Hæstiréttur íslands
Mál nr. 399/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorðsrof
- Reynslulausn
- Skaðabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hún krefjist þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Karel Atli Ólafsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 638.019 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2015.
Ár 2015, föstudaginn 15. maí, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 121/2015: Ákæruvaldið (Hildur Sunna Pálmadóttir) gegn Karel Atla Ólafssyni (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.), sem tekið var til dóms að aflokinni aðalmeðferð hinn 11. maí sl.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 24. febrúar sl. á hendur ákærða, Karel Atla Ólafssyni, kt. [...], Vesturbergi 28, Reykjavík, fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. september 2014, inni á reykingasvæði skemmtistaðarins [...] í Austurstræti í miðbæ Reykjavíkur, slegið A eitt högg með krepptum hnefa í andlitið, með þeim afleiðingum að hún hlaut heilahristing, bólgu yfir vinstra kinnbeini og skurð undir vinstri augabrún.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gerir Ingólfur Kristinn Magnússon hdl., fyrir hönd A, kröfu um að ákærði greiði henni skaða- og miskabætur að fjárhæð 637.195 krónur með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. september 2014 til birtingu kröfunnar, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
Málavextir
Aðfaranótt laugardagsins 20. september 2014 var lögregla kvödd að [...] í miðbæ Reykjavíkur vegna líkamsárásar. Samkvæmt staðfestri skýrslu B lögreglumanns var þar fyrir A með blæðandi sár á vinstri augabrún. Sagði hún mann að nafni Karel Atli hafa kýlt sig í andlitið að tilefnislausu. Þá var þar staddur maður að nafni C, sem sagði Karel Atla hafa kýlt A í andlitið og horfið á brott að því búnu. Karel Atli, ákærði í máli þessu, var svo handtekinn fyrir utan annan skemmtistað í nágrenninu og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Samkvæmt skýrslunni viðurkenndi ákærði að hafa slegið einhvern á [...] en það hefði verið gert í sjálfsvörn.
A leitaði á slysadeild með meiðsli sín og segir um þau í staðfestu vottorði D læknis að væg blæðing hafi verið í slímhúð vinstra auga en sjón á auganu hafi verið eðlileg. Þá hafi hún verið bólgin yfir kinnbeini vinstra megin en ekki þó yfir kinnbeinsboganum. Bit í kjálka hafi verið eðlilegt. Þá hafi verið skurður vinstra megin undir vinstri augabrún sem lokast hafði með storknu blóði. Haft er eftir A í vottorðinu að hún hafi misst sjón tímabundið á auganu eftir höggið og orðið mjög ringluð. Þá segir að hún hafi virst lítillega vönkuð en taugaskoðun hafi verið eðlileg og ekki sést vísbendingar um alvarlegan augnáverka. Er það álit læknisins að A hafi fengið talsvert högg en áverkar verði ekki varanlegir, nema þá ör á augabrúninni.
Ákærði var yfirheyrður þennan morgun á lögreglustöðinni að viðstöddum verjanda sínum. Sagðist honum svo frá að hópur fólks hefði verið að atast í kærustu hans á [...] og hann farið henni til hjálpar. Hefði hann stjakað fólki frá henni en þá hefði einhver, sem hann ekki sá, kýlt hann í andlitið. Hefði hann þá kýlt frá sér en ekki tekið eftir því hvort nokkur varð fyrir högginu. Hann kvaðst ekki þekkja A. Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þegar þetta gerðist en muna þó atvikin.
A gaf skýrslu hjá lögreglu tveim dögum síðar. Sagðist hún hafa verið svolítið drukkin í umrætt sinn. Kvaðst hún hafa farið inn á reykingasvæði [...] þar sem vinir hennar voru að spjalli við einhverja. Hefði hún sest í fangið á einhverjum strák en þá hefði stúlka komið að, sagst vera kærasta stráksins og ýtt við sér. Kvað hún vin sinn hafa komið strax til skjalanna og farið með sig afsíðis en hún reynt að komast til baka. Vinurinn hefði hins vegar haldið henni og hún róast aftur. Næst myndi hún eftir því að hnefi skall í andliti hennar og hún varð „alblóðug“. Hún hefði ekki vitað hver sló hana en verið sagt að það hefði verið Karel Atli. Hefði hún misst sjón á báðum augum við þetta en fengið sjónina aftur á hægra auga. Hún sæi hins vegar allt í móðu með því vinstra.
Meðferð málsins fyrir dómi
Ákærði hefur skýrt frá því að þegar hann kom þarna að hafi allir verið í einhverju uppnámi og æpandi. Hafi hann farið til og reynt að stía fólki í sundur en þá verið kýldur á vangann en hann ekki fengið áverka af því höggi. Hafi hann þá ýtt frá sér aftur. Hann kveðst hafa slegið frá sér en þó ekki með krepptum hnefa. Hafi þetta verið viðbrögð við högginu sem hann fékk. Hann kveðst svo hafa farið út af staðnum. Hann kveðst hafa verið undir áhrifum áfengis þetta kvöld en þó ekki fullur. Hann kveðst ekki hafa átt neitt sökótt við A og ekki þekkt hana þá.
A hefur skýrt frá því að hún hafi farið inn á reykingasvæðið á [...] í umrætt sinn ásamt vinkonu sinni. Þar hafi verið tveir kunningjar hennar á tali við stúlku og ákærða og vini hans. Einhver strákur hafi komið með stól og hún sest á hann en svo sest í kjöltu stráksins. Hafi þá stúlka komið að og sagst vera kærasta stráksins og gert sig líklega til þess að ýta við sér. Kveður hún þá vin sinn hafa dregið sig afsíðis en ákærði komið á eftir þeim og verið að rífast yfir því að þau hefðu verið að abbast upp á kærustu hans. Kveðst hún hafa svarað honum en það næsta sem hún muni sé að hún fékk hnefahögg í andlitið frá ákærða. Hafi hún staðið upp við vegg þegar þetta gerðist en ákærði staðið andspænis henni. Kveðst hún hafa kannast við ákærða í sjón, enda eigi þau sameiginlega vini. Aðspurð vegna skýrslu hennar hjá lögreglu segist hún hafa sagt mun ítarlegar frá atvikinu en þar komi fram og vanti mjög mikið í skýrsluna. Kveðst hún auk þess hafa verið í losti eftir þennan atburð þegar hún gaf skýrsluna.
E hefur skýrt frá því að tvær stúlkur hafi komið að þeim F, vinkonu hennar, og kærasta F, á [...]. Hafi önnur stúlkan sest á kærasta F en F beðið hana að standa upp því þetta væri kærastinn hennar. Hafi þær hinar þá verið með einhver leiðindi og hleypt illu blóði í alla sem þarna voru nálægt og stympingar orðið. Hún segist þó ekki hafa séð átök einstakra manna þarna og ekki séð að neinn væri sleginn.
F hefur komið fyrir dóminn en hún kveðst ekki hafa séð nein átök á [...]. Hún segist hafa lent í rifrildi við kærasta sinn þar á reykingasvæðinu.
G, kærasti F, hefur skýrt frá því að uppnám hafi orðið á skemmtistaðnum í umrætt sinn og upp úr því hafi ákærði verið tekinn og sakaður um að hafa slegið stúlku. Kveðst hann ekki hafa séð ákærða slá neinn en þarna hafi margir verið að rífast.
H, vinkona A, hefur skýrt frá því að hún hafi sest á bekk á reykingasvæðinu við hliðina á stúlku sem hún ekki kannaðist við. A hafi sest í fangið á einhverjum strák. Stúlka hafi svo komið og haft við það að athuga að strákurinn væri kærastinn sinn og verið leið. Hafi vinur A þá fært hana á bak við vitnið, sem kveðst hafa farið að tala við stúlkuna. Kveðst hún svo hafa heyrt læti fyrir aftan sig og snúið sér við. Hafi hún þá séð strák kýla A hnefahögg í andlitið. Hún kveðst ekki myndu geta borið kennsl á þennan strák en strákar, sem þarna voru, hafi sagt hvað hann héti.
C hefur skýrt frá því að hann hafi verið staddur á [...] í umrætt sinn og stelpur hefðu þar verið að rífast við ákærða. Margt fólk hafi verið statt þarna. Kveðst hann ekki hafa séð átök en kveðst hafa dregið A í burtu eftir að hún hafði verið kýld. Sé ekki rétt haft eftir honum í frumskýrslu lögreglu að hann hafi séð ákærða kýla hana.
D læknir hefur komið fyrir dóm. Hann segir áverkana á A vel geta samræmst því að hún hafi verið kýld beint framan á andlitið.
B lögreglumaður, hefur komið fyrir dóm og greint frá því að A hefði komið út að lögreglubílnum og sagt að maður að nafni Karel hefði kýlt hana og þekkti hún hann í sjón. Þá sagði hún kunningja sinn, C, þekkja þennan mann.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hann kannast þó við að hafa slegið frá sér eftir að hafa orðið fyrir höggi en viti ekki hvort nokkur varð fyrir því höggi. Hjá lögreglu sagðist hann hafa kýlt frá sér en fyrir dómi segist hafa slegið frá sér með flötum lófa. Í skýrslu A hjá lögreglu segir að hún hafi ekki séð þann sem sló hana heldur einungis séð hnefann koma og skella í henni. Fyrir dómi hefur hún sagst hafa staðið andspænis ákærða og séð þegar hann sló hana. Segist hún hafa sagt mun ítarlegar frá atvikinu í yfirheyrslunni en skýrslan beri með sér. Þá tekur hún fram að hún hafi enn verið í losti eftir atburðinn þegar hún gaf skýrsluna. Dómurinn lítur ekki svo á að þessi munur á skýrslum A sé til þess fallinn að draga úr trúverðugleika skýrslu hennar fyrir dómi. Þegar svo höfð er hliðsjón af frásögn H um að hún hafi séð strák kýla A, af framburði C um að hann hafi orðið þess var að hún hafði verið slegin rétt á undan og jafnframt af læknisvottorði og framburði D, þykir mega leggja framburð A til grundvallar í málinu og telja sannað að ákærði hafi slegið hana hnefahöggi í umrætt sinn og valdið þeim skaða sem lýst er í ákæru og læknisvottorði. Hefur hann með þessu athæfi orðið brotlegur við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði á nokkurn sakaferil að baki. Honum var veitt reynslulausn 20. nóvember 2013 af 176 fangelsisdögum. Ákærði rauf skilorð reynslulausnarinnar með broti sínu og ber að dæma hana upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði.
Dæma ber ákærða til þess að greiða A 300.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001frá 20. september 2014 til 8. apríl 2015, en eftir það með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Guðmundi St. Ragnarssyni hdl., 412.500 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá greiði ákærði lögmannsþóknun Ingólfs Kristins Magnússonar hdl., 206.250 krónur, einnig að meðtöldum virðisaukaskatti.
Loks ber að dæma að ákærði greiði annan kostnað af málinu, 40.000 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Karel Atli Ólafsson, sæti fangelsi í sjö mánuði.
Ákærði greiði A 300.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 20. september 2014 til 8. apríl 2015, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Ákærði greiði verjanda sínum, Guðmundi St. Ragnarssyni hdl., 412.500 krónur í málsvarnarlaun og Ingólfi Kristni Magnússyni hdl., 206.250 krónur í málskostnað.
Loks greiði ákærði annan kostnað af málinu, 40.000 krónur.