Hæstiréttur íslands

Mál nr. 495/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Þriðjudaginn 29

 

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005.

Nr. 495/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að skilyrði væru til þess að X yrði bönnuð för úr landi um nánar tilgreindan tíma á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 110. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2005, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 7. desember 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu um farbann verði hafnað, en til vara að því verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í þinghaldi við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. nóvember 2005 er bókað eftir varnaraðila að hann viðurkenni ekki að hafa falsað vegabréf sem um ræðir í málinu eða framvísað með ólögmætum hætti í viðskiptum. Hann hafi fengið vegabréfin með lögmætum hætti og verið í góðri trú um að þau væru lögleg. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2005.

          Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að kærði, X, ríkisborgari í Moldóvu, dvalarstaður [...] í Reykjavík, sæti farbanni allt til miðvikudagsins 7. desember 2005.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi fengið tilkynningu frá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóv. sl. um að kærði væri hér ásamt fjölskyldu sinni, konu og tveimur börnum og væru þau stödd á [...]. Upplýsingar hafi legið fyrir um að kærði væri frá Moldóvu og væri hér líklega á fölsuðu grísku vegabréfi. Kærði hafi verið handtekinn þann 15. nóvember þegar hann hafi komið í land en hann hafi verið kominn til sjós. Kærði hafi komið hingað til lands þann 24. október með flugi frá Færeyjum ásamt fjölskyldu sinni en hann  hafi komið siglandi frá Hanstholm í Danmörku til Færeyja. Við leit á [...] hafi fundist skjöl og skilríki og m.a. farmiði aðra leiðina til Grænlands og farmiði aftur frá Færeyjum þann 15. desember  nk. til Hanstholm í Danmörku.

Kærði hafi verið yfirheyrður 15. nóvember og í skýrslu lögreglu hafi hann  viðurkennt að hafa haft falsað grískt vegabréf undir höndum. Jafnframt hafi hann játað að hafa framvísað því við komu sína á [...] og einnig þegar hann hafi fengið vinnu til sjós þann 10. nóvember sl. 

          Rannsókn málsins sé nú komin nokkuð á veg og þyki kærði vera undir rökstuddum grun um að hafa haft í vörslum sínum falsað grískt vegabréf og einnig að hafa framvísað fölsuðu vegabréfi.  Einnig beinist rannsóknin að því að kærði hafi framvísað fölsuðu skjali sem kærði hafði útfyllt að hluta frá Hagstofunni  byggt á hinu falsaða vegabréfi.  Fyrir liggi að það vanti skýringar á tilurð ýmissa skjala sem fundist hafi við leit í herbergi kærða og hvort hann hafi notað þau í lögskiptum.

Lögreglan í Reykjavík sé nú í sambandi við alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra er varði rannsókn á því hvort að fingraför kærða finnist í gagnagrunni hjá Interpol í Haag og hvort lögregla hafi áður átt afskipti af kærða. Einnig beinist rannsókn lögreglu að upplýsa um sannanlegt ríkisfang kærða en hann sé hér í ólöglegri dvöl án vegabréfs.  Þar sem þessi rannsókn lögreglu og gagnaöflun sé umfangsmeiri og tímafrekari vegna samskipta við alþjóðalögreglu sé nauðsyn á frekari framlengingu á farbanni kærða til að upplýsa málið. Í ljósi aðildar kærða að því að hafa í vörslum sínum og hafa framvísað fölsuðu vegabréfi í lögskiptum sínum telji lögregla brýnt að kærði sæti áframhaldandi skerðingu á ferðafrelsi með þeim hætti sem krafist sé. 

Verið sé að rannsaka ætluð brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og h.-lið 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96, 2002, sem ætla megi að vörðuðu fangelsi ef sönnuðust. Vegna rannsóknarhagsmuna, þ.e. að tryggja nærveru kærða vegna frekari gagnaöflunar og skýrslutöku af kærða sem og til að koma í veg fyrir að kærði fari af landi brott og komi sér hjá áframhaldandi rannsókn og saksókn, þyki því nauðsynlegt að tryggja nærveru hans hér á landi með áframhaldandi farbanni. Meint brot kærða sé alvarlegt og þyki varða fangelsisrefsingu ef sök sannist.

          Um heimild til farbanns sé vísað til b-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

          Með hliðsjón af  framansögðu er fallist á að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðila verði bönnuð för úr landi sbr. 110. gr. laganna. Fallist er því á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett.

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, ríkisborgara í Moldóvu, dvalarstaður [...] í Reykjavík, er bönnuð för úr landi allt til miðvikudagsins 7. desember 2005, kl. 16:00.