Hæstiréttur íslands
Mál nr. 391/2006
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 7. desember 2006. |
|
Nr. 391/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Birki Árnasyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl. Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl.) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
B var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa með ofbeldi neytt Y til að hafa við sig munnmök, reynt að þröngva henni til samræðis og sett fingur í leggöng hennar. Fjölskipaður héraðsdómur sakfelldi B fyrir aðra háttsemi en síðastnefnda. Með vísan til þess að héraðsdómur hefði metið frásögn Y af atburðum trúverðuga, forsendna dómsins um að Y hefði borið líkamlega áverka á hálsi sem samræmdist framburði hennar og framburðar vitna var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu B. Að virtum ungum aldri B og atvikum málsins að öðru leyti þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða Y 800.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. júní 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu hans, sem verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu Y verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni en fjárhæð hennar lækkuð ella.
Svo sem í héraðsdómi greinir hefur Y borið að ákærði hafi þvingað hana til munnmaka og gert tilraun til að setja getnaðarlim sinn í leggöng hennar, eins og hann er sakaður um. Héraðsdómur hefur metið það svo að hún hafi verið trúverðug í frásögn sinni af atburðum. Sú frásögn hennar hefur verið á sömu lund allt frá fyrstu skýrslu hjá lögreglu um morguninn eftir atburðinn. Fram kemur og í forsendum héraðsdóms að hún hafi borið líkamlega áverka á hálsi, sem samræmist þeim framburði hennar að ákærði hafi gripið um háls hennar. Þar er og rakið að vitni hafi borið um að hár hennar hafi verið tætt og reitt er hún hafi komið að tjaldinu eftir að hafa verið í trjálundi með ákærða og að það samræmist staðhæfingu hennar að ákærði hafi rifið í hár hennar. Jafnframt er þar rakið að vitni hafi borið um að hún hafi verið grátandi og í miklu uppnámi. Með vísan til þessara forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Að virtum ungum aldri ákærða og atvikum málsins að öðru leyti er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að Y eigi rétt á miskabótum úr hendi ákærða. Eru þær hæfilega ákveðnar 800.000 krónur, sem dæmdar verða með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Birkir Árnason, sæti fangelsi 18 mánuði.
Ákærði greiði Y 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. júlí 2005 til 14. mars 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 508.285 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. maí sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 15. mars 2006, á hendur Birki Árnasyni, Frostafold 32, Reykjavík, fyrir kynferðisbrot gegn Y að morgni laugardagsins 2. júlí 2005, við tjaldsvæði í [...], með því að hafa með ofbeldi:
1. Þröngvað henni til kynferðismaka með því að neyða hana til að hafa
við sig munnmök.
2. Sett fingur inn í leggöng hennar og reynt að þröngva henni til
samræðis.
Er brot ákærða talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu Y er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. júlí 2005, til greiðsludags og kostnað vegna lögmannsaðstoðar auk virðisaukaskatts.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann málsvarnarlauna sér til handa.
Að morgni laugardagsins 2. júlí 2005, kl. 09.07, kom á lögreglustöðina á [...] Y. Samferða henni var A. Skýrði Y frá því að sér hafi verið nauðað fyrr um morguninn. Í frumskýrslu lögreglu er fært að Y hafi verið í greinilegu uppnámi, sjáanlega undir áhrifum áfengis og grátandi. Í viðræðum lögreglu við hana hafi komið fram að atburðurinn hafi átt sér stað um hálfri klukkustundu áður en Y hafi komið á lögreglustöðina. Er fært í skýrslu að hún hafi verið úfin um hárið og hafi A bent á að hár væru utan á fötum Y. Gerði Y lögreglu grein fyrir með hvaða hætti nauðgunina hafi borið að höndum. Lýsti Y hinum grunaða, sem hún kvaðst kannast við af tjaldstæði þar sem hún hafi tjaldað. Fram kom að Y hafi verið flutt á Heilsugæslustöðina á [...] kl. 09.24 þar sem hún hafi fengið aðhlynningu og réttarlæknisfræðilega skoðun. Gerð hafi verið út leit að hinum grunaða. Eftir ábendingar gesta af tjaldstæði hafi verið haft upp á honum á tjaldstæðinu kl. 12.10. Hafi hann verið þar handtekinn. Hafi hann greinilega verið mjög ölvaður, en rólegur og kurteis í framkomu og samvinnufús. Hafi hann þegar lýst yfir að hann hefði ekki framið kynferðisbrot gagnvart neinni stúlku, en haft munnmök með einni með hennar samþykki. Hafi hann verið færður í réttarlæknisskoðun. Þá hafi fatnaður hans verið haldlagður í þágu rannsóknar málsins. Kl. 13.27 hafi verið rætt við Y á Heilsugæslustöðinni, en þá hafi hún verið komin í betra jafnvægi, en verið mjög viðkvæm. Hafi hún gert lögreglu frekari grein fyrir atburðum. Þá hafi hún vísað á þann stað þar sem atburðurinn hafi átt sér stað.
Fyrir liggur í málinu skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á Y, en hana annaðist Jón Torfi Gylfason læknir. Í skýrsluna er færð frásögn Y af atburðum. Í reit um frásögn sjúklings er fært að kynmök hafi átt sér stað um leggöng, getnaðarlimur verið settur í munn, snerting hafi átt sér stað með getnaðarlimi, káfað hafi verið á brjóstum og rassi. Um ástand við skoðun er fært að Y hafi verið í miklu tilfinningalegu uppnámi og verið haldin miklu vonleysi. Hún hafi verið fjarræn og óraunveruleikatengd. Hún hafi verið skýr í frásögn, fengið grátköst og verið óttaslegin. Þá hafi hún verið með skjálfta og hroll, fundið fyrir svima, magaverkjum og ógleði. Í skýrsluna er fært að hún hafi verið með rispur á húð hliðlægt við barkakýli beggja vegna. Ekki hafi verið sjáanlegir áverkar á kynfærum og sæði ekki sést í leggöngum.
Ákærði gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun 2. júlí 2005 kl. 14.00. Fram kemur að föt hans hafi verið blaut og óhrein. Í hægri lófa og á vinstri þumal hafi verið sár, sem virðist vera ný. Á getnaðarlim hafi verið kynfæravörtur á anterior hluta penis og undir forhúð. Tekin hafi verið blóðsýni til DNA rannsóknar, kynhár kembd og sýni tekin. Þá hafi strok verið tekið af getnaðarlim og blóðsýni til lyfja- og alkóhólmælingar.
Í málinu liggja fyrir matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum. Var blóð og þvagsýni úr ákærða mælt. Samkvæmt matsgerðinni mældist magn alkóhóls í blóði 1,09 o/oo en í þvagi 1,88 o/oo. Fram kemur að hafi þvag- og blóðsýni verið tekin á svipuðum tíma bendi hlutfallslega hár styrkur í þvagi til þess að styrkur alkóhóls í blóði hafi verið meiri en 1,5 o/oo fáeinum klukkustundum áður en sýni voru tekin. Blóð og þvagsýni var einnig mælt úr Y. Samkvæmt matsgerðinni mældist magn alkóhóls í blóði 1,45 o/oo en í þvagi 2,70 o/oo. Fram kemur að hafi þvag- og blóðsýni verið tekin á svipuðum tíma bendi hlutfallslega hár styrkur í þvagi til þess að styrkur alkóhóls í blóði hafi verið meiri en 2,0 o/oo fáeinum klukkustundum áður en sýni voru tekin.
Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík hefur ritað skýrslu vegna rannsóknar á gögnum sem safnað var við réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða og Y. Samkvæmt skýrslunni voru engar sáðfrumur sjáanlegar á fatnaði sem tekinn var af Y eða úr sýnum er tekin voru úr henni. Höfuðhár, sem safnað hafði verið, voru skoðuð. Fram kemur að í peysu með vörumerkinu Adidas á vinstra brjósti hafi verið í innanverðri hettu og á framhlið kringum hálsmál mikið af löngum, ljósum hárum. Einnig hafi verið mikið af löngum ljósum hárum í flíspeysu er hafi verið skoðuð. Sáðfrumur greindust í nærbuxum ákærða. Að öðru leyti greindust ekki sáðfrumur í fatnaði hans eða í sýnum er tekin voru af honum.
Y lagði fram kæru á hendur ákærða miðvikudaginn 13. júlí 2005.
Ákærði neitar sök. Hefur hann skýrt svo frá að hann hafi gist í tjaldi á tjaldstæðinu í [...]helgina 1. - 2. júlí 2005. Hafi hann ásamt þremur félögum sínum farið austur á föstudeginum og byrjað að drekka áfengi á leiðinni austur. Hafi hann um kvöldið og aðfaranótt laugardagsins sennilega drukkið tvær kippur af bjór. Um nóttina hafi hann komið að hópi fólks á tjaldstæðinu og farið að ræða við það. Þar hafi hann m.a. rætt við Y. Ákærði kvaðst hafa verið verulega ölvaður og myndi hann af þeim ástæðum ekki fyllilega eftir nóttinni. Hann kvaðst ekki muna hvernig það hafi atvikast að hann hafi, ásamt Y, gengið áleiðis að trjálundi við tjaldstæðið. Þá kvaðst hann ekki muna hvort hann hafi haldið í hendi Y á leið að trjálundinum eða hvort hann hafi haldið utan um hana. Hafi þau sennilega kysst hvort annað á leiðinni. Er þau hafi verið komin í trjálundinn hafi þau sennilega kysst hvort annað. Y hafi sennilega farið með hendi í klof ákærða og káfað á getnaðarlim hans. Hafi hún klætt ákærða úr buxum þannig að ákærði hafi verið með þær um hæla sér. Gæti verið að ákærði hafi aðstoðað hana við að fara úr hennar buxum. Hafi þau lagst í grasið og Y haft munnmök við ákærða að eigin frumkvæði. Hafi ákærði þá legið á bakinu en Y kropið á hné út frá ákærða. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa haldið um höfuð hennar á meðan. Hún hafi síðan hætt munnmökum. Hafi ákærða ekki orðið sáðfall við mökin. Hafi ákærði þá kysst hana, en hún ekki viljað halda áfram. Hafi ákærði þá klætt sig og farið einn út úr trjálundinum og niður í tjald sitt. Ekki kvaðst hann minnast þess að hafa hitt neinn á þeirri leið. Hann gæti þó hafi gengið í gegnum hóp ungmenna á tjaldstæðinu á leið sinni í tjaldið. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að Y hafi farið að gráta við aðfarir þeirra. Ákærði greindi frá því við yfirheyrslu hjá lögreglu 3. júlí 2005 að hann væri ekki viss hvort hann hafi sett lim sinn í leggöng hennar. Hún hafi ekki viljað hafa samfarir að því er hann héldi. Þá kvaðst hann örugglega hafa farið með hendur nálægt leggöngum og að hann minnti að hann hafi farið með hendi inn í leggöng hennar. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki minnast þess að hann hafi farið með hendi í leggöng Y, en kvaðst muna eftir að hafa tjáð sig um það atriði hjá lögreglu.
Y kvaðst hafa farið ásamt vinum sínum úr Garðinum, þeim A og B á [...] helgina 1. - 2. júlí 2005. Þau hafi komið til [...] á fimmtudagskvöldinu og gist í heimahúsi fyrstu nóttina. Þau hafi komið á tjaldstæðið við [...]um kl. 20.00 á föstudagskvöldinu og tjaldað. Eftir það hafi þau farið af tjaldstæðinu í grillveislu hjá frænku B og komið aftur á tjaldstæðið seint um kvöldið. Þau hafi drukkið áfengi og hún sennilega drukkið 6 hálfslítra bjóra í dós um kvöldið og nóttina. Strákur hafi komið til þeirra sem hafi sagst vera frá Akureyri. Til einhverra orðaskipta hafi komið milli hennar og stráksins sem hún myndi ekki nánar eftir. Síðar um nóttina hafi hún gengið ásamt stráknum frá tjaldstæðinu að trjálundi skammt frá. Hafi strákurinn spurt hana hvort hún vildi ,,koma að labba.” Eftir það myndi hún ekki eftir sér fyrr en hún hafi legið á bakinu, verið komin út fötum að neðanverðu og strákurinn legið við hlið hennar. Hafi hann síðan kropið við hlið hennar og skipað henni að hafa við sig munnmök, en hún neitað því. Hafi hann þá kallað hana illum nöfnum, eins og ,,tussu og mellu” en hún þá reynt að kalla á hjálp. Þá hafi hann tekið fyrir munn hennar. Hafi hún ekki náð að draga andann og fundist sem hún væri að kafna og að það væri að líða yfir hana. Hafi hún legið á jörðinni og barist þar um í þeim tilgangi að losna. Strákurinn hafi haldið henni niðri og ,,þrykkt” henni í jörðina. Hann hafi haldið um háls hennar og rifið í hár hennar. Hann hafi náð að setja lim sinn í munn hennar og þannig þvingað hana til að hafa við sig munnmök. Hafi hún reynt að færa sig frá honum og sagt að hún vildi þetta ekki. Y kvaðst ekki muna hvernig þetta hafi endað. Hann hafi því næst lagst ofan á hana í þeim tilgangi að hafa við hana samfarir. Hafi hún reynt að ýta honum í burtu og áfram kallað á hjálp. Gerði hún sér ekki almennilega grein fyrir hvort hann hafi náð að setja lim sinn inn í kynfæri hennar, en hann hafi gert tilraun til þess. Hann hafi síðan staðið upp og hún legið grátandi í grasinu. Hafi atburðurinn staðið yfir í um 5 til 10 mínútur. Strákurinn hafi hlegið að henni og sagt henni að hann myndi drepa hana ef hún segði frá atvikinu. Hafi hún verið mjög hrædd og staðið í þeirri trú að hann myndi láta verða af því að drepa sig. Strákurinn hafi farið í burtu en hún setið eftir í grasinu í sjokki. Hafi hún klætt sig og farið niður á tjaldstæði til að hitta vinkonur sínar. Hafi hún látið þær vita af því hvað hafi komið fyrir. Þær hafi látið foreldra annarrar þeirra vita og foreldrarnir komið til að ná í þær. Farið hafi verið til lögreglu og þaðan á Heilsugæslustöðina. Hún hafi fengið áverka á háls eftir að strákurinn hafi haldið um háls hennar.
Henni líði illa eftir atburðinn. Hafi hún átt erfitt með svefn og tekið inn svefnlyf vegna þess. Rifji hún atburðinn í sífellu ósjálfrátt upp. Hafi hún orðið mjög hrædd þegar atburðurinn hafi átt sér stað og hún talið að hún myndi deyja. Hún hafi farið í viðtöl hjá Rögnu Ragnarsdóttur sálfræðingi. Hafi hún ætlað að fara í skóla haustið 2005 en hætt við það þar sem henni hafi liðið illa og verið óörugg.
A kvaðst hafa farið á [...]ásamt Y og B. Að kvöldi föstudagsins hafi þær farið á tjaldstæðið við [...] og sett upp tjald sitt. Um kvöldið hafi þær setið fyrir framan tjaldið og drukkið bjór. Um eða rétt eftir miðnættið hafi vinir þeirra, C og D, komið til þeirra og orðið úr að þeir yrðu með þeim í tjaldi. Hafi þeir sest hjá þeim og drukkið með þeim bjór. Um nóttina hafi A þurft að bregða sér á salerni sem hafi verið skammt frá tjaldinu. Þegar hún hafi komið til baka hafi hún mætt Y og strák sem hún hafi ekki þekkt. Hafi þau þá verið miðja vegu milli salernisins og tjalds þeirra. Hafi strákurinn haldið um axlir Y með annarri hendi og hafi A spurt þau hvort þau væri að fara afsíðis ,,til að fá sér að ríða”. Y hafi verið snögg til svars og sagt nei. Hafi þau bæði hlegið og strákurinn sagt ,,jú” og kysst Y á vanga. Hún hafi ýtt honum frá sér og sagt ,,oj”. A hafi farið að tjaldinu og sest þar. Eftir einhverja stund hafi strákurinn komið aftur. Hafi hún spurt hann hvar vinkona hennar væri og strákurinn þá orðið skrítinn og virst sem hann færi í vörn. Hafi hann sagt að hann vissi ekki hvar vinkona hennar væri. Hafi hún spurt hann hvort hann hafi verið að hafa samfarir við vinkonu sína en hann svarað því neitandi. Hann hafi síðan farið og hún ekki séð hann meira þá nóttina. Skömmu síðar hafi hún séð Y koma gangandi í áttina til þeirra. Hafi hún ekki stoppað hjá þeim heldur farið bak við tjald þeirra og sest þar niður. Hafi A veitt því athygli að Y hafi verð með slegið hárið og mjög tætt. Hafi hún farið til hennar og hún þá verið grátandi og í miklu uppnámi. Hafi hún sagt strákinn hafa nauðgað sér og ætlað að kyrkja sig. Hafi hún virst mjög hrædd. B hafi komið að og heyrt frásögn Y. B hafi hringt í móður sína og beðið hana um að koma á tjaldstæðið. Hafi móðirin ekið þeim á Heilsugæslustöðina þar sem Y hafi gengist undir læknisskoðun. Y hafi verið með mikið af lausu hári á öxlunum eins og hún hafi verið hárreitt. Lögregla hafi komið á Heilsugæslustöðina. A kvaðst telja að liðið hafi um 30 til 40 mínútur frá því Y og strákurinn hafi yfirgefið hópinn þar til hún hafi komið til baka.
B kvaðst hafa farið á [...] ásamt Y og A. Eftir að þær hafi tjaldað á föstudagskvöldinu hafi þær setið fyrir framan tjaldið og drukkið bjór. Undir miðnættið hafi vinir þeirra, C og D, komið til þeirra. Hafi þeir ekki nennt að tjalda og þær boði þeim að gista í þeirra tjaldi. Um nóttina hafi B farið inn í tjaldið og drukkið þar bjór. Einhverju síðar hafi A kallað og beðið hana um að koma út. Þá hafi A verið bak við tjaldið ásamt Y. Y hafi þá verið grátandi og í miklu uppnámi. Hafi Y sagt frá því að sér hafi verið nauðgað. Hár hennar hafi verið mikið reitt á þeim tíma og talsvert af hárum verið í fötum hennar. Hafi B þá hringt í foreldra sína sem hafi verið staddir á [...] og beðið þau um að aka Y á Heilsugæslustöðina. Hafi A farið með þeim, en B orðið eftir á tjaldstæðinu.
C kvaðst hafa farið á [...] ásamt D. Hafi þeir verið seint á ferð og komið á tjaldstæðið um miðnættið. Þar hafi þeir m.a. hitt fyrir A, B og Y. Hafi þeir sest niður hjá þeim og drukkið bjór. Einhvern tíma um nóttina hafi C gengið með A frá tjaldinu að salernisaðstöðu á svæðinu, en A hafi farið á snyrtinguna. C hafi sest niður á hól þar skammt frá og A verið á leið til hans. Hafi þau þá séð til ferða Y og stráks er C hafi ekki þekkt. Hafi C kallað til þeirra hvort þau væru á leið í skóginn til að fá sér ,,einn stuttan.” Ekki kvaðst C muna hvort þau hafi svarað athugasemd hans, en þau hafi bæði farið að hlæja. Skömmu eftir þetta hafi C og A farið aftur að tjaldinu. Einhverri stundu síðar hafi strákurinn sem farið hafi með Y komið til þeirra. Hafi C spurt hann hvar Y væri en hann sagt að hann vissi það ekki. Hafi C sagt við hann að Y hafi verið með honum skömmu áður en strákurinn neitað því. Stuttu síðar hafi hann veitt því athygli að Y hafi verið á leið til þeirra og verið grátandi og mjög skelkuð. Hafi hún ekki komið til þeirra heldur farið bak við tjaldið. A hafi farið til hennar og C og B fljótlega eftir það. Hafi Y sagt að strákurinn hafi nauðgað sér.
E kvaðst, ásamt félögum sínum, hafa verið á tjaldstæðinu við [...] aðfaranótt laugardagsins 2. júlí 2005. Strákur, um tvítugt, hafi komið til þeirra og verið svolítið æstur og skrýtinn í háttalagi. Félagi E, F, hafi aðallega rætt við strákinn. Strákurinn hafi síðan yfirgefið þá og gengið til suðurs. Um 20 mínútum síðar hafi stúlka komið að tjaldbúðunum hágrátandi og sagt að sér hafi verið nauðgað. Hafi hún verið með úfið hár og laust. Stúlkuna hafi E ekki þekkt. E kvaðst telja að strákurinn hafi verið ölvaður og örugglega á einhverjum töflum líka þar sem hann hafi verið það ör í geði. Hafi F sagt E síðar að er strákurinn hafi komið til þeirra skömmu áður en stúlkan hafi komið grátandi, hafi hann sagt að hann gæti lamið alla á svæðinu.
F kvaðst hafa verið á tjaldstæðinu við [...]. Undir morgun hafi strákur komið til þeirra og sagt að hann væri frá Akureyri. Kvaðst F hafa talið að strákurinn væri ,,útúrdópaður”, en hann hafi verið spenntur og ör. Hann hafi síðan farið. Um 10 mínútum síðar hafi stúlka komið til þeirra og hnigið niður skammt frá F. Hafi hún verið hágrátandi. Rétt áður en stúlkan hafi komið aftur hafi strákurinn komið til þeirra og sagt að hann gæti lamið alla á staðnum. Sú athugasemd hafi komið upp úr þurru.
G kvaðst hafa verið á tjaldstæðinu við [...] er stúlka hafi komið grátandi þangað. Hafi hún verið í miklu uppnámi og sagt að sér hafi verið nauðgað. Stúlkuna hafi G ekki þekkt. Kvaðst hann hafa tekið greinilega eftir að stúlkan hafi verið með flekki eða rauðar rákir á hálsi, eins og eftir þrýsting. G kvaðst muna atburði næturinnar mjög vel.
Jón Garðar Bjarnason, varðstjóri í lögreglunni á [...], staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Jón Garðar kvað Y hafa verið í miklu uppnámi er lögregla hafi rætt við hana. Hún hafi verið grátandi og samankreppt. Hár hennar hafi verið frekar úfið. Ekki kvaðst Jón Garðar hafa tekið eftir rispum á hálsi hennar.
Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur hjá Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík, staðfesti sinn þátt í rannsókn málsins. Björgvin kvað það hár sem hafi verið í flíspeysu Y hafa verið meira en venjulegt væri. Tvö löng ljós hár hafi fundist í nærbuxum ákærða og hafi annað þeirra hugsanlega verið með rót. Ef hár væru sjálffallinn af höfði einstaklinga væru þau ekki með rót. Niðurstöður rannsókna hafi staðfest að sæði hafi fundist í nærbuxum ákærða.
Jón Torfi Gylfason læknir kvaðst hafa annast réttarlæknisfræðilega skoðun á Y á Heilsugæslustöðinni á [...]. Fundist hafi rispur við barkakýli hennar. Ekki gæti Jón Torfi fullyrt hvernig slíkir áverkar yrðu til. Ólíklegt yrði að telja að hún hafi valdið áverkunum sjálf. Hún hafi verið í greinilegu uppnámi er hann hafi rætt við hana og hún grátið mikið. Hafi Jón Torfi ekki áður séð einstakling í jafn miklu áfalli. Ekki hafi hún lýst atburðinum nákvæmlega.
Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sitt vegna Y. Y hafi einungis komið til sín í 4 viðtöl í ágúst 2005. Þá hafi hún ekki treyst sér í áframhaldandi meðferð. Stúlkunni hafi greinilega liðið mjög illa. Hafi verið greinilegt að hún hafi orðið fyrir áfalli umrætt sinn, en hún hafi komið óvenjulega hátt út á þeim kvörðum er notaðir væru við mat á áfalli. Það áfall tengdi Ragna við þann atburð er um ræddi. Ætlunin væri að Y kæmi aftur í meðferð hjá Rögnu. Þá myndi koma í ljós hve löng meðferðin yrði, en að hennar mati myndu 10 meðferðarviðtöl ekki duga.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök. Kveðst hann hafa haft munnmök við Y með hennar samþykki.
Y hefur fullyrt að ákærði hafi þvingað hana til munnmaka og gert tilraun til að setja getnaðarlim sinn í leggöng hennar. Að mati dómsins hefur Y verið staðföst og trúverðug í frásögn sinni af atburðum. Hún bar líkamlega áverka á hálsi eftir atburðinn, sem samrýmist þeim framburði hennar að ákærði hafi gripið um háls hennar. Þá bera vitni um að hár hennar hafi verið tætt og reitt er hún hafi komið að tjaldinu eftir að hafa verið í trjálundinum með ákærða. Samræmist það einnig þeirri staðhæfingu hennar að ákærði hafi rifið í hár hennar. Því til stuðnings er og framburður A og B um að töluvert af lausu hári hafi verið á fötum hennar, sem og framburður Björgvins Sigurðssonar sérfræðings hjá Tæknideild lögreglu sem bar að meiri hár en venjulega væri hafi verið á flíspeysu er hafi verið til rannsóknar. Þá eru vitni á einu máli um að Y hafi verið grátandi og í miklu uppnámi er hún hafi komið til baka úr skógarlundinum. Ber Jón Torfi læknir, sem annaðist réttarlæknisfræðilega skoðun á Y, að hann hafi ekki í annan tíma séð einstakling í jafn miklu áfalli og stúlkuna. Loks er til þess að líta að ákærði skildi við Y í skógarlundinum og kom einn til baka á tjaldstæðið og kvaðst ekkert vita hvar hún væri er eftir því var gengið við hann. Verða það að teljast tortryggileg viðbrögð manns er ber að hafa verið í nánu kynferðislegu samneyti við stúlkuna fáeinum mínútum áður og benda til að hann hafi haft einhverju að leyna. Var hann þá að sögn vitna mjög ör og spenntur. Kemur fram í vætti F að ákærði hafi um nóttina haft uppi gífuryrði um að hann gæti lamið alla á svæðinu. Þykir það veita líkur fyrir að ákærði hafi verið til alls líklegur greint sinn. Loks er til þess að líta við mat á sönnun að ákærði var, við skýrslutöku hjá lögreglu 3. júlí 2005, spurður um hvort hann hafi sett lim inn í leggöng stúlkunnar. Kvaðst hann þá ekki vera viss um það.
Þegar litið er til þess er hér að framan greinir er það niðurstaða dómsins að framburður Y verði lagður til grundvallar niðurstöðu. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa þröngvað stúlkunni til kynferðismaka með því að neyða hana til að hafa við sig munnmök. Þá verður hann einnig sakfelldur fyrir að hafa gert tilraun til að þröngva henni til samræðis.
Til stuðnings þeim hluta verknaðarlýsingar ákæru að ákærði hafi sett fingur inn í leggöng Y liggur einvörðungu óljós framburður ákærða sjálfs hjá lögreglu þegar hann bar að hann minnti að hafa farið með hendi inn í leggöng stúlkunnar. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki minnast þess. Y kvaðst ekki minnast þess að ákærði hafi sett fingur inn í leggöng hennar. Er tekin var af henni skýrsla vegna réttarlæknisfræðilegrar skoðunar er merkt við að fingur hafi ekki verið settur í leggöng. Í ljósi alls þessa verður ákærði sýknaður af þessari háttsemi. Háttsemi sú, er ákærði er sakfelldur fyrir, er rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í maí 1986. Hann gekkst undir sátt hjá lögreglustjóra 5. ágúst 2005 fyrir brot gegn umferðarlögum. Brot hans í þessu máli er framið fyrir sáttina og því hegningarauki við brotið. Verður refsing því tiltekin eftir 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Brot ákærða beindist gegn persónu- og kynfrelsi ungrar stúlku. Hefur brotið haft verulegar andlegar afleiðingar fyrir hana. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár.
Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur hefur 23. maí 2006 ritað vottorð vegna Y. Fram kemur að Y hafi fyrst komið í viðtöl í júlí 2005 og alls komið í fjögur viðtöl í júlí og ágúst 2005. Hafi stúlkunni liðið mjög illa á tímabilinu og sýnt öll einkenni þess að hafa orðið fyrir áfalli sem valdið hafi henni skelfingu og varnarleysi. Hún hafi verið mjög kvíðin og hrædd, óörugg í aðstæðum þar sem hún hafi áður fundið sig örugga, verið viðkvæm, grátgjörn og viljað forðast að hitta fólk. Hún hafi átt erfitt með svefn og hafi myndir af atburðinum stöðugt komið upp í huga hennar. Í maí 2006 hafi Y aftur komið í viðtöl. Hún hafi verið samkvæm sjálfri sér í frásögn af atburðum og lýsingu á líðan sinni.
Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður hefur krafist skaðabóta fyrir hönd Y að fjárhæð 1.000.000 krónur, auk vaxta. Í rökstuðningi er vísað til þess að Y hafi verið í miklu tilfinningalegu uppnámi eftir hið ætlaða brot ákærða. Hún hafi verið með áverka á hálsi. Um mjög alvarlegt kynferðisofbeldi hafi verið að ræða og muni Y verða lengi að ná sér.
Með vísan til þess er hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið Y miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.
Ákærði greiði kostnað vegna ferða vitna vegna aðalmeðferðar málsins. Nemur sá kostnaður samtals 76.010 krónum. Að auki greiði ákærði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari, Helgi I. Jónsson dómstjóri og Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Birkir Árnason, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði Y, 1.000.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. júlí 2005 til 14. mars 2006, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 792.094 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Gizurar Bergsteinssonar héraðsdómslögmanns, 325.941 krónu, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 99.600 krónur.