Hæstiréttur íslands
Mál nr. 77/2006
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Lagaskil
|
|
Fimmtudaginn 19. október 2006. |
|
Nr. 77/2006. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Árna Þór Vigfússyni (Gestur Jónsson hrl.) Kristjáni Ragnari Kristjánssyni(Brynjar Níelsson hrl.) Ragnari Orra Benediktssyni og(Sigmundur Hannesson hrl.) Stefáni Hjörleifssyni(Helgi Jóhannesson hrl.) |
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Lagaskil.
Á, K, R og S, sem starfað höfðu hjá einu eða fleiri af fimm einkahlutafélögum, voru sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki staðið réttilega skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Greitt hafði verið inn á skuldir félaganna og kom því til álita hvort staðin hefðu verið skil á verulegum hluta skattfjárhæðanna í skilningi 2. málsl. greinanna, eins og þeim var breytt með lögum nr. 134/2005, þannig að fyrirmæli þeirra um fésektarlágmark ættu ekki við. Talið var að undanþágur frá lágmarki fésektar giltu um viðurlög fyrir brotin sem R og S voru sakfelldir fyrir og voru þau því ekki talin meiri háttar í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Umræddar undanþágur voru taldar eiga við hluta brota Á, en ekki við brot hans gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 sem varðaði vanskil á 1.252.673 krónum. Þó var ekki talið að þessi fjárhæð eða atvik að öðru leyti væru slík að það gæti varðað við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Viðurlög fyrir flest brotin, sem K var sakfelldur fyrir, voru ákveðin á grundvelli undanþágu frá lágmarki fésektar, en ekki sá hluti sem tók til vanskila á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda samtals að fjárhæð 7.927.026 krónur. Af þessu virtu og þar sem brot K voru framin í rekstri fimm félaga voru þau talin meiri háttar og varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Tekið var fram að Á, K, og R hefðu verið dæmdir til fangelsisrefsingar fyrir brot gegn almennum hegningarlögum með dómi Hæstaréttar í máli nr. 347/2004. Að öðru leyti hefði Á ekki áður sætt refsingu, K og R ekki svo að máli skipti við ákvörðun refsingar og S ekki áður verið sakfelldur fyrir brot. Var Á dæmdur til að greiða sekt að fjárhæð 2.800.000 krónur, R til að greiða sekt að fjárhæð 750.000 krónur og S 300.000 krónur. Um ákvörðun refsingar K gilti 78. gr. almennra hegningarlaga og var ekki talið að honum hefði verið gerð þyngri fangelsisrefsing í fyrri dómi ef dæmt hefði verið um öll brotin þar. Hann var á hinn bóginn dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 18.500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. janúar og 17. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu Kristjáns Ragnars Kristjánssonar og Ragnars Orra Benediktssonar, svo og ákærða Stefáns Hjörleifssonar að öðru leyti en því að brot, sem honum er gefið að sök í II. lið B. kafla ákæru, verði talið ná til 5.097.018 króna. Þá er þess krafist að ákærði Árni Þór Vigfússon verði sakfelldur fyrir öll brot, sem honum eru gefin að sök í ákæru. Þess er krafist að ákærðu Árna Þór, Kristjáni Ragnari og Ragnari Orra verði öllum gerð fangelsisrefsing og fésekt þess fyrstnefnda jafnframt þyngd, sektarrefsing ákærða Kristjáns Ragnars verði staðfest, en sekt ákærða Ragnars Orra milduð ef ákærði Árni Þór verður sakfelldur fyrir brot, sem honum eru gefin að sök í C. kafla ákæru. Loks er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur að því er varðar refsingu ákærða Stefáns.
Ákærðu Árni Þór, Ragnar Orri og Stefán krefjast aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Ákærði Kristján Ragnar krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt A., B., C. og E. kafla ákæru, svo og af öðrum sökum samkvæmt D. kafla hennar en þeim, sem varða vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna mars, apríl og maí 2003. Þá krefst hann þess að refsing verði milduð.
I.
Ríkislögreglustjóri höfðaði mál þetta með ákæru 22. desember 2004. Með henni voru ákærðu ásamt X bornir sökum um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, allt með áorðnum breytingum, en brot þessi hafi þeir hver um sig framið í störfum hjá einu eða fleiri af fimm einkahlutafélögum, sem báru heitin Ísafoldarhúsið, Japís, Kaffi Le, Lífstíll og Planet Reykjavík. Í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 15. júní 2005, var X sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og er af þess hálfu unað við þá niðurstöðu. Aðrir ákærðu voru á hinn bóginn sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim var gefin að sök, ýmist í heild eða að hluta.
Héraðsdómur var ekki birtur ákærða Stefáni fyrr en 17. nóvember 2005 og ákærða Kristjáni Ragnari 19. desember sama ár. Sá fyrrnefndi lýsti yfir áfrýjun 12. desember 2005, en sá síðarnefndi 13. janúar 2006. Dómurinn hafði verið birtur ákærða Árna Þór 25. ágúst 2005 og ákærða Ragnari Orra 20. september sama ár og lýstu þeir ekki yfir áfrýjun innan áfrýjunarfrests. Samkvæmt umsókn þeirra 27. janúar 2006 veitti Hæstiréttur leyfi til áfrýjunar 7. mars sama ár og er héraðsdómur á þeim grunni til endurskoðunar að því er þessa ákærðu varðar um öll atriði, sem kröfugerð aðilanna tekur til.
Eftir að héraðsdómur hafði verið birtur öllum ákærðu var áðurnefndum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 breytt með 1. gr. og 3. gr. laga nr. 134/2005 á þann hátt að lágmark fésektar, sem þar er mælt fyrir um, á ekki við ef brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattskýrslu eða réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur séu miklar. Komi til sakfellingar ákærðu ber að ákveða refsingu með tilliti til þessara breyttu reglna, sbr. 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga.
II.
Með A. kafla ákæru var sökum beint að ákærða Árna Þór fyrir að hafa hvorki staðið skil á virðisaukaskatti Ísafoldarhússins ehf. á uppgjörstímabilunum frá mars-apríl 2002 til janúar-febrúar 2003, samtals 2.474.081 krónu, né staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins á tímabilinu frá janúar til apríl 2003, alls 1.809.008 krónur. Þá var ákærði Kristján Ragnar borinn sökum fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna sama félags, sem haldið var eftir af launum þeirra fyrir maí 2003, að fjárhæð 522.380 krónur.
Fyrir liggur í málinu að ákærði Árni Þór stofnaði Ísafoldarhúsið ehf. 20. mars 2002 ásamt X og var það tilkynnt fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands 26. sama mánaðar. Við stofnun félagsins var ákærði Árni Þór ráðinn framkvæmdastjóri þess og honum veitt prókúruumboð, jafnframt því að hann var kjörinn meðstjórnandi í félaginu. X var kjörinn formaður stjórnar og gegndi hann því starfi þar til hann sagði sig úr henni með tilkynningu til fyrirtækjaskrár 19. maí 2003. Breytingar voru gerðar á samþykktum félagsins 3. júní 2003 og var ákærði Kristján Ragnar þá kjörinn stjórnarmaður, auk þess sem honum var veitt prókúruumboð. Ákærði Árni Þór var við sama tækifæri kosinn varamaður í stjórn félagsins. Í tilkynningu um þetta, sem barst fyrirtækjaskrá 4. sama mánaðar, kom fram að ákærði Árni Þór hefði látið af starfi framkvæmdastjóra og að prókúruumboð hans væri fallið niður.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn 2. júlí 2003 á skilum Ísafoldarhússins ehf. á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Rannsókninni var lokið með skýrslu 5. nóvember sama ár. Samkvæmt henni höfðu skuldir, sem félagið hafði staðið í vegna virðisaukaskatts, verið greiddar á því tímamarki að frátöldum skatti uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 2003, sem var að fjárhæð 1.252.673 krónur, en inn á höfuðstól hans höfðu greiðst 70.288 krónur. Þá kom þar fram að staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna félagsins fyrir febrúar, mars og apríl 2003 hafi verið greidd að fullu áður en rannsókninni lauk, en upp í höfuðstól skuldar vegna maí 2003, sem upphaflega hafi verið 522.380 krónur, hafi greiðst 331.354 krónur. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til ríkislögreglustjóra 22. mars 2004, en áður en til þess kom hafði bú Ísafoldarhússins ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2003. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að virðisaukaskattur félagsins fyrir uppgjörstímabilin frá mars-apríl 2002 til janúar-febrúar 2003 hafi alls verið 4.280.842 krónur, en þar af hafi skuldir að höfuðstól samtals 2.474.081 króna staðið ógreiddar á gjalddaga. Eftir gjalddaga hafi fengist 1.774.331 króna upp í skuldirnar, sem hafi verið ráðstafað til að greiða kostnað, álag samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, dráttarvexti og loks inn á höfuðstól skuldarinnar, en eftir það hafi hann numið 995.303 krónum. Að því er varðar staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins var byggt á því að ekkert hafi verið greitt á gjalddaga vegna greiðslutímabilanna frá janúar til maí 2003, en gjöld á þeim hafi alls verið að höfuðstól 2.331.388 krónur. Eftir gjalddaga hafi greiðst samtals 2.482.284 krónur, sem hafi verið ráðstafað til að greiða kostnað, álag samkvæmt 28. gr. laga nr. 45/1987 og dráttarvexti, en eftirstöðvarnar hafi komið til lækkunar á höfuðstól, sem eftir þetta hafi verið að fjárhæð 126.977 krónur.
Við málflutning af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti hefur með tilliti til dóma réttarins 30. mars 2006 í málum nr. 428/2005 og 469/2005 verið gerð frekari grein fyrir fjárhæðum, sem um ræðir í þessum þætti málsins. Samkvæmt því var álag, sem greitt var af vangoldnum virðisaukaskatti á uppgjörstímabilunum frá mars-apríl 2002 til loka þess árs, samtals 122.140 krónur. Ef þessi fjárhæð skoðast sem innborgun á höfuðstól skuldar vegna virðisaukaskatts standi eftir ógreiddar 873.163 krónur af 1.252.673 krónum frá uppgjörstímabilinu janúar-febrúar 2003 eða sem svarar 69,7%. Álag, sem greitt var af vangoldinni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabila frá janúar til apríl 2003, hafi alls verið 180.900 krónur. Skoðist sú fjárhæð sem greiðsla inn á höfuðstól skuldar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, sem nam áðurgreindum 126.977 krónum, sé skuldin að fullu gerð upp.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði Árni Þór hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á virðisaukaskatti Ísafoldarhússins ehf. á uppgjörstímabilunum frá mars-apríl 2002 til janúar-febrúar 2003, að fjárhæð samtals 2.474.081 króna, og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins frá greiðslutímabilunum janúar til apríl 2003, alls 1.809.008 krónur. Á sama hátt verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ákærði Kristján Ragnar hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Ísafoldarhússins ehf. frá greiðslutímabilinu maí 2003 að fjárhæð 522.380 krónur.
Við ákvörðun viðurlaga fyrir þessi brot verður að líta til þess að með þeim breytingum, sem gerðar voru með lögum nr. 134/2005 á 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, gilda fyrirmæli síðastnefndra ákvæða um lágmark fésektar ekki þegar brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum gjöldum samkvæmt skýrslum eða skilagreinum og verulegur hluti skattfjárhæðar hefur verið greiddur eða málsbætur eru miklar. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var því borið við af hálfu ákæruvaldsins að þessar undantekningar frá lágmarki fésektar gætu ekki átt hér við, því ákærðu hefðu ekki aðeins gerst sekir um vanskil á gjöldum, heldur hefðu einnig orðið veruleg vanhöld á skilum virðisaukaskattskýrslna og skilagreina vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Um þetta er þess að gæta að ákærðu eru ekki sóttir til saka fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki skilað á réttum tíma virðisaukaskattskýrslum fyrir Ísafoldarhúsið ehf. og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins. Brot ákærðu, sem málið varðar, einskorðast því við að standa ekki skil á þessum gjöldum. Eftir gögnum málsins bárust skýrslur og skilagreinar í mörgum þeim tilvikum, sem hér um ræðir, eftir lögboðinn tíma og að hluta var ekki gerð grein fyrir virðisaukaskatti með reglubundnum skýrslum, heldur með leiðréttingarskýrslu 2. maí 2003 vegna virðisaukaskatts ársins 2002. Það fær því þó ekki breytt að félagið tilgreindi þegar upp var staðið allan virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna og hafa ekki verið bornar brigður á að það hafi verið réttilega gert. Eins og áður greinir liggur fyrir að líta megi svo á að full skil hafi verið gerð áður en ákæra var gefin út á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem málið varðar, og á virðisaukaskatti félagsins frá uppgjörstímabilunum mars-apríl til nóvember-desember 2002. Upp í skuld vegna virðisaukaskatts frá uppgjörstímabilinu janúar-febrúar 2003, að höfuðstól 1.252.673 krónur, hafa fengist 379.510 krónur þegar greiðsla á álagi af vangoldnum skatti frá fyrri tímabilum hefur verið metin sem innborgun á þennan höfuðstól. Þetta nægir ekki til að staðin hafi verið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 134/2005, sbr. dóm Hæstaréttar 30. mars 2006 í máli nr. 428/2005, og hefur ekkert haldbært verið að öðru leyti fært fram ákærða Árna Þór til málsbóta. Að öllu þessu virtu verða honum gerð viðurlög vegna brots, sem varðar vanskil á virðisaukaskatti uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 2003, eftir fyrirmælum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um að refsing skuli nema fjárhæð skattsins, 1.252.673 krónum, að lágmarki tvöfaldri og hámarki tífaldri. Um viðurlög fyrir brot ákærða Árna Þórs að öðru leyti, sem varða vanskil á virðisaukaskatti á árinu 2002 að fjárhæð samtals 1.221.408 krónur og vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Ísafoldarhússins ehf. frá janúar til apríl 2003, samtals 1.809.008 krónur, gilda á hinn bóginn þær undanþágur frá framangreindu lágmarki fésektar, sem teknar voru upp með 1. gr. og 3. gr. laga nr. 134/2005. Gegnir sama máli um brot ákærða Kristjáns Ragnars vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins frá maí 2003, að fjárhæð 522.380 krónur.
III.
Í B. kafla ákæru var ákærði Stefán borinn sökum fyrir að hafa hvorki staðið skil á virðisaukaskatti Japís ehf. á uppgjörstímabilunum frá nóvember-desember 2000 til mars-apríl 2001, samtals 7.151.380 krónum, né staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins á tímabilinu frá mars til júní 2001, alls 5.681.914 krónum. Þá var ákærði Kristján Ragnar sóttur til saka fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sama félags á uppgjörstímabilunum frá janúar-febrúar til september-október 2001, samtals 4.097.026 krónum, og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins á tímabilinu frá mars til desember 2001, alls 12.535.303 krónum. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði Stefán sýknaður af sakargiftum vegna vanskila á virðisaukaskatti uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2000, sem var að fjárhæð 5.916.677 krónur. Af hálfu ákæruvaldsins er unað við þá niðurstöðu og snúa því sakir á hendur ákærða Stefáni vegna vanskila á virðisaukaskatti nú eingöngu að uppgjörstímabilunum frá janúar til apríl 2001, samtals 1.234.703 krónum. Samkvæmt dómkröfum af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti hefur fjárhæðin, sem ákærði Stefán er borinn sökum um að hafa ekki staðið skil á vegna staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Japís ehf., að auki verið lækkuð í 5.097.018 krónur, en lækkunin mun svara til þeirrar fjárhæðar, sem haldið var eftir af launum ákærða sjálfs vegna staðgreiðslu opinberra gjalda í mars til júní 2001.
Samkvæmt gögnum málsins keypti Íslenska sjónvarpsfélagið hf. alla hluti í Japís ehf. af fyrri hluthöfum með samningi 6. október 2000, en ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar voru meðal forráðamanna fyrrnefnda félagsins. Ákærði Árni Þór gerði í nafni Japís ehf. ráðningarsamning 9. nóvember 2000 við ákærða Stefán, sem tók að sér starf framkvæmdastjóra í félaginu. Í samningnum var ekki ákvæði um hvenær ákærði Stefán myndi hefja störf hjá félaginu, en óumdeilt virðist vera í málinu að það hafi verið í ársbyrjun 2001. Tilkynnt var til fyrirtækjaskrár 16. nóvember 2000 að ákærða Kristjáni Ragnari hafi verið veitt prókúruumboð fyrir félagið. Þá var tilkynnt til fyrirtækjaskrár 9. febrúar 2001 að á hluthafafundi þann dag hafi B verið kjörinn formaður stjórnar félagsins, en ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar meðstjórnendur. Jafnframt var tilkynnt að ákærði Stefán gegndi starfi framkvæmdastjóra og hefði prókúruumboð fyrir félagið ásamt ákærða Kristjáni Ragnari. Ákærði Stefán gerði samning við félagið 31. júlí 2001 um að hann léti þá þegar af störfum hjá því með nánar tilgreindum kjörum. Fyrirtækjaskrá var tilkynnt þetta 28. september 2001, svo og að ákærði Kristján Ragnar hefði tekið við starfi framkvæmdastjóra og hefði einn prókúruumboð fyrir félagið. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 26. júní 2002.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn 11. júní 2003 á skilum Japís ehf. á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Rannsókninni var lokið með skýrslu 7. nóvember sama ár, en samkvæmt henni var ógreiddur virðisaukaskattur uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2000 að fjárhæð 5.916.677 krónur og samtals 2.862.323 krónur vegna tímabilanna frá júlí til október 2001. Þá var í skýrslunni greint frá vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins í október, nóvember og desember 2001, sem alls hafi numið 2.999.458 krónum, en inn á höfuðstól skuldar vegna fyrstnefnda mánaðarins hafi greiðst 1.087.574 krónur, þannig að eftirstöðvar væru 1.911.884 krónur. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til ríkislögreglustjóra 22. mars 2004. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að virðisaukaskattur Japís ehf. fyrir uppgjörstímabilin frá nóvember 2000 til apríl 2001 og frá júlí til október á sama ári hafi alls verið 10.013.703 krónur og sú fjárhæð öll verið ógreidd á gjalddaga. Eftir hann hafi samtals 2.781.264 krónur fengist upp í skuldina, en að greiddum kostnaði, álagi og dráttarvöxtum stæðu eftir 7.739.941 króna af höfuðstól hennar. Þá var á því byggt varðandi staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins að ekkert hafi verið greitt á gjalddaga vegna greiðslutímabilanna frá mars til desember 2001, en höfuðstóll þeirrar skuldar væri 12.535.303 krónur. Eftir gjalddaga hafi samtals 12.857.871 króna greiðst upp í hana, en að greiddum kostnaði, álagi og dráttarvöxtum stæðu þá eftir 1.873.982 krónur af höfuðstól hennar.
Í málflutningi af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti var gerð frekari grein fyrir fjárhæðum, sem til athugunar eru í þessum þætti málsins. Samkvæmt því hefur skuld vegna virðisaukaskatts á uppgjörstímabilunum frá janúar til apríl 2001 verið greidd að fullu. Inn á höfuðstól skuldar frá uppgjörstímabilinu júlí-ágúst 2001 hafi greiðst 294.469 krónur, auk þess sem greiðsla á álagi að fjárhæð 123.470 krónur vegna fyrri tímabila, sem hér um ræðir, megi skoðast sem innborgun væri á höfuðstól sömu skuldar. Standi því eftir 189.650 krónur af upphaflegum höfuðstólnum, sem var 607.589 krónur. Skuld vegna uppgjörstímabilsins september-október 2001, 2.254.734 krónur, sé á hinn bóginn ógreidd með öllu. Staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna Japís ehf. frá greiðslutímabilunum janúar til október 2001, samtals 10.661.321 króna, hafi verið greidd að fullu. Jafnframt hafi verið greitt álag vegna þeirrar skuldar, 1.066.132 krónur, sem megi líta á sem innborgun á höfuðstól skuldar fyrir nóvember 2001 að fjárhæð 1.069.238 krónur, en þar með sé hún nánast greidd að fullu. Upp í skuld vegna desember 2001, 804.744 krónur, hafi á hinn bóginn ekkert greiðst.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði Stefán hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á virðisaukaskatti Japís ehf. á uppgjörstímabilunum frá janúar til apríl 2001, samtals 1.234.703 krónum, og brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda annarra starfsmanna félagsins en sjálfs sín frá greiðslutímabilunum mars til júní 2001, alls 5.097.018 krónum. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir framburði vitna um afskipti ákærða Kristjáns Ragnars af fjármálum Japís ehf. og daglegum rekstri áður en tilkynnt var til fyrirtækjaskrár að hann hefði tekið þar við starfi framkvæmdastjóra. Hann átti sæti í stjórn félagsins frá 9. febrúar 2001, en hafði einn stjórnarmanna prókúruumboð fyrir það, sem honum var veitt 16. nóvember 2000. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að ákærði Kristján Ragnar hafi gerst sekur um brot gegn sömu lagaákvæðum og áður er getið með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á virðisaukaskatti Japís ehf. á uppgjörstímabilunum frá janúar til apríl og júlí til október 2001, samtals 4.097.026 krónum, og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins frá greiðslutímabilunum mars til desember 2001, alls 12.535.303 krónum.
Við ákvörðun viðurlaga fyrir þessi brot verður farið að með sama hætti og áður greinir í niðurstöðum um A. kafla ákæru, en fyrir liggur að þegar upp var staðið hafði félagið gert grein fyrir öllum virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna þess á tímabilinu, sem málið tekur til, og hefur því ekki verið borið við að það hafi verið ranglega gert. Gjöldin, sem ákærði Stefán er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á innan lögmælts tíma, samtals 6.331.721 króna, eru samkvæmt áðursögðu að fullu greidd og gilda því um viðurlög á hendur honum þær undanþágur frá lágmarki fésektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sem teknar voru upp með 1. gr. og 3. gr. laga nr. 134/2005. Gegnir sama máli um brot ákærða Kristjáns Ragnars vegna vanskila á virðisaukaskatti á uppgjörstímabilunum janúar til apríl 2001 og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Japís ehf. frá janúar til október á sama ári, svo og brot hans vegna virðisaukaskatts á uppgjörstímabilinu júlí-ágúst 2001 og staðgreiðslu opinberra gjalda í nóvember sama ár, enda eru þær skuldir greiddar að verulegum hluta. Brot ákærða Kristjáns Ragnars, sem viðurlög verða ákveðin fyrir á þennan hátt, varða þannig vanskil á gjöldum að fjárhæð samtals 13.572.851 króna. Á hinn bóginn gilda ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um lágmark fésektar um önnur brot ákærða Kristjáns Ragnars, sem taka til vanskila á gjöldum að fjárhæð alls 3.059.478 krónur, enda á hann sér engar haldbærar málsbætur að því er brot þessi varðar. Að því leyti, sem þessum ákærðu verður báðum gerð fésekt vegna vanskila á sömu gjöldum, verður tekið tillit til þess við ákvörðun hennar.
IV.
Í C. kafla ákæru var ákærði Ragnar Orri sóttur til saka fyrir að hafa hvorki staðið skil á virðisaukaskatti Kaffi Le ehf. á uppgjörstímabilunum frá nóvember-desember 2002 til mars-apríl 2003, samtals 6.212.439 krónum, né staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins á tímabilinu frá febrúar til maí 2003, alls 2.819.561 krónu. Þá var ákærða Árna Þór gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sama félags á uppgjörstímabilum frá nóvember 2002 til febrúar 2003, samtals 4.122.867 krónum, og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna þess frá febrúar til apríl 2003, alls 1.958.565 krónum. Ákærði Kristján Ragnar var í þessum efnum borinn sökum um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti félagsins á uppgjörstímabilinu mars-apríl 2003, 2.089.572 krónum, og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna þess í maí sama ár, 860.996 krónum. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu Ragnar Orri og Kristján Ragnar sakfelldir samkvæmt ákæru, en ákærði Árni Þór sýknaður ásamt X, sem borinn var sömu sökum og hann. Sem fyrr segir unir ákæruvaldið við sýknu X, en krefst þess að ákærði Árni Þór verði sakfelldur hér samkvæmt ákæru.
Samkvæmt gögnum málsins tilkynntu ákærði Árni Þór og X til fyrirtækjaskrár 1. febrúar 2002 að þeir hefðu stofnað Kaffi Le ehf., svo og að sá fyrrnefndi hefði verið kjörinn formaður stjórnar, þar sem einnig ættu sæti X og ákærði Ragnar Orri, sem hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og veitt prókúruumboð fyrir það. Fyrir liggur að X tilkynnti til fyrirtækjaskrár 16. maí 2003 að hann hefði sagt sig úr stjórn félagsins. Þá var fyrirtækjaskrá tilkynnt 4. júní 2003 að nýjar samþykktir hafi verið gerðar fyrir Kaffi Le ehf. á hluthafafundi daginn áður, svo og að ákærði Kristján Ragnar hafi þar verið kjörinn stjórnarmaður og honum veitt prókúruumboð, en ákærði Árni Þór kjörinn varamaður í stjórn. Af fyrirliggjandi gögnum úr fyrirtækjaskrá verður ráðið að ákærði Ragnar Orri hafi eftir síðastnefnda tilkynningu áfram verið talinn framkvæmdastjóri félagsins og með prókúruumboð ásamt ákærða Kristjáni Ragnari.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn 2. júlí 2003 á skilum Kaffi Le ehf. á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Rannsókninni var lokið með skýrslu 6. nóvember sama ár. Samkvæmt henni höfðu skuldir, sem félagið hafði staðið í vegna virðisaukaskatts, verið greiddar á því tímamarki að frátöldum skatti uppgjörstímabilsins mars-apríl 2003, sem var að fjárhæð 2.089.572 krónur, en inn á höfuðstól hans höfðu greiðst 1.775.334 krónur. Jafnframt var í skýrslunni greint frá því að skuldir félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna þess á tímabilinu frá febrúar til maí 2003, sem höfðu verið í vanskilum, væru greiddar upp að öðru leyti en því að af höfuðstól skuldar vegna maí, sem upphaflega var 860.996 krónur, stæðu eftir 403.302 krónur. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til ríkislögreglustjóra 22. mars 2004, en áður en til þess kom hafði félagið verið tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2003. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að virðisaukaskattur Kaffi Le ehf. fyrir uppgjörstímabilin frá nóvember-desember 2002 til mars-apríl 2003 hafi alls verið 6.212.439 krónur og að engu leyti greiddur á gjalddaga. Eftir gjalddaga hafi fengist alls 6.763.328 krónur upp í skuldina, sem hafi verið ráðstafað til greiðslu kostnaðar, álags og dráttarvaxta, en að því búnu inn á höfuðstól hennar. Að þessu gerðu stæðu eftir af höfuðstólnum 56.903 krónur vegna virðisaukaskatts uppgjörstímabilsins mars-apríl 2003, sem upphaflega var að fjárhæð 2.089.572 krónur. Vegna staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna hafi félagið á gjalddaga staðið í skuld fyrir tímabilið febrúar til maí 2003, samtals 2.819.561 króna. Eftir gjalddaga hafi sama fjárhæð verið greidd, en henni varið fyrst til uppgjörs á kostnaði, álagi og dráttarvöxtum. Að þeim liðum greiddum hafi staðið eftir 297.736 krónur af höfuðstól skuldar vegna staðgreiðslu fyrir maí 2003, sem upphaflega var að fjárhæð 860.996 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var við flutning málsins fyrir Hæstarétti gerð nánari grein fyrir fjárhæðum, sem þessi þáttur málsins varðar. Samkvæmt því hefur skuld vegna virðisaukaskatts á uppgjörstímabilunum nóvember-desember 2002 og janúar-febrúar 2003 verið greidd að fullu. Inn á höfuðstól skuldar frá uppgjörstímabilinu mars-apríl 2003 hafi greiðst 2.032.669 krónur, en álag, sem greitt hafi verið vegna fyrri tímabilanna tveggja, sé hærra en nemur eftirstöðvum þessarar skuldar, 56.903 krónum, sem megi þannig telja að fullu greidda. Staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna Kaffi Le ehf. frá greiðslutímabilunum febrúar til apríl 2003, samtals 1.958.565 krónur, hafi verið greidd að fullu. Jafnframt hafi verið greitt álag vegna þeirrar skuldar, 195.856 krónur, sem megi líta á sem innborgun á höfuðstól skuldar fyrir maí 2003. Að því gerðu stæðu eftir ógreiddar af höfuðstólnum 101.880 krónur eða sem svarar um 11,8% af honum.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði Ragnar Orri hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á virðisaukaskatti Kaffi Le ehf. á uppgjörstímabilunum frá nóvember 2002 til apríl 2003, samtals 6.212.439 krónum, og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins frá greiðslutímabilunum febrúar til maí 2003, alls 2.819.561 krónu. Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin afskipti ákærða Kristjáns Ragnars af fjármálum og rekstri félagsins áður en hann tók sæti í stjórn þess 3. júní 2003, en frá þeim tíma hafði hann jafnframt prókúruumboð fyrir það. Að þessu gættu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða Kristjáns Ragnars fyrir brot gegn sömu lagaákvæðum og áður var getið með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á virðisaukaskatti Kaffi Le ehf. á uppgjörstímabilinu mars-apríl 2003, 2.089.572 krónum, og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins í maí á sama ári, 860.996 krónum. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu ákærða Árna Þórs af þeim sökum, sem hann er borinn í þessum kafla ákæru.
Við ákvörðun viðurlaga fyrir þessi brot verður eins farið að og í niðurstöðum um A. kafla ákæru, en óumdeilt er að félagið gerði réttilega grein fyrir öllum virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna þess á tímabilunum, sem málið tekur til, þótt skil á skýrslum og skilagreinum hafi í flestum tilvikum dregist nokkuð fram úr lögmæltum tíma. Gjöldin, sem ákærði Ragnar Orri er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á innan lögmælts tíma, samtals 9.032.000 krónur, eru greidd að fullu ef undan er skilin skuld vegna síðasta greiðslutímabils staðgreiðslu opinberra gjalda, sem er greidd að verulegum hluta. Sama máli gegnir um gjöldin, sem ákærði Kristján Ragnar er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á, samtals 2.950.568 krónur. Að því leyti, sem ákærðu verður báðum gerð fésekt vegna vanskila á sömu gjöldum, verður tekið tillit til þess við ákvörðun hennar.
V.
Með D. kafla ákæru er sökum beint að ákærða Kristjáni Ragnari fyrir að hafa hvorki staðið skil á virðisaukaskatti Lífstíls ehf. á uppgjörstímabilunum frá september-október 2002 til mars-apríl 2003, samtals 6.660.410 krónum, né staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins frá desember 2002 til maí 2003, alls 9.507.264 krónum.
Samkvæmt gögnum málsins stofnuðu ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar ásamt X og C félag með heitinu Prisa-Iceland ehf. 11. júlí 2001. C var kjörinn formaður stjórnar félagsins, en aðrir stofnendur voru kjörnir meðstjórnendur. Ákærði Kristján Ragnar var ráðinn framkvæmdastjóri og honum veitt prókúruumboð. Stjórn félagsins tilkynnti til fyrirtækjaskrár 23. júlí 2001 að heiti þess hefði verið breytt á hluthafafundi 12. sama mánaðar í Lífstíll ehf. X og ákærði Árni Þór tilkynntu fyrirtækjaskrá 20. maí 2003 að þeir hefðu sagt sig úr stjórn félagsins og það gerði einnig C 23. sama mánaðar. Þá var tilkynnt til fyrirtækjaskrár 4. júní 2003 að samþykktum félagsins hefði verið breytt og ákærði Kristján Ragnar sæti einn í stjórn þess, en ákærði Árni Þór væri þar varamaður. Hafði sá fyrrnefndi áfram prókúruumboð fyrir félagið og var í fyrirtækjaskrá talinn sem fyrr framkvæmdastjóri þess.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn 2. júlí 2003 á skilum Lífstíls ehf. á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Rannsókninni var lokið með skýrslu 7. nóvember sama ár. Samkvæmt henni höfðu skuldir, sem félagið hafði staðið í vegna virðisaukaskatts á uppgjörstímabilunum nóvember-desember 2002 og janúar-febrúar 2003, verið greiddar að frátöldum 97.129 krónum af höfuðstól skuldar frá síðara tímabilinu, sem upphaflega var 2.757.053 krónur. Á hinn bóginn var með öllu ógreiddur virðisaukaskattur uppgjörstímabilsins mars-apríl 2003, en höfuðstóll hans var 1.255.798 krónur. Í skýrslunni kom einnig fram að staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna félagsins vegna desember 2002, sem verið hafði í vanskilum og var að fjárhæð 3.069.556 krónur, hefði verið gerð upp, en staðgreiðsla frá janúar til maí 2003, samtals að höfuðstól 6.437.708 krónur, væri ógreidd. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til ríkislögreglustjóra 22. mars 2004, en áður hafði bú Lífstíls ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að virðisaukaskattur félagsins fyrir uppgjörstímabilin fjögur frá september 2002 til apríl 2003 hafi alls verið 6.660.410 krónur og ekkert af þeirri fjárhæð greitt á gjalddaga. Eftir gjalddaga hafi fengist alls 6.308.428 krónur upp í skuldina, sem hafi fyrst verið ráðstafað til greiðslu kostnaðar, álags og dráttarvaxta, en að því gerðu upp í höfuðstól skuldar frá einstökum tímabilum. Með þessu hafi skuldir verið að fullu greiddar fyrir þrjú fyrstu uppgjörstímabilin, en upp í höfuðstól skuldar vegna tímabilsins mars-apríl 2003, sem upphaflega var 1.255.798 krónur, hafi greiðst með þessu 11.500 krónur. Þá var þar miðað við að ekkert hafi verið greitt á gjalddaga af staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Lífstíls ehf. vegna desember 2002, sem hafi numið 3.069.556 krónum, eða á greiðslutímabilum frá janúar til maí 2003, samtals að fjárhæð 6.437.708 krónur. Eftir gjalddaga hafi vanskil í desember 2002 verið gerð upp að fullu og að auki greiðst 1.435.143 krónur, sem hafi verið dreift inn á höfuðstól einstakra gjaldatímabila og þannig staðið eftir vanskil á hverju þeirra, samtals að fjárhæð 5.002.565 krónur.
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu ákæruvaldsins gerð frekari grein fyrir þeim fjárhæðum, sem um ræðir í þessum þætti þess. Skuld vegna virðisaukaskatts á uppgjörstímabilunum frá september 2002 til febrúar 2003 hafi verið gerð upp að fullu. Inn á höfuðstól skuldar uppgjörstímabilsins mars-apríl 2003, 1.255.798 krónur, hafi verið greiddar 11.500 krónur, en álag, sem greitt hafi verið vegna tímabilanna frá september 2002 til febrúar 2003, hafi verið 540.461 króna. Megi því líta svo á að greiddar hafi verið samtals 551.961 króna inn á skuldina frá þessu síðasta uppgjörstímabili eða sem næst 44% af höfuðstól hennar. Staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna félagsins vegna desember 2002, 3.069.556 krónur, hafi verið greidd að fullu. Af þeirri fjárhæð, sem greidd hafi verið til að gera upp þá skuld, hafi álag verið 306.956 krónur, sem megi líta á sem innborgun á skuldir frá síðari greiðslutímabilum til viðbótar þeim 1.435.143 krónum, sem greiddar hafi verið í raun. Nægi þetta til að telja skuld vegna staðgreiðslu í janúar 2003, 1.570.160 krónur, upp greidda, en þá standi eftir 171.939 krónur til innborgunar á höfuðstól skuldar vegna febrúar 2003, sem hafi verið 1.626.286 krónur. Upp í skuld vegna greiðslutímabilanna frá mars til maí 2003, samtals 3.241.262 krónur, hafi þar með ekkert fengist greitt.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði Kristján Ragnar hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki á lögboðnum tíma staðið skil á virðisaukaskatti Lífstíls ehf. á uppgjörstímabilunum frá september 2002 til apríl 2003, samtals 6.640.410 krónum, og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins á greiðslutímabilum frá desember 2002 til maí 2003, alls 9.507.264 krónum.
Við ákvörðun viðurlaga fyrir þau brot, sem hér um ræðir, verður farið eins að og í niðurstöðum um A. kafla ákæru. Óumdeilt er að félagið gerði réttilega grein fyrir öllum virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna þess á tímabilunum, sem D. kafli ákærunnar varðar, þótt skil á skýrslum og skilagreinum hafi í fæstum tilvikum verið gerð á réttum tíma og vegna eins uppgjörstímabils hafi orðið að styðjast við leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts ársins 2002, sem dagsett var 2. maí 2003. Virðisaukaskattur á uppgjörstímabilunum frá september 2002 til febrúar 2003, sem ákærði Kristján Ragnar er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á innan lögmælts tíma, samtals 5.404.612 krónur, er að fullu greiddur og er skuld vegna tímabilsins mars-apríl 2003, 1.255.798 krónur, greidd að verulegum hluta. Gildir því um viðurlög á hendur honum fyrir þessi brot, sem varða samanlagt 6.660.410 krónur, sú undanþága frá lágmarki fésektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sem tekin var upp með 3. gr. laga nr. 134/2005. Staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna Lífstíls ehf. frá desember 2002 og janúar 2003, alls 4.639.716 krónur, getur samkvæmt áðursögðu talist að fullu greidd. Gildir því um viðurlög fyrir brot ákærða að þessu leyti undanþágan, sem gerð hefur verið frá sektarlágmarki samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með 1. gr. laga nr. 134/2005. Staðgreiðsla vegna febrúar 2003 hefur á hinn bóginn aðeins verið greidd að óverulegu leyti og ekkert hefur greiðst inn á skuldir tímabilsins frá mars til maí á sama ári. Gildir því regla 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um lágmark fésektar um brot ákærða að þessu leyti, sem taka til vanskila á samtals 4.867.548 krónum, enda á ákærði sér engar haldbærar málsbætur.
VI.
Í E. kafla ákæru var ákærða Kristjáni Ragnari gefið að sök að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Planet Reykjavíkur ehf. á greiðslutímabilum frá janúar til maí 2003, samtals 3.452.383 krónum. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af sakargiftum, sem vörðuðu staðgreiðslu opinberra gjalda í janúar, febrúar og mars 2003, en sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu mánaðanna apríl og maí á sama ári, alls 1.548.502 krónum. Af hálfu ákæruvaldsins er unað við niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða að framangreindu leyti og varðar því þessi þáttur málsins eingöngu þær sakir, sem hann var þar sakfelldur fyrir.
Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, tilkynnti Lífstíll ehf. til fyrirtækjaskrár 17. september 2002 að félagið hefði stofnað Planet Reykjavík ehf. Formaður stjórnar þessa nýja félags hefði verið kjörinn ákærði Árni Þór, en ákærði Kristján Ragnar meðstjórnandi ásamt þeim X og C. Hafi C verið ráðinn framkvæmdastjóri og fengið prókúruumboð fyrir félagið. Fyrirtækjaskrá bárust 20. maí 2003 tilkynningar frá X og ákærða Árna Þór um að þeir hefðu sagt sig úr félagsstjórn. Þá barst einnig tilkynning 4. júní sama ár um að á hluthafafundi daginn áður hafi samþykktum félagsins verið breytt og ákærði Kristján Ragnar kjörinn stjórnarmaður, en ákærði Árni Þór varamaður hans. Hafi þeim fyrrnefnda jafnframt verið veitt prókúruumboð. Fyrir liggur að eftir þessa breytingu hafi C eftir sem áður verið talinn framkvæmdastjóri félagsins í fyrirtækjaskrá og með prókúruumboð ásamt ákærða Kristjáni Ragnari, en samkvæmt gögnum málsins mun C hafa selt hlut sinn í Lífstíl ehf. 13. desember 2002 og bar hann því við undir rannsókn málsins að eftir það hefði hann ekkert skipt sér af því félagi eða Planet Reykjavík ehf.
Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn 2. júlí 2003 á skilum Planet Reykjavíkur ehf. á staðgreiðslu opinberra gjalda og lauk henni með skýrslu 5. nóvember 2003. Samkvæmt skýrslunni voru vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins vegna greiðslutímabilsins maí 2003, en hún hafi verið að höfuðstól 607.453 krónur og upp í hann greiðst 305.435 krónur. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til ríkislögreglustjóra 22. mars 2004, en áður hafði bú félagsins verið tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2003. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að á greiðslutímabilunum frá janúar til maí 2003 hafi staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna Planet Reykjavíkur ehf., samtals 3.452.383 krónur, í engu tilviki verið greidd á gjalddaga. Félagið hafi á hinn bóginn greitt eftir gjalddaga alls 3.644.490 krónur, sem eftir uppgjör á kostnaði, álagi og dráttarvöxtum hafi hrokkið fyrir höfuðstól skuldar vegna fjögurra fyrstu mánaðanna og innborgunar að fjárhæð 379.914 krónur á skuld vegna þess fimmta. Samkvæmt málflutningi af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti greiddi félagið 94.105 krónur í álag vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á greiðslutímabilunum janúar til apríl 2003 og megi líta á þá fjárhæð sem innborgun væri á höfuðstól skuldar vegna maí sama ár. Í samræmi við allt framangreint verður lagt til grundvallar að staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna Planet Reykjavíkur ehf. í apríl 2003 hafi verið gerð upp að fullu, en upp í höfuðstól skuldar vegna maí, 607.453 krónur, hafi greiðst alls 474.019 krónur eða rúmlega 78%.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði Kristján Ragnar hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að standa ekki á lögmæltum tíma skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Planet Reykjavíkur ehf. frá greiðslutímabilunum apríl og maí 2003, samtals 1.548.502 krónum. Við ákvörðun viðurlaga fyrir þessi brot verður farið að með sama hætti og áður greinir í niðurstöðum um A. kafla ákæru. Fyrir liggur að félagið afhenti skilagreinar vegna þessara gjalda og er því ekki borið við að þau hafi verið ranglega tilgreind, en óverulegur dráttur var á skilum beggja skilagreinanna. Gjöldin vegna apríl 2003 eru samkvæmt áðursögðu að fullu greidd og gjöldin frá maí að verulegum hluta. Gildir því um viðurlög ákærða fyrir þessi brot undanþágan frá lágmarki fésektar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sem tekin var upp með 1. gr. laga nr. 134/2005.
VII.
Samkvæmt framansögðu eru ákærðu allir sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Í ákæru eru brot þeirra jafnframt talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, og var á þá heimfærslu fallist í hinum áfrýjaða dómi. Um þetta er til þess að líta að um viðurlög fyrir brotin, sem ákærðu Ragnar Orri og Stefán eru sakfelldir fyrir, gilda undanþágurnar frá lágmarki fésektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sem teknar voru upp með 1. gr. og 3. gr. laga nr. 134/2005. Verða brot þessara ákærðu því ekki talin meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. dóm Hæstaréttar 30. mars 2006 í máli nr. 469/2005. Brot ákærða Árna Þórs eru að hluta slík að umræddar undanþágur eiga við um þau, en öðru máli gegnir um brot hans gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sem varðar vanskil á 1.252.673 krónum, sbr. A. kafla ákæru. Á hinn bóginn er hvorki fjárhæðin, sem það brot tók til, né atvik að því að öðru leyti slík að það geti varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Viðurlög fyrir flest brotin, sem ákærði Kristján Ragnar er sakfelldur fyrir, verða ákveðin á grundvelli undanþága frá lágmarki fésektar, en það gildir þó ekki um hluta brota hans, sem um ræðir í B. og D. kafla ákæru og taka til vanskila á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð samtals 7.927.026 krónur. Að þessu virtu og með því að brot ákærða Kristjáns Ragnars eru að auki framin í rekstri fimm félaga verða þau talin meiri háttar og varða þannig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga ásamt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.
Ákærðu Árni Þór, Kristján Ragnar og Ragnar Orri voru allir dæmdir til fangelsisrefsingar fyrir brot gegn almennum hegningarlögum með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2005 í máli nr. 347/2004. Að öðru leyti hefur sá fyrstnefndi ekki áður sætt refsingu og hinir tveir síðarnefndu ekki svo að máli skipti við ákvörðun refsingar nú. Ákærði Stefán hefur ekki áður verið sakfelldur fyrir brot. Þegar þetta er virt og horft til þeirra ákvæða 70. gr. almennra hegningarlaga, sem átt geta hér við, verður ákærði Árni Þór dæmdur til að greiða sekt að fjárhæð 2.800.000 krónur, ákærði Ragnar Orri 750.000 krónur og ákærði Stefán 300.000 krónur. Brot ákærða Kristjáns Ragnars varða sem áður segir meðal annars við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Með áðurnefndum dómi Hæstaréttar var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 18 mánuði, en brotin, sem hann er nú sakfelldur fyrir, voru framin áður en sá dómur gekk. Um ákvörðun refsingar hans nú gilda því ákvæði 78. gr. almennra hegningarlaga. Ekki eru efni til að telja að honum hefði verið gerð þyngri fangelsisrefsing í þeim dómi ef dæmt hefði verið um öll brotin þar. Hann verður á hinn bóginn dæmdur til greiðslu sektar, sem er hæfilega ákveðin 18.500.000 krónur. Um vararefsingu allra ákærðu fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 38. gr. laga nr. 36/1999, verður að fella allan áfrýjunarkostnað málsins á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, sem ákveðin eru eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, Árni Þór Vigfússon, greiði 2.800.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 72 daga.
Ákærði, Kristján Ragnar Kristjánsson, greiði 18.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 9 mánuði.
Ákærði, Ragnar Orri Benediktsson, greiði 750.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 34 daga.
Ákærði, Stefán Hjörleifsson, greiði 300.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 22 daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Gests Jónssonar, Brynjars Níelssonar, Sigmundar Hannessonar og Helga Jóhannessonar, 200.000 krónur í hlut hvers.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2005.
Mál þetta sem dómtekið var 19. maí sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 22. desember 2004 á hendur Árna Þór Vigfússyni, Grundastíg 24, Reykjavík, kt. [...], Kristjáni Ragnari Kristjánssyni, Hverfisgötu 52, Reykjavík, kt. [...], Ragnari Orra Benediktssyni, Bæjargili 26, Garðabæ, kt. [...], Stefáni Hjörleifssyni, Melbæ 36, Reykjavík, kt. [...] og X, [...], kt. [...].
A.
Á hendur Árna Þór Vigfússyni og Kristjáni Ragnari Kristjánssyni,
fyrir brot framin í rekstri Ísafoldarhússins ehf.
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærða Árna Þór sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni Ísafoldarhússins ehf., kt. 670302-4230, sem úrskurðað var gjaldþrota 18. desember 2003, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2002 og 2003 samtals að fjárhæð kr. 2.474.081 og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Árið 2002
Mars - apríl kr. 65.547
Maí - júní kr. 410.280
Júlí - ágúst kr. 147.223
September - október kr. 239.878
Nóvember - desember kr. 358.480 kr. 1.221.408
Árið 2003
Janúar - febrúar kr. 1.252.673 kr. 1.252.673
Samtals: kr. 2.474.081
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Ákærða Árna Þór sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni frá 20. júlí 2002 til 3. júní 2003 og frá þeim tíma ákærða Kristjáni Ragnari sem stjórnarmanni Ísafoldarhússins ehf. eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Ísafoldarhússins ehf. á árinu 2003 samtals að fjárhæð kr. 2.331.388 og sundurliðast sem hér segir:
Greiðslutímabil:
Árið 2003
Janúar kr. 491.407
Febrúar kr. 596.390
Mars kr. 347.926
Apríl kr. 373.285
Maí kr. 522.380 kr. 2.331.388
Samtals: kr. 2.331.388
B.
Á hendur Kristjáni Ragnari Kristjánssyni og Stefáni Hjörleifssyni,
fyrir brot framin í rekstri Japís ehf.
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærða Stefáni er gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri frá 9. nóvember 2000 til 31. júlí 2001 og frá þeim tíma ákærða Kristjáni Ragnari sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni frá 9. febrúar 2001 fyrir Japís ehf., kt. 631087-2569, sem úrskurðað var gjaldþrota 26. júní 2002, brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2000 og 2001 samtals að fjárhæð kr. 10.013.703 og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Árið 2000
Nóvember - desember kr. 5.916.677 kr. 5.916.677
Árið 2001
Janúar - febrúar kr. 981.914
Mars - apríl kr. 252.789
Júlí - ágúst kr. 607.589
September - október kr. 2.254.734 kr. 4.097.026
Samtals: kr. 10.013.703
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Ákærðu báðum er gefið að sök að hafa í stöðu þeirri sem lýst er hér að framan og þeir gegndu hjá Japís ehf., brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Japís ehf. á árinu 2001 samtals að fjárhæð kr. 12.535.303 og sundurliðast sem hér segir:
Greiðslutímabil:
Árið 2001
Mars kr. 1.454.135
Apríl kr. 1.459.687
Maí kr. 1.482.871
Júní kr. 1.285.221
Júlí kr. 1.341.943
Ágúst kr. 1.217.516
September kr. 1.294.472
Október kr. 1.125.476
Nóvember kr. 1.069.238
Desember kr. 804.744 kr. 12.535.303
Samtals: kr. 12.535.303
C.
Á hendur Árna Þór Sigfússyni, Kristjáni Ragnari Kristjánssyni, Ragnari Orra Benediktssyni og X,
fyrir brot framin í rekstri Kaffi Le ehf.
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærða Ragnari Orra sem framkvæmdastjóra, ákærða Árna Þór sem stjórnarmanni frá 30. janúar 2002 til 3. júní 2003, og frá þeim tíma ákærða Kristjáni Ragnari sem stjórnarmanni og ákærða X sem stjórnarmanni frá 30. janúar 2002 til 16. maí 2003 fyrir Kaffi Le ehf., kt. 410202-4680, sem úrskurðað var gjaldþrota 18. desember 2003 er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2002 og 2003 samtals að fjárhæð kr. 6.212.439 og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Árið 2002
Nóvember - desember kr. 1.661.659 kr. 1.661.659
Árið 2003
Janúar - febrúar kr. 2.461.208
Mars - apríl kr. 2.089.572 kr. 4.550.780
Samtals: kr. 6.212.439
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Ákærðu öllum er gefið að sök að hafa í stöðu þeirri sem lýst er hér að framan og þeir gegndu fyrir Kaffi Le ehf. brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Kaffi Le ehf. á árinu 2003 samtals að fjárhæð kr. 2.819.561 og sundurliðast sem hér segir:
Greiðslutímabil:
Árið 2003
Febrúar kr. 645.302
Mars kr. 613.562
Apríl kr. 699.701
Maí kr. 860.996 kr. 2.819.561
Samtals: kr. 2.819.561
D.
Á hendur Kristjáni Ragnari Kristjánssyni,
fyrir brot framin í rekstri Lífstíls ehf.
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærða Kristjáni Ragnari sem framkvæmdastjóra Lífstíls ehf., kt. 630701-2360, sem úrskurðað var gjaldþrota 5. nóvember 2003, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2002 og 2003 samtals að fjárhæð kr. 6.660.410 og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Árið 2002
September - október kr. 958.732
Nóvember - desember kr. 1.688.827 kr. 2.647.559
Árið 2003
Janúar - febrúar kr. 2.757.053
Mars - apríl kr. 1.255.798 kr. 4.012.851
Samtals: kr. 6.660.410
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Ákærða Kristjáni Ragnari eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Lífstíls ehf. á árunum 2002 og 2003 samtals að fjárhæð kr. 9.507.264 og sundurliðast sem hér segir:
Greiðslutímabil:
Árið 2002
Desember kr. 3.069.556 kr. 3.069.556
Árið 2003
Janúar kr. 1.570.160
Febrúar kr. 1.626.286
Mars kr. 1.789.904
Apríl kr. 658.563
Maí kr. 792.795 kr. 6.437.708
Samtals: kr. 9.507.264
E.
Á hendur Kristjáni Ragnari Kristjánssyni,
fyrir brot framin í rekstri Planet Reykjavíkur ehf.
I. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Ákærða Kristjáni Ragnari sem stjórnarmanni og daglegum stjórnanda Planet Reykjavík ehf., kt. 580902-3320, sem úrskurðuð var gjaldþrota 18. desember 2003, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins á árinu 2003 samtals að fjárhæð kr. 3.452.383 og sundurliðast sem hér segir:
Greiðslutímabil:
Árið 2003
Janúar kr. 532.706
Febrúar kr. 689.929
Mars kr. 672.246
Apríl kr. 941.049
Maí kr. 607.453 kr. 3.452.383
Samtals: kr. 3.452.383
F.
Heimfærsla til refsiákvæða
Framangreind brot ákærðu samkvæmt liðum I. í A, B, C og D köflum ákæru teljast varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.
Framangreind brot ákærðu samkvæmt liðum II. í A, B, C, og D köflum ákæru og lið I í E kafla ákæru teljast varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot.
Verjandi ákærða, Kristjáns Ragnars Kristjánssonar, krefst þess að ákærði verði alfarið sýknaður af ákæruatriðum í ákæruliðum A, B, C og E. Jafnframt krefst hann að ákærði verði sýknaður af þeim ákæruatriðum í ákærulið D sem lúta að vanskilum á staðgreiðslu mánaðanna mars, apríl og maí 2003 en að öðru leyti krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Jafnframt krefst hann málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða, Stefáns Hjörleifssonar, krefst þess að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður, þar á meðal málsvarnarlaun hans samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, verði greiddur úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða, X, krefst þess að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður, þar á meðal málsvarnarlaun hans samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, verði greiddur úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða, Árna Þórs Vigfússonar, krefst þess aðallega að hann verði alfarið sýknaður, en til vara að hann verði sýknaður af ætluðum brotum gegn hegningarlögum og þá að refsing verði ákvörðuð eins væg og lög frekast leyfa. Jafnframt krefst hann málsvarnarlauna að mati dómsins úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða, Ragnars Orra Benediktssonar, krefst þess aðallega að hann verði alfarið sýknaður, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast leyfa. Jafnframt krefst hann þess að réttargæslu- og málsvarnarlaun hans verði greidd úr ríkissjóði.
Málavextir.
Ákærukafli A.
Þann 2. júlí 2003 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins formlega rannsókn á skattskilum Ísafoldarhússins ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá Hagstofu Íslands var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsókn skattrannsóknarstjóra náði til almennur veitingarekstur. Var X skráður stjórnarformaður félagsins frá 20. mars 2002 til 19. maí 2003, ákærði Árni Þór meðstjórnandi og framkvæmdastjóri með prókúruumboð frá 20. mars 2002 til 3. júní 2003, en varamaður í stjórninni frá þeim degi. Þá var ákærði Kristján Ragnar skráður stjórnarmaður í félaginu frá 3. júní 2003.
Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins var að ákærði Árni Þór, fyrrum forsvarsmaður félagsins, hefði vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á þeim virðisaukaskatti sem honum hafi borið að standa skil á fyrir hönd félagsins vegna uppgjörstímabilsins janúar-febrúar tekjuárið 2003. Þá hafi ákærði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir hönd félagsins á lögmæltum tíma til innheimtumanns ríkissjóðs vegna þess tímabils. Nam höfuðstólsfjárhæð vangoldins virðisaukaskatts samkvæmt rannsókninni 1.182.385 krónum
Jafnframt komst skattrannsóknarstjóri að þeirri niðurstöðu að ákærði Kristján Ragnar, fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins, hefði vanrækt að standa skil á staðgreiðsluskilagrein á lögmæltum tíma vegna maímánaðar tekjuárið 2003. Einnig hafi hann vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á þeirri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins, sem honum bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs fyrir hönd félagsins, vegna sama mánaðar. Nam fjárhæð vanskilanna þann 15. ágúst 2003 samkvæmt rannsókninni 191.026 krónum að höfuðstól. Ekkert reyndist hafa verið greitt inn á þessa skuld félagsins eftir 15. ágúst 2003.
Með bréfi, dags. 11. nóvember 2003, var skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins send ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda þess embættis. Barst svarbréf frá ríkisskattstjóra þann 13. sama mánaðar um að það embætti hygðist ekki endurákvarða skattfjárhæðir í málinu.
Bú Ísafoldarhússins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann 18. desember 2003.
Vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málinu til opinberrar rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra þann 22. mars 2004.
Ákærukafli B.
Þann 11. júní 2003 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins formlega rannsókn á skattskilum Japis ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá Hagstofu Íslands var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsókn skattrannsóknarstjóra náði til innflutningur, heildverslun og smásala á hljómplötum, geisladiskum, myndböndum, tölvuleikjum, refeindatækjum og heimilistækjum ásamt skyldum vörum og hlutum þeirra svo og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyldur rekstur. Var Pétur Steingrímsson skráður stjórnarmaður félagsins til 9. febrúar 2001, A meðstjórnandi og framkvæmdastjóri með prókúruumboð frá 11. desember 1995 til 9. febrúar 2001, ákærði, Kristján Ragnar, með prókúruumboð í félaginum frá 16. nóvember 2000, meðstjórnandi í því frá 9. febrúar 2001 og framkvæmdastjóri frá 28. september 2001, B, stjórnarformaður í félaginu frá 9. febrúar 2001, ákærði, Árni Þór, meðstjórnandi í félaginu frá 9. febrúar 2001 og ákærði Stefán, skráður framkvæmdastjóri þess með prókúruumboð frá 9. febrúar 2001 til 28. september 2001. Samkvæmt ráðningar- og starfslokasamningum skyldi hann hins vegar teljast framkvæmdastjóri félagsins frá 9. nóvember 2000 til 31. júlí 2001.
Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins var að ákærði, Kristján Ragnar, fyrrum forsvarsmaður félagsins, hefði vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á þeim innheimta virðisaukaskatti sem honum hafi borið að standa skil á fyrir hönd félagsins vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember tekjuárið 2000 og júlí-ágúst og septemberoktóber tekjuárið 2001. Þá hafi ákærði, Kristján Ragnar, ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins á lögmæltum tíma til innheimtumanns ríkissjóðs vegna tímabilanna, nóvember-desember 2000 og júlí-ágúst og september-október 2001. Þá hafi ákærði Kristjáns Ragnar, ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu. Nam höfuðstólsfjárhæð vangoldins virðisaukaskatts samkvæmt rannsókninni 8.779.000 krónum.
Jafnframt komst skattrannsóknarstjóri að þeirri niðurstöðu að ákærði, Kristján Ragnar, hefði vanrækt að standa skil á staðgreiðsluskilagrein á lögmæltum tíma vegna mánaðanna október, nóvember og desember tekjuárið 2001. Einnig hafi hann vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á þeirri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins, sem honum bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs fyrir hönd félagsins, vegna sömu mánaða. Nam fjárhæð vanskilanna þann 11. júní 2003 samkvæmt rannsókninni 1.911.884 krónum að höfuðstól. Ekkert reyndist hafa verið greitt inn á þessa skuld félagsins eftir framangreindan dag.
Með bréfi, dags. 11. nóvember 2003, var skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins send ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda þess embættis. Barst svarbréf frá ríkisskattstjóra þann 13. sama mánaðar um að það embætti hygðist ekki endurákvarða skattfjárhæðir í málinu.
Bú Japis ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann 26. júní 2002.
Þann 22. mars 2004 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málinu til opinberrar rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra.
Ákærukafli C.
Þann 2. júlí 2003 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins formlega rannsókn á skattskilum Kaffi Le ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá Hagstofu Íslands var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsókn skattrannsóknarstjóra náði til almennur inn- og útflutningur, fjárfestingar, veitingarekstur, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og fjölmiðlarekstur. Var ákærði, Árni Þór, skráður stjórnarformaður í félaginu frá 30. janúar 2002 til 3. júní 2003, ákærði, Ragnar Orri, var skráður meðstjórnandi í félaginu frá 30. janúar 2002 til 3. júní 2003 og framkvæmdastjóri þess með prókúruumboð frá 30. janúar 2002 til 16. júní 2003. Ákærði, X, var meðstjórnandi frá 30. janúar 2002 til 16. maí 2002 og ákærði, Kristján Ragnar, var stjórnarmaður með prókúruumboð frá 3. júní 2003 til 16. júní 2003.
Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins var að ákærði, Kristján Ragnar, fyrrum forsvarsmaður félagsins, hafi vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á þeim innheimta virðisaukaskatti sem honum hafi borið að standa skil á fyrir hönd félagsins vegna uppgjörstímabilsins mars-apríl tekjuárið 2003 og júlí-ágúst og september-október tekjuárið 2001. Þá hafi ákærði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins vegna sama tímabils. Nam höfuðstólsfjárhæð vangoldins innheimts virðisaukaskatts samkvæmt rannsókninni 314.238 krónum.
Jafnframt komst skattrannsóknarstjóri að þeirri niðurstöðu að ákærði, Kristján Ragnar, hefði vanrækt að standa skil á staðgreiðsluskilagrein á lögmæltum tíma vegna maímánaðar tekjuárið 2003. Einnig hafi hann vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á þeirri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins, sem honum bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs fyrir hönd félagsins, vegna sama mánaðar. Nam fjárhæð vanskilanna þann 15. ágúst 2003 samkvæmt rannsókninni 403.302 krónum að höfuðstól. Ekkert reyndist hafa verið greitt inn á þessa skuld félagsins eftir framangreindan dag.
Bú Kaffi Le ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 18. desember 2003.
Þann 22. mars 2004 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málinu til opinberrar rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra.
Ákærukafli D.
Þann 2. júlí 2003 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins formlega rannsókn á skattskilum Lífstíls ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá Hagstofu Íslands var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsókn skattrannsóknarstjóra náði til kaup og rekstur hlutafélaga í veitingarekstri, innflutningur og skyldur rekstur. Enn fremur lánastarfsemi, fasteignaviðskipti og önnur fjármálaviðskipti. Var ákærði, C, skráður stjórnarformaður í félaginu frá 11. júlí 2001 til 23. maí 2003, ákærði, Kristján Ragnar, var skráður meðstjórnandi í félaginu og framkvæmdastjóri með prókúruumboð frá 11. júlí 2001 til 16. maí 2003. Ákærði, X, var skráður meðstjórnandi í félaginu frá 11. júlí 2001 til 16. maí 2003. Ákærði, Árni Þór, var meðstjórnandi frá 11. júlí 2001 til 20. maí 2003 en varamaður í stjórn frá 3. júní 2003.
Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins var að ákærði, Kristján Ragnar, fyrrum forsvarsmaður félagsins, hafi vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á þeim innheimta virðisaukaskatti sem honum hafi borið að standa skil á fyrir hönd félagsins vegna uppgjörstímabilsins janúar-febrúar og mars-apríl tekjuárið 2003. Þá hafi ákærði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila. Nam höfuðstólsfjárhæð vangoldins innheimts virðisaukaskatts samkvæmt rannsókninni þann 6. nóvember 2003 1.352.927 krónum. Eftir fyrrgreint tímamark reyndust 11.500 krónur hafa verið greiddar inn á heildarskuldina vegna virðisaukaskattsins en þeirri greiðslu var ráðstafað inn á dráttarvexti, álag og kostnað.
Jafnframt komst skattrannsóknarstjóri að þeirri niðurstöðu að ákærði, Kristján Ragnar, hefði vanrækt að standa skil á staðgreiðsluskilagrein á lögmæltum tíma vegna janúar, febrúar, mars, apríl og maí tekjuárið 2003. Einnig hafi hann vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á þeirri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins, sem honum bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs fyrir hönd félagsins, vegna fyrrgreindra tímabila. Nam fjárhæð vanskilanna þann 6. nóvember 2003 samkvæmt rannsókninni 6.437.708 krónum að höfuðstól. Innborganir á skuldina eftir þetta tímamark reyndust 1.435.143 krónur. Þar af hafði 3.695 krónum verið ráðstafað inn á höfuðstólinn en að öðru leyti hafði þeim verið ráðstafað inn á dráttarvexti, álag og kostnað.
Bú Lífstíls ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 5. nóvember 2003.
Þann 22. mars 2004 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málinu til opinberrar rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra.
Ákæruliður E.
Þann 2. júlí 2003 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins formlega rannsókn á skattskilum Planet Reykjavíkur ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá Hagstofu Íslands var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsókn skattrannsóknarstjóra náði til kaup og rekstur líkamsræktarstöðva og innflutningur á heilsuvörum. Var ákærði, Árni Þór, skráður stjórnarformaður í félaginu frá 11. september 2002 til 20. maí 2003, en varamaður í stjórn frá 3. til 16. júní 2003. Ákærði, X, var skráður meðstjórnandi í félaginu frá 11. september 2002 til 16. maí 2003. Ákærði, Kristján Ragnar, var skráður meðstjórnandi í félaginu frá 11. september 2002 til 3. júní 2003, en stjórnarmaður með prókúruumboð frá 3. til 16. júní 2003. C var framkvæmdastjóri félagsins með prókúruumboð frá 11. september 2002 til 16. júní 2003.
Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins var að ákærðu, Árni Þór og Kristján Ragnar, fyrrum forsvarsmenn félagsins, hefðu vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á staðgreiðsluskilagrein á lögmæltum tíma vegna maí tekjuárið 2003. Einnig hafi þeir vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á þeirri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins, sem þeim bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs fyrir hönd félagsins, vegna fyrrgreinds tímabils. Nam fjárhæð vanskilanna þann 15. ágúst 2003 samkvæmt rannsókninni 302.018 krónum að höfuðstól. Ekkert reyndist hafa verið greitt inn á þessa skuld félagsins eftir framangreindan dag.
Bú Planet Reykjavíkur ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 18. desember 2003.
Þann 22. mars 2004 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málinu til opinberrar rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra.
Framburðir ákærðu og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Kristján Ragnar Kristjánsson, staðfesti að hann hefði verið stjórnarmaður í Ísafoldarhúsinu ehf. frá 3. júní 2003. Kvaðst hann hafa komið inn í stjórnina daginn eftir að hann kom úr gæsluvarðhaldi vegna svokallaðs Landssímamáls. Hafi félagið þá verið að hætta starfsemi og hafi hans verkefni verið að koma eignum þess í verð til að það gæti staðið skil á vörslusköttum og hafi aðrir stjórnarmenn og framkvæmdastjóri verið afskráðir á sama tíma. Hafi hann því verið einn stjórnarmaður á þessum tíma og framkvæmdastjóri hafi þá heldur ekki verið í félaginu. Kvaðst hann hafa gert þetta eftir ráðleggingu tveggja lögmanna þar eð með því væri hann ekki að skapa sér neina ábyrgð. Aðspurður um fjárhæðir kvaðst ákærði vísa í gögn sem verjandi hans hafi lagt fram en þau hafi verið unnin í samráði við Tollstjórann í Reykjavík á þremur fundum sem hann hafi átt með honum. Hann kvaðst telja þær fjárhæðir réttar. Ákærði sagði að hann myndi ekki hvort hann hafi vitað 3. júní 2003 hver fjárhæð skuldanna var en honum hafi verið kunnugt um vanskil á þessum gjöldum enda hafi það verið ástæðan fyrir því að hann tók þetta verk að sér.
Ákærði, Kristján Ragnar, sagði aðspurður að Ísafoldarhúsið ehf. hafi verið hluti af samsteypu félaga og Lífstíll ehf. verið einskonar móðurfélag þeirra. Hafi starfsfólk Lífstíls ehf. haldið utan um bókhald allra félaganna og hafi stjórnendur þess í raun stjórnað öllum undirfélögunum nánast sem einu félagi. C hafi stjórnað þessari samsteypu fram til áramótanna 2002-2003 en síðan hafi D tekið við. Sjálfur kvaðst ákærði hafa tekið við stjórninni í apríl 2003 eftir að ljóst hafi verið að rekstur félaganna væri kominn í óefni. Ákærði sagði meðákærða, Árna Þór, ekki hafa verið starfandi framkvæmdastjóra. Megi vel vera að hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Ísafoldarhúsinu ehf. en staða hans hafi í raun ekki verið slík. Ákærði kvaðst ekki vita af hverju meðákærði, Árni Þór, hafi verið skráður með þessum hætti í upphafi.
Varðandi B kafla ákæru sagði ákærði, Kristján Ragnar, að meðákærði, Stefán, hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri hjá Japis ehf. á árinu 2000 og hafi hann starfað sem slíkur þar til honum var sagt upp í júlí 2001. Líklega mætti í þessu sambandi miða við dagsetningar á ráðningar- og starfslokasamningum Stefáns. Ákærði sagði að hann hafi vitað að meðákærði, Stefán, væri í öðru starfi þegar hann var ráðinn og því hafi hann ekki byrjað að fullu fyrr en eftir áramótin. Ákærði sagði meðákærða, Stefán, hafa verið framkvæmdastjóra Hljóðrita og hafa stýrt því félagi og fjármálunum þar. Hafi hann því væntanlega verið ráðinn til Japis ehf. þar sem hann hafi verið metinn hæfur í verkið. Meðákærði, Stefán, hafi verið í erfiðari stöðu frá upphafi starfs síns hjá félaginu og hafi verið erfitt fyrir hann sem framkvæmdastjóra að ná tökum á rekstrinum á þessum stutta tíma. Ákærði kvaðst hafa verið skráður sem framkvæmdastjóri félagsins þegar meðákærði, Stefán, hafi verið afskráður sem slíkur og hafi hann eingöngu ætlað að koma inn tímabundið. Hafi hann starfað þar líklega í þrjár vikur í ágúst sem framkvæmdastjóri en eftir það hafi hann horfið til starfa sinna sem fjármálastjóri Skjás eins.
Ákærði skýrði frá því að hann hafi í janúar 2002 verið kallaður til fundar með B vegna skulda á vörslufé. Hann sagði fundarmenn hafa verið einhuga um að leggjast á eitt með að ganga frá þessum skuldum. Hafi E og F, starfsmaður G., tekið að sér að finna út hver staða þessara skulda væri. Á grundvelli upplýsinga frá þeim hafi síðan verið farið í að greiða að fullu höfuðstól þessara skulda og hafi þá verið látið fylgja með greiðslunum að þær ættu að fara upp í höfuðstól staðgreiðslu og virðisaukaskatts. Það fé sem notað hafi verið til þessa hafi ýmist verið fengið að láni frá velgerðarmönnum eða eigendurnir lagt fram sína eigin peninga í þessu skyni. Hann sagði menn hafa talið sig vera að greiða þarna upp öll vanskil. Ákærði sagði að eftir þetta hafi svo komið endurmatsskýrsla vegna virðisaukaskattsins sem E, sem starfað hefði sem fjármálastjóri félagsins frá mars 2002 og framkvæmdastjóri frá haustinu, hafi ekki vitað um né getað gefið skýringu á hvernig gat hafa gerst.
Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa annast gerð virðisaukaskattskýrslna í einhverju þessara félaga eða skil þeirra sem slíkra. Hann kvaðst hafa skrifað undir einhverjar skýrslur, sérstaklega í Japis ehf., ef hann muni rétt í janúar eða febrúar 2002, þegar félagið var komið í þrot. Hann muni ekki eftir að hafa skrifað undir aðrar skýrslur. Hann kvaðst ekki hafa unnið við bókhald. Ákærði sagði að sér skiljist að hann hafi haft prókúruumboð fyrir Japis ehf. en hann viti ekki til þess að hafa notað það.
Varðandi C kafla ákæru vísaði ákærði í framburð sinn um Ísafoldarhúsið ehf. Hann hafi verið að reyna að gera verðmæti úr því sem búið hafi verið að skemma mikið og reynt að borga vörsluskatta. Hann sagði aðspurður um stöðu meðákærðu hjá Kaffil Le ehf. að hann hafi ekki vitað hvernig skráningu þeirra fyrir félagið hafi verið háttað. Þeir hafi í raun ekkert komið að þessum málum því þau hafi verið í umsjá Lífstíls ehf. Sagði hann tilviljun eina hafa ráðið hverjir lentu í stjórnunarstöðum og framkvæmdarstöðum þegar félögin voru stofnuð.
Ákærði sagði að undir lok aprílmánaðar 2003 þegar ýmis gjöld hafi verið komin í vanskil hafi hann komið að málum félagsins. Daginn eftir að ákærðu hafi síðan losnað úr gæsluvarðhaldinu þann 3. júní 2003 hafi honum og hinum úr eigendahópnum verið ljóst að skuld væri á vörslusköttum félagsins. Hafi honum þá verið tilkynnt af tveimur lögmönnum að hann myndi ekki taka á sig neina sök með því að skrá sig með þessum hætti fyrir félagið og að fara fyrir hópnum í því skyni að greiða vörsluskattana upp. Ákærði sagði aðspurður að meðákærðu, X og Ragnar Orri, hafi farið út úr félögunum um áramótin og þeir hafi því ekki haft hugmynd um skil á sköttum hjá félaginu. Ragnar Orri hafi starfað hjá Lífstíl ehf. á árinu 2002 en hætt um áramótin 2002 til 2003. Ákærði kvaðst telja að meðákærðu, X og Árni Þór, hafi ekki komið að fjármálum fyrirtækisins á því tímabili sem ákæran varðar. Þeir hafi setið reglulega fundi í fyrirtækinu um sölu- og markaðsmál og hafi aðkoma þeirra að rekstri félagsins verið sem hefðbundnir stjórnarmenn. Hvorugur þeirra hafi skipt sér af bókhaldi, gerð virðisaukaskattsskýrslna eða skattaskilum á þessum tíma.
Ákærði sagði aðspurður að það geti verið að höfuðstóll virðisaukaskattsgjaldanna hafi verið greiddur í júlí, og þá að hluta til rúmum mánuði eftir upphaflegan gjalddaga. Ákærði sagði aðspurður að meðákærði, Ragnar Orri, hafi verið starfandi hjá Lífstíl ehf. sem rekstrarstjóri eða eitthvað slíkt og verið yfir nokkrum stöðum. Hann hafi ekki verið með fjármálaleg eða bókhaldsleg störf á sinni könnu. Ákærði sagði meðákærðu, Ragnar Orra og X, hafa verið meira inní rekstri Kaffi Le ehf. í upphafi eða í mars/apríl 2002. Han sagði þá ekki hafa unnið hjá félaginu heldur verið “hands on” í því þar sem verið var að byggja upp nýjan stað, Thorvaldsen bar. Ákærði sagði meðákærða, Árna Þór, hafa verið með í að byggja upp þann stað markaðs- og sölulega.
Ákærði skýrði frá því að fært hafi verið sjálfstætt bókhald og gerðar skýrslur um staðgreiðslu og virðisaukaskatt í hverju félagi fyrir sig en þær hafi þó verið unnar af fjármáladeild Lífstíls ehf. Hins vegar hafi verið frjálst fjármagnsflæði á milli félaganna. Félögin hafi verið rekin sem sjálfstæðar einingar en efnahagslega hafi þau verið frekar sem eitt. Hann sagði að hjá Lífstíl ehf. hafi verið skrifstofa þar sem starfað hafi framkvæmdastjóri, fjármálastjóri og fjármáladeild en síðan hafi verið rekstrarstjórar á gólfinu í hverri einingu. Hann sagði hvert félag hafa bókað sér og fjármunir farið inná sér bankareikning viðkomandi félags en efnahagslega hafi fyrirtækjunum verið stjórnað sem heild. Hann sagði aðspurður að stjórnendur Lífstíls ehf. hafi t.d. getað seilst ofaní bankareikning Kaffi Le ehf. og tekið peninga uppí Lífstíl til að geta sett inní eitthvað annað til að bjarga einhverju þar. Engin fjármálaleg stjórn hafi verið í hverju félagi fyrir sig fyrir utan Japis ehf.
Ákærði sagði Japis ehf. hafa verið útgefanda á tónlist o.fl. Ísafoldarhúsið ehf. hafi rekið Sportkaffi í Þingholtsstræti og haldið utan um rekstur þess. Kaffi Le ehf. hafi verið félag um rekstur Thorvaldsen bar og Planet Reykjavík ehf. hafi verið líkamsræktarstöð niðri í bæ. Hann sagði að Lífstíll ehf. hafi tímabundið séð um rekstur á Hótel Borg. Að öðru leyti hafi starfsemi þess félags eingöngu snúist um að vera móðurfélag Ísafoldarhússins ehf., Kaffi Le ehf. og Planet Reykjavík ehf.
Ákærði sagði að eigendur og stofnendur félaganna hafi verið hann og meðákærðu, Árni Þór og X, ásamt C. Hann sagði að C hafi keyrt þetta til áramóta og hann hafi verið hugmyndafræðingurinn á bak við þetta. Hann sagði aðspurður að C hafi í raun stjórnað fjármálum allra þessara félaga fram til áramótanna 2002 og 2003 en hann hafi hætt í desember 2002.
Varðandi D kafla ákæru er lýtur að skattavanskilum Lífstíls ehf. tók ákærði fram að hann gerði ekki athugasemdir við skráningu hlutafélagaskrár vegna félagsins. Stjórnun Lífstíls ehf. hafi hins vegar í raun verið þannig háttað að C hafi stjórnað til áramóta 2001-2002, síðan D og loks hafi hann sjálfur komið þar inn. Hafi engin sérstök hugsun legið að baki því að C var ekki skráður framkvæmdastjóri fyrir félagið. C hljóti hins vegar að hafa haft prókúru hjá félaginu. Ákærði sagði þetta vera eina félagið af þessum fjórum þar sem þeir náðu ekki að greiða höfuðstól vegna vörsluskattanna. Hafi þeir greitt 7,7 milljónir og seinna 2 milljónir. Eftirstöðvarnar hafi numið um 4,5 milljónum króna því nokkrir fjármunir hafi tapast við sölu eigna. Aðspurður sagði ákærði að haldið hafi verið með sæmilega ábyrgum hætti utan um bókhald, gerð skattskýrslna og slíkt.
Eftir að C hætti störfum um áramótin kvaðst ákærði hafa verið mikið fjarverandi erlendis í janúar og febrúar 2003. Áður hafi hann verið samtals átta mánuði erlendis, á árinu 2002. Á því tímabili hafi hann verið í fullu starfi hjá félagi sem heiti Skandi timber, sem hafi verið með starfsemi í Asíu. Ákærði sagði meðákærða, Árna Þór, hafa verið með skrifstofu hjá Lífstíl ehf. frá árslokum 2002 hjá fyrirtækinu Three sagas entertainment. Á þessum tíma hafi meðákærði, X, verið starfandi hjá Landsímanum en meðákærði, Ragnar Orri, hafi almennt ekki verið með skrifstofu.
Varðandi E kafla ákæru er lúti að skattavanskilum Planet Reykjavík ehf. tók ákærði fram að hann gerði ekki athugasemdir við hvernig félagið hafi verið skráð hjá hlutafélagaskrá. Kvaðst ákærði hafa setið uppi með vandamál þessa félags. Hann hafi komið inní félagið, líklega í apríl 2003, þegar komin voru upp vandræði í öllum félögunum. Annars hafi hann verið starfandi stjórnarmaður ásamt Árna Þór og H Þórssyni frá áramótunum þar á undan. Í lok mars 2003 hafi hann átt fund með stjórnendum félagsins, D og I. Þar hafi þeir kynnt honum uppgjör fyrir janúar og febrúar en þá hafi orðið töluverður taprekstur. Einnig hafi honum þá verið gert ljóst að komin væru almenn vanskil hjá félaginu, m.a. á vörslusköttum. Upp frá því hafi hann ákveðið að hverfa frá sínum störfum og reyna að koma lagi á rekstur allra félaganna. Hafi hann unnið að því í apríl og maí og m.a. hafi hann og meðákærði, Árni Þór, hvor um sig lagt fimm milljónir króna inn í félögin til að borga vörsluskatta, tveimur vikum áður en hann var hnepptur í gæsluvarðhald. Hann sagði að ferli hafi verið í gangi til að klára þessi mál en svo hafi hann verið hnepptur í gæsluvarðhaldið og þá hafi þetta farið allt á einn veg og miklir fjármunir tapast vegna þess.
Ákærði, Árni Þór Vigfússon, sagði félögin tvö, sem ákæruatriði á hendur honum tengjast, hafa verið hluta af móðurfélaginu Lífstíl ehf. Í Ísafoldarhúsinu ehf. hafi verið haldið utan um rekstur Sportkaffis en Kaffi Le ehf. hafi haldið utan um reksturinn á Thorvaldsen bar. Hjá Lífstíl ehf. hafi starfað framkvæmdastjóri sem annast hafi rekstur þess félags ásamt því að reka Ísafoldarhúsið ehf., Kaffi Le ehf. og hin hlutafélögin sem undir starfsemi þess féllu. Hafi C Arnalds annast það til janúar 2003 en eftir það D. Sjálfur hafi hann aðeins komið að þessum félögum sem eigandi, auk þess sem hann hafi komið þar að hugmyndavinnu og e.t.v. markaðsmálum. Hann hafi hins vegar ekkert starfað við rekstur þessara félaga. Ákærði sagði að honum hafi ekki verið kunnugt um rekstrarlega stöðu félaganna og hvort vanskil hafi verið á vörslusköttum eða öðru. Hann hafi ekkert kannað það sjálfur. Hafi hann þannig ekkert komið að færslu bókhalds félaganna, gerð virðisaukaskýrslna eða skilagreina um staðgreiðslu. Hafi hann ekki litið á það sem sína skyldu að bókhald eða skattskil væru í lagi hjá þeim félögum þar sem hann hafi verið í forsvari og hafi hann ekki haft neina vitneskju um hvernig þeim málum var háttað hjá þeim. Spurður út í hvernig staðið hafi verið að skráningu einstakra félaga hjá hlutafélagaskrá við stofnun þeirra sagði ákærði að þarna hafi verið hópur manna sem farið hafi af stað með ákveðið viðskiptahugtak og síðan hafi tilviljun ráðið hverjir hafi skrásett sig fyrir einstökum félögum. Geti hann því ekki gefið neina aðra skýringu á því af hverju hann hafi skráð sig sem framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður einstakra félaga. Hafi þetta verið mistök af sinni hálfu. Hann sagði að aldrei hafi verið ætlunin að hann yrði framkvæmdastjóri Ísafoldarhússins ehf. enda hafi hann verið í meira en hundrað prósent vinnu sem sjónvarpsstjóri á Skjá einum til áramótanna 2002-2003 og svo í meira en hundrað prósent vinnu hjá fyrirtækinu Three sagas entertainment, sem hann hafi þá verið nýbúinn að stofna ásamt tveimur öðrum. Hafi fyrirtækið verið með skrifstofur á sömu hæð og Lífstíll ehf. frá janúar eða febrúar 2003. Ákærði sagðist ekki hafa tekið þátt í ákvörðun eða umræðum um að greiða ekki virðisaukaskatt eða afdregna staðgreiðslu af réttum gjalddögum vegna umræddra félaga. Hafi hann ekkert vitað um að ekki hafi verið gerð skil á virðisaukaskatti eða afdreginni staðgreiðslu á réttum gjalddögum.
Ákærði kvaðst ekki muna hver hafi ákveðið að reka sér félög um hvern bar og líkamsræktarstöð en hann geri ráð fyrir að framkvæmdastjóri Lífstíls ehf. hafi ákveðið þetta. Sjálfur hafi hann ekki komið nálægt þeirri rekstrarákvörðun. Hann sagði aðspurður að eftir að þeim félögunum hafi verið sleppt úr gæsluvarðhaldi hafi meðákærði, Kristján Ragnar, tekið að sér að bjarga því sem bjarga mátti.
Ákærði sagði meðákærða, Ragnar Orra, hafa verið veitingastjóra Thorvaldsen bar og tveggja annarra staða. Sagðist hann telja að hann hafi ekkert haft með fjármál Kaffi Le ehf. að gera.
Varðandi C lið ákæru kvaðst ákærði kannast við skráningar í hlutafélagaskrá. Hann sagði að honum hefði verið kunnugt þegar félögin voru stofnuð að hann væri að skrá sig sem ábyrgðarmaður í stjórn þeirra. Hann kvaðst aldrei hafa spurt um það hvernig bókhaldi félaganna væri háttað eða óskað eftir upplýsingum um rekstur eða stöðu félaganna.
Ákærði, Ragnar Orri Benediktsson, kvaðst kannast við að hafa verið skráður sem framkvæmdastjóri Kaffi Le ehf. á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann hafi starfað sem veitingastjóri á veitingastaðnum Thorvaldsen bar sem rekinn var af Kaffi Le ehf. Hafi hann starfað þar frá opnun til ársloka 2002. Kaffi Le ehf. hafi síðan verið í eigu Lífstíls ehf. Ákærði sagði að á þeim tíma hafi, að hans bestu vitneskju, D og C annast fjármálastjórn, skattskil og bókhaldsgerð fyrir félagið ásamt bókurum á skrifstofu félagsins en það hafi þó allt verið í nafni Kaffi Le ehf. Hann sagði ástæðu þess að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri í félaginu vera þá að mikið hafi legið á að opna veitingastaðinn. Veitingastaðarekstur sé þess eðlis að menn sem skuldi skatt eða lífeyrissjóðsgjöld geti ekki verið skráðir forsvarsmenn félags sem fær vínveitingaleyfi. Þeir aðilar sem átt hafi félagið hafi verið mikið erlendis og þar sem hann hafi séð um að koma félaginu á koppinn hafi þetta æxlast þannig að hann var skráður framkvæmdastjóri. Ákærði sagði meðákærðu, Kristján Ragnar, X og Árna Þór, auk C hafa verið eigendur félagsins en hann sjálfur hafi ekki átt neinn hlut í því. Hann sagði að sér hafi verið kunnugt um að meðákærðu, Árni Þór og Kristján Ragnar, hefðu verið skráðir sem stjórnarmenn í félaginu á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann kvaðst aldrei hafa rætt við stjórnarmenn eða C um stöðu á rekstri félagsins, hvort bókhald væri fært, hvort skattskil væru í lagi eða annað. Hafi hann ekkert fylgst með rekstrinum nema sem veitingastjóri á veitingastaðnum. Þannig hafi hann m.a. ráðið starfsfólk og keypt inn fyrir veitingastaðinn. Hann hafi hins vegar ekkert komið að fjármálum fyrirtækisins og þannig ekkert komið að útfyllingu skýrslna vegna staðgreiðslu og virðisaukaskatts eða útreikningum, skilum eða greiðslu vegna þessara skatta.
Ákærði sagði að yfirmenn sínir hafi verið D og C. Dhafi verið fjármálastjóri og framkvæmdastjóri en hann sagði titlana hafa eitthvað breyst á tímabilinu. Ákærði sagðist ekki vita um fjárhæðir í vanskilum vegna skatta eða hverju bar að skila á þeim tíma sem þetta var að gerast og hafi hann aldrei leitað eftir upplýsingum frá t.d. D, C eða meðákærðu, Kristjáni Ragnari eða Árna Þór, um stöðu félagsins. Kvaðst hann ekki vita um nákvæm afskipti meðákærðu, Kristjáns Ragnars, Árna Þórs og X af rekstri Kaffi Le ehf. Sagðist hann ekki vita til þess að meðákærðu, X og Árni Þór, hafi komið að fjármálum fyrirtækisins.
Ákærði kvaðst aðspurður ekkert vita um rekstur Ísafoldarhússins ehf. Sagðist hann ekki vita til þess að meðákærði Kristján Ragnar hafi haft meiri afskipti af daglegum rekstri eða starfað nánar með C en hinir. Ákærði kvaðst kannast við að Ísafoldarhúsið ehf. og Planet Reykjavíkur ehf. hafi einnig verið undir Lífstíl ehf. Sagði hann að D og C hafi stjórnað félögunum, haldið utan um reksturinn og skilað skýrslum og hafi það fallið undir Lífstíl ehf. á sama hátt og hjá Kaffi Le ehf. Nánar aðspurður um þátt Kristjáns Ragnar sagðist hann vita til þess að Kristján Ragnar hafi vorið 2003 verið að vinna eitthvað í uppgjörsmálum félaganna og geti það verið skýringin á því af hverju hann nefni nafn hans í lögregluskýrslu í sambandi við aðkomu eigendanna að rekstrinum.
Ákærði, Stefán Hjörleifsson, sagðist hafa skrifað undir ráðningarsamning við Japis ehf. þann 9. nóvember 2000 með þeim fyrirvara að hann myndi taka formlega við um áramót. Hafi það gengið eftir. Hann kvaðst aldrei hafa litið svo á að rekstur ársins 2000 hafi tilheyrt honum beint því hann hefði viljað taka við með hreint borð. Hafi hann á þeim tíma verið í fullu starfi hjá Hljóðsetningu og aðeins komið lítillega að stefnumótunarvinnu og slíku í Japis ehf. Hann sagði að honum hafi verið kynntar áætlanir sem hafi reynst langt frá því að vera raunhæfar. Hann hafi þó engar forsendur haft til að meta það því Japis hafi verið þokkalegasta fyrirtæki áður en því hafi verið skipt upp á árinu 2000. Hann sagði að tónlistardeild félagsins hafi verið skilin eftir með mestu skuldabaggana. Hann kvaðst fyrst og fremst hafa verið ráðinn til að stýra markaðssókn fyrirtækisins því að á þeim tíma hafi verið mikill völlur á Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. sem hafi keypt nokkur félög, m.a. Skjávarpið og Strikið. Sagði hann hugmyndina alltaf hafa verið þá að fjármálastjóri Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., ákærði, Kristján Ragnar, myndi vera nokkurs konar yfirfjármálastjóri yfir öllum einingunum. Ákærði sagði að stjórnarformaður félagsins hafi ítrekað sagt sér að hugsa ekki um fjármál þess. Hann sagði að stjórnarformaðurinn hafi síðan fljótlega séð að ekki gengi að fjármálastjóri Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. færi með fjármálastjórn Japis ehf. og kvaðst ákærði þá í kjölfarið hafa stungið uppá að ráðinn yrði fjármálastjóri svo hann gæti einbeitt sér að markaðssókn félagsins. Ákærði sagði að eins og allir hafi hann verið meðvitaður um fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Hann sagði skattamálin hafa komið upp og oft komið inná sitt borð en hann hafi annað hvort rætt þau við meðákærða, Kristján Ragnar, og síðan fjármálastjóra félagsins eftir að hann kom til starfa. Hann sagði að J hafi verið í starfi fjármálastjóra fram yfir áramót og sinnt launaútreikningum og ýmsum málum. Hafi hún sinnt því þar til E kom til starfa. Ákærði sagði fjármálastjórana hafa heyrt undir sig en í ljósi stöðunnar, þ.e. hversu mikið inngrip eigandi félagsins og fjármálastjóri þess félags hafi haft í reksturinn, hafi þeir oftar en ekki verið í beinu sambandi við hann. Sagði ákærði að Íslenska sjónvarpsfélagið hf. hafi verið eigandi Japis ehf. og stjórnarformaður þess, B, hafi einnig verið stjórnarformaður Japis ehf. Ákærði sagði að hann gerði sér ekki grein fyrir hvort B hafi vitað um vanskil á vörslusköttum en honum hafi verið fullkunnugt um fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Sjálfur kvaðst hann hafa vitað að staðan varðandi vörsluskatta var ekki eins og skyldi og hann hafi rætt það við yfirmann fjármála, þ.e. meðákærða Kristján Ragnar, en í samtalinu hafi komið fram að Kristján Ragnar legði frekar áherslu á að greiða almenna reikninga heldur en vörsluskatta. Ákærði sagðist engar forsendur hafa til að meta hvort það sé rétt sem komi fram í ákæru. Hann sagðist telja að allt þar til hann hafi formlega tekið við starfi sínu hafi meðákærði, Kristján Ragnar, haft yfirumsjón með fjármálunum. Kvaðst ákærði aldrei hafa borgað gíróseðla eða sinnt daglegum rekstri í þeim skilningi en fjármálastjórinn hafi sinnt þeirri vinnu. Ef þurft hafi að útvega fjármagn hafi meðákærði, Kristján Ragnar, farið í það eða a.m.k. einu sinni. Hann sagði meðákærða, Kristján Ragnar, hafa eftir áramót verið mjög meðvitaðan um fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Eftir að yfirfjármálastjórakerfið gekk ekki upp hafi E tekið alfarið við þeim málum sem fjármálastjóri fyrirtækisins. Ákærði sagðist hafa vitað að meðákærði, Kristján Ragnar, hafi á starfstíma ákærða verið mjög tengdur fjármálum félagsins. Áður en hann sjálfur hafi hætt störfum hafi meðákærði, Kristján Ragnar, verið búinn að tilkynna starfsfólki það og hafi hann einnig sagt upp öðrum starfsmönnum. Ákærði sagði að B hefði sagt honum að meðákærði, Kristján Ragnar, myndi taka við starfi sínu og að hann væri að bæta því á sig. Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt til reksturs Lífstíls ehf. eða annarra félaga sem tilgreind eru í ákæru.
Ákærði sagði að aldrei hafi verið rætt um virðisaukaskattskuld sem gjaldféll mánuði eftir að hann hóf störf af fullum krafti og hafi hann aldrei litið svo á að hún væri á sinni könnu og um þessa skuld hafi aldrei verið rætt við hann. Kvaðst hann síðan hafa litið svo á að skuldin tilheyrði uppgjörsmálum fyrirtækisins en hún hafi verið vegna ársins 2000. Hann sagði E hafa komið til starfa í mars 2001 og eftir það hafi öll peningamál verið í hans höndum. Ákærði sagðist hafa verið yfirmaður E og hann hafi leitað til sín. Kvaðst ákærði hafa verið í samskiptum við stjórn félagsins en ekki bara meðákærða, Kristján Ragnar. Ákærði sagðist hafa sent bæði ákærða Kristjáni Ragnari og B marga tölvupósta um skuldastöðuna þegar hann hafi orðið meðvitaður um hana eins og aðrir. Hann sagði svörin sem hann hafi fengið hafi verið þau að hann ætti ekki að skipta sér af fjármálum fyrirtækisins og að fyrir dyrum stæði hlutafjárútboð í Íslenska sjónvarpsfélaginu hf. og myndu þá peningar koma inn í Japis ehf. í leiðinni. Ákærði sagði sína tilfinningu vera þá að meðákærðu, Kristján Ragnar og Árni Þór, hafi verið í góðri trú og ekki vitað hvað félagið stóð illa þegar kaupin áttu sér stað en B hafi átt að vita af því þar sem hann hafi bæði verið seljandi og kaupandi félagsins og stjórnarformaður í báðum félögunum. Hafi hann fljótlega áttað sig á því og sjái nú betur eftir á að fyrirtækið hafi verið í gjaldþrotastöðu þegar hann var ráðinn. Hafi efnahagsreikningur þess í raun verið neikvæður um einhverja tugi milljóna en hann hafi ekki átt að vera það samkvæmt kaupsamningi. Ákærði sagðist hafa áttað sig á því að það vantaði mikla peninga inní fyrirtækið og alltaf hafi verið beðið eftir þeirri fjármögnun sem lofað hafði verið. Þegar ljóst var að hún gengi ekki upp hafi hann hætt störfum.
Ákærði sagði meðákærða, Kristján Ragnar, hafa verið ráðandi í öllu sem tengdist fjármálum fyrirtækisins. Hann hafi að vísu ekki komið að daglegum rekstri en hann hafi verið í beinu sambandi við starfsfólk fyrirtækisins varðandi yfirfærslumál og eins ef það vantaði fjármagn. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið stórar fjárhagslegar ákvarðanir nema meðákærði, Kristján Ragnar, væri meðvitaður um þær.
Ákærði, X, kvaðst kannast við að hafa verið skráður stjórnarmaður Kaffi Le ehf. eins og fram kemur í ákæru. Hann kvaðst hafa verið einn af eigendum fram að áramótum 2002-2003. Ákærði kvaðst hafa tekið að sér stjórnarmennsku í félaginu vegna þess en hann hafi engin afskipti haft af daglegum rekstri félagsins. Kvaðst hann ekki minnast þess að honum hafi verið kunnugt um að vanskil væru hjá félaginu á þessum tíma né að haldnir hafi verið sérstakir stjórnarfundir í Kaffi Le ehf. Hann sagði að sig minnti að Lífstíll ehf. hafi haldið utan um skattskil félagsins. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa leitað sérstaklega upplýsinga um stöðu skattskila og bókhaldsfærslna hjá félaginu. Kvaðst hann ekki hafa komið að félaginu Lífstíl ehf. sem slíku en ef hann myndi rétt hafi þeir mætt hjá Lífstíl ehf. einu sinni í viku og farið yfir þá hluti sem voru í gangi á hverjum tíma. Hann sagði þá sem hafi mætt vera C og meðákærðu, Kristján Ragnar og Árna Þór. Hann sagði að á fundunum hafi verið rætt almennt um hvert skyldi sækja og hvað mætti betur fara í rekstri þessara fjögurra fyrirtækja. Ákærði sagðist ekki muna eftir að rætt hafi verið um vanskil skatta á þessum fundum en rætt hafi verið eitthvað um fjárhagslega stöðu. Hann sagði umræðuna á fundunum ekki hafa verið rekstrartæknilegs eðlis heldur fyrst og fremst varðað markaðs- og sölumál staðanna. Hann kvaðst ekki muna eftir að tekin hafi verið niður fundargerð á fundunum. Ákærði sagði síðasta fundinn sem hann mætti á hafa verið í desember 2002. Kvaðst hann ekki muna eftir að meðákærðu, Árni Þór eða Kristján Ragnar, hafi gengt einhverjum störfum á þessum tíma hjá Lífstíl ehf. og ekki hann heldur. Hafi C verið framkvæmdastjóri á þessum tíma og séð um daglegan rekstur. Hann kvaðst halda að C hafi hætt í desember 2002. Ákærði sagði meðákærða, Ragnar Orra, hafa verið rekstrarstjóra Kaffi Le ehf. í upphafi en það hafi breyst fljótlega. Hann sjálfur hafi komið takmarkað að rekstri staðarins frá því um sumarið 2002 fram til áramóta þegar hann hætti öllum afskiptum af félaginu.
Hann kvaðst hafa verið hefðbundinn stjórnarmaður en ekki með ráðningarsamning við félagið eða komið nálægt bókhaldi þess. Hann sagðist ekki minnast þess að hafa verið upplýstur um skattamál félagsins. Kvað hann framkvæmdastjóra Lífstíls ehf. hafa getað tekið peninga úr félaginu og sett í önnur félög. Hafi það örugglega vera ástæða þess að ekki hafi verið til peningar í þessu félagi sem haft hafi hvað sterkastan rekstur allra félaganna.
Vitnið, D, kvaðst hafa starfað fyrir einkahlutafélagið Lífstíl ehf. á árunum 2002 til 2003. Hann sagðist hafa starfað hjá félaginu frá sumrinu 2002 til sumarsins 2003 og verið fjármálastjóri þess. Hann kvaðst hafa heyrt undir C framan af en síðar undir ákærða, Kristján Ragnar. Hann sagði C hafa hætt um áramótin 2002 og 2003 en ákærða, Kristján Ragnar, hafa komið inn aðeins síðar. Vitnið kvaðst aðspurður hafa í raun heyrt undir stjórn. Hafi hann verið titlaður fjármálastjóri nema á tveggja mánaða millibilstímabili sem hann hafi verið titlaður framkvæmdastjóri eftir að C hætti um áramótin. Sagði hann Kristján Ragnar hafa komið að þessu um vorið en þeir hafi þá reynt að koma vörslusköttum í skil. Vitnið kvaðst hafa átt samband við C og ákærðu, X, Kristján Ragnar og Árna Þór, en þeir hafi verið í stjórn þangað til skiptin urðu um áramótin en þá hafi H komið inn fyrir ákærða, X og C. Hann sagði vikulega fundi hafa verið á skrifstofunni með öllum eigendum. Hann sagði ákærðu, Árna Þór og Kristján Ragnar, ásamt H hafa verið á fundum eftir áramótin. Hafi staða á skattskilum verið rædd á þessum fundum, þ.e. almenn vanskil og fjárhagsleg staða. Hafi þá aðallega verið farið yfir stöðu hverrar einingar fyrir sig, ekki fjárhagslega heldur hvað væri í gangi og hvaða verkefni lægju fyrir, svo hafi uppgjör verið kynnt og fjárhagsleg mál rædd en það hafi ekki verið gert á hverjum fundi. Hann sagði alla fjármálastjórn hafa verið hjá Lífstíl ehf. Hann sagði skráða framkvæmdastjóra hafa verið í stjórn fyrir utan ákærða, Ragnar Orra, sem hafi verið í daglegum rekstri á skemmtistöðunum sjálfum. Hann sagði bókhaldið hafa verið sjálfstætt fyrir hvert fyrirtæki en raunveruleg stjórn hafi ekki verið úti í hverju félagi fyrir sig. Vitnið sagði uppgjörin sem kynnt hafi verið á fundunum fyrst og fremst hafa verið tekjuuppgjör, sérstaklega fyrir áramótin. Ekki hafi verið kynnt gjalddagauppgjör á fundunum en á þeim hafi skuldastaða einstakra félaga verið rædd þegar um vanskil var að ræða. Vitnið kvaðst ekki muna eftir einstökum fundum þar sem rætt hafi verið um skuldir á sköttum en sú umræða hafi að sjálfsögðu komið upp án þess að þau mál hafi verið rædd ítarlega. Hann sagði aðspurður að ekki hafi verið vanskil á sköttum fyrir en eftir áramót en það hafi ekki verið rætt fyrr.
Hann sagði að þeim sem voru í stjórn félagsins til áramóta hafi verið kunnugt um að vanskil væru á sköttum hjá einstökum félögum. Vitnið sagði Lífstíl ehf. vera móðurfélag hinna félaganna en allt hafi verið rekið á einni skrifstofu. Hann sagði þetta hafa verið rekið sem eina heild. Hann sagði hvert fyrirtæki hafa rekið ákveðna starfsemi. Vitnið sagði skattskil hverrar einingar hafa verið í nafni hvers félags fyrir sig.
Vitnið sagði Kaffi Le ehf. hafa skilað mestum peningum inní reksturinn. Hann sagði peninga hafa verið flutta frá því félagi yfir í önnur eftir því hvar vandamál voru. Hann taldi að Kaffi Le ehf. hefði getað staðið skil á sköttunum ef það hefði ekki komið til. Vitnið sagði að ákveðið hafi verið í stjórn í upphafi að þannig yrði málum háttað, að þetta yrði ein rekstrarheild. Hann sagðist til dæmis sjálfur hafa getað tekið þá ákvörðun að sækja peninga í Kaffi Le ef vantað hafi peninga í Ísafoldarhúsið ehf. án þess að tala við C. Vitnið sagði ákærða Ragnar Orra ekki hafa komið nálægt bókhaldi eða fjárreiðum félagsins.
Vitnið, E, sagðist hafa fengið starf hjá Japis ehf. í mars 2001 en þá hafi fyrirheit verið góð og átt að fara í hlutafjárútboð og peningar síðan átt að koma inn í maí. Hann sagði það hafa brugðist. Hafi hann starfað þarna sem fjármálastjóri þar til í janúar 2002. Hafi starf hans falist í að koma lagi á bókhaldið en félagið hafi staðið illa og verið langt á eftir með reikninga. Hann sagði að mikill hluti af hans tíma hafi farið í að sinna kröfuhöfum og reyna að svara þeim. Vitnið sagði ákærða, Stefán, hafa verið sinn yfirmann en hann hafi setið stjórnarfundi þar sem hann hafi skýrt frá stöðu bókhaldsins. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um stöðu félagsins þegar hann kom inn og sá eini sem virtist hafa eitthver vit á því hafi verið ákærði, Kristján Ragnar. Hann sagði hann hafa verið þann eina sem hann hafi getað leitað til með að finna út úr þessu hvernig félagið stóð. Vitnið sagðist hafa skýrt ákærða, Kristjáni Ragnari, frá fjárhagsstöðu félagsins en þeir hafi líka reynt að finna saman út úr skuldamálum t.d. við Tæknival hf. Hann kvaðst hafa rætt jöfnum höndum við ákærðu, Kristján Ragnar og Stefán. Kvaðst vitnið hafa séð um uppgjör virðisaukaskatts og staðgreiðslu og greiðslu þeirra gjalda. Teldi hann að mestallan tímann hafi verið greitt um leið og skilagreinum hefði verið skilað nema undir það síðasta. Sagði hann að komið hafi í ljós að greidd hefði verið áætlun frá skattinum fyrir árið á undan áður en hann byrjaði hjá félaginu. Hafi áætlunin verið greidd en síðar hafi komið í ljós að hún hafi verið röng. Vitnið sagði að svo virtist sem skatturinn hafi tekið allar greiðslur sem bárust þegar hann var að vinna þarna uppí eldri kröfur. Hann sagði aðspurður að það hafi komið honum þannig fyrir sjónir að ákærði, Stefán, hafi ekki vitað hversu slæm staðan var þegar hann kom að félaginu. Hann kvaðst ekki geta ímyndað sér að það hafi verið ákærða, Stefáni, að kenna að hlutafjárútboð fyrir Skjá einn gekk ekki eftir og að ekki hafi komið nýir peningar inn.
Vitnið sagði ákærða, Kristján Ragnar, ekki hafa komið nálægt daglegri stjórnun Japis ehf. Hann kvaðst ekki hafa verið í sambandi við ákærða, Kristján Ragnar, út af vörslusköttum og hann hafi ekki tekið ákvörðun um að greiða þá ekki. Hann sagði að þær skilagreinar sem hann skilaði hafi verið greiddar þó tollstjóri hafi fært þetta inn sem áður ógreiddar kröfur. Hann sagði að undir lokin hafi stjórnendur félagsins lagt áherslu á að bjarga því sem bjarga varð og gera félagið rekstrarhæft.
Vitnið sagði að ákærðu, Stefáni og Kristjáni Ragnari, hafi ekki verið kunnugt um vanskil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti og honum hafi sjálfum ekki verið kunnugt um það. Hann sagðist hafa skilað skilagreinum með greiðslum þangað til undir lok ársins 2001 en þá hafi skilagreinum verið skilað á réttum tíma en ekki greiðslum. Hann sagði þeim þá hafa verið kunnugt um að skýrslum væri skilað án greiðslna. Vitnið sagði aðspurður að eigendur félagsins hafi tekið þá ákvörðun en þeir hafi sagt við hann að láta það hafa forgang að borga birgjum til að reyna að halda félaginu gangandi. Hann kvaðst hafa haft samskipti við ákærða, Kristján Ragnar varðandi þetta. Vitnið sagði að komið hefði fyrir að greitt hafi verið of seint. Hann sagði að sig minni að á þeim tíma sem hann vann með ákærða, Stefáni, frá mars til júlí 2001, hafi hann skilað skilagreinum og greitt greiðslu. Hann sagði ákærða, Kristján Ragnar, hafa tekið við starfi ákærða, Stefáns.
Vitnið, J, kvaðst hafa hafið störf hjá Japis í ágúst 1998 sem aðalbókari. Hafi hún síðan byrjað í öðru starfi í byrjun janúar 2001 en unnið fyrir báða aðila meiri hluta janúar. Vitnið sagði ákærða, Stefán, hafa komið stopult við fyrir áramótin en eitthvað áður en hún hætti hafi hann verið kominn til fullra starfa. Hún sagði að henni hafi skilist að verksvið ákærða, Stefáns, hafi verið framkvæmdastjórn en hann hafi undirbúið mikla útrás fyrirtækisins. Hafi henni sýnst hann lítið hafa haft með fjármál að gera. Hafi hún ekki leitað til hans með fjármál heldur til ákærða, Kristjáns Ragnars, ef eitthvað var. Hún kvaðst aldrei hafa sett ákærða, Stefán, inní nokkra hluti. Vitnið sagðist ekki muna hvort samskipti hennar við ákærða, Kristján Ragnar, hafi tengst vangoldnum vörslusköttum eða eitthvað slíkt. Hún sagðist muna eftir að hafa átt við hann samskipti um fjárvöntun. Hún sagði aðspurð ákærðu, Kristján Ragnar og Árna Þór, hafa komið við og talað við starfsfólkið áður en ákærði, Stefán, kom til starfa en muni ekki til þess eftir þann tíma.
Vitnið, K., sagði B hafa leitað til sín vegna skulda á vörslusköttum Japis ehf. Hann kvaðst hafa séð og fengið að vita að töluverðar skuldir hafi verið hjá félaginu en í framhaldi af því minni hann að hann hafi átt fund með Bog öðrum stjórnarmönnum. Þar hafi verið leitað úrræða til að greiða þessar skuldir. Vitnið sagðist reikna með að þetta hafi verið rétt eftir áramótin 2002. Hann sagði þetta hafa verið þannig að félag sem heiti L, og sé í eigu M, hafi verið í samstarfi við þá um sölu á hljómdiskum. Vitnið sagði stjórn félagsins hafa leitað til hans og hafi L viljað kaupa lager eða vörur af félaginu sem mætti nota til að greiða þessa skuldir. Hafi M ekki verið með laust fé en greitt þetta með víxlum en B hafi síðan komið að því að kaupa þessar kröfur og hafi þannig orðið til fé til að greiða vörsluskattaskuldir. Vitnið sagðist hafa litið þannig á að öllum þremur stjórnarmönnum hafi komið mjög á óvart að ekki hafi verið greiddur virðisaukaskattur og aðrar vörsluskuldir. Þeir hafi strax brugðist við með þessum hætti. Kaupverðið á lagernum sem L keypti hafi síðan ekki nægt til að greiða upp vanskil á vörslusköttunum og hafi þá verið leitað til umbjóðenda sinna, G. sem hafi fjármagnað það sem á vantaði gegn því að stjórnarmenn gengjust í ábyrgðir. Hann sagði aðspurður að B. hafi upphaflega leitað til sín en hann viti ekki betur en að stjórnarmenn hafi þá verið ákærðu, Árni Þór og Kristján Ragnar.
Vitnið, Bryndís Kristjánsdóttir, forstöðumaður hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sagði aðspurð að mál sem fari í skattrannsókn geti annað hvort endað þannig eftir rannsókn að þau fari til yfirskattanefndar til sektarmeðferðar eða til ríkislögreglustjóra til sektarmeðferðar. Hún sagði að í þeim málum sem send væru til yfirskattanefndar þá hafi verið miðað við nettó höfuðstól vanskila á vörslusköttunum, þ.e. dregnar séu frá innborganir inná höfuðstólinn í þeim málum. Sé þetta öndvert við uppstillingu mála sem tíðkist þegar málin séu send ríkislögreglustjóra til opinberrar rannsóknar. Sé nú verið að vinna að því að þau mál sem send verði til yfirskattanefndar verði unnin á sama hátt og þau sem fari í opinbera rannsókn.
Vitnið, B, skýrði frá því, að Íslenska sjónvarpsfélagið hf. sem eignarhaldsfélag Skjás eins, hefði keypt alla hluti í Eignarhaldsfélaginu Japis ehf. og þar með Japis ehf., en félag þetta varð til eftir skiptingu á Japansk íslenska verslunarfélaginu ehf. Kvaðst vitnið í framhaldi hafa orðið stjórnarformaður í Japis ehf. Hafi verið ákveðið að endurskoðendur beggja aðila myndu halda utan um undirbúning og frágang kaupanna og sagðist vitnið ekki hafa viljað koma að því máli þar sem hann hafi með margvíslegum hætti setið beggja vegna borðsins. Að þessu máli hafi og komið framkvæmdastjóri Japis ehf. og fjármálastjóri Íslenska sjónvarpsfélagins hf., ákærði, Kristján Ragnar. Hann sagði þá hafa unnið þetta verk en síðan hafi ákærði Stefán verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins í nóvember 2001. Vitnið sagði ákærða, Kristján Ragnar, hafa verið nokkuð virkan í daglegum rekstri fyrirtækisins, a.m.k. til að byrja með og undir lokin. Hafi ákærðu, Kristján Ragnar og Árni Þór, verið stjórnarmenn í félaginu. Hann sagði aðspurður að ákærði, Kristján Ragnar, hafi tekið við störfum ákærða, Stefáns. Vitnið sagði að frá febrúar hafi komið fjármálastjóri inní félagið sem hafi tekið við bókhaldi þess frá áramótum. Hann kvaðst halda að fjármálastjórinn hafi haldið utan um fjármál félagsins alla vega til að byrja með. Hann sagði þá hafa átt nokkuð tíða stjórnarfundi þar sem málefni félagsins hafi verið til umræðu þar sem ákærði, Stefán, og fjármálastjórinn hefðu kynnt stöðu félagsins, rekstur og annað sem að því snéri. Hann kvaðst ekki vita nákvæmlega hversu mikil afskipti ákærði, Kristján Ragnar, hafði af daglegri fjármálastjórn fyrirtækisins á þeim tíma. Sagðist hann halda að hann hafi verið með prókúru allan tímann. Vanskil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu hafi aldrei verið rædd á stjórnarfundum en það komi til af því að í raun séu vanskilin tilkomin á árinu 2000.
Vitnið sagði greinilegt að ekki hafi verið nógu vel að því staðið að færa starfsemi Japis inní sjálfstæðan rekstur þótt lögð hefði verið áhersla á að vel yrði að því staðið með því að fela framkvæmdastjórum og endurskoðendum beggja félaga að leiða þá vinnu. Hafi það vafalaust átt sinn þátt í því að bókhaldslega hafi ekki verið nægilega vel að málum staðið vegna mánaðanna eftir umbreytingu félaganna. Virðist sér því sem þar sé orsakanna að leita fyrir því að virðisaukaskattur vegna síðasta tímabils ársins 2000 hafi komið inn sem vanskil hjá félaginu eftir að farið var að vinna í skuldamálum og uppgjöri félagsins um haustið 2001.
Vitnið sagði ákærða, Stefán, hafa sem framkvæmdastjóra á þessu tímabili átt að gæta þess að gerð væru skil á virðisaukaskatti félagsins. Hann sagði að gerð hefði verið virðisaukaskattskýrsla og greiddar 200.000 krónur í virðisaukaskatt vegna fyrrgreinds tímabils en hvort hann hafi talið að það væri sá skattur sem hafi átt að borga fyrir tímabilið viti hann ekki. Vitnið kvaðst telja að ákærði, Stefán, hafi litið svo á að búið væri að ljúka þessu máli og að hann hafi ekki vitað af þeirri vanskilaskuld sem síðar kom í ljós. Kvaðst hann einnig telja að ákærði, Kristján Ragnar, hafi heldur ekki vitað af þessu. Hafi einhver klaufagangur vegna uppgjörsmála félagsins sem rekja megi til yfirtökunnar á árinu 2000 því verið orsök þess að engin vitneskja lá fyrir um þennan virðisaukaskatt fyrr en löngu seinna.
Vitnið skýrði svo frá að endurskoðunarfélag fyrirtækisins hafi komið með ársreikning fyrir félagið í maí 2001 og hafi þar ekki komið fram nein ábending um að virðisaukaskattur væri ógreiddur. Hann kvaðst hafa átt fund með endurskoðanda félagsins í júlí þar sem hann hafi lýst yfir áhyggjum varðandi stöðu og þróun mála hjá Íslenska sjónvarpsfélaginu hf. Á öðrum fundi með endurskoðandanum hafi hann upplýst sig um að allt væri í góðu lagi. Um haustið hafi endurskoðunarfyrirtækið síðan unnið leiðréttingaskýrslu vegna virðisaukaskatts félagsins þegar bókhald þess var afstemmt fyrir árið 2000. Þessi leiðréttingaskýrsla hafi verið send skattstjóra og hafi þessi mismunur þá komið í ljós. Hann sagði að þegar þeir forráðamenn félagsins hafi ákveðið að stöðva rekstur þess hafi þeir farið til tollstjóra í janúar 2002 og óskað eftir upplýsingum um allar vörsluskuldir félagsins. Þeim hafi verið gefnar þar upp tölur en þá hafi ekki verið búið að færa leiðréttingaskýrsluna frá því í september inn. Kvaðst vitnið hafa haft milligöngu um að greiða alla þá vörsluskatta sem þá voru sagðir ógreiddir og hafi hann og ákærðu, Kristján Ragnar og Árni Þór, skipt þessu jafnt á milli sín. Hann sagði að ef þessi skuld hefði verið inni hefðu þeir greitt hana líka. Hann sagði engan þeirra hafa haft brotavilja en hann sagði þá alla hafa haft metnað til að gera þetta rétt.
Hann sagði aðspurður að hann geti ekki sagt að 200.000 krónur í mismun útskatts og innskatts hljóti að teljast ólíkleg niðurstaða eftir jólamánuðina en e.t.v. hafi verið eðlilegt að líta svo á. Hins vegar hafi mikill innskattur vegna yfirtöku á ákveðnum þáttum í starfseminni sem fylgdu inní félagið vel getað spilað hér inní.
Vitnið sagðist taka orð ákærða, Stefáns, trúanleg um að hann hafi verið laus við hjá félaginu til áramóta. Hann sagðist hafa átt töluverð samskipti við ákærða, Stefán, um fjármál félagsins á þeim tíma sem hann starfaði þar.
Aðspurt sagði vitnið að eftir jólin 2001 hafi þeir séð að rekstur félagsins var ekki að gera sig en því hafi þeir þá ákveðið að stöðva reksturinn. Vitnið sagði að upplýsinga hafi þá verið aflað um hverjar skuldir félagsins væru en þá hafi þeir fyrst horft til þess að það væri skuld á vörslusköttum vegna nóvember og desember þetta ár 2001 vegna jólasölunnar. Þeir sáu að heildartalan var í kringum 15 milljónir og kvaðst vitnið hafi útvegað lán sem þeir hafi þrír skipt jafnt á milli sín. Mismunurinn hafi stafað af því að tollstjórinn hafi ekki fært þetta eins og þeir hafi óskað eftir á greiðsluseðlinum en eftir það hafi síðan staðið eftir viðbótarskuldin vegna virðisaukaskattsins fyrir nóvember og desember árið 2000.
Vitnið, N, kvaðst hafa verið bókari hjá Lífstíl ehf. frá miðjum júní 2002 fram í janúar 2003. Hún sagði að yfirmaður sinn hefði verið D en hún hafi haft á tilfinningunni að hans yfirmaður hefði verið ákærði, Kristján Ragnar, í þessum fjármálalegu viðskiptum. Vitnið sagði C hafa verið meira í að leggja línurnar eða plönin og semja en henni hafi ekki fundist hann vera inní fjármálum. Hún sagði D hafa séð um skýrslurnar fyrir Kaffi Le ehf. en hún hafi aðstoðað við launaútreikninga. Hún sagðist ekki vita hverjir greiddu samkvæmt skýrslunum. Vitnið sagði að sér hefði ekki verið kunnugt um að ákærði, X, hafi komið að fjármálum Kaffi Le ehf.
Vitnið sagði ákærða, Árna Þór, hafa verið með skrifstofu fyrir innan þau sem hafi verið aðskilin frá rekstri Lífstíls ehf. en það hafi verið út af öðru fyrirtæki sem hún muni ekki hvað heiti. Hún kvaðst ekki vita til þess að hann hafi skipt sér af daglegum rekstri Lífstíls ehf. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir að ákærði, Kristján Ragnar, hafi skipt sér af daglegum rekstri á árinu 2002 þegar C var framkvæmdastjóri eða 2003 á meðan D var framkvæmdastjóri. Hún kvaðst hafa talið, þar sem hann hafi þá verið fjármálastjóri á Skjá einum, að hann hefði þá líka haft með að gera fjárumsýslu hjá Lífstíl ehf. Vitnið sagði að gerð hafi verið skýrsla fyrir hvert fyrirtæki og bókhald fyrir hvert fyrirtæki en hún haldi að uppgjör hafi farið fram hjá Lífstíl ehf. Hún sagði að sér hafi aðallega fundist ákærði, Ragnar Orri, vinna á Prikinu.
Vitnið, C, sagðist hafa verið hluthafi í Lífstíl ehf. og átt þar fjórðungshlut sem hann hafi selt í desember 2002. Hann sagði það félag hafa verið eignarhaldsfélag að stofni til sem hafi keypt önnur félög m.a. Ísafoldarhúsið ehf., Kaffi Le ehf. og Planet Reykjavík ehf. Vitnið sagði starfsmenn á skrifstofu Lífstíls ehf. hafa séð um vinnu fyrir félögin varðandi bókhald og skattskil. Hann kvaðst hafa verið stjórnarformaður þessa félags en því hlutverki hafi lokið með sölu hlutafjárins. Hann hafi hins vegar aldrei verið með prókúru þar og því ekki getað bundið félagið með neinum hætti. Vitnið sagði ákærða, Kristján Ragnar, hafa verið framkvæmdastjóra Lífstíls ehf. Hann sagðist líta svo á að ákærði, Kristján Ragnar, hafi sinnt skilum á virðisaukaskatti og staðgreiðslu vegna félaganna í samvinnu við starfsfólkið. Vitnið sagði aðspurt að þessi félög hafi að hann haldi aðeins verið í sex mánuði í eigu Lífstíls ehf. Kvaðst hann telja í grunninn að hvert félag eigi að bera ábyrgð á sér. Í þessu tilfelli hafi ákveðin skrifstofuvinna verið unnin sameiginlega til að minnka kostnað en hann hafi lagt þennan skilning í þetta. Vitnið sagði að til að byrja með hafi fjórir hluthafar verið í Lífstíl ehf., ákærðu Kristján Ragnar, Árni Þór og X en síðar hafi H keypt sinn hlut. Hann sagði að ekki hafi verið haldnir margir stjórnarfundir en haldnir hafi verið fundir þar sem farið hafi verið yfir hvað ætti að gera t.d. varðandi kaup á félögum. Hann sagði að ekki hafi verið farið yfir skattamál á fundunum. Vitnið sagði eigendur og starfsmenn skrifstofunnar hafa sótt þessa fundi. Vitnið sagði að kaup félaganna þriggja sem stofnuð voru á árinu 2002 hafi verið sameiginleg ákvörðun hluthafa Lífstíls ehf. Sjálfur kvaðst hann aldrei hafa átt hlut í Planet Reykjavík ehf. Kaupin á félögunum hafi öll verið í gegnum Lífstíl ehf. og hafi því öllum afskiptum hans af félögum sem hafi eingöngu verið í gegnum eignarhaldsfélagið Lífstíl ehf. lokið þarna í árslok 2002.
Vitnið sagði að þar sem hann hafi ekki verið með prókúru hjá Lífstíl ehf. hafi hann ekki verið raunverulegur framkvæmdastjóri félagsins. Vitnið sagði að til hafi staðið að hann tæki við framkvæmdastjórn félagsins og eftir að hann hætti hafi verið rætt um að D yrði framkvæmdastjóri en hvorugt hafi gengið eftir. Hann sagði ákærða, Kristján Ragnar, hafa tekið allar bindandi ákvarðanir félagsins. Hann kvaðst ekki geta fullyrt hvort ákærði, Kristján Ragnar, hafi tekið ákvörðun um að greiða eða greiða ekki skatta. Vitnið kvaðst ekki hafa haft áhrif á forgangsröðun greiðslna og hann kvaðst ekki geta fullyrt hver hafi haft það. Hann sagði að aðrir hafi haft aðgang að bankareikningum en hann geti ekki fullyrt hver tók ákvarðanir um einstakar greiðslur.
Vitnið sagðist ekki vita í smáatriðum hvaða afskipti ákærði Ragnar Orri hafði af rekstri og fjármálum Kaffi Le ehf. en vitnið kvaðst hafa vitað að hann var skráður framkvæmdastjóri. Hann kvaðst ekki vita hvort ákærði, Ragnar Orri, hafi átt að sjá um skil á skýrslum á virðisaukaskatti og staðgreiðslu fyrir Kaffi Le ehf.
Niðurstaða í ákærukafla A.
Árni Þór Vigfússon er ákærður fyrir að hafa ekki á tilskildum tíma skilað til innheimtumanns ríkissjóðs þeim virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið af hálfu Ísafoldarhússins ehf. frá mars 2002 til febrúar 2003. Jafnframt er Árni Þór ákærður fyrir að skila ekki afdreginni staðgreiðslu skatta fyrir tímabilið janúar til apríl 2003 og Kristján Ragnar Kristjánsson fyrir vanskil á staðgreiðslu maímánaðar 2003. Hafa ákærðu ekki véfengt að tölur þær sem ákæran byggir á séu réttar og að hinir tilgreindu skattar hafi ekki verið greiddir á réttum gjalddögum.
Til stuðnings sýknukröfu heldur ákærði, Árni Þór, því fram að hann hafi ekki komið neitt að daglegri stjórnun félagsins og að staða hans sem framkvæmdastjóri hafi í raun einungis verið að nafninu til. Hafi fjármálum Ísafoldarhússins ehf. og einnig félaganna Kaffi Le ehf. og Planet Reykjavík ehf. í reynd verið stjórnað af forsvarsmönnum Lífstíls ehf. sem stofnað hafi verið sérstaklega til að vera eins konar móðurfélag eða regnhlífarfélag fyrir þessi félög og jafnvel fleiri félög í eigu sömu aðila. Horfa verði í þessu sambandi til þess hverjir hafi í raun annast hinn daglega rekstur en ekki til þess hvaða titil þeir höfðu. Allt til áramóta 2002 til 2003 hafi C, sem verið hafi stjórnarformaður Lífstíls ehf., þannig annast daglega peningalega stjórnun Ísafoldarhússins ehf. Við þessu starfi hafi síðan tekið þeir D, fjármálastjóri þess félags, og loks ákærði Kristján Ragnar um vorið 2003.
Ákærði Árni Þór var skráður framkvæmdastjóri Ísafoldarhússins ehf. með prókúru ásamt því að vera stjórnarmaður félagsins frá stofnun þess þann 20. mars 2002 til 3. júní 2003. Bar hann því samkvæmt stöðu sinni ábyrgð á stjórnun og rekstri félagsins og þá þar á meðal skattaskilum þess og daglegri fjármálastjórn. Verður hér ekki á það fallist, með vísan til ákv. 44. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, að hann verði leystur undan slíkri ábyrgð, jafnvel þó fjármálastjórn Ísafoldarhússins ehf. hafi að einhverju leyti verið færð yfir til annars félags í eigu sömu aðila. Liggja engar upplýsingar fyrir um það í máli þessu að slíkur tilflutningur verkefna og þá ábyrgðar á milli félaganna hafi byggst á slíkum grunni að réttlætt gæti meint afskiptaleysi ákærða sem formlegs stjórnanda félagsins af skattaskilum þess.
Með bréfi, dagsettu 16. júlí 2003, var af hálfu Ísafoldarhússins ehf. óskað eftir við tollstjórann í Reykjavík að meðfylgjandi greiðsla félagsins að fjárhæð samtals 2.445.550 krónur yrði nýtt til að greiða upp höfuðstól vegna ógreidds virðisaukaskatts sem félagið taldi nema 669.583 krónum, afdregna staðgreiðslu að fjárhæð 1.773.177 krónur og til annarra opinberra gjalda að fjárhæð samtals 2.790 krónur. Af hálfu tollstjórans í Reykjavík var beiðninni hafnað með vísan til jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar og tilkynnt að í samræmi við verklagsreglu embættisins yrði greiðslu fyrst ráðstafað upp í útlagðan innheimtukostnað, síðan dráttarvexti og loks upp í höfuðstól skuldarinnar. Hefur ákærði haldið því fram að innheimtumanni hafi borið að taka tillit til þessarar óskar hans í stað þess að ráðstafa greiðslunni fyrst upp í álag, dráttarvexti og kostnað. Hafi félagið því í raun verið búið að greiða allan höfuðstól þeirra vörsluskatta sem hann er í máli þessu ákærður fyrir að vanrækja skil á þegar rannsókn lauk hjá skattrannsóknarstjóra.
Með vísan til dóma Hæstaréttar, annars vegar í málinu nr. 27/2003, sem kveðinn var upp þann 2. október 2003 og hins vegar í málinu nr. 49/2000, sem kveðinn var upp þann 22. júní 2000, verður að telja að það leiði af eðli máls og sé í samræmi við lög að skattgreiðslur gangi fyrst upp í eldri skuldir og að álag og dráttarvextir séu lögbundnar greiðslur, sem greiða ber eftir ákveðnum reglum, og verða hluti viðeigandi skattskuldar. Verður því ekki á það fallist að innheimtumanni hafi borið að taka innborganir fyrst upp í höfuðstól skuldarinnar þegar Ísafoldarhúsið ehf. innti af hendi greiðslu vegna vörsluskatta þann 16. júlí 2003. Með hliðsjón af skírum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og jafnframt dómafordæmum Hæstaréttar verður hér og við það miðað að brot þau sem ákært er fyrir í máli þessu teljist fullframin þegar innheimtum virðisaukaskatti eða innheimtri staðgreiðslu launamanna er ekki skilað á réttum gjalddaga þeirra. Innborganir sem greiddar voru inn á skuldina eftir gjalddaga, sú síðasta þann 15. júlí 2003, geta því engu um það breytt.
Samkvæmt því sem að framan greinir telst sannað að forráðamenn Ísafoldarhússins ehf. stóðu ekki á tilskildum tíma skil á þeim virðisaukaskatti og þeirri staðgreiðslu sem í ákæru greinir og verður ákærði, Árni Þór, talinn bera refsiábyrgð á þeim vanskilum sem hann er ákærður fyrir. Er hann því sakfelldur fyrir vanskil á virðisaukaskatti að fjárhæð 2.474.081 krónur og vanskil á staðgreiðslu að fjárhæð 1.809.008 krónur.
Ákærði, Kristján Ragnar, heldur því fram að hann hafi eingöngu komið að rekstrinum þegar félagið var í þann mund að hætta starfsemi og þá með það að markmiði að koma eignum í verð og nota andvirði þeirra til að greiða eitthvað úr skuldamálum þess og annarra þeirra félaga sem rekin hafi verið samhliða af sömu eigendum. Kvaðst ákærði fyrir dómi hafa að ráðum lögmanns síns skráð sig sem stjórnarmann félagsins en hinir forsvarsmenn félagsins, þeir Árni Þór og X, hafi þá verið afskráðir.
Samkvæmt tilkynningum til hlutafélagaskrár var ákærði, Kristján Ragnar, einn skráður stjórnarmaður Ísafoldarhússins ehf. frá 3. júní 2003. Þann dag tilkynnti Árni Þór um úrsögn sína úr stjórninni og að hann hefði látið af störfum sem framkvæmdastjóri með prókúrumboð. X tilkynnti um úrsögn sína úr stjórninni þann 19. maí 2003. Engum framkvæmdastjóra fyrir félagið var því til að dreifa þann 15. júní 2003 þegar skila átti staðgreiðslu maímánaðar til innheimtumanns. Ákærði, Kristján Ragnar, sem stjórnarmaður með prókúru hafði þá tekið á sig allar þær skyldur sem hvíla á stjórn einkahlutafélags samkvæmt lögum nr. 138/1994. Í þeim skyldum fólst meðal annars ábyrgð á skattskilum félagsins á gjalddaga.
Fyrir liggur samkvæmt framangreindu að innheimt staðgreiðsla fyrir maímánuð 2003 að fjárhæð 522.380 krónur var ekki greidd á lögmæltum tíma. Verður ákærði, Kristján Ragnar, talinn bera refsiábyrgð á þeim vanskilum og er hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir.
Niðurstaða í ákærukafla B.
Ákærða, Stefáni Hjörleifssyni, er gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri Japis ehf. á tímabilinu 9. nóvember 2000 til 31. júlí 2001 vanrækt að skila að fullu á gjalddaga innheimtum virðisaukaskatti félagsins sem skila átti á tímabilinu frá 5. febrúar til 5. júní 2001 og að hafa ekki skilað afdreginni staðgreiðslu starfsmanna félagsins sem skila átti á tímabilinu frá 15. apríl til 15. júlí 2001 samkvæmt nánari tilgreiningu í ákæru. Kristján Ragnar er ákærður fyrir að bera ábyrgð sem stjórnarmaður félagsins á vanskilum á virðisaukaskatti félagsins fyrir tímabilin janúar-febrúar og mars-apríl 2001 og síðan sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður fyrir tímabilin júlí-ágúst og septemberoktóber 2001. Hann er og ákærður fyrir að bera ábyrgð á að ekki var skilað afdreginni staðgreiðslu mánaðanna mars-desember 2001 sem skila átti á tímabilinu frá 15. apríl 2001 til 15. janúar 2002.
Ákærðu neita sök en véfengja ekki að tölur þær sem ákæran byggir á séu réttar og að hinir tilgreindu vörsluskattar hafi ekki verið greiddir á réttum gjalddögum.
Ákærði Stefán ritaði undir ráðningarsamning sem framkvæmdastjóri hjá Japis ehf. þann 9. nóvember 2000. Hann hefur þó borið fyrir dómi að hann hafi ekki farið að starfa í raun sem framkvæmdastjóri félagsins fyrr en um áramótin 2000-2001 þar sem samkomulag hafi verið um að hann fengi að sinna skyldum sínum vegna síns fyrra starfs allt til þess tíma. Hefur meðákærði, Kristján Ragnar, borið á sama veg fyrir dómi. Ákærði hefur og haldið því fram að hann hafi í raun ekki verið ráðinn til að annast um fjármál Japis ehf. heldur markaðs- og kynningarmál félagsins. Meðákærði, Kristján Ragnar, sem hafi verið fjármálastjóri eiganda Japis ehf., Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf., hafi í raun stjórnað fjármálum þess allan starfstíma ákærða hjá félaginu. Fær þetta nokkra stoð í framburði B, sem hafði með höndum stjórnarformennsku í félaginu. Kom fram hjá honum að ákærði hafi verið framkvæmdastjóri félagsins en meðákærði, Kristján Ragnar, hafi haft prókúru fyrir það og verið nokkuð virkur í daglegum rekstri þess, a.m.k. bæði í byrjun og í lokin. Vitnið, J, aðalbókari hjá Japis ehf., lýsti því einnig að ákærði, Stefán, hefði ekki komið að fullu til starfa hjá félaginu fyrr en um áramótin 2000-2001 og að hann hafi virst lítið hafa með fjármál félagsins að gera. Hafi hún lítið leitað til hans vegna fjármálanna heldur frekar til ákærða, Kristjáns Ragnars, ef eitthvað var.
Samkvæmt þessu þykir hér verða að leggja til grundvallar að ákærði hafi í raun hafið störf sem framkvæmdastjóri félagsins um áramótin 2000-2001. Hann virðist þó ekki hafa fengið prókúru fyrir félagið fyrr en með tilkynningu félagsins til hlutafélagaskrár, sem móttekin var þann 9. febrúar 2001. Þá fyrst var tilkynnt að hann hefði tekið við sem framkvæmdastjóri félagsins og að hann færi með prókúru þess. Hlaut ákærði frá og með þeim tíma að skoðast sem fyrirsvarsmaður félagsins í samskiptum við aðra en eigendur þess og því að teljast ábyrgur fyrir skattaskilum þess í samræmi við ákvæði 44. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Af gögnum málsins og framburðum fyrir dómi má og ráða að þegar ákærði hóf störf hjá félaginu hafi fjármál þess ekki legið ljós fyrir og bókhaldsmál ekki verið í fullkomnu lagi. Virðist þannig sem álagning þess vangreidda virðisaukaskatts sem ákært er fyrir vegna innheimtutímabilsins nóvember-desember 2000 hafi byggst á innsendri leiðréttingarskýrslu sem skilað hafi verið til skattyfirvalda við gerð skattframtals félagsins í september 2001. Samkvæmt því verður að telja verulegan vafa leika á að ákærði hafi haft nokkra raunhæfa möguleika á að koma í veg fyrir þau vanskil á virðisaukaskatti sem teljast hafa orðið með því að réttri skýrslu var ekki skilað á gjalddaga skattsins þann 5. febrúar 2001. Með vísan til ákvæða 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála þykir ákærði, Stefán, því ekki bera refsiábyrgð vegna vanskila á virðisaukaskatti fyrir tímabilið nóvember-desember 2000. Verður hann því sýknaður af þeim hluta liðs I í þessum kafla ákærunnar. Hins vegar verður hann með vísan til þess rökstuðnings sem tilgreindur er í niðurstöðu vegna ákærukafla A talinn bera refsiábyrgð á vanskilum virðisaukaskattsins vegna tímabilanna janúar-febrúar og mars-apríl 2001 samtals að fjárhæð 1.234.703 krónur og staðgreiðsluvanskilum vegna mánaðanna mars til júní 2001, samtals að fjárhæð 5.681.914 krónur, sem skráður framkvæmdastjóri félagsins á þeim tíma sem skattar þessir féllu í gjalddaga.
Ákærði, Kristján Ragnar, var skráður prókúruhafi Japis ehf. frá 16. nóvember 2000, meðstjórnandi félagsins frá 9. febrúar 2001 og framkvæmdastjóri frá 28. september 2001. Til stuðnings sýknukröfu sinni hefur hann skírskotað til þess að óeðlilegt sé að á því tímabili sem hann hafi verið skráður sem meðstjórnandi í félaginu, án þess að gegna störfum framkvæmdastjóra, eigi hann einn stjórnarmanna að bera ábyrgð á vanskilum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu en aðrir stjórnarmenn, þar á meðal stjórnarformaðurinn, sleppi við ákæru. Vitnið, B, sem skráður var stjórnarformaður félagsins allt frá 9. febrúar 2001 en virðist hafa komið fram sem slíkur allt frá því í október 2000, bar fyrir dómi að ákærði, Kristján Ragnar, hefði verið nokkuð virkur í daglegum rekstri félagsins, að minnsta kosti í upphafi, og undir lokin. Í skýrslu sinni hjá lögreglu sagði hann að ákærði, Kristján Ragnar, hafa verið mjög ráðandi varðandi fjármál félagsins. Ákærði, Stefán, hefur og borið að meðákærði, Kristján Ragnar, hafi verið mjög ráðandi í öllu sem tengdist fjármálum félagsins og að hann hafi verið mjög meðvitaður um fjárhagsstöðu þess. Sagðist ákærði, Stefán, hafa sent bæði meðákærða, Kristjáni Ragnari, og B marga tölvupósta um hver staðan væri en hann hefði þá m.a. fengið þau svör að hann ætti ekki að skipta sér af fjármálum fyrirtækisins. Ákærði, Kristján Ragnar, skýrði sjálfur frá því að hann og B hefðu í janúar 2002 haldið fund vegna skulda á vörslufé. Hann sagði að þar hafi menn verið einhuga um að leggjast á eitt með að ganga frá þessum skuldum. Vitnin, J og E, hafa og borið um stöðu ákærða, Kristjáns Ragnars, gagnvart fjármálum félagsins og vitneskju hans um skuldamál þess. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið um vitneskju og afskipti ákærða, Kristjáns Ragnars, sem stjórnarmanns af fjármálum félagsins og síðan jafnframt stöðu hans sem framkvæmdastjóra þess þykir hann bera refsiábyrgð á vanskilum á virðisaukaskatti og staðgreiðslu starfsmanna félagsins eftir 9. febrúar 2001.
Ákærði, Kristján Ragnar, heldur því og fram að þegar rannsókn lauk hjá skattrannsóknarstjóra hafi Japis ehf. í raun verið búið að greiða allan höfuðstól þeirra vörsluskatta sem hann er í máli þessu ákærður fyrir að vanrækja skil á þar sem innheimtumanni hafi borið að fara eftir óskum félagsins um að umræddri greiðslu yrði fyrst ráðstafað inn á höfuðstól áður en greiðslan gengi upp í álag, dráttarvexti og kostnað. Vísar hann til sömu sjónarmiða og áður voru rakin í niðurstöðu vegna ákærukafla A. Með vísan til þess rökstuðnings sem þar er tilgreindur verður ekki fallist á þær varnir ákærða sem lúta að því að öll höfuðstólsfjárhæð vangreidds virðisaukaskatts og staðgreiðslu hafi verið greidd á þeim tíma sem rannsókn skattrannsóknarstjóra vegna málsins lauk.
Samkvæmt þessu verður ákærði, Kristján Ragnar, sakfelldur vegna vanskila á þeim virðisaukaskatti félagsins vegna ársins 2001 sem honum er í ákæru gefið að sök að bera ábyrgð á, samtals að fjárhæð 4.097.026 krónur, og staðgreiðslu, samtals að fjárhæð 12.535.303 krónur.
Niðurstaða í ákærukafla C.
Ákærðu neita allir sök en véfengja ekki að tölur þær sem ákæran byggir á séu réttar og að hinir tilgreindu vörsluskattar hafi ekki verið greiddir á réttum gjalddögum.
Ákærði, Ragnar Orri, byggir sýknukröfu sína aðallega á því að hann hafi hvergi komið nærri fjármálum félagsins þó hann hafi verið skráður sem framkvæmdastjóri þess með prókúru. Fjármálum félagsins hafi alfarið verið stjórnað af stjórnendum Lífstíls ehf. Fyrir liggi að fjármunir hafi verið færðir frá Kaffi Le ehf. til Lífstíls ehf. og því hafi eðlilega minna orðið eftir til greiðslu á skuldbindingum Kaffi Le ehf. Telur ákærði að eðlilegra hefði verið að forráðamenn Lífstíls ehf. væru ákærðir í máli þessu sem stjórnendur fjármála Kaffi Le ehf. Í raun hafi tilviljun ein ráðið því að ákærði hafi verið skráður framkvæmdastjóri þessa félags en hann hafi í hugsunarleysi samþykkt að nafn sitt yrði notað í þessu skyni.
Enda þótt ætla megi af vitnisburðum D og framburðum annarra ákærðu að ákærði, Ragnar Orri, hafi lítið eða ekki neitt komið að fjármálalegri stjórnun Kaffi Le ehf. verður með vísan til þess rökstuðnings sem tilgreindur er í niðurstöðu í ákærukafla A að hafna þessum vörnum ákærða. Þótt á því verði byggt að tilkynning til hlutafélagaskrár um stöðu hans sem framkvæmdastjóra hafi verið nánast til málamynda breytir það engu um að hann var í lögskiptum við aðra en raunverulega eigendur félagsins fyrirsvarsmaður þess. Bar hann samkvæmt stöðu sinni ábyrgð á stjórnun og rekstri félagsins og þá þar á meðal skattaskilum þess og daglegri fjármálastjórn, sbr. ákv. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Ber hann því refsiábyrgð á þeim brotum sem hann er ákærður fyrir og felast í vanrækslu á að skila á gjalddaga innheimtum virðisaukaskatti félagsins sem skila átti á tímabilinu frá 5. febrúar til 5. júní 2003, samtals að fjárhæð 6.212.439 krónur og að hafa ekki skilað afdreginni staðgreiðslu starfsmanna félagsins sem skila átti á tímabilinu frá 15. mars til 15. júní 2003, samtals að fjárhæð 2.819.561 króna.
Aðrir ákærðu byggja varnir sínar á því að þeir hafi lítið sem ekkert komið að rekstri Kaffi Le ehf. Ákærði, Kristján Ragnar, kannast þó við í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi komið að fjármálum félagsins á miðju ári 2003. Þannig skýrði hann frá því að hann hefði komið að skattamálum félagsins undir lok apríl 2003 þegar vörsluskattar og fleiri gjöld voru komin í vanskil. Hann kvaðst svo hafa farið fyrir eigendahópnum eftir fund með tveimur lögmönnum þann 3. júní það ár í því skyni að leita leiða til að greiða upp vörsluskatta félagsins. Hafi hann síðan unnið í því að koma eignum félagsins í verð til að greiða vörsluskattana.
Samkvæmt tilkynningu Kaffi Le ehf. til hlutafélagaskrár gerðist ákærði, Kristján Ragnar, stjórnarmaður í félaginu þann 3. júní 2003. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið um afskipti hans af fjármálum félagsins þykir hann skv. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 bera refsiábyrgð á vanskilum á þeim virðisaukaskatti og staðgreiðslu starfsmanna sem gjaldféllu eftir þann dag. Verður hann því talinn refsiábyrgur fyrir þeim virðisaukaskatti félagsins sem innheimtur var á tímabilinu mars-apríl 2003 og gjaldféll þann 5. júní 2003, að fjárhæð 2.089.572 krónur, og þeirri staðgreiðslu starfsmanna félagsins sem haldið var eftir af launum starfsfólksins fyrir maímánuð 2003 og skila átti þann 15. júní 2003, að fjárhæð 860.996 krónur. Er hann því sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök í þessum ákærukafla.
Ákærði, Kristján Ragnar, bar og að ákærðu, X og Árni Þór, hefðu ekkert komið að fjármálum félagsins á þeim tíma sem ákæran lýtur að. Á sama veg bar ákærði, Ragnar Orri, fyrir dómi. Eins og fyrr greinir var ákærði, Ragnar Orri, skráður framkvæmdastjóri Kaffi Le ehf. allan starfstíma félagsins. Með vísan til skyldna hans sem framkvæmdastjóra, samanber það sem áður hefur verið rakið, og til þess að ákæruvaldið þykir ekki hafa sýnt nægilega fram á að ákærðu, X og Árni Þór, hafi komið með þeim hætti að fjármálum félagsins, þar á meðal skattaskilum þess, að þeir teljist með því hafa fellt á sig refsiábyrgð vegna hinna tilgreindu vanskila, þykir verða að sýkna þá af ákæruatriðum vegna þessa ákærukafla.
Niðurstaða í ákærukafla D.
Ákærði, Kristján Ragnar, neitar hér sök vegna vanskila á virðisaukaskatti og sömuleiðis vegna vanskila á staðgreiðslu allt fram á vor 2003 en játar sök vegna staðgreiðsluvanskila eftir þann tíma. Byggir hann vörn sína aðallega á því að þrátt fyrir að hann hafi allan starfstíma félagsins verið skráður framkvæmdastjóri Lífstíls ehf. hafi hann lengst af ekkert komið að fjármálum félagsins. C hafi haft yfirumsjón með öllum fjármálum þess allt þar til í lok desember 2002 en þá hafi D fjármálastjóri tekið við því starfi og sinnt því allt þar til hann hætti störfum hjá félaginu vorið 2003 og hafi ákærði síðan komið að rekstri félagsins í apríl það ár. Heldur ákærði því fram að tilgangurinn með aðkomu hans að félaginu þá hafi aðallega verið sá að reyna að koma skikk á fjármál þess og þá m.a. að greiða ógreiddan virðisaukaskatt og staðgreiðslu. Ákærði var allan starfstíma félagsins skráður framkvæmdastjóri þess með prókúru. Með vísan til þeirra raka sem byggt er á í niðurstöðu vegna ákærukafla A, B og C verður að hafna þessum rökum ákærða og telja hann bera fulla ábyrgð á öllum vanskilum Lífstíls ehf. vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu.
Til stuðnings sýknukröfu sinni að hluta vísar ákærði og til þess með sömu rökum og rakin eru í ákærukafla A að höfuðstóll skuldarinnar hafi að mestu verið greiddur við útgáfu ákæru, en hann hafi talið að félagið væri að gera upp skuld sína að mestu er það fór fram á það við tollstjórann í Reykjavík, með bréfum þann dags. 30. september 2003 og 29. október 2003, að meðfylgjandi greiðslur gengju til innborgunar á höfuðstól vörsluskatta félagsins. Með vísan til þess sem fram kemur í niðurstöðu vegna ákærukafla A er ekki fallist á að Lífstíll ehf. hafi átt rétt á að greiðslur þess yrðu fyrst látnar ganga upp í höfuðstól. Breytir það enda engu um brot félagsins þar eð lagt er til grundvallar í máli þessu að brot skattaðila vegna vanskila greiðslu virðisaukaskatts og skilaskyldrar staðgreiðslu teljist fullframin þegar er vanskil verða á greiðslu skattanna til innheimtumanns ríkissjóðs.
Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ákærði talinn sekur um að hafa vanrækt að skila á gjalddaga innheimtum virðisaukaskatti félagsins, sem skila átti á tímabilinu frá 5. desember 2002 til 5. júní 2003, samtals að fjárhæð 6.660.410 krónur, og að hafa ekki skilað afdreginni staðgreiðslu starfsmanna félagsins, sem skila átti á tímabilinu frá 15. janúar til 15. júní 2003, samtals að fjárhæð 9.507.264 krónur.
Niðurstaða í ákærukafla E.
Ákærða, Kristjáni Ragnari, er hér gefið að sök að bera, sem stjórnarmaður og daglegur stjórnandi Planet Reykjavík ehf., ábyrgð á vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins vegna greiðslutímabilanna janúar-maí 2003 sem féll í gjalddaga frá 15. febrúar til 15. júní 2003. Á þessu tímabili var C skráður hjá hlutafélagaskrá sem framkvæmdastjóri félagsins með prókúruumboð frá stofnun þess þann 11. september 2002 allt til 16. maí 2003. Ákærði, Árni Þór, var skráður stjórnarformaður þess frá stofnun til 20. maí 2003, ákærði, X, skráður sem meðstjórnandi frá stofnun til 16. maí 2003 og ákærði, Kristján Ragnar, sem meðstjórnandi frá stofnun til 3. júní 2003 og sem stjórnarmaður með prókúruumboð frá 3. til 16. júní 2003.
Af hálfu ákærða, Kristjáns Ragnars, hefur því verið mótmælt að hann verði einn látinn bera refsiábyrgð sem stjórnandi Planet Reykjavík ehf. Hann hafi ekkert komið að fjármálalegri stjórn félagsins nema í þeim tilgangi að reyna að bjarga málum eftir 3. júní 2003 í þessu félagi eins og hinum félögunum sem verið hafi í eigu og undir stjórn Lífstíls ehf. Hafi öll fjármálaleg stjórn á Planet Reykjavík ehf., Ísafoldarhúsinu ehf. og Kaffi Le ehf. því í raun verið hjá Lífstíl ehf. sem móðurfélagi þeirra. Hafi stjórnendur og fjármálastjórar Lífstíls ehf. því stjórnað rekstri hinna þriggja félaganna.
Ákærði hefur sjálfur greint frá því fyrir dómi að eftir að C hætti störfum hjá Lífstíl ehf., í lok desember 2002, hafi D tekið við starfi framkvæmdastjóra félagsins og þar með orðið raunverulegur stjórnandi félaganna þriggja. Sjálfur kvaðst ákærði fyrst hafa komið fram sem stjórnandi að þessu leyti þegar hann í kjölfar fundar í lok mars með D og H, starfsmanni félagsins, ákvað að hverfa frá sínum störfum sem hann hefði sinnt mánuðina þarna á undan hjá félagi sem heiti Skandia timber og reyna að koma lagi á rekstur allra félaganna. Kvaðst hann síðan hafa tekið við stjórn Lífstíls ehf. og dótturfyrirtækjanna í apríl 2003 þegar ljóst hafi verið að rekstur þeirra væri kominn í óefni.
Vitnið, D, kvaðst hafa tekið við sem fjármálalegur stjórnandi Lífstíls ehf. af C og hafi hann fyrstu tvo mánuðina verið titlaður framkvæmdastjóri þess félags. Ákærði, Kristján Ragnar, hafi síðan komið að þessu um vorið þegar stjórnendur voru að reyna að koma vörslusköttum í skil og kvaðst D hafa heyrt undir ákærða, Kristján Ragnar, eftir að hann tók við stjórninni. D staðfesti og með vitnisburði sínum að öll fjármálastjórn fyrrgreindra þriggja félaga og þar á meðal Planet Reykjavík ehf. hafi verið hjá þeim sem stjórnuðu Lífstíl ehf. á hverjum tíma. Er framburður þessi í samræmi við það sem komið hefur fram hjá öðrum ákærðu í málinu.
Eins og fyrr hefur verið rakið var C skráður framkvæmdastjóri með prókúru fyrir Planet Reykjavík ehf. allan þann tíma sem þau brot sem hér er ákært útaf áttu sér stað. Liggur fyrir að hann hætti öllum afskiptum af stjórn Lífstíls ehf. og þá hinna félaganna þriggja í lok desember 2002 og greindi sækjandi frá því við aðalmeðferð málsins fyrir dómi að það væri ástæða þess að hann væri ekki ákærður í máli þessu.
Skýrði Cdóminum frá því að ákærði, Kristján Ragnar, hefði sem framkvæmdastjóri Lífstíls ehf. sinnt skilum á virðisaukaskatti og staðgreiðslu vegna Ísafoldarhússins ehf., Kaffi Le ehf. og Planet Reykjavík ehf. í samvinnu við starfsfólk félaganna. Vanskil þau sem ákærða, Kristjáni Ragnari, er gefið að sök að bera ábyrgð á í þessum kafla ákærunnar urðu öll á árinu 2003 eða eftir að C hætti störfum hjá Lífstíl ehf. í desember 2002. Þykir vitnisburður hans því ekki hafa sönnunargildi varðandi það tímabil vanskila sem þessi kafli ákærunnar fjallar um.
Að virtu því sem hér hefur verið rakið þykir vera komin fram sönnun fyrir því að stjórnendur Lífstíls ehf. á hverjum tíma hafi í raun farið með fjármálalega yfirstjórn á Planet Reykjavík ehf. Þrátt fyrir að ákærði hafi verið skráður framkvæmdastjóri Lífstíls ehf. allan starfstíma þess þykir þó ekki hafa verið sýnt nægilega fram á að hann hafi komið að daglegum rekstri eða fjármálalegri stjórnun Planet Reykjavík ehf. fyrr en í apríl 2003. Þar eð ekki hefur komið skýrlega fram í málinu hvenær í apríl ákærði hóf umrætt starf verður sá vafi virtur honum í hag og lagt til grundvallar að það hafi gerst eftir gjalddagann þann 15. apríl 2003. Hins vegar þykir ákærði, vegna afskipta hans af rekstri Planet Reykjavík ehf. sem stjórnarmaður félagsins og daglegur stjórnandi þess, bera refsiábyrgð á þeim vanskilum á staðgreiðslu sem urðu eftir það tímamark. Verður hann samkvæmt því sakfelldur vegna vanskila á staðgreiðslu vegna tímabilanna apríl og maí 2003, sem gjaldféll þann 15. maí og 15. júní það ár, samtals að fjárhæð 1.548.502 krónur, en sýknaður af ákæru vegna staðgreiðslunnar frá janúar til mars 2003, sem féll í gjalddaga frá 15. febrúar til 15. apríl það ár.
Refsingar og sakarkostnaður.
Fjárhæðin sem ákærði, Árni Þór, er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á nemur alls 4.283.089 krónum. Varðar háttsemi hans við ákvæði laga nr. 40/1988 um virðisaukaskatt og laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem tilgreind eru í ákæru, samanber þar til greind breytingarlög. Samkvæmt þessum lagaákvæðum ber að dæma ákærða til að greiða fésekt að lágmarki tvöfalda þá fjárhæð sem ekki voru gerð skil á. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð sekt í ríkissjóð 8.600.000 krónur og komi fimm mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Með hliðsjón af upphæð vanskila teljast brot hans meiri háttar í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða, Árni Þór, var með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum þann 28. apríl 2005, gert að sæta 15 mánaða fangelsi fyrir hylmingarbrot. Verður refsing hans nú ákveðin sem hegningarauki við refsingu samkvæmt þessum dómi samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem ekki verður séð að brot hans í þessu máli hefðu leitt til þyngri fangelsisvistar hefði refsing vegna þeirra jafnframt verið ákvörðuð í því máli verður honum nú ekki gerð sérstök fangelsisrefsing.
Fjárhæð sú sem ákærði, Kristján Ragnar, er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á nemur alls 37.821.453 krónum. Varðar háttsemi hans við ákvæði laga nr. 40/1988 um virðisaukaskatt og laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem tilgreind eru í ákæru, samanber þar til greind breytingarlög. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð sekt í ríkissjóð 65.800.000 krónur og komi 12 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Með hliðsjón af upphæð vanskila teljast brot hans meiri háttar í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða, Kristjáni Ragnari, var með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum þann 28. apríl 2005, gert að sæta 18 mánaða fangelsi fyrir hylmingarbrot. Að öðru leyti hefur hann ekki áður sætt refsingu sem máli skiptir. Verður refsing hans nú ákveðin sem hegningarauki við refsingu samkvæmt þessum dómi samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem ekki verður séð að brot hans í þessu máli hefðu leitt til þyngri fangelsisvistar hefði refsing vegna þeirra jafnframt verið ákvörðuð í því máli verður honum nú ekki gerð sérstök fangelsisrefsing.
Fjárhæð sú sem ákærði, Ragnar Orri, er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á nemur alls 9.032.000 krónum. Varðar háttsemi hans við ákvæði laga nr. 40/1988 um virðisaukaskatt og laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem tilgreind eru í ákæru, samanber þar til greind breytingarlög. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð sekt í ríkissjóð 15.200.000 krónur og komi átta mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Með hliðsjón af upphæð vanskilanna teljast brot hans meiri háttar í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða, Ragnari Orra, var með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum þann 28. apríl 2005, gert að sæta fangelsi í 3 mánuði fyrir brot gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Að öðru leyti hefur hann ekki sætt refsingu er máli skiptir. Verður refsing hans nú ákveðin sem hegningarauki við refsingu samkvæmt fyrrgreindum dómi samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem ekki verður séð að brot hans í þessu máli hefðu leitt til þyngri fangelsisvistar hefði refsing vegna þeirra jafnframt verið ákvörðuð í því máli verður honum nú ekki gerð sérstök fangelsisrefsing.
Ákærði, Stefán, hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað svo kunnugt sé. Fjárhæð sú sem hann er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á nemur alls 6.916.517 krónum. Varðar háttsemi hans við ákvæði laga nr. 40/1988 um virðisaukaskatt og laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem tilgreind eru í ákæru, samanber þar til greind breytingarlög. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð sekt í ríkissjóð 7.000.000 krónur og komi fjögurra mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins. Með hliðsjón af upphæð vanskilanna teljast brot hans jafnframt varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður honum því jafnframt gert að sæta fangelsi í 3 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að 2 árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1995.
Um málsvarnarlaun og sakarkostnað fer svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til tímaskýrslna verjenda og vinnu á rannsóknarstigi málsins.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Það athugist að vegna mikilla anna héraðsdómara og umfangs máls þessa hefur uppkvaðning dóms dregist fram yfir þann frest sem tiltekinn er í 2. tl. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Helga Magnúsi Gunnarssyni, fulltrúa ríkislögreglustjóra.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Árni Þór Vigfússon, greiði í ríkissjóð 8.600.000 króna sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms en sæti ella fangelsi í fimm mánuði.
Ákærði, Kristján Ragnar Kristjánsson, greiði í ríkissjóð 65.800.000 króna sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði, Ragnar Orri Benediktsson, greiði í ríkissjóð 15.200.000 króna sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms en sæti ella fangelsi í 8 mánuði.
Ákærði, Stefán Hjörleifsson, sæti fangelsi í 3 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að 2 árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1995. Þá greiði ákærði, Stefán, í ríkissjóð 7.000.000 króna sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms en sæti ella fangelsi í 4 mánuði.
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvalds í málinu.
Ákærði, Árni Þór, greiði 2/3 hluta af 450.000 króna málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, og 2/3 hluta útlagðs kostnaðar að fjárhæð 62.400 krónur vegna réttargæsluþóknunar Einars S. Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns en 1/3 hluti málsvarnarlauna hans og réttargæslukostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Kristján Ragnar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 600.000 krónur. Þá greiði hann útlagðan kostnað vegna réttargæsluþóknunar Einars S. Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns, 101.400 krónur.
Ákærði, Ragnar Orri, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 320.000 krónur, og réttargæslulaun að fjárhæð 50.000 krónur.
Ákærði, Stefán, greiði 2/3 hluta af 300.000 króna málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, en 1/3 hluti greiðist úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu Árni Þór, Kristján Ragnar, Ragnar Orri og Stefán sameiginlega að ¾ hlutum en ¼ hluti greiðist úr ríkissjóði.