Hæstiréttur íslands
Mál nr. 271/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 7. júlí 2004. |
|
Nr. 271/2004. |
X(Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn A og B (Sigurður Georgsson hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Fallist var á að X yrði sviptur sjálfræði í sex mánuði enda þótti ljóst að vægari úrræði kæmu ekki að haldi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2004, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um að hann verði sviptur sjálfræði verði hafnað og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 50.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2004.
Með beiðni dagsettri 3. júní sl. hafa A, kt. [...], og B, kt. [...], krafist þess að varnaraðili, X, kt. [...], verði sviptur sjálfræði tímabundið í sex mánuði vegna alvarlegrar geðröskunar hans.
Við meðferð málsins fyrir dóminum var sóknaraðilum skipaður talsmaður skv. 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga.
Samkvæmt fyrirmælum 10. gr. laga nr. 71/1997 var varnaraðila skipaður verjandi úr hópi starfandi lögmanna. Verjandinn mótmælti kröfunni fyrir hönd varnaraðila og krafðist þess að henni yrði hafnað. Þá gerði lögmaðurinn kröfu um greiðslu þóknunar úr ríkissjóði.
Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að framlögð læknisvottorð og framburðir lækna fyrir dóminum styðji sjálfræðissviptingarkröfu sóknaraðila. Fyrir liggi að varnaraðili hafi verið til samvinnu um lyfjatöku og því megi ná árangri með vægari aðgerðum en sjálfræðissviptingu. Þá hafi komið fram að læknar telji ástand varnaraðila nú vera ágætt og að engin hætta stafi af honum.
Sóknaraðili vísar kröfu sinni til stuðnings til þess að varnaraðili þurfi á lengri læknismeðferð að halda en hann hafi nú þegar notið og þörf sé á að knýja varnaraðila til að þiggja hana. Vísa þeir til gagna málsins kröfu sinni til stuðnings.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð Kjartans J. Kjartanssonar geðlæknis á deild 32A á Landspítala dagsett 8. júní sl. Þar kemur fram að varnaraðili sé með þekktan geðklofasjúkdóm og eigi að baki fjölda innlagna á geðdeild. Hann hafi verið lagður inn 19. apríl sl. vegna versnunar á sjúkdómi sínum og síðan verið nauðungarvistaður 21. apríl sl. Í þeirri innlögn hafi gengið vel í fyrstu og varnaraðili sýnt samvinnu en eftir að nauðungarvistun lauk hafi honum versnað mjög, hann fengið aðsóknarranghugmyndir, hótað fólki og neitað samvinnu um meðferð. Hann hafi verið nauðungarvistaður öðru sinni 13. maí sl. Vel hafi gengið í fyrstu en grunnt hafi verið á reiði og hótunum. Varnaraðili hafi verið á lyfjameðferð og sýnt samvinnu um hana. Ætlunin sé að varnaraðili geti búið einn með stuðningi og mætt reglubundið á göngudeild m.a. til að þiggja forðasprautur. Er niðurstaða læknisins sú að enn sé óhjákvæmilegt að vista varnaraðila nauðugan á sjúkrahúsi og alls óvíst sé eftir hve langan tíma ástand hans verði orðið það stöðugt að úrskrift sé möguleg. Þá eigi varnaraðili sögu um ofbeldi gagnvart ættingjum sínum þegar hann er í geðrofsástandi.
Kjartan J. Kjartansson geðlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti framlagt vottorð sitt. Aðspurður um ástand varnaraðila nú kvað hann það vera svipað og fram kemur í vottorðinu. Varnaraðili hafi tekið lyf mótþróalaust en ekki viljað tala við vitnið. Taldi vitnið varnaraðila ekki tilbúinn til útskriftar enda hefði varnaraðili enn í hótunum við aðra og ástand hans væri ekki nógu stöðugt. Sagan sýndi að samvinnuhæfni varnaraðila stæði aðeins í nokkra daga í senn. Aðspurður taldi vitnið varnaraðila geta verið hættulegan enda hefði hann verið með alvarlegar hótanir við fólk og hefði áður sýnt ofbeldi.
Dómari ákvað að óska eftir mati óháðs geðlæknis á veikindum og geðhag varnaraðila og leitaði því eftir áliti Sigurðar Arnar Hektorssonar geðlæknis og liggur álitsgerð hans frammi í málinu. Þar kemur fram að eftir skoðun á ofannefndu læknisvottorði, sjúkraskrá geðdeildar Landspítala og geðskoðun læknisins sjálfs sé ótvírætt að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðklofasjúkdómi með viðvarandi geðrofseinkennum, bæði ranghugmyndum og atferlistruflun auk skerðingar á dómgreind og innsæi. Síðan segir í álitsgerðinni að þótt varnaraðili sé nú sem stendur til samvinnu um lyfjameðferð hafi meðferðarheldni hans tíðum brugðist. Síðan segir orðrétt: „Tel ég hann því illa færan um að ráða sjálfur persónuhögum sínum eins og veikindum hans er nú háttað. Er ég sammála mati geðlæknis X að „...enn sé óhjákvæmilegt að vista X nauðugan á sjúkrahúsi og alls óvíst eftir hve langan tíma ástand hans verði orðið það gott og stöðugt að útskrift sé möguleg.” Líklegt má þó telja að hann eigi góðan möguleika á umtalsverðum bata með óslitinni lyfjameðferð og markvissri endurhæfingu. Ólíklegt er þó að markverður árangur náist nema með endurhæfingarlegu á geðdeild, reglubundnum forðalyfjasprautum og annarri geðlæknismeðferð og undir stöðugu eftirliti.”
Sigurður Örn Hektorsson geðlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti ofangreinda álitsgerð sína. Hann kvað niðurstöðu sína eftir skoðun á framlögðum gögnum málsins og sjúkraskrá varnaraðila og átt viðtal við varnaraðila vera þá, að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðklofasjúkdómi. Þá væri dómgreind og sjúkdómsinnsæi varnaraðila skert. Meðferðarheldni hafi brugðist að undanförnu og ekki hefði tekist að koma við þeirri lækningu sem nauðsynleg sé í tilviki varnaraðila. Mikilvægt sé að varnaraðili verði lagður inn á endurhæfingarlegudeild í framhaldi af þeirri bráðameðferð sem hann njóti núna. Því sé nauðsynlegt að vista varnaraðila nauðugan áfram. Aðspurður um hverjar hann teldi líklegar afleiðingar þess að varnaraðili færi út af sjúkrahúsinu nú, kvaðst vitnið telja líklegt að ástandið færi þá í sama horf og eftir fyrri nauðungarvistunina í vor, þ.e. að hann hætti að taka lyfin sem skyldi. Aðspurður kvaðst vitnið ekki telja að yfirvofandi hætta stafaði af varnaraðila nú þótt ekki væri hægt að spá fyrir um það með fullri vissu. Þá taldi vitnið aðspurður ekki líklegt að eingöngu göngudeildarmeðferð dygði fyrir varnaraðila eins og ástandi hans væri nú háttað. Hins vegar væri endurhæfingarlegumeðferð mun vænlegri til árangurs.
Varnaraðili kom sjálfur fyrir dóminn. Aðspurður um heilsuhagi sína kvaðst varnaraðili vera í mjög góðu ásigkomulagi og hefði hann ekki verið svo góður til heilsunnar lengi. Hann kvað innlagnir sínar mega rekja til þess að hann hefði „rifið kjaft” í síma. Varnaraðili benti á að hann tæki lyfin eins og honum bæri og væri samvinnuþýður. Taldi varnaraðili líklegt að verið væri að misnota það hversu samvinnuþýður hann væri.
Niðurstaða.
Með framangreindum læknisvottorðum þykir í ljós leitt að varnaraðili er haldinn alvarlegum geðklofasjúkdómi og skortir sjúkdómsinnsæi. Samkvæmt framangreindu hefur varnaraðili ekki haldið út lyfjameðferðir samkvæmt læknisráði þegar hann er utan sjúkrahúsa. Jafnframt er komið fram í gögnum málsins og framburði vitna að varnaraðili hefur haft í hótunum við aðra. Þegar litið er á málið í heild í ljósi framburða ofangreindra geðlækna þykir ljóst að vægari úrræði en tímabundin sjálfræðissvipting í sex mánuði geta ekki komið að haldi í tilviki varnaraðila. Með vísan til framanritaðs þykir ekki verða hjá því komist að svipta varnaraðila sjálfræði í sex mánuði eins og krafist er samkvæmt a lið 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Kostnaður af máli þessu greiðist úr ríkissjóði eins og í úrskurðarorði segir.
Arnfríður Einarsdóttir settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
X, kt. [...], skal sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Bergsteins Georgssonar hdl., 50.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þorsteins Einarssonar hrl., 50.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.