Hæstiréttur íslands
Mál nr. 622/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Föstudaginn 30. október 2009. |
|
Nr. 622/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100 gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2009, þar sem varnaraðila var áfram bönnuð för frá Íslandi, þar til dómur fellur í máli hennar, þó eigi lengur en til mánudagsins 7. desember 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili er sökuð um brot sem geta varðað allt að átta ára fangelsi. Sakamálið á hendur varnaraðila var tekið til dóms 26. október 2009. Samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 skal að jafnaði kveða upp dóm í munnlega fluttu máli innan fjögurra vikna frá dómtöku. Þá kveður 2. mgr. 100. gr. laganna svo á að farbann skuli ekki vara lengur en þörf krefji. Um almenn skilyrði farbanns er í 1. mgr. sömu greinar vísað til 1. og. 2. mgr. 95. gr. laganna þar sem kveðið er á um skilyrði gæsluvarðhalds.
Fallist verður á með héraðsdómi að með vísan til b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., laga nr. 88/2008 séu uppfyllt skilyrði fyrir framlengingu á farbanni varnaraðila þar til dómur gengur í máli hennar. Með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða verður farbanni markaður fjögurra vikna tími frá dómtöku fyrrgreinds sakamáls á hendur varnaraðila og ákveðið eins og í dómsorði greinir.
Það athugist að greinargerðir málsaðila bárust Hæstarétti 28. október 2009.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur fellur í máli hennar, en þó ekki lengur en til 23. nóvember 2009 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2009.
Ríkissaksóknari hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. og heimilisfang [...], verði gert að sæta farbanni áfram þar til dómur fellur í máli hennar þó ekki lengur en til mánudagsins 7. desember 2009, kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara segir að með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 10. ágúst sl., hafi verið höfðað mál á hendur ákærðu fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa á árinu 2009 staðið að innflutningi á samtals rúmum 400 g af kókaíni sem aðrir hafi verið fengir til að flytja til landsins. Þá sé ákærðu gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að hafa bitið í bak lögreglumanns. Í greinargerðinni segir að brotin séu heimfærð til 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíknefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og til 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 101/1976 og lög nr. 25/2007. Þann 27. ágúst sl. hafi mál nr. S-676/2009 verið þingfest í héraðsdómi Reykjaness og þar hafi framangreind ákæra ríkissaksóknara frá 10. ágúst sl. verið lögð fram. Við þingfestinguna hafi ákærða neitað að hafa framið fíkniefnabrotin en játað brotið gegn valdstjórninni. Hinn 7. september hafi farið fram skýrslutaka af vitnunum A og B.
Hinn 31. júlí sl. hafi ríkissaksóknara borist rannsóknargögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna ofangreindra brota ákærðu, sem og ætlaðra brota hennar gegn 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Í greinargerðinni segir að ákærða sé m.a. grunuð um milligöngu á vændi en nokkrar konur hafi borið að þær hafi starfað við vændi á vegum ákærðu og að hún hafi fengið hluta þóknunar þeirra. Að mati ríkissaksóknara hafi sá þáttur málsins þarfnast frekari rannsóknar og því hafi hann verið endursendur lögreglu. Við þingfestingu máls nr. S-676/2009 hafi ákærða óskað eftir því að það mál sem til rannsóknar væri á hendur henni yrði sameinað máli hennar fyrir dómi og málin tvö yrðu rekinn sem eitt mál. Rannsóknargögn málsins hafi síðan borist ríkissaksóknara aftur og í framhaldi af því hafi ríkissaksóknari gefið út ákæru þann 29. september sl. þar sem ákærða sé ákærð fyrir hótanir, ólögmæta nauðung, mansal og fyrir að hafa staðið að vændisstarfsemi. Þar séu þessi brot talin varða við 206. gr., 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a., 225. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákæran hafi verið þingfest þann 8. október sl. (sbr. mál dómsins nr. S-798/2009) og hafi ákærða neitað sök. Málið hafi verið sameinað máli nr. S-676/2009 og málin verði eftirleiðis rekin saman undir því málsnúmeri. Aðalmeðferð málsins hafi hafist hinn 20. október sl. þar sem skýrslutökur af ákærðu og vitnum hafi farið fram, en aðalmeðferðinni hafi síðan verið frestað til dagsins í dag þar sem ekki hafi tekist að boða þrjú vitni til aðalmeðferðarinnar. Málið hafi verið dómtekið að lokinni aðalmeðferð fyrr í dag.
Í greinargerðinni kemur fram að ákærða hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 30. apríl til 12. maí sl., en sætt farbanni frá þeim tíma. Vísað er til úrskurða héraðsdóms Reykjaness í málum nr. R-376 og 414/2009 og dóma Hæstaréttar í málum nr. 242/2009, 388/2009, 460/2009 og 514/2009 þar sem fallist hafi verið á að þörf væri á að tryggja nærveru ákærðu hér á landi í þágu málsins með farbanni.
Loks segir í greinargerðinni að gefin hafi verið út ákæra á hendur X fyrir fíkniefnalagabrot og brot gegn valdstjórninni. Ákærða sé íslenskur ríkisborgari en hafi takmörkuð tengsl við landið. Fjölskylda hennar búi erlendis og sæti kærasti hennar nú gæsluvarðhaldi í Amsterdam. Nauðsynlegt sé að tryggja nærveru ákærðu hér á landi til að hún geti ekki komið sér undan saksókn og til að ljúka megi meðferð málanna fyrir dómstólum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess beiðst að ofangreind krafa nái fram að ganga.
Samkvæmt ákæru er ákærða sökuð um brot sem allt að 6 ára fangelsisrefsing er lögð við. Ákærða hefur takmörkuð tengsl við landið og er fallist á að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru hennar meðan máli hennar er ekki lokið, enda er skilyrðum b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 fullnægt til þess að henni verði bönnuð för frá landinu. Verður því fallist á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er fram sett.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákærðu, X, er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur fellur í máli hennar, en þó eigi lengur en til mánudagsins 7. desember 2009 kl. 16.00.