Hæstiréttur íslands
Mál nr. 438/2016
Lykilorð
- Málsástæða
- Veðleyfi
- Ógilding samnings
- Fjármálafyrirtæki
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson og Stefán Már Stefánsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2016. Hún krefst þess að fellt verði úr gildi veð sem hún veitti í fasteign sinni að Gnoðarvogi 82 í Reykjavík með samþykki á veðskuldabréfi nr. 1158-74-120161 útgefnu af Jóni Agli Unndórssyni 7. febrúar 2006 til handa Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að samþykki áfrýjanda við því að veita veð samkvæmt fyrrnefndu veðskuldabréfi að upphaflegri höfuðstólsfjárhæð 20.400.000 krónum sé gilt að fjárhæð 9.018.000 krónum frá útgáfudegi veðskuldabréfsins. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram gekkst móðir áfrýjanda í ábyrgð fyrir láni, sem maki áfrýjanda, fyrrnefndur Jón Egill, tók hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 7. febrúar 2006, með því að veita veð í íbúð sinni í Gnoðarvogi 82 í Reykjavík, en stefndi fer nú með þau réttindi og skyldur sem þá voru á hendi sparisjóðsins. Áritaði áfrýjandi, eftir umboði móður sinnar útgefnu 28. desember 1999, samþykki sitt fyrir veðsetningunni. Sama dag undirritaði áfrýjandi jafnframt, á grundvelli umboðsins, undir niðurstöður greiðslumats sem sparisjóðurinn hafði framkvæmt á lántaka og lýsti því þar yfir að hún hefði kynnt sér niðurstöðu greiðslumatsins sem og upplýsingabækling um sjálfskuldarábyrgð og lánsveð. Áfrýjandi og lántaki rituðu ennfremur og sem hjón undir yfirlýsingu í sama skjali þess efnis að upplýsingar í greiðslumatinu væru réttar og gefnar eftir þeirra bestu vitund. Móðir áfrýjanda lést á árinu 2007 og erfði áfrýjandi umrædda fasteign. Stefndi eignaðist veðskuldabréfið með framsali á árinu 2013.
II
Í stefnu málsins í héraði byggir áfrýjandi eingöngu á því að ógilda beri umrædda veðsetningu 7. febrúar 2006 á þeim grundvelli að brotið hafi verið í bága við samkomulag um notkun ábyrgða frá 1. nóvember 2001 en að því stóðu Samtök fjármálafyrirtækja, Neytendasamtökin og ráðherra viðskiptamála. Af því leiði að það fari í bága við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að stefndi beri fyrir sig samþykki það sem áfrýjandi veitti fyrir hönd móður sinnar til veðsetningar íbúðarinnar að Gnoðavogi 82. Um brot á reglum samkomulagsins er einkum vísað til þess að greiðslumat það sem fram fór hafi gefið ranga og villandi mynd af fjárhag skuldarans og ekki hefði komið til þess að veðsetningin yrði heimiluð hefðu réttar upplýsingar legið fyrir.
Þá er að finna í stefnu sjónarmið í þá veru að ekki hafi verið tækt að rita undir greiðslumatið af hálfu veðsala á grundvelli umboðs og jafnframt vísað til aldurs þess. Ennfremur að veðsali sjálfur hafi ekki verið upplýstur um greiðslumatið en slíkt hafi þó verið skylt samkvæmt tilgangi þeirra reglna sem að framan getur.
Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti, bæði í greinargerð og við munnlegan flutning málsins, hefur af hálfu áfrýjanda verið teflt fram nýjum málsástæðum sem hún telur að leiða eigi til þess að fallist verði á dómkröfur hennar. Lúta þær meðal annars að því að umboð áfrýjanda frá móður hennar hafi sætt frekari takmörkunum en byggt var á fyrir héraðsdómi, að ógilda beri umrædda veðsetningu með almennri skírskotun til ógildingarreglu 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 og þá fleiri atriða en þess að brotið hafi verið í bága við fyrrgreint samkomulag um notkun ábyrgða frá 1. nóvember 2001, að ógilda beri veðsetninguna á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1936, sem og rangra forsendna með vísan til 32. gr. sömu laga, auk þess sem byggt sýnist vera á því að farið hafi nærri að bankinn hafi beitt blekkingum við gerð greiðslumatsins. Þessar málsástæður áfrýjanda fá ekki komist að fyrir Hæstarétti, enda standa ekki til þess skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að lög standi ekki til þess að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts.
Í málinu liggur, sem fyrr segir, fyrir skjal sem ber heitið „Niðurstöður greiðslumats“ og er frá 7. febrúar 2006. Það er í stöðluðu formi og vísar til fyrrgreinds samkomulags um notkun ábyrgða frá 1. nóvember 2001. Áfrýjandi ritar á tveimur stöðum undir skjalið. Annarsvegar undir yfirlýsingu lántakanda í línu sem auðkennd er sem „Undirskrift maka/meðeiganda“ en þar sagði: „Við lýsum því yfir með undirritun okkar hér að neðan að ofangreindar upplýsingar eru réttar og gefnar eftir okkur bestu vitund. Við höfum fengið afhent, kynnt okkur og skilið þetta mat á greiðslugetu og samþykkjum það sem fullnægjandi.“ Þá ritaði áfrýjandi í umboði móður sinnar undir yfirlýsingu (veðsala) en þar sagði: „Við þinglýstir eigendur ofangreindrar fasteignar staðfestum með undirskrift okkar að við höfum kynnt okkur ofangreindar upplýsingar og samþykkjum að heimila veðsetningu fasteignar okkar. Við höfum fengið og kynnt okkur upplýsingabækling um sjálfskuldarábyrgð og lánsveð.“
Áfrýjandi og lántaki Jón Egill Unndórsson eru í hjúskap og voru það á þeim tíma þegar veðsetningin fór fram. Staðhæfingar þeirra við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi þess efnis að á árunum 2005 til 2007 hafi þau slitið tímabundið samvistum styðjast ekki við nein haldbær gögn enda voru þau á þeim tíma skráð á sama lögheimili, stóðu sameiginlega að skattskilum og töldu sameiginlega fram til skatts svo sem lög bjóða og þá ritaði áfrýjandi fyrirvaralaust undir niðurstöður greiðslumats sem maki lántaka þann 7. febrúar 2006. Með hliðsjón af því mátti áfrýjandi gerst þekkja fjárhagsstöðu lántakans, eiginmanns síns, sem hún nú heldur fram að hafi verið allt önnur og lakari en fram kemur í umræddum niðurstöðum greiðslumatsins. Allt að einu undirritaði hún fyrirvaralaust yfirlýsingar framangreinds efnis. Hafi raunin verið sú að þær upplýsingar sem lágu til grundvallar greiðslumatinu voru ekki réttar verður áfrýjandi að bera hallan af því og getur ógildingarkrafa á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 því ekki náð fram að ganga á þeim grundvelli. Þá er ekkert hald í þeim málflutningi áfrýjanda að umboð það sem hún hafði frá móður sinni og gefið var út 28. desember 1999 hafi vegna aldurs eða efnis ekki verið fullnægjandi til þess að hún gæti með skuldbindandi hætti ritað undir niðurstöður greiðslumats fyrir hönd móður sinnar. Þar að auki bar hún sjálf á þá leið fyrir dómi að hún hefði kynnt móður sinni greiðslumatið.
Að framangreindu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda. Þá verður og staðfest niðurstaða hans um málskostnað.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Það athugist að greinargerð áfrýjanda fyrir Hæstarétti er óhæfilega löng. Málsástæður eru raktar í löngu máli og dómar og hliðsjónarit reifuð með ítarlegum hætti. Er þetta í andstöðu við fyrirmæli réttarfarslaga um munnlegan málflutning og skýran og gagnorðan málatilbúnað í greinargerðum.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ólöf Elfa Sigvaldadóttir, greiði stefnda, Arion banka hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. mars 2016, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, með stefnu birtri 25. júní 2016.
Stefnandi er Ólöf Elfa Sigvaldadóttir, kt. 120544-3149, Gnoðarvogi 82, 104 Reykjavík.
Stefndi er Arion banki hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, 105 Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi samþykki á veðskuldabréfi nr. 1158-74-120161, um að veita Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis veð í fasteigninni Gnoðarvogur 82, 104 Reykjavík, fastanúmer 202-3562, og að stefnda verði gert að aflýsa veðskuldabréfinu af fasteigninni. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda, Arion banka hf., eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að samþykki stefnanda fyrir því að veita veð í fasteigninni Gnoðarvogur 82 í Reykjavík sé gilt að fjárhæð 9.018.000 krónur, frá útgáfudegi veðskuldabréfsins, þann 7. febrúar 2006. Stefndi krefst þess að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.
I
Málavextir
Upphaf máls þessa má rekja til þess að Jón Egill Unndórsson, maki stefnanda, leitaði til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um lánveitingu í upphafi árs 2006. Var undirritað greiðslumat og í framhaldi af því útgefið veðskuldabréf þann 7. febrúar 2006, þá nr. 1158-74-120161, með höfuðstól að fjárhæð 20.400.000 krónur. Lánið var með veði í fasteigninni Gnoðarvogi 82 í Reykjavík, en fasteignin var þá þinglýst eign Halldóru Bjarneyjar Alexandersdóttur, móður stefnanda. Ritaði stefnandi undir veðskuldabréfið um samþykki fyrir veðsetningu, eftir umboði útgefnu 28. desember 1999. Eftir lát móður stefnanda eignaðist stefnandi fasteignina sem einkaerfingi móður sinnar, og mun stefnandi vera þinglýstur eigandi fasteignarinnar í dag.
Fyrir liggur að með bréfi, dags. 30. mars 2012, til Dróma fyrir hönd Hildu hf. var þess krafist af hálfu dánarbús Halldóru Bjarneyjar að veðsetning umrædds skuldabréfs yrði felld úr gildi. Stefndi, Arion banki hf., eignaðist veðskuldabréfið með framsali, dags. 31. desember 2013, frá Hildu ehf. Bréfið ber nú númerið 322-35-395580584 í kerfum stefnda. Með bréfi, dags. 23. janúar 2015, krafðist stefnandi þess að stefndi myndi fella veðsetninguna úr gildi og að öllum innheimtuaðgerðum yrði hætt.
II
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að við undirritun veðskuldabréfsins hafi verið í gildi samkomulag frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Í samkomulaginu felist að fjármálafyrirtækjum er skylt að láta vinna greiðslumat fyrir lántaka og kynna það fyrir ábyrgðarmanni áður en skrifað er undir ábyrgðaryfirlýsingu. Þannig hafi þurft að meta greiðslugetu greiðanda og ábyrgðarmanni skyldi gefast kostur á því að kynna sér matið. Brot gegn reglum samkomulagsins feli í sér að ábyrgðarskuldbindingar eru ógildar og að fella beri þær niður og fella lánsveð úr gildi. Sé sú niðurstaða í samræmi við fjölda úrskurða úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og dóma fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.
Stefnandi bendir á að greiðslumat hafi farið fram hjá lántaka, þar sem fram hafi komið að mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans hafi verið 270.853 krónur. Samkvæmt skattframtali lántaka fyrir tekjuárið 2006 hafi tekjur hans verið allt aðrar og mun lægri og eingöngu í formi atvinnuleysisbóta og numið 415.798 krónum yfir árið eða 34.650 krónum á mánuði. Sé því verulegt ósamræmi á milli greiðslumatsins og þeirra tekna sem lántaki hafði í reynd. Þá lagði stefnandi einnig fram afrit skattframtals tekjuársins 2005, þar sem fram komi að lántaki hafði engar tekjur á því ári.
Stefnandi telur að lánveitanda hefði verið í lófa lagið að kanna forsendur með stuttri yfirferð yfir skattframtöl lántaka, sem honum var gert að leggja fram í tengslum við lánsumsóknina. Hafi greiðslumatið gefið ranga mynd af fjárhag lántaka þar sem það hafi bæði byggst á villandi og ófullnægjandi upplýsingum um tekjur hans. Beri lánveitandi ábyrgð á þessu þar sem hann hafði undir höndum gögn sem gátu gefið til kynna hverjar tekjur skuldarans voru í raun, sem hefði átt að leiða til þess að lántaka hefði verið synjað um lánveitinguna.
Stefnandi telur að stefndi verði að bera hallann af því hvort samþykki til veðsetningar hefði fengist ef greiðslumatið hefði verið rétt og fjármálafyrirtækið að öðru leyti sinnt skyldum sínum við gerð þess. Þau vinnubrögð að leggja til grundvallar greiðslumat, sem hafi verið augljóslega rangt og í andstöðu við fyrirliggjandi gögn, hljóti að teljast brot á þeirri skyldu fjármálafyrirtækja að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Gera verði þá kröfu til fjármálafyrirtækja að þau vandi gerð greiðslumats, enda sé tilgangur þess að afla traustra upplýsinga fyrir þá sem gangast í ábyrgðir fyrir lánum skuldara.
Þá byggir stefnandi á því að greiðslumatið hafi aldrei verið kynnt fyrir eiganda veðsins, heldur hafi verið skrifað undir ábyrgðina samkvæmt umboði sem ábyrgðarmaður hafði veitt mörgum árum áður. Hvorki ábyrgðarmaður né stefnandi hafi sérstaka menntun eða þekkingu á fjármálagerningum og ábyrgðarmaðurinn aldrei kynnt sér greiðslumatið sjálfur. Vafamál sé hvort ábyrgðarmaður geti veitt öðrum umboð í þessu tilfelli, og fjármálafyrirtæki hafi tekið að sér þá skyldu að upplýsa ábyrgðarmanninn sjálfan um greiðslumatið. Með því að skrifað hafi verið undir lánveitinguna með þeim hætti sem gert var, hafi verið farið gegn tilgangi reglnanna sem fjármálafyrirtækin hafi undirgengist.
Með vísan til framangreinds telur stefnandi að gróflega hafi verið brotið gegn framangreindu samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Fari veðsetningin í bága við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðsetninguna fyrir sig. Beri því að ógilda veðsetninguna.
Krafan um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr.
III
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi vísar um aðalkröfu sína um sýknu í fyrsta lagi til þess að stefnandi geti ekki haft uppi kröfur á grundvelli samnings sem hún var ekki aðili að. Stefnandi hafi ekki eignast kröfu sína fyrir framsal frá upphaflegum veðsala veðskuldabréfsins. Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hafi krafa stefnanda fallið niður fyrir samruna réttar og skyldu þegar stefnandi sem erfingi tók við öllum skuldbindingum veðsala. Einnig hafi stefnandi veitt eftirfarandi samþykki sitt fyrir veðsetningunni. Stefnandi hafi samþykkt veðsetninguna á sínum tíma miðað við þær forsendur sem þá lágu fyrir og hafi samþykkt að gerast eigandi fasteignarinnar með veðskuldabréfinu áhvílandi. Hafi stefnandi sýnt það með ótvíræðum hætti að hún vildi að löggerningurinn héldi gildi sínu.
Þá byggir stefnandi einnig á tómlætissjónarmiðum, á þann hátt að stefnandi hafi glatað rétti sínum til þess að halda uppi kröfum á stefnda.
Stefndi telur að staðið hafi verið við allar skuldbindingar sem á honum hvíldu samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgðar á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Ekki hafi verið neinn aðstöðumunur með aðilum og viðhafðir hafi verið eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en nefnt ákvæði geti aldrei haft þau áhrif á löggerninga að þeir verði ógildir. Við lánveitinguna hafi greiðslumat verið gert og réttar upplýsingar um tekjur skuldara verið lagðar til grundvallar. Fram komi í greiðslumatinu sjálfu að lánveitandi beri ekki ábyrgð á greiðslumatinu ef lántakandi sjálfur hefur veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um fjárhag sinn. Ekki hafi verið mögulegt að leggja skattframtöl 2006 og 2007 til grundvallar við mat á tekjum í greiðslumati sem fór fram 7. febrúar 2006. Þá hefði stefndi ekki getað aflað þessara upplýsinga sjálfur. Jákvætt greiðslumat feli ekki í sér tryggingu fyrir því að lántaki geti staðið í skilum til frambúðar, enda sýni matið einungis stöðu lántaka m.v. þau gögn sem lágu til grundvallar því. Þá bendir stefndi á að umrætt skuldabréf hafi verið í skilum á árinu 2006 og því fái það ekki staðist að lántaki hafi verið með þær tekjur sem hann haldi fram.
Stefndi byggir einnig á því að hafi greiðslumatið verið rangt, þá hefði stefnanda mátt vera kunnugt um það. Stefnandi sé maki lántaka og mátti því þekkja til fjárhagsstöðu hans, enda hafi þau verið gift og samsköttuð um langan tíma. Hafi lántaki verið á atvinnuleysisbótum á þeim tíma sem greiðslumatið fór fram, mátti stefnanda vera fullkunnugt um að greiðslumatið væri ekki byggt á réttum upplýsingum og stefnandi hafi í raun verið í betri stöðu en stefndi hvað þetta varðar. Öll gögn sem greiðslumatið hafi byggst á hafi legið frammi hjá lánveitanda og stefnandi hafi átt þess kost sem umboðsmaður veðsala að kynna sér þau. Hafi stefnandi metið þau fullnægjandi og ritað undir greiðslumatið og staðfest þar með að hún hafi kynnt sér það og þær forsendur sem lágu til grundvallar. Ekkert bendi til þess að stefnandi hafi ekki verið þess fullbær að skilja greiðslumat það sem lá fyrir og afleiðingar þess að gangast í ábyrgð fyrir skuldum þriðja aðila. Hafi það verið vilji veðsala að umrædd lánveiting gengi eftir.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi haft skýrt umboð til að rita undir greiðslumat og breyti engu þótt umboðið hafi verið dagsett sjö árum áður, enda hafi umboðið ekki verið bundið til ákveðins tíma eða það verið afturkallað, sbr. 12. gr. laga nr. 7/1936.
Stefndi telur að við heildstæða skoðun á atvikum máls leiði það ekki til ógildingar skv. 36. gr. samningslaga. Engar reglur leiði til þess að brot á ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða frá 1. nóvember 2001 leiði sjálfkrafa til ógildingar. Sé krafa stefnanda að þessu leyti órökstudd um hvaða ákvæði 36. gr. samningslaga eigi við í málinu.
Stefndi bendir jafnframt á að hluti af lánveitingunni hafi verið notaður til að greiða upp önnur lán hjá SPRON og KB-banka, að fjárhæð 9.018.000 krónur, sem hafi einnig verið með veði í Gnoðarvogi 82 í Reykjavík og verið tekin af félagi sem stefnandi og maki hans stóðu að. Hafi samkomulag um notkun ábyrgða ekki átt við þegar þau lán voru tekin auk þess sem staða veðsala varð ekki lakari en verið hafði. Hafi veðsetningin þannig í raun aðeins verið formbreyting á veðábyrgð en ekki efnisbreyting eða ný lánveiting. Byggir stefndi varakröfu sína á framangreindu, að m.t.t. sanngirnissjónarmiða samningaréttar verði að taka tillit til þess að stefnandi hafi sannarlega haft hag af ofangreindri uppgreiðslufjárhæð.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga, þ.m.t. reglna um eftirfarandi samþykki, en þær reglur fái meðal annars stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Einnig er vísað til reglna um umboð, m.a. II. kafla laga nr. 7/1936. Þá er vísað til 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Um málskostnað er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129.-131.gr. þeirra.
IV
Skýrslur fyrir dómi
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu, en auk þess var tekin skýrsla af Jóni Agli Unndórssyni, lántaka og maka stefnanda.
V
Niðurstaða
Ágreiningslaust er að stefnandi var einkaerfingi móður sinnar og hafi fasteignin að Gnoðarvogi 82 í Reykjavík tilheyrt dánarbúi móður hennar með umþrættri veðskuld. Réttindi og skyldur sem tilheyrðu dánarbúinu hafa því flust yfir til stefnanda fyrir arftöku. Er ekki fallist á það með stefnda að stefnandi geti ekki verið aðili málsins og eigi ekki lögvarða hagsmuni og breytir engu þótt stefnandi hafi ekki gert athugasemdir gagnvart stefnda áður en arftakan átti sér stað.
Jafnframt er ekki fallist á það að krafa stefnanda hafi fallið niður fyrir samruna réttar og skyldu, enda ekki sýnt fram á hvaða réttindi og/eða skyldur stefnandi hafði gagnvart veðskuldinni áður en arftakan átti sér stað.
Stefnandi byggir á því að við lánveitinguna í febrúar 2006 hafi verið brotið gróflega gegn reglum 1., 3. og 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, og gegn 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Eigi það að leiða til þess að ógilda verði lánveitinguna með vísan til 36. gr. samningslaga nr. 7/1936. Við mat á því hvort það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðsetninguna fyrir sig og samningi skuli vikið til hliðar með stoð í 36. gr., skal samkvæmt 2. mgr. 36. gr. líta til fjögurra þátta:
Í fyrsta lagi ber að líta til efnis þess samnings sem krafa lýtur að. Krafa stefnanda lýtur að samþykki því sem móðir hennar veitti fyrir veðsetningu veðskuldabréfsins. Stefnandi bar fyrir dómi að hafa skrifað undir lánið fyrir hönd móður sinnar en ekkert komið að lánveitingunni að öðru leyti. Hafi móðir hennar verið veðsetningunni samþykk. Af skýrslu stefnanda fyrir dómi og gögnum málsins verður ætlað að hvorki stefnandi né móðir hennar hafi haft einhver samskipti við bankann eða samið um önnur atriði tengd láninu. Ekki er annað leitt í ljós en að stefnandi hafi haft heimild samkvæmt umboðinu til að annast og undirrita veðskjöl fyrir hönd móður sinnar og að það umboð hafi verið gilt.
Í öðru lagi ber að líta til stöðu samningsaðila. Í stefnu greinir að hvorki ábyrgðarmaður né umboðsmaður, þ.e. veðsali eða stefnandi þessa máls, hafi sérstaka menntun eða þekkingu á fjármálagerningum. Ekki var upplýst í málinu um menntun veðsala eða stefnanda eða hvernig staða þeirra kunni að hafa haft áhrif gagnvart lánveitanda, að öðru leyti en því að ætla verði að fjármálafyrirtæki almennt hafi sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Þá verður eins og fram hefur komið ætlað að hvorki stefnandi né móðir hennar hafi haft einhver samskipti við lánveitanda.
Í þriðja lagi ber að líta til atvika við samningsgerð. Greiðslumat lántaka var gert og undirritað af honum og af stefnanda sem umboðsmanni veðsala og maka lántaka. Var því uppfyllt ákvæði 1. mgr. 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga að því leyti. Stefnandi telur að greiðslumatið hafi byggst á villandi og ófullnægjandi upplýsingum um tekjur lántaka og tekjur hans hafi í raun verið allt aðrar. Í stefnu segir að lántaka hafi verið gert að leggja fram skattframtöl og hafi lánveitandi haft undir höndum gögn sem gáfu til kynna réttar tekjur lántaka. Framlögð skattframtöl tekjuáranna 2005 og 2006 staðfestu að matið hafi verið rangt. Lántaki kom fyrir dóminn og bar með þeim hætti að engin gögn hafi legið til grundvallar greiðslumatinu. Hafi þjónustustjóri bankans eingöngu horft til veðandlagsins og sjálfur skráð inn tekjur lántaka og vegna fjárhagserfiðleika hafi hann ákveðið að skrifað undir það. Um þetta verður ekki fullyrt, en ekkert í málinu staðfestir hvort og þá hvaða gögn hafi legið að baki uppgefnum ráðstöfunartekjum í niðurstöðu greiðslumats. Ekki verður sú skylda lögð á stefnda að geyma gögn sem hugsanlega lágu að baki greiðslumatinu um lengri tíma, en fjármálafyrirtæki hefur sjálfstæðar skyldur gagnvart þeim sem gengst í ábyrgð eða veitir veð til tryggingar láni að tryggja að þær upplýsingar séu réttar sé þess kostur og að afla nauðsynlegra gagna. Verður að ætlast til þess að fjármálastofnun geti upplýst á hvaða gögnum matið hefur byggst og ber stefndi hallann af þeirri óvissu. Hins vegar leiðir það ekki til þess að ljóst sé að ranglega hafi verið staðið að gerð greiðslumatsins og að lántaki hefði ekki staðist greiðslumat. Skattframtöl þau sem stefnandi lagði fram máli sínu til stuðnings gátu ekki hafa legið til grundvallar greiðslumati sem fram fór þann 7. febrúar 2006, enda var þá ekki búið að opna á framtalsskil fyrir tekjuárið 2005.
Stefnandi og lántaki báru fyrir dómi að hafa ekki verið í sambúð þegar lánið var tekið í byrjun árs 2006. Hafi stefnandi því ekki vitað um fjárhag lántaka og talið upplýsingar í greiðslumati réttar. Stefnandi upplýsti að samvistarslitin hafi verið haustið 2005 og þau hafi verið gift frá árinu 1976. Ekki eru aðrar upplýsingar um samvistarslit þeirra, en skattframtölum tekjuáranna 2005 og 2006 var skilað sameiginlega og eru þau skráð þar á sama heimili. Í skattframtali fyrir tekjuárið 2005 kemur fram að lántaki hafði engar tekjur á því ári. Sé það rétt má ætla að stefnandi hefði vitað af því, enda slitnaði ekki upp úr sambúð þeirra fyrr en haustið 2005 samkvæmt frásögn stefnanda sjálfrar fyrir dómi.
Stefnandi telur einnig að greiðslumatið hafi ekki verið kynnt fyrir ábyrgðarmanni eins og kveðið sé á um í 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þá hafi henni ekki verið kynntur upplýsingabæklingur um skuldaábyrgðir og veðsetningar. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að hún hafi samkvæmt umboði sínu skýrt móður sinni frá fyrirhugaðri lántöku og hafi móðir hennar verið sammála því að lánið yrði veitt. Stefnandi undirritar niðurstöður um greiðslumat lántaka, persónulega og samkvæmt umboði frá móður sinni. Þar kemur fram að hún hafi kynnt sér upplýsingar sem fram koma í greiðslumati, jafnframt því sem hún undirritar: „Við höfum fengið og kynnt okkur upplýsingabækling um sjálfskuldarábyrgð og lánsveð“. Stefnandi var spurð fyrir dómi hvers vegna hún hefði skrifað undir ef þetta var ekki rétt. Bar hún þá að það hlyti að vera þannig að henni hafi verið sagt að gera það, en það var ekki útskýrt frekar.
Í niðurstöðum greiðslumats kemur fram að meira en helmingi af lánsfjárhæð verði varið til greiðslu á skuldum lántakanda hjá lánveitanda. Í gögnum málsins kemur fram að áætluð upphæð er 9.018.000 krónur, eða innan við helmingur af láninu. Í skýrslu sinni fyrir dómi dró lántaki í efa að sú fjárhæð væri rétt. Ekkert liggur fyrir í málinu um hversu hárri fjárhæð var endanlega varið til uppgreiðslu skulda lántaka eða hversu háa fjárhæð lántaki fékk greidda út.
Í fjórða lagi ber að líta til atvika sem síðar komu til. Stefnandi eða dánarbú móður stefnanda gerði fyrst athugasemdir í mars 2012, meira en sex árum eftir að stefnanda var kunnugt um að veðleyfið var veitt. Ekki liggur fyrir hvenær móðir stefnanda lést. Þá liggur ekkert fyrir um önnur atriði, svo sem um fjárhagsstöðu lántaka eða stefnanda í dag eða breytingar á henni. Ekkert liggur fyrir um framvindu eða stöðu þess veðskuldabréfs sem mál þetta varðar eða þróun á verðmæti hinnar veðsettu eignar á því tímabili sem um ræðir.
Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum, meðal annarra nýlegan dóm frá 17. desember 2015, nr. 346/2015, ber að virða framangreind atriði heildstætt. Er það mat dómsins að þegar allt framangreint er virt, þá sé ekki hægt að fallast á það með stefnanda að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og/eða 36. gr. samningslaga nr. 7/1936, að stefndi beri fyrir sig samþykki fyrir þeirri veðskuld sem móðir stefnanda gaf þann 7. febrúar 2006.
Með vísan til þessa ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Stefnandi fékk gjafsókn innanríkisráðuneytis með gjafsóknarleyfi, dags. 26. júní 2015. Allur gjafsóknarkostnaður, sem er þóknun lögmanns stefnanda, Magnúsar Davíðs Norðdahl hdl., sem ákveðst hæfileg 800.000 krónur greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Ólafar Elfu Sigvaldadóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, sem er þóknun lögmanns hans, Magnúsar Davíðs Norðdahl hdl., sem ákvarðast hæfileg 800.000 krónur.