Hæstiréttur íslands
Mál nr. 475/2005
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Tekjuskattur
- Útsvar
- Bókhald
|
|
Fimmtudaginn 11. maí 2006. |
|
Nr. 475/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Jóni Inga Ólafssyni (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Virðisaukaskattur. Tekjuskattur. Útsvar. Bókhald.
J var ákærður fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, lögum um tekjuskatt og eignarskatt og bókhaldslögum sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélagsins R og í eigin rekstri. Hann var fundinn sekur um undanskot virðisaukaskatts, tekjuskatts og útsvars á árunum 1997-2001 sem nam samtals 8.422.736 krónum. Þá var hann jafnframt sakfelldur fyrir bókhaldsbrot. Brot J voru talin stórfelld, en hann hafði ekki áður sætt refsingu. Var refsing hans ákveðin fangelsi í átta mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið. Jafnframt var J dæmdur til greiðslu 25.000.000 króna sektar í ríkissjóð, en vegna þess hversu stórfelld brot hans voru þótti ekki unnt að takmarka sektarfjárhæð við lágmörk viðeigandi laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. október 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu ákærða að öðru leyti en því að fallið er frá sakargiftum samkvæmt 4. lið II. þáttar B kafla ákæru að því er varðar vangoldinn tekjuskatt og útsvar og að fjárhæð vantalins tekjuskatts og útsvars í 3. lið II. þáttar í sama kafla ákæru lækkar í 1.728.033 krónur. Þess er einnig krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að B kafla ákæru verði vísað frá héraðsdómi og honum gerð vægasta refsing sem lög leyfa fyrir þá háttsemi sem lýst er í A og C köflum hennar. Til vara er þess krafist að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að lagt verði til grundvallar við ákvörðun hennar að rekstrargjöld nemi 50% af þeim tekjum sem byggt er á í ákæru að hann hafi ekki talið fram til skatts.
I.
Mál þetta varðar skilagreinar og greiðslu ákærða á virðisaukaskatti, tekjuskatti og útsvari í rekstri sem hann stundaði á árunum 1997-2001 eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Fyrir útgáfu ákæru var málið rannsakað hjá embættum skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkislögreglustjóra. Frá upphafi rannsóknar málsins hafði ákærði alla möguleika á að leggja fram eða vísa til gagna varðandi rekstur sinn á því tímabili er ákæran tekur til, en hafa ber í huga skyldur hans samkvæmt viðeigandi lögum til að skila skýrslum, byggðum á réttum reikningum og gögnum. Er ekki á það fallist að rannsóknaraðilum hafi verið skylt að aðhafast frekar en gert var. Eru engir þeir annmarkar á rannsókn málsins, sem valdið geta frávísun þess frá héraðsdómi. Er því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um frávísunarkröfu ákærða, að því er varðar B kafla ákærunnar.
II.
Í málinu er ekki deilt um niðurstöðu héraðsdóms varðandi A og C kafla ákærunnar og er sakfelling ákærða samkvæmt þeim staðfest.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er og staðfest niðurstaða hans þar sem hafnað er kröfu ákærða um að lagt verði til grundvallar að rekstrargjöld til frádráttar tekjum nemi 50% í eigin rekstri hans 1998-2001.
Ákæruvaldið hefur við málflutning fyrir Hæstarétti mótmælt niðurstöðu héraðsdóms um 7% frádrátt frá tekjuskattstofni vegna nánar tiltekinna útgjalda. Í áfrýjunarstefnu og greinargerð er hins vegar krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða að öðru leyti en því sem felst í leiðréttingum, sem vísað er til í kröfugerð. Verður því við þessa niðurstöðu að una, en engin efni eru til að taka kröfur ákærða um frekari frádrátt að þessu leyti til greina, enda styðjast þær ekki við gögn.
III.
Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti er ákærði samkvæmt framansögðu fundinn sekur um undanskot virðisaukaskatts, tekjuskatts og útsvars á ofangreindu tímabili, er nemur samtals 8.422.736 krónum. Er þá miðað við framangreindar leiðréttingar ákæruvalds og útreikning af hálfu ákærða um áhrif ofangreinds 7% frádráttar að teknu tilliti til þeirra og er ekki ágreiningur um hann. Eins og lýst er í ákæru og héraðsdómi framdi ákærði brot þessi ýmist með því að skila röngum skýrslum til skattyfirvalda eða með því að skila ekki skýrslum. Þá hefur hann gerst sekur um bókhaldsbrot. Eru brot hans stórfelld og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Taka verður hins vegar tillit til þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu sem skiptir hér máli.
Að framansögðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en eftir atvikum verður sú refsing skilorðsbundin eins og nánar greinir í dómsorði. Dæma ber ákærða einnig til sektargreiðslu og vegna þess hversu stórfelld brot hans eru þykir ekki unnt að takmarka sektarfjárhæð við lágmörk viðeigandi laga. Verður sektarfjárhæðin ákveðin 25.000.000 krónur. Með hliðsjón af því að sektarfjárhæð er umfram lögbundið lágmark þykir vararefsing hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað. Ákærði verður dæmdur til greiðslu áfrýjunarkostnaðar eins og í dómsorði greinir og eru þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, sem tiltekin eru með virðisaukaskatti.
Dómsorð:
Ákærði, Jón Ingi Ólafsson, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 25.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, 917.954 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hróbjarts Jónatanssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. október 2005.
Málið, sem dómtekið var 21. f.m., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjórans, útgefinni 20. janúar 2005, á hendur Jóni Inga Ólafssyni, kt. 150454-3369, Mávanesi 14 í Garðabæ. Í ákærunni eru ákærða gefin að sök „eftirtalin skatta- og hegningarlagabrot, sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélagsins Raftengis, kt. 640195-2669 og vegna reksturs í eigin nafni.
A. Vegna einkahlutafélagsins Raftengis.
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Með því að hafa í rekstri einkahlutafélagsins brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa rangfært, á virðisaukaskattskýrslum, skilaskyldan virðisaukaskatt vegna sölu á virðisaukaskattskyldri þjónustu, vegna uppgjörstímabilanna janúar 1997 til og með febrúar 1998, og að hafa með þessu komið sér undan að standa Tollstjóranum í Reykjavík skil á innheimtum virðisaukaskatti, í samræmi við það sem lög áskilja, samtals að fjárhæð [1.997.274 krónur], sem sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil: Vantalin skattskyld velta Vangoldinn VSK.
Árið 1997
Janúar - febrúar kr. 70.484 kr. 17.275
Mars- apríl kr. 300.852 kr. 73.709
Maí - júní kr. 1.777.199 kr. 435.413
Júlí - ágúst kr. 1.667.332 kr. 408.493
September - október kr. 1.338.339 kr. 326.891
Nóvember - desember kr. 1.895.077 kr. 464.291
kr. 7.049.283 kr. 1.726.072
Árið 1998
Janúar - febrúar kr. 1.106.968 kr. 271.202
kr. 1.106.968 kr. 271.202
Samtals kr. 1.997.274
Telst þetta varða við 1. og 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 191. gr. laga nr. 82/1998 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.
B. Vegna reksturs í eigin nafni.
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Með því að hafa ekki tilkynnt virðisaukaskattskylda atvinnustarfsemi sína mars til júní 1998 og hafa vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskattskyldri sölu sinni á því tímabili, og hafa frá og með júlí 1998 til og með desember 2001 rangfært, á virðisaukaskattskyldri þjónustu og með þessu komið sér undan að greiða Sýslumanninum í Hafnarfirði [3.767.520 krónur], sem sundurliðast þannig.
Uppgjörstímabil: Vantalin skattskyld velta Vangoldinn VSK.
Árið 1998
Mars- apríl kr. 45.230 kr. 11.081
Maí - júní kr. 539.261 kr. 122.338
Júlí - ágúst kr. 1.014.549 kr. 246.368
September - október kr. 324.600 kr. 71.950
Nóvember - desember kr. 38.556 kr. 9.247
kr. 1.962.196 kr. 461.002
Árið 1998
Janúar - febrúar kr. 735.480 kr. 179.086
Mars- apríl kr. 446.163 kr. 108.529
Maí - júní kr. 793.757 kr. 193.259
Júlí - ágúst kr. 117.268 kr. 25.408
September - október kr. -32.000 kr. -7.844
Nóvember - desember kr. 175.094 kr. 42.463
kr. 2.235.762 kr. 540.901
Árið 2000
Janúar - febrúar kr. 736.028 kr. 180.323
Mars- apríl kr. 2.520.052 kr 617.423
Maí - júní kr. 905.672 kr. 221.899
Júlí - ágúst kr. 503.855 kr. 123.454
September - október kr. 815.948 kr. 199.920
Nóvember - desember kr. 770.827 kr. 188.848
kr. 6.252.382 kr. 1.531.867
Árið 2001
Janúar - febrúar kr. 523.111 kr. 128.158
Mars- apríl kr. 509.570 kr 124.844
Maí - júní kr. 872.661 kr. 213.812
Júlí - ágúst kr. 745.159 kr. 182.567
September - október kr. 1.311.019 kr. 321.211
Nóvember - desember kr. 1.074.109 kr. 263.158
kr. 5.035.629 kr. 1.233.750
Samtals: kr. 3.767.520
Telst þetta varða við 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 191. gr. laga nr. 82/1998 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.
II. Fyrir brot gegn lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um tekjustofna sveitarfélaga og almennum hegningarlögum.
Með því að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum gjaldaárin 1999 og 2000, vegna tekjuáranna 1998 og 1999, og hafa ekki talið fram til skatts tekjur sínar af sjálfstæðri atvinnustarfsemi á árunum 2000 og 2001 og með þessu komið sér undan greiðslu tekjuskatts og útsvars samtals að fjárhæð [4.783.343 krónur], sem sundurliðast sem hér greinir:
1. Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldaárið 1999:
Vantalin skattskyld velta: kr. 4.129.070
Möguleg rekstrargjöld: kr. -820.466
Tekjuskattstofn: kr. 3.308.604
Tekjuskattstofn samkvæmt skattframtali: kr. -1.754.346
Vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn: kr. 1.554.258
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 27,41% kr. 426.022
Sérstakur tekjuskattur á stofn yfir 3.198.000, gjaldstig 7% kr. 7.742
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 11,19% kr. 173.921
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals: kr. 607.685
2. Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldaárið 2000:
Vantalin skattskyld velta: kr. 6.552.495
Möguleg rekstrargjöld kr. -1.247.991
Tekjuskattsstofn: kr. 5.304.504
Tekjuskattsstofn samkvæmt skattframtali: kr. -2.740.357
Vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn: kr. 2.564.147
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósent 26,41% kr. 677.191
Sérstakur tekjuskattur á stofn yfir 3.277.950, gjaldstig kr. 141.858
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 11,24% kr. 288.210
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals kr. 1.107.259
3. Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldaárið 2001:
Vantalin skattskyld velta: kr. 10.570.499
Möguleg rekstrargjöld: kr. -1.393.577
Áætlaður tekjuskattsstofn ásamt álagi: kr. -3.345.000
Vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn: kr. 5.831.922
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 26,41% kr. 1.540.210
Sérstakur tekjuskattur á stofn yfir 3.359.899, gjaldstig 7% kr. 173.041
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 11,24% kr. 655.508
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals: kr. 2.368.759
4. Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldaárið 2002:
Vantalin skattskyld velta: kr. 8.262.087
Möguleg rekstrargjöld: kr. - 1.903.474
Áætlaður tekjuskattsstofn ásamt álagi: kr. -4.780.000
Vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn: kr. 1.578.613
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósent 26,08% kr. 411.702
Sérstakur tekjuskattur á stofn yfir 3.865.000, gjaldstig kr. 110.502
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 11,24% kr. 177.436
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals kr. 699.640
Samtals kr. 4.783.343
Telst þetta varða við 2. og 6. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 90/2003 sbr. áður 2. og 6. mgr. [107. gr.] eldri laga nr. 75/1981 um tekjuskatt- og eignarskatt, 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.
C. Fyrir bókhaldsbrot.
Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna starfsemi einkahlutafélagsins Raftengis á árunum 1997 og 1998 og vegna atvinnustarfsemi sinnar á árunum 1998, 1999, 2000 og 2001.
Telst þetta varða við 1. og 2. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1944 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995 um breyting á þeim lögum, sbr. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995.“
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Ákærði krefst þess að B kafla ákæru verði vísað frá dómi og að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa fyrir þá háttsemi sem lýst er í A og C köflum hennar. Til vara er gerð krafa um að hann hljóti einungis vægustu refsingu sem lög leyfa og að lagt verði til grundvallar við ákvörðun hennar að rekstrargjöld nemi umtalsvert hærri fjárhæðum en miðað sé við í B kafla ákæru.
I.
Ákærði hefur fyrir dómi játað skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í A og C köflum ákæru. Samræmist játning ákærða rannsóknargögnum málsins, en ákæra styðst við lögreglurannsókn sem fram fór á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins til ríkislögreglustjórans 22. desember 2003 og rannsóknargagna sem því fylgdu. Er samkvæmt þessu sannað að ákærði hafi framið þá háttsemi sem í þessum köflum ákæru greinir.
II.
1.
Ákærði hefur tekið til varna að því er varðar sakargiftir í B kafla ákæru. Eru varnir hans á því byggðar að rekstrargjöld hafa verið umtalsvert hærri en lagt sé til grundvallar í þessum kafla ákærunnar, en af því leiði að gjaldstofnar eigi að vera lægri en þar sé miðað við sem aftur leiði til lækkunar á vangreiddum gjöldum. Er krafa ákærða um frávísun á því byggð að málið hafi hvað þetta varðar ekki verið rannsakað með viðhlítandi hætti og því sé ekki unnt að taka þessar sakargiftir á hendur honum til efnislegrar meðferðar. Verði ekki á frávísunarkröfu fallist er á því byggt af hálfu ákærða að ósannað sé að kostnaður af öflun tekna af eigin rekstri hans sé ekki meiri en gengið sé út frá í ákæru og að við það verði að miða svo sem sönnunargögnum er háttað að hann nemi í reynd allt að helmingi teknanna.
2.
Ákærði er rafvirki að mennt og starfaði við þá iðn á þeim tíma sem ákæra málsins tekur til. Stofnaði hann einkahlutafélag, Raftengi, um rekstur sinn. Það félag varð gjaldþrota árið 1998 og rak ákærði starfsemi sína eftir það í eigin nafni. Bú hans mun síðan hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 15. október 1999.
Rekstrargjöld samkvæmt II. tölulið í B kafla ákæru styðjast við gögn sem ákærði afhenti við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra. Var að fullu tekið tillit til þeirra enda þótt á skorti að þau væru í þeim búningi sem gerð er krafa til. Ákærði hefur ekki framvísað frekari kostnaðarreikningum. Honum hefur þó ítrekað verið gefinn kostur á því. Hefur hann skýrt svo frá að mikil óreiða hafi verið á bókhaldi hans á þeim tíma sem um ræðir í málinu og að bókhaldsgögn hafi glatast í stórum stíl.
Í vörn ákærða hefur annars vegar verið vísað til þess að við útreikning á rekstrargjöldum hafi láðst að taka tillit til kostnaðar sem óumdeilt verði að telja að á hann hafi fallið enda þótt hann hafi ekki getað lagt fram gögn þar að lútandi. Vísar ákærði hvað þetta varðar til símakostnaðar, kostnaðar vegna reksturs bifreiðar og tryggingariðgjalda. Er á því byggt að hér sé um umtalsverðan kostnað að ræða og að allt að 10% rekstrartekna hafi gengið til greiðslu hans. Hins vegar hefur ákærði lagt fram í málinu gögn sem hann telur að sýni fram á að eðlilegt sé að ganga út frá því að rekstrargjöld hafi í reynd numið allt að helmingi rekstrartekna. Verður nú nánar vikið að þessum vörnum ákærða.
Ákærði hefur lagt fram tilboð sem hann gerði í fullnaðarfrágang raflagna í tilteknu fjöleignarhúsi í apríl 2003. Samkvæmt því hafi efniskostnaður numið rúmlega helmingi tilboðsfjárhæðar. Heldur ákærði því fram að þetta tilboð sé dæmigert fyrir þann rekstur sem hann hafi haft með höndum. Hann hafi þannig aðallega sinnt sambærilegum verkum þann tíma sem ákæra málsins tekur til. Þá hefur ákærði lagt fram í málinu tvö bréf sem Davíð Einarsson löggiltur endurskoðandi ritaði að beiðni verjanda hans, en endurskoðandinn hefur aðstoðað ákærða við skattskil og bókhald. Í fyrra bréfinu, sem er dagsett 6. maí 2005, segir svo meðal annars:
„Við meðferð málsins hjá skattrannsóknarstjóra var lögð mikil áhersla á að ná utan um allar tekjur sem Jón Ingi Ólafsson og Raftengi ehf [...] höfðu haft á þeim árum sem tekin voru til skoðunar og vantaði í bókhald og ársreikninga. Aftur á móti var ekki gerð mikil tilraun til að ná utan um allan þann kostnað sem einnig vantaði í bókhald Jóns og Raftengis. [...]
Sem dæmi um kostnað sem vantaði er símakostnaður en enginn símakostnaður [er] gjaldfærður þó svo hann noti gsm síma mikið í tengslum við vinnuna. Ástæðan er sú að síminn sem hann notar var ekki skráður á hann og var þá enginn símakostnaður gjaldfærður þó svo hann greiddi alla símareikninga. Sama má segja um bifreiðakostnað en nánast enginn bifreiðakostnaður hefur verið gjaldfærður þar sem nótur hafa ekki skilað sér. Þetta á einnig við um efniskostnað og annan kostnað.
Þegar vantaldar tekjur voru tekjufærðar var örugglega ekki nægjanlegt tillit tekið til vantalinna gjalda. Í tilboðsgerðum við raflagnir í nýbyggingar sem Jón hefur aðallega unnið við er iðulega miðað við að vinnuþátturinn sé 50% og efnisþátturinn 50%.
Meðfylgjandi er tilboð í raflagnir [...] frá 22. apríl 2003. Þar er tilboð upp á 9,8 milljónir með virðisauka eða 7.871.500 án [virðisaukaskatts]. [Þar] af er áætlað efni í verkið [4.236.104 krónur] sem er 53.82% af heildartilboðinu.“
Í seinni bréfinu, sem er dagsett 5. september sl., segir svo meðal annars:
„Samkvæmt gögnum frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og Hagstofu Íslands sem gefa út byggingarvísitölur fyrir byggingariðnaðinn á Íslandi kemur fram í ágústhefti 2005 að raflagnir í fjölbýlishús skiptast þannig milli vinnuþáttar og efnisþáttar að vinnuþáttur er í þeirra dæmi [1.869.216 krónur] en efnisþátturinn [1.189.905 krónur] eða 38.96%. Í þessu dæmi er ekki gert ráð fyrir tilboðum eins og tíðkast í greininni heldur er hér gert ráð fyrir að hægt sé að selja vinnuþáttinn út á fullu verði sem ekki er raunin þegar um tilboð er að ræða eins og í tilviki Jóns Inga Ólafssonar, en öll stóru verkin hans eru samkvæmt tilboði. Þegar tilboð eru gerð er oftast miðað við þá reglu sem tíðkast í bransanum að vinnuþátturinn sé 50% og efnisþátturinn 50%. Það er því gefinn afsláttur af vinnuþættinum. Afslátturinn er þá milli 30-40% af útseldri mælieiningu rafvirkja samkvæmt þessum útreikningum hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins.
Í bréfi mínu frá 6. maí 2005 vegna sama máls fylgdi með tilboð í raflagnir [...] frá 22. apríl 2003 að fjárhæð kr. 7,8 milljónir án vsk. þar sem áætlað efni var 4,2 milljónir eða 53,82% af heildartilboðinu.
Eins og fram kom í bréfinu frá 6. maí teljum við að efniskostnaðurinn hafi ekki verið rétt metinn í skýrslu skattrannsóknarstjóra en hann var á bilinu 13,18% upp í 23,04% mismunandi eftir tímabilum sem er óeðlilegt þar sem hann ætti að vera um 50%.“
Í seinna bréfinu tekur endurskoðandinn fram að sé mögulegur efniskostnaður hækkaður í 50% hafi sú hækkun ekki bara áhrif til lækkunar á tekjuskatti heldur leiði hún einnig til hækkunar á innskatti og þar með til lækkunar á vangoldnum virðisaukaskatti. Þá leiði þessi hækkun einnig til lækkunar á álagi og vöxtum. Er það niðurstaða endurskoðandans að framangreindri forsendu gefinni að heildar undanskot tekjuskatts og útsvars eigi að lækka um 3.903.809 krónur frá því sem lagt sé til grundvallar í B kafla ákæru og að vangoldinn virðisaukaskattur úr 3.767.520 krónum í 1.493.129 krónur eða um 2.274.391 krónu.
Rannsóknarstofnun byggingariðnarins og Hagstofa Íslands gefa mánaðarlega út rit sem ber heitið byggingarvísitölur og er til þess vísað í framangreindu bréfi Davíðs Einarssonar frá 5. september sl. Er tilgangur þeirrar útgáfu meðal annars sá að sýna hlutfallslegar breytingar á byggingarkostnaði fjölbýlishúss og einstökum þáttum hans. Hefur ákærði lagt fram í málinu fjögur hefti þessa rits auk þess heftis sem endurskoðandi hans vísar til í framangreindu bréfi sínu. Sem dæmi má taka að í desemberhefti 1999 er heildarkostnaður við raflagnir í fjölbýlishúsi sagður nema 2.522.731 krónu, en þar af nemi efniskostnaður 1.092.387 krónum.
3.
Varnir ákærða að því er tekur til sakargifta samkvæmt B kafla ákæru taka samkvæmt framansögðu ekki til þess að við útreikning á mögulegum rekstrargjöldum hans á rekstrarárunum 1998 til og með 2001 hafi verið litið framhjá reikningnum eða öðrum gögnum þar um sem hann hefur framvísað. Fela varnir ákærða það í sér að ef öllum gögnum hér að lútandi hefði verið haldið til haga næmu samanlögð undanskot hans mun lægri fjárhæð en gengið sé út frá í ákæru. Eru rök ákærða fyrir þessu reifuð í kafla 2 hér að framan.
Að hluta til styðjast varnir ákærða samkvæmt framansögðu við almenn viðmið sem sækja stoð í byggingarvísitölu sem reiknuð er mánaðarlega og Rannsóknar-stofnun byggingariðnaðarins og Hagstofa Íslands gefa út í sameiningu. Þótt út frá því væri gengið við úrlausn málsins að ákærði hafi nær alfarið haft með höndum raflagnavinnu í fjölbýlishúsum á grundvelli tilboða eru engin efni til að styðjast við almennt reiknilíkan af þessu tagi og áætla rekstrargjöld ákærða til samræmis við það. Það er hins vegar svo að engra gagna nýtur við í málinu sem renna viðhlítandi stoðum undir það að ákærði hafi í reynd haft verk af þessu tagi nær alfarið með höndum, hvað þá að við tilboðsgerð af hans hálfu hafi verið gefinn afsláttur af vinnuþætti verks sem aftur hafi leitt til þess að efniskostnaður hafi numið allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tilboð ákærða í það hafi hljóðað uppá. Samkvæmt þessu og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 121/1997, sem birtur er í dómasafni það ár á bls. 1913, og dóms réttarins frá 11. desember 2003 í málinu nr. 111/2003, þar sem skortur á gögnum frá sakborningum leiddi til þess að ekki var fallist á varnir um að lækka bæri fjárhæð vantalinna skattstofna frá því sem gengið var út frá við saksókn, verður ekki fallist á þá málsvörn ákærða að rétt sé að hækka rekstrargjöld í eigin rekstri hans á árunum 1998 til og með 2001 frá því sem í ákæru greinir og á þeim grunni sem hér hefur verið til umfjöllunar.
Sú málsvörn ákærða sem dómurinn hefur ekki tekið afstöðu til felur það í sér að við útreikning á rekstrargjöldum í II. tölulið B kafla ákæru hafi láðst að taka tillit til kostnaðar sem óumdeilt verði að telja að á hann hafi fallið enda þótt hann hafi ekki getað lagt fram gögn þar að lútandi. Er í meginatriðum gerð grein fyrir þeim kostnaðarliðum sem hér um ræðir í kafla 2 hér að framan. Í refsimáli þessu verður að mati dómsins ekki horft framhjá þessari vörn ákærða, enda verður ekki talið að framangreindir dómar Hæstaréttar standi þeirri niðurstöðu í vegi. Þá þykir eftir atvikum og svo sem sönnunarstöðu í málinu er háttað mega á það fallast að þessi kostnaður kunni að nema allt að einum tíunda hluta rekstrartekna. Á móti kemur eins og áður er gerð grein fyrir að ákærði hefur engum gögnum framvísað um þennan kostnað. Þykir hæfilegt svo sem hér hagar til að ganga út frá því við úrlausn málsins að ákærði hafi í reynd þurft að bera kostnað vegna þeirra gjalda sem hér um ræðir, enda þótt engin bókhaldsgögn þar að lútandi liggi fyrir, og að hann nemi 7% rekstrartekna. Kostnaður af þessu tagi þarf hins vegar ekki að hafa áhrif við ákvörðun vangoldins virðisaukaskatts. Kemur þar annars vegar til að vera kann að skilyrði til innsköttunar séu ekki fyrir hendi. Hins vegar kunna gjöldin að vera þess eðlis að þau beri ekki virðisaukaskatt.
Samkvæmt öllu framansögðu er hafnað kröfu ákærða um frávísun á B kafla ákæru og hann fundinn sekur um þá háttsemi sem þar er lýst, þó þannig að lagt er til grundvallar dómi, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að samanlögð undanskot tekjuskatts og útsvars hafi numið 3.930.000 krónum.
III.
Við úrlausn málsins er í samræmi við það sem að framan greinir lagt til grundvallar að útreikningur á vangoldnum sköttum í ákæru sé réttur, enda hafa varnir ákærða í engu beinst að þeim þætti málsins.
Virðisaukaskattsbrot ákærða sem fjallað er um í A kafla ákæru varða við 1. og 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, en brot hans samkvæmt B kafla ákæru við 1. og 3. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 191. gr. laga nr. 82/1998, 2. og 6. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 2. og 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Vanskil á virðisaukaskatti vegna þeirra greiðslutímabila, sem rakin eru í ákæru, námu samtals 5.764.794 krónum og vanskil tekjuskatts og útsvars vegna gjaldáranna 1999 til og með 2002 3.930.000 krónum. Vanskil á virðisaukaskatti, tekjuskatti og útsvari, sem eru á ábyrgð ákærða, námu því samtals 9.694.794 krónum og verða þau til þess að í heild teljast brot hans meiri háttar. Verða þessi brot hans því jafnframt færð undir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Ákærði vanrækti af stórkostlegu hirðuleysi að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna starfsemi Raftengis ehf. á árunum 1997 og 1998 og vegna atvinnustarfsemi sinnar á árunum 1998, 1999, 2000 og 2001, sbr. C kafli ákæru. Hefur hann því einnig brotið gegn 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald með áorðnum breytingum, sbr. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing hans með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu þessarar refsingar ákærða og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Samkvæmt 1. og 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. áður 2. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981 um sama efni, og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, varða brot gegn ákvæðunum sekt, sem skal aldrei vera lægri en nemur tvöfaldri fjárhæð vanskilanna og ekki hærri en tífaldri fjárhæðinni. Heildarvanskil ákærða nema 9.694.794 krónum. Að gættu þessu verður ákærði dæmdur til að greiða 19.400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í 9 mánuði.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hróbjartar Jónatanssonar hæstaréttarlögmanns, þykja að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðin 400.000 krónur. Verður ákærða gert að greiða þau, en annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.
Mál þetta dæma héraðsdómararnir Þorgeir Ingi Njálsson og Finnbogi H. Alexandersson og Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Jón Ingi Ólafsson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 19.400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæta ella fangelsi í 9 mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hróbjarts Jónatanssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.