Hæstiréttur íslands

Mál nr. 481/2016

Ákæruvaldið (Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)
gegn
X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 95. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 26. júlí 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness kröfðust verjendur tveggja meðákærðu þess í þinghaldi 27. maí 2016 að tiltekinna gagna yrði aflað af hálfu ákæruvaldsins. Ráðgert er að þeirri gagnaöflun verði lokið í síðasta lagi 6. júlí 2016. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 26. júlí 2016 klukkan 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2016.

Héraðssaksóknari hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, f.d. [...], verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 26. júlí 2016, kl. 16.00. , með vísan til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Í greinargerð með kröfunni segir að þann 22. september sl. hafi komið ákærði hingað til lands ásamt erlendri konu á bifreiðinni [...] með ferjunni Norrænu. Ákærði, X sé umráðamaður bifreiðarinnar [...]. Lögreglan hafði eftirlit með bifreiðinni þar sem henni var ekið til Reykjavíkur og þaðan til Keflavíkur á tímabilinu 22. – 25. september. Föstudaginn 25. september hafi ákærði farið með flugi frá Íslandi, en hann hafi skilið bifreiðina eftir á bifreiðastæði við Keflavíkurflugvöll. Ákærði hafi komið aftur til landsins þann 28. september og hafi sótt bifreiðina. Hann hafi ekið sem leið lá inn í [...] á [...] að gistiheimili við [...] í [...]. Ákærði hafi  hitt þar meðákærða Y og hafi þeir báðir verið  handteknir af lögreglu stuttu eftir komu þeirra í húsnæðið. Bifreiðin hafi verið  haldlögð af lögreglu og við leit í henni hafi fundist rúmlega 19,5 kg af amfetamíni og rúmlega 2,5 kg af kókaíni sem hafi verið búið að fela í bifreiðinni. Alls hafi fjórir  aðilar verið handteknir vegna málsins og hafa þeir allir sætt  gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar þess.

Með ákæru héraðssaksóknara dagsettri 5. apríl sl. sé ákærða X gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa á árinu 2015 staðið saman ásamt meðákærðu að innflutningi á 19.448,96 g af amfetamíni og 2.597,44 g af kókaíni frá Hollandi til Íslands ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni, eins og nánar greinir í ákæruskjali.

                Ákærði þykir vera undir sterkum grun um aðild að broti sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Að mati ákæruvalds þykir meint aðild ákærða mikil en hún sé talin tengjast skipulagningu og flutningi fíkniefnanna hingað til lands. Þá er um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna að ræða.

                Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 29. september, síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-467/2015, en sá úrskurður hafi verið  staðfestur með dómi Hæstaréttar. Þar sem ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi í 12 vikur án þess að mál hafi verið höfðað á hendur honum telji lögregla, í samræmi við 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, að ekki sé  unnt að úrskurða hann áfram í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Í samræmi við það hafi verið farið fram á og ákærði veriði í kjölfarið úrskurðaður í farbann og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar. Síðan hafi Hæstiréttur fjórum sinnum staðfest úrskurði um áframhaldandi farbann yfir ákærða, sbr. dóma nr. 57/216, 127/2016, 216/2016 og 257/2016. Sé því farið fram á að ákærði verði úrskurðaður í áframhaldandi farbann á grundvelli 100. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt teljast fyrir hendi skilyrði til að úrskurða ákærða í farbann á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði sé erlendur ríkisborgari og hafi engin sérstök tengsl við landið. Sæti hann ekki farbanni megi ætla að hann reyni að komast úr landi til að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar. Að mati héraðssaksóknara sé brýnt að tryggja nærveru ákærða á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans sé til lykta leitt. Ýmislegt hafi komið upp undir rekstri málsins fyrir dómi t.d. hafi verið dómkvaddur matsmaður til að meta sakhæfi eins hinna ákærðu og þá hafi komið fram kröfur verjanda um frekari gagnaöflun og afhendingu muna og gagna sem hafi gert það að verkum að ekki hafi enn tekist að ákveða dagsetningu fyrir aðalmeðferð málsins en næsta fyrirtaka í málinu verður þann 30. júní næstkomandi.

                Ákæruvaldið telji með hliðsjón af því sem rannsókn hafi leitt í ljós að ákærði sé undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, og varða allt að 12 ára fangelsi.  Um heimild til að úrskurða ákærða í  farbann sé vísað til b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til alls framangreinds og framlagðra gagna málsins sé þess beiðst að krafa héraðssaksóknara um farbann nái fram að ganga.

                Ákærði mótmælir framkominni kröfu en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími. Vísar ákærði m.a. til geðrannsóknar og taugasálfræðimats sem gert var undir rannsókn málsins. Þá telur ákærði á sér brotið varðandi heilbrigðisþjónustu og úrræði um gistingu en hann sé á vergangi.

Með dómi Hæstaréttar 7. apríl 2016 í máli nr. 257/2016, var ákærða gert að sæta farbanni til 3. maí 2016 á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, sbr. b-liður 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 3. maí 2016 var farbann ákærða framlengt til dagsins í dag. Ákæra í máli þessu var gefin út 5. apríl sl. og þingfest 14. apríl sl. á hendur ákærða og þremur meðákærðu. Þykir ekkert fram komið í málinu nú sem leiðir til þess að ekki séu lengur fyrir hendi skilyrði til að ákærða verði gert að sæta farbanni á meðan mál hans er rekið fyrir dómstólum. Hafa félagslegar aðstæður hans á meðan að mál hans er enn óleyst fyrir dómstólum ekkert með það að gera hvort honum verði gert að sæta farbanni áfram eður ei og er þeirri málsástæðu hafnað. Með vísan til framangreinds er fallist á kröfu héraðssaksóknara um áframhaldandi farbann, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Ákærði, X, skal sæta farbanni þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 26. júlí 2016, kl. 16:00.