Hæstiréttur íslands

Mál nr. 267/2006


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Starfsmannaleiga
  • Kjarasamningur


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. desember 2006.

Nr. 267/2006.

Impregilo SpA, útibú á Íslandi

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

gegn

Antonio Augusto Monteiro

(Björn L. Bergsson hrl.

 Eva B. Helgadóttir hdl.)

 

Vinnusamningur. Starfsmannaleiga. Kjarasamningur.

Í júlí 2003 gerði I samning við starfsmannaleiguna S um að hún myndi útvega mannafla til nánar tilgreindra verkefna við Kárahnjúka. Í október á sama ári gerðu fulltrúar landssambanda ASÍ og I tvo samninga þar sem meðal annars var fjallað um launagreiðslur til erlendra starfsmanna á virkjunarsvæðinu. Í febrúar 2004 gerðu S og A, sem er portúgalskur ríkisborgari, með sér samning þar sem A var ráðinn til vinnu í tengslum við framkvæmdir við virkjunina. Í málinu krafðist A þess að I yrði gert að greiða honum mismun á launum sem honum hefðu annars vegar borið aðallega sem trésmiður í vaktavinnu, en til vara sem verkamaður í vaktavinnu, samkvæmt kjarasamningum, sem á virkjunarsvæðinu giltu, og hins vegar þeim launum sem hann fékk greidd frá S. Ekki var fallist á að samningur I og S hefði verið málamyndagerningur, enda ekkert sem benti til þess að honum hafi ekki verið ætlað að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Þá var ekki fallist á með A að líta bæri fram hjá ráðningarsambandi hans og S og telja I vinnuveitanda hans. Í fyrrnefndum samningum frá október 2003 var samið um hvernig reikna ætti út nettólaun sem teldust lágmarkslaun starfsmanna er störfuðu á virkjunarsvæðinu á vegum erlendra starfsmannaleiga í samræmi við áskilnað 3. gr. laga nr. 54/2001. Talið var að A ætti samkvæmt því rétt á að fá mismun á þannig reiknuðum lágmarkslaunum hans og launa samkvæmt ráðningarsamningi hans við S á hverju launatímabili greiddan. Tekið var fram að samkvæmt samningi I og S skyldi I bera kostnaðinn af muninum á íslenskum laununum og þeim portúgölsku. Í ljósi þess að I hefði þannig, áður en félagið gekk til fyrrgreindra samninga við fulltrúa landssambands ASÍ, tekið að sér gagnvart S að bera þennan kostnað beint var talið eðlilegt að líta svo á að í yfirlýsingu í öðrum samningnum um að I ,,ábyrgist greiðslur umræddra starfsmanna skv. framanskráðu“ fælist að félagið tæki að sér beina greiðsluskyldu gagnvart starfsmönnum á þeim mun, sem reynast kynni á reiknuðum íslenskum lágmarkslaunum og launum samkvæmt ráðningarsamningi viðkomandi starfsmanns við S. Við útreikning á lágmarkslaunum A var talið að miða yrði við verkamannalaun og beita vaktaálagi. Samkvæmt útreikningi voru íslensku launin hærri en þau portúgölsku á öllum tímabilum og var I gert að greiða A mismuninn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms. Til vara krefst hann greiðslu á 402.737 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 82.418 krónum frá 22. mars 2004 til 22. apríl sama ár, af 184.086 krónum frá þeim degi til 22. maí sama ár, af 286.442 krónum frá þeim degi til 7. júní sama ár, en af 402.737 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann  málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi hefur með höndum umfangsmiklar verkframkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun á grundvelli verksamninga við Landsvirkjun. Hluti þess mannafla, sem starfað hefur fyrir áfrýjanda við þetta verkefni, hefur komið hingað til lands á vegum svonefndra starfsmannaleiga, þar á meðal portúgalska fyrirtækisins Select-I Serviços SA.

 Meðal gagna málsins er samningur 20. júlí 2003 milli áfrýjanda, sem þar er  nefndur verktaki, og Select-I Serviços SA., sem seljanda. Í inngangi samningsins er því lýst að verktaki hafi gert tvo samninga um framkvæmd nánar tilgreindra verkefna við Kárahnjúka og hafi hug á að ráða til þeirra starfsmenn í tilteknum starfsgreinum. Hafi verktaki tekið boði seljanda um að útvega mannafla til verksins enda búi seljandi yfir sérþekkingu á ráðningu og miðlun mannafla. Síðan fylgja í 17 köflum efnisákvæði samningsins. Í 2. kafla hans er fjallað um skyldur seljanda. Ber honum að velja og hafa tiltæka starfsmenn til útleigu eftir því sem verktaki fer skriflega fram á. Skal seljandi láta í té gild skjöl til að votta að portúgölskum lögum hæfi, þekkingu og fullnægjandi heilsufar útleigðra starfsmanna. Seljandi skuldbindur sig til að gera ráðningarsamning við sérhvern útleigðan starfsmann og skulu starfsmennirnir skráðir í almannatryggingakerfi Portúgal. Seljanda ber að reikna út og greiða öll almannatryggingagjöld, tekjuskatta og aðra skatta eftir portúgölskum lögum af launum starfsmanna og annast alla greiðslu launa til þeirra. Skal seljandi láta verktaka í té afrit af mánaðarlegum launareikningum fyrir hvern starfsmann ásamt sönnun um greiðslur sem seljandi hefur innt af hendi til starfsmannsins og  almannatryggingakerfisins. Seljanda ber einnig að láta verktaka í té afrit af ráðningarsamningi milli seljanda og sérhvers starfsmanns. Þá skal seljandi tilnefna fulltrúa sem staðsettur skal á virkjunarsvæðinu. Þriðji kafli samningsins fjallar um skyldur verktaka. Honum ber að leggja til fæði, húsnæði, afþreyingu og læknisþjónustu á virkjunarsvæðinu. Honum ber einnig að leggja til flugmiða fram og til baka milli Portúgal og Íslands fyrir hvern starfsmann og kosta flutning innanlands. Verktaki skal eigi síðar en 28. hvers mánaðar láta seljanda í té nauðsynlegar upplýsingar til að útbúa launaútreikninga fyrir mannaflann. Þá er í 6. lið. 3. kafla samningsins svofellt ákvæði: „Nú verður andvirði nettó heildarlaunakjara sem kveðið er á um milli seljanda og einhvers útvegaðs starfsmanns (héreftir „portúgölsku launin“) í einhverjum mánuði lægri en heildarlágmarkskjörin í sömu starfsgrein, reiknuð skv. ákvæðum hins íslenska „virkjanasamnings“ sem í gildi er um verkið (héreftir „íslensku launin“), og skal þá verktaki bera kostnaðinn af muninum á íslensku laununum og portúgölsku laununum.“ Í 4. til 17. kafla samningsins eru síðan allítarleg ákvæði um réttindi og skyldur aðila hans, sem sum varða einnig réttarstöðu starfsmanna, þar á meðal um reynslutíma, uppsagnir og uppsagnarfrest starfsmanna, kostnað af óvæntum heimflutningi þeirra, reikningsgerð og greiðslur, vanefndir seljanda, óviðráðanleg atvik, uppsögn samningsins, tryggingar starfsmanna og öryggi á vinnustað.

Með „bókun varðandi launagreiðslur erlendra starfsmanna“ frá 1. október 2003 urðu fulltrúar landssambanda Alþýðusambands Íslands í samráðsnefnd virkjunarsamnings annars vegar og áfrýjandi hins vegar ásáttir um „að eftirgreind vinnubrögð verði viðhöfð við launagreiðslur erlendra starfsmanna sem starfa á vegum aðalverktakans við virkjunarframkvæmdirnar og fá greidd laun í samræmi við uppbyggingu virkjunarsamningsins“. Um launaútreikning og launagreiðslur starfsmanna sem starfa á vegum erlendra starfsmannaleiga er svofellt ákvæði í 2. tölulið bókunarinnar: „Í lok mánaðarlegs uppgjörstímabils launa skal reikna saman margfeldi unninna vinnustunda og umsaminna tímalauna skv. virkjunarsamningi. Frá þeirri samtölu skal draga sem svarar 4% iðgjaldi í lífeyrissjóð svo og staðgreiðslu tekjuskatts að teknu tilliti til persónufrádráttar. Nettó fjárhæð launa fyrir hvert launatímabil skv. þessum útreikningi er lágmarksgreiðsla fyrir viðkomandi launatímabil sem greiða skal inn á einkareikning hlutaðeigandi starfsmanns í banka. Ef laun reiknuð skv. ákvæðum hins erlenda ráðningarsamnings eru hærri en skv. virkjunarsamningi, greiðist starfsmanni það sem hærra er. ... Fyrir liggur yfirlýsing  Impregilo um að félagið geti jafnan lagt fram gögn um launaútreikning til staðfestu ofanskráðu og jafnframt staðfestingar á greiðslum inn á bankareikninga starfsmanna. Jafnframt hefur félagið lýst því yfir að það ábyrgist greiðslur umræddra starfsmanna skv. framanskráðu.“

Þann 10. október 2003 gerðu hinir sömu samkomulag „með það að markmiði að skýra reglur sem gilda um erlenda ráðningarsamninga útlendra starfsmanna sem hafa verið sendir til starfa á Íslandi við Kárahnjúkaverkefnið og ... skapa traust í samskiptum aðila“. Er þar meðal annars í 2. lið áréttað að þegar starfsmenn í ráðningarsambandi við erlend fyrirtæki séu sendir til starfa á Íslandi skuli þeir áfram njóta allra þeirra réttinda sem ráðningarsamningar þeirra kveða á um, en í þeim tilvikum þar sem réttindi samkvæmt virkjunarsamningi eða íslenskum lögum eru starfsmanni hagkvæmari, þá gildi hin síðarnefndu. Síðan eru nánari ákvæði er lúta meðal annars að orlofi, launum í veikindaforföllum, læknisþjónustu, ferðakostnaði og uppsögn. Jafnframt féllst áfrýjandi í 5. lið samkomulagsins á að hafa milligöngu um að haldið yrði eftir 1% af útborguðum launum er renna skyldi til stéttarfélags.

Þann 27. febrúar 2004 gerðu Select-I Serviços SA. og stefndi, sem er portúgalskur ríkisborgari, með sér ótímabundinn ráðningarsamning. Var stefndi þar ráðinn til vinnu sem tilheyrði starfsgrein hans sem sé trésmíði. Tekið er fram að samningurinn sé gerður í tengslum við framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og vísað til þjónustusamnings milli starfsmannaleigunnar og áfrýjanda. Í samningnum eru ákvæði um tvo frídaga í viku og átta stunda daglegan vinnutíma eða samtals fjörutíu stunda dagvinnu á viku. Þá er í samningnum meðal annars kveðið á um 469,90 evru grunnlaun á mánuði auk yfirvinnulauna og helgidagaálags.

Stefndi hóf störf við Kárahnjúka 27. febrúar 2004. Skráði hann vinnutíma sinn á sérstök eyðublöð og var sú skráning staðfest af fulltrúa áfrýjanda. Fékk hann mánaðarlega útgefna launaseðla af Select-I Serviços SA., en launin munu hafa verið lögð inn á bankareikning í heimalandi hans. Á launaseðlum ber stefndi starfsheitið handlangari. Ekki er ágreiningur um að stefndi var settur til verkamannsstarfa og að hann óskaði á starfstíma sínum án árangurs eftir að fá vinnu við trésmíðar. Hann lét af störfum 7. júní 2004.

II.

Stefndi gerir í máli þessu kröfu um að áfrýjandi greiði honum mismun á launum sem honum hefðu annars vegar borið aðallega sem trésmiður í vaktavinnu, en til vara verkamaður í vaktavinnu, samkvæmt kjarasamningum, sem á virkjunarsvæðinu giltu, og hins vegar þeim launum, sem hann fékk greidd frá Select-I Serviços SA. fyrir störf sín við Kárahnjúka. Reisir hann þá kröfu fyrst og fremst á því að samningur áfrýjanda og Select-I Serviços SA. hafi verið málamyndagerningur. Hafi í raun verið ráðningarsamband milli sín og áfrýjanda á starfstíma hans hér á landi og beri áfrýjandi af þeim sökum skyldur atvinnurekanda gagnvart sér, þar á meðal skyldu til að standa skil á vinnulaunum í samræmi við íslenska kjarasamninga og lög. Verði ekki fallist á að áfrýjandi hafi réttarstöðu atvinnurekanda gagnvart stefnda reisir hann kröfu sína á því að áfrýjandi hafi skapað sér greiðsluskyldu með samkomulagi því, sem fólst í fyrrnefndri bókun 1. október 2003, en með því hafi hann ábyrgst að laun starfsmanna á hans vegum við Kárahnjúkavirkjun yrðu aldrei lægri en laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á aðildarskorti, enda hafi hann ekki verið í ráðningarsambandi við stefnda, sem hafi verið starfsmaður Select-I Serviços SA. Mótmælir áfrýjandi því að samningur sinn við starfsmannaleiguna sé málamyndagerningur. Þá vísar áfrýjandi til þess að hann hafi með fyrrgreindri bókun 1. október 2003 og samkomulagi 10. sama mánaðar gert samninga við landssambönd Alþýðusambands Íslands sem staðfesti gildi ráðningarsamnings á borð við þann sem stefndi gerði 27. febrúar 2004 við starfsmannaleiguna. Í þessum samningum sé kveðið á um með hvaða hætti skuli reikna nettólaun samkvæmt virkjunarsamningunum íslensku til að sannreyna hvort hið erlenda launauppgjör standist gagnvart íslenskum lágmarkslaunum. Stefndi hafi starfað sem almennur verkamaður og ekki gengið vaktir. Séu laun hans við það miðuð og nettólaun reiknuð samkvæmt umsaminni aðferð komi í ljós smávægilegur munur milli mánaða, en í heildina hafi hann fengið hærri laun en lágmarkslaunum nemur. Loks er því mótmælt að áfrýjandi hafi með samningunum 1. og 10. október 2003 tekið á sig efndaskyldu á þeim ráðningarkjörum sem stefndi naut hjá starfsmannaleigunni. Þar sé í mesta lagi um afleidda ábyrgð að ræða sem ekki reyni á fyrr en fullreynt sé að starfsmannaleigan standi ekki við skuldbindingar sínar.

III.

Að framan eru rakin að nokkru ákvæði samnings áfrýjanda og Select-I Serviços SA. 20. júlí 2003. Er ljóst að starfsmannaleigan tókst með honum á hendur að annast nánar skilgreinda þjónustu fyrir áfrýjanda gegn endurgjaldi. Er ekkert sem bendir til þess að samningnum hafi ekki verið ætlað að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Þvert á móti benda gögn málsins eindregið til þess að aðilar hans hafi hagað samskiptum sínum í samræmi við það sem samningurinn kvað á um, þar á meðal þeim samskiptum er lutu að starfi stefnda. Að lögum var því ekki um málamyndagerning að ræða.

Í lögum nr. 54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, eins og þau hljóðuðu þegar atvik málsins gerðust, var gert ráð fyrir því að hér á landi starfi menn, sem erlend starfsmannaleiga „framleigir“ til notendafyrirtækis, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 2. gr. laganna. Þá eru fyrrgreindir samningar áfrýjanda við fulltrúa landssambanda Alþýðusambands Íslands í samráðsnefnd virkjunarsamnings 1. október 2003 og 10. sama mánaðar við það miðaðir að þessi háttur sé viðhafður varðandi erlenda starfsmenn við framkvæmdir áfrýjanda við Kárahnjúka. Hefur stefndi engin gild rök fært fram því til stuðnings að við úrlausn málsins beri að líta fram hjá ráðningarsambandi stefnda og starfsmannaleigunnar og telja áfrýjanda vinnuveitanda hans þess í stað.

Með 3. gr. laga nr. 54/2001 var því meðal annars slegið föstu að án tillits til erlendrar löggjafar sem að öðru leyti gildi um ráðningarsamband starfsmanns og erlends fyrirtækis sem sendir hann til starfa hér á landi, skuli gilda um starfskjör hans lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda að því er meðal annars varðar lágmarkslaun. Í margnefndum samningum 1. október 2003 og 10. sama mánaðar er kveðið á um hvernig þessum áskilnaði um lágmarkslaun skuli beitt vegna starfsmanna er vinna við framkvæmdir áfrýjanda við Kárahnjúka á vegum erlendra starfsmannaleiga. Er þar samið um að í lok hvers mánaðarlegs uppgjörstímabils skuli reikna margfeldi unninna vinnustunda hvers starfsmanns og umsaminna tímalauna samkvæmt virkjunarsamningi. Frá þeirri samtölu skuli draga sem svarar 4% iðgjaldi í lífeyrissjóð, 1% stéttarfélagsgjaldi og staðgreiðslu opinberra gjalda að teknu tilliti til persónuafsláttar. Sú nettófjárhæð launa sem þannig fáist sé lágmarksgreiðsla á viðkomandi tímabili. Er ljóst að þessar reiknireglur gilda um ákvörðun lágmarkslauna stefnda fyrir hvert þeirra fjögurra launatímabila sem hann vann hér á landi frá 27. febrúar 2004 til 7. júní sama ár. Séu þannig reiknuð lágmarkslaun hans á einhverju tímabili hærri en laun samkvæmt framangreindum ráðningarsamningi hans við Select-I Serviços SA. á hann kröfu til að fá þann mismun greiddan án tillits til þess hvort laun hans á öðrum tímabilum kunni að vera hærri samkvæmt ráðningarsamningnum við portúgölsku starfsmannaleiguna.

 Með margnefndum samningi í formi bókunar 1. október 2003 lýsti áfrýjandi því yfir að félagið „ábyrgist greiðslur umræddra starfsmanna skv. framanskráðu.“ Greinir aðila á um hvað í þessu felist. Að framan er rakið að samkvæmt 6. lið 3. kafla  samnings áfrýjanda og portúgölsku starfsmannaleigunnar, sem stefndi starfaði hjá, skuli áfrýjandi bera kostnaðinn af muninum á íslensku laununum og þeim portúgölsku. Í ljósi þess að áfrýjandi hafði þannig, áður en hann gekk til fyrrgreindra samninga við fulltrúa landssambanda Alþýðusambands Íslands, tekið að sér gagnvart starfsmannaleigunni að bera þennan kostnað beint er eðlilegt að líta svo á að í fyrrgreindri yfirlýsingu hans felist að hann taki að sér beina greiðsluskyldu gagnvart starfsmönnum á þeim mun, sem reynast kunni á reiknuðum íslenskum lágmarkslaunum og launum samkvæmt ráðningarsamningi viðkomandi starfsmanns við starfsmannaleiguna.

Að því er varðar útreikning á fyrrgreindum lágmarkslaunum stefnda greinir aðila á um það annars vegar hvort miða skuli við laun trésmiðs eða verkamanns og hins vegar hvort við það skuli miðað að stefndi hafi gengið vaktir. Í ráðningarsamningi starfsmannaleigunnar og stefnda er, eins og að framan er rakið, tekið fram að stefndi sé ráðinn til að inna af hendi störf sem tilheyri starfsgrein hans, sem sé trésmíði. Launaseðlar tilgreina starf hans hins vegar sem handlangara. Ágreiningslaust er að stefndi starfaði ekki við trésmíðar á vegum áfrýjanda. Þegar til þess er litið, sem og þess að stefndi hefur engin gögn lagt fram til að færa sönnur á að hann hafi fullnægt kröfum sem gerðar eru til staðfestingar á starfsréttindum iðnaðarmanna, verður að miða við verkamannalaun við útreikning lágmarkslauna hans. Kröfugerð stefnda er á því reist að hann hafi gengið vaktir við störf sín að Kárahnjúkum. Þessu andmælir áfrýjandi. Af vinnuskýrslum stefnda verður ekkert ráðið um þetta, en af launaseðlum hans verður séð að starfsmannaleigan hefur greitt honum álag vegna vaktavinnu. Í framburði yfirtrúnaðarmanns verkalýðsfélaganna við Kárahnjúkavirkjun fyrir héraðsdómi kom fram að stefndi hafi unnið við hjárennslisgöng virkjunarinnar og hafi stór hluti þess verks samkvæmt upplýsingum eftirlits Landsvirkjunar á vinnusvæðinu verið unninn á vöktum. Að þessu virtu ásamt því að áfrýjanda ætti að vera hægara en stefnda að færa sönnur á hvernig vinnu var háttað verður áfrýjandi látinn bera hallann af sönnunarskorti að þessu leyti. Verður því við það að miða að beita eigi vaktaálagi við útreikning viðmiðunarlaunanna.

Í málatilbúnaði sínum hafði áfrýjandi uppi þá málsástæðu fyrir varakröfu í héraði um lækkun á dómkröfu stefnda að frá stefnufjárhæð skyldi draga tekjuskatt og útsvar, sem áfrýjanda hafi verið gert að greiða hér á landi af launum stefnda. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýsti áfrýjandi því yfir að þessi málsástæða væri einvörðungu höfð uppi ef niðurstaða réttarins yrði sú að áfrýjandi teldist vinnuveitandi stefnda. Hér að framan hefur því verið hafnað og kemur hún því ekki til álita við úrlausn málsins.

Að framan er komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjanda sé skylt að greiða stefnda þann mun sem á hverju mánaðarlegu launatímabili kunni að vera annars vegar á útreiknaðri nettófjárhæð launa hans samkvæmt virkjunarsamningi og hins vegar launum samkvæmt ráðningarsamningi hans við starfsmannaleiguna. Við útreikning  nettófjárhæðar launa skuli fyrst reikna margfeldi unninna vinnustunda og umsaminna tímalauna samkvæmt virkjunarsamningi og frá þeirri niðurstöðu síðan draga sem svarar 4% iðgjaldi í lífeyrissjóð, 1% stéttarfélagsgjaldi svo og reiknaða staðgreiðslu opinberra gjald að teknu tilliti til persónuafsláttar. Við þennan útreikning skuli leggja til grundvallar laun verkamanns er gangi vaktir. Áfrýjandi hefur látið í té útreikning á grundvelli þessara forsendna. Samkvæmt niðurstöðum hans  eru íslensku launin hærri en þau portúgölsku á öllum tímabilum og nemur sá munur 9.953 krónum vegna launatímabilsins 27. febrúar 2004 til 22. mars, 27.349 krónum vegna launatímabilsins 23. mars til 22. apríl, 28.896 krónum vegna launatímabilsins 23. apríl til 22. maí og 17.944 krónum vegna launatímabilsins 23. maí til 7. júní 2004 eða samtals 84.142 krónum. Hefur þessi útreikningur ekki sætt tölulegum andmælum.

Stefndi miðar dráttarvaxtakröfu sína við að gjalddagi launa sé 22. hvers mánaðar og gjalddagi síðasta launatímabilsins við starfslok hans. Hefur því ekki verið andmælt af hálfu áfrýjanda. Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 84.142 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Impregilo SpA, útibú á Íslandi, greiði stefnda, Antonio Augusto Monteiro, 84.142 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 9.953 krónum frá 22. mars 2004 til 22. apríl sama ár, af 37.302 krónum frá þeim degi til 22. maí sama ár, af 66.198 krónum frá þeim degi til 7. júní sama ár, en af 84.142 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                                                                 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2006.

Mál þetta höfðaði Antonio Augusto Monteiro, nafnnúmer: 5754064, til heimilis í Balao í Portúgal, með stefnu birtri 24. júní 2005 á hendur Impregilo SpA Ísland, kt. 530203-2980, Lynghálsi 4, Reykjavík.  Málið var dómtekið 15. febrúar sl.

Stefnandi krefst greiðslu á 964.021 krónu auk dráttarvaxta af 220.510 krónum frá 22. mars 2004 til 22. apríl sama ár, af 473.635 krónum frá þeim degi til 22. maí sama ár, af 729.551 krónu frá þeim degi til 7. júní sama ár, en af 964.021 krónu frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi greiðslu á 402.737 krónum auk dráttarvaxta af 82.418 krónum frá 22. mars 2004 til 22. apríl sama ár, af 184.086 krónum frá þeim degi til 22. maí sama ár, af 286.442 krónum frá þeim degi til 7. júní sama ár, en af 402.737 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Stefnandi krefst þess að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, fyrst 22. mars 2005.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar. 

Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda, til vara að dómkröfur verði lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður. 

Stefnandi starfaði við byggingu Kárahnjúkavirkjunar á tímabilinu 27. febrúar til 7. júní 2004.  Ráðningarsamningur var undirritaður við fyrirtækið Séléct 1 –Servicos í Portúgal.  Samningurinn er í íslenskri þýðingu kallaður Ótímabundinn ráðningarsamningur einstaklings.  Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi starfa í starfsgrein sinni trésmíði við Kárahnjúkavirkjun og er vísað til þjónustusamnings hins portúgalska fyrirtækis og stefnda.  Vinnutími skyldi vera 8 tímar á dag, 40 tímar á viku.  Grunnlaun skyldu vera 469,90 evrur á mánuði. 

Stefnandi mun ekki hafa verið settur til starfa hjá stefnda sem trésmiður.  Upplýst er að hann leitaði eftir því að verða settur í smíðavinnu, en því var synjað.  Fór svo að hann sagði upp störfum.  Lét hann af störfum 7. júní 2004. 

Stefnandi telur að sér hafi ekki verið greidd laun í samræmi við kjarasamning.  Hann leitaði til Samiðnar sem reiknaði út hvaða laun honum hafi borið.  Er stefnu­krafan byggð á þeim útreikningi. 

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa unnið þá launaútreikninga sem stefnukröfur eru byggðar á.  Hann kvaðst hafa miðað við launaseðla frá Séléct fyrir tímabilið febrúar til maí.  Hann hefði síðan áætlað tíma í júní.  Þá hefði hann miðað við virkjanasamninginn, en stefnandi hefði átt að taka laun samkvæmt honum.  Útreikningur væri annars vegar miðaður við smiðslaun, hins vegar hefði hann reiknað samkvæmt verkamannataxta.  Þar hefði hann ekki sett stefnanda á byrjunarlaun þar sem honum hefði ekki þótt rétt að setja smið á byrjunarlaun óreyndra verkamanna. 

Miðað hefði verið við vaktaálag þar sem í launaseðlunum frá Séléct hefði verið greitt slíkt álag.  Þá hefði verið unnið á vöktum þar sem stefnandi starfaði. 

Oddur Friðriksson, yfirtrúnaðarmaður við Kárahnjúkavirkjun, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvað stefnanda hafa haft samband við sig í maí og kvartað yfir því að hann væri að vinna sem verkamaður, en ekki sem smiður.  Oddur kvaðst hafa reynt að leiðrétta þetta, en ekki tekist.  Í kjölfarið hefði stefnandi ákveðið að hætta.  Oddur kvaðst vita hvar stefnandi hefði unnið og þar hefði að miklu leyti verið unnið á vöktum. 

Málsástæður og lagarök stefnanda. 

Stefnandi kveðst byggja á því að samningurinn við hið portúgalska fyrirtæki hafi verið málamyndagerningur.  Séléct hafi aðeins verið milliliður um ráðningu stefnanda til stefnda.  Hann hafi því á umræddu tímabili verið starfsmaður stefnda.  Bendir hann á að hann hafi starfað hjá stefnda, lotið boðvaldi hans.  Stefndi hafi skipulagt vinnuna, ákveðið verkefni frá degi til dags, vinnutíma og lagt til verkfæri. 

Stefnandi mótmælir því að Séléct hafi veitt stefnda þjónustu við framkvæmdirnar við Kárahnjúka.  Séléct hafi aðeins haft milligöngu um ráðningu stefnanda sem starfsmanns stefnda.  Séléct hafi ekki sinnt neinum afmörkuðum verk­þætti við virkjunina.  Samkvæmt íslenskum lögum hafi stefnandi verið starfsmaður stefnda.  Stefnandi vísar hér til laga nr. 54/2001.

Stefnandi bendir hér ennfremur á úrskurð yfirskattanefndar í máli nr. 95/2005 um skil opinberra gjalda af launum erlendra starfsmanna. 

Í öðru lagi byggir stefnandi á samkomulagi stefnda við nokkur landssambönd Alþýðusambandsins, sem dagsett er 1. október 2003.  Stefndi hafi þar ábyrgst að greiðslur til erlendra starfsmanna væru aldrei lægri en laun samkvæmt gildandi virkjanasamningi.  Reikna skuli mánaðarlega laun erlends starfsmanns í samræmi við ákvæði virkjanasamningsins og greiða starfsmanni þau laun að frádregnu 4% framlagi hans í lífeyrissjóð og staðgreiðslu skatta.  Stefndi hafi skuldbundið sig til að tryggja að heildarlaun erlendra starfsmanna væru ekki lægri en lágmarkstaxtar samkvæmt kjarasamningum.  Stefndi hafi brugðist þessari skyldu sinni gagnvart stefnanda.  Beri hann bótaábyrgð á því, hvort sem litið yrði á hana sem bótaskyldu innan eða utan samninga. 

Stefnandi vísar til 1. gr. laga nr. 55/1980.  Starfskjör sem aðildarsamtök vinnu­markaðarins semji um séu lágmarkskjör.  Samningar einstakra launamanna um lakari kjör séu ógildir. 

Stefnandi telur að vinnuveitandi geti ekki með því einu að gera málamynda­samning um ráðningu vikið sér undan skýrum lagaskyldum og ábyrgð gagnvart starfs­mönnum sínum. 

Stefnandi telur stefnda óheimilt að mismuna sér.  Vísar hann til 7. gr. laga nr. 47/1993, 4. gr. laga nr. 21/1993 og 26. gr. Alþjóðasamings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979.  Um þetta vísar stefnandi jafnframt til 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. 

Krafa stefnanda er sundurliðuð í framlögðum útreikningi Samiðnar.  Hann krefur um mismun á þeim launum sem honum voru greidd og því sem hann telur sig eiga rétt á samkvæmt kjarasamningi, auk orlofs.  Aðalkrafa er miðuð við laun iðnaðarmanns í launaflokki 11.  Um rétt til orlofs vísar stefnandi til laga nr. 30/1987. 

Krafan sundurliðast svo eftir launatímabilum:

Vangoldin laun 27. febrúar - 22. mars 2004

kr. 220.510

Vangoldin laun 23. mars - 22. apríl 2004

kr. 253.125

Vangoldin laun 23. apríl - 22. maí 2004

kr. 255.916

Vangoldin laun 23. maí - 7. júní 2004

kr.   81.472

Vangoldið orlof

kr. 152.998

Samtals

kr. 964.021

Varakrafa er miðuð við að stefnanda hafi borið laun sem ófaglærður í launaflokki H2.  Sundurliðast varakrafan svo eftir tímabilum:

 Vangoldin laun 27. febrúar - 22. mars 2004

kr.   82.418

Vangoldin laun 23. mars - 22. apríl 2004

kr. 101.668

Vangoldin laun 23. apríl - 22. maí 2004

kr. 102.356

Vangoldin laun 23. maí - 7. júní 2004

kr.   15.110

Vangoldið orlof

kr. 101.185

Samtals

kr. 402.737

Auk áðurgreindra réttarheimilda vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um efndir samninga og reglna vinnuréttar um efndir ráðningarsamninga. 

Málsástæður og lagarök stefnda. 

Stefndi byggir sýknukröfu aðallega á aðildarskorti, þar sem hann hafi aldrei verið í ráðningarsambandi við stefnanda né borið á honum ábyrgð sem vinnuveitandi.  Stefnandi hafi verið starfsmaður Séléct.  Vísar stefnandi hér til ráðningarsamningsins, launaseðla og þess að stefnandi hafi verið tryggður í almannatryggingarkerfi Portúgal að eigin ósk. 

Stefndi mótmælir því að ráðningarsamningurinn sé málamyndagerningur og að stefndi hafi verið hinn raunverulegi vinnuveitandi stefnanda.  Aðildarskorturinn leiði til sýknu skv. 2. tl. 16. gr. laga nr. 91/1991. 

Stefndi segir að samningur sinn við Séléct kveði á um þjónustu við útvegun vinnuafls og útleigu á því.  Um sé að ræða útselda vinnu.  Séléct finni starfsmenn, ráði þá til sín með ráðningarsamningi, annist tryggingar, launa- og skattauppgjör og ábyrgist að starfsmennirnir hafi skilríki til sönnunar á gildum tryggingum í ráðningar­ríkinu og viðeigandi starfsréttindum.  Eðlilegt sé og skylt að tilgreina í ráðningar­samningi hver vinnustaður verði, sbr. tilskipun 91/533/EBE.  Gildi þetta einnig að íslenskum rétti. 

Stefndi mótmælir því að með þessari aðferð við útvegun mannafla sé reynt að komast hjá því að fylgja gildandi lögum og reglum.  Venja sé við tímabundnar stór­framkvæmdir að hluti starfsmanna komi að verki á vegum sérhæfðra þjónustu­fyrirtækja, sem ráði til sín mannskap og selji út vinnu til tímabundinna verkefna.  Þjónustuveitandinn hafi að því leyti stöðu undirverktaka sem tekur að sér tiltekinn verkþátt gegn umsömdu endurgjaldi. 

Stefndi telur að stefnandi hafi verið sendur til starfa hér á landi í skilningi 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/2001.  Því skoðist stefnandi í lagalegum skilningi starfs­maður þjónustuveitandans sem skoðist sem vinnuveitandi hans og því geti hann ekki á sama tíma hafa verið starfsmaður stefnda.  Þá mótmælir stefndi því að þjónusta Séléct hafi einungis verið ráðningarþjónusta í þágu stefnda.  Þá telur stefndi að skilgreining á launþegahugtakinu samkvæmt lögum og vinnurétti almennt hafi ekki þýðingu í málinu. 

Stefndi mótmælir því að tilgreindur úrskurður yfirskattanefndar hafi þýðingu.  Þá hafi nefndin misskilið þýðingu kjarasamninga. 

Stefndi telur að samningar sínir við landssambönd Alþýðusambandsins, 1. og 10. október 2003, sýni að aðilar viðurkenni starfsmannaleigur á borð við Séléct sem vinnuveitanda hlutaðeigandi starfsmanna, og jafnframt að ráðningarsamningar þeirra séu gildir og bindandi. Íslenskir kjarasamningar séu hins vegar bindandi fyrir starfsmannaleiguna sem lágmarkskjör. 

Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnanda að bera eigi saman heildarlaun stefnanda miðað við íslensk lög og kjarasamninga.  Samkvæmt samningnum frá 1. október 2003 beri að sannreyna að hið erlenda launauppgjör sé í samræmi við samninga með því að margfalda saman tímalaun og vinnutíma.  Frá þeirri upphæð skuli draga 4% sem jafngildi framlagi launamanns í lífeyrissjóð, 1% í stéttarfélags­gjald, svo og staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars, en að viðbættum persónuafslætti.  Sú nettófjárhæð sem kemur út úr þessum reikningi jafngildi því sem lægst má greiða hlutaðeigandi starfsmanni í peningum, beint eða inn á bankareikning hans. 

Stefndi hefur lagt fram útreikning á launauppgjöri stefnanda.  Það sé miðað við að stefnandi hafi starfað sem almennur verkamaður.  Ekkert hafi legið fyrir um starfsreynslu hans og hann hafi því verið settur í launaflokk H1 fyrstu þrjá mánuðina, en H2 eftir það.  Á framlögðu skjali sé sett upp til samanburðar launauppgjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum og sýni það hver hefðu verið útborguð laun til stefnanda.  Samkvæmt gögnum um greiðslur Séléct til stefnanda hafi hann samtals fengið greitt meira en samningurinn mæli fyrir um.  Þó sé smávægilegur munur á milli mánaða.  Þannig hafi stefnandi ekki borið skarðan hlut frá borði.  Engu skipti hvernig launakjörin hafi verið samsett, það sé nettógreiðslan sem skipti máli.  Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi rétt á vaktaálagi. 

Stefndi mótmælir því að hann hafi fallist á að stefnandi kæmi til starfa sem tré­smiður.  Þannig sýni fylgiskjal reiknings frá Séléct að vinna stefnanda hafi verið seld út sem um vinnu ófaglærðs almenns verkamanns væri að ræða.  Þá hafi hann starfað sem slíkur og hafi því borið endurgjald í samræmi við það.  Tilgreining í ráðningar­samningi sé ekki á ábyrgð stefnda.  Þá liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi fullnægt kröfum sem gerðar eru um staðfestingu á starfsréttindum iðnaðarmanna. 

Stefndi mómælir því að stefnanda hafi verið mismunað í kjörum.  Þá telur stefndi að hann hafi ekki tekið á sig sérstaka skyldu til að efna ráðningarkjör stefnanda.  Hugsanleg ábyrgð gæti ekki verið annað en varaábyrgð, ef fullreynt væri að Séléct gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. 

Til stuðnings varakröfu mótmælir stefndi útreikningi á kröfuliðum stefnanda í stefnu.  Þá krefst hann þess að frá stefnufjárhæð verði dreginn tekjuskattur og útsvar.  Loks mótmælir stefndi upphafsdegi dráttarvaxta samkvæmt kröfugerð stefnanda.  Dráttarvexti beri að dæma frá málshöfðun, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. 

Stefndi vísar til almennra reglna vinnu- og samningaréttar, einkum reglunnar um skuldbindingargildi samninga.  Þá vísar hann til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 21/1991, laga nr. 54/2001, svo og laga 55/1980. Þá vísar hann til iðnaðarlaga nr. 42/1978. 

Forsendur og niðurstaða. 

Af samningi stefnanda við Séléct kemur skýrt fram að hann er ráðinn til starfa hjá stefnanda við framkvæmdirnar við Kárahnjúkavirkjun.  Hann hafði ekki verið í þjónustu Séléct áður og því er ekki haldið fram að sá aðili hafi sent hann til starfa annars staðar eftir að hann fór af landi brott.  Tilgreining á Séléct sem vinnuveitanda var því bersýnilega til málamynda.  Um réttarstöðu stefnanda giltu ekki lög nr. 54/2001, sbr. 1. gr. laganna.  Stefndi tók við stefnanda til starfa á grundvelli þess samnings sem hann undirritaði við Séléct og verður að líta svo á að stefndi hafi verið skuldbundinn sem vinnuveitandi beint eftir efni ráðningarsamningsins. 

Stefnandi var ráðinn sem trésmiður.  Ekki reyndi á það að hann væri krafinn um staðfestingu á iðnréttindum sínum á meðan hann dvaldi hér á landi.  Úr því sem komið er verður sönnunarbyrði felld á stefnda um að stefnandi hafi ekki haft fullgild iðnréttindi.  Engin slík sönnun er komin fram. 

Stefndi hefur ekki hnekkt þeim útreikningi sem stefnukrafa byggist á.  Leggja verður til grundvallar að stefnandi hafi unnið á vöktum, en launaseðill hans frá Portúgal bendir til þess.  Er það einnig stutt af framburði Odds Friðrikssonar fyrir dómi.  Ekki verður fjallað um skattskil í þessum dómi.  Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 964.021 krónu auk dráttarvaxta eins og krafist er, en krafa hans er ekki skaðabótakrafa í skilningi 9. gr. vaxtalaga.  Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað, sem er ákveðinn 450.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Stefndi, Impregilo SpA, útibú Íslandi, greiði stefnanda, Antonio Augusto Monteiro, 964.021 krónu auk dráttarvaxta af 220.510 krónum frá 22. mars 2004 til 22. apríl sama ár, af 473.635 krónum frá þeim degi til 22. maí sama ár, af 729.551 krónu frá þeim degi til 7. júní sama ár, en af 964.021 krónu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.