Hæstiréttur íslands

Mál nr. 139/1997


Lykilorð

  • Fölsun
  • Umboð
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Ógilding samnings
  • Gjafsókn


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 4. mars 1999.

Nr. 139/1997.

Pirshing Guðmundsson og

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Svanhildur Magnúsdóttir

(Bjarni Ásgeirsson hrl.)

gegn

Lánasjóði íslenskra námsmanna

(Ástráður Haraldsson hrl.)

Fölsun. Umboð. Sjálfskuldarábyrgð. Ógilding samnings. Gjafsókn.

P fékk námslán hjá LÍN á árunum 1983-84 samkvæmt þremur skuldabréfum sem voru tryggð með sjálfskuldarábyrgð G, fyrrverandi tengdaföður P. Vanskil urðu á lánunum og var mál höfðað til innheimtu skuldarinnar á hendur P og G. P hélt því fram að V, fyrrverandi eiginmaður hennar, hefði annars vegar falsað nafnritun sína á umsókn um námslán og hins vegar fengið undirskrift sína á óútfyllt eyðublað og hefði hún ekki veitt G umboð til að sækja um eða taka við láni fyrir sína hönd. Taldi hún sig ekki skuldbundna til endurgreiðslu lánanna. Talið var ósannað að V hefði falsað undirritun P og talið að G hafi haft heimild P til að gefa skuldabréfin út fyrir hennar hönd og var P talin bundin samkvæmt skuldabréfunum. G lést í febrúar 1998. Andmælti S, ekkja G, greiðsluskyldu sinni af lánunum. Var hvorki fallist á rök S um að LÍN hefði borið að veita ábyrgðarmanni að fyrra bragði leiðbeiningar um skyldu þá sem hann væri að taka á sig né að önnur atvik gætu leyst hana undan greiðsluskyldu. Var niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu P og S við LÍN staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi Pirshing Guðmundsson skaut málinu til Hæstaréttar 25. mars 1997. Krefst hún sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt á báðum dómstigum.

Guðmundur Guðjónsson áfrýjaði málinu 2. maí 1997. Hann lést 19. febrúar 1998 og hefur ekkja hans Svanhildur Magnúsdóttir, sem situr í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, tekið við aðild málsins. Krefst hún sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem greinir í héraðsdómi giftist áfrýjandi Pirshing Viðari Guðmundssyni á árinu 1979. Bjuggu þau saman í nokkur ár, er þau voru við háskólanám í Kanada. Þau fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng 18. október 1990 og lögskilnað á árinu 1991 eða 1992. Faðir Viðars var Guðmundur Guðjónsson. Samkvæmt málsgögnum fæddist Pirshing Guðmundsson í Írak, en varð íslenskur ríkisborgari 11. apríl 1983, sbr. lög nr. 17/1983 um veitingu ríkisborgararéttar.

II.

Meðal gagna málsins í héraði voru tvær umsóknir til stefnda, þar sem óskað var eftir láni vegna náms áfrýjanda Pirshing í Kanada. Eru þær á stöðluðum prentuðum eyðublöðum. Önnur umsóknin er dagsett 4. janúar 1980, en hin 7. maí 1983. Áfrýjandi Pirshing neitar að hafa skrifað undir eldra skjalið, en í framburði sínum fyrir héraðsdómi 21. mars 1997 kvaðst hún hafa ritað undir yngra skjalið. Um skjal þetta sagði áfrýjandinn, að það væri eina skjalið, sem hún hafi skrifað undir í hjónabandi þeirra Viðars Guðmundssonar.  Heldur hún fram, að hún hafi ritað undir umsóknina 7. maí 1983 áður en hún var fyllt út að öðru leyti.

Eftir uppsögu héraðsdóms óskaði þáverandi lögmaður áfrýjanda Pirshing eftir rannsókn á nafnritunum á umsóknunum tveimur. Í skýrslu Haraldar Árnasonar rannsóknarlögreglumanns í tæknideild Rannsóknarlögreglu ríkisins 11. apríl 1997 segir meðal annars svo:

Rannsóknarefni

Til rannsóknar í tæknideild RLR er skjal sem nánar lýst eftirfarandi: Frumrit útfyllts staðlaðs umsóknareyðublaðs um lán vegna náms erlendis, þar sem Pirshing Karim Mahmood ... sækir um námslán vegna náms í erfðafræði við háskóla í Kanada. Skjalið er tvíblöðungur og er dagsetning og undirskrift á tveimur stöðum á skjalinu; neðst á síðum 2 og 4. Báðar dagsetningarnar eru samhljóða, 4. janúar 1980 og undir þeim eru ólæsilegar undirskriftir sem munu eiga að vera „Pirshing Guðmundsson“.

Rannsóknarþættir

Framangreind Pirshing Guðmundsson mun hafa synjað fyrir nafnritanir sínar á skjalið og borið að þar væri um fölsun að ræða. Er skjalið lagt fram til rithandarrannsóknar með það í huga að sú rannsókn gæti skorið úr um hvort undirskriftir Pirshing kunni að vera falsaðar ..., en rannsóknargagninu fylgir ódagsett skriftarsýni, sem sagt er að sýni nafnritanir hennar, bréf sem undirritað er nafni hennar svo og ... umsókn hennar um námslán, dagsett 7. 5. 1983 og ber samsvarandi óvéfengda nafnritun.  ...

Rannsókn

Eftir gögnum málsins að dæma, skrifar Pirshing Guðmundsson nafnritun sína á tvo mismunandi vegu. Er það ýmist á fullkominn læsilegan hátt, eða sem einskonar teikningu eða fljótaskrift þar sem aðeins má lesa tvo eða þrjá fyrstu bókstafina en síðan mynda pennastrikin einhverskonar lykkjur eða hringferla. Eru hinar fyrirsynjuðu nafnritanir með formi hins síðarnefnda.

Þau samanburðargögn sem eru með sama formi og hinar fyrirsynjuðu nafnritanir, eru bein sýni sem eru ódagsett og óvottuð en munu hafa verið tekin í tengslum við þessa rannsókn, svo og óvéfengd undirskrift hennar undir eldri umsókn um námslán en umsóknin er dagsett um það bil 1 ári og 5 mánuðum síðar en hið véfengda skjal.

Við samanburð á hinum fyrirsynjuðu nafnritunum Pirshing annarsvegar og framangreindum sýnum nafnritana hennar hinsvegar kemur fram ákveðið misræmi. Er það í formi á lykkjum eða hringferlum þeim sem taka við af læsilegum bókstöfum í nafnritununum og einnig í því að í hinum fyrirsynjuðu nafnritunum kemur bókstafurinn „s“ skýrt fram, en í sýnunum ekki.

Í sýnunum hefjast ferlarnir með hreyfingu til hægri og enda ofarlega í ferlunum en í hinum fyrirsynjuðu nafnritunum byrja ferlarnir til vinstri og enda neðarlega, eða neðst í ferlunum. Við þetta má bæta, að ákveðið skriftarlegt misræmi er á milli hinna fyrirsynjuðu undirskrifta en þær eru dagsettar sama dag.  ...

Að því er varðar hina læsilegu bókstafi, er aðeins um þrjá prentskriftarstafi að ræða, en það er með öllu ófullnægjandi með tilliti til rithandarrannsóknar, það er, til að byggja á afgerandi niðurstöðu um hvort hinar fyrirsynjuðu nafnritanir séu falsaðar eða ekki.

Ekki liggja fyrir nafnritanir kæranda frá sama tíma og rannsóknargögnin og eins er ekki ljóst hvenær Pirshing lærði rómverska skrift, ... og eru ... líkur á því að hún hafi í upphafi lært arabiska skrifstafi. Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir, en kunna að skipta máli ef nafnritun hennar er á þróunarskeiði en ekki fullformuð á þeim tíma er hinar fyrirsynjuðu nafnritanir eru skrifaðar. ...

Niðurstaða

Það er niðurstaða undirritaðs, að afstaða verði ekki tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna, hvort hinar fyrirsynjuðu nafnritanir Pirshing Guðmundsson á framangreindri umsókn um námslán, séu falsaðar, eða ekki.“

III.

Í upphafi II. kafla hér að framan er lýst staðhæfingum áfrýjanda Pirshing um undirritanir lánsumsækjanda á umsóknirnar 4. janúar 1980 og 7. maí 1983. Á eldri umsókninni er umboð til handa Guðmundi Guðjónssyni til að taka lán hjá stefnda, ef veitt verður, og heimild fyrir hann til að undirrita skuldabréf fyrir hönd lántakanda til tryggingar láninu, svo og að taka á móti lánsfénu. Undir hinum prentaða texta á bls. 2 á eyðublaðinu er dagsetningin 4. janúar 1980 og hin fyrri umdeildra nafnritana. Neðst á bls. 4 er prentaður texti, þar sem meðal annars kemur fram að undirritandi hafi svarað öllum spurningum eyðublaðsins eftir bestu vitund. Fyrir neðan þennan texta er skrifuð sama dagsetning og hin síðari umdeildra nafnritana. Umsókn þessari var synjað, en á hana var ritað af starfsmanni stefnda, að samþykkt sé „að taka tillit til hennar í láni maka“.

Umsóknin frá 7. maí 1983, sem áfrýjandi Pirshing hefur gengist við að hafa skrifað undir, en óútfyllta, var hins vegar samþykkt og veitti stefndi námslán á grundvelli hennar. Nafnritun áfrýjanda Pirshing og dagsetning er fyrir neðan eftirfarandi prentaðan texta: „Ég undirritaður staðfesti hér með að ég hafi svarað öllum spurningum þessa eyðublaðs ... eftir bestu vitund og að ég muni tilkynna jafnóðum allar breytingar er varða umsókn þessa. Auk þess staðfesti ég að ég hafi kynnt mér reglur sjóðsins um meðferð tekna minna (og maka) og veiti sjóðnum heimild til að kanna skattframtal mitt (og maka).“

Sérstakur reitur merktur „Viðskiptareikningur“ er á eyðublaðinu, sem umsóknin er skrifuð á. Þar er prentað: „Lán er lagt inn á viðskiptareikning. Reikningurinn skal vera í banka á Íslandi á nafni umsækjanda.“ Við þetta er handskrifað nafn kanadísks banka og reikningsnúmer. Nafn Guðmundar Guðjónssonar er skrifað í sérstakan reit fyrir nafn umboðsmanns. Á þetta eyðublað er hins vegar ekki prentaður texti fyrir umboð. Heldur áfrýjandi Pirshing því fram, að hún hafi aldrei veitt Guðmundi eða öðrum umboð til að sækja um eða taka við láni fyrir sína hönd. Bendir hún á, að á bls. 4 á eyðublaðinu séu leiðbeiningar um útfyllingu þess og þar segi meðal annars að formlegt umboð skuli gefa á sérstöku eyðublaði. Liggi ekkert slíkt fyrir í málinu.

IV.

Stefndi höfðaði mál þetta í héraði til innheimtu þriggja skuldabréfa vegna námslána, sem Guðmundur Guðjónsson, faðir Viðars Guðmundssonar, undirritaði á árunum 1983 til 1984 fyrir hönd lántakanda, sem var áfrýjandi Pirshing. Er óumdeilt að lán þessi voru veitt á grundvelli umsóknarinnar frá 7. maí 1983.

Áfrýjandi Pirshing heldur fram að þáverandi eiginmaður hennar hafi falsað báðar nafnritanir lánsumsækjanda, sem eru á annarri og fjórðu blaðsíðu umsóknarinnar 4. janúar 1980. Í málinu eru ekki nein gögn, sem benda til að eiginmaður hennar hafi haft ástæðu til að falsa nafn hennar á umsóknina. Eins og áður segir var niðurstaða sérfræðilegrar rithandarrannsóknar sú, að ekki væri unnt á grundvelli fyrirliggjandi gagna að taka afstöðu til þess hvort umræddar undirritanir væru falsaðar. Tiltekið misræmi í nafnritunum, sem bent er á í rannsóknarskýrslunni geta, eins og ráða má af henni, átt sér aðrar skýringar en þá að um fölsun hafi verið að ræða. Samkvæmt framansögðu verður að telja ósannað að nafnritanirnar séu falsaðar.

Verður því lagt til grundvallar, að áfrýjandi Pirshing hafi 4. janúar 1980 veitt Guðmundi Guðjónssyni þáverandi tengdaföður sínum umboð til að taka fyrir hennar hönd námslán hjá stefnda og gefa út skuldabréf fyrir væntanlegu láni. Eins og fyrr greinir fékkst námslán þó ekki í þetta sinn, en af áritun starfsmanns stefnda á umsóknina verður ráðið, að litið hafi verið til hjúskapar áfrýjanda Pirshing og þáverandi manns hennar, þegar lánsfjárhæð til hans var ákveðin.

V.

Samkvæmt gögnum málsins bjuggu hjónin Pirshing og Viðar saman í Kanada og stunduðu þar nám, þegar námslánin voru veitt á árunum 1983 og 1984. Eftir gögnum málsins var óskað eftir því við stefnda að sá hluti námslána áfrýjanda Pirshing, sem ekki væri greiddur við undirritun skuldabréfa, yrði lagður á tiltekinn reikning á nafni hennar við Landsbanka Íslands.

Viðar Guðmundsson bar fyrir dómi, að lánin hafi verið notuð til framfærslu þeirra beggja í Kanada. Áfrýjandi Pirshing heldur því hins vegar fram, að hún hafi ekki þurft á að halda láni frá stefnda, þar sem hún hafi fengið ríflegan styrk frá Írak. Eigi er sú staðhæfing studd sönnunargögnum.

Skuldabréfin þrjú, sem stefndi reisir kröfur sínar á, voru svo sem áður segir veitt á grundvelli umsóknarinnar frá 7. maí 1983, sem óvefengt er að áfrýjandi Pirshing skrifaði undir. Hefur hún ekki leitt líkur að þeirri staðhæfingu sinni, að hún hafi skrifað undir autt umsóknareyðublað. Á báðum umsóknum var Guðmundur Guðjónsson skýrlega tilgreindur sem umboðsmaður lántakanda og ritaði hann undir öll skuldabréfin bæði sem umboðsmaður og sjálfskuldarábyrgðarmaður. Þegar litið er til alls þess, sem nú var rakið, verður að telja nægilega leitt í ljós að Guðmundur Guðjónsson hafi haft heimild frá áfrýjanda Pirshing til að gefa skuldabréfin út fyrir hennar hönd. Skiptir hér ekki máli þótt stefndi hafi ekki sýnt fram á, að til sé á sérstöku eyðublaði eða fylgiskjali umboð til handa Guðmundi.  Er áfrýjandi Pirshing því bundin samkvæmt skuldabréfunum.

VI.

Áfrýjandi Pirshing mun ekki hafa greitt neitt af umræddum námslánum, en Guðmundur Guðjónsson mun á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sinnar hafa innt af hendi afborganir, verðbætur og vexti af þeim á tímabilinu frá 4. ágúst 1989 til 6. september 1993. Hinn 4. júlí 1994 ritaði þáverandi lögmaður Guðmundar bréf til stefnda, þar sem „sagt er upp“ sjálfskuldarábyrgð Guðmundar. Hefur ekki verið greitt af lánunum síðan.

Áfrýjandinn Svanhildur Magnúsdóttir er sem fyrr greinir ekkja ábyrgðarmannsins Guðmundar Guðjónssonar og fyrrverandi tengdamóðir áfrýjanda Pirshing. Andmælir hún greiðsluskyldu með ýmsum rökum. Í fyrsta lagi heldur hún fram, að sjálfskuldarábyrgð hafi ekki stofnast á löglegan hátt í upphafi sökum þess að stefndi hafi ekki kynnt sér fjárhag ábyrgðarmannsins og ekki gætt þess að leiðbeina honum um þá skyldu, sem hann var að taka á sig. Af hálfu áfrýjanda Svanhildar er þó ekki gerð grein fyrir í hverju slík skylda hefði átt að vera fólgin. Hvað sem því líður verður ekki fallist á, að stefnda hafi verið skylt að veita ábyrgðarmanni að fyrra bragði sérstakar leiðbeiningar í þessu efni. Þá hefur því ekki verið hreyft, að Guðmundur Guðjónsson hafi leitað til stefnda með ósk um að sér yrðu gefnar skýringar eða veittar upplýsingar varðandi væntanlega ábyrgðarskuldbindingu, án þess að fá fullnægjandi svör. Verður málsástæðu þessari því hafnað.

Í annan stað ber þessi áfrýjandi fyrir sig að sjálfskuldarábyrgðin sé ekki lengur fyrir hendi, þótt svo kunni áður að hafa verið. Telur áfrýjandinn að ábyrgðarmaður skuli í öllu tilliti vera eins settur og skuldarinn sjálfur gagnvart kröfuhafa og vísar um það til 8. gr. laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, sem í gildi voru, er lán voru veitt. Í 5. mgr. 8. gr. laganna var svohljóðandi ákvæði:  „Stjórn Lánasjóðs er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 2. og 3. mgr. ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórninni er ennfremur heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu skv. 2. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.“ Ákvæði þetta varðar aðeins heimild stefnda til að veita undanþágu frá árlegum greiðslum. Er ekki fallist á að í þessu máli séu skilyrði séu til þess að beita því með lögjöfnun um skuldbindingu Guðmundar Guðjónssonar. Komið er fram í málinu að stefndi hafnaði að leysa Guðmund undan ábyrgð hans með vísun til 7. gr. laga nr. 72/1982, en þar var kveðið svo á að ábyrgð sjálfskuldarábyrgðarmanns geti fallið niður, ef lánþegi setji aðra tryggingu fyrir lánum, sem stjórn stefnda meti fullnægjandi.

Þá heldur áfrýjandinn fram, að „uppsögn“ á ábyrgðinni 4. júlí 1994 hafi markað endalok greiðsluskyldu ábyrgðarmannsins. Engin viðhlítandi rök hafa komið fram til stuðnings þeirri málsástæðu og verður ekki á hana fallist. Sama á við um þá málástæðu að sjálfskuldarábyrgðin sé ógild samkvæmt reglum 31. eða 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1986.

Loks bendir áfrýjandinn Svanhildur á 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986, til stuðnings sýknukröfu sinni, en áfrýjandinn hefur ekki uppi lækkunarkröfu á grundvelli þess að ábyrgðarskuldbindingunni verði vikið til hliðar eða breytt með stoð í lagaákvæði þessu. Kveður hún hinn látna eiginmann sinn, sem hafi verið aldraður og farinn að heilsu, hafa eytt ævisparnaði sínum til að greiða stefnda hluta námslánsins. Hefur hún lagt fyrir Hæstarétt gögn um greiðslur úr lífeyrissjóði, svo og mánaðarlegar greiðslur, sem almannatryggingar greiddu honum sem ellilífeyri, tekjutryggingu og uppbót vegna sjúkrakostnaðar og umönnunar.

Í leyfi, sem hún fékk 2. mars 1998 til setu í óskiptu búi eftir maka sinn Guðmund, kemur fram að meðal eigna búsins eru íbúð í Reykjavík og sumarhús í Grímsnesi. Engin skattframtöl eða aðrar upplýsingar um tekjur liggja fyrir í málinu. Málsgögn veita ekki frekari vitneskju um eignir eða fjárhagsstöðu áfrýjanda Svanhildar en þá, er greinir í leyfinu frá 2. mars 1998. Ekki nýtur heldur við neinna gagna um getu áfrýjanda Pirshing til að greiða stefnda hina umdeildu skuld eða eftir atvikum framkröfu sjálfskuldarábyrgðarmanns.

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skal við mat eftir 1. mgr. líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika, sem síðar komu til. Við úrlausn máls þessa verður meðal annars að líta til þess að Guðmundur Guðjónsson tók að sér að annast töku námslána, sem veitt voru þáverandi tengdadóttur hans meðan hún dvaldist erlendis, þar sem hún var við nám ásamt eiginmanni sínum. Verður að miða við að umrædd námslán áfrýjanda Pirshing hafi í reynd verið í þágu beggja hjóna og eins verður að ætla að hún hafi notið góðs af námsláni þáverandi eiginmanns síns meðan þau bjuggu saman. Sú ástæða að lánþegi hjá stefnda sé ekki lengur í hjúskap með barni sjálfskuldarábyrgðarmanns veitir ekki efni til að telja ósanngjarnt í skilningi fyrrnefndrar 36. gr. laga nr. 7/1936 að ábyrgðarmaðurinn sé bundinn við ábyrgðaryfirlýsingu, sem var forsenda þess að stefndi veitti námslánin. Þegar á það er litið og með vísun til þess, sem áður segir um skort á upplýsingum um hagi aðalskuldara og áfrýjanda Svanhildar, þykir ekki nægilega komið fram, að hér séu rök til að beita heimild 36. gr. laga nr. 7/1936 til að víkja frá meginreglu íslensks réttar um skuldbindingargildi samninga.

Samkvæmt framansögðu og þar sem kröfu stefnda er ekki andmælt tölulega verður héraðsdómur staðfestur. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda Pirshing fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og segir í dómsorði.  

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Pirshing Guðmundsson, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur.

Héraðsdómur Reykjavíkur 4. febrúar 1997.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. þ. m., var höfðað með stefnum birtum 13. júní 1996.

Stefnandi er Lánasjóður íslenskra námsmanna, kt, 710169-0989, Laugavegi 77, Reykjavík.

Stefndu eru Pirshing Guðmundsson, kt. 260450-7869, Fljótaseli 22, Reykjavík, og Guðmundur Guðjónsson, kt. 190912-4349, Ásgarði 2, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði gert að greiða in solidum skuld að fjárhæð kr. 480.821 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 29.716 frá 01.03.1994 til 01.09.1994, þá af kr. 56.504 frá þeim degi til 01.03.1995, þá af kr. 86.593 frá þeim degi til 01.09.1995, þá af kr. 98.127 frá þeim degi til 20.11.1995, þá af kr. 480.821 til greiðsludags. Þá er og krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 01.03.1995.

Málskostnaðar er krafist að mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum.

Dómkröfur stefndu, Pirshing Guðmundsson, eru að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda að mati réttarins eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda, Guðmundar Guðjónssonar, eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu, en til vara að hann verði sýknaður að svo stöddu. Jafnframt er krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda hæfilegan málskostnað að mati dómsins.

Málsatvik.

Krafa stefnanda er tilkomin vegna námslána stefndu Pirshing Guðmundsson er hún fékk hjá stefnanda á árunum 1983-1984, skv. skuldabréfi, og tryggð eru með sjálfsskuldarábyrgð stefnda Guðmundar Guðjónssonar. Er samtals dómkrafa stefnanda kr. 480.821.- auk vaxta, og er ekki um tölulegan ágreining að ræða í málinu.

Sundurliðun kröfunnar:

Gjaldfallin afborgun þann 01.03.1994

kr. 29.716.-

Gjaldfallin afborgun þann 01.09.1994

kr. 26.788.-

Gjaldfallin afborgun þann 01.03.1995

kr. 30.089.-

Gjaldfallin afborgun þann 01.09.1995

kr. 11.534.-

Samtals

kr. 98.127.-

Gjaldfelldar eftirstöðvar

kr. 382.694.-

Samtals dómkrafa

kr. 480.821.-

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefnda Pirshing hafi tekið námslán hjá stefnanda og voru útgefin þrjú skuldabréf á hennar nafn á árunum 1983-1984 vegna lánanna. Að námi hennar loknu voru fjárhæðirnar sameinaðar og gefið út eitt skuldabréf númer S-870983. Vegna verulegra vanskila allt frá gjalddaga lánsins þann 01.03.1994 ákvað stjórn stefnanda þann 20.11.1995 að gjaldfella allt lánið skv. heimild í 11. gr. laga nr. 72/1982. Innheimtutilraunir af hálfu stefnanda höfðu engan árangur borið.

Stefnandi byggir kröfu sína á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og lögum nr. 72/1982, einkum 11. gr. Vaxtakröfur styðjast við reglur III. kafla laga nr. 25/1987, en krafa um málskostnað byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt styðst við lög nr. 50/1988.

Stefnda Pirshing Guðmundsson krefst sýknu í máli þessu, þar sem hún hafi aldrei skrifað undir nein skjöl eða skilríki um viðurkenningu á að hún skuldaði stefnanda nokkuð, og því síður nein gögn sem sanna að hún hafi tekið við þessum fjárhæðum. Hafi einhver námslán verið tekin á hennar nafni, hljóti það að vera vegna blekkinga fyrrverandi eiginmanns stefndu, Viðars Guðmundssonar. Stefnda hafi stundað nám í erfðalandbúnaðarfræði við háskólann í Edmonton í Albertafylki í Kanada er hún kynntist Viðari, sem var í námi við sama skóla. Giftu þau sig á árinu 1979. Árið 1983 hafi hún fengið íslenskan ríkisborgararétt. Samband hjónanna hafi verið gott, og stefnda treysti eiginmanni sínum og aldrei dottið í hug að hann myndi misnota trúgirni hennar og kunnáttuleysi í íslensku til að afla sér fjár með lántöku í hennar nafni. Hún hafi því skrifað undir eyðublað sem Viðar hafi beðið hana að undirrita einhvern tímann á árinu 1983, en það hafi verið útfyllt. Hafi stefnda ekki gert sér grein fyrir hvaða tilgangi undirskrift hennar þjónaði en haldið að það væri af einhverjum formlegum ástæðum. Þetta skjal hafi stefnda svo ekki séð fyrr en málarekstur þessi hófst, og sá hún þá að Viðar hafði fyllt það út. Viðar hafði aldrei sagt stefndu að það væri hún sjálf sem væri að taka lán, enda hefði hún aldrei samþykkt það, enda enga þörf á því þar sem hún hafði ríkuleg peningaráð. Hins vegar hefði hann margsinnis sagt henni að lán sem hann hefði tekið og væri líka á hennar nafni myndi hann sjálfur greiða og kæmi þetta fram í bréfum er hann sendi henni til Kanada.

Á árinu 1987 hafi Viðar sótt um skilnað að borði og sæng án nokkurrar vitundar stefndu, en hann var þá kominn í nám til Stuttgart, en hún var enn við nám í Kanada.

Í ágúst 1988 flutti stefnda ein til Íslands, fékk vinnu og hóf nám í íslensku. Þann 5. sept. 1988 hafi stefnda mætti í skiptarétti Reykjavíkur, en annað geti hún ekki staðfest þar sem hún hafi ekki skilið hvað fór þar fram, þrátt fyrir að bókað hafi verið að hún "skilji íslensku" án hennar vitundar. Ekki hafi verið minnst á neitt námslán fyrir skiptaréttinum. Telur stefnda sig hafa orðið fyrir miklum skaða vegna þessa hjónabands, og nauðsynlegt sé að benda á hve sviksamlega Viðar Guðmundsson hafi reynst henni. Þótt honum hafi tekist að blekkja stefnanda til þess að veita sér lán út á nafn stefndu, skapi það engan rétt fyrir stefnanda þar sem stefnda hefur ekki á nokkurn hátt skuldbundið sig sjálf gagnvart stefnanda.

Sýknukrafa stefnda, Guðmundar Guðjónssonar, styðst við þau rök að á þeim tíma er hann skrifaði undir skuldabréfin til stefnanda, hafi heilsu hans verið farið mjög að hraka vegna parkinsons-sjúkdóms og hefði það ekki átt að dyljast starfsmönnum stefnanda. Hann sé nú alvarlega haldinn af völdum parkinsons-sjúkdómsins og njóti umönnunar konu sinnar, sem einnig annist son þeirra sem er mongólíti. Hafi hún af þessum sökum ekki getað unnið úti og eru fjármunir fjölskyldunnar litlir. Stefndi hafi greitt upp vanskilin af láninu á árunum 1989-1993, samtals kr. 196.503 en þá var ævisparnaður hans uppurinn. Þau hjónin eigi nú aðeins litla íbúð, sem sé forsenda þess að fjölskyldan geti haldist saman. Stefndi hafi tekið ábyrgð þessa á sig vegna tengsla sinna við stefndu, Pirshing, en hún sé fyrrverandi tengdadóttir hans. Vegna breyttra aðstæðna hafi hann sagt upp ábyrgð sinni gagnvart stefnanda, en var tilkynnt sú ákvörðun stjórnar stefnanda að halda greiðsluskyldu hans, þar sem stjórnin hefði að eigin sögn ekki heimild samkvæmt lögum til eftirgjafar slíkrar ábyrgðar. Telur stefndi að staða hans eigi ekki að vera verri en staða stefndu, Pirshing, gagnvart stefnanda skv. þeirri meginreglu að sjálfskuldarábyrgðarmaður eigi í öllu tilliti að vera eins settur og skuldarinn sjálfur gagnvart kröfuhafa, en væru aðstæður hennar eins og þær eru hjá honum, væri greiðsluskylda hennar fallin niður skv. þeim lögum og reglum sem stefnandi starfar eftir. Því geti greiðsluskylda stefnda ekki enn verið fyrir hendi, hafi hún þá nokkurn tímann verið það. Styðjist þetta einnig við þá meginreglu að skriflegir samningar og ákvæði þeirra marki grundvöll samskipta samningsaðila, annað ekki.

Stefndi telur ábyrgð sína hafa verið ógilda frá upphafi þar sem starfsmenn stefnanda hafi ekki fullnægt upplýsingaskyldu sinni gagnvart stefnda um áhættu þá sem hann var að taka og hvað ábyrgð þessi þýddi fyrir hann. Hafi þetta verið sérstaklega mikilvægt þar sem um aldraðan, veikan mann hafi verið að ræða sem ekki hafi fylgst eins vel með þjóðfélagsþróuninni og því sem er að gerast í námslánakerfinu. Á þessum tíma hafi verið nýbúið að gera stórfelldar breytingar á endurgreiðslum námslána og hafi það aukið skyldu stefnanda til upplýsinga. Einnig hafi aldur og veikindi stefnda átt að gefa starfsmönnum stefnanda tilefni til frekari rannsókna á aðstæðum hans, sem hefði getað leitt í ljós að vafasamt gæti verið að taka ábyrgð hans góða og gilda. 

Verði ekki talið að ábyrgð stefnda hafi verið ógild frá upphafi, telur stefndi að ábyrgð hans hafi orðið ógild er hann var búinn að eyða öllu sínu nema íbúðinni til greiðslu afborgana af námsláni stefndu Pirshing, og vísar þar til heiðarleika og sanngirni auk aðstæðna sinna.

Telur stefndi þessi rök sín styðjast við almenna reglu stjórnsýsluréttarins um ríka leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu stjórnvalda, sérstaklega er stjórnvaldi má vera ljóst að hætta er á misskilningi hjá viðkomandi borgara. Regla þessi sé nú lögfest sbr. 7. gr. laga 37/1993. Jafnframt styðjist þau við almenna reglu fjármunaréttarins um gagnkvæmt tillit samningsaðila, upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu þeirra gagnvart hvor öðrum, nú lögfest með lögum 11/1986, sbr. ákvæði 36. gr. laga 7/1936. Ennfremur er vísað til 33. gr. sömu laga. Einnig vill stefndi vísa til þeirrar þróunar laga sem stefnandi starfar eftir, en samkvæmt þeim urðu námslán sífellt þyngri baggi að bera, sbr. lög 6/1967, lög 56/1976 og lög 72/1982.

Stefndi vísar að lokum til þess að hann hafi löglega sagt upp ábyrgð sinni með bréfi þann 4. júlí 1994 vegna þeirra atvika sem áður hafa verið talin, og vísar til almennra reglna um ábyrgðir auk þeirra lagaraka sem reifuð hafa verið hér á undan.

Stefndu Pershing Guðmundsson og Guðmundur Guðjónsson hafa gefið aðilaskýrslur fyrir dóminum. Þá hafa komið fyrir dóminn Lárus Jónsson, framkvæmdastjóri stefnanda, Gísli Fannberg, deildarstjóri hjá stefnanda og Guðjón Viðar Valdimarsson, fyrrum fjármálastjóri stefnanda.

Forsendur og niðurstaða.

Með nafnritun sinni á umsóknareyðublað til stefnanda, dags. 4. janúar 1980, sótti stefnda, Pirshing Guðmundsson, um lán hjá stefnanda vegna náms í erfðafræði í Kanada. Stefnda var þá gift Viðari Guðmundssyni sem stundaði nám í eðlisfræði á sama stað. Á umsóknareyðublaði þessu var faðir maka veitt umboð til að annast fyrir hönd hennar lántöku samkvæmt umsókninni og undirrita fyrir hennar hönd skuldabréf til tryggingar láninu. Vottur var eiginmaður stefndu. Þar sem stefnda var ekki íslenskur ríkisborgari var umsókn þessari hafnað en samkvæmt áritun á eyðublaðið samþykkt að taka tillit til hennar í láni maka. Umsókn um námslán stefndu var ítrekuð á umsóknareyðublaði til stefnanda, dags. 7. maí 1983, sem stefnda undirritaði. Umsóknareyðublöð þessi bera það með sér að þau eru útfyllt af öðrum en stefndu. Hins vegar hefur stefnda hér fyrir réttinum kannast við nafnritun sína á eyðublöð þessi en telur að þau hafi þá verið auð.

Á árunum 1983 og 1984 undirritaði stefndi, Guðmundur Guðjónsson, þrjú skuldabréf vegna námslána til stefndu, Pirshing Guðmundsson. Stofnaður var viðskiptareikningur á nafni stefndu í Landsbanka Íslands þann 3. nóvember 1983 til að leggja inn á greiðslur til útborgunar.

Þann 24. mars 1988 óskaði eiginmaður stefndu eftir skilnaði að borði og sæng hjá Borgardómaranum í Reykjavík. Við fyrirtekt málsins var lagt fram m.a. yfirlit mannsins yfir fjárhagsstöðu hjónanna ásamt tillögu að skiptum á eignum búsins. Þar kom m.a. fram upptalning þeirra muna sem hvort hjóna fyrir sig hélt af eignum. Þá var tilgreind upphæð námsskulda hvors hjóna fyrir sig við stefnanda. Maðurinn gerir þá tillögu við skiptin að hvort fyrir sig héldi núverandi eignum en bauðst að auki „til að greiða af námslánum Pirshing” eins og þar stendur.

Málið var tekið fyrir í skiptarétti Reykjavíkur þann 5. september 1990. Þar er bókað að stefndu hafi verið kynnt skjöl málsins og að henni hafi verið gerð grein fyrir réttarreglum sem um skipti á búum hjóna gilda. Hún skilji íslensku og geri sér grein fyrir því sem felst í beiðni um skiptameðferð. Þar er bókað að stefnda geri ekki neinar kröfur á hendur eiginmanni sínum. Þann 18. október 1990 var veittur skilnaður að borði og sæng milli hjónanna og þann 23. maí 1992 var hjónunum veitt leyfi til lögskilnaðar allt á grundvelli samkomulags um skilnaðarkjör.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er ekki unnt að fallast á varnir stefndu þess efnis að hún hafi ekki skrifað undir nein skjöl eða skilríki um skuld til stefnanda eða að hún hafi ekki tekið við umstefndum fjárhæðum. Telst því stefnda með nafnritun sinni á lánsumsókn til stefnanda hafa stofnað til fjárskuldbindinga þeirra sem hér um ræðir. Aðrar varnir stefndu svo sem um blekkingar fyrrverandi eiginmanns síns og vanefndir hans á skilnaðarskilmálum eru ekki hér til úrlausnar. Ber því að fallast á kröfur stefnanda í máli þessu gagnvart stefndu, Pirshing Guðmundsson, en ekki er deilt um fjárhæðir.

Þegar námslán þau sem hér um ræðir voru veitt voru í gildi lög nr. 72/1982 um Lánasjóð íslenskra námsmanna um námslán og námsstyrki. Samkvæmt reglugerð nr. 578/1992 sem sett var skv. 16. gr. þeirra laga segir í 27. gr. að lántakandi skuli leggja fram viðurkenningu eins manns sem taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt veðtryggingu þess. Sjóðstjórn ákveði í reglum Lánasjóðs hvaða skilyrðum ábyrgðarmenn skuli fullnægja.

Stefndi, Guðmundur Guðjónsson, ritaði undir þau þrjú skuldabréf sem hér um ræðir sem umboðsmaður stefndu Pirshing. Þar að auki tókst hann á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu lánsins. Á framhlið umræddra skuldabréfa er gerð grein fyrir endurgreiðslureglum stefnanda á láni þessu.

Þegar þetta átti sér stað var stefndi Guðmundur orðinn meira en 70 ára. Ekkert bendir til þess aldursins vegna að honum hafi ekki mátt vera ljós sú áhætta sem því fylgdi að gangast undir ábyrgð þessa. Hvað sem líður skyldu starfsmanna stefnanda á þessum tíma til að upplýsa hann um skyldur og áhættu vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar þá ber að líta til þess að sú upplýsingaskylda hvíldi einnig þeim aðila sem fékk stefnda til að gerðist ábyrgðarmaður að skuldinni. Af hálfu stefnda hefur ekki verið á neinn hátt sýnt fram á að upplýsingaskylda stefnanda hafi verið vanrækt eða að upplýsingar stefnda hefðu leitt til þess að stefndi hefði ekki gerst ábyrgðarmaður að láninu. Er ekki unnt að fallast á sýknukröfu stefnda af þeim sökum.

Í málinu kemur ekkert fram um að heilsa stefnda hafi verið orðin á þessum tíma svo augljóslega slæm að starfsmönnum stefnanda hafi borið að hafna því að hann gerðist ábyrðarmaður að skuldinni. Þá er ekki unnt að fallast á með stefnda að sjúkdómur hans hafi komið í veg fyrir að hann gæti aflað sér upplýsinga um endurgreiðslur námslána og áhættutöku hans í því sambandi.

Stefndi greiddi af umræddu námsláni á tímabilinu 4. ágúst 1989 til 6. september 1993. Byggir hann sýknukröfur sínar m.a. á versnandi fjárhagsstöðu sinni og erfiðum heimilisaðstæðum. Ekki eru lagaskilyrði til að fella niður ábyrgð stefnda með dómi við slíkar aðstæður.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið ber að taka kröfur stefnanda í málinu til greina.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Stefndu, Pirshing Guðmundsson, var með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 17. janúar 1997, veitt gjafsókn í máli þessu. Gjafsóknarlaun til talsmanns stefndu, Gunnlaugs Þórðarsonar hrl., kr. 150.000, þar með talinn virðisaukaskattur af málflutningsþóknun, greiðist úr ríkissjóði.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndu, Pirshing Guðmundsson og Guðmundur Guðjónsson, greiði stefnanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, in solidum skuld kr. 480.821 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 29.716 frá 01.03.1994 til 01.09.1994, þá af kr. 56.504 frá þeim degi til 01.03.1995, þá af kr. 86.593 frá þeim degi til 01.09.1995, þá af kr. 98.127 frá þeim degi til 20.11.1995, þá af kr. 480.821 til greiðsludags. Dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 01.03.1995.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarlaun til talsmanns stefndu, Gunnlaugs Þórðarsonar hrl., kr. 150.000, þar með talinn virðisaukaskattur af málflutningsþóknun