Hæstiréttur íslands
Mál nr. 757/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
Miðvikudaginn 20. janúar 2010. |
|
|
Nr. 757/2009. |
A B og C (Garðar G. Gíslason hdl.) gegn D E og (enginn) dánarbúi F og G (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi að hluta.
A, B og C kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem vísað var frá máli þeirra vegna ágreinings við skipti á dánarbúi F og G. Héraðsdómari vísaði málinu frá dómi þar sem ágreiningsefni það sem til umfjöllunar var í gæti ekki komið til úrlausnar í máli samkvæmt XVII. kafla laga nr. 20/1991, sbr. 112. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í greinargerð A, B og C í héraði væri þess krafist að ákvörðun skiptastjóra um sölu á eignum dánarbúsins til D og E yrði hnekkt, kaupin yrðu látin ganga til baka og afsölum fyrir eignunum yrði aflýst gegn endurgreiðslu á kaupverði. Talið var að ef frá væri talin krafa um að ákvörðun skiptastjóra yrði hnekkt færu dómkröfur þeirra út fyrir þau mörk sem skiptastjóri hafi sett málinu þegar hann lagði það fyrir dóm, sbr. 3. tl. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Kröfur þeirra beinist að auki að D og E, en slíkt verði ekki gert í dómsmáli sem rekið sé eftir XVII. kafla sömu laga. Ekki sé á færi dánarbús F og G að verða við þessum kröfum upp á sitt eindæmi. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa frá dómi kröfum A, B og C um að kaup D og E á umræddum eignum verði látin ganga til baka og afsölum vegna þeirra aflýst gegn endurgreiðslu kaupverðs. Hins vegar var talið að ekki stæðu efni til að vísa málinu frá héraðsdómi að því er varðaði þá kröfu A, B og C að ákvörðun skiptastjóra um sölu á eignum dánarbúsins yrði hnekkt, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 20/1991, en við efnismeðferð málsins yrði að taka afstöðu til málsástæðna sem lúti að því að þessi krafa geti ekki náð fram að ganga sökum þess að ákvörðun skiptastjóra hafi þegar verið hrundið í framkvæmd. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi að þessu leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. desember 2009, þar sem vísað var frá dómi máli um ágreining, sem risið hafði við opinber skipti á dánarbúi F og G. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir D og E hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðilinn dánarbú F og G krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins krafðist sýslumaðurinn á Selfossi með bréfi til Héraðsdóms Suðurlands 20. ágúst 2008 að dánarbú hjónanna F, sem fædd var [...] og lést [...], og G, sem var fæddur [...] og lést [...], yrði tekið til opinberra skipta. Í kröfu sýslumanns var meðal annars greint frá því að erfingjar hinna látnu væru tvö eftirlifandi börn þeirra, H og sóknaraðilinn A, sex afkomendur látins sonar þeirra, I, þar á meðal sóknaraðilarnir B og C, og fjórtán afkomendur látinnar dóttur þeirra, J, þar á meðal varnaraðilarnir D og E. Dánarbúinu hafi ekki verið skipt og erfingjarnir ekki orðið við áskorun sýslumanns um að leita eftir leyfi til einkaskipta, en fyrir lægi að G væri þinglýstur eigandi tveggja fasteigna, annars vegar 1/9 hluta í eyðijörðinni M að undanskildum 7,5 hekturum lands og hins vegar landspildu ásamt útihúsum að N í sveitarfélaginu O. Dánarbúið var tekið til opinberra skipta 1. október 2008.
Skiptastjóri í dánarbúinu sendi bréf til erfingja 12. nóvember 2008, þar sem vísað var til þess að fyrir lægju upplýsingar um fyrrnefndar eignir dánarbúsins, en við könnun hans hafi komið fram að ekki væri um mikil verðmæti að ræða. Þessum eignum yrði að koma í verð og bæði hann því erfingja, sem kynnu að hafa áhuga á þeim, um að senda sér kauptilboð. Aftur sendi skiptastjóri erfingjum bréf 27. mars 2009, þar sem greint var frá því að enn hafi ekkert tilboð borist í eignirnar, og skoraði hann á erfingja, sem vildu eignast þær, að gera tilboð fyrir 1. maí sama ár, en ella yrði að ráðstafa þeim við nauðungarsölu. Þessu sinni munu skiptastjóra hafa borist tvö tilboð, annað að fjárhæð 300.000 krónur en hitt 1.170.000 krónur, og var það síðarnefnda frá varnaraðilunum D og E. Eftir að skiptastjóri hafði lýst yfir samþykki á því tilboði barst honum samkvæmt gögnum málsins fyrirspurn sóknaraðilans A 8. maí 2009, þar sem því var hreyft hvort um seinan væri fyrir hana að gera tilboð í eignirnar að fjárhæð 1.500.000 krónur. Henni mun hafa verið svarað að svo væri. Í framhaldi af því sendu sóknaraðilarnir A og C skiptastjóra bréf 18. júní 2009, þar sem vísað var til þess að hann hafi ekki boðað erfingja til skiptafundar til að leita eftir því hvort þeir krefðust að fá eignir dánarbúsins lagðar sér út að arfi og væri því málsmeðferð hans andstæð lögum. Þess var krafist að fallið yrði frá sölu fyrrnefndra eigna og boðað til skiptafundar um ráðstöfun þeirra. Þessu hafnaði skiptastjóri með bréfi 30. júní 2009, þar sem meðal annars var vísað til þess að tilboð varnaraðilanna D og E hafi verið samþykkt áður en athugasemdum var hreyft vegna þessarar aðferðar hans við ráðstöfun eignanna, sem erfingjum hafi verið kynnt í nóvember 2008, og yrði því ekki aftur snúið. Áður en þetta bréf var ritað hafði skiptastjóri gefið út afsöl fyrir eignunum til varnaraðilanna 25. júní 2009.
Að undangengnum boðunum til erfingja hélt skiptastjóri skiptafund 25. ágúst 2009 til að fjalla um frumvarp til úthlutunar úr dánarbúinu, en samkvæmt því var eina eign þess áðurnefnt söluverð eigna, tiltekin þóknun skiptastjóra kæmi til frádráttar og yrði hreinni eign skipt milli erfingja á nánar tiltekinn hátt. Á fundinum mótmæltu sóknaraðilar að skiptum yrði lokið á grundvelli frumvarpsins og kröfðust þess að fá eignarhlut í fasteignunum lagðan sér út að arfi. Með því að ágreiningur um þetta var ekki leystur á fundinum beindi skiptastjóri honum til héraðsdóms með bréfi 7. september 2009, þar sem meðal annars kom fram að skiptastjóri skildi kröfugerð sóknaraðila á þann veg að „krafa sé gerð um að sölu jarðapartanna verði hnekkt.“
II
Við þingfestingu málsins í héraðsdómi 24. september 2009 var fært til bókar að af síðastnefndu bréfi skiptastjóra mætti skilja að „ágreiningur aðila sé um sölu á 1/9 hluta af eyðibýlinu M og landsspildu við svonefndan N við P og útihúsum og að krafa sóknaraðila sé að þeirri sölu verði hnekkt.“ Í þinghaldinu lýstu aðilarnir yfir að þau væru sammála um að þetta væri réttur skilningur. Í greinargerð sóknaraðila, sem lögð var fram í þinghaldi 1. október 2009, var þess krafist að ákvörðun skiptastjóra um sölu á þessum eignum til varnaraðilanna D og E yrði hnekkt, kaupin yrðu látin ganga til baka og afsölum fyrir eignunum yrði aflýst gegn endurgreiðslu á kaupverði. Ef frá er talin krafa sóknaraðilanna um að ákvörðun skiptastjóra verði hnekkt fara dómkröfur þeirra út fyrir þau mörk, sem hann setti málinu í bréfi sínu 7. september 2009, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Kröfur sóknaraðila beinast að auki að þessu leyti að varnaraðilunum D og E, en slíkt verður ekki gert í dómsmáli, sem rekið er eftir XVII. kafla sömu laga. Ekki er á færi varnaraðilans dánarbús F og G að verða við þessum kröfum upp á sitt eindæmi. Verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísað sé frá dómi kröfum sóknaraðila um að kaup varnaraðilanna D og E á umræddum eignum verði látin ganga til baka og afsölum vegna þeirra aflýst gegn endurgreiðslu kaupverðs.
Ákvörðun skiptastjóra um sölu á þeim eignum, sem málið varðar, var ekki tekin á skiptafundi í dánarbúi F og G eða á grundvelli ályktunar slíks fundar og áttu sóknaraðilar því fyrst kost á að andmæla henni á skiptafundi 25. ágúst 2009. Að fram komnum andmælum sóknaraðila, sem niðurstaða fékkst ekki um á þeim skiptafundi, bar skiptastjóra að beina ágreiningnum til héraðsdóms, sbr. 3. mgr. 71. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991, sem hann og gerði. Standa því ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi að því er varðar þá kröfu sóknaraðila að ákvörðun skiptastjóra um sölu á eignum dánarbúsins verði hnekkt, en við efnismeðferð málsins verður að taka afstöðu til málsástæðna varnaraðila, sem lúta að því að þessi krafa sóknaraðila geti ekki náð fram að ganga sökum þess að ákvörðun skiptastjóra hafi þegar verið hrundið í framkvæmd. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi að þessu leyti.
Rétt er að ákvörðun um málskostnað í héraði bíði efnislegrar úrlausnar um kröfur aðilanna, en varnaraðilanum dánarbúi F og G verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Staðfest eru ákvæði hins kærða úrskurðar um að vísað sé frá dómi kröfum sóknaraðila, A, B og C, um að til baka verði látin ganga kaup varnaraðila, D og E, á 1/9 hluta af jörðinni M og landspildu ásamt útihúsum að N í sveitarfélaginu O af varnaraðila, dánarbúi F og G, og að afsölum 25. júní 2009 vegna þeirra kaupa verði aflýst gegn endurgreiðslu kaupverðs, 1.170.000 krónum. Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, dánarbú F og G, greiði hverjum sóknaraðila um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. desember 2009.
Mál þetta, sem var þingfest 24. september sl. og dómtekið 10. nóvember sl., var höfðað með bréfi til dómsins, dagsettu 7. september sl. og mótteknu 10. s.m., þar sem óskað er úrlausnar ágreinings skv. 122. gr. laga nr. 20/1991.
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum 1. október 2008, var dánarbú F, sem lést þann 21. júní 1976, og G, sem lést þann 7. mars 1933, tekið til opinberra skipta og Sigurmar K. Albertsson hrl., skipaður skiptastjóri.
Með bréfi skiptastjóra, mótteknu þann 10. september sl., til Héraðsdóms Suðurlands er krafist, með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991, úrlausnar dómsins um ágreining aðila en á fundi skiptastjóra með málsaðilum 25. ágúst sl., þar sem frumvarp skiptastjóra til úthlutunar á eignum búsins var kynnt, hafi komið fram mótmæli frá C á sölu á eignum búsins og við frumvarpinu og hann krafist þess að honum yrði lagður út sinn hlutur í samræmi við sinn arfshluta. A og B kröfðust þess sama. Bókað var í fundargerð að skiptastjóri hafi þegar selt landið og ekki verði aftur snúið nema með samþykki kaupenda. Ekki er bókað í fundargerð skiptastjóra við hvaða sölu er átt en samkvæmt frumvarpinu og öðrum gögnum málsins er ljóst að ágreiningurinn stóð um sölu skiptastjóra á 1/9 hluta í eyðibýlinu M í óskiptri sameign, landnúmer 165522, að undanskildum 7,5 hekturum og landspildu auk útihúsa að N í sveitarfélaginu O, landnúmer 218495, allt að söluvirði 1.170.000 krónur. Skiptastjóra tókst því ekki að jafna ágreining aðila og vísaði málinu til héraðsdóms með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991.
Ágreiningur sá, er krafist er úrlausnar héraðsdóms á, snýst um að C, A og B fái lagðan út sinn hluta partanna í ofangreindum jörðum í samræmi við erfðarétt hvers um sig. Segir í bréfinu til dómsins að skiptastjóri skilji kröfugerð aðila þannig að krafa sé gerð um að sölu jarðapartanna verði hnekkt.
Við fyrirtöku þann 1. október sl. lögðu sóknaraðilar fram greinargerð og gerðu þær kröfur að ákvörðun skiptastjóra um sölu á 1/9 hluta af eyðibýlinu M og landspildu auk útihúsa að N við P, úr dárabúum F og G, til erfingjanna E og D, verði hnekkt, kaupin látin ganga til baka og afsölum, dagsettum 25. júní 2009, aflýst gegn endurgreiðslu dánarbúanna á umsömdu kaupverði, kr. 1.170.000. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.
Við fyrirtöku málsins þann 15. október sl. lagði lögmaður varnaraðila E og D fram greinargerð og gerði þær dómkröfur að varnaraðilar yrðu sýknaðir af öllum kröfum sóknaraðila auk þess að krefjast málskostnaðar.
Þá lagði lögmaður dánarbúsins fram greinargerð og krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að kröfum sóknaraðila yrði hafnað. Þá var krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Bókað var eftir lögmanni varnaraðila, E og D, að hann krefðist einnig frávísunar á málinu frá dómi.
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að frávísunarkröfu varnaraðila verði hafnað.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 10. nóvember sl.
I.
Eins og áður segir var dánarbú F og G tekið til opinberra skipta að kröfu sýslumannsins á Selfossi, með úrskurði þann 1. október 2008, og var Sigurmar K. Albertsson hrl. skipaður skiptastjóri. Í gögnum málsins liggur fyrir bréf skiptastjóra, dagsett 12. nóvember 2008, til erfingja þar sem kemur fram að eign dánarbúsins sé m.a. 1/9 hluti í eyðibýlinu M og landspilda auk fjárhúsa að N í Sveitarfélaginu O. Hafi skiptastjóri kannað lauslega verðmæti eignanna og honum verið tjáð að ekki væri um mikil verðmæti að ræða. Eignum þessum verði að koma í verð og telji hann rétt að biðja þá erfingja sem kunni að hafa áhuga á að eignast framangreindar eignir að gera tilboð í þær, væri áhugi fyrir hendi, og senda það á skrifstofu skiptastjóra sem muni taka hæstu boðum. Í framhaldi muni hann ganga frá sölu og skiptum á búinu.
Þá liggur fyrir bréf dagsett 27. mars 2009 undirritað af skiptastjóra til erfingja þar sem hann vísaði til fyrra bréfs, sem sent hafði verið öllum erfingjum. Segir að ekkert tilboð hafi borist í umræddar eignir dánarbúsins og því skori hann á þá sem kunna að hafa áhuga að gera tilboð í eignirnar og skulu tilboðin hafa borist fyrir 1. maí 2009. Þá segir í lokin að berist ekkert tilboð fyrir þann tíma muni skiptastjóri setja eignirnar í uppboðsmeðferð.
Þá liggur fyrir bréf undirritað af lögmanni sóknaraðila, dagsett 18. júní 2009, þar sem fram kemur að A og C hafi vitneskju um að skiptastjóri ætli að selja varnaraðilum umræddar eignir og vilji þau mótmæla þeirri sölu. Er vísað til þess í bréfinu að skiptastjóra beri samkvæmt lögum nr. 20/1991 að leita svara erfingja á skiptafundi, hvort þeir krefjist útlagningar á tilteknum eignum til greiðslu arfs, sbr. 3. mgr. 54. gr. laganna. Þá segir að sóknaraðilar hafi ekki verið boðaðir á skiptafund og því hljóti ákvörðun um sölu á eignum úr búinu að brjóta í bága við skýr fyrirmæli laganna og vera ólögmæt. Segir ennfremur í bréfinu að A kannist við að hafa fengið með pósti tvö bréf frá skiptastjóra, hið fyrra dagsett 12. nóvember 2008 og hið síðara dagsett 27. mars 2009, þar sem falast var eftir tilboðum í ofangreindar eignir. A hefði reynt að skila inn tilboði í eignina í maí sl., en verið tjáð af skiptastjóra að hún væri of sein og að tilboðsfrestur væri útrunninn. Ennfremur segir í bréfinu að C kannist ekki við að hafa fengið nokkrar tilkynningar um að skiptastjóri hygðist selja landspilduna. Var þess krafist í bréfinu að skiptastjóri félli frá fyrirhugaðri sölu á landinu til varnaraðila og boðaði þess í stað til skiptafundar með lögmætum hætti þar sem rætt yrði um sölu á landspildunni og leitað tilboða frá erfingjum.
Bréf dagsett 30. júní 2009 frá skiptastjóra til lögmanns sóknaraðila liggur fyrir í gögnum málsins, en þar kemur fram að vísað sé til símtala og bréfs frá 18. júní sl. Vísar hann m.a. til þess að öllum erfingjum, sem séu tuttugu og þrír, hefðu verið send bréf þann 12. nóvember 2008 þar sem erfingjar, sem höfðu áhuga á eignunum, voru hvattir til að hafa samband við skiptastjóra en engin viðbrögð orðið utan tveggja símtala og eins fundar þar sem einn erfingi hefði lýst áhuga sínum en ekkert af orðið. Eftir síðara bréf skiptastjóra, þann 27. mars 2009, hefðu tvö tilboð borist í eignirnar, annað að fjárhæð 300.000 krónur en hitt að fjárhæð 1.170.000. Hefði hærra tilboðinu verið tekið. Samþykki skiptastjóra hefði borist tilboðsgjöfum fyrir símtal sem lögmaður sóknaraðila hefði átt við skiptastjóra og því hefði ekki verið aftur snúið. Sala eignanna hefði verið frágengin þegar lögmaðurinn hafði samband við skiptastjóra og benti skiptastjóri lögmanninum á að skoða 77. gr. laga nr. 21/1991 ef erfingjar teldu sig hafa orðið fyrir skaða. Símbréf lögmanns sóknaraðila til skiptastjóra, sent 14. júlí 2009, liggur fyrir í skjölum málsins en þar kemur fram að lögmaður sóknaraðila spyr hvort kaupendur eignanna væru reiðubúnir að falla frá samningnum þar sem hann væri ekki gerður á lögformlegan hátt.
Afsöl, útgefin 25. júní 2009, fyrir 1/9 hluta í eyðibýlinu M og landspildu auk útihúsa að N í Sveitarfélaginu O, til varnaraðila E og D, liggja fyrir í gögnum málsins svo og frumvarp til úthlutunar úr dánarbúinu, dagsett 10. ágúst 2009, ásamt fundargerð skiptafundar þann 25. ágúst 2009.
II.
Í máli þessu gera sóknaraðilar þær kröfur að ákvörðun skiptastjóra um sölu á 1/9 hluta af eyðibýlinu M og landspildu auk útihúsa að N við P, úr dánarbúum F og G, til erfingjanna E og D, verði hnekkt, kaupin látin ganga til baka og afsölum, dagsettum 25. júní 2009, aflýst gegn endurgreiðslu dánarbúanna á umsömdu kaupverði, 1.170.000 krónum.
Dánarbúið, sem hefur aðild að máli þessu, gerði kröfu um frávísun málsins frá dómi og gerðu varnaraðilar þá kröfu einnig við fyrirtöku þann 15. október sl.
Fór málflutningur fram um frávísunarkröfuna þann 10. nóvember sl., eins og áður segir, og var málið tekið til úrskurðar í framhaldi.
Varnaraðilar byggja frávísunarkröfuna á því að kröfugerð sóknaraðila sé ekki í samræmi við þann ágreining sem skiptastjóri vísaði til dómsins og bókað var á skiptafundi, þ.e. að C, A og B vilji fá sér útlagðan sinn hlut í eignunum. Í kröfugerð sóknaraðila til dómsins séu hins vegar dómkröfurnar þær að sölunni verði hnekkt, kaupin verði látin ganga til baka og afsölum verði aflýst gegn endurgreiðslu á söluverðinu. Byggir varnaraðili á að skiptastjóri hafi ekki getað ógilt sjálfur samning sem hann hafði þegar undirritað og hefði sá samningur því gildi þar til dómur hefði gengið um annað, og svo hafi ekki orðið. Hér sé ekki um að ræða kröfu sem varði skiptameðferð búsins heldur kröfu um aðfararhæfan dóm á hendur kaupendum. Óheimilt sé að hafa uppi slíkar kröfur í ágreiningsmáli vegna dánarbússkipta, enda þótt krafan beinist að einstaklingum sem séu meðal erfingja dánarbúsins. Þá byggja varnaraðilar á 122. gr. laga nr. 20/1991 en þar segi m.a. að ef ágreiningur rísi um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laganna kveði sérstaklega á um að skuli beint til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telji þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem komi upp við opinber skipti, skuli skiptastjóri beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls sem hann hafi verið skipaður til starfa hjá. Kröfugerð sóknaraðila fjalli ekki um atriði sem fyrirmæli laga nr. 20/1991 kveði sérstaklega á um að beint verði til héraðsdóms til úrlausnar. Þá sé málið ekki rekið á grundvelli heimildar í 124. gr. laganna og því óhjákvæmilegt að vísa því frá dómi. Þá byggja varnaraðilar á því að umþrættir samningar hafi farið fram, búið sé að undirrita afsöl fyrir eignunum og þeim verði ekki breytt nema að undangengnum dómi um riftun. Slíkt mál sé óheimilt að reka samkvæmt 122. eða 124. gr. laga nr. 20/1991.
Sóknaraðilar mótmæla því að málinu verði vísað frá dómi og krefjast málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Kvað lögmaður sóknaraðila skiptastjóra hafa selt eignir dánarbúsins án þess að hafa boðað til skiptafundar og eingöngu sent bréf í almennum pósti til erfingja þar sem fram hafi komið að hann óskaði eftir tilboðum í eignirnar. Skiptastjóri hefði selt eignirnar og tekið á móti greiðslu, vitandi um mótmæli sóknaraðila. Kvað lögmaður sóknaraðila að kröfugerð þeirra rúmaðist innan 122. gr. laga nr. 20/1991. Í fyrsta lagi sé um ákveðinn ágreining að ræða auk þess sem í 1. mgr. sé almenn heimild skiptastjóra til að vísa til úrlausnar héraðsdóms öðrum ágreiningsatriðum en fyrirmæli laganna kveði sérstaklega á um, sem koma upp við skiptin, til héraðsdóms. Svo hafi verið gert í þessu tilviki. Mótmælti lögmaður sóknaraðila því að rifta þyrfti þessum gjörningum til að hægt yrði að leggja erfingjum út hlutdeild þeirra í eignum búsins.
III.
Í bréfi skiptastjóra, dags. 7. september sl., til dómsins kemur fram að sóknaraðilar hafi á skiptafundi mótmælt sölu jarðarpartanna og gert kröfu um að þeir fengju sér lagðan út hluta partanna í samræmi við erfðarétt hvers um sig.
Í greinargerð sóknaraðila er kröfugerð þeirra sú að umþrættri sölu verði hnekkt, kaupin látin ganga til baka og afsölum aflýst gegn endurgreiðslu á söluverði eignanna.
Óumdeilt er að afsal var undirritað fyrir umræddum jarðarpörtum til varnaraðila þann 25. júní 2009 og voru afsalshafar lýstir réttir og löglegir eigendur framangreindra eigna í þeim gjörningi. Um meðferð opinberra skipta á dánarbúum fer samkvæmt lögum nr. 20/1991. Í 112. gr. laganna segir að rísi ágreiningur milli aðila við opinber skipti samkvæmt kafla þessum um þau atriði sem 2. mgr. 103. gr. og 104. -111. gr. taki til, skuli skiptastjóri leitast við að jafna hann. Takist það ekki beinir skiptastjóri málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr. Slíkur ágreiningur verði ekki lagður fyrir dómstóla á annan hátt. Þrátt fyrir óskýrleika í bókun á skiptafundi og í bréfi skiptastjóra til dómsins er ljóst að ágreiningur aðila stendur um sölu skiptastjóra á 1/9 hluta af eyðibýlinu M og landspildu auk útihúsa að N við P. Verður því að telja að 3. tl. 1. mgr. 122. gr. laganna sé uppfylltur. Umræddar eignir hafa þegar verið seldar og samningar, sem skiptastjóri fyrir hönd þrotabúsins er bundið af, hafa verið undirritaðir. Breytir engu að viðsemjendur skiptastjóra hafi einnig verið erfingjar búsins. Er skiptastjóri fyrir hönd þrotabúsins bundið af reglum samningaréttar í þessu tilfelli gagnvart viðsemjendum sínum sem eru varnaraðilar í máli þessu. Verður þeim samningum ekki rift eða breytt nema með dómi, liggi samþykki þeirra ekki fyrir, samkvæmt reglum samninga- og kröfuréttar. Ágreiningsefni það sem til umfjöllunar er í máli þessu heyrir því hvorki undir 2. mgr. 103. gr. né 104. -111. gr. laganna. Þá á 124. gr. laganna ekki við varðandi ágreining aðila í máli þessu. Ber því að vísa máli þessu frá dómi.
Eftir þessum úrslitum ber sóknaraðilum, B, A og C, að greiða varnaraðilum in solidum, dánarbúi F og G 75.000 krónur í málskostnar og E og D, 75.000 krónur í málskostnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðilar, B, A og C, greiði varnaraðilum in solidum, dánarbúi F og G 75.000 krónur í málskostnað og E og D, 75.000 krónur í málskostnað.