Hæstiréttur íslands
Mál nr. 129/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Líkamsárás
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 8. október 2009. |
|
|
Nr. 129/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn X(Brynjar Níelsson hrl.) (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. réttargæslumaður) |
|
Kynferðisbrot. Líkamsárás. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir nauðgun gagnvart A, barnsmóður sinni, með því að hafa ráðist að henni, hrint henni í stofugólfið þar sem hann sparkaði í hana, veitt henni fjölda hnefahögga í höfuð og líkama, rifið í hár hennar, slegið höfði ítrekað í gólfið og þvingað hana til samræðis og endaþarmsmaka með beitingu ofbeldis. Þá var X ákærður fyrir líkamsárás að morgni sama dags er hann veittist að A á ný í eldhúsi og sló hana mörgum hnefahöggum, einkum í kvið, bak og höfuð, auk þess að trampa á henni þar sem hún var í hnipri á eldhúsgólfi. Við þetta hlaut hún fjölda áverka. Talið var að frásögn konunnar fyrir dómi hefði verið í öllum atriðum á sama veg og hjá lögreglu, neyðarmóttöku og þeim lækni, sem skoðaði hana strax næsta dag eftir að atvik málsins urðu. Var framburður hennar metinn trúverðugur en framburður ákærða ótrúverðugur og lögfull sönnun talin hafa verið færð fram um að ákærði hefði gerst brotlegur eins og í ákærðu greindi. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði braut gegn A á heimili hennar og stóð árásin yfir í langan tíma. Miklir áverkar hefðu verið á henni eftir árásina, árásin hefði verið hrotaleg og unnin á heimili hennar að nóttu til og henni haldið þar nánast í gíslingu með rétt ársgamalt barn sitt. Var X gert að sæta fangelsi í fjögur og hálft ár. Þá var hann dæmdur til að greiða A 1.200.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og refsing hans þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, en til vara sýknu og að kröfu A verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og krafa A lækkuð.
Af hálfu ákærða var lögð fyrir Hæstarétt útskrift Tæknivara ehf. af svokölluðum SMS boðum, sem fyrirtækið mun hafa náð fram í síma ákærða. Sýna þau meðal annars að skilaboð voru send úr síma A í síma ákærða á tímabilinu 22. febrúar 2008 til 9. janúar 2009. Meðal þessara skilaboða eru þrjú frá kl. 02.04 til 02.43 aðfaranótt 9. mars 2008, nokkru áður en þeir atburðir urðu, sem mál þetta fjallar um. Efni þeirra gefur ekki tilefni til að leggja þau til grundvallar við sönnunarmat í málinu.
Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að forsendur þar fyrir sakfellingu séu um sumt sérkennilegar og að sumu leyti rangar, en þetta geti leitt til þess að mat dómsins á trúverðugleika framburðar ákærða og vitna kunni að hafa verið rangt. Þannig segi meðal annars að það sé „með ólíkindum að brotaþoli hafi, eftir að hafa verið beitt slíku ofbeldi sem áverkavottorðið og ljósmyndir bera vott um, veitt samþykki sitt fyrir samförum eins og ákærði skýrði fyrir dóminum“. Hvergi komi fram að ákærði hafi beitt konuna því ofbeldi sem um ræði í þessum gögnum áður en samfarir hófust. Hann hafi kýlt hana með einu höggi í andlitið þegar hann hafi hætt samförunum eftir hótanir hennar. Allt annað ofbeldi af hans hálfu hafi átt sér stað eftir að kynmökum þeirra lauk. Einnig væri snúið út úr framburði ákærða með því að staðhæfa að hann hafi haldið því fram að konan hafi „neytt hann til samfara“. Þessi orð hans hafi verið slitin úr samhengi, en með þeim hafi hann átt við að konan hafi byrjað að rífa hann úr fötunum í þeim tilgangi að eiga við hann kynmök sem hann hafi ekki verið reiðubúinn til á þeim tímapunkti. Þá gæti ónákvæmni í þeirri staðhæfingu dómsins að fram hafi komið í framburði beggja „að brotaþoli hafi sagt við ákærða á meðan á samförunum stóð og eftir þær, að um nauðgun og líkamsárás hafi verið að ræða.“ Hið rétta væri að ákærði hafi sagt að konan hafi sagt upp úr þurru á meðan á samförum þeirra stóð að hún ætlaði að kæra hann fyrir líkamsárás og nauðgun. Hann hafi þá staðið upp og kýlt hana með einu höggi. Síðar þegar þau hafi haft endaþarmsmök hafi hún beðið hann að hætta og sagt að þetta væri nauðgun. Þá hafi hann hætt. Næsta morgun hafi konan spurt hann hvort hún ætti að kæra hann fyrir líkamsárás og nauðgun. Við þessi ummæli hafi hann rokið upp og beitt hana því ofbeldi sem hann hefur viðurkennt í skýrslu fyrir dómi.
Í skýrslum sínum við rannsókn málsins og fyrir dómi, sem raktar eru í hinum áfrýjaða dómi, heldur konan því fram að ákærði hafi veitt henni þá áverka sem í ákæru greinir, ýmist meðan, fyrir eða eftir að hann þvingaði hana til samræðis í leggöng og endaþarm. Er því ekki rétt haft eftir konunni í forsendum héraðsdóms að hún hafi sagst hafa fengið alla áverkana sem lýst er í ákæru eftir að samfarirnar áttu sér stað. Þetta er ekki heldur í samræmi við framburð ákærða. Í skýrslu hans fyrir dómi kom fram að hann hafi haft samfarir við konuna á gólfinu eftir að hún hafi rifið hann úr fötunum og togað hann í gólfið. Á meðan á samförunum stóð hafi hún sagt upp úr þurru að hún ætlaði að kæra hann fyrir líkamsárás og nauðgun. Við þessum orðum hennar hafi hann brugðist með því að gefa henni „einn á hann ... ég kýli hana með krepptum hnefa í andlitið. Tel hafa hitt auga eða nef. Meðan ég er að fara af henni slæ ég til hennar.“ Eftir það hafi þau haft endaþarmsmök á gólfinu fyrir framan sjónvarpið, en hún hafi beðið hann um að hætta og sagt að þetta væri nauðgun. Hann hafi þá hætt og þau farið inn í eldhús og skömmu síðar haft á ný samfarir í sófanum. Hún hafi þá byrjað að rífast og ögra honum og hann tekið í axlir hennar, hrist hana og spurt hvað væri að henni. Þau hafi svo farið að sofa. Um morguninn hafi hún spurt sig hvort hún ætti að kæra hann fyrir líkamsárás og nauðgun og hafi hann þá komið „einu höggi á axlirnar“, og gert sig líklegan til að sparka í hana þar sem hún lá í hnipri upp við skáp í eldhúsinu en ekki gert það. Samkvæmt þessari frásögn ákærða er ljóst að hann veitti henni áverka bæði fyrir og eftir að hann hafði við hana kynmök.
Aðspurður fyrir dómi hvort hann hefði ekki getað komið í veg fyrir að konan tæki hann úr fötunum sagði ákærði svo ekki vera nema með „einhverju líkamlegu af því hún ræðst bara á mig“. Spurður um það hvort hún hefði neytt hann til samfaranna svaraði ákærði: „Hún neyddi mig til samfara, já. Ég tel það, neyddi mig úr fötunum og síðan þegar úr fötunum var þá var mér svo farið að verða sama þannig að það hefur þá væntanlega verið með beggja samþykki ... Nei, ég var ekki mótfallinn þeim þegar maður var orðinn nakinn og lagstur ofan á hana og byrjaður að hafa hún lét mig byrja að hafa samfarir við sig nei.“ Þegar þessi frásögn ákærða er virt í heild verður hún ekki skilin á þann veg að hann hafi haldið fram að konan hafi neytt hann til samfara eins og byggt er á í forsendum hins áfrýjaða dóms.
Í héraðsdómi er réttilega rakið að frásögn konunnar fyrir dómi hafi verið í öllum atriðum á sama veg og hjá lögreglu, neyðarmóttöku og þeim lækni, sem skoðaði hana strax næsta dag eftir að atvik málsins urðu. Mat héraðsdómur framburð hennar trúverðugan, en framburð ákærða ótrúverðugan. Þrátt fyrir þá galla á forsendum dómsins sem raktir hafa verið hér að framan eru ekki næg efni til að taka kröfu ákærða um ómerkingu til greina, enda verður ekki séð að mat dómsins á munnlegum framburði ákærða og vitna hafi verið rangt svo einhverju nemi, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Að gættum þeim athugasemdum, sem gerðar hafa verið hér að framan varðandi framburð ákærða og brotaþola, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en sakarkostnað, en um hann fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, X, svo og skaðabætur.
Ákærði greiði þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns brotaþola í héraði, 249.000 krónur. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, samtals 662.107 krónur, skulu að öðru leyti vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 551.260 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. febrúar 2009.
Mál þetta, sem þingfest var þann 4. desember 2008 og dómtekið 27. janúar 2009, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 12. nóvember 2008, á hendur X, kt. [...], [...], Árborg,
„fyrir nauðgun og líkamsárás gagnvart barnsmóður sinni, A, á heimili hennar [...], [...], sunnudaginn 9. mars 2008:
Fyrir nauðgun með því að hafa aðfaranótt 9. mars ráðist að A, hrint henni í stofugólfið þar sem hann sparkaði í konuna, veitti henni fjölda hnefahögga í höfuð og líkama, reif í hár hennar, sló höfði ítrekað í gólfið og þvingaði hana til samræðis og endaþarmsmaka með beitingu þess ofbeldis sem lýst var, og fyrir líkamsárás að morgni sama dags er ákærði veittist á ný að A í eldhúsi og sló hana mörgum hnefahöggum, einkum í kvið, bak og höfuð, auk þess að trampa á konunni þar sem hún var í hnipri á eldhúsgólfinu. Við þetta hlaut A fjölda marbletta á báðum handleggjum og vinstri fótlegg, glóðarauga á báðum augum, mar á nefi, hægra eyra og gagnaugum, bólgu á efri vör og sprungu í slímhúð þar fyrir innan, brot úr tönn í efri kjálka vinstra megin, kúlu á enni og margar kúlur í hársverði, mikil eymsli á milli herðablaða, yfir hægra herðablaði og í kvið.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Í málinu gerir A kröfu um greiðslu miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 9. mars 2008 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði greiði allan sakarkostnað.
Ákærði krefst sýknu vegna þeirrar háttsemi að hafa nauðgað brotaþola en vægustu refsingar er lög leyfa varðandi þá háttsemi að hafa veist að brotaþola með ofbeldi eins og hann hefur játað fyrir dóminum. Þá krefst hann þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af henni en til þrautavara að hún verði lækkuð verulega. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna og að þau verði greidd úr ríkissjóði ásamt virðisaukaskatti. Aðalmeðferð fór fram þann 20. janúar sl., og var framhaldið þann 27. janúar sl. Var málið dómtekið að loknum málflutningi.
I.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að tilkynning hafi komið frá B, vakthafandi heilsugæslulækni, þess efnis að hjá honum væri kona sem væri með talsverða áverka og hafi hún greint frá því að henni hafi verið nauðgað. Daginn eftir hefði kærandi komið á lögreglustöðina og greint frá því að fyrrverandi sambýlismaður hennar hefði ráðist á hana nóttina áður með barsmíðum og nauðgað henni á heimili hennar. Kemur fram að brotaþoli og ákærði eigi dóttur sem hafi verið heima hjá henni þá um nóttina en tvö önnur börn hennar hafi verið að heiman. Hefði hún og ákærði slitið samvistir í desember 2007 og hefði ákærði farið til móður sinnar að [...] en hann kæmi annað slagið til að hitta dóttur þeirra. Síðastliðna nótt hefði ákærði hringt til hennar og sagst vera í Reykjavík hjá vini sínum og verið með niðrandi tal til hennar. Ákærði hefði aftur hringt til hennar um þrjúleytið um nóttina en hún ekki svarað honum. Klukkan rúmlega fjögur um nóttina hefði ákærði aftur hringt og sagst vera fyrir utan heimili hennar og vildi komast inn. Hún hefði hleypt honum inn en hún hefði ekki átt von á honum þá um nóttina. Hefði ákærði reynt að rífa náttslopp, sem hún var í, af henni strax í forstofunni, hann strokið henni um brjóstin og sagst ætla að „ríða“ henni. Ákærði hefði í framhaldi gengið á eftir henni inn í íbúðina, hent henni á stofugólfið og sparkað í hana. Ákærði hefði haldið henni niðri og rifið sloppinn frá henni. Ákærði hefði þá klætt sig úr fötunum og byrjað að hafa við hana samfarir í leggöng og endaþarm og haldið í hár hennar á sama tíma og slegið höfði hennar í gólfið. Við það hefði brotnað úr tönn hennar og blætt úr vörum. Hefði hún reynt að komast undan og beðist vægðar en ákærði öskrað á hana. Brotaþoli kvaðst hafa komist inn í eldhús en ákærði hefði komið á eftir henni, fengið sér vatnsglas og farið síðan upp í sófa í stofunni, horft á klámmynd og síðan lagst í sófa í stofunni og sofnað. Brotaþoli hefði þá farið niður í svefnherbergi og dormað til klukkan tíu eða ellefu um morguninn. Þá hefði hún farið upp en ákærði þá enn verið í sófanum. Hún hefði spurt ákærða hvort hann ætlaði ekki að fara en hann þá farið niður í herbergi hennar og kvaðst ætla að leggja sig í um klukkustund. Brotaþoli hefði farið upp með dóttur þeirra eftir samræður í herberginu en ákærði þá komið á eftir henni inn í eldhús, ráðist á hana, lamið hana margsinnis í kvið og bak. Ákærði hefði hent henni í gólfið, út í horn við eldhúsinnréttinguna, þar sem hann hefði lamið hana í höfuðið og trampað á henni, á kvið og rifbein. Eftir þessar barsmíðar hefði ákærði farið niður í svefnherbergi og sofnað. Brotaþoli kvaðst hafa reynt að annast dóttur sína en í raun ekki þorað út úr húsinu þar sem hún hefði á tilfinningunni að ákærði væri að fylgjast með sér. Hún hefði síðan farið út af heimilinu með dóttur sína um klukkan þrjú þar sem sonur hennar var væntanlegur með áætlunarbifreið til Selfoss klukkan 16.00 en átta ára dóttir hennar var á [...] í barnaafmæli. Kvaðst hún ekki hafa þorað að hringja í lögreglu en ákveðið að ræða við lækni vegna þeirra áverka sem hún hlaut.
Í rannsóknargögnum málsins liggur frammi vottorð B læknis þar sem atburðarásin er höfð eftir brotaþola. Kemur þar fram að brotaþoli hafi leitað til hans klukkan 17.03, 9. mars 2008. Í vottorðinu segir m.a. „ Hann kemur heim að húsi hennar um 04:20 í nótt og virkaði ekki undir neinum áhrifum neinna efna eða áfengis. Hún hleypti honum inn en fljótlega fór hann að káfa á henni og gekk henni illa að hafa hemil á honum. Reyndi að afvegaleiða hann en hann gaf henni sterklega til kynna að hann vildi kynlíf með henni og skv. henni mun hann hafa hent henni í gólfið þegar hún neitaði því, kýldi í hana, sparkaði í hana, hárreytti hana, lamdi höfðinu í vegg og gólf. Hún segir hann síðan hafa þröngvað sér inn í hana og haft samfarir, bæði um leggöng og endaþarm. Stóð þetta allt saman örugglega yfir á anna klukkutíma en óljóst í sjálfu sér með nákvæmari tímasetningar. Lamdi hana alla á meðan á þessu stóð. Þeir áverkar sem sjást eru mikil eymsli í hársverði og bólga. Glóðarauga beggja vegna, meira vi. megin. bólgið nef og aumt nefbein, hugsanlega brákað eða brotið. Bólga á vörum og mar, sérstaklega á neðri vör. Brotið úr tönn í efri kjálka vi. megin framan. Marblettir mjög víða, eiginlega allir upphandleggir og handleggir í marblettum beggja vegna. Mjög aum á hæ. eyra og er hematom í ytra eyra. Innri eyru og miðeyru eru í lagi. Og eins og áður sagði mikil eymsli í hársverði. Stirðar hálshreyfingar og eymsli við hálshreyfingar vegna verkja. Mikil eymsli á milli herðablaða yfir hæ. herðablaði og bólga. Mar að koma fram. Mikil eymsli í kvið en hún segir að hann hafi látið höggin dynja á kviðvegg. Þá mikil eymsli einnig eftir högg á lærum og fótleggjum og marblettir byrjaðir að sjást þar .“
Einnig liggur fyrir í gögnum málsins skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun þann 9. mars 2008, dagsett 19. mars s.á. Er frásögn sjúklings sögð eftirfarandi: „Fyrrverandi sambýlismaður hennar hringir klukkan 05.00 sl. nótt í símann hjá henni og er þá fyrir utan húsið og vill fá að koma inn. Hún fer og opnar og hann kemur inn og óð að henni með girnd og grimmd. Hún var í slopp og nærbuxunum. Hann ræðst að henni og hrindir henni til og tekur í hár hennar og skellir höfði hennar í gólfið og hún er á fjórum fótum og hann reynir að hafa samfarir við hana og hún reynir að verja sig og þá verður hann bara grimmari og heldur í sítt hár hennar með annarri hendinni og lemur höfði hennar í gólfið og vi. hendin látin dynja á vangann. Hann var með tölvuna með og setur í klámmynd og tengir við sjónvarpið. Hamast á henni og fer að fara inn í endaþarm á henni. Hún berst á móti því það var sárt og hann hótar henni að hún hljóti verra af og að hún muni finnast dauð í blóði sínu ef hún sýni mótþróa. Barði hana í andlit, framtönn 2 sin. í efri góm brotnar og það blæðir úr efri vörinni. Höggin dynja á andlitinu og andlitinu skellt í gólfið og hann hamast aftan á henni í endaþarmi. Hún veinar af sársauka, illt í öllum kroppnum. C vinkona hennar hringdi snemma í morgun og gat hún hvorki né þorði að segja hvað væri að. Maðurinn hélt áfram að ríða bæði í endaþarm og leggöng. Síðan var hann móður og þreyttur og lagðist í stofusófann og skipaði henni að totta sig. Sem hún gat komist hjá með því að biðja um vatn og fór fram í eldhús og hann kom á eftir henni.“ Síðan er því lýst að brotaþoli fór niður í herbergi sitt, lagði sig og fór aftur upp um tíuleytið með ársgamla dóttur þeirra. Þá lá ákærði enn í stofusófanum en fór þá niður í svefnherbergi hennar. Hafi hún mótmælt því en hann hafi sagt henni að þegja ef hún ætli ekki að finnast í eigin blóðpolli. Hún hafi sagt við hann að hann yrði þá sóttur og hann þá brugðist hinn versti við og komið upp á eftir henni og barið hana, bæði á brjóstkassa og kvið. Hún hafi verið komin í hnipur á eldhúsgólfinu og hann þá stappað á henni með fótunum, bæði á brjóstkassa og kvið. Síðan hafi ákærði farið aftur niður í svefnherbergi hennar og lagt sig. Þá kemur fram í vottorðinu að við komu hafi brotaþoli verið eirðarlaus, fengið grátköst og verið óttaslegin. Kreppuviðbrögð eru sögð skjálfti og hrollur. Áverkar eru sagðir margir misstórir roða- og blámablettir á handleggjum. Nánast báðir handleggir séu alsettir. Lýsing á vinstri fótlegg er að þar sé roði og bláir blettir kringum hnéð og upp á lærið. Roðaflákar og rispur í húð yfir hnéskelinni. Um sé að ræða þrýstingsmerki á hnéskel og marbletti, sumir eftir fingraför. Lýsing á andliti er þannig: Glóðaraugu á báðum augum. Afrifa í húð á neðra hægra augnloki. Nefið með litabreytingu og bæði gagnaugun með bláma og bólgu. Efri vör dökkblá og bólgin og slímhúðin fyrir innan sprungin. Tönn 2 í vinstri efri góð sé með brotið horn. Kúla á enni. Mar og þrýstingsblettir í andliti. Lýsing á hársverði er þannig að þar séu margar kúlur, aumar fremst á höfði en líka í hnakka. Kvenskoðun er eðlileg. Í niðurstöðum segir m.a.: „Kona sem kemur á NMT eftir að fyrrverandi sambýlismaður hennar hefur misþyrmt og nauðgað henni hrottalega. Hún er öll blá og marin sérstaklega í andliti og á höfði, á handleggjum og mikil eymsli í thorax. Teknar eru ljósmyndir af áverkum. Tekið er CT af heila og andlitsbeinum. Gerð er kvensjúkdómaskoðun, sem er eðlileg. Tekin eru sýni í DNA rannsókn. Tekin er ræktun og blóð í smitsjúkdómaleit “ Þá kom fram í vottorðinu að ákærða hafi verið 46 kíló að þyngd.
Einnig liggur frammi í málinu skýrsla vegna endurkomu brotaþola á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar þann 12. mars 2008. Kemur þar fram að brotaþoli hafi mjög lítið sofið, að henni líði illa á sínu heimili, hún sé mjög hrædd um að ákærði sé laus og óttist að vera ein. Hún sé mjög döpur, sé uppstökk en börnin séu hjá henni og vinkona hennar gisti hjá henni. Líkamleg viðbrögð séu að brotaþoli sé mjög aum í hálsi, hún sé tognuð eftir átökin, með höfuðverk og kúlur á mörgum stöðum á höfði, aum í marblettum, aum í endaþarmi eftir nauðgunina, hafi kastað mikið upp eftir fyrri komu á NMT, sé með hjartslátt og fái svitaköst. Brotaþoli gráti mikið, sé kaldsveitt, með gæsahúð og óörugg. Hún sé mjög reið og döpur og segir skapið og depurð fara í bylgjum, hún hafi lítið nærst og sofið. Þá segir að fleiri marblettir séu komnir í ljós og hún sé mjög aum í hálsi og kvið eftir hnefahögg. Þá liggja frammi ljósmyndir teknar á NMT þann 9. mars og aftur 12. mars, af brotaþola. Auk þeirra gagna sem að ofan eru talin liggja fyrir í rannsóknargögnum þrjú vottorð Heilsugæslustofnunar Suðurlands, eitt dagsett 14. apríl 2006 þar sem brotaþoli leitaði til stofnunarinnar vegna árásar ákærða á hana og er áverkum lýst sem eymslum í hársverði og á báðum upphandleggjum, miklum marblettum á vinstri upphandlegg og einnig byrjandi á hægri upphandlegg auk eymsla í herðablöðum og í baki. Annað vottorðið er dagsett 7. apríl 2007 þar sem brotaþoli leitar til stofnunarinnar vegna ofbeldis ákærða. Kemur fram í því vottorði að brotaþoli hafi orðið fyrir árás ákærða á níunda mánuði meðgöngu, hún hafi fengið mikið mar á vinstri handarbak eftir að hafa borið fyrir sig hendur þegar högg dundu á höfði/andliti hennar. Þá hefði ákærði ráðist á hana þegar hún var nýkomin heim af sjúkrahúsi eftir fæðingu dóttur þeirra og brotaþoli þá fengið mikla áverka, bæði í andlit, á handleggi, bak og fætur. Þá hafi ákærði ráðist að brotaþola tveimur dögum fyrir komu á heilsugæslustofnunina og hún þá verið með mar, kúlur og hematom á höfði, verið stíf í hálsi og baki. Vægt skertir hreyfiferlar verið í hálsi og ferskt blóð hafi verið í hægri hlust. Þriðja vottorðið er frá 3. maí 2007 þar sem brotaþoli leitar til stofnunarinnar vegna andlegrar vanlíðanar og kemur fram að brotaþoli hafi rætt ofbeldi frá sambýlismanni sem hún hafi þá slitið samvistum við.
II.
Í lögregluskýrslu sem tekin var af brotaþola þann 10. mars 2008 lýsir hún atburðarásinni á sama hátt og hjá Neyðarmóttökunni.
Skýrsla var tekin af ákærða hjá lögreglu þann 10. mars 2008. Kvað hann atburðarásina þá að brotaþoli hafi rifið sig úr fötunum strax er hann kom til hennar upp úr klukkan fjögur nóttina áður og beðið sig um að hafa samfarir við hana sem hann hefði gert. Síðan hefði þeim lokið og þau bæði verið í miklu stuði, brotaþoli viljað hlusta á tónlist en hann stungið upp á því að þau horfðu á klámmynd sem þau hefðu gert. Þau hefðu aftur haft samfarir á gólfinu og þá endaþarmsmök en brotaþoli þá beðið sig um að hætta þar sem þetta væri nauðgun. Hefði hann þá hætt strax og þau farið fram í eldhús og þau rifist þar. Þau hefðu síðan farið aftur inn í stofu og byrjað að hafa samfarir í stofusófanum sem hefði lokið þegar brotaþoli bað hann um að setja á sig smokk.
Ákærði mætti fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neitaði þá sök af allri háttsemi eins og greind var í ákæru. Við aðalmeðferð málsins gaf ákærði skýrslu og játaði þá líkamsárás að hluta en neitaði að hafa nauðgað brotaþola. Kvaðst hann hafa verið í sambúð með brotaþola frá desember 2004 sem hafi verið stormasöm. Hefðu þau slitið sambúðinni í desember 2007 en þau ættu saman eina dóttur. Kvaðst ákærði hafa verið beittur andlegu ofbeldi í sambandi þeirra og kúgaður öll þessi ár. Hefði hann ekki haft aðgang að bankareikningum sínum en unnið fyrir skuldum hennar. Ákærði kvaðst vera að reyna að losna úr þessu sambandi en hann hefði verið hjá henni sl. sumar í nokkra daga. Ákærði kvað brotaþola drekka mikið áfengi en hann neyti varla áfengis sjálfur. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að vera hjá brotaþola vikuna á undan 9. mars 2008 en hann hefði farið til Reykjavíkur umrætt kvöld. Brotaþoli hefði beðið hann um að koma aftur um nóttina og m.a. sent honum nokkrum sinnum sms-skeyti og því hefði hann hringt til hennar, þegar hann var kominn til baka, nokkrum sinnum en hún ekki svarað. Þegar hann hafði vakið brotaþola hefði hún komið til dyra og hleypt sér inn. Þar hefði hún byrjað að rífa hann úr öllum fötum. Brotaþoli hefði látið hann snerta brjóst hennar heiftarlega og sagt honum að ríða sér. Hann hefði beðið hana að hætta en hún hefði ekki sinnt því og sagst hafa sprautað sig með heróíni. Hefði brotaþoli virst ölvuð en hún hefði haldið áfram að draga sig úr fötunum. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa getað farið burtu þar sem hann hefði verið búinn að drekka þrjá til fjóra bjóra og hafi því verið hræddur um að lögreglan myndi taka hann fyrir ölvunarakstur. Hefði hann sagt brotaþola strax í upphafi að lögreglan væri á eftir sér. Átökin inni í forstofu hefðu endað með því að þau höfðu samfarir á stofugólfinu en brotaþoli hefði neytt hann til samfara. Þó kvaðst ákærði ekki hafa verið mótfallinn samförunum þegar hann var orðinn nakinn. Brotaþoli hefði þá sagst ætla að kæra hann fyrir nauðgun og líkamsárás en ákærði brugðist þannig við að hann hefði gefið henni „einn á´ann“ með krepptum hnefa í andlitið. Í framhaldi hefðu þau staðið upp og brotaþoli viljað hlusta á tónlist en ákærði lagt til að þau horfðu á klámmynd sem hafi orðið úr. Þau hefðu þá haft endaþarmsmök á gólfinu fyrir framan sjónvarpið og brotaþoli þá beðið hann um að hætta og sagt þetta vera nauðgun. Hefði hann þá tekið liminn út og brotaþoli þá rokið upp í einhverju fússi og hreytt í hann skammaryrðum. Aðspurður kvað hann brotaþola hafa verið í hundastellingunni en samfarirnar hefðu ekki verið svo harkalegar að hún hafi getað fengið þá áverka á hnén sem koma fram á myndum og áverkavottorði eftir þau. Aðspurður kvaðst ákærði hafa haldið í hár brotaþola áður en endaþarmsmökin áttu sér stað. Hún hefði ekki beðið um það á þeim tímapunkti en hún hafi oft viljað að hann héldi í hár hennar við samfarir. Áður en endaþarmsmökin hefðu átt sér stað hefði ákærði farið fram á að brotaþoli hefði við sig munnmök en hún neitað. Þau hefðu síðan farið inn í eldhús og fengið sér sígarettu og síðan farið aftur inn í stofu og byrjað að hafa samfarir í sófanum þar. Þar hefði brotaþoli rifið kjaft við ákærða, gert lítið úr honum og ögrað. Kvaðst ákærði hafa tekið í axlirnar á brotaþola og hrist hana til eins og frekan krakka. Hún hefði í framhaldi farið niður að sofa en hann lagst til svefns í sófanum, sem hann hefði oft þurft að gera. Ákærði hefði vaknað um morguninn þegar brotaþoli kom upp með barnið sem hún hefði gefið að borða. Brotaþoli hefði farið niður og hann tekið við að gefa barninu að borða. Í framhaldi hefði hann farið niður í svefnherbergi og ætlað að sofna. Brotaþoli hefði þá komið að honum og spurt hvort hún ætti að kæra hann fyrir líkamsárás og nauðgun og hann svarað því til að honum væri sama um það. Brotaþoli hefði þá rokið upp og inn í eldhús og ákærði á eftir henni. Ákærði kvaðst þar hafa komið einu höggi á axlirnar á brotaþola og gert sig líklegan til að sparka í hana en ekki látið verða af því. Brotaþoli hefði þá setið í hnipri á gólfinu. Nánar spurður um þetta kvað ákærði höggið hafa geigað og lent óvart í andlitinu á henni. Kvaðst hann hafa slegið hana þrisvar til fjórum sinnum. Í framhaldi hefði ákærði farið aftur niður og brotaþoli með barnið á eftir honum. Hefðu þau rætt saman og brotaþoli staðið yfir honum. Kvaðst ákærði hafa slegið hendinni þar frá sér og hún lent á brotaþola en við það hefði efri vör brotaþola sprungið. Kvaðst hann hafa í framhaldi sofnað og vaknað um klukkustund síðar og þá verið einn í húsinu. Hefði hann þá farið út í verslun og síðan heim til móður sinnar. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um að brotaþoli hefði beðið ákærða um að setja á sig smokk o.fl., kvaðst brotaþoli ekki muna hvort þetta hafi borist í tal á meðan þau voru á gólfinu eða í sófanum. Aðspurður um þann framburð að brotaþoli hafi sagst hafa sprautað sig með heróíni, kvaðst ákærði ekki hafa lagt trúnað á það en brotaþoli hefði sagt það strax þegar ákærði kom inn og hún þá dottið á rassinn á gólfið. Hún hefði staðið aftur upp og haldið áfram að rífa hann úr fötunum. Aðspurður um þá áverka sem lýst er í áverkavottorði, kvað ákærði eitthvað af því vera af hans völdum en kvaðst ekki geta svarað því frekar. Áverkar á höfði og kúlur gætu verið af hans völdum. Aðspurður um það hvort ákærði hafi áður veist með ofbeldi að brotaþola kvað ákærði svo hafa verið. Þá kvað ákærði þau oft hafa slegist. Ákærði kvaðst hafa dvalið hjá brotaþola nokkra daga eða eina helgi sl. sumar og m.a. farið með brotaþola á hundasýningu. Þá kvaðst ákærði hafa látið brotaþola hafa peninga, bæði greitt fyrir hana reikninga og afhent henni peninga. Kvað hann brotaþola hafa kúgað sig, hann hefði ekki mátt hafa samband við móður sína né hún við hann og brotaþoli hefði fylgst með honum mjög náið. Ákærða kvaðst líða mjög illa heima hjá brotaþola en hún vilji endilega fá hann til baka og hafi ítrekað reynt að hafa áhrif á hann til þess með kynlífi. Kvaðst hann hafa eftir brotaþola, að læknirinn hafi sagt henni að um nauðgun hafi verið að ræða. Spurður um skýringar á því ofbeldi sem hann beitti brotaþola, kvaðst ákærði hafa misst stjórn á sér, hann hefði ekki undan að rífast við brotaþola. Ákærði kvað brotaþola hafa verið viljuga til kynmaka eftir að hann hafði beitt hana ofbeldi, ekkert hik eða neitun hafi verið af hennar hálfu. Kvað hann brotaþola, aðspurður, yfirleitt vilja hafa samfarir harkalegar. Ákærði kvaðst vera rúmlega 1,80 metrar á hæð og um og yfir 80 kíló og hafa verið í þeirri þyngd þegar árásin átti sér stað.
A kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið ein heima umrætt kvöld ásamt árs gamalli dóttur sinni. Eldri börn hafi verið að heiman en hún átti von á þeim heim daginn eftir. Kvað hún samband hennar og ákærða hafa byrjað í desember 2004. Hefði hún átt tvö börn þá og verið einstæð móðir. Samband ákærða og hennar hefði byrjað í framhaldi af mjög erfiðri reynslu sem hún lenti í. Ákærði hefði verið ungur þegar þau kynntust og fjármál og fleira hjá honum hefði verið í óreiðu. Hefði hún aðstoðað hann við að koma málum sínum í lag og viljað hafa þessa hluti í lagi. Þá hefði sambúð þeirra verið stormasöm. Aðspurð um sakarefnið, kvað hún ákærða hafa hring í sig þá um nóttina og vakið sig. Ákærði hefði komið, verið æstur og kvaðst vilja koma inn en lögreglan væri að elta sig. Fyrr um daginn hefði ákærði beðið hana um að fá bifreið hennar lánaða en hún neitað honum um það. Ákærði hefði komið inn, verið mjög æstur, ekki viljað ræða við hana eða svarað henni og hún ekki náð neinu sambandi við hann. Ákærði hefði strax farið að atast í henni og hrint henni á stofugólfið. Þar hefði hann byrjað að berja hana, hún hefði beðið hann um að hætta en hann haldið áfram. Ákærði hefði tekið um hár hennar og barið andliti hennar sífellt í gólfið og haldið með hinni hendinni báðum höndum hennar fyrir aftan bak. Ákærði hefði síðan afklætt sig og farið að hamast á sér. Kvaðst hún margítrekað hafa beðið hann um að hætta en hann sífellt haldið áfram. Hefði hún allan tímann legið á maganum og ákærði haft samfarir við hana. Hefði ákærði alltaf haft tak á höfðinu á henni og barið því í gólfið. Hún hefði orðið rugluð og ekki getað veitt mótspyrnu. Ákærði hefði krafist þess að hún tæki þátt í samförunum m.a. með því að lyfta sér upp. Ákærði hefði sett lim sinn inn í líkama hennar eins og hann vildi. Ákærði hefði hætt og hún þá séð að klámmynd var komin á sjónvarpsskjáinn. Hún hefði átt að vera grafkyrr allan tímann og legið á gólfinu, illa farin af barsmíðum. Ákærði hefði haldið áfram að hamast á henni og hún þá legið á maganum á gólfinu. Kvaðst hún ekki geta útskýrt hvernig ákærði athafnaði sig. Hann hefði rúnkað sér utan í henni, sett liminn inn í leggöng, lyft henni upp og sett liminn inn í endaþarm hennar. Hefði hann gert þetta eins lengi og hann vildi. Hún hefði allan tímann legið á gólfinu og ekki komist þaðan. Fannst henni þetta hafa varað heila eilífð. Ákærði hefði síðan hætt, orðið móður og sest í sófa í stofunni og haldið áfram að horfa á klámmyndina. Ákærði hefði þá beðið hana um að eiga við sig munnmök. Hún hefði risið upp, fundið að andlitið var allt í blóði og hún bent ákærða á það. Hún hefði getað staðið upp og sagt honum að hún yrði að fá sér vatnsglas sem ákærði hefði samþykkt. Hefði hún farið inn í eldhús og fengið sér vatnsglas. Taldi hún að ákærði hefði róast niður í sófanum. Minnti hana að ákærði hefði þá farið niður og látið eins og hann væri heima hjá sér. Hefði hún verið að reyna að hlusta eftir barninu sem svaf niðri. Hún hefði því farið niður en þá hefði ákærði legið í rúminu hennar og látið sem það væri í góðu lagi. Einhver orðaskipti urðu á milli þeirra, hún hefði ekki viljað hafa hann í rúminu sínu né í svefnherbergi en kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað þeim fór á milli. Aðspurð kvaðst hún ekki geta gert sér grein fyrir því hversu langur tími hefði liðið þar til ákærði fór niður. Barnið hefði vaknað og hún hefði farið með það upp á efri hæðina og ákærði komið á eftir henni upp stigann. Hún hefði farið inn í eldhús og ákærði misst þar aftur stjórn á sér. Ákærði hefði tekið stelpuna af henni, sett hlið fyrir hana svo barnið kæmist ekki að henni. Síðan hefði hann barið hana endalaust og hún heyrt barnið gráta en þau hefðu þá verið í sama rými. Ákærði hefði barið sig með krepptum hnefa aftur og aftur og jafnframt sparkað í sig. Hún hefði legið eins og hrúgald og reynt að verja á sér höfuðið. Höggin hefðu lent á handleggjum, baki, síðu og lærum en hún gæti ekki lýst því nákvæmlega. Hún hefði verið mjög dofin á þessum tíma þar sem búið var að berja hana mikið um nóttina. Á endanum hefði ákærði hætt að berja hana og gengið um og farið aftur niður í herbergi hennar. Hún hefði reynt að sinna barninu, gefið því að borða og kvaðst hafa þurft að komast niður til að sækja föt á barnið en herbergi og baðherbergi væru niðri. Hugsunin hjá henni hafi verið að halda friðinn til að geta komist út. C vinkona hennar hefði hringt á meðan ákærði var niðri og hún rætt við hana í hálfum hljóðum. C hefði spurt sig hvort ekki væri allt í lagi en hún ekki getað sagt henni hvað hafði gerst þar sem ákærði var enn í húsinu og hún vissi ekki hvort hann heyrði í henni. Aðspurð um frásögn ákærða um upphafið kvað hún frásögn sína vera það sem fyrir hana kom, hún geti ekki sagt frekar um afstöðu ákærða. A kvaðst hafa náð í tösku fyrir barnið og útbúið pela en þurft að telja í sig kjark til að fara út úr húsinu. Hún hefði verið hrædd um að ákærði myndi ná sér áður en hún færi inn í bifreiðina en tíma hefði tekið að koma barninu fyrir í bifreiðinni. Hún hefði ekki verið í nokkru ástandi til að aka bifreið en hún þurfti að sækja son sinn á Selfoss. Þegar hún hitti son sinn, bað hún hann um að aðstoða sig á meðan hún færi til læknis en hann hefði þurft að gæta barnsins á meðan. A kvaðst hafa farið í framhaldi til Reykjavíkur á Neyðarmóttökuna en áður hefði hún þurft að koma börnunum fyrir. Einhver hefði ekið sér til á Neyðarmóttökuna og hún síðan gefið skýrslu hjá lögreglunni. Aðspurð kvað hún sambúð þeirra hafa lokið í desember árinu áður. Ákærði hafi þó ítrekað hringt í sig en hún ekki viljað ræða við hann, hún hafi verið hrædd við hann og þótt óþægilegt þegar hann hringdi. Sér hefði þótt óþægilegt að vera ein heima en hún hefði strax fengið aðstoð sálfræðings. Hefði hún margoft farið í viðtöl til sálfræðingsins og fengið góða meðferð. Þetta hafi verið mjög erfið reynsla, hún hefði upplifað mikið ofbeldi frá ákærða á sambúðartímanum og í þetta sinn hefði þetta verið mikið niðurbrot. Hún hafi verið mjög hrædd lengi á eftir og hrædd við ákærða. Kvaðst hún hafa lent í erfiðum áföllum fyrir sambúð þeirra og þessi reynsla hafi verið henni mjög erfið. Sálfræðingurinn hefði hjálpað henni mikið og væri hún enn að vinna úr þeim ráðleggingum sem hún fékk þá. Kvað hún mjög erfitt að fara í gegnum þessa hluti aftur núna. Aðspurð um það hvort ákærði hafi búið eða verið heima hjá A eftir þennan atburð, kvað hún svo ekki hafa verið. Hann hefði hins vegar haft samband nokkrum sinnum og þá aðallega vegna dóttur þeirra. Ákærði hefði m.a. verið með dóttur þeirra einn dag sl. sumar á hundasýningu þar sem hún hefði þurft að vinna. Það hefði gengið vel. Eftir sambúðarslitin hefði ákærði einu sinni tekið sér vald til að gista heima hjá henni og hefði það verið í mars sl., en ekki eftir það.
C, kt. [...], [...], Reykjavík, kom fyrir dóminn og kvaðst vera góð vinkona brotaþola og væru þær í miklum samskiptum. Kvaðst hún hafa hringt í brotaþola að morgni 9. mars sl. Hefði brotaþoli hálf hvíslað í símann og kvaðst ekki geta talað við hana þá en hefði sagt sér að ákærði væri hjá henni. C kvað sér þó hafa skilist á brotaþola að ákærði hefði gengið í skrokk á henni en brotaþoli hefði tjáð sér að hún væri hrædd um að ákærði myndi vakna við símtalið. Brotaþoli hefði einnig tjáð sér að hún yrði að ná í son sinn sem væri að koma með rútu á Selfoss. Hún hefði hringt í brotaþola aftur seinna þennan dag og þá hefði brotaþoli tjáð sér að ákærði hefði nauðgað sér í „allar holur“. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vitni að ofbeldi persónulega en brotaþoli hefði áður sagt henni að ákærði beitti hana ofbeldi.
D kt. [...], [...], Árborg, móðir ákærða, kom fyrir dóminn og kvað brotaþola vera fyrrverandi tengdadóttur sína. Lýsti hún kynnum sínum af brotaþola. Ekki þykir ástæða til að rekja framburð hennar frekar hér þar sem hún var ekki vitni að atburðum sem fjallað er um í máli þessu eða skipta máli við mat á niðurstöðu.
B, læknir á Heilsugæslunni á Selfossi, kom fyrir dóminn og kvaðst muna vel eftir því er brotaþoli leitaði til hans í umrætt sinn. Lýsti hann ástandi brotaþola við komu á heilsugæsluna og skoðun hans. Kvað hann greinilegt strax að brotaþoli hafði orðið fyrir áfalli. Hún hefði lýst því fyrir honum að hún hefði orðið fyrir líkamsárás þá um nóttina af hálfu ákærða, auk þess sem hún lýsti því að ákærði hefði viljað eiga kynlíf með henni sem hún hefði ekki verið tilbúin til að samþykkja. Ákærði hefði þá ráðist að henni og náð fram sínum vilja. Lýsti B áverkum og eymslum við skoðun sem var í samræmi við vottorð hans. Kvaðst hann ekki hafa skoðað hana kvenskoðun en hann hefði lagt til að hún færi beint á Neyðarmóttökuna til skoðunar. Þá staðfesti B vottorð sitt fyrir dóminum. B kvaðst áður hafa fengið brotaþola til skoðunar þar sem hún hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfu ákærða að hennar sögn.
E, kt. [...], læknir á Neyðarmóttöku fyrir nauðganir, gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvaðst hún muna eftir brotaþola þegar hún kom á Neyðarmóttökuna. Mundi hún sérstaklega eftir því hvað brotaþoli var lúbarin. Hefði henni fundist áverkarnir vera ferskir. Aðspurð kvað hún algengara en ekki að engir áverkar væru á kynfærum kvenna eftir nauðgun hafi þær áður átt börn. Þá kvað hún aðspurð að áverkarnir sjálfir bentu ekki sérstaklega til þess að þeir hafi komið fram við nauðgun sem slíka.
F, kt. [...], hjúkrunarfræðingur gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvaðst hún hafa tekið á móti brotaþola á Neyðarmóttökunni þann 9. mars sl. og aftur þann 12. mars. Hefðu ljósmyndir verið teknar af brotaþola þegar hún kom fyrst til Neyðarmóttökunnar og aftur þann 12. mars þar sem líkur voru á að frekari áverkar yrðu þá komnir í ljós. Kvaðst hún hafa ritað eftir brotaþola að hún hefði verið aum í endaþarmi.
G, kt. [...], sálfræðingur gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvað hún greinileg streitueinkenni hafa einkennt brotaþola þegar hún leitaði til sín í byrjun. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa lagt nein próf fyrir brotaþola þar sem hún taldi enga þörf á því þar sem greinileg áfallaeinkenni hefðu verið hjá brotaþola. Kvað hún brotaþola hafa skorað öll próf í botn hefði áfallapróf verið lagt fyrir hana í byrjun. G kvaðst hafa starfað sem sálfræðingur frá árinu 1998 og unnið mikið við áfallasálarfræði víða auk þess að hafa fengið sérmenntun í áfallaeinkennum. Aðspurð um það hvort áfallastreita sem einkenndi brotaþola gæti hafa komið fram eingöngu vegna líkamsárásarinnar kvað hún það geta verið. Staðfesti G vottorð sitt frá 25. janúar 2009.
III.
Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa slegið brotaþola einu sinni í andlit, tekið um axlir hennar og hrist hana um nóttina, slegið hana óvart í andlit morguninn eftir og slegið hana í axlir og andlit uppi í eldhúsi seinna um morguninn. Að öðru leyti neitaði ákærði að hafa veist að brotaþola eins og lýst er í ákærunni. Ákærði kvað þó þá áverka sem lýst er í ákæru og voru á brotaþola geta hafa stafað af árás hans. Þá kvað hann fyrir dóminum að lítið þyrfti að koma við brotaþola til að hún fengi marbletti. Ákærði kvað atburðarásina umrætt kvöld hafa verið þá að hann kom heim til brotaþola um nóttina og vakti brotaþola. Hún kom til dyra en áður en ákærði komst inn úr forstofunni, hefði hún ráðist að sér og rifið hann úr fötunum. Brotaþoli hefði dottið afturábak inn á stofugólf en staðið aftur upp og haldið áfram að afklæða hann, gegn hans vilja. Þegar ákærði var orðinn nakinn hefði hann lagst ofan á brotaþola og hafið samfarir við hana. Brotaþoli hefði þá sagst ætla að kæra hann fyrir nauðgun og líkamsárás og hann þá slegið hana í andlitið. Þau hefðu síðan haft endaþarmsmök á gólfinu með samþykki brotaþola. Hlé hefði verið á samförunum en þau síðan aftur haft samfarir í sófanum í stofunni. Þar hefði brotaþoli ögrað sér, sem varð til þess að hann tók um axlir hennar og hristi hana til eins og óþekkan krakka. Hann hefði síðan sofnað og sofið fram undir morgun og þá fært sig niður í svefnherbergi brotaþola. Þar hefði hann síðar um morguninn slegið frá sér með handleggnum sem hefði óvart lent í andliti brotaþola, þar sem hún stóð við rúmið. Stuttu seinna hefði hann farið upp í eldhús, þar sem brotaþoli var að mata barn þeirra, og slegið brotaþola nokkur högg í axlirnar en eitt höggið hefði geigað og lent í andliti brotaþola. Þá hefði hann ætlað að sparka í brotaþola þar sem hún var í hnipri í gólfinu en hætt við.
Brotaþoli kom fyrir dóminn og rakti atburðarásina eins og hún blasti við henni. Kvað hún ákærða hafa komið heim til sín um nóttina og vakið sig. Hún hefði hleypt honum inn og hann hefði þar ráðist að sér, hent henni á gólfið, tekið um hár hennar og margslegið andliti hennar í gólfið, haldið um hendur hennar fyrir aftan bak, margslegið hana og haft við hana samfarir aftan frá. Þá hefði hann lyft henni upp og haft við hana endaþarmsmök. Ákærði hefði beðið hana stuttu seinna um að hafa munnmök við sig sem ekki hafi orðið af. Um morguninn hefði ákærði komið að henni inni í eldhúsi, tekið af henni dóttur þeirra og girt barnið af í stofunni þannig að það kæmist ekki burtu, og síðan veist að henni í eldhúsinu og margslegið hana í andlit, maga og kvið auk þess að sparka í hana. Er frásögn hennar fyrir dómi í öllum atriðum á sama veg og fyrir B lækni, strax þann 9. mars sl., á Neyðarmóttökunni sama kvöld og fyrir lögreglunni daginn eftir. Framburður ákærða fyrir dóminum var hins vegar afar ótrúverðugur. Þykir með ólíkindum að brotaþoli hafi, eftir að hafa verið beitt slíku ofbeldi sem áverkavottorðið og ljósmyndir bera vott um, veitt samþykki sitt fyrir samförum eins og ákærði skýrði fyrir dóminum, eða afklætt ákærða gegn hans vilja, sérstaklega með tilliti til þess stærðarmunar sem er á aðilum. Er sú frásögn ákærða að brotaþoli hafi rifið hann úr fötunum um nóttina, gegn hans vilja, og neytt hann til samfara afar ótrúverðug og er að engu hafandi. Þó svo að brotaþoli hafi hugsanlega samþykkt samfarir í upphafi eins og ákærði hefur haldið fram, þá kom bæði fram í framburði ákærða og brotaþola, að brotaþoli hafi sagt við ákærða á meðan á samförunum stóð og eftir þær, að um nauðgun og líkamsárás hafi verið að ræða. Brotaþoli kvaðst hafa beðið ákærða að hætta meðan á samförunum stóð og kvaðst ákærði þá hafa hætt og tekið lim sinn út, en brotaþoli segir hann hafa haft beiðni hennar að engu og hamast á sér áfram. Er framburður ákærða að þessu leyti mjög ótrúverðugur en framburður brotaþola samrýmist þeim áverkum sem á henni voru, bæði á höfði, hnjám og baki.
Með vísan til framburðar brotaþola, sem hefur verið stöðugur frá upphafi, framburðar B læknis fyrir dóminum og vottorðs hans um áverka, skoðun og framburð brotaþola við komu hennar til B þann 9. mars 2008, framburðar E læknis fyrir dómi og vottorðs hennar um líkamlegt og andlegt ástand brotaþola við komu hennar á Neyðarmóttökuna, framburðar F hjúkrunarfræðings um ástand brotaþola við komu og endurkomu á Neyðarmóttökunni svo og með vísan til vottorðs G sálfræðings um andlegt ástand brotaþola, þykir, gegn neitun ákærða, lögfull sönnun hafa verið færð fram fyrir dóminum um að ákærði hafi gerst brotlegur eins og í ákæru greinir. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.
IV.
Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði braut gegn brotaþola á heimili hennar og stóð árásin yfir í langan tíma eða allt frá því upp úr klukkan rúmlega fjögur um nóttina og með hléum til klukkan tíu til ellefu morguninn eftir. Þá ber að líta til 1., 2., 3., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar. Brot ákærða beindist að lífi, líkama og kynfrelsi brotaþola. Miklir áverkar voru á brotaþola eftir árásina, árásin var hrottaleg og unnin á heimili brotaþola að nóttu til og henni haldið þar nánast í gíslingu með rétt ársgamalt barn sitt. Ásetningur ákærða var einbeittur en árásin stóð yfir með hléi í margar klukkustundir og það eina sem ákærða virðist hafa gengið til var að lítilsvirða og knésetja brotaþola í þágu eigingjarnra hvata hans sjálfs. Þá eykur það á alvarleika brotsins að lítið barn aðila var á heimilinu meðan á árásinni stóð. Loks verður að líta til þess að árásin hafði líkamlegar og andlegar afleiðingar í för með sér fyrir brotaþola, eins og ráða má af læknisvottorðum og vottorði G sálfræðings. Ákærði og brotaþoli höfðu fyrir árásina verið í sambúð í þrjú ár og áttu þau árs gamla dóttur þegar árásin átti sér stað. Þá liggur fyrir í læknisvottorðum saga um líkamlegt ofbeldi á sambúðartímanum sem ákærði staðfesti rétta að hluta. Með hliðsjón af þessu verður að líta til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í greinargerð með 3. mgr. 70. gr., sem breytt varð með lögum nr. 27/2006, segir að lögð sé á það áhersla að þótt ljóst sé að tengsl geranda og brotaþola séu þess eðlis að aðilar teljast nákomnir geti það ekki eitt og sér leitt til þess að beitt sé þessari refsiþyngingarástæðu. Mat á því hvort náin tengsl aðila hafi aukið á grófleika verknaðar sé háð atvikum hverju sinni. Verði þá einkum að horfa til þess hvort um langvarandi eða endurtekin brot sé að ræða og því almennt ekki gert ráð fyrir að einstök tilvik séu þess eðlis að refsiþynging á grundvelli þessa ákvæðis komi til greina en það verði að vera háð mati hverju sinni. Þar sem um refsiþyngingarástæðu sé að ræða, sem háð sé mati dómara að virtum atvikum hvers máls, mætti jafnframt líta til þess hvort atvik eða aðstæður hafi verið með þeim hætti að brot hafi verið til þess fallið á grundvelli almenns og hlutlægs mælikvarða að niðurlægja brotaþola eða jafnvel að skerða sjálfsmat hans eða sjálfsvirðingu.
Telur dómurinn að tengsl aðila og háttsemi ákærða í máli þessu séu með þeim hætti að líta beri til þessa ákvæðis við ákvörðun refsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur í sjö mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára fyrir þjófnað, hótanir og fíkniefnabrot þann 12. október 2004. Þá gekkst ákærði undir sátt þann 9. desember 2006 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Við mat á öllu framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur og hálft ár. Ekki þykja skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.
V.
Í málinu gerir A kröfu um miskabætur úr hendi ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur auk nánar tilgreindra vaxta. Er miskabótakrafan rökstudd með vísan til frásagnar brotaþola og þess að um mjög grófa líkamsárás og nauðgun hafi verið að ræða sem hafi í för með sér miskatjón sem ákærði beri ábyrgð á samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993.
Brotaþoli á ótvíræðan rétt til miskabóta úr hendi ákærða samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Árás ákærða á brotaþola var ófyrirleitin og hrottaleg og framin inni á heimili brotaþola.
Í vottorði G sálfræðings kemur fram að fyrstu dagana eftir árásina hafi brotaþoli átt erfitt með að vera ein, hún hafi verið óttaslegin og viðbrigðin og átt erfitt með svefn. Henni finnist hún endurupplifa hnefahöggin, finni til óöryggis á heimili sínu og sé sífellt á varðbergi gagnvart hljóðum í umhverfinu. Eftir því sem frá hafi liðið hafi dregið úr viðbragðsstöðu brotaþola, hún sofi betur og finni fyrir auknu öryggi. Kveður hún ákærða hafa haft samband við hana í apríl 2008 og í kjölfarið hafi hún aftur fundið fyrir auknum kvíða, ónotum og aukinni viðbragðsstöðu. Þá kemur fram í vottorðinu að brotaþoli hafi fylgt öllum fyrirmælum við sálræna úrvinnslu og gengið vel að ná aftur stjórn á aðstæðum. Í síðasta viðtalinu, 30. apríl 2008, hafi ekki verið merki um kvíða- eða streitueinkenni og geti brotaþoli rifjað upp atburðarásina án þess að finna fyrir tilfinningalegum eða líkamlegum viðbrögðum. Í lok vottorðsins kemur fram að frá upphafi meðferðar hafi brotaþoli verið staðráðin í að vinna bug á sálrænum einkennum og endurheimta stjórnina á lífi sínu. Með miklum dugnaði og kjarki hafi henni tekist að ná góðri úrvinnslu áfallsins og tveimur mánuðum eftir atburðinn sé hún laus við einkenni áfallastreitu. Hvaða áhrif atburðurinn geti haft á brotaþola til lengri tíma litið sé ekki hægt að fullyrða að svo stöddu.
Sannað er að brotaþoli varð fyrir líkamsárás og nauðgun af hendi ákærða, sem getur um ókomna framtíð valdið henni erfiðleikum. Með hliðsjón af atvikum öllum, líkamlegum og andlegum afleiðingum líkamsárásarinnar og vættis brotaþola fyrir dómi, þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir en bótakrafan var fyrst kynnt ákærða við þingfestingu málsins þann 4. desember 2008.
VI.
Samkvæmt yfirliti er sakarkostnaður samtals 189.007 krónur, sem er vegna læknisvottorðs 4.000 krónur og þóknunar verjanda á rannsóknarstigi 185.007 krónur og ber að dæma ákærða til að greiða þann kostnað. Þá er kostnaður réttargæslumanns brotaþola við rannsókn málsins og fyrir dómi samtals 523.040 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, sem ákærða ber að greiða auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða fyrir dómi, Torfa Ragnars Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 224.100 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigríður Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari, flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra og Ásgeiri Magnússyni héraðsdómara.
Dómsorð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur og hálft ár.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 936.147 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Torfa Ragnars Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 224.100 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, á rannsóknarstigi og fyrir dómi, samtals 523.040 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði A miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. mars 2008 til 4. janúar 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.