Hæstiréttur íslands
Mál nr. 271/2011
Lykilorð
- Fasteign
- Galli
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 2. febrúar 2012. |
|
Nr. 271/2011. |
Snorri
Hjaltason (Hákon Árnason hrl.) gegn Guðmundi
Kristni Sveinssyni og Svanhildi
Kristinsdóttur (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Fasteign. Galli. Skaðabætur.
T hf. höfðaði mál á hendur G og S til greiðslu
eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi um raðhús í smíðum. Þau kröfðust
sýknu og höfðuðu jafnframt mál á hendur félaginu til heimtu skaðabóta eða
afsláttar vegna galla á hinu selda og stefndu einnig SH sem verið hafði
byggingarstjóri við húsbygginguna. Kröfugerð G og S var reist á niðurstöðu
matsgerðar. Í Hæstarétti var fallist á ábyrgð SH sem byggingarstjóra hússins
vegna fjölmargra verkliða utan þeirra er lutu að hönnun sem væri þess eðlis að ekki
félli undir ábyrgð byggingarstjóra.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2011. Hann krefst aðallega
sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til
vara að krafa stefndu verði lækkuð og
málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir
Hæstarétti.
I
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði verktakafyrirtækið
Týrus hf., áður THS verktakar hf., mál á hendur stefndu til greiðslu
eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi 2. mars 2006 um raðhús í smíðum að
Lyngdal 1, Vogum Vatnsleysuströnd. Samkvæmt samningnum skyldi félagið skila
eigninni í nóvember 2006 fullbúinni að innan en án gólfefna og að utan eftir
skilalýsingu er teldist hluti samningsins. Var íbúðin afhent stefndu 24.
febrúar 2007. Stefndu kröfðust sýknu meðal annars með yfirlýsingu um
skuldajöfnuð en höfðuðu jafnframt mál á hendur félaginu til greiðslu skaðabóta
eða afsláttar vegna ætlaðra galla á hinu selda. Var áfrýjanda einnig stefnt til
greiðslu skaðabóta sömu fjárhæðar en hann var byggingarstjóri við
húsbygginguna. Í þinghaldi 7. október 2010 voru málin sameinuð. Kröfugerð
stefndu var í nokkrum liðum og reist á matsgerð dómkvaddra manna. Með hinum
áfrýjaða dómi voru stefndu sýknuð af kröfu Týrusar hf., en félaginu gert að
gefa út afsal fyrir fasteigninni auk þess að greiða stefndu 1.496.509 krónur í
skaðabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti
og verðtryggingu frá 28. mars 2010 til greiðsludags. Af þessari fjárhæð var
áfrýjandi dæmdur til að greiða óskipt með félaginu 1.269.048 krónur með sömu
vöxtum. Týrus hf. undi héraðsdómi.
II
Málsástæðum og lagarökum aðila er lýst í héraðsdómi. Lýtur ágreiningur þeirra
fyrst og fremst að því hvort fasteign stefndu sé haldin slíkum annmörkum að þau
eigi rétt á skaðabótum úr hendi áfrýjanda á grundvelli ábyrgðar hans sem
byggingarstjóra, umfram þá fjárhæð sem stefndu hafa nýtt til skuldajafnaðar við
kröfu Týrusar hf. um greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignarinnar. Eins og
nánar er rakið í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfu sína um sýknu ýmist á því að
skaðabótaábyrgð hans sem byggingarstjóra að umræddu verki nái ekki til þeirra
verkliða sem bótakrafa stefndu lýtur að eða stefndu hafi ekki sannað að þau
hafi orðið fyrir tjóni.
Sem
byggingarstjóri við smíði umrædds húss var áfrýjandi framkvæmdastjóri verksins
samkvæmt 3. mgr. 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og
bar sem slíkum að ráða eða samþykkja ráðningu iðnmeistara eða uppsögn þeirra. Á
honum hvíldi og ábyrgð á því að byggt yrði í samræmi við samþykkta uppdrætti,
lög og reglugerðir.
Eins
og fram kemur í héraðsdómi hefur Hæstiréttur fjallað um skaðabótaábyrgð
byggingarstjóra, sbr. dóma réttarins 20. desember 2005 í máli nr. 267/2005, 13.
mars 2008 í máli nr. 318/2007, 5. nóvember 2009 í máli nr. 37/2009, 4. mars
2010 í máli nr. 369/2009 og 20. maí 2010 í máli 459/2010. Af þessum dómum
verður dregin sú ályktun að ábyrgð áfrýjanda við byggingarframkvæmdir þær sem
um ræðir í þessu máli hafi ekki einvörðungu falist í að sjá til þess að byggt
yrði í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, heldur hafi honum
einnig borið skylda til að hafa yfirumsjón og eftirlit með þeim framkvæmdum sem
hann stýrði. Þar á meðal bar áfrýjanda að sjá til þess að iðnmeistarar, sem
komu að verkinu fyrir hans atbeina, sinntu skyldum sínum og að framkvæmdin væri
tæknilega og faglega fullnægjandi, sbr. áðurnefnd 3. mgr. 51. gr. laga nr.
73/1997. Gögn málsins bera ekki með sér að úttektir hafi farið fram miðað við
það byggingarstig sem skilalýsing kvað á um. Fellir stefndi á sig
skaðabótaábyrgð með ólögmætri og saknæmri vanrækslu á framangreindum skyldum að
öðrum bótaskilyrðum fullnægðum.
III
Krafa
stefndu skiptist í marga liði og styðst við matsgerð, sem staðfest hefur verið
fyrir dómi og ekki hnekkt með yfirmati. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi,
sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, voru ágallar sem fjallað er um í
matsliðum nr. 1c, 2, 3, 4, 5, 6, 9a, 11, 12, 13, 14, 15, 16, 17, 20 og 23 sem
og svokölluðum viðbótarmatsliðum 2 og 3 til komnir vegna vansmíði við verkið og
þess eðlis að fella ber undir eftirlitsskyldu áfrýjanda sem byggingarstjóra að
verkinu. Með framangreindum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til
forsendna hins áfrýjaða dóms, verður niðurstaða hans því staðfest um
skaðabótaábyrgð áfrýjanda á tjóni stefndu samkvæmt þessum liðum og með þeim
vöxtum sem í héraðsdómi greinir.
IV
Um
kröfulið 1b er í matsgerð tiltekið að yfirfara þurfi opnanleg fög og stilla á
járnum. Þá er nefnt að gæta þurfi þess að allir gluggar í húsinu séu lokaðir í
miklum vatnsveðrum. Á hinn bóginn er sérstaklega tilgreint í matsgerðinni að
hvorki væri unnt að staðreyna leka með opnanlegum fögum né að til staðar væri
óeðlilegur loftleki. Af þessu verður ekki ráðið að um sé að ræða galla sem
fellur undir ábyrgðarsvið áfrýjanda. Verður hann því sýknaður af þessum
kröfulið, sem nemur 19.920 krónum.
Með
lið 1e gera stefndu kröfu um lagfæringu á útihurð og gönguhurð á bílskúr, en
samkvæmt matsgerð var staðreyndur leki með hurðunum. Í matsgerðinni er metinn
kostnaður vegna þessa liðar 150.000 krónur. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á
skaðabótaskyldu Týrusar hf. samkvæmt þessum lið með 120.536 krónum, sökum þess
að dreginn var frá virðisaukaskattur vegna vinnu, en áfrýjandi jafnframt dæmdur
til greiðslu hluta þess kostnaðar, eða 70.536 krónur. Í matsgerð er að finna
allítarlega umfjöllun um skoðun á hurðum þessum. Þar segir að ekki hafi sést
leki á útihurð og gönguhurð í bílskúr, en „ummerki eru þess eðlis að ætla má að
þar hafi lekið.“ Af matsgerð verður ráðið að hönnun hafi verið frábrugðin því
sem tíðkist hér á landi. Er mælt með breytingum á hurðunum á grundvelli nýrrar
hönnunar. Af því sem að framan er rakið verður að ætla að orsök leka felist í
ófullnægjandi hönnun sem sé þess eðlis að ekki falli undir ábyrgð
byggingarstjóra. Verður áfrýjandi því sýknaður af þeim hluta þessa kröfuliðar
sem til endurskoðunar er fyrir Hæstarétti, eða 70.536 krónum.
V
Eins og áður greinir var áfrýjandi
með héraðsdómi dæmdur til að greiða stefndu óskipt með Týrusi hf. 1.269.048
krónur með tilgreindum vöxtum og undi Týrus hf. dómi. Samkvæmt framansögðu verður
héraðsdómur staðfestur um óskipta greiðsluábyrgð áfrýjanda með Týrusi hf. á 1.178.592
krónum með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um
málskostnað verður staðfest.
Þar sem niðurstaða héraðsdóms er
staðfest að öllu verulegu er rétt að áfrýjandi greiði stefndu málskostnað eins
og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Snorri Hjaltason, greiði stefndu Guðmundi Kristni Sveinssyni og
Svanhildi Kristinsdóttur, 1.178.592 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr.
6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. mars 2010 til
greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefndu 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. febrúar 2011.
Mál þetta, sem var dómtekið 11.
fyrri mánaðar, var annars vegar höfðað 22. apríl 2009, en hins vegar 22. júní
2010. Málin voru sameinuð, í samræmi við sameiginlega ósk aðalstefnanda og
gagnstefnenda, í þinghaldi 7. október 2010 með heimild í 1. mgr. 30. gr. laga
nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda horfði það til hagræðis þar sem ljóst
var að sakarefni málanna voru nátengd og sönnunarfærsla með sama hætti í þeim
báðum. Ekki voru gerðar athugasemdir við þessa meðferð málsins af hálfu stefnda
og réttargæslustefnda.
Aðalstefnandi er Týrus hf.,
Kirkjustétt 2-6, Reykjavík.
Gagnstefnendur eru Guðmundur
Kristinn Sveinsson og Svanhildur Kristinsdóttir, bæði til heimilis að Lyngdal
1, Vogum.
Stefndi er Snorri Hjaltason,
Ólafsgeisla 11, Reykjavík.
Vátryggingafélagi
Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.
Aðalstefnandi
krefst þess í aðalsök að gagnstefnendum verði in solidum gert að greiða sér
1.241.879 krónur með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um
vexti og verðtryggingu frá 24. mars 2007 til greiðsludags. Þá er krafist
málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Gagnstefnendur
krefjast í aðalsök aðallega sýknu en til vara umtalsverðrar lækkunar. Þá
krefjast þau málskostnaðar.
Endanleg
dómkrafa gagnstefnenda í gagnsök er að aðalstefnandi og stefndi verði dæmdir in
solidum til að greiða þeim 2.879.266 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1.
mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. mars 2010 til
greiðsludags, og að aðalstefnandi verði dæmdur til að gefa út afsal til þeirra
fyrir fasteigninni Lyngdal 1, Vogum, fastanúmer 228-4178. Þá krefjast þau
málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Endanlegar
dómkröfur aðalstefnanda í gagnsök eru þær aðallega að hann verði sýknaður og
honum dæmdur málskostnaðar, en til vara krefst hann lækkunar krafna
gagnstefnenda og niðurfellingar málskostnaðar.
Stefndi
og réttargæslustefndi skiluðu sameiginlegri greinargerð í málinu 15. september
2010. Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum
kröfum gagnstefnenda og sér dæmdur málskostnaður. Réttargæslustefndi gerir ekki
sjálfstæðar dómkröfur.
Undir
rekstri málsins var nafni aðalstefnanda breytt úr TSH verktakar hf. í Týrus hf.
I
Mál þetta höfðaði aðalstefnandi
í aðalsök gegn gagnstefnendum 22. apríl 2009 og krafði þau um greiðslu
eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi um fasteignina Lyngdal 1, Vogum.
Gagnstefnendur kröfðust sýknu. Með stefnu birtri 22. júní 2010 höfðuðu
gagnstefnendur mál gegn aðalstefnanda vegna galla á fasteigninni. Var kröfum
beint að, auk aðalstefnanda, stefnda sem byggingarstjóra fasteignarinnar og
tryggingafélagi hans til réttargæslu. Stefndi krafðist aðallega frávísunar
málsins, en í þinghaldi 7. október 2010 féll hann frá þeirri kröfu. Í þinghaldi
þann dag voru málin sameinuð með heimild í b. lið 1. mgr. 30. gr. laga nr.
91/1991 um meðferð einkamála að ósk aðalstefnanda og gagnstefnenda, en stefndi
og réttargæslustefndi gerðu ekki athugasemdir við þá málsmeðferð.
Málavextir eru þeir að
gagnstefnendur keyptu af aðalstefnanda fasteignina Lyngdal 1, Vogum, með
kaupsamningi 2. mars 2006. Samkvæmt kaupsamningi skyldi kaupverð vera
24.300.000 krónur sem skyldi greiðast þannig: 1.000.000 krónur við undirritun
kaupsamnings, 18.000.000 krónur við fokheldi, 4.500.000 krónur við afhendingu
og 800.000 krónur við lokafrágang.
Gagnstefnendur hafa greitt allar
greiðslur fyrir utan 800.000 króna lokagreiðslu. Við afhendingu fasteignarinnar
var fylltur út sérstakur gátlisti og athugasemdir gagnstefnenda skráðar. Aðalstefnandi
kveðst hafa bætt úr þeim athugasemdum að fullu. Gagnstefnendur hafi beðið um
aukaverk sem aðalstefnandi hafi unnið. Hafi það kostað 441.879 krónur og hafi
átt að greiðast við afhendingu.
Fasteignin að Lyngdal 1, Vogum,
er 124,1 m² raðhús auk 31,1 m² bílskúrs. Var húsið nýbygging byggð af
aðalstefnanda og var stefndi byggingarstjóri þess. Samkvæmt kaupsamningi skyldi
fasteignin afhendast fullbúin án gólfefna. Afhending skyldi fara fram í
nóvember 2006. Afhending fasteignarinnar dróst hins vegar og var hún afhent í
febrúar 2007.
Gagnstefnendur kveðast fljótlega
eftir afhendingu eignarinnar hafa orðið vör við margvíslega galla á henni. Þau
hafi látið vita af göllunum um leið og þeirra hafi orðið vart, en ekkert hafi
orðið af lagfæringum. Afsal hefur ekki verið gefið út og lokaúttekt hefur ekki
farið fram. Aðalstefnandi segir að bætt hafi verið úr þeim athugasemdum sem
gerðar hafi verið við afhendingu.
Gagnstefnendur sendu
aðalstefnanda bréf 9. mars 2009 þar sem þess var krafist að hann myndi bæta úr
ágöllum á fasteigninni. Ekkert svar barst frá aðalstefnanda. Í kjölfarið fengu
gagnstefnendur sérfróðan byggingaraðila til að leggja mat á ástand
fasteignarinnar.
Á dómþingi 23. júní 2009 var
þess krafist að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að meta
nánar tilgreind atriði varðandi fasteignina. Voru þá dómkvaddir þeir Símon
Reynir Unndórsson rafmagnstæknifræðingur og Hjalti Sigmundsson
byggingatæknifræðingur og húsasmíðameistari. Í þinghaldi 30. nóvember 2009 voru
þeir Símon og Hjalti dómkvaddir sem matsmenn vegna viðbótarmatsgerðar að beiðni
gagnstefnenda. Er matsgerð þeirra vegna beggja matsbeiðna dagsett 15. febrúar
2010. Var það niðurstaða matsmanna að heildarkostnaður við úrbætur vegna þeirra
atriða sem lagt var fyrir matsmenn að meta nemi 4.209.000 krónum.
Gagnstefnendur sendu
aðalstefnanda og stefnda bréf 28. febrúar 2010 þar sem skorað var á þá að
greiða kröfur þeirra vegna galla á fasteigninni að frádreginni fjárhæð vegna
lokagreiðslu kaupsamnings milli gagnstefnenda og aðalstefnanda. Sams konar
erindi var sent réttargæslustefnda 2. mars 2010 þar sem gerð var krafa um að
félagið léti í ljós afstöðu sína til greiðsluskyldu úr starfsábyrgðartryggingu
byggingarstjóra, stefnda, en hann hafði slíka tryggingu í gildi hjá
réttargæslustefnda. Í svari frá réttargæslustefnda, með tölvupósti 10. júní
2010, var gagnstefnendum tilkynnt að ekki væri fallist á að byggingarstjóri
bæri bótaábyrgð á öllum þeim göllum sem lýst væri í matsgerð dómkvaddra
matsmanna. Hins vegar var bótaábyrgð viðurkennd vegna nokkurra galla, en metinn
kostnaður vegna þeirra liða var 1.106.000 krónur. Að frádregnum
virðisaukaskatti vegna vinnuliðar á byggingarstað var félagið reiðubúið að
greiða bætur samtals að fjárhæð 924.350 krónur. Með tölvupósti 18. júní 2010
óskuðu gagnstefnendum eftir því við réttargæslustefnda að þeim yrðu greiddar
viðurkenndar bætur, með fyrirvara, og að allur réttur væri áskilinn til að bera
aðra kröfuliði undir dómstóla, þ.m.t. alla staðreynda galla samkvæmt
fyrirliggjandi matsgerð sem og annað hugsanlegt tjón. Réttargæslustefndi
greiddi gagnstefnendum 924.350 krónur 25. júní 2010 í samræmi við framangreint
tilboð.
Við aðalmeðferð málsins gaf
gagnstefnandinn Guðmundur Kristinn Sveinsson skýrslu fyrir dóminum, svo og
vitnin Kristján Imsland, fyrrverandi starfsmaður aðalstefnanda, Hjalti
Sigmundsson og Símon Reynir Unndórsson dómkvaddir matsmenn.
II
Aðalstefnandi byggir kröfu sína
í aðalsök á því að ógreiddar eftirstöðvar kaupsamnings séu 800.000 krónur. Þá
hafi gagnstefnendur beðið um aukaverk sem hafi kostað 441.879 krónur og hafi
átt að greiðast við afhendingu. Aðalstefnandi hafi ítrekað beðið gagnstefnendur
um að ganga frá afsali en þau hafi hafnað því. Gerð sé krafa um dráttarvexti
frá 24. mars 2007 en bætt hafi verið úr ágöllum samkvæmt afhendingarlista innan
þess tíma. Gagnstefnendum hafi verið send innheimtuviðvörun með boði um að
ljúka málinu án vaxtagreiðslu en á það hafi ekki verið fallist. Gagnstefnendur
hafi með undirritun sinni á kaupsamninginn skuldbundið sig til að greiða
umsamið kaupverð í samræmi við skilmála hans. Aðalstefnandi hafi uppfyllt
skyldur sínar samkvæmt kaupsamningnum og beri gagnstefnendum að standa skil á
greiðslu kaupverðsins.
Vísað er til meginreglu
kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi loforða. Einnig
er vísað til laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, aðallega 49., 50., 53. og 61.
gr. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður aðalstefnandi við vaxtalög
nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991
um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á
lögum nr. 50/1988. Aðalstefnandi kveðst ekki virðisaukaskattsskyldur og beri
honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi gagnstefnenda. Um
varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.
III
Gagnstefnandi byggir kröfu sína
um sýknu í aðalsök á því að hin selda eign sé haldin verulegum ágöllum í
skilningi 18. og 19. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og kostnaður við
úrbætur nemi að minnsta kosti þeirri fjárhæð sem nemi dómkröfum aðalstefnanda.
Ljóst sé að fasteignin standist engan veginn þær kröfur sem gerðar séu til
nýrra eigna þar sem um margvíslega galla sé að ræða. Þá hafi aðalstefnandi ekki
lagfært alla hluti sem gerð hafi verið athugasemd við í afhendingarlista.
Gagnstefnendur telji galla eignarinnar rýra verðmæti hennar svo verulega að þau
eigi rétt til skaðabóta, sbr. 43. gr. laga nr. 40/2002, en ella beri að veita
afslátt í samræmi við kostnað við að bæta úr göllum, sbr. 41. gr. sömu laga.
Krafan taki mið af kostnaði við úrbætur, en sú fjárhæð sé hærri eða að minnsta
kosti sú sama og dómkrafa aðalstefnanda í málinu.
Gagnstefnendur hafi keypt
fasteign í byggingu af aðalstefnanda og mátt vænta þess að eignin fullnægði
þeim kröfum sem gerðar séu til nýrra fasteigna. Telji þau aðalstefnanda hafa
vanrækt sinn hluta kaupsamningsins þar sem eignin standist ekki þær kröfur sem
leiða megi af kaupsamningi auk þeirra krafna sem gera megi til nýrrar
fasteignar. Þau hafi réttilega gert ráð fyrir því að fasteignin væri í
fullnægjandi ásigkomulagi við afhendingu en ágallar hafi komið í ljós. Um hafi
verið að ræða galla sem þau hafi ekki getað séð fyrir við undirritun
kaupsamningsins, enda hafi þau keypt eignina meðan hún hafi verið í byggingu.
Séu umrædd kaup neytendakaup í skilningi 6. gr. laga nr. 40/2002, en í því
felist meðal annars að gerðar séu um sumt meiri kröfur til eiginleika
fasteignar en í öðrum kaupum.
Gagnstefnendur hafi ekki séð sér
annað fært eftir árangurslausar viðræður um lausn á málinu en að halda eftir
hluta kaupverðs samkvæmt kaupsamningnum sem myndi nægja til að tryggja greiðslu
vegna kostnaðar við lagfæringar á umræddum göllum. Um heimild til að halda
eftir greiðslu er vísað til 44. gr. laga nr. 40/2002. Gagnstefnendur haldi fram
gagnkröfu til skuldajafnaðar allt að fjárhæð eftirstöðva greiðslunnar vegna
gallanna og ófullkominna efnda samkvæmt kaupsamningi og lýsi yfir skuldajöfnuði
á móti dómkröfu aðalstefnanda. Gagnkrafan, sem sé reist á 1. mgr. 28. gr. laga
nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sé skaðabótakrafa með vísan til 43. gr. laga
nr. 40/2002 en til vara afsláttarkrafa með vísan til 41. gr. sömu laga.
Til vara gera gagnstefnendur
kröfu um að dómkrafa aðalstefnanda verði lækkuð umtalsvert. Sú krafa sé sett
fram sem öryggisventill verði talið að gagnstefnendur eigi rétt til skaðabóta
eða afsláttar lægri fjárhæðar en þau hafi haldið fram. Til stuðnings
varakröfunni sé vísað til allra sömu málsástæðna og til stuðnings aðalkröfu um
sýknu að breyttu breytanda.
Þá hafi gagnstefnendur greitt
reikning frá Rafkerfum ehf. vegna rafmagnsvinnu, sbr. reikning dagsettan 21.
febrúar 2007 að fjárhæð 179.131 króna. Hafi aðalstefnanda verið kunnugt um þann
reikning og ljóst að gagnstefnendur verði ekki krafin tvisvar um greiðslu vegna
þeirrar vinnu. Þegar af þeirri ástæðu beri að minnsta kosti að lækka dómkröfu
aðalstefnanda sem nemi þeirri fjárhæð.
Gagnstefnendur mótmæla
dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda og telja, verði þau dæmd greiðsluskyld að
einhverju leyti, að krafan beri ekki dráttarvexti fyrr en frá og með
dómsuppsögu samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Benda
þau á í því sambandi að réttlætanlegt hafi verið að halda eftir
lokagreiðslunni, sbr. 44. gr. laga nr. 40/2002 og að greiðslan sem haldið hafi
verið eftir teljist því ekki vanefnd af hálfu þeirra.
Gagnstefnendur vísa til
meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga sem og laga nr. 40/2002
um fasteignakaup, sérstaklega ákvæða 6., 18., 19., 41., 43., og 44. gr. Þá vísa
þau til 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna gagnkröfu til
skuldajafnaðar. Vegna dráttarvaxtakröfu er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti
og verðtryggingu, einkum 7. gr. Um málskostnaðarkröfu er vísað til ákvæða XXI.
kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gerð er krafa um að við ákvörðun
málskostnaðar verði gætt skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af þóknun
lögmanns síns.
IV
Gagnstefnendur
byggja kröfur sínar í gagnsök á því að þeir eigi rétt á skaðabótum eða
afslætti. Fasteignin að Lyngdal 1, Vogum, sé haldin verulegum göllum í
skilningi 18. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Kröfur sínar
um greiðslu skaðabóta styðja þau aðallega við 43. gr. laganna. Til stuðnings
kröfum sínum vísa þau til matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 15. febrúar 2010,
en þar séu hinir ýmsu gallar staðreyndir.
1.
matsliður. Gagnstefnendur hafi óskað eftir því að metinn yrði frágangur og
ísetning glugga og hurða fasteignarinnar. Matsmaður hafi staðreynt að ísetning
og frágangur glugga í fasteigninni væri ófullnægjandi, nánar tiltekið að
festing þeirra sé ekki nægjanleg, að það vanti burðarfestingar undir glugga og
að þéttingar við glugga séu ófullnægjandi. Einnig hafi verið staðreynt að
glerlista vanti með gleri í opnanlegt fag í stofuglugga á austurhlið og að
fagið sjálft sé sigið. Frágangur á hurðum í útvegg sé ófullnægjandi á sama hátt
og frágangur glugga og hurðir hafi sigið niður að framanverðu. Þá hafi
matsmaður staðreynt af ummerkjum og gerð útidyrahurðar og gönguhurðar á bílskúr
að það leki inn með þeim. Matmaður telji að gera þurfi úrbætur og sé metinn
kostnaður vegna þessa matsliðar 1.026.000 krónur.
2.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að á ýmsum stöðum á álklæðningu
eignarinnar séu skemmdir, ýmist dældir eða rispur. Telji matsmaður líklegt að
skemmdir megi rekja til atvika á framkvæmdatíma. Á vesturhlið séu
málningarslettur sem geti stafað frá framkvæmdatíma. Matsmaður hafi staðreynt
að klæðning á veggflötum yfir þaki sé lítið fest og gefi mikið eftir ef þrýst
sé á hana. Telji matsmaður að ekki sé grind undir klæðningunni. Þá hafi
matsmaður staðreynt að mýs geti komist inn í klæðningu við jörðu þar sem gap sé
á milli z-laga áfellu og áfellu neðst við báruálklæðningu. Matsmaður telji að
gera þurfi úrbætur eins og fram komi í matsgerð. Sé metinn kostnaður vegna
þessa matsliðar 564.000 krónur.
3.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að ryðblettir séu á endum þakjárns við
skotrennur í þakfleti. Telji matsmaður að stálið hafi að öllum líkindum verið
skorið með skurðarskífu, en slíkt sé ekki æskilegt vegna þess að við það
skemmist stálhúðin, sem sé álzink húð sem sé til varnar því að ryð myndist á
stálinu. Matsmaður hafi jafnframt staðreynt að þakjárnið sé lagt með röngum
hætti niður í skotrennur og að skotrenna sé ekki rétt sköruð við þakjárn og
kantáfellur. Matsmaður telji að gera þurfi úrbætur eins og lýst sé í matsgerð
og sé metinn kostnaður vegna þessa matsliðar 292.000 krónur.
4.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að lóðin sé óslétt og að pollar standi
á lóð í rigningu. Telji matsmaður að jafna þurfi lóðina. Sé metinn kostnaður
við endurbætur 295.000 krónur.
5.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að flísar væru brotnar undir
bílskúrshurð og að svo virðist sem frágangi sé ólokið. Telji matsmaður að gera
þurfi úrbætur og sé metinn kostnaður vegna þessa matsliðar 16.000 krónur.
6.
matsliður. Matsmaður telji að frágangur þakkants sé ófullnægjandi. Vísi
hann sérstaklega til þess að listar neðan í þakkant og borð framan á þakkant
séu fest með heftum. Telji hann faglegt og eðlilegt að festa borðin með skrúfum
eða nöglum sem hafi meiri styrk en hefti. Sé metinn kostnaður vegna þessa liðar
90.000 krónur.
7.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að ekki hafi verið gengið frá
sorptunnuskýli í samræmi við samþykktar teikningar. Telji hann að gera þurfi
úrbætur eins og kveðið sé á um í matsgerð og sé metinn kostnaður 110.000
krónur.
8.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að hnappur fyrir útidyrabjöllu sé
staðsettur í 1,43 m hæð frá frágengnu yfirborði jarðar, en samkvæmt teikningum
eigi hnappurinn að vera í 1,25 m hæð. Telji matsmaður að gera þurfi úrbætur og
sé metinn kostnaður við þær 15.000 krónur.
9.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að frávik (veggskekkjur) séu á mörgum
stöðum í útveggjum hússins. Telji hann að þau séu meiri á vestur- og austurvegg
í stofu en eðlilegt sé að miða við. Þá hafi hann staðreynt að frávik séu í
millivegg við herbergi í suð-austur horni hússins sem valdi því að ekki sé unnt
að setja hurð rétt í. Matsmaður telji að gera þurfi úrbætur og sé metinn
kostnaður vegna þeirra 217.000 krónur.
11.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að áberandi skekkja sé á kverk útveggs
að vestanverðu og lofts í stofu og að hún sé meiri en eðlilegar viðmiðanir.
Kverkin sé áberandi skökk og skekkjan magnist upp vegna fráviks í veggjum.
Metinn kostnaður vegna úrbóta í þessum matslið sé 175.000 krónur.
12.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að frávik (gólfhalli) sé á öllum gólfum
í húsinu. Frávik á gólfi í stofu, barnaherbergi við vesturhlið, hjónaherbergi
og barnaherbergi í suð-austurhorni séu meiri en eðlilegt og faglegt sé að miða
við. Gera þurfi úrbætur og sé metinn kostnaður við þær 138.000 krónur.
13.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að útsetning á flísalögn á gólfi
baðherbergis sé ekki rétt, þ.e. skökk miðað við veggi, sem valdi því að flísar
við veggi og baðker séu ekki jafn stórar. Frávik sé það mikið að af hljótist
nokkuð útlitslýti. Þá hafi matsmaður staðreynt að á gólffleti við dyr sé
mislöndun á flísum meiri en eðlilegt sé að miða við. Telji matsmaður að gera
þurfi úrbætur og sé metinn kostnaður við þær 257.000 krónur.
15.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að festing á eyju í eldhúsinnréttingu
sé ekki nægjanleg sem valdi því að hún hreyfist mikið undan eðlilegri umgengni.
Hafi matsmaður staðreynt að eyjan skjálfi mikið þegar skúffum sé lokað eða
slegið létt á kant borðplötunnar. Sé metinn kostnaður við úrbætur 85.000 krónur
samkvæmt leiðréttingarskjali með matsgerð.
16.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að hvorki sé loftrás né opnanlegur
gluggi í bílskúr fasteignarinnar. Telji matsmaður að einfaldast sé að koma
fyrir rist í spjald í gönguhurð og sé metinn kostnaður við þessar úrbætur
20.000 krónur.
17.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að málning á veggjum og loftum og
undirvinna hennar sé á ýmsan hátt ófullnægjandi og ófagleg. Matsmaður bendi á
að víða sé á blettum ekki fullmálað, á nokkrum stöðum séu óhreinindi og kusk í
málningunni, pensilför séu áberandi á mörgum stöðum og spörslun á loftum sé
óvönduð á köflum. Metinn kostnaður við úrbætur sé 260.000 krónur.
18.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að hurð á barnaherbergi halli og sé
snúin, en það stafi af frávikum í vegg, þ.e. veggskekkjum. Sé vísað um þetta
til 9. matsliðar.
20.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að stillinemar fyrir gólfhita séu
staðsettir í 1,10 m hæð frá gólfi. Vísi matsmaður til þess að samkvæmt
leiðbeiningum frá framleiðanda hitastillanna eigi hæð þeirra að vera 1,60 m frá
gólfi. Metinn kostnaður vegna þessa liðar sé 45.000 krónur.
21.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að ekkert loftnetstengi sé í
rafmagnstöflu og ekkert loftnet á þaki hússins eins og fram komi á teikningum.
Metinn kostnaður vegna þessa matsliðar sé 65.000 krónur.
22.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að ljós í þvottahúsi sé ekki rakahelt.
Vísi hann til þess sem fram komi í kaupsamningi um fasteignina, sbr. lið 5, að
föst ljós og ljósakúplar skuli vera í þvottahúsi. Matsmaður telji að ber pera
geti ekki túlkast sem ljósakúpull. Telji matsmaður að gera þurfi úrbætur og séu
þær metnar á 24.000 krónur.
23.
matsliður. Matsmaður hafi staðreynt að handklæðaofn á baðherbergi hitni
ekki og telji það stafa af bilun í þrýstijafnara. Matsmaður telji að gera þurfi
úrbætur og sé metinn kostnaður 100.000 krónur.
1.
viðbótarmatsliður. Matsmaður telji að ekki sé vatnslás á steypuskilum milli
útveggja og gólfplötu/sökkuls. Vísi hann til þess að af samþykktum
burðarvirkjateikningum megi ráða að sökkulveggi hafi átt að steypa í hæð undir
gólfplötu. Gólfplötu hafi síðan átt að steypa út á miðjan sökkulvegg, þannig að
vatnslás myndist þegar veggur sé steyptur. Ekki hafi verið steypt eftir
teikningum, heldur séu steypuskil við efri brún gólfplötu. Telji matsmaður að
faglegt og eðlilegt sé að vatnslás sé gerður á steypuskilum til að minnka líkur
á að vatn berist inn um þau. Matsmaður telji að gera þurfi úrbætur eins og fram
komi í matsgerð. Sé metinn kostnaður vegna þessa matsliðar 176.000 krónur.
2.
viðbótarmatsliður. Matsmaður hafi staðreynt að frágangur á sökkulskauti sé
ekki í samræmi við teikningar og að það vanti spennujöfnun milli heitra og
kaldra vatnsröra. Telji matsmaður að gera þurfi úrbætur eins og lýst sé í
matsgerðinni og sé metinn kostnaður vegna þessa 20.000 krónur.
3.
viðbótarmatsliður. Matsmaður hafi staðreynt að ósamræmi sé í frágangi loka
á loftdósum. Á nokkum stöðum sé hefðbundið lok á dós, en á öðrum stöðum lok með
krans. Telji matsmaður að notkun dósa með krans sé ekki eðlileg og væntanlega
hafi þær verið notaðar þar sem einhver göt í loftinu hafi verið of stór fyrir
hefðbundið lok. Sé metinn kostnaður við úrbætur vegna þessa matsliðar 50.000
krónur.
Samkvæmt
matsgerð dómkvaddra matsmanna sé heildarkostnaður vegna lagfæringa
framangreindra ágalla 4.209.000 krónur. Heildarkostnaður samkvæmt matsgerð taki
mið af öllum kostnaði auk virðisaukaskatts.
Gagnstefnendur
reisi kröfur sínar á því að aðalstefnandi og stefndi beri ábyrgð á þeim göllum
sem leiddir hafi verið í ljós með framangreindri matsgerð. Þau telji sannað,
með matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna og með hliðsjón af öðrum gögnum, að
verulegir ágallar séu á fasteign þeirra og að framkvæmdin hafi ekki verið í
samræmi við teikningar í verulegum atriðum, góðar venjur og fagleg vinnubrögð.
Gagnstefnendur vísi til þess að um nýja fasteign sé að ræða og hafi
aðalstefnandi og stefndi alfarið annast byggingu hennar og allan frágang, nánar
tiltekið hafi aðalstefnandi verið byggingaraðili og stefndi byggingarstjóri, en
hann hafi verið eigandi og stjórnarformaður aðalstefnanda. Ljóst sé að
fasteignin standist engan veginn þær kröfur sem gerðar séu til nýrra eigna enda
um margvíslega galla að ræða og sé ástand eignarinnar mun verra en þau hafi
mátt gera ráð fyrir.
Gagnstefnendur
byggi á því að aðalstefnandi og stefndi hafi bakað sér bótaábyrgð þar sem
fasteignin standist ekki þær kröfur sem leiða megi af kaupsamningi, auk þeirra
krafna sem gera megi til nýrra fasteigna. Þau hafi því réttilega gert ráð fyrir
því að fasteignin væri í fullnægjandi ásigkomulagi við afhendingu. Eftir
afhendingu eignarinnar hafi komið í ljós að hins selda eign hafi verið haldin
verulegum og umfangsmiklum ágöllum. Um sé að ræða galla sem gagnstefnendur hafi
ekki getað séð fyrir við skoðun fyrir undirritun kaupsamningsins.
Gagnstefnendur
vísi til þess að þau hafi að öllu leyti fullnægt kröfum laga nr. 40/2002 um fasteignakaup
til að bera fyrir sig vanefnd. Í þeim efnum sé sérstaklega vísað til þess að
þau hafi tilkynnt aðalstefnanda og stefnda án tafa um meinta galla, en um það
sé vísað til munnlegra og stöðugra tilkynninga gagnstefnenda skömmu eftir
afhendingu og síðan til bréfs lögmanns þeirra 6. mars 2009. Þá vísi þau til
þess að aðalstefnandi og stefndi hafi enn ekki óskað eftir því við
byggingarfulltrúa sveitarfélagsins að gerð verði lokaúttekt, sbr. 53. gr.
byggingarreglugerðar 441/1998. Þegar af þeirri ástæðu hafi ekki verið gefið út
lokaúttektarvottorð samkvæmt 54. gr. sömu reglugerðar. Gagnstefnendur bendi á
að í raun sé efndum aðalstefnanda og stefnda ólokið og því geti þeir á engan
hátt borið fyrir sig tómlæti af hálfu gangstefnenda við framsetningu kröfugerðar
á hendur þeim.
Að
því er varði aðalstefnanda byggi þau á því að þau eigi rétt á skaðabótum úr
hendi félagsins, sbr. 43. gr. laga nr. 40/2002, en ella skuli þau eiga rétt á
afslætti í samræmi við kostnað við að bæta úr göllunum, sbr. 41. gr. laganna.
Sé kröfufjárhæðin í báðum tilvikum reist á niðurstöðu hinna dómkvöddu
matsmanna. Gagnstefnendur styðji kröfur sínar jafnframt við meginreglur kröfu-
og samningaréttarins, m.a. um skuldbindingargildi samninga. Um umfang og nánari
sundurliðun á kostnaði við að bæta úr einstökum göllum vísi gagnstefnendur að
öðru leyti til matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna.
Varðandi
bótaskyldu stefnda vísa gagnstefnendur til þess að hann hafi verið
byggingarstjóri við byggingu fasteignarinnar. Hann beri sjálfstæða bótaábyrgð
sem byggingarstjóri og þar með framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda samkvæmt
51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. og grein 32.2 í
byggingarreglugerð nr. 441/1998. Beri stefndi ábyrgð á öllum þeim ágöllum sem
staðreyndir hafi verið með matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna. Samkvæmt nýlegum
dómum Hæstaréttar Íslands sé ábyrgð hans sem byggingarstjóra víðtæk og beri
hann m.a. ábyrgð á því að hið unna verk sé tæknilega og faglega fullnægjandi
eins og áskilið sé í 118. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Telji
gagnstefnendur að áðurgreind matsgerð sýni fram á með óyggjandi hætti að verkið
standist engan veginn faglegar kröfur. Byggingarstjóra hafi borið að tryggja að
fasteignin væri reist í samræmi við teikningar og sé hann ábyrgur fyrir framkvæmdum
á verkstað. Hafi hann vanrækt þessa umsjónar- og eftirlitsskyldu sína með
saknæmum hætti með því að láta framangreind vinnubrögð aðalstefnanda líðast. Sé
hann af þessum sökum bótaskyldur gagnvart gagnstefnendum.
Vísað
sé til þess að samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 séu
lagðar umfangsmiklar skyldur á byggingarstjóra. Þannig skuli byggingarstjóri,
samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laganna, vera við stjórn framkvæmda við hvert
mannvirki og samkvæmt upphafsákvæði 3. mgr. greinarinnar sé hann
framkvæmdastjóri þeirra. Sérstaklega sé tekið fram í þeirri málsgrein að hann
beri ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og
reglugerðir. Sé hér vísað til þeirra fyrirmæla, almennra og sérstakra, sem lög
og reglugerðir setji um byggingarframkvæmdir og mannvirkjagerð þar á meðal
fyrirmæla byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar sé til dæmis það ákvæði í
118. gr. að tryggt skuli að framkvæmdir séu með tæknilega og faglega
fullnægjandi hætti.
Með
hliðsjón af matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé ljóst að verulega margt hafi
farið úrskeiðis við byggingu eignarinnar. Gallar á eigninni séu mun meiri en
eðlilegt eða venjulegt geti talist, sér í lagi þar sem um nýja fasteign sé að
ræða, og því fari fjarri að við framkvæmdina hafi verið gætt fullnægjandi
faglegra vinnubragða. Verði að virða það stefnda sem byggingarstjóra til
vanrækslu að hafa látið slík vinnubrögð viðgangast og sé hann því ábyrgur
gagnvart gagnstefnendum vegna þess tjóns sem af hafi hlotist. Sé vísað til þess
að Hæstiréttur hafi slegið því föstu að á byggingarstjóra hvíli ekki aðeins að
sjá til þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir,
heldur einnig skylda til að hafa yfirumsjón og eftirlit með
byggingarframkvæmdum sem hann stýri, þar á meðal að iðnmeistarar, sem komi að
verkinu fyrir hans atbeina, sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé tæknilega
og faglega fullnægjandi. Með saknæmri vanrækslu á þessum skyldum sínum hafi
stefndi sem byggingarstjóri fellt á sig skaðabótaábyrgð.
Krafa
gagnstefnenda um útgáfu afsals sé reist á því að þau hafi uppfyllt allar
skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi og að þeim hafi, í ljósi stórfelldra
vanefnda, verið heimilt að halda eftir eftirstöðvum kaupverðs. Í þessu sambandi
sé vísað til 2. mgr. 11. gr., 35. gr., 44. gr. laga nr. 40/2002 um
fasteignakaup. Gagnstefnendur vísi til þess að niðurstaða matsgerðar hinna
dómkvöddu matsmanna sýni, svo ekki verði um villst, að þau eigi mun hærri kröfu
á hendur aðalstefnanda en sem nemi ógreiddum eftirstöðvum. Beri því að fallast
á kröfu gagnstefnenda.
Gagnstefnendur
bendi á að verði fallist á skaðabóta- eða afsláttarkröfu þeirra í þessu máli
beri jafnframt að fallast á kröfu um útgáfu afsals, enda feli sú niðurstaða í
sér að aðalstefnandi eigi enga kröfu á hendur gagnstefnendum og að þau hafi
efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi og eigi því rétt á því að fá útgefið
afsal, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 40/2002.
Með
hliðsjón af því sem rakið hafi verið hér að framan og á grundvelli matsgerðar
hinna dómkvöddu matsmanna sundurliði gagnstefnendur aðalkröfu sína þannig:
Ísetning og frágangur glugga og hurða
(1) kr. 1.026.000
Frágangur á klæðningu og skemmdir á
klæðningu (2) kr.
564.000
Ryðblettir í skotrennu (3) kr.
292.000
Lagfæring á lóð (4) kr.
295.000
Lagfæring á flísum við bílskúrshurð
og frágangur (5) kr.
16.000
Frágangur þakkants (6) kr.
90.000
Frágangur á sorptunnuskýli (7) kr.
110.000
Lagfæringar á bjölluhnapp (8) kr.
15.000
Frávik á útveggjum (veggskekkjur) (9) kr.
217.000
Kverkskekkja (11) kr.
175.000
Frávik í gólfi (gólfhalli) (12) kr.
138.000
Flíslögn á baðherbergi (13) kr.
169.000
Rakaskemmdir (14) kr.
257.000
Eyja í eldhúsinnréttingu (15) kr.
85.000
Loftræsting í bílskúr (16) kr.
20.000
Málningarvinna (17) kr.
260.000
Stillinemar fyrir gólfhita (20) kr.
45.000
Loftnetstengi og loftnet (21) kr.
65.000
Ljós í þvottahúsi (22) kr.
24.000
Handklæðaofn (23) kr.
100.000
Vatnslás (V1) kr.
176.000
Frágangur á sökkulskauti og
spennujöfnun (V2) kr.
20.000
Lok á loftdósum (V3) kr.
50.000
Samtals kr. 4.209.000
Verði
af einhverjum ástæðum ekki fallist á skaðabótakröfu gagnstefnenda sé krafist afsláttar,
sbr. sundurliðun hér að framan, og sé vísað til sömu sjónarmiða og rakin hafa
verið vegna kröfu um skaðabætur, að breyttu breytanda.
Gagnstefnendur
krefjist dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001
frá 2. apríl 2010, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því gagnstefnendur hafi
sannanlega lagt fram upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik
og fjárhæð bóta.
Kröfu
um greiðslu skaðabóta reisa gagnstefnendur á ákvæðum 43. gr., sbr. 18. og 19.
gr., laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, auk almennra reglna
fasteignakauparéttar um galla og úrræði kaupanda við vanefndum seljanda.
Varðandi kröfu um afslátt vísast til 1. mgr. 41. gr., sbr. 18. gr., laga nr.
40/2002. Þá er vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, m.a. um
skuldbindingargildi samninga. Vegna kröfu um útgáfu afsals er vísað til 11.,
35. og 44. gr. laga nr. 40/2002. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 34. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um greiðslu dráttarvaxta styðja
gagnstefnendur við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa
um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991. Hvað varðar ósk
gagnstefnenda um sameiningu mála er vísað til 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991.
Í
þinghaldi 7. október 2010 lögðu gagnstefnendur fram bókun vegna breytingar á
kröfugerð. Kemur þar fram að þau hafi lækkað kröfur sínar, aðallega vegna
frádráttar sem komi til við endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu á
byggingarstað, sbr. lög nr. 10/2009 um breyting á lögum nr. 50/1988 um
virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Þá séu dómkröfurnar einnig lækkaðar með
tilliti til innborgana frá réttargæslustefnda.
V
Aðalstefnandi
byggir kröfu sína um sýknu í gagnsök í fyrsta lagi á aðildarskorti. Samkvæmt
því sem komi fram í stefnu höfði Jóhann H. Hafstein hdl. málið fyrir hönd
Guðmundar Kristins Sveinssonar og Svanhildar Kristinsdóttur. Hvergi sé getið á
hverju það grundvallist að málið sé höfðað í nafni Jóhanns H. Hafstein fyrir
hönd kaupenda fasteignarinnar. Þar sem að stefnandi sé ekki réttur aðili að
kröfunni beri að sýkna á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga
nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þá
byggir aðalstefnandi á því að í málatilbúnaði í stefnu hafi ekki verið færðar
sönnur fyrir því að fasteignin sé gölluð í skilningi laga um fasteignakaup nr.
40/2002. Gagnstefnendur beri sönnunarbyrði fyrir því að um sé að ræða galla í
skilningi ákvæða laga nr. 40/2002. Í málatilbúnaði verði að færa rök fyrir því
hvernig tiltekin atriði teljist galli og hvernig ábyrgð stefnda sé til komin.
Greina þurfi hvaða kröfur um gæði, búnað og annað sem leiði af lögum og
kaupsamningi sé áfátt. Verulega skorti á að þetta sé gert í stefnu. Þá virðist
sem gagnstefnendur líti framhjá kaupsamningi og vilji fá afhenta eign með öðrum
eiginleikum en þar greini. Þá verði að líta til aðgæsluskyldu kaupanda og að
kaupandi fullvissi sig við afhendingu um að eiginleikar séu til staðar.
Ekki
hafi verið færðar fram sannanir um að gallar hafi verið til staðar við
afhendingu eignarinnar í ársbyrjun 2007 en gagnstefnendur hafi fyrst gert
athugasemdir með bréfi lögmanns í febrúar 2009 og gert grein fyrir einstökum
athugasemdum sínum í matsbeiðni dagsettri 28. apríl það sama ár. Af þessum
sökum verði að gera ríkari kröfur til gagnstefnenda að færa sönnur á að gallar
hafi verið til staðar við afhendingu en hafi ekki komið til við notkun
fasteignarinnar í þau rúmu tvö ár sem liðið hafi frá afhendingu þar til gerð
hafi verið grein fyrir hinum meintu göllum.
Þá
sé kröfum gagnstefnenda mótmælt þar sem ljóst megi vera að, a.m.k. í sumum
tilvikum, hafi þau ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna meintra frávika
frá teikningum, ákvæðum laga og reglugerða. Aðalstefnandi mótmæli þessum
málatilbúnaði gagnstefnenda og byggi á því að honum verði eingöngu gert að greiða
gagnstefnendum bætur vegna sannaðs fjárhagslegs tjóns þeirra. Þessar almennu
athugasemdir eigi við um alla matsliði.
Varðandi
matslið 1a hafi gagnstefnendur fengið tjón samkvæmt þessum matslið bætt úr
starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra. Athugasemd sé þó gerð við að tjón
þeirra hafi verið ofbætt og það sem umfram sé skuli koma til frádráttar öðrum
kröfum ef gagnstefnendum verði dæmdar skaðabætur.
Matslið
1b sé hafnað, enda megi vera ljóst að um sé að ræða viðhald á húseigninni.
Aðalstefnandi verði ekki krafinn um kostnað vegna þess. Þá sé bent á að
matsmaður hafi ekki getað staðreynt leka.
Varðandi
matslið 1c virðist vera um að ræða eðlilegt sig á opnanlegu fagi. Sé þessum lið
hafnað.
Varðandi
matslið 1e þá hafi ekki verið staðreyndur leki. Þá sé þekkt að erfitt eða
ómögulegt sé að gera útihurðir þéttar sem opnist inn og snúi í veðurátt. Sé
þessum lið hafnað.
Kröfu
vegna matsliðar 2 sé hafnað. Um sé að ræða dældir og málningarslettur sem
hugsanlega megi rekja til framkvæmdatíma, miðað við niðurstöðu matsmanns. Sé
því hafnað að sýnt hafi verið fram á að umræddar skemmdir hafi verið til staðar
við afhendingu, enda séu ekki gerðar nema litlar athugasemdir við ástand
klæðningar við afhendingu, sbr. gátlista. Því sé hafnað að sýnt hafi verið fram
á að klæðning hafi ekki verið fest nægjanlega. Sé athugun matsmanns
ófullnægjandi og ekki sönnun um ástand klæðningar hvað þetta atriði varði.
Varðandi
matslið 3 hafni aðalstefnandi því að um sé að ræða galla. Ekki sé um að ræða
óeðlilegt verklag og einfaldlega eðlileg veðrun sem sé orsök hins meinta galla.
Þá sé lagning rennu ekki með þeim hætti að um sé að ræða galla þó matsmaður
telji annað verklag hentugra.
Matslið
4 sé hafnað þar sem gagnstefnendur hafi engar athugasemdir gert við afhendingu
eignarinnar. Þá sé um að ræða minniháttar frávik, enda ekki staðreynt af
matsmanni að frávik séu meiri en ætla megi.
Matslið
5 sé hafnað þar sem ekkert liggi fyrir um hvenær flísarnar hafi brotnað. Því sé
hafnað að það hafi verið fyrir afhendingu enda séu ekki gerðar athugasemdir við
brotnar flísar við afhendingu.
Varðandi
matslið 6 sé um að ræða að byggt sé í samræmi við teikningar. Ekki sé hægt að
fallast á að notkun hefta teljist galli í skilningi laga um fasteignakaup.
Varðandi
matslið 7 þá hafi engar athugasemdir verið gerðar við afhendingu eignarinnar.
Þá komi fram í skilalýsingu að um sé að ræða frístandandi sorptunnuskýli og sé
frágangur í samræmi við það.
Matsliður
8 hafi verið bættur og sé vísað um fjárhæð til 1. matsliðar.
Varðandi matslið 9a þá sé
það niðurstaða matsmanns að frávik séu innan viðmiðunarmarka. Sé hafnað að um
galla sé að ræða.
Matsliður
9b hafi verið bættur og sé vísað um fjárhæð til 1. matsliðar.
Ekki
sé fjallað um matslið 10 í stefnu.
Í
matslið 11 sé ekki um að ræða galla.
Varðandi
matslið 12 þá sé því hafnað að um sé að ræða galla í skilningi laga um
fasteignakaup. Samkvæmt kaupsamningi sé fasteignin afhent án gólfefna. Í
umfjöllun matsmanns komi fram að réttleiki yfirborðs verði að vera í samræmi
við gólfefni sem lagt verði og því sé rétt að miða við að yfirborð hafi ekki
verið jafnað endanlega undir gólfefni. Rétt og eðlilegt hafi verið að bæta úr
frávikum áður en gólfefni hafi verið lögð. Fasteignin hafi verið afhent án
gólfefna. Frávik séu að mati matsmanns við útmörk þess sem geti talist
eðlilegt. Séu frávik því innan marka og hafni aðalstefnandi því að um sé að
ræða galla.
Í
matslið 13 sé um að ræða útlitslegt atriði en ekki galla í skilningi laga um
fasteignakaup.
Varðandi
matslið 14 þá sé ósannað um upptök og orsök rakaskemmda í útvegg. Sé því hafnað
að sýnt hafi verið fram á galla sem aðalstefnandi beri ábyrgð á, en sérstaklega
athugist að gagnstefnendur hafi þegar fengið tjón vegna frágangs á gluggum
bætt. Fullyrðingar matsmanns um ónæga undirvinnu hafi ekki verið staðreyndar. Sé
kröfuliðnum því hafnað.
Varðandi
matslið 15 telji aðalstefnandi að niðurstaða matsmanns verði ekki lögð til
grundvallar þar sem ekki hafi verið staðreynt að festingar væru ónægar. Sé
þessum lið því hafnað.
Varðandi
matslið 16 þá sé frágangur í samræmi við teikningar og sé loftræsting möguleg
um þær hurðir sem séu á bílskúrnum.
Varðandi
matslið 17 sé því hafnað að um sé að ræða galla á ábyrgð aðalstefnanda. Í nýjum
fasteignum sé eðlilegt að endurmála eftir 2-3 ár. Sé um að ræða eðlilegt
viðhald. Matsmaður bendi á lítilsháttar hnökra sem hverfi væntanlega við
endurmálun. Rétt sé að benda á að engar athugasemdir hafi verið gerðar við
málningarvinnu við afhendingu. Þá bendi málningarslettur á ljósum sem matsmaður
vísi til eindregið til þess að íbúðin hafi verið máluð eftir afhendingu þar sem
endanleg ljós hafi ekki verið til staðar þegar málningarvinna hafi verið unnin
af hálfu aðalstefnanda.
Í
matslið 20 sé því hafnað að um galla sé að ræða.
Í
matslið 22 sé ekki um að ræða galla, enda ekki vikið frá lögmæltum viðmiðum.
Því sé hafnað að ljós í þvottahúsi sé ekki í samræmi við skilalýsingu.
Varðandi
matslið 23 beri aðalstefnandi ekki ábyrgð á að þrýstijafnari bili. Sé þessum
lið hafnað þar sem ekki sé um að ræða galla í skilningi laga um fasteignakaup
og ekki sé sannað að hinn meinti galli hafi verið til staðar við afhendingu.
Tjón
vegna viðbótarmatsliðar 1 hafi verið bætt. Um fjárhæð vísist til matsliðar 1.
Varðandi
viðbótarmatslið 2 þá sé því hafnað að sýnt hafi verið fram á galla þar sem ekki
hafi verið staðreynt hvort sökkulskautið væri tengt jarðskinnu töflunnar.
Varðandi
viðbótarmatslið 3 þá sé því hafnað að um sé að ræða galla þar sem um útlitslegt
atriði sé að ræða. Þá hafi kaupendur mátt sjá hinn meinta galla við skoðun við
afhendingu. Séu athugasemdir sem fram komi rúmum tveimur árum síðar of steint
fram komnar.
Þá
sé kröfufjárhæð mótmælt sérstaklega, í hverjum kröfulið fyrir sig og í heild
sinni. Við framsetningu kröfunnar sé ekki tekið tillit til ákvæða laga um
endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á verkstað, sbr. lög nr. 10/2009 um
breytingar á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt né ívilnunar á
tekjuskattstofn sem gagnstefnendur eigi rétt á sbr. lög nr. 92/2010 um
breytingu á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Vegna þessara ákvæða sé tjón gagnstefnenda
minna en haldið sé fram.
Þá
sé í dómkröfu ekki tekið tillit til þeirra bóta sem greiddar hafi verið úr
starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra. Sé þess sérstaklega krafist að þær
greiðslur komi til frádráttar að teknu tilliti til réttrar ívilnunar á
tekjuskattstofni. Verði að miða við að gagnstefnendur eigi rétt til slíkrar
ívilnunar. Miða verði við að frádráttur sé samkvæmt 46,12% skatthlutfalli, þ.e.
hæsta þrep nema gagnstefnendur sýni fram á annað.
Ennfremur
sé ekki tekið tillit til þess við framsetningu dómkröfu að ógreiddar
eftirstöðvar kaupverðs séu 1.241.879 krónur, en aðalstefnandi hafi þegar höfðað
mál á hendur gagnstefnendum til heimtu eftirstöðvanna.
Af
framansögðu sé ljóst að tjón gagnstefnenda sé minna en haldið sé fram. Af þessum
sökum sé ekki hægt að taka afstöðu til kröfufjárhæðar og kunni að vera
forsendur til að vísa kröfugerð frá dómi ex officio af þessum sökum.
Aðalstefnandi krefjist þó sýknu af kröfum í málinu.
Varðandi
kröfu um útgáfu afsals muni það verða gefið út þegar kaupverðið sé að fullu
greitt.
Aðalstefnandi
vísar til meginreglna kröfu- og fjármunaréttar og ákvæða laga nr. 40/2002 um
fasteignakaup. Þá er byggt á 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála.
VI
Stefndi
byggir á því að skaðabótakrafa verði ekki gerð á hendur honum í þessu máli á
grundvelli annarra réttarreglna en hinnar almennu sakarreglu. Engar
réttarreglur leiði til þess að skaðabótaábyrgð stefnda sé víðtækari eða
strangari en í hinni almennu sakarreglu felist. Engar hlutlægar skaðabótareglur
eigi við um ábyrgð byggingarstjóra né sakarlíkindareglur eða sjónarmið um
frávik frá þeirri grunnreglu skaðabótaréttar að það sé tjónþola að sanna
tilvist og umfang tjóns síns auk grundvöll ábyrgðar þriðja manns.
Stefndi
verði ekki dæmdur til að greiða gagnstefnendum skaðabætur í þessu máli nema að
því skilyrði uppfylltu að gagnstefnendur sanni að hann hafi valdið þeim tjóni
með saknæmum og ólögmætum hætti og að tjónið sé sennileg afleiðing af hegðun
hans og raski hagsmunum sem verndaðir séu af skaðabótareglum.
Hæstiréttur
hafi með dómi sínum í máli nr. 267/2005 slegið því föstu að um ábyrgð
byggingarstjóra gildi sakarreglan og hafi að auki orðað það skilyrði fyrir
ábyrgð byggingarstjóra á mistökum og vanrækslu þeirra iðnmeistara sem vinni að
verki að um umfangsmikla galla á verki sé að ræða. Byggingarstjóri sé þannig
einskonar yfirumsjónarmaður og þeir gallar sem á verki séu verði að vera það
verulegir að hann hafi mátt, sem yfirumsjónarmanni með verkinu í heild sinni,
vera það ljóst að iðnmeistarar væru ekki að sinna starfi sínu með tæknilega og
faglega fullnægjandi hætti.
Það
skilyrði fyrir ábyrgð byggingarstjóra, að um umfangsmikla galla á verki sé að
ræða, falli vel að því sem að framan segi um grundvöll skaðabótaábyrgðar
byggingarstjóra. Skilyrðum hinnar almennu sakarreglu sé ekki fullnægt nema
góður og gegn byggingarstjóri sem yfirumsjónarmaður með tilteknu verki hefði
mátt gera sér grein fyrir því að tilteknir verkhlutar væru ekki unnir með
tæknilega og faglega fullnægjandi hætti. Í ljósi umfangs starfsskyldna
byggingarstjóra og þeirra mörgu verkþátta sem í húsbyggingum felist telji
stefndi að fullyrða megi að byggingarstjóra sé einungis unnt að gera sér grein
fyrir því að tilteknir verkhlutar séu ekki unnir með tæknilega og faglega
fullnægjandi hætti ef um stóra verkþætti eða veruleg frávik frá tæknilega og
faglega fullnægjandi vinnubrögðum sé að ræða.
Réttargæslustefndi
hafi þegar greitt gagnstefnendum bætur vegna þess tjóns sem lýst sé í matsliðum
1a, 8, 9b og viðbótarmatslið 1.
Matsliðir
sem mögulega geti falið í sér tjón fyrir gagnstefnendur séu margir hverjir því
marki brenndir að ekki sé um umfangsmikla galla að ræða, skilyrði
sakarreglunnar fyrir ábyrgð byggingarstjóra séu ekki uppfyllt og því sé ekki
unnt að fella skaðabótaábyrgð á stefnda með því að dæma hann til að greiða
umstefndar fjárhæðir.
Stefndi
byggi einnig á því að ábyrgð byggingarstjóra sé lögum samkvæmt bundin við tjón
sem rakið verði til þess að ekki hafi verið byggt í samræmi við samþykkta
uppdrætti, lög og reglugerðir. Í þeim tilvikum sem tjón gagnstefnenda sé byggt
á matsliðum sem lýsi ókláruðum verkum eða verkum sem ekki hafi verið unnin sé
um brot á annaðhvort verksamningi eða kaupsamningi að ræða en ekki tjón sem
falli undir ábyrgð byggingarstjóra. Byggingarstjóri beri einungis ábyrgð á þeim
verkum sem raunverulega hafi verið framkvæmd en ekki á því að byggingaraðili
efni skyldur sínar samkvæmt verksamningi eða seljandi fasteignar efni skyldur
sínar samkvæmt kaupsamningi eða fasteignakaupalögum.
Stefnufjárhæð
miði við allar þær úrbætur sem matsgerð leggi til að farið sé út í þrátt fyrir
að augljóst sé að í sumum tilvikum hljótist ekkert fjárhagslegt tjón af meintum
frávikum frá teikningum eða ákvæðum laga og reglugerða. Hvað nokkra matsliði
varði sé það beinlínis staðfest í matsgerð að ekki sé um fjárhagslegt tjón að
ræða. Stefndi mótmæli þessum málatilbúnaði gagnstefnenda og byggi á því að
honum verið eingöngu gert að greiða þeim bætur vegna sannaðs fjárhagslegs tjóns
þeirra.
Matsliður
1a. Réttargæslustefndi hafi greitt gagnstefnendum bætur fyrir tjón vegna
þessa matsliðar. Greiðslan hafi miðað við þær fjárhæðir sem lýst sé í matsgerð
að frádregnum virðisaukaskatti á vinnuliði, sbr. lög nr. 10/2009 um breytingar
á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Ekki hafi verið tekið tillit til
ívilnunar á tekjuskattstofn sem gagnstefnendur eigi rétt á samkvæmt lögum nr.
92/2010 um breytingu á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt þar sem
réttargæslustefndi hafi ekki undir höndum upplýsingar sem nauðsynlegar séu til
útreiknings þeirrar fjárhæðar og sé því um ofgreiðslu að ræða.
Matsliður
1b. Í matsgerð sé komist að þeirri niðurstöðu að yfirfara þurfi opnanleg
fög, stilla járn, þrífa þéttingar og karmabrjóst. Hins vegar sé ljóst af
matsgerðinni að ekki sé um tjón af völdum nokkurs stefnda að ræða heldur
eðlilegt viðhald. Í matsgerð sé komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé leki eða
óeðlilegur loftleki með opnanlegum fögum og því sé fráleitt að stefndi verði krafinn
um greiðslu bóta vegna þessa matsliðar. Í öllu falli sé um minniháttar verklið
að ræða og enginn frávik séu frá samþykktum teikningum, lögum né reglugerðum
auk þess sem ekkert tjón virðist hafa orðið.
Matsliður
1c. Í matsgerð sé komist að þeirri niðurstöðu að glerlista vanti með gleri
í einu opnanlegu fagi. Ef rétt sé þá sé sem um vanefnd verksamninga og/eða
kaupsamnings að ræða þar sem matsliðurinn lýsi verki sem ekki hafi verið unnið
eða ástandi sem fasteign hafi verið skilað í sem samræmist ekki því
byggingarstigi sem um hafi verið samið í kaupsamningi. Stefndi sem
byggingarstjóri beri ekki ábyrgð á slíkum samningsvanefndum þriðja aðila. Þá sé
um minniháttar verkþátt að ræða og því ekki unnt að gera kröfu um að góður og
gegn byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að verkþátturinn væri ekki unninn
með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón byggingarframkvæmda
í heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki fullnægt og verði að sýkna
stefnda af þessum matslið. Í matsgerð sé ekki fundið að frágangi opnanlegra
faga að öðru leyti og sé meint tjón gagnstefnenda því takmarkað við skort á
hinum tiltekna glerlista.
Matsliður
1d. Réttargæslustefndi hafi greitt gagnstefnendum bætur fyrir tjón vegna
þessa matsliðar. Um nánari umfjöllun um útreikning bóta vísist til umfjöllunar
um matslið 1a.
Matsliður
1e. Samkvæmt matsgerð hafi lekið inn um tvær hurðir á húsinu. Ekki komi
fram í niðurstöðukafla matsgerðar hver sé orsök þessa en af almennri umfjöllum
um matslið 1 verði að draga þá ályktun að lekinn sé fyrst og fremst til kominn
vegna hönnunar þröskuldar hurðarinnar sem sé að sjálfsögðu á ábyrgð hönnuðar en
ekki byggingarstjóra. Frágangur þröskuldarins feli ekki í sér frávik frá
samþykktum teikningum, lögum né reglugerðum og því erfitt að sjá hvernig
byggingarstjóri geti borið ábyrgð á tjóni sem af hljótist. Þá sé um minniháttar
verkþátt að ræða sem ekki sé unnt að gera kröfu um að góður og gegn
byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að ekki væri unninn með tæknilega og
faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón byggingarframkvæmda í heild sinni.
Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum
samkvæmt þessum matslið.
Matsliður
2. Samkvæmt matsgerð megi sjá litlar dældir á klæðningu hússins og bletti
sem bendi til að eitthvað hafi nuddast við klæðninguna. Ef rétt sé þá sé um
atriði að ræða sem varði frágang eða minniháttar skemmdir sem óvíst sé hvenær
séu til komnar. Óljóst sé við hvaða verklið framangreindar skemmdir eigi að
hafa orðið en fráleitt sé hægt að ætlast til þess að byggingarstjóri geti horft
yfir axlir allra þeirra sem gangi um byggingarsvæði og geti því borið
skaðabótaábyrgð á því ef einhver þeirra rekist utan í klæðningu og rispi eða
dældi. Það sé með öðrum orðum ekki unnt að gera kröfu um að góður og gegn
byggingarstjóri hafi átt að átta sig á framangreindu við yfirumsjón
byggingarframkvæmda í heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki
fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum samkvæmt þessum matslið.
Matsliður
3. Samkvæmt matsgerð séu ryðblettir á endum þakjárns og við skotrennur í
þakfleti. Ástæða þessa sé talin vera að þakið hafi verið skorið með
skurðarskífu. Þá séu einnig gerðar aðrar minniháttar athugasemdir við
tæknilegan frágang skotrenna. Um minniháttar verkþátt sé að ræða og því ekki unnt
að gera kröfu um að góður og gegn byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að
verkþátturinn væri ekki unninn með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti við
yfirumsjón byggingarframkvæmda í heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé því
ekki fullnægt og verði að sýkna stefnda af þessum matslið. Þrátt fyrir að ekki
sé krafist bóta vegna slíks tjóns undir þessum matslið sé vakin athygli á því
að tjón vegna frágangs á gluggum hafi verið bætt, sbr. umfjöllun um matslið 11.
Matsliður
4. Samkvæmt matsgerð séu ójöfnur hér og hvar á lóð hússins. Ef rétt sé þá
sé ekki um frávik frá teikningum að ræða né brot á nokkrum þeim lögum eða
reglugerðum sem um frágang lóða eða byggingarframkvæmdir gildi og sé engu slíku
haldið fram af hálfu gagnstefnenda. Ekki sé því unnt að sjá með hvaða hætti
byggingarstjóri hafi vanefnt skyldur sínar hvað þennan matslið varði og verði
því að sýkna stefnda af kröfum sem byggðar séu á þessum matslið. Þá telji
stefndi kostnað við að sanda lóðina stórlega ofmetinn. Að lokum sé ekki unnt að
sjá að nokkuð fjárhagslegt tjón hafi orðið sökum minniháttar misjafna í
lóðinni. Ekkert sé fram komið um að vatn standi í raun og veru á grasflötinni
lengur en eðlilegt kunni að vera og enn síður að nokkuð tjón hafi af því
hlotist.
Matsliður
5. Samkvæmt matsgerð hafi tvær flísar undir bílskúrshurð verið fjarlægðar
að hluta. Það sé rangt sem fullyrt sé í stefnu að matsgerð segi flísarnar
brotnar. Ekki sé tilgreint um orsakir þess að flísarnar hafi verið fjarlægðar
en athugasemdir séu gerðar við frágang og hann sagður vera ókláraður auk þess
sem óheppilegt sé að bílskúrshurðarbraut sé eins og hún sé. Ef rétt sé um
minniháttar verkþátt að ræða sem ekki sé unnt að gera kröfu um að góður og gegn
byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að ekki væri unninn með tæknilega og
faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón byggingarframkvæmda í heild sinni.
Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum
samkvæmt þessum matslið. Það tjón sem lýst sé í matsliðnum virðist einnig að
mestu til komið sökum sérstæðrar hönnunar hurðarinnar sem ekki sé á ábyrgð
byggingarstjóra heldur hönnuðar. Sá hluti matsliðarins sem fjalli um rennu í
þröskuldi feli ekki í sér frávik frá teikningum, lögum eða reglugerðum og því
erfitt að sjá hvernig byggingarstjóri geti borið ábyrgð á tjóni sem af
hljótist.
Matsliður
6. Í matsgerð séu gerðar athugasemdir við að festingar á borðum framan við
þakkant séu hefti frekar en naglar. Þessi framkvæmd sé ekki í ósamræmi við
teikningar, lög eða reglugerðir, enda sé, eins og bent sé á í matsgerð, ekki
gerð grein fyrir festingum á samþykktum teikningum. Að öðru leyti sé það
niðurstaða matsgerðar að frágangur sé eðlilegur og betri en sýndur sé á
sérteikningum. Liggi því ekkert fyrir sem bendi til þess að um frávik frá
teikningum sé að ræða eða brot á nokkrum þeim lögum eða reglugerðum sem um
byggingarframkvæmdir gildi og sé engu slíku haldið fram af hálfu gagnstefnenda.
Ekki sé því unnt að sjá með hvaða hætti stefndi hafi vanefnt skyldur sínar hvað
þennan matslið varði og verði því að sýkna hann af kröfum sem byggðar séu á
þessum matslið. Í öllu falli sé um sé minniháttar verkþátt að ræða sem ekki sé
unnt að gera kröfu um að góður og gegn byggingarstjóri hafi átt að átta sig á
að ekki væri unninn með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón
byggingarframkvæmda í heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki
fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum samkvæmt þessum matslið. Það tjón sem
lýst sé í matsliðnum virðist einnig að mestu til komið sökum sérstæðrar
hönnunar hurðarinnar sem ekki sé á ábyrgð byggingarstjóra heldur hönnuðar. Sá
hluti matsliðarins sem fjalli um rennu í þröskuldi feli ekki í sér frávik frá
teikningum, lögum eða reglugerðum og því erfitt að sjá hvernig byggingarstjóri
geti borið ábyrgð af tjóni sem af hljótist.
Matsliður
7. Samkvæmt matsgerð vanti eina af tveimur einingum sorpskýlis á lóð
hússins. Ef rétt sé um vanefnd verksamninga og/eða kaupsamnings að ræða þar sem
matsliðurinn lýsi verki sem ekki hafi verið unnið eða ástandi sem fasteign hafi
verið skilað í sem samræmist ekki því byggingarstigi sem um hafi verið samið í
kaupsamningi. Stefndi sem byggingarstjóri beri ekki ábyrgð á slíkum
samningsvanefndum þriðja aðila. Varðandi gerð sorpskýlis, þ.e. að það sé ekki
lokað, þá sé ekki um frávik frá samþykktum teikningum að ræða né brot á nokkrum
þeim lögum eða reglugerðum sem um frágang lóða eða byggingarframkvæmdir gildi
og sé engu slíku haldið fram af gagnstefnendum. Ekki sé því unnt að sjá með
hvaða hætti byggingarstjóri hafi vanefnt skyldur sínur hvað þann hluta þessa
matsliðar varði og verði því að sýkna stefnda af kröfum sem byggðar séu á
honum. Þá sé ekki hægt að sjá að gagnstefnendur hafi orðið fyrir fjárhagslegu
tjóni sökum þess að sorpskýlið sé opið en ekki lokað. Ef komist verði að þeirri
niðurstöðu að um verk sem ekki hafi verið unnið með tæknilega og faglega
fullnægjandi hætti sé að ræða byggi stefndi á því að um minniháttar verkþátt sé
að ræða sem ekki sé unnt að gera kröfu um að góður og gegn byggingarstjóri hafi
átt að átta sig á að ekki væri unninn með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti
við yfirumsjón byggingarframkvæmda í heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé
því ekki fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum samkvæmt þessum matslið.
Matsliður
8. Réttargæslustefndi hafi greitt gagnstefnendum bætur fyrir tjón vegna
þessa matsliðar. Um nánari umfjöllun um útreikning bóta vísist til umfjöllunar
um matslið 1a.
Matsliður
9a. Samkvæmt matsgerð séu frávik (veggskekkja) útveggja almennt innan
eðlilegra viðmiðunarmarka og því sé ekki um að ræða brot á nokkum þeim lögum
eða reglugerðum sem um frágang lóða eða byggingarframkvæmdir gildi. Sé engu
slíku haldið fram af hálfu gagnstefnenda. Ekki sé því unnt að sjá með hvaða
hætti byggingarstjóri hafi vanefnt skyldur sínar hvað þann hluta þessa
matsliðar varði og verði því að sýkna stefnda af kröfum sem byggðar séu á
honum. Varðandi þá veggi sem tiltekið sé í matsgerð að frávik séu á utan
eðlilegra viðmiðunarmarka þá byggir stefndi á að um minniháttar verkþætti sé að
ræða sem ekki sé unnt að gera kröfu um að góður og gegn byggingarstjóri hafi
átt að átta sig á að ekki væru unnir með tæknilega og faglega fullnægjandi
hætti við yfirumsjón byggingarframkvæmda í heild sinni. Skilyrðum
sakarreglunnar sé því ekki fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum samkvæmt
þessum matslið.
Matsliður
9b. Réttargæslustefndi hafi greitt gagnstefnendum bætur fyrir tjón vegna
frávika á innveggjum. Um nánari umfjöllun um útreikning bóta vísist til
umfjöllunar um matslið 1a.
Matsliður
10. Ekki séu gerðar kröfur samkvæmt þessum matslið í stefnu.
Matsliður
11. Samkvæmt matsgerð sé frávik á lofti við vesturvegg hússins umfram
viðmiðunarmörk þar sem gera verði auknar kröfur á slíkum stað þar sem frávik
geti verið sýnilegt. Um minniháttar verkþátt sé að ræða sem ekki sé unnt að
gera kröfu um að góður og gegn byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að ekki
væri unninn með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón
byggingarframkvæmda í heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki
fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum samkvæmt þessum matslið.
Matsliður
12. Í matsgerð segi að miða eigi við að yfirborð gólfa hafi ekki verið
jafnað eða sparslað með endanlegum hætti undir gólfefni þar sem slíkur
frágangur þurfi að eiga sér stað þegar gólfefni hafi verið valið. Þar sem
eignin hafi verið afhent án gólfefna og gagnstefnendur hafi valið og lagt
gólfefni án aðkomu nokkurs þess aðila sem stefnt sé í málinu sé augljóst að það
falli utan verksviðs stefnda sem byggingarstjóra að hafa yfirumsjón með þessum
verkþætti.
Matsliður
13. Samkvæmt matsgerð sé útsetning á flísalögn ekki hornrétt við vegg sem
valdi því að flísar við vegg og baðkar séu ekki jafn stórar. Um minniháttar
verkþátt sé að ræða sem ekki sé unnt að gera kröfu um að góður og gegn
byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að ekki væri unninn með tæknilega og
faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón byggingarframkvæmda í heild sinni.
Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum
samkvæmt þessum matslið.
Matsliður
14. Samkvæmt matsgerð sé líklegt að vatn sígi inn með frágangi glugga og að
sprungu í útvegg en ósannað sé að umrædd sprunga sé af völdum þess að eitthvert
verk við byggingu hússins hafi ekki verið unnið með tæknilega og faglega
fullnægjandi hætti. Orsakatengsl milli ummerkja eftir leka og verka sem
byggingarstjóri geti mögulega borið ábyrgð á séu því ósönnuð og ósannað að
sprungan sjálf sé til komin vegna slíkra verka. Þá segi í matsgerð að flísar á
baðherbergi séu lausar án þess að um rakaskemmd sé að ræða og telji matsmaður
að ófullnægjandi undirvinnu fyrir spörslun sé um að kenna. Í báðum tilvikum sé
um minniháttar verkþætti að ræða sem ekki sé unnt að gera kröfu um að góður og
gegn byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að ekki væru unnir með tæknilega og
faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón byggingarframkvæmda í heild sinni.
Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum
samkvæmt þessum matslið. Þrátt fyrir að ekki sé krafist bóta vegna slíks tjóns
undir þessum matslið sé vakin athygli á því að tjón vegna frágangs á gluggum
hafi verið bætt, sbr. umfjöllun um matslið 1a.
Matsliður
15. Samkvæmt matsgerð skjálfi eyja í eldhúsi þegar skúffum í henni sé lokað
eða slegið sé á hana. Um minniháttar verkþátt sé að ræða sem ekki sé unnt að
gera kröfu um að góður og gegn byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að ekki
væri unninn með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón
byggingarframkvæmda í heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki
fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum samkvæmt þessum matslið. Þá sé
vandséð fyrir hvaða fjárhagstjóni gagnstefnendur hafi orðið sökum meints
skjálfta í eldhúsinnréttingunni. Engar skemmdir séu staðfestar af völdum
skjálftans eða meintra ófullnægjandi festinga eyjunnar.
Matsliður
16. Samkvæmt matsgerð skorti rist í spjald í gönguhurð bílskúrs til þess að
bílskúr sé nægjanlega loftræstur. Ef rétt sé þá sé um vanefnd verksamninga
og/eða kaupsamnings að ræða þar sem matsliðurinn lýsi verki sem ekki hafi verið
unnið eða ástandi sem fasteign hafi verið skilað í sem samræmist ekki því
byggingarstigi sem um hafi verið samið í kaupsamningi. Stefndi sem
byggingarstjóri beri ekki ábyrgð á slíkum samningsvanefndum þriðja aðila. Þá sé
umrædd rist ekki teiknuð á húsið í samþykktum teikningum og því ekki um brot á
starfsskyldum byggingarstjóra að ræða heldur frekar hönnunargalla.
Matsliður
17. Samkvæmt matsgerð séu nokkrir hnökrar á málningarvinnu í húsinu. Rangt
sé, svo sem fullyrt sé í stefnu, að í matsgerð greini að málning á veggjum sé á
ýmsan hátt ófagleg eða ófullnægjandi. Í matsgerð sé greint frá því að umræddir
hnökrar sjáist á 1-1,5 metra færi og einungis virðist talið eðlilegt að fara í
endurmálun þar sem ditta þurfti að ýmsu öðru í húsinu. Þá telji matsmaður að
framangreindir hnökrar ættu að hverfa að mestu við næstu endurmálum. Það sé
eðlilegt að húseignir séu málaðar að innan á nokkurra ára fresti og
gagnstefnendur hafi nú búið í húsinu í rúm þrjú ár og því ekki fráleitt að ætla
að tími sé kominn á endurmálun. Gagnstefnendur eigi ekki kröfu á hendur stefndu
um að fá nýja málningu í stað gamallar málningar og þar sem hnökrarnir muni
hverfa við næstu endurmálun sé erfitt að sjá að þau hafi orðið fyrir
fjárhagslegu tjóni sökum þeirra. Að lokum sé á því byggt að þar sem einungis sé
um minniháttar hnökra að ræða sé ekki sé unnt að gera kröfu um að góður og gegn
byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að ekki væru unnir með tæknilega og
faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón byggingarframkvæmda í heild sinni.
Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki fullnægt.
Matsliður
18. Réttargæslustefndi hafi greitt gagnstefnendum bætur fyrir tjón vegna
frávika á innveggjum. Um nánari umfjöllun um útreikning bóta vísist til
umfjöllunar um matslið 1a.
Matsliður
19. Ekki séu gerðar kröfur samkvæmt þessum matslið í stefnu.
Matsliður
20. Samkvæmt matsgerð sé stillinemi fyrir gólfhita í 1,1 m hæð frá gólfi en
ekki í 1,6 m hæð eins og gert sé ráð fyrir í samþykktum teikningum og í
leiðbeiningum framleiðanda. Vandamál sem af þessu orsakist séu ekki veigamikil.
Mælirinn mæli þá hita í 1,1 m hæð í stað 1,6 m. Það sé ekki hægt að sjá að
gagnstefnendur geti ekki fundið það hjá sér hvað þeim finnist þægilegur hiti í
1,1 m hæð eins og í 1,6 m hæð. Á móti komi að stillineminn sé nú í sömu hæð og
ljósarofar og því fari minna fyrir honum og verði að telja að almennt þyki
slíkt fallegra. Í öllu falli sé ljóst að gagnstefnendur hafi ekki orðið fyrir
neinu fjárhagslegu tjóni vegna þess sem lýst sé í þessum matslið og um
minniháttar verklið sé að ræða.
Matsliður
21. Samkvæmt matsgerð sé ekkert loftnetstengi í rafmagnstöflu né loftnet á
þaki eins og fram komi á teikningu. Ef rétt sé um vanefnd verksamninga og/eða
kaupsamnings að ræða þar sem matsliðurinn lýsi verki sem ekki hafi verið unnið
eða ástandi sem fasteign hafi verið skilað í sem samræmist ekki því
byggingarstigi sem um hafi verið samið í kaupsamningi. Stefndi sem
byggingarstjóri beri ekki ábyrgð á slíkum samningsvanefndum þriðja aðila. Þá sé
ekki um að ræða brot á nokkrum þeim lögum eða reglugerðum sem um
byggingarframkvæmdir gildi og sé engu slíku haldið fram af hálfu gangstefnenda.
Ekki sé því unnt að sjá með hvaða hætti byggingarstjóri hafi vanefnt skyldur
sínar hvað þennan matslið varði og verði því að sýkna stefnda af kröfum sem
byggðar séu á þessum matslið. Ef komist verði að þeirri niðurstöðu að um verk
sé að ræða sem ekki hafi verið unnið með tæknilega og faglega fullnægjandi
hætti byggi stefndi á því að um minniháttar verkþætti sé að ræða sem ekki sé
unnt að gera kröfu um að góður og gegn byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að
ekki væru unnir með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón
byggingarframkvæmda í heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki
fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum samkvæmt þessum matslið.
Matsliður
22. Samkvæmt matsgerð sé ljós í þvottahúsi ekki rakaþétt en jafnframt sé
tekið fram að engar slíkar kröfur séu gerðar í matsgerð. Þá segi að ber
ljósakrónan í þvottahúsinu geti ekki talist ljósakúpull eins og fjallað sé um í
kaupsamningi. Sé það rétt að lofað hafi verið ljósakúpli í kaupsamningi en
húseigninni hafi verið skilað með berri ljósaperu þá sé um vanefnd verksamninga
og/eða kaupsamnings að ræða þar sem matsliðurinn lýsi verki sem ekki hafi verið
unnið eða ástandi sem fasteign hafi verið skilað í sem samræmist ekki því
byggingarstigi sem um hafi verið samið í kaupsamningi. Stefndi sem
byggingarstjóri beri ekki ábyrgð á slíkum samningsvanefndum þriðja aðila. Þá sé
ekki um að ræða brot á nokkrum þeim lögum eða reglugerðum sem um
byggingarframkvæmdir gildi og sé engu slíku haldið fram af hálfu gangstefnenda.
Ekki sé því unnt að sjá með hvaða hætti byggingarstjóri hafi vanefnt skyldur
sínar hvað þennan matslið varði og verði því að sýkna stefnda af kröfum sem
byggðar séu á þessum matslið.
Matsliður
23. Samkvæmt matsgerð hafi þrýstijafnari í handklæðaofni á baðherbergi
hússins verið bilaður. Ekkert liggi fyrir um að svo hafi verið allt frá
upphafi. Tæki bili, slíkt sé einfaldlega eðli þeirra og byggingarstjóri beri
ekki skaðabótaábyrgð á því að engin tæki í húsi sem hann hafi haft yfirumsjón
með byggingu á bili ekki. Ef komist verði að þeirri niðurstöðu að um verk sé að
ræða sem ekki hafi verið unnið með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti
byggi stefndi á því að um minniháttar verkþátt sé að ræða sem ekki sé unnt að
gera kröfu um að góður og gegn byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að ekki
væri unninn með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón
byggingarframkvæmda í heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki
fullnægt og sýkna verði stefnda af kröfum samkvæmt þessum matslið.
Matsliður
24. Ekki séu gerðar kröfur samkvæmt þessum matslið í stefnu.
Matsliður
25. Ekki séu gerðar kröfur samkvæmt þessum matslið í stefnu.
Matsliður
26. Ekki séu gerðar kröfur samkvæmt þessum matslið í stefnu.
Viðbótarmatsliður
1. Réttargæslustefndi hafi greitt gagnstefnendum bætur fyrir tjón vegna
þessa matsliðar. Um nánari umfjöllun um útreikning bóta vísist til umfjöllunar
um matslið 1a.
Viðbótarmatsliður
2. Samkvæmt matsgerð sé frágangur á sökkulskauti ekki í samræmi við
samþykktar teikningar. Þó sé ekki ljóst af matsgerð hvort spennujöfnun og annað
sem skorti sé nauðsynlegt og hvort tjón hafi hlotist af hinum meinta
ófullnægjandi frágangi. Ef rétt reynist að um tjón sökum rangs frágangs sé að
ræða sé um minniháttar verkþátt að ræða sem ekki sé unnt að gera kröfu um að
góður og gegn byggingarstjóri hafi átt að átta sig á að ekki væri unninn með
tæknilega og faglega fullnægjandi hætti við yfirumsjón byggingarframkvæmda í
heild sinni. Skilyrðum sakarreglunnar sé því ekki fullnægt og sýkna verði
stefnda af kröfum samkvæmt þessum matslið. Þá sé ekki ljóst af matsgerð hvor um
verk sé að ræða sem ekki hafi verið unnið með tæknilega og faglega fullnægjandi
hætti eða hvort einfaldlega sé um að ræða vanefnd verksamning og/eða
kaupsamnings þar sem verk hafi ekki verið unnið. Ef svo sé byggi stefndi á því
að hann sem byggingarstjóri beri ekki ábyrgð á slíkum samningsvanefndum þriðja
aðila.
Viðbótarmatsliður
3. Samkvæmt matsgerð séu lok á loftdósum ekki öll eins. Gerð eða tegund
loftdósa sé ekki teiknuð á húsið og allar þær loftdósir sem til staðar séu
fullnægi þeim kröfum sem gerðar séu í lögum og reglugerðum. Því sé ekki um brot
á starfsskyldum byggingarstjóra að ræða. Þá sé vandséð hvaða tjóni
gagnstefnendur hafi orðið fyrir vegna þessa. Ef samræmd gerð loftdósa verði með
einhverjum hætti ráðin af gögnum málsins geti það eingöngu verið af samningum
sem stefndi sé ekki aðila að og beri engar skyldur til að tryggja að séu
réttilega efndir.
Án
þess að það sé tiltekið undir hverjum matslið fyrir sig hér að ofan byggi
stefndi á öllum málsástæðum sem fram komi í almennum hluta um alla matsliði.
Stefndi byggi einnig á því hvað alla matsliði varði að svo miklu leyti sem um
afleitt tjón sé að ræða beri að sýkna stefnda sökum eigin sakar gagnstefnenda og
skorts á því að þau hafi sinnt skyldu sinni til að takmarka tjón sitt.
Að
öllu framangreindu athuguðu sé ljóst að réttargæslustefndi hafi nú þegar greitt
gagnstefnendum bætur vegna alls þess tjóns sem falli undir ábyrgð
byggingarstjóra og verði því að sýkna stefnda af öllum kröfum í málinu.
Stefndi
byggir kröfu sína um greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnstefnenda á 1.-3. mgr.
130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
VII
Í
máli þessu er óumdeilt að gagnstefnendur skulda aðalstefnanda 800.000 krónur
vegna eftirstöðva kaupsamnings aðila um fasteignina Lyngdal 1 í Vogum. Þá
skulda þau greiðslu vegna aukaverka. Hefur aðalstefnandi krafist 441.879 krónur
vegna þeirra. Gagnstefnendur hafa lagt fram reikning að fjárhæð 179.131 krónur
sem þau greiddu vegna vinnu við raflagnir sem hluti af kröfu aðalstefnanda.
Hefur þetta ekki sætt andmælum aðalstefnanda og verður krafa hans lækkuð sem
því nemur.
Krafa
gagnstefnenda um sýknu byggist á því að fasteignin hafi verið haldin göllum.
Gagnstefnendur krefja aðalstefnanda og stefnda, byggingarstjóra
fasteignarinnar, í gagnsök um skaðabætur eða afslátt af kaupverði
fasteignarinnar og nemur krafan hærri fjárhæð en krafa aðalstefnanda í aðalsök.
Ágreiningur aðila snýst fyrst og fremst um það hvort fasteignin hafi verið
haldin göllum og ef svo sé hvort byggingarstjóri skuli bera ábyrgð á þeim ásamt
aðalstefnanda.
Aðalstefnandi
og stefndi hafa bent á nokkur atriði sem þeir telja að eigi að leiða til
frávísunar gagnsakarinnar án kröfu. Í fyrsta lagi telur aðalstefnandi að krafa
gagnstefnenda sé óskýr og ekki sé hægt að taka afstöðu til kröfufjárhæða þar
sem ekki hafi verið gerð grein fyrir virðisaukaskatti á vinnuliði, ívilnun á
tekjuskattstofn, bóta sem greiddar hafi verið úr starfsábyrgðartryggingu
byggingarstjóra og ógreiddum eftirstöðvum kaupverðs. Verður ekki á þetta
fallist enda eru kröfuliðir sundurliðaðir í stefnu og í framlagðri bókun
gagnstefnenda, þar sem jafnframt er gerð grein fyrir lækkun kröfunnar vegna
virðisaukaskatts á vinnuliði. Þar kemur jafnframt fram hver skuli vera lækkun
kröfunnar verði fallist á lækkun vegna ívilnunar á tekjuskattstofn. Þá voru
bætur greiddar eftir útgáfu stefnunnar og hefur verið gerð grein fyrir því í
bókuninni. Stefndi hefur bent á að hugsanlega beri að vísa málinu gagnvart sér
frá án kröfu þar sem gagnáfrýjendur séu ekki réttir aðilar til að hafa uppi
skaðabótakröfu gagnvart sér. Vísaði hann í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar
í máli nr. 37/2009 frá 5. nóvember 2009 þar sem fram kemur að þessari
málsástæðu hafi ekki verið borið við í málinu. Er því ekki á því byggt og ljóst
að þetta leiðir ekki til frávísunar án kröfu. Þá telur stefndi að kröfur geti
ekki beinst sameiginlega að sér og aðalstefnanda þar sem þær byggi ekki á sama
grundvelli. Fjölmörg dæmi eru um það í dómum Hæstaréttar að byggingaraðili
fasteignar og byggingarstjóri hafi verið dæmdir óskipt til greiðslu bóta.
Verður því ekki fallist á það með aðalstefnanda og stefnda að ágallar séu á
málinu sem leiði til þess að því verði vísað frá dómi án kröfu.
Aðalstefnandi
byggir sýknukröfu sína í gagnsök í fyrsta lagi á því að um aðildarskort sé að
ræða þar sem Jóhann H. Hafstein hdl. höfði málið fyrir hönd gagnstefnenda.
Telja verður að stefna gagnstefnenda sé orðuð með venjulegum hætti. Þá fer ekki
á milli mála hverjir eru stefnendur samkvæmt henni. Verður því ekki fallist á
þessa kröfu aðalstefnanda.
Verður
nú tekin afstaða til hvers matsliðar fyrir sig í kröfu gagnstefnenda en
sérstaklega verður fjallað um ábyrgð stefnda sem byggingarstjóra síðar. Þegar
hafa verið greiddar bætur vegna matsliða 1a, 8, 9b og viðbótarmatsliðar 1.
Matsliður
1b. Gagnstefnendur hafa krafist bóta vegna glugga fasteignarinnar. Matsmenn
telja að yfirfara þurfi opnanleg fög, stilla járn og þrífa þéttingar og
karmabrjóst. Aðalstefnandi og stefndi hafa bent á að matsmenn hafi ekki getað
staðreynt leka eða óeðlilegan loftleka. Samkvæmt matsgerð eru opnanleg fög stór
þar sem þau eru jafnframt björgunarop. Hugsanlegt sé að í vindi svigni þau til
og þá leki loft með þeim og jafnvel vatn. Verði því að yfirfara opnanleg fög.
Verður fallist á með gagnstefnendum að þau eigi rétt til bóta vegna þessa
matsliðar að fjárhæð 25.000 krónur, en að frádregnum virðisaukaskatti vegna
vinnuliðar 19.920 krónur.
Matsliður
1c. Krafist er bóta þar sem glerlista vanti með gleri í opnanlegt fag í
stofuglugga á austurhlið. Aðalstefnandi telur að um eðlilegt sig á opnanlegu
fagi sé að ræða. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna kemur fram að staðreynt hafi
verið að glerlistann vanti. Þá sé fagið sigið og telji þeir eiga þar þátt að það
sé ófrágengið. Eðlilegt sé að fög sem þetta sígi eitthvað og dragist í þar til
gerðan burðarklossa í falsi. Telja matsmenn að setja þurfi glerlistann í og
stilla fagið af og mála. Ekki verður á það fallist að sýkna beri af þessum
kröfulið þar sem einungis sé um eðlilegt sig að ræða. Verður krafan því tekin
til greina og er hún að fjárhæð 15.968 krónur að teknu tilliti til
virðisaukaskatts á vinnulið.
Matsliður
1e. Þessi matsliður er vegna leka við útidyrahurð og gönguhurð á bílskúr. Í
matsgerð dómkvaddra matsmanna er talið af ummerkjum og gerð hurðanna að þær
leki. Hefur því verið sýnt fram á leka með matsgerð sem hefur ekki verið
hnekkt. Stefndi hefur bent á að um sé að ræða hönnunargalla. Er til þess að
líta að gagnstefnendur eiga rétt á því að hurðin uppfylli eðlilegar kröfur um
þéttingu. Verður því fallist á kröfu þeirra samkvæmt þessum lið. Gagnstefnendur
hafa krafist bóta að fjárhæð 150.000 krónur, en að frádregnum virðisaukaskatti
vegna vinnuliða 120.536 krónur.
Matsliður
2. Gagnstefnendur krefjast bóta vegna klæðningar á útveggjum. Samkvæmt
matsgerð eru skemmdir á álklæðningu á útveggjum, klæðning á veggflötum yfir
þaki lítið fest og mögulegt að mýs komist inn í klæðningu við jörðu þar sem gap
sé á milli z-laga áfellu og áfellu neðst við báruálklæðningu. Matsmenn meta
kostnað við úrbætur á klæðningu 512.184 krónur. Aðalstefnandi og stefndi hafa
krafist sýknu af þessum lið þar sem ekki sé ljóst hvort þessi galli hafi verið
til staðar við afhendingu eignarinnar. Kristján Imsland fyrrum starfsmaður aðalstefnanda
bar fyrir dómi að haldnir hefðu verið fundir vegna lagfæringa á fasteigninni.
Gerðar voru athugasemdir við klæðningu við afhendingu eignarinnar samkvæmt
gátlista sem fylltur var út við afhendingu. Þá er til þess að líta að gallanum
er lýst í matsgerð dómkvaddra matsmanna sem hefur ekki verið hnekkt. Verður því
ekki talið að miða eigi við að gallinn hafi komið til vegna atvika eftir
afhendingu fasteignarinnar. Aðalstefnandi hefur hafnað því að sýnt hafi verið
fram á að klæðning hafi ekki verið fest nægjanlega, en athugun matsmanns sé
ófullnægjandi. Niðurstöðu matsmanna hefur ekki verið hnekkt með yfirmati eða á
annan hátt og verður því fallist á hana.
Matsliður
3. Krafist er bóta vegna ryðs á endum þakjárns við skotrennur. Telja verður
að ekki sé um eðlilega ryðmyndun að ræða og verður fallist á kröfu
gagnstefnenda vegna þessa matsliðar að fjárhæð 257.050 krónur.
Matsliður
4. Gagnstefnendur krefjast bóta vegna lagfæringa á lóð. Aðalstefnandi segir
að ekki hafi verið gerðar athugasemdir um ástand lóðarinnar við afhendingu á
eigninni og um minniháttar frávik sé að ræða. Með matsgerð dómkvaddra matsmanna
hefur verið staðreynt að lóðin sé óslétt og líkur séu til að vatn geti staðið á
henni hér og hvar. Verður fallist á þessa niðurstöðu matsmanna enda hefur henni
ekki verið hnekkt. Þá verður fallist á óhnekktan metinn kostnað samkvæmt
matsgerð að fjárhæð 258.424 krónur.
Matsliður
5. Krafist er bóta þar sem tvær flísar undir bílskúrshurð vanti að hluta.
Er metinn kostnaður við úrbætur 12.952 krónur þegar virðisaukaskattur hefur
verið dreginn af vinnulið. Aðalstefnandi hefur hafnað því að flísarnar hafi
verið brotnar fyrir afhendingu. Til þess er að líta að gallanum er lýst í
matsgerð dómkvaddra matsmanna sem hefur ekki verið hnekkt. Verður ekki talið að
miða eigi við að gallinn hafi komið til vegna atvika eftir afhendingu
fasteignarinnar og verður fallist á kröfu samkvæmt þessum matslið.
Matsliður
6. Gagnstefnendur krefjast bóta vegna frágangs á þakkanti. Aðalstefnandi og
stefndi hafa andmælt þessum matslið. Telja þeir að frágangurinn sé í samræmi
við teikningar og að notkun hefta teljist ekki galli. Í matsgerð dómkvaddra
matsmanna er komist að þeirri niðurstöðu að frágangur þakkants sé ófullnægjandi
hvað varði festingar á borði framan á þakkanti og þakrenna sé fest á. Hefur
þessari niðurstöðu ekki verið hnekkt með yfirmati eða öðrum hætti og verður því
á hana fallist. Metinn kostnaður vegna þessa matsliðar er 75.776 krónur.
Matsliður
7. Gagnstefnendur krefjast bóta þar sem ekki hafi verið gengið frá sorptunnuskýli
í samræmi við samþykktar teikningar. Þá uppfylla sorptunnuskýli ekki ákvæði
byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Verður fallist á kröfu gagnstefnenda
samkvæmt þessum matslið að fjárhæð 104.920 krónur.
Matsliður
9a. Krafist er bóta vegna frávika (veggskekkju) í útveggjum hússins. Í
matsgerð dómkvaddra matsmann kemur fram að frávik séu á vestur- og austurvegg í
stofu sem séu umfram eðlileg viðmiðunarmörk. Er metinn kostnaður við
lagfæringar á þeim að fjárhæð 118.744 krónur. Þar sem frávik eru meiri en
eðlilegt er að miða við verður fallist á kröfu gagnstefnenda samkvæmt þessum
lið.
Matsliður
11. Þá er krafist bóta vegna skekkju á kverk á milli útveggs að vestanverðu
og lofts í stofu. Það er niðurstaða matsmanna að áberandi skekkja sé á
kverkinni og hún sé meiri en eðlilegar viðmiðanir. Verður því fallist á kröfu
samkvæmt þessum lið að fjárhæð 147.568 krónur.
Matsliður
12. Gagnstefnendur hafa krafist bóta vegna gólfhalla í fasteigninni. Í
matsgerð dómkvadds matsmanns kemur fram að frávik séu meiri en eðlilegt og
faglegt sé að miða við á gólfi í stofu, barnaherbergi við vesturhlið,
hjónaherbergi og barnaherbergi í suð-austur horni. Í skilalýsingu vegna
fasteignarinnar kemur fram að henni hafi átt að skila fullfrágenginni án
gólfefna nema baðgólf sé flísalagt. Þá segir að gólf verði flotuð og tilbúin
til spörslunar ef með þurfi. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna er
nauðsynlegt að flota ofangreind gólf. Verður fallist á kröfu gagnstefnenda um
bætur að fjárhæð 115.038 krónur.
Matsliður
13. Krafist er bóta vegna flísalagnar á gólfi baðherbergis. Telja matsmenn
að útsetning flísalagnar sé skökk miðað við veggi og að á svæði við dyr sé
mislöndun á flísum meiri en eðlilegt sé að miða við. Verður fallist á að
gagnstefnendur eigi rétt til bóta vegna þessa matsliðar og hafa þær verið
metnar 148.274 krónur.
Matsliður
14. Gagnstefnendur hafa krafist bóta vegna rakaskemmda. Samkvæmt matsgerð
eru rakaskemmdir í stofu, barnaherbergjum og anddyri. Þá er los á sparsli í
hjónaherbergi, stofu og baðherbergi og á flísum í baðherbergi sem stafi af
ófullnægjandi undirvinnu undir spörslun á útveggjum. Aðalstefnandi og stefndi
telja að ekki sé um galla að ræða sem þeir beri ábyrgð á, enda sé ósannað um
upptök og orsakir rakaskemmdanna. Gagnáfrýjendur hafa staðreynt rakaskemmdirnar
með matsgerð og telja matsmenn nauðsynlegt að þétta sprungu, sparsla, mála og
flísaleggja. Hefur matsgerðinni ekki verið hnekkt og verður því fallist á kröfu
gagnstefnenda varðandi þennan matslið að fjárhæð 213.312 krónur.
Matsliður
15. Þessi matsliður er vegna eldhúseyju. Dómkvaddir matsmenn hafa staðfest
að festing á eldhúseyju sé ekki næg, sem valdi því að hún hreyfist mikið undan
eðlilegri umgengni. Verður því fallist á kröfur samkvæmt þessum lið, en í
matsgerð er talið að taka þurfi upp eldhúseyju og endurbæta festingar á sökkli
og á innréttingu við sökkul og sé kostnaður við það 68.744 krónur.
Matsliður
16. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna skortir á að bílskúr sé
nægjanlega loftræstur. Telja matsmenn hægt að ráða bót á þessu með því að setja
loftrist í gönguhurð. Samkvæmt 112. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skulu
bílageymslur vera loftræstar. Verður því fallist á að fasteignin sé gölluð að
þessu leyti og krafa vegna þessa matsliðar að fjárhæð 16.952 krónur tekin til
greina.
Matsliður
17. Gagnstefnendur hafa krafist bóta vegna ófullnægjandi og ófaglegrar
málningarvinnu. Aðalstefnandi og stefndi telja að um eðlilegt viðhald sé að
ræða og um lítils háttar hnökra sem hverfi væntanlega við endurmálun. Í
matsgerð er talið að málning á veggjum og loftum og undirvinna hennar sé á
ýmsan hátt ófullnægjandi og ófagleg. Verður fallist á niðurstöður matsgerðar um
þetta enda hefur henni ekki verið hnekkt. Eru metnar bætur vegna þessa liðar
217.328 krónur.
Matsliður
20. Gagnstefnendur krefjast bóta þar sem stillinemar fyrir gólfhita séu
rangt staðsettir. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna eru nemarnir í 1,1 m
hæð frá gólfi en eigi samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðendum að vera 1,6 m
frá gólfi. Hafa matsmenn metið það svo að gera þurfi úrbætur og verður fallist
á kröfu gagnstefnenda samkvæmt þessum matslið að fjárhæð 36.466 krónur.
Matsliður
21. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna vantar loftnetstengi í
rafmagnstöflu og ekkert loftnet er á þaki hússins. Er fallist á kröfu
gagnstefnenda samkvæmt þessum lið, að fjárhæð 59.920 krónur.
Matsliður
22. Krafist er bóta vegna ljóss í þvottahúsi. Fram kemur í matsgerð að föst
ljós og ljósakúplar skuli vera meðal annars í þvottahúsi samkvæmt kaupsamningi.
Þar sé að finna bera peru sem geti ekki flokkast sem ljósakúpull. Verður
fallist á að aðalstefnanda hafi borið að sjá til þess að ljósakúpull væri í
þvottahúsi og verður krafa gagnstefnenda um greiðslu að fjárhæð 22.781 króna
tekin til greina.
Matsliður
23. Gagnstefnendur krefjast bóta vegna handklæðaofns á baðherbergi. Í
matsgerð er staðreynt að ofninn hitnar ekki og telja matsmenn það stafa af
bilun í þrýstijafnara. Telja aðalstefnandi og stefndi sig ekki bera ábyrgð á
því að þrýstijafnari bili. Verður talið að aðalstefnandi og stefndi beri ábyrgð
á því að þrýstijafnari virki sem skyldi. Þá hefur þessi galli verið staðreyndur
með matsgerð og verður ekki við það miðað að gallinn hafi komið til vegna
atvika eftir afhendingu eignarinnar. Verður fallist á kröfu að fjárhæð 94.920
krónur.
Viðbótarmatsliður
2. Gagnstefnendur krefjast bóta vegna frágangs á sökkulskauti. Með matsgerð
er staðreynt að frágangur á sökkulskauti er ekki samkvæmt teikningum og
spennujöfnun vantar milli heita- og kaldavatnsröra. Ekkert tengibox fyrir
sökkulskaut sé til staðar og því ekki ljóst hvort sökkulskautið sé yfirleitt
tengt við jarðskinnu rafmagnstöflunnar. Samkvæmt teikningum og tæknilegum
tengiskilmálum rafveitna á að vera tengibox fyrir sökkulskautið, þannig að hægt
sé að sannreyna tengingu þess. Ljóst er
af matsgerð að gera þarf úrbætur vegna þessa. Hefur matsgerð ekki verið hnekkt
og er fallist á metinn kostnað vegna þess að fjárhæð 17.968 krónur.
Viðbótarmatsliður
3. Gagnstefnendur hafa að lokum krafist bóta vegna frágangs á loftdósum.
Telja matsmenn ósamræmi vera í frágangi loka á loftdósum, en annars vegar séu
notuð hefðbundin lok á dós og hins vegar hefðbundin lok á dós með krans.
Útfærsla þar sem notast sé við krans sé ekki ólögleg en sé þó ekki eðlileg
undir venjulegum kringumstæðum. Telja matsmenn að samræma þurfi frágang loka á
loftdósum. Aðalstefnandi hafnar bótaskyldu vegna þessa matsliðar þar sem ekki
sé um galla að ræða heldur útlitslegt atriði. Fallist verður á niðurstöðu
dómkvaddra matsmanna um þetta efni, enda hefur niðurstöðu hennar ekki verið
hnekkt. Þá verður ekki fallist á að um sé að ræða atriði sem gagnstefnendur
hefðu mátt sjá við afhendingu og að athugasemdir séu of seint fram komnar.
Verður fallist að kröfu um bætur að fjárhæð 41.872 krónur.
Ítarlega
hefur verið fjallað um ábyrgð byggingarstjóra í dómum Hæstaréttar, nú síðast í
máli nr. 459/2009 frá 20. maí 2010. Samkvæmt þeim dómum ber byggingarstjóri
ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.
Þá ber honum skylda til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum
sem hann stýrir, þar á meðal að iðnmeistarar sem koma að verkinu fyrir hans
atbeina sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé tæknilega og faglega
fullnægjandi, sbr. einnig 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr.
73/1997 sem voru í gildi til 1. janúar 2011. Með vísan til þessa og þess að
lokaúttekt hefur ekki farið fram á húsinu verður talið að stefndi hafi vanrækt
skyldur sínar sem byggingarstjóri. Ber hann því ábyrgð með aðalstefnanda á
tjóni gagnstefnenda utan þess að ekki verður talið að ábyrgð hans nái til
þeirra liða þar sem lokafrágangi er ólokið. Er þar um að ræða matsliði 7, 21 og
22, auk kostnaðar við hönnun og ráðgjöf vegna breytinga á karmi samkvæmt
matslið 1e. Nær ábyrgð byggingarstjóra því ekki til 227.461 krónu af dæmdum
skaðabótum.
Ekkert
er fram komið sem leiðir til þess að leggja beri hluta sakar á gagnstefnendur
svo sem stefndi hefur krafist. Þá verður ekki fallist á að gagnstefnendum hafi
verið unnt að aðhafast eitthvað til að takmarka tjón sitt.
Aðalstefnandi og stefndi hafa
krafist þess að til frádráttar dæmdum bótum komi ívilnun á tekjuskattstofn sem
gagnstefnendur eigi rétt á, sbr. lög nr. 92/2010 um breytingu á lögum nr.
90/2003 um tekjuskatt. Við úrlausn málsins þykir rétt að taka tillit til þessarar
heimildar. Ágreiningslaust er að fjárhæð til frádráttar er 138.360 krónur og
verður krafa gagnstefnenda lækkuð sem því nemur.
Samkvæmt öllu framangreindu
verður talið að fasteignin Lyngdalur 1 sé haldin göllum og hefur verið fallist
á bótakröfur gagnstefnenda samtals að fjárhæð 2.559.257 krónur. Eftirstöðvar
vegna kaupsamnings og aukaverka eru 1.241.879 krónur að frádregnum 179.131
krónu vegna rafmagnsvinnu eða 1.062.748 krónur. Með vísan til 7. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu verður ekki talið að aðalstefnandi eigi rétt
á dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð. Gengur fjárhæðin upp í dæmdar skaðabætur til
gagnstefnenda. Verður því fallist á sýknukröfu gagnstefnenda í aðalsök og í
gagnsök fallist á skaðabótakröfu gagnstefnenda fyrir því sem eftir stendur,
1.496.509 krónur. Verða dráttarvextir dæmdir frá 28. mars 2010 eins og krafist
er, en þá var liðinn mánuður frá því að gagnstefnendur settu kröfu sína á
grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna fram, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
Þá verður stefndi dæmdur til greiðslu 1.269.048 króna þar af óskipt með
aðalstefnanda.
Með hliðsjón af framangreindu
verður fallist á kröfu gagnstefnenda um að aðalstefnanda verði gert skylt að
gefa út afsal vegna fasteignarinnar Lyngdals 1, Vogum.
Í ljósi málsúrslita þykir rétt að
aðalstefnandi greiði gagnstefnendum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn
1.600.000 krónur, en rétt þykir að stefndi greiði þar af 1.300.000 óskipt með
aðalstefnanda. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til málskostnaðar í samkynja málum
nr. E-2251/2009, E-2253/2009 og E-2255/2009, sem flutt voru sama dag, kostnaðar
við öflun matsgerðar og skyldu aðila til að greiða virðisaukaskatt af
málflutningsþóknun.
Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kveður upp
þennan dóm ásamt meðdómsmönnunum Árna J. Gunnlaugssyni rafmagnstæknifræðingi og
Ásmundi Ingvarssyni byggingaverkfræðingi.
Dómsorð:
Gagnstefnendur, Guðmundur
Kristinn Sveinsson og Svanhildur Kristinsdóttir, skulu vera sýkn af kröfu
aðalstefnanda, Týrusar hf., í aðalsök.
Aðalstefnandi greiði
gagnstefnendum 1.496.509 krónur, þar af óskipt með stefnda, Snorra Hjaltasyni,
1.269.048 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001
frá 28. mars 2010 til greiðsludags.
Aðalstefnanda er skylt að gefa
út afsal til gagnstefnenda fyrir fasteigninni Lyngdal 1, Vogum, fastanr.
228-4178.
Aðalstefnandi greiði
gagnstefnendum 1.600.000 krónur í málskostnað, þar af óskipt með stefnda
1.300.000 krónur.