda Áslaugu Perlu í átt að handriðinu. Ákærði svaraði því til að tilgangurinn hefði verið að hrinda henni frá sér, en ekki að skaða hana. Ákærði kvað stúlkuna hafa snúið frá honum með brjóstið að svalahandriðinu þegar hún fór fram af.
Skýrsla var aftur tekin af ákærða 6. júní sl. Var framburður hans þá mjög á sama veg og áður. Ákærði var spurður hvort hann hafi litið eftir stúlkunni eða kannað ástand hennar eftir að hún féll fram af svölunum. Hann kvaðst ekki vita það. Þegar ákærði var spurður nánar um hvort hann hefði athugað með stúlkuna, þ.e. hvort hún væri látin, kvaðst hann hafa séð hana lenda og hafi hann talið að það væri nóg.
Í skýrslu ákærða hjá lögreglu 21. júní sl. var hann inntur eftir því hvort hann gæti skýrt áverka sem voru á honum og greint er frá í skýrslu Helga Guðbergssonar læknis frá 27. maí 2000. Ákærði kvað sig ekki reka minni til að hafa orðið fyrir neinum áverkum og kvaðst ekki geta sagt til um hvernig þeir væru til komnir. Hann var spurður hvort einhver átök hefðu átt sér stað milli hans og hinnar látnu sem skýrt gætu áverka á honum. Ákærði kvað þá hafa getað komið til þegar samræðið átti sér stað, en hann vissi það þó ekki. Kvaðst hann ekki hafa vitað á hvaða hæð hann var umræddan morgun. Hann hafi farið upp með lyftunni og vitað að hann var ekki á fyrstu eða annarri hæð.
Síðasta framburðarskýrslan var tekin af ákærða var tekin 4. október sl. Var ákærði þá aftur spurður hver tilgangur hans hafi verið þegar hann fór með hina látnu að Engihjalla 9. Svar ákærða var að hann vissi það ekki, en hann bætti því við að sjálfsagt hafi tilgangur hans verið sá sami og flestra stráka sem fara heim með stelpur. Ákærði mundi ekki hvenær hann fékk áverka þá sem greint er frá í vottorði læknis. Í þessari skýrslu lýsti ákærði atburðarásinni á svölunum með eftirfarandi orðum: „Ég horfði á hana fara fram af handriðinu og svo þegar hún lenti. Ég horfði ekki á eftir henni falla alla leið niður. Ég stóð á sama stað og ég hrinti henni þegar ég sá hana falla fram af, en svo steig ég fram og sá hana lenda.”
2.Fyrir dómi greindi ákærði frá atburðum 27. maí 2000 á þá leið, að umrætt kvöld hafi honum verið ekið frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur af systur hans og vinkonu hennar og hafi hann farið til Ingimars kunningja síns og náð sér þar í skó og föt. Kvaðst ákærði oftast nær vera einn að skemmta sér þar sem hann væri ekki í neinum sérstökum félagsskap. Þetta kvöld hafi hann drukkið bjór, viskí og landa og hafi hann orðið talsvert drukkinn.
Fyrir utan Kaffi Thomsen hafi hann síðan hitt Áslaugu Perlu, sem hann hefði þá aldrei séð áður, og hafi þau ræðst eitthvað við. Hafi hann stungið upp á því við hana að þau færu með leigubíl heim til systur hans. Skilningur hans hafi verið sá að þau ætluðu að fara þangað til að halda áfram drykkju og jafnvel sofa saman. Áslaug Perla hafi óskað eftir því að þau kæmu við í apóteki og hafi hann farið inn og keypt nálar. Þegar út í bíl var komið hafi hún sjálf farið inn í apótekið þar sem honum hefði láðst að kaupa sprautur og hafi hún keypt þær. Aðspurður taldi ákærði, að hann gæti hafa gefið henni til kynna að hann gæti útvegað fíkniefni. Er komið var að Engihjalla 9 hafi hann reynt að fá gistingu fyrir þau hjá systur hans, en verið synjað um gistingu fyrir hana. Þau hafi þó komist inn í húsið, farið upp með lyftunni og farið inn í stigagang hússins og drukkið og reykt þar. Greindi ákærði frá því, „að síðan hafi upphafist samfarir” þarna á stigaganginum og hafi þau bæði klætt sig úr fötunum. Kvaðst ákærði hafa rifið nærbuxur hinnar látnu utan af henni þegar hún stóð. Áslaug Perla hafi ekki farið úr skónum og hafi hún verið með buxurnar á hælunum meðan á samförunum stóð. Hafi þær bæði farið fram standandi og liggjandi. Ákærði kvaðst aldrei hafa verið í vafa um að samþykki Áslaugar hafi verið fyrir hendi.
Áslaug Perla hafi síðan viljað hætta samförunum og viljað fá eiturlyf. Kvaðst ákærði þó ekki vita hvar hún ætlaði að fá þau. Ákærði kvaðst síðan hafa staðið upp og úthúðað Áslaugu og kallað hana fíkil, aumingja, ræfil og druslu og gengið á undan henni út á svalirnar. Áslaug hafi þá orðið æst og komið á eftir honum. Taldi ákærði að hún hafi þá verið með buxurnar upp að mitti. Áslaug hafi reynt að ýta við honum og slá, en ekki hafi þó verið um nein átök að ræða. Hafi Áslaug komið alveg upp að honum og hafi hann hrint henni frá sér með báðum höndum þar sem hann stóð við svalahurðina. Hann hafi síðan séð efri hluta líkama hennar fara yfir svalahandriðið og hafi Áslaug snúið frá honum þegar hún fór fram af. Aðspurður hvers vegna hann hafi hrint henni gaf ákærði þá skýringu að hann hafi aðeins viljað ýta henni frá sér. Kvaðst ákærði aðspurður hvorki hafa séð Áslaugu stíga upp á steypta hluta handriðsins né gera nokkuð sjálfa sem stuðlaði að því að hún fór fram af. Ákærði kvaðst hafa séð þegar hún lenti á steyptri stéttinni og um leið heyrt smell, en þó hafi hann ekki séð hana í fallinu allan tímann. Kvaðst ákærði hafa horft á Áslaugu allan tímann fyrir fallið.
Ákærði kvaðst ekki muna mikið eftir þetta en þó teldi hann víst að hann hafi farið beint til íbúðar systur sinnar þar sem hann fannst sofandi. Hann myndi lauslega eftir því þegar lögregla handtók hann, en þeir hafi vakið hann með látum, járnað og dregið hann út á höndunum. Kvaðst ákærði hvorki muna eftir nákvæmum orðaskiptum sínum við lögregluþjóna í lögreglubíl eftir handtöku né meðan hann beið þess að læknisrannsókn hæfist.
Ákærði er spurður af verjanda sínum hvað hann ætti við með þeim orðum sínum hjá lögreglu, að hann teldi sig eiga sök á láti stúlkunnar. Sagði ákærði að með því hefði hann átt við að hann hafi talið sig eiga sök á því að hún fór fram af með því að hrinda henni. Hafi hann talið það þar til hann sá ljósmyndir lögreglu af staðgengli Áslaugar (sem sýna hæð staðgengils miðað við handrið svala). Þá hafi hann séð að lítill möguleiki væri á því að hann ætti sök á að Áslaug hafi farið yfir handriðið við hrindingu hans. Kvaðst ákærði nú vera í miklum vafa um það að hún hafi fallið fram af svölunum vegna hrindingarinnar eins og hann hefði talið í fyrstu. Kvaðst ákærði þó ekki geta sagt neitt um „hvort hún hafi stokkið sjálf, verið ein af milljón, ætlað að hræða sig eða annað.”
III.
Meðal gagna málsins er skýrsla lögreglunnar í Reykjavík, dagsett 4. maí 2000, vegna sjálfsvígstilraunar ákærða. Í skýrslunni kemur fram að lögreglumenn voru kvaddir að Ingólfsgarði um kl. 00:43 umrætt kvöld. Við leit fannst ákærði þar sem hann hélt sér í keðju við bryggjuna. Var ákærði fluttur á bráðamóttöku Landspítalans. Í skýrslunni kemur og fram að haft var samband við vakthafandi lækni sem kvað ákærða eiga við geðræn vandamál að stríða og að hann hafi reynt sjálfsvíg áður. Er ákærði fannst hafi hann sýnilega verið mjög ölvaður.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 28. maí 2000 var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins. Hefur ákærði sætt gæsluvarðhaldi allar götur síðan. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum þann 27. júní 2000 var hafnað kröfu sýslumannsins í Kópavogi þess efnis að ákærða yrði gert að sæta geðrannsókn á grundvelli d-liðar 1. mgr., sbr. 2. mgr. 71. gr., sbr. 74. gr. laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 36/1999. Þann 17. október féllst Héraðsdómur Reykjaness á kröfu ríkissaksóknara þess efnis að ákærða yrði gert að sæta geðrannsókn á grundvelli d-liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991. Með úrskurði Hæstaréttar uppkveðnum 20. október 2000 var sú ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness felld úr gildi og vísaði dómurinn meðal annars til þess að ákærði væri samþykkur því að aflað yrði vottorðs sálfræðings um andlegan þroska hans og heilbrigði.
Eftir úrskurð Hæstaréttar afturkallaði ákærði samþykki sitt fyrir því að upplýsingar um hann sem fengnar væru úr viðtölum hans við sálfræðing yrðu lagðar fram í málinu. Við dómsmeðferð málsins upplýsti vitnið Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur, sem annast hefur ákærða frá því honum var gert að sæta gæsluvarðhaldi, að ákærði hefði óskað eftir því við hann að hann ryfi ekki trúnað við sig. Greindi vitnið og frá því að samþykki ákærða hefði byggst á þeim misskilningi hans að í skýrslunni kæmi aðeins fram hvort hann væri sakhæfur eða ekki. Þegar ákærða hefði orðið það ljóst að í slíkri skýrslu kæmi fram allt það sem ákærði segði við vitnið ásamt persónusögu hans, hefði ákærði afturkallað samþykki sitt. Tók vitnið fram að í samtölum hans við ákærða varðandi mál þetta hefði ekkert annað komið fram en það sem hann hefði séð í gögnum málsins.
Að beiðni réttarins, var Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands, dómkvaddur til að annast gerð álitsgerð í málinu. Þess var farið á leit að matsmaður leitaðist við að svara eftirfarandi spurningum:
1. Hversu langan tíma hefur það tekið hina látnu að falla til jarðar?
2. Sé upphafshraði hinnar látnu enginn (0,0 m/s), hvert er líklegt frávik hinnar látnu frá lóðlínu í fallinu?
a) Miðað við að ekki gæti áhrifa vinds?
b) Fallið er upp við suðurhlið húss og vindhraði er SSA 1,0-3,1 m/s?
3. Hver var hraði hinnar látnu er hún fór fram af svölunum, miðað við staðinn þar sem hún lá? Við þá útreikninga verði tekið tillit til allra aðstæðna s.s. þyngdar hinnar látnu, loftmótstöðu, klæðnaðar, veðurs og annarra eðlisfræðilegra þátta.
4. Matsmaður kanni, ef þess er kostur, hvort unnt sé að ýta eða hrinda manni sem er 169,5 cm á hæð á handrið sem er 119 cm á hæð með þeim afleiðingum að hann falli yfir. Fram kom hjá ákærða fyrir dómi að hann hefði ýtt eða hrint hinni látnu í átt að handriðinu með því að ýta á öxl hennar með báðum höndum. Hún hefði þá snúið hliðinni að ákærða en snúist við hrindinguna og snúið baki í ákærða er hún fór yfir handriðið.
Í skýrslu matsmanns, sem er dagsett 12. janúar sl., kemst hann að þeirri niðurstöðu að það hafi tekið hina látnu 2,3 sekúndur að falla til jarðar.
Við annarri spurningu réttarins er svar matsmannsins eftirfarandi: „Ef upphafshraðinn hefði verið enginn og stúlkan hefði ekki snert húsið í fallinu, þá hefði massamiðja hennar fallið algerlega lóðrétt niður með húshliðinni. Frávik frá því hefðu fyrst og fremst orðið með því að hún hefði ef til vill komið við húsið í fallinu og þannig ýtt sér eða kastast frá því. Við það hefði hún óhjákvæmilega orðið fyrir sérstökum og auðþekktum áverkum en þeir eru ekki fyrir hendi samkvæmt skýrslum lækna og lögreglu. Því má álykta að fallið hafi ekki verið með þeim hætti.
a) Það sem hér var sagt miðast við að áhrif vinds séu hverfandi og það voru þau í raun á þeim stað og tíma sem hér um ræðir vegna þess að vindhraði var afar lítill.
b) Vindáttin er þannig að vindurinn stendur nokkuð beint inn í kverkina þar sem fallið gerðist. Hins vegar er vindhraðinn á bersvæði lítill og láréttur vindhraði rétt við húsið enn minni vegna skjólsins (loftið kemst ekki áfram í lárétta stefnu vegna hússins). Hreyfing loftsins við húsið er fyrst og fremst lóðrétt og ekki mikil. Áhrif vindsins á fallhreyfinguna eru hverfandi og því gildir óbreytt það sem áður var sagt.”
Svar matsmanns við þriðju spurningu réttarins er eftirfarandi: „Láréttur hraði stúlkunnar í upphafi hefur verið um það bil 1,6-1,8 m/s eða svipaður og í rösklegri göngu. Þessi hraði er talsvert minni en stúlkan hefði fengið ef hún hefði spyrnt sér með afli fram af eða frá svölunum með fótunum. Hún hefur greinilega ekki fallið eða látið sig falla sem næst lóðrétt niður. Hins vegar gæti hraðinn vel komið heim við það að henni hafi verið ýtt með höndum í lárétta stefnu eða hún jafnvel ýtt sér sjálf með höndunum frá húsinu, sjálfrátt eða ósjálfrátt. Einnig getur þessi hraði komið vel heim við það að henni hafi verið kastað eða hún látin falla yfir handriðið á svölunum. Þannig er auðvelt að hugsa sér ýmiss konar handalögmál, stympingar eða spyrnur með höndum sem hefðu gefið stúlkuni þennan hraða. Ekki er líklegt að stúlkan hafi haft lóðréttan hraða sem hafi til dæmis veruleg áhrif á aðrar niðurstöður. Fallhæð er ekki nógu mikil til þess að áhrif almennrar loftmótstöðu verði veruleg. Vindur var ekki heldur nógur til þess að hafa merkjanleg áhrif á fallið. Þyngd hluta skiptir ekki máli í falli fyrr en loftmótstöðu fer að gæta verulega og þyngdin hefur því engin áhrif hér. Klæðnaður hefði þurft að vera mjög sérstakur til að hann færi að skipta máli og því er ekki að heilsa hér.”
Svar matsmanns við fjórðu spurningu réttarins er eftirfarandi: „Svar eðlisfræðinnar er það, að mjög erfitt væri að ýta stúlkunni fram af svo háu svalahandriði með einfaldri hrindingu. Margfalt líklegra er að flóknari hrindingar eða handalögmál hafi komið til. Þá ber einnig að hafa í huga að handriðið hefði að sjálfsögðu dregið verulega úr láréttum hraða ef það hefði á einhvern hátt orðið til fyrirstöðu þegar fallið hófst. Ef fallið hefði með einhverju móti byrjað eftir slíka tiltölulega einfalda hrindingu hefði stúlkan því verið talsvert nær húsinu eftir fallið.”
Í lið IX. í matsgerð segir ennfremur um þetta álitaefni. „Dómurinn spyr um líkindi eða möguleika á því að stúlka af tiltekinni hæð fari yfir svalahandrið og fram af svölunum við það eitt að henni sé ýtt eða hrint á einfaldan hátt að handriðinu. Til að nálgast rökstutt svar við þessu getum við til dæmis hugsað okkur að stífum og þunnum hlut með lóðréttri framhlið sé ýtt að handriði á þann hátt sem hér um ræðir. Til þess að hluturinn geti farið fram af er þá nauðsynlegt að massamiðja hans sé hærri en efri brún handriðsins. Þetta er hins vega aðeins nauðsynlegt skilyrði en ekki fullnægjandi. Eins og fram kemur í gögnum málsins er handriðið 1,2 m á hæð en massamiðja stúlkunnar hefur verið í um það bil 1,0 m hæð, þannig að þessu skilyrði er ekki fullnægt. Þó að mannslíkaminn sé að sjálfsögðu ekki stífur hlutur gefur þetta vísbendingur um svarið við spurningunni. Þannig er afar ólíklegt að stúlkan hafi farið út af svölunum eftir einfalda hrindingu. Því má bæta við að hraðinn sem stúlkan hefði getað fengið við einfalda hrindingu án tilhlaups er takmarkaður eins og fram hefur komið hér á undan, og handriðið mundi að sjálfsögðu draga úr honum. Láréttur hraði stúlkunnar eftir hrindingu af þessu tagi hefði því orðið til muna minni en raun ber vitni. Auk þess er óhjákvæmilegt að minna á að klæðaburður stúlkunnar hlyti að hafa áhrif á viðbragð við hrindingu eða öðrum stympingum.
Í sem stystu máli má segja að þessi skýring á því hvernig fall stúlkunnar hófst fær ekki staðist.”
Í lok álitsgerðar matsmanns tekur hann saman meginniðurstöður sínar. Telur hann að fall stúlkunnar hafi í öllum meginatriðum verið svokallað frjálst fall með láréttum upphafshraða án þess að lóðréttur byrjunarhraði, loftmótstaða, vindur, þyngd eða klæðnaður hafi haft nein veruleg áhrif. Fallið hafi tekið tekið um 2,3 sekúndur og á þeim tíma hafi massamiðja stúlkunnar færst um það bil 3,6 - 4,2 metra í lárétta stefnu. Láréttur hraði stúlkunnar hafi verið um það bil 1,6-1,8 m/s og sé sá hraði ekki nægilega mikill til þess að hún hafi á einhvern hátt spyrnt sér af afli og vilja fram af svölunum með fótunum. Matsmaður telur ljóst að stúlkan hafi ekki látið sig falla sem næst lóðrétt niður með húsinu eins og stundum er í sjálfsvígum. Telur matsmaður hraða stúlkunnar koma vel heim við það að einhverskonar handalögmál, stympingar eða spyrna með höndum hafi orðið til þess að hún féll. Þá álítur matsmaður að gera þurfi ráð fyrir þeim möguleika að stúlkan hafi ósjálfrátt ýtt sér með höndum frá svölunum um leið og hún finnur að hún er byrjuð að falla. Einnig telur matsmaður hugsanlegt að henni hafi verið kastað yfir handriðið með takmörkuðum krafti eða hún hafi verið látin falla þannig að hún náði fyrrnefndum láréttum hraða. Telur matsmaður þá skýringu að meginorsök fallsins hafi verið að henni hafi verið hrint á einfaldan hátt að handriðinu fái ekki staðist með hliðsjón af lögmálum eðlisfræðinnar og upplýsingum sem fyrir liggi í málinu, til dæmis upplýsingum um láréttan hraða, klæðaburð og fleira.
Matsmaður kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína og svaraði spurningum sækjanda og verjanda um hana.
Auk þeirra vitna sem nú hefur verið gerð grein fyrir komu og fyrir dóminn Jakob Kristinsson dósent í lyfjafræði og Grétar Sæmundsson aðstoðar- yfirlögregluþjónn. Einnig komu fyrir dóminn foreldrar hinnar látnu, Gerður Berndsen og Kristjón Haraldsson.
IV.
1.Ákærði og Áslaug Perla Kristjónsdóttir hittust í miðbæ Reykjavíkur að morgni laugardagsins 27. maí 2000 milli klukkan 7 og 8. Samkvæmt frásögn vitna var Áslaug Perla talsvert drukkin eða undir áhrifum annarra vímuefna og gekk milli manna og leitaði að samkvæmi og fíkniefnum. Ákærði hefur sagt að verið geti að hann hafi látið að því liggja að hann gæti útvegað fíkniefni, en fram hefur komið í málinu að það gat hann í raun ekki. Áslaug Perla og ákærði tóku saman leigubifreið og héldu að Engihjalla 9, Kópavogi, þar sem systir ákærða bjó. Á leiðinni höfðu þau viðkomu í apóteki þar sem keyptar voru sprautur og nálar til fíkniefnaneyslu. Ákærði hefur sagt að tilgangur ferðar hans að Engihjalla 9 hafi verið að drekka meira og e.t.v. að sofa hjá Áslaugu Perlu og beiddist hann gistingar hjá systur sinni fyrir þau bæði, en því var hafnað.
Þegar hér er komið í atburðarásinni er einungis við frásögn ákærða að styðjast. Ákærði skýrði svo frá, að þau hafi farið upp með lyftu og gengið úr stigahúsi út á litlar svalir og af svölunum inn í brunastigagang. Þar hafi þau drukkið áfengi sem hann var með og síðan hafið samfarir. Samfarirnar hafi verið harkalegar og hafi hann rifið nærbuxur Áslaugar Perlu utan af henni, en þær fundust í vösum ákærða eftir handtöku. Áslaug Perla hafi viljað hætta samförum og fá eiturlyf en ákærði kvaðst ekki vita hvar hún hafi ætlað að nálgast þau. Ákærði kvaðst við þetta hafa kallað hana öllum illum nöfnum, svo sem fíkil, aumingja, ræfil og druslu. Að því búnu hafi hann farið af brunastigaganginum og út á svalir. Áslaug Perla hafi fylgt honum eftir og orðið æst og reynt að ýta við honum og ná til hans. Við þetta hafi hann snúið sér við og hrint eða ýtt Áslaugu Perlu að svalahandriðinu, án vilja til að skaða hana. Hún hafi snúið vinstri hliðinni að honum þegar hann ýtti á öxl hennar en snúist við hrindinguna og hafi hún snúið baki við honum þegar hún fór fram af svalahandriðinu.
Fyrir dómi var ákærði þaulspurður um atburðarásina á svölunum. Ákærði hélt sig við ofangreinda frásögn allan tímann og sagðist ekki hafa litið af stúlkunni. Hún hafi ekki stigið upp á steypta kantinn á svalahandriðinu. Hvorki hafi komið til eiginlegra slagsmála né beinna átaka á milli þeirra eða hafi hann lyft undir stúlkuna. Þetta hafi einfaldlega gerst með því að hann hafi hrint henni í átt að handriðinu með fyrrgreindum afleiðingum. Ákærða var þá gerð grein fyrir því, að frásögn hans stæðist ekki því ómögulegt væri að stúlkan hefði farið yfir handriðið með þeim hætti sem hann lýsti, þar sem handriðið næði henni í brjósthæð. Ákærði gat ekki gefið frekari skýringu á þessu og sagði ennfremur að hann hefði séð Áslaugu Perlu falla yfir handriðið og séð hana lenda.
Ákærði kom eftir þetta að íbúð systur sinnar og hringdi dyrabjöllunni með miklum látum og var honum hleypt inn. Samkvæmt frásögn systur ákærða var hann ekki líkur sjálfum sér er hann kom til hennar eftir atburðinn á svölunum. Ákærði var stjarfur og mælti ekki orð frá munni. Þegar hún opnaði dyrnar strunsaði ákærði fram hjá henni og fór beint inn í herbergi og lagðist til svefns.
Ákærði var handtekinn og færður í lögreglubifreið á Landspítalann í Fossvogi. Á leiðinni hótaði hann lögreglumönnum með þeim orðum að hann skyldi drepa þá og börn þeirra er hann losnaði úr fangelsi eftir 10-15 ár vegna þess verknaðar sem hann hefði framið. Ákærði hvatti lögreglumenn til að sýna sér harðræði í lögreglubifreiðinni og hafði á orði að áverkar kynnu að draga eitt ár frá dómi hans, ásamt því sem hann reyndi að veita sjálfum sér áverka. Á Landspítalanum tók ákærði upp á því að flauta og líkja með þeim hætti eftir falli hlutar úr mikilli hæð með tilheyrandi dynki við lendingu. Ákærði endurtók blístur sitt á spítalanum ásamt því að ítreka áðurgreinda hótun sína við lögreglumenn.
2.Þegar öll fram komin sönnunargögn og vitnisburðir þessa máls svo og framburður ákærða sjálfs eru virt í heild sinni þykir framburður ákærða ekki fá staðist hvað varðar síðustu atvikin er leiddu til dauða Áslaugar Perlu. Verður nú gerð grein fyrir þeim atriðum er leiða til framangreindrar niðurstöðu.
Er lík Áslaugar Perlu fannst voru smekkbuxur vafðar um ökkla hennar. Í krufningarskýrslu Gunnlaugs Geirssonar prófessors, segir að svo sé að sjá að buxurnar hafi verið þannig dregnar niður er Áslaug lenti á jörðinni, því buxurnar falli fremur þétt að fótleggjum. Fyrir liggur að hliðartölur á buxunum sem Áslaug Perla var í voru aðhnepptar þegar komið var að henni. Einnig benda ljósmyndir sem teknar voru af Áslaugu Perlu kvöldið fyrir andlát hennar til þess að smekkbuxurnar hafi fallið nokkuð þétt að líkama hennar ofan við mjaðmir. Verður því að telja mjög ólíklegt að buxurnar hafi verið um mitti hennar er hún féll fram af svölunum. Fyrir dómi bar rannsóknarlögreglumaðurinn Ómar Þorgils Pálmason, sem vann að rannsókn fingrafara á vettvangi, að greinileg för hefðu verið eftir hendur og beran líkama á handriði svalanna þar sem Áslaug Perla fór fram af. Fær sá framburður og stoð í skýrslu Kristjáns Friðþjófssonar rannsóknarlögreglumanns, dagsettri 27. maí 2000. Þar segir að á sitthvorum enda handriðsins hafi mátt sjá för sem líklegast séu handaför og í miðið hafi sést langt fitufar, sennilega eftir líkama. Að teknu tilliti til framangreinds verður því að miða við það að Áslaug Perla hafi verið með smekkbuxurnar vafðar um ökkla er hún féll fram af svölunum að Engihjalla 9. Verður því að hafna þeirri frásögn ákærða að Áslaug Perla verið með buxurnar um mittið er hún féll fram af svölunum.
Í ítarlegri matsgerð Þorsteins Vilhjálmssonar prófessors, sem unnin var að beiðni réttarins, kemur fram að matsmaður útilokar að framburður ákærða, um hvernig fall Áslaugar Perlu bar að, standist út frá eðlisfræðilegum rökum. Matsgerð Þorsteins rennir styrkari stoðum undir það mat dómenda, sem meðal annars er fengið með vettvangsgöngu að sú frásögn ákærða fái ekki staðist að fall Áslaugar Perlu hafi borið að með einfaldri hrindingu. Er í þessu sambandi vísað til hæðar svalahandriðsins, hæðar Áslaugar Perlu sjálfrar og þeirrar staðreyndar að líkami hennar hafnaði 4,2 metra frá lóðlínu svalanna, sem þykir sanna að láréttur hraði Áslaugar Perlu fram af svölunum hafi verið sambærilegur röskum gönguhraða. Þá er einnig til þess að líta að Áslaug Perla var nánast fjötruð um fætur með buxurnar um ökkla. Það er því mat dómenda með hliðsjón af framantöldum gögnum að frásögn ákærða fái ekki staðist.
Ákærði hefur borið að hann hafi horft á Áslaugu Perlu allan tímann eftir að hann hrinti henni eða ýtti. Hún hafi hvorki stigið upp á steypta kant handriðsins né gert nokkuð til að koma sér sjálf yfir svalahandriðið. Með tilliti til alls þessa og matsgerðarinnar þykir ekkert það fram komið í málinu er renni stoðum undir þá kenningu verjanda ákærða að Áslaug Perla hafi með einhverjum hætti tekið sitt eigið líf. Viðbrögð ákærða fyrst eftir verknaðinn, bæði fyrir og eftir handtöku, benda einnig til þess að ekki hafi verið um sjálfsvíg að ræða.
3.Í gögnum máls þessa eru ýmis atriði er benda til þess að samfarir Áslaugar Perlu og ákærða hafi verið að óvilja hennar. Fram kemur í skýrslu Bjarna J. Bogasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns, að krækja á smekkbuxum Áslaugar hafi laskast og bognað til vinstri vegna átaks sem hafi sennilega orðið með þeim hætti að rifið hafi verið í axlabandið eða buxurnar til þess að losa það frá smekknum. Við prófun kom í ljós að talsvert átak þufti til að laska krækju á samskonar buxum og Áslaug Perla var í til að glenna krækjuna í sundur líkt og krækjuna á buxum Áslaugar Perlu. Í máli þessu hefur ákærði ekki gefið neina skýringu á því af hverju hann var með rifnar nærbuxur Áslaugar Perlu í vasanum við handtöku. Í ljósi framburða vitna er hafa borið að Áslaug Perla hafi verið mjög ánægð með ný nærföt sín, þykir ósennilegt að hún hafi, eins og ákærði heldur fram, í harkalegu kynlífi leyft að buxurnar yrðu rifnar utan af henni. Fram kemur í gögnum málsins að Áslaug Perla var með 4x1 cm langan áverka á ytri skapabörmum sem ekki verður rakinn til falls hennar. Ákærði bar töluverða áverka við læknisskoðun sem bentu til þess að hann hefði lent í átökum skömmu fyrir skoðun. Í ljósi þeirra átaka sem áttu sér stað við handtöku ákærða og í lögreglubíl þykir þó ekki hægt að fullyrða að áverkarnir hafi verið til staðar við handtöku hans. Verður því að byggja á þeim framburði ákærða að samþykki Áslaugar Perlu hafi legið fyrir samförunum þar til hún vildi hætta þeim og fá að sprauta sig með fíkniefnum, en komið hefur fram að ákærði hafði látið í veðri vaka að hann gæti útvegað þau. Í kjölfar þess að Áslaug Perla vildi hætta samförunum þykir sýnt að ákærði reiddist og hrópaði að henni þeim ókvæðisorðum að hún væri fíkill, aumingi, ræfill og drusla. Við mat á því sem síðar gerðist ber að líta til hugarástands ákærða umræddan morgun. Er ljóst af gögnum málsins, m.a. af vætti systur ákærða, að hann kom með látum til íbúðar hennar og ruddist fram hjá henni stjarfur, gnísti tönnum og fór rakleitt inn í herbergi þar sem hann lagðist til svefns. Ákærði hótaði lögreglumönnum og börnum þeirra lífláti við handtöku og flutning hans til líkamsskoðunar. Á meðan ákærði beið líkamsskoðunar hrópaði hann niðrandi orð að þeldökkri ræstingakonu og gerði sig líklegan til að ráðast á hana. Hafa lögreglumenn borið að þurft hafi að halda ákærða til að koma í veg fyrir að hann veittist að henni. Engum blöðum er því um það að fletta að ákærði hefur þennan morgun verið fullur reiði og heiftar.
Við mat á sök ákærða verður ekki litið fram hjá háttsemi hans strax eftir handtöku og því að ákærði viðurkenndi hjá lögreglu að hann ætti sök á andláti Áslaugar Perlu, þrátt fyrir að frásögn hans af því með hvaða hætti það gerðist fái ekki staðist nánari skoðun.
Um atburðarásina á svölunum er ekki unnt að fullyrða nákvæmlega. Án vafa má þó útiloka að andlát Áslaugar Perlu hafi getað borið að með þeim hætti er ákærði hefur lýst, eða að hún hafi sjálf komið sér yfir svalahandriðið. Það verður því að telja útilokað að hún hafi farið öðruvísi yfir handriðið en fyrir tilverknað ákærða. Þá bendir hegðun ákærða og hótanir í framhaldi af handtöku og viðurkenning hans hjá lögreglu um að hann ætti sök á andláti Áslaugar Perlu til sektar hans. Húðfituför þau sem fundust á handriði svalanna benda einnig til þess að ber líkami Áslaugar Perlu hafi strokist við handriðið um leið og hún fór yfir það. Fram kom hjá ákærða að hann brást við er Áslaug Perla fylgdi honum eftir út á svalirnar og reyndi, að sögn hans, að ýta við honum. Fullvíst má telja, miðað við hvar Áslaug Perla kom niður, að framanlýst viðbrögð ákærða hafi verið önnur og harkalegri en lýsing hans nær til. Ákærði hafði áður hafið samfarir við Áslaugu Perlu með ofbeldisfullum hætti og hafði reiðst heiftarlega er hann varð að hætta þeim. Í framhaldi af því sýndi ákærði henni lítilsvirðingu í orði. Í atburðarás, sem þó er ekki að fullu ljós, þykir sannað með vísan til matsgerðar, rannsóknargagna lögreglu og vættis vitna að ákærði hafi í reiðikasti brugðist við með kröftugri atlögu að Áslaugu Perlu á meðan hún hafði buxur sínar girtar niður fyrir hné og komið henni þannig yfir svalahandriðið með þeim afleiðingum að hún féll til jarðar og hlaut bana af. Þykir eigi óvarlegt að fullyrða að á þeirri stundu hafi honum hlotið að vera ljóst að slík atlaga leiddi óhjákvæmilega til dauða hennar.
Hvorki er ljóst af framburði ákærða né af gögnum málsins hvað honum gekk til er hann kom Áslaugu Perlu yfir svalahandriðið. Háttsemi ákærða, er að framan greinir, þykir réttilega heimfærð undir 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
4.Að mati dómsins er ekki nein ástæða til að efast um sakhæfi ákærða.
Ákærði hefur sætt refsingum er hér segir: Árið 1995 var ákærða gert að greiða 65.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 4. gr. og 1., sbr 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Jafnframt var hann sviptur ökurétti í 12 mánuði. Árið 1997 var ákærða gert að greiða 25.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Árið 1998 var ákærða gert að greiða 100.000 króna sekt fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og var sviptur ökurétti í 3 ár. Árið 1998 var ákærða gert að greiða 40.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr 257. gr. almennra hegningarlaga. Framangreindar refsingar ákærða skipta ekki máli við ákvörðun viðurlaga.
Svo sem að framan er rakið verður að telja að ákærði hafi framið verknaðinn í mikilli reiði eða heift. Ekki eru þó fram komnar ástæður er gefa tilefni til að álykta að Áslaug Perla hafi vakið þessa reiði hjá ákærða með þeim hætti að 4. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 geti átt við. Ekki verður heldur talið að 75. gr. hegningarlaga geti átt við enda skortir vottorð eða önnur gögn er sýni fram á slíkt ástand ákærða á verknaðarstundu.
Þykir refsing ákærða að þessu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 14 ár. Rétt þykir að gæsluvarðhald ákærða frá 28. maí 2000 komi til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.
5. Ólafur Gústafsson hrl. hefur gert skaðabótakröfu í málinu fyrir hönd foreldra hinnar látnu, Gerðar Berndsen og Kristjóns Haraldssonar. Ákærði krefst þess að kröfum þessum verði vísað frá dómi.
Miskabótakrafa Gerðar Berndsen er reist á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 57/1999. Skaðabótakrafa Kristjóns Haraldssonar um bætur vegna útfararkostnaðar er reist á 12. gr. skaðabótalaga og byggist á útlögðum kostnaði vegna hefðbundinnar útfarar dóttur þeirra og fær stoð í fram lögðum reikningum. Miskabótakrafa hans er byggð á áður tilvitnaðri 2. mgr. 26. gr.
Áslaug Perla bjó hjá móður sinni er hinn voveiflegi atburður átti sér stað. Það er álit dómsins að ekki verði velkst í vafa um að andleg þjáning foreldra, er missa barn sitt á jafn hörmulegan hátt og raun ber vitni, er mikil. Kemur það fram í fram lögðum vottorðum og í framburði foreldra fyrir dómi.
Ákærði hefur verið sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga. Eru því uppfyllt skilyrði til þess að dæma miskabætur úr hendi ákærða samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 26. gr. og 12. gr. skaðabótalaga. Að þessu virtu er fallist á að Gerður og Kristjón eigi bæði rétt til bóta úr hendi ákærða. Bætur til handa Gerði Berndsen og Kristjóni Haraldssyni skv. 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, þykja hæfilega ákveðnar 600.000 krónur til hvors foreldris og skal fjárhæðin bera vexti skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá verknaðardegi 27. maí 2000, til dómsuppsögudags en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga til greiðsludags.
Skaðabótakrafa Kristjóns Haraldssonar byggir annars vegar á útlögðum kostnaði vegna útfarar Áslaugar Perlu að fjárhæð 413.670 krónur, en hins vegar á áætluðum kostnaði vegna kaupa á legsteini að fjárhæð 125.000 krónur. Því ber í samræmi við 12. gr. skaðabótalaga að dæma ákærða til að greiða Kristjóni 538.670 krónur auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga af 413.670 krónum frá 1. júlí 2000 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Samkvæmt greindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. a-lið 164. gr. sömu laga, sbr. 35. gr. laga nr. 36/1994, ber að dæma ákærða til að greiða þóknun Ólafs Gústafssonar hrl., skipaðs réttargæslumanns sem þykir hæfilega ákveðin 200.000 krónur.
Þá ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlends Gíslasonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 800.000 krónur.
Ákærði greiði enn fremur annan áfallinn sakarkostnað, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 164. gr. sömu laga, sbr. 35. gr. laga nr. 36/1999.
Dóm þennan kveða upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari og dómsformaður ásamt meðdómsmönnunum Guðmundi L. Jóhannessyni og Júlíusi B. Georgssyni héraðsdómurum.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, Ásgeir Ingi Ásgeirsson, sæti fangelsi í 14 ár. Til frádráttar komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 28. maí 2000 að fullri dagatölu.
Ákærði greiði Gerði Berndsen 600.000 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. maí 2000 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla söma laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði Kristjóni Haraldssyni 600.000 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 27. maí 2000 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og 538.670 krónur auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga af 413.670 krónum frá 1. júlí 2000 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun Ólafs Gústafssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns Gerðar Berndsen og Kristjóns Haraldssonar, 200.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlends Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur.