Hæstiréttur íslands

Mál nr. 374/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 4. júní  2013.

Nr. 374/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. júní sama ár, klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að ,,hnekkt verði úrskurði Héraðsdóms Reykjaness ... þess efnis að [varnaraðila] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi“ til áðurnefnds dags.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2013.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X kt. [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 7. júní 2013, kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðahaldinu stendur.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að embættið hafi nú til rannsóknar mál á hendur kærða, X, vegna ætlaðra fjársvika og skjalafals. Þriðjudaginn 28. maí 2013 hafi kærandi, A, lagt fram kæru á hendur kærða vegna ætlaðra fjársvika gagnvart sér og í kjölfarið ætlaðra fjársvika gagnvart fjölda fyrirtækja. Kærði sé grunaður um að hafa þann 17. apríl s.l. fengið kæranda til þess að undirrita kaupsamning og afsal til kærða á B ehf., kt. [...], auk þess að veita honum prókúru á bankareikning félagsins í Landsbanka Ísland hf. með því að framvísa fölsuðum millifærslukvittunum frá MP banka hf. til að sýna fram á að greiðsla hefði farið fram fyrir kaupunum.

Fyrir liggi rökstuddur grunur um umfangsmikil fjársvik af hálfu kærða í tengslum við ýmis konar þjónustu- og vörukaup í krafti „stöðu“ sinnar innan félagsins hjá á annan tug fyrirtækja, þar af bílaleigum, matsölustöðum, raftækjaverslunum o.fl. Athygli veki að eitt þeirra fyrirtæja sem um ræði sé C ehf., en þar hafi verið keyptur fullkominn prentari, sem ætlaður sé til þess að prenta út aðgangskort o.fl. Lögregla hafi grun um að prentarinn hafi verið notaður til þess að búa til aðgangskort, sem kærði hafi framvísað í þeim tilgangi að auka trúverðugleika sinn við fjársvik gagnvart fyrirtækjum.

Með úrskurði Héraðsdóm Reykjaness, dags. 30. maí s.l., í máli nr. R-364/2013, hafi verið fengin heimild til húsleitar á lögheimili kærða. Kærði hafi verið handtekinn fyrr í dag og leit framkvæmd á heimili hans. Þar hafi fundist nokkrir munir sem taldir séu vera frá fyrirtækjum sem hafi orðið fyrir barðinu á kærða. Þá hafi kærði heimilað leit í geymslu hjá D að [...] og hafi þar fundist gríðarlegur fjöldi muna, sem kærði sé talinn hafa komist yfir með ólögmætum hætti. Svo virðist sem kærði hafi þegar komið einhverjum munum undan þar sem umbúðir af vörum hafi fundist í geymslunni en ekki vörurnar sjálfar. Einnig hafi fundist reikningar frá fjölda annarra fyrirtækja en greinir í gögnum málsins fyrir hinum ýmsu vörum.

Við þetta bætist 1.000.000 króna inneign, sem hafi verið á bankareikning félagsins. Þá liggi fyrir að sífellt fleiri kröfur berist B ehf. vegna framferðis kærða og sé á þessum tímapunkti ekki með nokkru leyti hægt að spá fyrir um hversu mikil verðmæti kærði hafi komist yfir, en svo virðist sem þau hlaupi a.m.k. vel á annan tug milljóna. Af þeim kröfum sem þegar hafi borist á hendur félaginu, auk þeirra fjármuna sem félagið hafi átt á fyrrgreindum bankareikningi, nemi hinn ólögmæti ávinningur 5.388.374 króna, en umfangið virðist vera mun meira sem fyrr segi.

Í greinargerðinni segir að þess beri einnig að geta að lögregla sé með fimm önnur mismunandi auðgunarbrotamál til rannsóknar á hendur kærða, en þar sé meint tjón kærenda talið nema 5.281.139 krónum. Þá hafi kærði játað sök í enn öðru máli, sem hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu og snúi að húsbroti í E hf. ,auk þess sem að ákæra hafi nýlega verið gefin út á hendur kærða vegna kynferðisbrots gegn ungmenni.

Með vísan til framangreinds og til gagna málsins sé að mati lögreglu rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um skjalafals og fjársvik.

Rannsókn málsins sé á frumstigi. Miðað við það sem fram sé komið í málinu virðist kærði hafa gerst mjög stórtækur og verið skipulagður í sínum auðgunarbrotum. Nú liggi fyrir lögreglu að hafa uppi á meintum brotaþolum og vitnum og afla frekari gagna vegna málsins og ekki síður að vinna úr þeim upplýsingum, sem lögregla hafi þegar komist yfir. Þá sé ekki loku fyrir það skotið að kærði kunni að hafa fleiri staði til umráða þar sem að verðmæti séu geymd. Megi ætla að verði kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að ræða við vitni, eyða og/eða fela gögn og aðra muni sem lögregla hafi ekki enn tekist að hafa upp á. Á þessu stigi málsins sé jafnframt ekki ljóst hvort að kærði eigi sér vitorðsmann/vitorðsmenn en ljóst sé að kærði hafi verið í slagtogi með ungum manni upp á síðkastið, sem lögreglu hafi ekki enn gefist kostur á að yfirheyra. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að koma í veg fyrir að sakborningur geti spillt rannsókn málsins. Af framangreindum ástæðum sé einnig farið fram á að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Til rannsóknar séu ætluð brot gegn 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn fyrrgreinda ákvæðinu varði allt að 8 ára fangelsi. Meint sakarefni séu skjalafals og fjársvik samkvæmt 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga. Við þessum brotum liggur allt að átta ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða.

Kærði er undir rökstuddum grun um brot, sem varðað getur fangelsi. Rannsókn málsins er á frumstigi og á eftir að yfirheyra hugsanleg vitni og rannsaka haldlögð gögn. Hætta þykir á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjótan undan munum eða hafa áhrif á hugsanlega samseka eða vitni, gangi hann laus. Samkvæmt framangreindu eru skilyrði gæsluvarðhalds fyrir hendi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem sýna fram á að rétt sé að mæla fyrir um að kærða verði gert að sæta vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun í stað gæsluvarðhalds, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til alls framangreinds er krafa lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi tekin til greina og er kærða jafnframt gert að sæta eingrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b-lið 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga.

                Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. júní nk. kl. 16:00. Kærða er gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðahaldinu stendur.