Hæstiréttur íslands
Mál nr. 225/2000
Lykilorð
- Hlutafélag
- Verðbréf
- Útboð
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 23. nóvember 2000. |
|
Nr. 225/2000. |
Burnham International á Íslandi hf. (Pétur Guðmundarson hrl.) gegn Guðmundi Sigurðssyni (Brynjólfur Kjartansson hrl.) |
Hlutafélög. Verðbréf. Útboð. Riftunarkrafa.
G keypti hlutabréf að nafn- og kaupverði 3.000.000 krónur af B (áður H) í maí 1998 og krafðist síðar riftunar á kaupunum. Hann reisti kröfu sína meðal annars á því að söluverð hlutabréfanna til sín hefði verið langt yfir raunvirði. Tap hafði verið á rekstri B árin 1996 og 1997 og í kjölfarið var hlutafé félagsins lækkað um 60% í mars 1998. Í mars 1999, tæpu ári eftir kaup G, sætti hlutafé í B enn lækkun um 80%. Héraðsdómur féllst á riftunarkröfu G, en Hæstiréttur taldi ekki sannað að fjárhagsstaða B hefði, á þeim tíma sem kaupin fóru fram, verið verri en ráða mátti af gögnum, sem G voru aðgengileg. Var kröfu G um riftun því hafnað. Þá féllst Hæstiréttur ekki á það með G að B hefði vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, enda væri ekki unnt að líta svo á að um almennt útboð hlutafjár hefði verið að ræða þegar viðskipti G og B fóru fram.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júní 2000. Krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnda og að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 2.400.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem rakið er í héraðsdómi lýtur ágreiningur málsaðila að kaupum stefnda á nýju hlutafé í áfrýjanda 8. maí 1998 að nafnverði 3.000.000 krónur. Nam kaupverðið sömu fjárhæð. Krafðist áfrýjandi þess fyrir héraðsdómi að kaupunum yrði rift og er málsástæðum aðilanna lýst í hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi fallið frá þeirri málsástæðu að hlutafjáraukning áfrýjanda 1998 hafi ekki tekist. Þá hefur hann nú uppi nýja varakröfu, sem hann skýrir svo að hann telji sig eiga sjálfstæðan skaðabótarétt á hendur áfrýjanda, en við ákvörðun kröfufjárhæðar sé tekið tillit til þess að hlutafé hans var ekki afskrifað með öllu 1999, heldur 80% þess.
Nafn áfrýjanda var áður Handsal hf. verðbréfafyrirtæki. Í maí 1999 var því breytt í Burnham International á Íslandi hf.
II.
Árið 1996 varð tap á starfsemi áfrýjanda og enn meira á árinu 1997 eða tæplega 69.700.000 krónur. Ársreikningur fyrir það ár lá fyrir í mars 1998 og í héraðsdómi er tekinn upp orðréttur hluti skýrslu stjórnar félagsins, sem fylgdi ársreikningnum, og áritun endurskoðenda þess um stöðu félagsins og horfur. Á hluthafafundi 27. mars 1998 var samþykkt tillaga stjórnarinnar um að lækka hlutaféð um 60% til að mæta rekstrartapinu, þannig að eftir lækkun yrði hlutafé í félaginu 38.000.000 krónur. Var stjórninni jafnframt heimilað að auka hlutaféð um allt að 160.000.000 krónur. Öflun nýs hlutafjár lauk í september 1998 og höfðu þá selst nýir hlutir fyrir 112.295.262 krónur, þar með talinn sá hlutur, sem stefndi keypti. Enn varð tap á rekstri félagsins 1998 og samkvæmt ársreikningi, sem lá fyrir í mars 1999, nam það tæplega 95.200.000 krónum. Á hluthafafundi 12. mars sama árs var samþykkt tillaga þess efnis að færa niður hlutaféð um 80% og að auka það síðan með útgáfu nýrra hluta.
Stefndi reisir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að hlutabréfin hafi ekki verið 3.000.000 króna virði á kaupdegi 8. maí 1998. Sú aðstaða hafi verið komin upp þann dag að þörf hafi verið orðin á frekari niðurfærslu krafna félagsins og gjaldfærslu ábyrgða, sem það hafi gengist í. Hann kveðst ekki halda því fram að um sviksamlega háttsemi hafi verið að ræða og ekki sé víst að forráðamönnum félagsins hafi verið þetta ljóst þá. Aðalatriðið sé að afskrift vegna taps í ársreikningi fyrir 1997 hafi verið alls ónóg og tjón vegna enn meira taps hafi verið orðin staðreynd löngu fyrir 8. maí 1998. Gífurlegt tap í reikningi fyrir það ár sýni það vel og endurskoðun í apríl 1998 hefði átt að leiða í ljós að tap hafi orðið á rekstrinum frá byrjun þess árs. Staðan hafi því verið orðin önnur og verri en þegar ársreikningurinn fyrir 1997 var gerður og skylt hafi verið að gera kaupendum nýs hlutafjár grein fyrir því. Í þessu felist veruleg vanefnd og eigi ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup hér við og sé krafan um riftun kaupanna reist á því ákvæði.
Meðal þeirra, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, var Ragnar Þ. Guðgeirsson löggiltur endurskoðandi hjá KPMG Endurskoðun hf., en hann annaðist að miklu leyti gerð ársreiknings áfrýjanda fyrir 1997. Kom fram hjá honum að á þessum tíma hafi félagið átt í þrenns konar viðskiptum. Um hafi verið að ræða fjárvörslu, sem fólst í að fjárfesta fyrir hönd ákveðinna viðskiptavina, auk þess sem félagið fjárfesti sjálft í verðbréfum. Þá hafi verið miðlað bréfum, þar sem félagið sjálft var ekki aðili að kaupum eða sölu. Skýrði hann svo frá að á árinu 1997 hafi komið fram ýmis merki þess að veruleg áhætta væri tengd verðbréfaeign félagsins, auk þess sem upp hafi komið mál, sem leiddu til þess að félagið var dregið til ábyrgðar gagnvart fjárvörsluaðilum. Af þeim sökum hafi verið ráðist í mjög víðtæka athugun á allri fjárvörslu félagsins. Hafi sú endurskoðun einkum beinst að því að kanna þá þætti, sem voru taldir sérstaklega áhættusamir. Hafi alls verið athuguð um 1100 verðbréf og hafi hann aldrei tekið þátt í jafn umfangsmikilli endurskoðun og þeirri, sem þarna var gerð. Þessi vinna hafi einkum verið unnin í nóvember og desember 1997 og fram í janúar 1998. Hafi starfi hans lokið með framlagningu ársreiknings í mars sama árs og hann ekki haft afskipti eftir það af reikningsskilum félagsins. Taldi hann ársreikninginn gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu áfrýjanda þegar hann var saminn og að forsendur hafi legið skýrt fyrir um fjárhag félagsins í mars 1998. Sé honum ekki kunnugt um að neinar upplýsingar hafi síðar komið fram, sem unnt sé að draga það í efa með. Tók hann fram að upp hafi komið tilvik þar sem mönnum, sem stóðu utan fjárvörslu, væru seld verðbréf, sem hafi reynst vera léleg. Ekki hafi borist kröfur um að félagið leysti þau til sín þegar ársuppgjörið fór fram.
Ársreikningur áfrýjanda fyrir 1998 er meðal málsgagna. Þar kemur fram að tap ársins, sem áður er getið, skiptist þannig að gjöld vegna niðurfærslu krafna og gjaldfærslu ábyrgða námu tæplega 46.200.000 krónum og gjöld vegna rekstrartaps ársins tæplega 49.000.000 krónum. Þá hefur verið lagt fram bréf KPMG Endurskoðunar hf. til lögmanns áfrýjanda 1. nóvember 1999 þar sem nánari grein er gerð fyrir því að þurft hafi að auka niðurfærslu í ársreikningi fyrir 1998. Segir þar að það skýrist fyrst og fremst af málum fjögurra viðskiptamanna áfrýjanda, og er nánar fjallað í bréfinu um tjón af völdum þeirra og hvenær árs 1998 það hafi legið fyrir í hverju tilviki. Í einu þeirra hafi áfrýjandi haft milligöngu um sölu á víxlum fyrir tiltekinn viðskiptamann til ýmissa annarra viðskiptamanna sinna, einkum seinni hluta árs 1997. Á árinu 1998 hafi komið í ljós að skuldarinn gat ekki greitt víxlana og áfrýjandi orðið að leysa þá til sín. Hafi hluti þessa tjóns legið fyrir í lok maí 1998 í kjölfar óendurskoðaðs árshlutauppgjörs starfsmanna áfrýjanda 30. apríl sama árs.
Helgi F. Arnarson löggiltur endurskoðandi hjá KPMG Endurskoðun hf. gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa sinnt endurskoðun fyrir áfrýjanda eftir að gerð ársreiknings fyrir 1997 var lokið. Auk sjálfs ársreikningsins fyrir 1998 hafi þrisvar á því ári verið gerð upp staða félagsins, þ.e. í apríl, júní og september. Fyrsta uppgjörið hafi verið unnið af starfsmönnum áfrýjanda, en raunveruleg vinna vitnisins hafi hafist með uppgjörinu í júní. Þó hafi vitnið farið lauslega yfir apríluppgjörið með starfsmönnum áfrýjanda. Í uppgjörinu í júní fyrir sex mánuði hafi verið færðar afskriftir á kröfum fyrir 8.000.000 krónur. Hafi það skýrst af einu nýju máli, sem upp hafi komið. Engar nýjar upplýsingar hafi þá legið fyrir um hina þrjá viðskiptamennina, sem kröfuafskriftir ársins stafi einkum af. Í apríluppgjörinu hafi verið gert ráð fyrir afskriftum fyrir 2-3.000.000 krónur. Heildarafskrift ársins vegna krafna og ábyrgða, tæplega 46.200.000 krónur, hafi að öðru leyti komið til á seinni hluta ársins, nánar tilgreint í júní eða júlí til desember.
Málatilbúnaður stefnda hefur ekki beinst að því að fá útskýrð nánar atriði um fjárhag áfrýjanda, sem máli skipta, heldur en gögn málsins bera með sér og fram er komið í skýrslum endurskoðendanna tveggja. Má þar nefna upplýsingar um gjalddaga krafna, sem afskrifaðar voru, stöðu viðskiptamannanna, sem tapið stafaði frá, á kaupdegi hlutabréfanna og næstu mánuði þar á undan, nánar um ábyrgðir, sem féllu á áfrýjanda og annað, sem máli kann að skipta um það hvort afskriftaþörf hafi verið vanmetin í ársreikningi 1997 eða á fyrstu mánuðum ársins 1998. Milliuppgjörin hafa ekki verið lögð fram í málinu. Stendur óhögguð sú fram komna skýring að einungis hafi verið séð fyrir þörf á að afskrifa kröfur fyrir 2-3.000.000 krónur um það leyti, er stefndi keypti hlutafé í áfrýjanda. Að því er varðar tap á rekstri áfrýjanda 1998, tæplega 49.000.000 krónur, liggur ekki annað fyrir en sú staðhæfing stefnda að í það minnsta þriðjungur þess hljóti að hafa verið orðinn á kaupdegi hlutabréfanna og gagnstæð staðhæfing áfrýjanda, sem heldur fram að rekstrartapið hafi einkum orðið á seinni hluta ársins. Í framburði endurskoðendanna kom ekkert fram um að rekstrarafkoma fyrstu mánaða ársins 1998 hafi gefið þeim tilefni til sérstakra aðgerða.
Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, er ekki í ljós leitt að á þeim tíma, er um ræðir, hafi legið fyrir að fjárhagsstaða áfrýjanda væri verri, svo að máli skipti, en ráða mátti af gögnum, sem voru stefnda aðgengileg. Þótt viðurkennt sé að ljóst hafi verið orðið um þörf á að afskrifa kröfur fyrir 2-3.000.000 krónur í maí 1998 getur það eitt ekki leitt til þess að aðalkrafa stefnda um riftun nái fram að ganga. Hefur að öðru leyti ekki verið stutt haldbærum gögnum að nægilegrar varúðar við mat á afskriftaþörf hafi ekki verið gætt á þeim tíma. Fyrirvari var gerður í áritun endurskoðenda í ársreikningi áfrýjanda fyrir 1997 um rekstrarhæfni félagsins og þar kom skýrt fram að það hafi átt við verulegan vanda að etja, sem leitt hafi til niðurfærslu hlutafjárins. Af fyrirliggjandi gögnum hafði stefndi, sem hefur reynslu af viðskiptum, ekki ástæðu til að ætla að allir erfiðleikar væru að baki og að viðskiptin væru áhættulítil. Verður krafa hans um riftun kaupanna ekki tekin til greina á grundvelli þeirrar málsástæðu, sem að framan er gerð grein fyrir.
III.
Stefndi reisir kröfu sína í annan stað á því að samkvæmt 20. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti skuli almennt útboð verðbréfa fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja og skuli það fyrirfram tilkynnt Verðbréfaþingi Íslands auk þess sem tilteknar upplýsingar séu gefnar um útboðið. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 505/1993 um almennt útboð verðbréfa sé um slíkt útboð að ræða ef selja eigi fleiri en 25 kaupendum verðbréf. Það skilyrði sé hér uppfyllt. Hafi áfrýjandi vanrækt þessa skyldu og að gefa nauðsynlegustu upplýsingar um félagið, sem staðið hafi að almennri útgáfu verðbréfa, til þess að fjárfestar gætu metið áhættu sína. Í slíkri útboðslýsingu skuli vera yfirlýsing stjórnenda félags um stöðu þess, sem einnig hafi verið látið undir höfuð leggjast að gefa.
Í 4. mgr. 2. gr. laga nr. 13/1996 er almennt útboð skilgreint þannig að það sé sala samkynja verðbréfa, sem boðin eru almenningi til kaups í fyrsta sinn með almennri og opinberri auglýsingu eða kynningu með öðrum hætti, sem jafna má til opinberrar auglýsingar, enda séu verðbréf í sama flokki ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Fram er komið að átján hluthafar í áfrýjanda juku hlutafé sitt með kaupum á nýju hlutafé 1998 fyrir samtals rúmlega 102.000.000 krónur og að sextán bættust þá í hóp hluthafa með hlutafjárkaupum fyrir samtals 10.100.000 krónur. Var hluthöfum boðið að skrá sig fyrir nýjum hlutum auk þess sem stjórnendur félagsins leituðu til manna utan hluthafahópsins og buðu þeim að kaupa. Voru kaup stefnda þannig til komin. Að þessu virtu verður ekki talið að um almennt útboð hlutafjár í merkingu laga nr. 13/1996 hafi verið að ræða. Fær ákvæði b. liðar 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 505/1993 engu um það breytt. Sú reglugerð var sett með heimild í áðurgildandi lögum um verðbréfaviðskipti og samrýmist ekki fyrrgreindu ákvæði í 4. mgr. 2. gr. laga nr. 13/1996. Reynir þá ekki sérstaklega á þá málsvörn áfrýjanda að hann hafi í raun gefið allar þær upplýsingar, sem skuli gefa við almennt útboð verðbréfa.
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti gerði stefndi nýja kröfu, sbr. I. kafla að framan. Krafan er of seint fram komin og verður henni þegar af þeirri ástæðu ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða málsins verður samkvæmt öllu framanröktu sú að kröfur stefnda verða ekki teknar til greina. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Burnham International á Íslandi hf., er sýkn af kröfum stefnda, Guðmundar Sigurðssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2000.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 21. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 11. maí 1999.
Stefnandi er Guðmundur Sigurðsson, kt. 150750-3859, Birkivöllum 26, Selfossi.
Stefndi er Burnham International á Íslandi hf. (áður Handsal hf.) kt. 550191-1729, Engjateigi 9, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að rift verið kaupum hans á hlutafé í Handsali hf. að nafn- og kaupverði 3 milljónir króna sem hann keypti 8. maí 1998 og að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3 milljónir króna auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. maí 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II
Handsal hf. var stofnað 17. desember 1990 og samkvæmt samþykktum þess, eins og þeim var breytt á aðalfundi 26. júní 1997, er tilgangur þess verðbréfamiðlun gegn þóknun, veiting sölutrygginga á markaðsverðbréfum og að öðru leyti að annast verðbréfaviðskipti eins og þau eru skilgreind í lögum á hverjum tíma, fjárvarsla fyrir einstaklinga og lögaðila og önnur skyld starfsemi.
Á hluthafafundi 27. mars 1998 var ákveðið að lækka hlutafé félagsins um 57 milljónir króna, eða úr 95 milljónum króna í 38 milljónir króna, til að mæta rekstrartapi félagsins. Þá var jafnframt samþykkt breyting á samþykktum félagsins og stjórn þess heimilað að auka hlutaféð um allt að 160 milljónir króna með nýju hlutafé.
Verulegt tap hafði orðið á starfsemi félagsins á árinu 1997 og segir í skýrslu og áritun stjórnenda þess á ársreikningnum: „Regluleg starfsemi félagsins skilaði 8,4 millj. kr. hagnaði en í heild nam tap þess samkvæmt rekstrarreikningi 69,7 millj. kr. Þá hafa verið gjaldfærðar 78,1 millj. kr. sem sérstakur liður í rekstrarreikningi vegna niðurfærslu á kröfum og ábyrgðum........ Eins og að framan greinir skýrist tapið af 78,1 millj. kr. gjaldfærslu vegna varúðarniðurfærslu krafna og ábyrgða sem fallið hafa á félagið eða munu hugsanlega gera það. Færslurnar eiga að mestu rót að rekja til fyrri ára og er orsakanna að leita í gjörðum fyrrverandi starfsmanna félagsins er önnuðust viðskipti er leitt hafa til tjóns sem félagið verður hugsanlega að bera. Upplýsingar um þessi mál lágu ekki fyrir fyrr en við uppgjör vegna ársins 1997. Það er ljóst að niðurfærsla eigna vegna eldri mála í ársreikningi 1996, sem lagður var fyrir aðalfund 26. júní 1997, reyndist ekki nægja fyrir þeim hugsanlegu áföllum sem félagið hefur orðið fyrir. Mat á ábyrgðum og niðurfærslum nú byggir á umfangsmikilli og kostnaðarsamri athugun starfsmanna og endurskoðenda félagsins á fjárvörslu þess, mati starfsmanna á eignum og upplýsingum lögmanna um stöðu einstakra lögfræðimála.”
Í áritun endurskoðenda félagsins á þessum sama reikningi segir m.a: „Eigið fé félagsins samkvæmt efnahagsreikningi nemur 28,5 milllj. kr. sem greinist í hlutafé að nafnvirði 105,9 millj. kr. og neikvætt annað eigið fé að fjárhæð 77,4 millj. kr. Fjárhagsstaða félagsins er nú með þeim hætti að hún fullnægir ekki kröfum 8. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, en þar er kveðið á um 8,0% lágmarkshlutfall eigin fjár af áhættugrunni sem nánar er skilgreint í lögunum. Eigiðfjárhlutfallið er 3,1% og vantar 60,1 millj. kr. á að það nái lögbundnu lágmarki miðað við óbreyttan áhættugrunn.”
Stefnandi kveðst á grundvelli framangreindra upplýsinga hafa keypt hlutafé í stefnda að nafn- og söluverði 3 milljónir króna 8. maí 1998. Forsendu þessara kaupa kveður hann hafa verið þá, að hann hafi verið fullvissaður um að um arðvænlega fjárfestingu væri að ræða, enda hefði verið tekið til í félaginu, þ.e.a.s. allar gamlar syndir hefðu verið afskrifaðar og nýtt hlutafé væri komið inn.
Á aðalfundi félagsins fyrir 1998, sem haldinn var 12. mars 1999, lagði stjórn stefnda til að hlutafé félagsins yrði fært niður um 80% og jafnframt yrði heimilað að auka hlutaféð með útgáfu nýrra hluta í allt að 120 milljónir króna. Í skýrslu og áritun stjórnenda segi að tap á rekstri félagsins á árinu 1998 hafi orðið 95,2 milljónir króna og eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi nemi 24,9 milljónum króna. Það liggi því fyrir að fjárhagsstaða þess fullnægi ekki kröfum 3. og 32. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 1998 hafi gjöld vegna niðurfærslna krafna og gjaldfærðra ábyrgða numið 46.191.358 krónum en námu 78.073.389 krónum árið á undan. Samkvæmt skýringum í ársreikningi hafi skammtímakröfur félagsins verið færðar niður um 25,8 milljónir króna í árslok en sambærileg fjárhæð hafi numið 26,7 milljónum króna árið á undan. Á árinu 1998 hafi verið gjaldfærðar samtals 46,2 milljónir króna vegna tapaðra krafna, ábyrgða og hækkunar niðurfærslu.
Stefnandi kveðst hafa keypt hlutabréf í stefnda á grundvelli upplýsinga er síðan hafi reynst rangar og því eigi hann rétt á riftun kaupanna. Stefndi hefur hafnað þessari kröfu stefnanda.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Ljóst sé af því, sem að framan er rakið í málavaxtalýsingu, að söluverð hlutafjárins til hans hafi verið langt yfir raunverði. Ljóst sé að upplýsingarnar, sem lágu fyrir við kaupin, voru í veigamiklum atriðum rangar, afskriftaþörf hafi verið vanmetin og fleira þess háttar. Hefðu réttar upplýsingar legið fyrir hefði hvorki stefnandi né nokkur annar keypt hlutafé í stefnda.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að ákvörðunin um hlutafjáraukninguna á hluthafafundinum 27. mars 1998 hafi aldrei náð fram að ganga. Samkvæmt ársreikningi 1998 hafi hlutafé stefnda verið 150.295.262 krónur 31. desember 1998. Af þessu hlutafé hafi því eldra hlutafé (þ.e.a.s. eftir hlutafjárlækkunina 1998) verið 38 milljónir króna og nýtt hlutafé því 112.295.262 krónur. Samkvæmt ákvörðun hluthafafundar hafi átt að auka hlutafé í stefnda með áskrift nýrra hluta um allt að 160 milljónir króna. Í tilkynningunni sé síðan sagt að hlutafjárútboð fyrir allt að 150 milljónir króna standi yfir. Með lögjöfnun frá 40. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 verði að telja að skuldbinding stefnanda sé niðurfallin, því hlutaféð hafi verið fært niður áður en hlutafjáraukningin tókst og beri því að endurgreiða honum greitt hlutafé með vöxtum.
Loks byggir stefnandi á því að samkvæmt 20. gr. laga um verðbréfaviðskipti skuli almennt útboð verðbréfa fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja og skuli það tilkynnt til Verðbréfaþings Íslands eigi síðar en viku fyrir upphaf sölu, ásamt upplýsingum um útboðið. Samkvæmt reglugerð nr. 505/1993 sé ljóst að um almennt útboð verðbréfa hafi verið að ræða en það sé almennt útboð ef selja eigi fleiri en 25 aðilum verðbréf. Í skýrslu stjórnar stefnda komi fram að hluthafar hafi verið 61 í árslok 1997 en 43 í ársbyrjun. Þegar um almennt útboð sé að ræða skuli gefa út útboðslýsingu þar sem fram komi nauðsynlegustu upplýsingar um félag það sem standi að almennri útgáfu verðbréfa, svo fjárfestar geti metið áhættu sína. Þar skulu líka vera yfirlýsingar stjórnenda um stöðu þess. Stefndi, sem sé verðbréfafyrirtæki með aðild að verðbréfaþingi, hafi ekki sinnt þessari skyldu sinni, hvorki sem verðbréfafyrirtæki né sem útgefandi hlutabréfanna. Hann beri því skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda þar sem líkur megi leiða að því að við gerð slíkrar útboðslýsingar hefðu komið fram upplýsingar um bága stöðu stefnda og þá hefði stefnandi ekki keypt hlutaféð. Stefndi lét undir höfuð leggjast að gera skráningarlýsingu og valdi það honum sjálfstæðri skaðabótaábyrgð.
IV
Stefndi, kveður þá fullyrðingu stefnanda vera ranga, að við kaup hans hafi legið fyrir villandi og rangar upplýsingar, svo og þá fullyrðingu hans að afskriftaþörf hafi verið vanmetin. Þegar útboð hlutafjárins fór fram á árinu 1998 hafi legið fyrir endurskoðaðir ársreikningar vegna áranna 1996 og 1997. Þá hafi ekki verið til staðar sú afskriftaþörf, sem síðar varð nauðsynleg. Þá bendir stefndi á að kaupum á hlutafé fylgi ávallt áhætta sem stefnanda hafi verið eða hafi mátt vera ljós. Stefnandi sé athafnamaður og fjárfestir sem hafi þekkingu á og reynslu af verðbréfaviðskiptum. Hann hafi haft aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum sem hafi gert honum fært að meta áhættuna af viðskiptunum. Þá sé enn fremur röng sú fullyrðing stefnanda að söluverð hlutafjárins hafi verið langt yfir raunvirði. Stefnandi hafi ekki sannað þessa fullyrðingu sína en hann beri sönnunarbyrðina fyrir henni.
Þá mótmælir stefndi því sem röngu að hlutafjáraukningin hafi aldrei náð fram að ganga með vísan til lögjöfnunar frá 40. gr. hlutafélagalaga. Á hluthafafundi 27. mars 1998 hafi annars vegar verið samþykkt að lækka hlutaféð í 38 milljónir króna og hins vegar að stjórn stefnda væri heimilt að auka hlutaféð um allt að 160 milljónir króna. Einnig hafi verið samþykkt að stjórn stefnda væri heimilt að ákveða útgáfu áskriftarréttinda, allt að 10 milljónir króna til starfsmanna sinna og hækka hlutaféð sem því næmi innan 160 milljóna króna heimildarinnar. Á fundi í stjórn stefnda 27. mars 1998 hafi verið ákveðið að nýta heimildina til aukningar hlutafjár að nafnvirði allt að 150 milljónir króna, þó að lágmarki 70 milljónir króna. Útboðinu hafi lokið 27. september 1998 og höfðu þá selst samtals 112.345.268 krónur. Eftir lok útboðsins var hlutafé stefnda 150.345.262 krónur. Áskrift hafi því fengist fyrir hinu ákveðna lágmarki hlutafjárauka og því hafi hlutafjáraukningin náð fram að ganga.
Loks byggir stefndi á því að allar upplýsingar, sem koma eiga fram í útboðslýsingu, hafi legið fyrir við hlutafjárkaup stefnanda. Endurskoðaðir reikningar vegna rekstraráranna 1996 og 1997 hafi legið fyrir ásamt skýrslu stjórnar og áritun endurskoðenda. Frekari upplýsingar um félagið hefðu því ekki legið fyrir jafnvel þótt sérstök útboðslýsing hefði verið gerð og breytir það því engu að hún var ekki gerð. Samkvæmt reglum verðbréfaþings skulu upplýsingar um eftirfarandi koma fram í útboðslýsingu: Hverjir eru ábyrgir fyrir útboðslýsingu, lýsing á útboðinu og þeim verðbréfum sem fram eru boðin, upplýsingar um útgefanda og ef um hlutabréf er að ræða upphæð þess og hversu lengi heimild til hlutafjárútgáfu gildi. Einnig skulu koma fram upplýsingar um hluthafa, sem fara með úrslitavald í rekstri útgefanda, aðalstarfsemi útgefanda, eignir og skuldir útgefanda, fjárhagsstöðu og afkomu, stjórn útgefanda, framkvæmdastjórn og endurskoðun, framvindu viðskipta útgefanda undanfarið og framtíðarhorfur, að svo miklu leyti sem slíkar upplýsingar geta haft áhrif sem máli skipta við mat á honum. Allar þessar upplýsingar hafi verið stefnanda aðgengilegar þegar hann keypti hlutabréfin. Hafi stefnandi ekki talið þessar upplýsingar nægilegar til að meta áhættuna af kaupunum hafi honum borið þá þegar að óska eftir útboðslýsingu. Stefnandi gerði ekki athugasemd við að sérstök útboðslýsing hefði ekki verið gerð fyrr en 10 mánuðum eftir að hann greiddi hlutaféð án fyrirvara. Allar kröfur sem hann kunni að hafa átt séu þess vegna fallnar niður vegna tómlætis hans sjálfs.
V
Riftunarkrafa stefnanda er reist á þeirri meginmálsástæðu að söluverð hlutabréfanna 8. maí 1998 hafi verið langt yfir raunvirði. Telur hann að upplýsingarnar, sem fyrir lágu við kaupin, hafi verið rangar í veigamiklum atriðum, m.a. hafi afskriftaþörf verið vanmetin. Hefðu réttar upplýsingar legið fyrir hefði hvorki stefnandi né nokkur annar keypt hlutabréf í stefnda. Þessari málsástæðu er mótmælt af hálfu stefnda, sem heldur því fram að afskriftaþörfin, sem varð þess valdandi að færa varð niður verð hlutabréfanna í ársbyrjun 1999, hafi ekki verið til staðar þegar hlutaféð var boðið út vorið 1998. Þá bendir stefndi á að hlutabréfakaupum fylgi alltaf áhætta, sem stefnanda hafi verið eða mátt vera ljós.
Þegar stefnandi keypti hlutabréfin í maí 1998 hafði hlutafé stefnda þá nýverið verið fært niður um 60%. Ekki verður séð að hið nýja hlutafé hafi verið selt með nokkrum fyrirvara eða á einhvern hátt verið gefið í skyn af hálfu stefnda að frekari lækkunar þyrfti með vegna undangengins reksturs stefnda. Þrátt fyrir þetta er tæpu ári síðar þörf á að færa hlutaféð niður um 80% eins og rakið var. Dómurinn lítur svo á að miðað við þessa stöðu mála þá sé það stefnda að sanna að þessi niðurfærsla hafi orsakast af atburðum í rekstrinum, sem gerðust eftir að stefnandi keypti hlutabréfin.
Af hálfu stefnda hefur verið lagt fram skjal frá endurskoðendum hans, sem ber heitið "Handsal hf. - niðurfærsla vegna krafna og ábyrgða á árinu 1998." Í þessu skjali segir að við gerð ársreiknings 1997 hafi verið "farið yfir viðskiptareikningana, verðbréfaeignina og hugsanlegar kröfur á félagið vegna verðbréfaviðskipta með starfsmönnum félagsins og lögfræðingi þess. Miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir var talið að sú niðurfærsla sem færð var í ársuppgjöri félagsins væri nægjanleg til að mæta þeirri tapsáhættu sem fyrir hendi var." Síðan er gerð grein fyrir málefnum fjögurra viðskiptavina stefnda en á árinu 1998 taldi stefndi sig þurfa að auka niðurfærslur sínar um 47 milljónir króna, aðallega vegna viðskipta við þá. Þessir aðilar eiga það allir sammerkt að hafa verið í viðskiptum við stefnda á árinu 1997 og í skjalinu frá endurskoðendunum kemur fram að vandamál stefnda varðandi þessi viðskipti eiga aðallega rót sína að rekja til þess árs og fyrri hluta árs 1998. Stefndi hefur ekki bent á önnur atriði í rekstri sínum á þessum tíma, sem hafi verið þess valdandi að færa þurfti aftur niður verð hlutabréfanna.
Það er niðurstaða dómsins að stefnda hafi þannig ekki tekist að sanna, að eitthvað annað en rangt mat starfsmanna hans á fjárhagslegri stöðu hans vorið 1998, hafi valdið því að enn á ný þurfti að færa hlutaféð niður í mars 1999. Og þótt viðurkennt sé að hlutabréfakaupum fylgi alltaf einhver áhætta þá er niðurfærslan, sem hér um ræðir meiri heldur en almennt má búast við. Verður við það mat að hafa í huga að hlutaféð hafði nýlega verið fært niður um 60% eins og rakið hefur verið.
Þegar framanritað er virt verður að fallast á það með stefnanda að hlutabréfin, sem hann keypti í maí 1998, hafi, á kaupdegi, verið langtum verðminni heldur en kaupverð þeirra var. Hlutabréfunum var þar af leiðandi áfátt í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausfjárkaup og þegar af þeirri ástæðu mátti stefnandi rifta kaupunum. Það verður því fallist á kröfur stefnanda um riftun og stefndi dæmdur til að greiða honum 3.000.000 króna með dráttarvöxtum frá 18. apríl 1999 til greiðsludags. En það er mánuði eftir að hann krafði stefnda um endurgreiðslu. Ekki er hægt að binda greiðsluna því skilyrði að stefnandi skili hlutabréfunum, enda voru lögmenn aðila sammála um að þau hefðu ekki verið gefin út. Þetta er raunar hvorki boðið fram í stefnu né þess krafist af hálfu stefnda.
Loks verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Rift er kaupum stefnanda, Guðmundar Sigurðssonar, á hlutafé að nafn- og kaupverði 3.000.000 króna í Handsali hf. 8. maí 1998. Stefndi, Burnham International á Íslandi hf., greiði stefnanda, 3.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. apríl 1999 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.