Hæstiréttur íslands

Mál nr. 482/2014

Vörður tryggingar hf. og A (Björn L. Bergsson hrl.)
gegn
B (Eva Hrönn Jónsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorkubætur
  • Gjafsókn


B hlaut líkamstjón þegar ekið var aftan á bifreið sem hann ók árið 2011. Vátryggjandi ökutækisins, V hf., greiddi honum bætur og var bótafjárhæð vegna varanlegrar örorku hans reist á lágmarkstekjuviðmiði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. B höfðaði mál á hendur félaginu og ökumanni bifreiðarinnar til heimtu frekari skaðabóta þar sem hann taldi að ákvarða bæri árslaun sín á grundvelli 2. mgr. sömu greinar. Byggði B á því að aðstæður hans síðustu þrjú árin fyrir slysið hefðu verið óvenjulegar þar sem hann hefði ýmist verið í námi eða fæðingarorlofi. Atvinnuþátttaka á árunum á undan hefði verið mun meiri og gæfi réttari mynd af framtíðartekjum hans. Með vísan til atvinnusögu B og tekjuöflunar hans á árunum 1991 til 2007 var fallist á það með B að ákvarða ætti varanlega örorku hans á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Var því talið rétt að miða útreikning bóta vegna varanlegrar örorku við þær tekjur sem B hefði haft á þeim hluta viðmiðunartímabilsins sem hann var í vinnu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2014. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að áfrýjendur verði dæmdir til að greiða sér óskipt aðallega 3.155.727 krónur, til vara 3.098.631 krónu en að því frágengnu 1.933.881 krónu með 4,5% ársvöxtum frá 9. september 2011 til 19. október 2012 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

                                                                I

Eins og nánar greinir í héraðsdómi varð stefndi fyrir líkamstjóni í umferðarslysi 9. mars 2011. Málsaðilar deila hvorki um málsatvik né bótaábyrgð heldur snýst ágreiningur þeirra einungis um það við hvað skuli miða fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku. Áfrýjendur telja að miða skuli við 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og hafa þegar greitt stefnda bætur samkvæmt því, en stefndi telur að árslaun skuli metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun til ákvörðunar bóta teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, og í 3. mgr. greinarinnar er kveðið á um lágmarkstekjuviðmiðun. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skal hins vegar meta árslaun sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

Stefndi var rúmlega 35 ára þegar hann varð fyrir slysinu í mars 2011. Hann hafði verið starfandi á vinnumarkaðinum frá 16 ára aldri þar til hann byrjaði í námi árið 2009. Mestan hluta starfsævinnar var hann til sjós eða frá 1997 til 2007. Þá ákvað stefndi vegna breyttra heimilisaðstæðna að fara í land. Á árinu 2008 var hann í fæðingarorlofi og vann við sölumennsku í fimm mánuði, en var sagt upp störfum í nóvember 2008. Stefndi hefur verið við nám í Háskólanum […] frá árinu 2009, fyrst í frumgreinadeild en síðan í […] og stefnir á að útskrifast úr meistaranámi í því fagi nú í vor. Hann var á annarri önn í […] er slysið varð.

                                                                II

Eins og að framan greinir, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, skulu árslaun til ákvörðunar bóta teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola síðustu þrjú almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð. Viðmiðunarárin í máli því sem hér um ræðir eru árin 2008, 2009 og 2010. Árið 2008 vann stefndi aðeins í fimm mánuði og síðari tvö árin var hann við nám. Áfrýjendur gerðu upp bætur til stefnda á þessum grundvelli og var miðað við lágmarkslaun, sbr. 3. mgr. 7. gr., þar sem tekjur stefnda á viðmiðunartímabilinu voru lægri en þeim nam.

Samkvæmt gögnum málsins var atvinnuþátttaka stefnda stöðug frá því að hann hóf störf 1991 og þar til hann fór í fæðingarorlof á árinu 2008 og hóf nám á árinu 2009. Hann virðist alltaf hafa verið í fullri vinnu og er ekki ástæða til að ætla annað en að svo muni verða áfram eftir að hann lýkur námi. Flest árin var hann með mun hærri tekjur en lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga segir til um. Er því fallist á það með stefnda að aðstæður hans hafi verið óvenjulegar á viðmiðunartímabilinu, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, og að árslaun hans á því tímabili séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans.

                                                                III

Stefndi krefst þess aðallega að við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku verði miðað við þær tekjur sem hann hafði á þeim hluta viðmiðunarlaunatímabilsins sem hann var í vinnu. Eins og að framan greinir hafði hann launatekjur í fimm mánuði á árinu 2008, en aðra mánuði það ár hafði hann tekjur frá fæðingarorlofssjóði og Vinnumálastofnun. Bótakrafa stefnda samkvæmt þessu er 6.584.452 krónur. Áfrýjendur hafa þegar greitt honum 2.199.841 krónu og telur stefndi því óbætt tjón vegna varanlegrar örorku 4.384.611 krónur, sem er stefnufjárhæð máls þessa. Varakröfur stefnda eru miðaðar við í fyrsta lagi meðaltalstekjur fullvinnandi launamanna á almennum vinnumarkaði á árinu fyrir slys, í öðru lagi við meðallaun iðnaðarmanna á árinu 2010, og loks við meðallaun verkamanna á því ári. Samkvæmt yfirliti sem fyrir liggur um tekjur stefnda frá árinu 1991 til 2007 hafði hann að meðaltali 3.600.000 króna hærri árslaun en lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eða útreiknaðar meðaltekjur samkvæmt varakröfum hans. Þegar litið er til atvinnusögu stefnda og tekjuöflunar hans á því tímabili verður ekki talið að tjón hans sé að fullu bætt með þeim bótum sem hann hefur þegar fengið greiddar. Telur dómurinn að tekjur þær sem stefndi miðar við í aðalkröfu sinni gefi réttari mynd af framtíðartekjum stefnda en lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eða þau meðallaun sem miðað er við í varakröfum. Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur.

Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti í ríkissjóð eins og segir í dómsorði.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Vörður tryggingar hf. og A, greiði 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2014.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 14. apríl sl., er höfðað af B, […], á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík og A, […], með stefnu birtri 10. október sl.

Af hálfu stefnanda er þess aðallega krafist að stefndu verði dæmdir sameiginlega (in solidum) til að greiða stefnanda 4.384.611 kr., til vara 3.155.727 kr., til þrautavara 3.098.631 kr. en til þrautaþrautavara 1.933.881 kr. Í öllum tilvikum er þess krafist að hin tildæmda fjárhæð beri 4,50% vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 9. september 2011 til 19. október 2012 og dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefndu krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

II

Málavextir

Málavextir eru þeir að stefnandi varð fyrir tjóni í umferðarslysi 9. mars 2011 er bifreið í eigu stefnda A var ekið aftan á bifreið stefnanda. Stefndi Vörður tryggingar hf. viðurkenndi bótaskyldu gagnvart stefnanda en bifreið stefnda A var tryggð hjá félaginu. Ágreiningur er hins vegar um fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku stefnanda sem var metin 5% vegna slyssins. Hefur tryggingafélagið þegar greitt stefnanda bætur á grundvelli 1., sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur rétt að árslaun skuli metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna og tók því við greiðslunni með fyrirvara.

III

Málsástæður stefnanda

                Af hálfu stefnanda er á því byggt að skilyrði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 séu uppfyllt þar sem óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi í málinu og  ætla megi að annar mælikvarði en hið stefnda tryggingafélag hafi miðað uppgjör sitt við, sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

Til stuðnings því að um óvenjulegar aðstæður sé að ræða vísar stefnandi til þess að hann hafi verið á sinni annarri önn í […] við Háskólann […] þegar slysið átti sér stað í mars 2011. Þar á undan hafi hann lokið námi við frumgreinadeild sama skóla. Áður en hann hafi sölsað um og hafið nám hafi hann verið til sjós á árunum 1996-2009. Þess á milli hafi hann unnið sem byggingaverkamaður og einnig hjá pípulagningameistara en verið í fæðingarorlofi og atvinnulaus í einn mánuð. Á árinu 2008 hafi hann annars vegar haft vegar tekjur frá LÍSH ehf. og hins vegar frá fæðingarorlofssjóði. Á árinu 2009 hafi hann hafið nám við frumgreinadeildina og lokið því námi á þremur önnum. Hann hafi hafið […] sitt haustið 2010. Einsýnt sé að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar árin fyrir slysið þar sem hann hafi haft langa og sterka atvinnusögu fyrir slysið, fram til ársins 2008 þegar hann hafi farið í fæðingarorlof og í kjölfarið í nám.

Aðalkrafa stefnanda byggist á því að tekið verði mið af tekjum hans árið 2008. Stefnandi hafi unnið í janúar, ágúst, september, október og nóvember það ár fyrir LÍSH ehf. en aðra mánuði hafi hann haft tekjur frá Fæðingarorlofssjóði og síðan frá Vinnumálastofnun í desember. Í ljósi vinnusögu stefnanda sem hafi unnið alla sína ævi, utan þess stutta tíma sem hann hafi verið í námi á viðmiðunarárunum 2009 og 2010, sé sanngjarnt að miðað verði við tekjur hans á því tímabili viðmiðunaráranna sem hann hafi verið í vinnu, enda líklegt að tekjur þess tíma gefi réttari mynd af hugsanlegum framtíðartekjum stefnanda, en lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Þá hafi hann haft talsverðar tekjur árin áður en hann hafi hafið námið. Þær tekjur séu ekki tilviljunum háðar heldur byggist á því að stefnandi hafði öðlast töluverða reynslu á vinnumarkaði og því eðlilegt að laun hans hækki eftir því sem árin líði. Stefnandi hafi hafið nám með það í huga að bæta enn frekar við þekkingar- og reynslusvið sitt og að hækka tekjur sínar. Allar líkur séu á að hann hefði haft í það minnsta sömu tekjur í framtíðinni og hann hafði áður en hann lenti í slysinu.            

Varakrafa stefnanda byggist á því að miðað verði við meðaltalstekjur fullvinnandi launamanna á almennum vinnumarkaði á almanaksárinu fyrir slysið, þ.e. 2010. Þær gefi hvað réttasta mynd af þeim tekjum sem stefnandi hefði haft í framtíðinni, hefði hann haldið fullri starfsorku.

                Þrautavarakrafa stefnanda byggist á því að miðað verði við meðallaun iðnaðarmanna á árinu 2010. Í ljósi þess að stefnandi hafi starfaði sem byggingaverkamaður og einnig fyrir pípulagningameistara telur hann að sanngjarnt sé að miða við meðaltekjur iðnaðarmanna við mat á líklegum framtíðartekjum sínum.

Þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggist á því að miðað skuli við meðallaun verkamanna á árinu 2010. Í ljósi þess að stefnandi hafi sögu um fulla atvinnuþátttöku frá því hann hafi lokið grunnskólanámi, utan þess tíma sem hann hafi verið í fæðingarorlofi eða í námi, ásamt því að hann hafi unnið við ýmis störf, meðal annars verkamannastörf, telji hann að hið minnsta sé sanngjarnt að miða við meðaltekjur verkamanna við mat á líklegum framtíðartekjum sínum.

Stefnandi vísar um lagarök til meginreglna skaðabótaréttarins og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 5. – 7. og 16. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga og ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, einkum XIII. kafla. Varðandi kröfu um dráttarvexti vísast til laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, einkum III. kafla. Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefndu

                Af hálfu stefndu er á því byggt að stefnanda hafi verið bætt tjón sitt að fullu. Því sé mótmælt að fyrir hendi séu óvenjulega aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Það að vera í námi séu ekki óvenjulegar aðstæður. Það að hefja langskólanám ekki strax þegar unglingsárum ljúki, breyti fimm ára háskólanámi ekki í óvenjulegar aðstæður. Verði því að byggja uppgjörið á 3. mgr. 7. gr., sbr. 8. gr. sömu laga líkt og stefndi hafi gert. Lágmarkstekjuviðmið hafi beinlínis verið lögfest með lögum nr. 37/1999 til að bregðast við því að bæta skyldi þeim hópum sem féllu undir 8. gr. laga nr. 50/1993, varanlega örorku á grundvelli fjárhagslegs mats í stað læknisfræðilegs mats á varanlegum miska eins og við hafi verið miðað við setningu skaðabótalaganna í öndverðu 1993.

Hvað varði aðalkröfu stefnanda þá telja stefndu að ekki sé unnt að miða við þá mánuði sem stefnandi vilji horfa til á árinu 2008. Um sé að ræða fimm mánaða tímabil er stefnandi hafi starfað hjá nefndu fyrirtæki og af gögnum megi ráða að þetta hafi verið eina tímabilið sem stefnandi hafi starfaði hjá fyrirtækinu. Geti þessi viðmiðun því ekki gefið raunsanna mynd af tekjum stefnanda.

                Hvað varðar varakröfu stefnanda þá vísa stefndu til þess að stefnandi hafi ekki verið á vinnumarkaði þegar hann hafi slasast og hafði ekki verið það um tveggja ára skeið en hafi samt átt langt í land með að ljúka námi. Því séu ekki forsendur til að beita meðaltalsviðmiðum, ekkert frekar en að rök standi til að horfa á laun stefnanda sjálfs fyrr á ævinni. Enn síður séu forsendur til að byggja á meðallaunum allra landsmanna sem varakrafa stefnanda tekur mið af. Markmið skaðabótalaga sé að bæta tjónþolum, eins og stefnanda, einstaklingsbundið tjón þeirra, meðal annars vegna varanlegrar örorku. Haldbær rök þurfi til að byggja á meðallaunum svo óafmarkaðs hóps eins og allra landsmanna án tillits til aldurs, stéttar eða stöðu.

                Hvað varðar þrautavarakröfu stefnanda þá vísa stefndu til þess að engar forsendur séu til að leggja meðaltal launa iðnaðarmanna til grundvallar í máli þessu. Óumdeilt sé að stefnandi sé ekki iðnmenntaður og hafi aldrei starfað sem iðnaðarmaður. Það að hafa starfað sem verkamaður hjá iðnaðarmönnum réttlæti ekki slíkt viðmið.

                Hvað varðar þrautaþrautavarakröfu stefnanda þá vísa stefndu til þess að á kröfu þessari gæti ónákvæmni í þeim efnum að gerð sé krafa um að lögð verði til grundvallar meðallaun verkamanna en töluleg framsetning kröfunnar byggi hins vegar á meðallaunum verkakarla. Af hálfu stefndu er á því byggt að leggja verði málsástæður stefnanda um meðallaun verkamanna en ekki verkakarla til grundvallar í þessum efnum. Sé það í samræmi við nútímaviðhorf að kynbundinn launamunur sé ekki hafður í hávegum. Að mati stefnanda væri þó réttast að horfa til miðgildis launa fremur en meðaltals. Leiði framangreint til lækkunar þrautaþrautavarakröfu stefnanda.

Verði á það fallist með stefnanda að hann teljist eiga óbætta kröfu byggja stefndu á því að sú krafa geti fyrst borið dráttarvexti frá þingfestingardegi enda ætti að vera óumdeilt að stefndu hafi hafnað því í árslok 2012 að horfa bæri til tekna stefnanda sjálfs á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Annarri kröfugerð hafi ekki verið hreyft fyrr en með málsókn þessari. Séu því ekki forsendur til að dæma dráttarvexti vegna þessa árs sem liðið er og meðan stefnandi hafi haldið að sér höndum.

Krafa stefndu um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um hvaða tekjuviðmið skuli leggja til grundvallar við ákvörðun bóta, vegna varanlegrar örorku, til stefnanda úr hendi stefndu vegna umferðarslyss sem stefnandi varð fyrir 9. mars 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 gildir sú meginregla við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku að lagðar verði til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs, þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag sem tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Með þessum mælikvarða er í senn tekið tillit til þess hvernig tjónþoli hefur í reynd nýtt getu sína til að sinna launuðum störfum um tiltekinn tíma fyrir tjónsatburð og hverra tekna hann hefur aflað á þann hátt. Hefur stefndi Vörður hf. gert upp bætur til stefnanda á þessum grundvelli, þó þannig að miðað var við lágmarkslaun, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna, þar sem tekjur stefnanda á viðmiðunartímabilinu voru lægri en þeim nam. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna er heimilt að víkja frá viðmiðum 1. mgr. 7. gr. ef fyrir hendi eru óvenjulegar aðstæður á viðmiðunartímabilinu sem leiða til þess að árslaun tjónþola á því séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur. Enn fremur verður að liggja fyrir að annar mælikvarði sé réttari á framtíðartekjur tjónþola. Sönnunarbyrði um að uppfyllt séu skilyrði til að víkja frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 um tekjuviðmið, hvílir á stefnanda.

Stefnandi var rúmlega 35 ára gamall er hann varð fyrir slysinu í mars 2011. Hann hafði að mestu leyti verið starfandi á vinnumarkaðinum frá því að hann lauk grunnskóla þar til hann hóf nám í Háskólanum […] á árinu 2009, fyrst við frumgreinadeild en síðan […]. Hann var á annarri önn sinni í […] er slysið varð. Hefur hann nú lokið BA prófi og er í meistaranámi í sama fagi. Mestan hluta starfsævi sinnar hafði hann verið til sjós, þ.e. á árunum 1996-2009. Enn fremur hafði hann unnið hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Emmessís, Mjólkursamsölunni og sem verslunarmaður, byggingaverkamaður og aðstoðarmaður pípulagningameistara. Á viðmiðunartímabilinu (2008-2010) var hann í fæðingarorlofi, vann hjá fyrirtækinu LÍSH ehf., var atvinnulaus í einn mánuð og í framangreindu námi. Einu launatekjur hans á viðmiðunartímabilinu voru frá nefndu fyrirtæki en þar starfaði hann í fimm mánuði við að selja húsgögn á árinu 2008. Í lok þess árs var honum sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Eftir það var hann á atvinnuleysisbótum í skamman tíma og hóf síðan nám sitt. Samkvæmt framangreindu liggur því fyrir að atvinnuþátttaka stefnanda, frá því að starfsævi hans hófst þar til hann fór í fæðingarorlof á árinu 2008 og hóf nám nám á árinu 2009, var stöðug og virðist hann ávallt hafa verið í fullri vinnu. Er engin ástæða til að ætla annað en að stefnandi muni halda áfram fullri atvinnuþátttöku þegar hann lýkur […] sínu. Er staða stefnanda að því leyti ekki sambærileg stöðu námsmanna sem enga eða takmarkaða reynslu hafa úr atvinnulífinu en ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 er m.a. ætlað að ná til þeirra. Að auki verður að telja að líkur standi til þess að með háskólanámi sínu muni hann bæta félagslega stöðu sína og muni, að námi loknu, eiga kost á vel launaðri vinnu. Er því fallist á það með stefnanda að í málinu séu til staðar óvenjulegar aðstæður í skilingi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993.

Kemur þá til skoðunar við hvaða mælikvarða beri að miða mat á bótum til stefnanda. Aðalkrafa stefnanda byggist á því að miða eigi við þær launatekjur sem hann hafði á viðmiðunartímabilinu. Eins og áður sagði voru einu launatekjur stefnanda á því tímabili vegna vinnu hans í húsgagnaverslun í fimm mánuði á árinu 2008. Þótt um stutt tímabil hafi verið að ræða telur dómurinn að með hliðsjón af atvinnusögu stefnanda, því að ekki verður betur séð en að laun hans hafi að jafnaði verið töluvert yfir lágmarkslaunaviðmiði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 og að hann hafi bætt stöðu sína á atvinnumarkaðnum með háskólanámi, geti umræddar tekjur gefið raunhæfa mynd af framtíðartekjum stefnanda og séu réttur mælikvarði við mat á bótum til hans. Sá mælikvarði er enn fremur líklegur til að bæta stefnanda tjón hans að fullu eins og hann á rétt til samkvæmt nefndum lögum. Verður því fallist á aðalkröfu stefnanda eins og hún er fram sett en af hálfu stefndu eru ekki gerðar tölulegar athugsemdir við kröfuna. Um vexti og dráttarvexti fer eins og í dómsorði greinir.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefndu til þess að greiða stefnanda samtals 750.000 kr. í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans Evu Hrannar Jónsdóttur hrl., 750.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu stefnanda flutti málið Eva Hrönn Jónsdóttir hrl.

Af hálfu stefndu flutti málið Björn Bergsson hrl.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

                Stefndu, Vörður tryggingar hf. og A, greiði stefnanda, B, sameiginlega (in soldium) 4.384.611 kr. ásamt 4,50% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 9. september 2011 til 19. október 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndu greiði samtals 750.000 kr. í málskostnað í ríkissjóð.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns stefnanda Evu Hrannar Jónsdóttur hrl., 750.000 kr.