Hæstiréttur íslands
Mál nr. 620/2008
Lykilorð
- Þjófnaður
- Fjársvik
- Nytjastuldur
- Rán
- Fíkniefnalagabrot
- Umferðarlagabrot
- Upptaka
- Ökuréttarsvipting
- Öryggisgæsla
|
|
Fimmtudaginn 12. mars 2009. |
|
Nr. 620/2008. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson, settur saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Fjársvik. Nytjastuldur. Rán. Fíkniefnalagabrot. Umferðarlagabrot. Upptaka. Ökuréttarsvipting. Öryggisgæsla.
X var sakfelldur fyrir fjölda þjófnaðarbrota, umferðarlagabrot, fjársvik, nytjastuld, rán og fíkniefnalagabrot. Að áliti geðlæknis var X haldinn alvarlegri persónuleikaröskun, hafði hlotið geðklofagreiningu og geðrofasjúkdóm. Þrír geðlæknar sem X hafði verið í meðferð hjá töldu hann mjög hættulegan og stórhættulegan sjálfum sér og öðrum. Niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar var að heilsufar X væri þannig að ekki bæri að refsa honum og talið ólíklegt að refsing gæti borið árangur, sbr. 16. gr. laga nr. 19/1940. Eins og ástand X var háttað var talið nauðsynlegt, vegna réttaröryggis og til að varna því að háski yrði ekki af honum að beita úrræðum samkvæmt 62. gr. laga nr. 19/1940 og honum gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Með áfrýjunarstefnum 6. desember 2007 og 11. nóvember 2008 og í samræmi við yfirlýsingar ákærða 5. nóvember 2007 og 13. nóvember 2008 skaut ríkissaksóknari til Hæstaréttar tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2007 og 24. október 2008. Með fyrrnefnda dóminum var ákærði dæmdur í 7 mánaða fangelsi og gert að sæta upptöku á 0,63 grömmum af kókaíni en með þeim síðarnefnda til að sæta öruggri gæslu á viðeigandi stofnun, jafnframt því sem hann var sviptur ökurétti í fjögur ár frá birtingu dómsins. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á niðurstöðu dómanna um sakfellingu ákærða, sviptingu ökuréttar og upptöku fíkniefna, sem og ákvörðun refsingar samkvæmt dómi 11. október 2007, en að ákærða verði ákvörðuð refsing vegna brota sem um ræðir í dóminum 24. október 2008. Til vara krefst ákæruvaldið að ákærða verði ákvörðuð vistun á viðeigandi stofnun vegna þeirra brota sem hann verður sakfelldur fyrir. Ákærði krefst aðallega sýknu af I. og VIII. kafla ákæru 7. ágúst 2007 sem um er fjallað í dómi 11. október 2007 og sættir sig að öðru leyti við sakfellingar samkvæmt báðum dómunum. Hann krefst þess að honum verði gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun vegna brota samkvæmt báðum dómunum. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa.
I
Með ákærum 7. ágúst og 7. september 2007 var mál höfðað á hendur fjórum einstaklingum vegna þeirra sakargifta sem dæmt var um í dóminum 11. október 2007. Ákærði og meðákærði Bergþór Leifsson áfrýjuðu héraðsdómi. Í samræmi við beiðni ríkissaksóknara var þáttur ákærða X skilinn frá málinu og er þáttur hans til endurskoðunar nú. Dómur gekk í máli Bergþórs Leifssonar í Hæstarétti 18. desember 2008, mál nr. 663/2007.
Með I. kafla ákæru 7. ágúst 2007 er ákærða gefið að sök að hafa ásamt meðákærðu í héraði, Y og Z, á tímabilinu 23. til 25. júní 2007 brotist inn í sumarbústað að Skriðu í Hornafjarðarbæ, með því að spenna upp glugga á norður- og vesturhlið hússins og stolið þaðan sex vínflöskum, borvél og útvarpstæki. Framburður ákærða og meðákærðu í héraði eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Segir í niðurstöðu héraðsdóms að ákærðu hafi öllum borið saman um að þau hafi verið á ferð í bíl á þessum slóðum. Einnig er vísað til vettvangsskoðunar lögreglumanns um að gluggar hafi verið spenntir upp og áfengisflöskum stolið. Þá hafi Y játað brot sitt hjá lögreglu að viðstöddum verjanda, en Z bæði hjá lögreglu og fyrir dómi.
Y bar fyrir dómi að vegna lyfja hefði hann ekki vitað hvað hann var að segja við yfirheyrslu hjá lögreglu og að ekki hefði verið hægt að taka skýrslu af sér vegna áhrifa lyfjanna. Lögreglumaður sá sem tók skýrslu af Y lýsti yfirheyrslunni svona: „Hann var orðinn eitthvað illa áttaður blessaður drengurinn því að hann hafði fengið einhver ný lyf þarna um morguninn og þau virkuðu þannig á hann að þegar fór að líða á morguninn þá slappaðist hann, fór hálfpartinn að dotta við yfirheyrsluna.“ Eftir að haft hefði verið samband við lækni sem skoðaði Y á lögreglustöðinni hefði yfirheyrslu verið hætt. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða ekki reist á því að um sé að ræða skýlausa játningu Y hjá lögreglu. Þá hefur ákærði staðfastlega neitað sök. Þrátt fyrir framburð Y verður með vísan til 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ekki talið sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem um ræðir í I. kafla ákæru 7. ágúst 2007.
Í niðurstöðu héraðsdóms 11. október 2007 um VIII. kafla ákæru 7. ágúst 2007 segir að ákærði hafi enga skýringu gefið á breyttum framburði sínum fyrir dómi frá því sem var hjá lögreglu. Fallast má á með ákærða að hann hafi gefið skýringar á þessari breytingu, sem voru þær að hann hefði verið í annarlegu ástandi og viljað komast frá lögreglu. Þessar skýringar ákærða eru hins vegar haldlausar. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna verður héraðsdómurinn staðfestur um sakfellingu ákærða vegna VIII. kafla ákæru 7. ágúst 2007.
Með þeim hætti sem greinir í hinum áfrýjuðu dómum er ákærði í máli þessu fundinn sekur um að hafa framið fjölmörg brot, bæði á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og sérrefsilögum. Í hinum áfrýjaða héraðsdómi 24. október 2008 eru rakin gögn og framburður geðlæknis um heilsufar ákærða. Þá hefur fyrir Hæstarétt verið lagt fram vottorð yfirlæknisins á réttargeðdeildinni að Sogni í Ölfusi. Með vísan til forsendna þess dóms er fallist á að svo sé ástatt um ákærða að ætla megi að refsing geti ekki borið árangur. Í stað refsingar vegna þeirra brota sem um ræðir í máli þessu skal ákærði sæta öruggri gæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr., sbr. 63. gr. almennra hegningarlaga.
Staðfest verða ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um ökuréttarsviptingu, um upptöku fíkniefna og sakarkostnað að því er ákærða varðar.
Eftir þessum úrslitum skal allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðast úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti öruggri gæslu á viðeigandi stofnun.
Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um ökuréttarsviptingu, upptöku fíkniefna og sakarkostnað að því er ákærða varðar skulu vera óröskuð.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2008.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 27. febrúar 2008 á hendur:
,,X, kennitala [...],
[heimilisfang], og
Q, kennitala [...],
[heimilisfang],, báðum í Reykjavík,
fyrir eftirtalin brot framin í Kópavogi, miðvikudaginn 30. janúar 2008:
1. Gegn ákærða X fyrir rán, með því að hafa, á bensínstöð Atlantsolíu, Kópavogsbraut 115, farið þar inn fyrir afgreiðsluborð og ógnað starfstúlkunni B með framkomu sinni og hótunum um ofbeldi og fengið hana til að opna sjóðsvél og hrifsað þaðan peninga að fjárhæð kr. 30.500.
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Gegn ákærða Q fyrir hylmingu, með því að hafa, í bifreiðinni VB-032, meðan henni var ekið frá bensínstöðinni sem lýst er í 1. lið ákærunnar, tekið við þýfi úr hendi meðákærða, þrátt fyrir vitneskju um hvernig hann var að verðmætinu kominn.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“
Önnur ákæra var gefin út 18. mars 2008 á hendur ákærða X þar sem ákært er ,,fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2007 nema annað sé tekið fram:
I.
Umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 17. október ekið bifreiðinni OH-231 við Kleppsveg 66 óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
II.
Þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 23. nóvember brotist inn á heimili A, kt. [...], að [...]og stolið nælum, tveimur hringum og eyrnalokkum, gullarmbandi, rúbín steini, 3 málverkum, 4 farsímum, heimasíma, Raimond Weil úri, kvenarmband úr gulli, 3 demantshringum, bókhaldsgögnum og greiðslukorti, allt að óþekktu verðmæti.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III.
Fjársvik, með því að hafa mánudaginn 24. nóvember, á óþekktum stað, blekkt starfsmann í verslun EJS hf., Grensásvegi 10, símleiðis með því að gefa upp greiðslukortanúmer A og svikið út fartölvu að verðmæti kr. 159.900, sem ákærði fékk annan mann til að sækja í verslunina síðar sama dag.
Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
IV.
Þjófnaði, með því að hafa á tímabili frá 24. til 26. nóvember stolið samtals kr. 85.000 er ákærði tók út peninga í hraðbönkum með greiðslukorti A, allt sem nánar greinir:
1. Sunnudaginn 25. nóvember, á veitingastaðnum Catalinu, Hamraborg 11, Kópavogi, kr. 20.000.
2. Sunnudaginn 25. nóvember, í Hamraborg, Kópavogi, kr. 5.000.
3. Aðfaranótt sunnudagsins 25. nóvember, í verslunarmiðstöðinni Mjóddinni, kr. 20.000.
4. Aðfaranótt sunnudagsins 25. nóvember, á veitingastaðnum Kringlukránni, verslunarmiðstöðinni Kringlunni, kr. 20.000.
5. Aðfaranótt sunnudagsins 25. nóvember, við verslunina Bónus, Smiðjuvegi 2, Kópavogi, kr. 5.000.
6. Aðfaranótt mánudagsins 26. nóvember, við verslunarmiðstöðina Lóuhólum 2-6, kr. 15.000.
M. 007-2007-90939
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
V.
Fjársvik, með því að hafa á tímabili frá 24. til 26. nóvember, blekkt starfsfólk í staðgreiðsluviðskiptum með framvísun á greiðslukorti A og með því svikið út vörur og þjónustu, samtals að fjárhæð kr. 16.192, allt sem nánar greinir:
1. Að kvöldi laugardagsins 24. nóvember, í verslun Aktu-taktu, á óþekktum stað, svikið út vörur að fjárhæð kr. 4.000.
2. Að kvöldi laugardagsins 24. nóvember, í verslun Aktu-taktu, á óþekktum stað, svikið út vörur að fjárhæð kr. 4.436.
3. Aðfaranótt sunnudagsins 25. nóvember, á óþekktum stað, svikið út akstur með leigubifreið að fjárhæð kr. 740.
4. Aðfaranótt sunnudagsins 25. nóvember, á óþekktum stað, svikið út akstur með leigubifreið að fjárhæð kr. 1.720.
5. Sunnudaginn 25. nóvember, í verslun 10-11, Engihjalla 8, Kópavogi, svikið út vörur að fjárhæð kr. 3.586.
6. Að kvöldi mánudagsins 26. nóvember, á óþekktum stað, svikið út akstur með leigubifreið að fjárhæð kr. 1.710.
M. 007-2007-90939
Telst þetta varða við 248. almennra hegningarlaga.
VI.
Þjófnaði, með því að hafa á tímabili frá 24. til 25. nóvember, stolið eldsneyti úr sjálfsölum með notkun á greiðslukorti A, samtals að fjárhæð kr. 27.413, allt sem nánar greinir:
1. Að kvöldi laugardagsins 24. nóvember, á bensínstöð Bensínorkunnar á óþekktum stað, að fjárhæð kr. 1.000.
2. Að morgni laugardagsins 24. nóvember, á bensínstöð Olíuverzlunar Íslands hf., á óþekktum stað, að fjárhæð kr. 6.252.
3. Að morgni sunnudagsins 25. nóvember, á bensínstöð N1 hf., á óþekktum stað, að fjárhæð kr. 5.955.
4. Að morgni sunnudagsins 25. nóvember, á bensínstöð N1 hf., á óþekktum stað, að fjárhæð kr. 3.000.
5. Að morgni sunnudagsins 25. nóvember, á bensínstöð Skeljungs hf., á óþekktum stað, að fjárhæð kr. 4.546.
6. Að morgni sunnudagsins 25. nóvember, á bensínstöð Skeljungs hf., á óþekktum stað, að fjárhæð kr. 6.660.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
VII.
Nytjastuld, með því að hafa fimmtudaginn 31. janúar 2008, heimildarlaust tekið bifreiðina YM-744 í Suzuki umboðinu að Skeifunni 17 og ekið henni að Langholtsvegi 89.
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 20/1956.
VIII.
Umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 31. janúar 2008 ekið bifreiðinni AE-384 vestur Suðurlandsbraut við Laugaveg óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.
Telst þetta varða við sömu ákvæði og greinir í I. lið.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“
Málin voru sameinuð.
Verjandi ákærða X krefst sýknu af ránsákæru og af I., VII. og VIII. kafla ákæru frá 18. mars 2008. Krafist er sýknu vegna ákærða Q. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Ákæra dagsett 27. febrúar 2008.
Miðvikudaginn 30. janúar 2008, var lögreglan send að bensínstöð Atlantsolíu að Kópavogsbraut 15 vegna ráns. Segir í tilkynningunni að starfsstúlka hefði sagt mann hafa komið inn í söluturninn skömmu áður og tæmt þar peningakassa. Er lögreglan kom á vettvang lýsti starfsmaðurinn, B, því að karlmaður hefði komið þar inn og ,,hótað henni ef hún leyfði honum ekki að tæma peningakassann“ eins og segir í frumskýrslu lögreglunnar. B kvað manninn hafa komið inn í söluturninn og greint svo frá að hugsanlega væri leki frá húsnæðinu og hann hefði spurt hvort þar væri kjallari. Henni hefði fundist þetta undarlegt. Síðan hefði maðurinn staðið í afgreiðslunni eins og hann væri að hugsa eitthvað uns hann bað um pylsu sem hún kvaðst hafa afgreitt hann með. Maðurinn hefði þá sagst vera að bíða eftir vini sínum og beðið um aðra pylsu. Í því kom viðskiptavinur og greiddi fyrir bensín. Eftir að hann fór hefði maðurinn sagt að hann hefði verið sendur inn í söluturninn til að tæma peningakassann. Hann hefði sagt orðrétt ,,þú ræður hvort þú sýnir mótþróa eða ekki þú veist að ég get barið þig í klessu“. B kvaðst hafa orðið hrædd og lýsti hún atburðarásinni eftir þetta og því er maðurinn tók peninga úr sjóðsvélinni eins og lýst er ákærunni. B gaf upp bílnúmer bílsins sem maðurinn kom í. Leiddi það til handtöku ákærðu síðar sama dag.
Í skýrslutöku hjá lögreglunni sama dag greindi ákærði X svo frá að hann hefði verið á ferðinni ásamt meðákærða og beðið hann um að stöðva bifreiðna við bensínstöðina. Þar hefði hann ætlað að fá lánaða peninga hjá starfsmanni sem hefði áður lánað sér peninga. Er hann kom inn sá hann að konan sem hann þekkir var ekki við störf. Hann bað þá stúlkuna sem þarna var við störf að afhenda sér peninga í afgreiðslukassanum. Kvaðst hann hafa sagt: ,,viltu opna fyrir mig kassann og færa þig frá á meðan ég tek peningana úr honum svo það verði engin læti.“ Stúlkan hefði gert þetta og ákærði tekið peningana og farið út í bílinn sem meðákærði ók, afhent meðákærða peningana og þeir ekið í burtu.
Tekin var skýrsla af ákærða Q sama dag. Þar lýsti hann ferðum þeirra meðákærða að bensínstöðinni þar sem X fór inn en hann hefði sagst þekkja þar starfsmann. Q beið í bílnum fyrir utan uns X kom aftur út og ók hann þá í burtu. Stuttu síðar hefði X tekið upp úr vasa sínum seðlabúnt. Þá segir í skýrslunni: ,,X sagði við mig þá að hann reddi sér alltaf ég áttaði mig á því alveg hvað hefði gerst að X hefði rænt sjoppuna en hann var í þokkalega góðu ástandi miðað við hvernig hann getur orðið.“
Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði X neitar sök. Hann kvaðst hvorki hafa ógnað né hótað starfsmanninum B. Hann hefði farið inn í sjoppuna þeirra erinda að fá lán hjá starfsmanni sem hann þekkti en sá hefði ekki verið við störf. Hann hefði þá beðið starfsmanninn sem þarna var að opna sjóðsvélina sem hún gerði en áður hefði ákærði sjálfur reynt að opna hana. Eftir að B opnaði kassann, tók ákærði peningana sem þar voru og fór í burtu. Ákærði kvað þannig rétt í ákæru að hann hefði farið inn fyrir afgreiðsluborðið, en rangt að hann hefði ógnað og hótað B eins og lýst er. Ákærði hvað meðákærða Q hafa beðið úti í bíl á meðan en ákærði bað hann um að keyra sig á þennan stað í því skyni að fá þar lánaða peninga. Eftir að ákærði kom með peningana út hefði meðákærði fyrst vitað hvað ákærði hefði gert. Síðar greindi hann svo frá að hann vissi ekkert hvort meðákærði hefði gert sér grein fyrir að ákærði tók peningana úr bensínstöðinni. Síðar afhenti hann meðákærða hluta peningana.
Ákærði Q neitar sök. Hann kvaðst hafa ekið bifreiðinni eins og lýst er í ákærunni og tekið við peningum úr hendi meðákærða en ekki hafa vitað að peningarnir voru illa fengnir. Ákærði kvað meðákærða hafa beðið sig um að skutla sér á bensínstöðina sem hér um ræðir en hefði hann vitað hvað vakti fyrir meðákærða hefði ákærði aldrei lagt bifreið sinni þar fyrir utan að sögn. Aðspurður um ummæli í lögregluskýrslu sem rakin voru að ofan kvaðst meðákærði hafa tekið við peningunum nokkru eftir að ekið var frá bensínstöðinni. Þá kvaðst hann hafa áttað sig á því hvað hefði gerst. Ákærði staðfesti framburð sinn hjá lögreglu þess efnis að hann hefði á þessum tíma verið blankur og selt meðákærða tvo kassa af ritalini og hann hefði gert sér grein fyrir því að peningarnir sem að X greiddi með væru úr ráninu.
Vitnið B lýsti því er bifreið með tveimur mönnum í var ekið hægt framhjá bensínstöðinni þar sem hún var utandyra ásamt vinkonu sinni. Eftir það fór hún inn í bensínstöðina og vinkonan í burt. Stuttu síðar kom inn maður sem reyndi að fá vitnið út úr versluninni en maðurinn hafði nefnt að leki væri frá húsinu. Hún kvaðst þegar hafa áttað sig á að eitthvað skrýtið væri á ferðinni. Maðurinn dvaldi inni um stund en á meðan kom inn viðskiptavinur sem greiddi fyrir bensín. Eftir það bað maðurinn, sem var ákærði X, um pylsu. Síðar greindi hann frá því að hann hefði verið sendur inn í bensínstöðina í ákveðið verkefni og ætti hann að tæma búðarkassann. Ákærði hefði sagt að hún réði hvað hún gerði en hún mætti vita að hann gæti barið hana. Hún kvaðst hafa orðið mjög hrædd við þetta og ákveðið að gera ekkert. Maðurinn hefði reynt að opna sjóðsvélina en ekki tekist. Hún hefði þá opnað kassann og hann þá tekið peningana og farið í burtu.
Vitnið C rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn, en hann tók skýrslur af sakborningum og vitni. Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð hans.
Niðurstaða
I.1.
Ákærði X neitar sök. Hjá lögreglunni lýsti ákærði því svo að hann hefði beðið B um að færa sig frá svo ekki yrðu læti. Ljóst er af þessum framburði og af vitnisburði B fyrir dómi að tilgangur ákærða í verslunina var að verða sér úti um peninga. Ekki er ástæða til að draga í efa framburð ákærða þess efnis að hann hefði upphaflega ætlað að fá lán eins og hann lýsti. Eins og ákærði lýsti atburðpum fyrir dómi gat B ekki dregið aðra ályktun en þá að ákærði væri að fremja rán enda varð B hrædd. Þá staðfesti meðákærði Q fyrir dómi framburð sinn hjá lögrelu þess efnis að honum hefði verið ljóst að ákærði X hefði fengið peningana með ráni. Dómurinn telur sannað með þessu og með framburði ákærða hjá lögreglu og af vitnisburði B en gegn neitun ákærða fyrir dómi að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir. Það er mat dómsins að sú háttsemi ákærða inni í versluninni að fara að sjóðsvélinni og reyna að opna hana en biðja síðan B um það og ummæli hans um að hún opni sjóðsvélina og færi sig frá svo ekki verði læti, hafi falið í sér ógnun eða hótun sem varði við 252. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.
I.2.
Ákærði Q játar að hafa stuttu eftir komu meðákærða í bifreiðina gert sér grein fyrir því að peningarnir sem hann móttók hefðu verið úr ráninu. Með móttökunni hefur ákærði gerst sekur um hylmingu eins og í ákæru greinir.
Ákæra dagsett 18. mars 2008.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í öllum köflum ákæru greinir utan I., VII. og VIII. kafla. Eru brot ákærða í þessum ákæruliðum rétt færð til refsiákvæða. Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta varðandi þessa játuðu ákæruliði.
Ákæruliðir I. og VIII.
Ákærði kvaðst hafa verið ökumaður bifreiðarinnar sem hér um ræðir, en hann telji sig hafa verið hæfan til að stjórna bifreiðunum í bæði skiptin.
Lögreglumennirnir sem höfðu afskipti af ákærða í þau skipti sem hér um ræðir komu fyrir dóm. Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð þeirra.
Í báðum tilvikum var tekið blóðsýni úr ákærða og sýnið sent til rannsóknar hjá rannsóknar hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum.
Samkvæmt matsgerð rannsóknarstofunnar, dagsettri 8. nóvember 2007, varðandi ákærulið I., greindust í blóðsýninu amfetamín, metýlfenídat og thetrahýdrókannabiínólsýra, allt efni sem óheimil eru á íslensku forráarsvæði. Samkvæmt matsgerð, dagsettri 27. febrúar 2008, varðandi ákærulið VII., greindust amfetamín, metýlfenídat og morfín í blóði ákærða.
Jakob Líndal Kristinsson dósent kom fyrir dóminn, skýrði og staðfesti matsgerðirnar sem hér um ræðir.
Niðurstaða ákæruliða I. og VIII.
Gegn neitun ákærða en með niðurstöðum rannsókna á blóðsýnum sem tekin voru úr ákærða eftir akstrana sem hér um ræðir, er sannað, að ákærði hafi í bæði skiptin sem hér um ræðir, verið óhæfur til að stjórna bifreið örugglega.
Varða brot ákærða við lagaákvæðin sem í ákæru greinir.
Ákæruliður VII.
Ákærð neitaði að hafa tekið bifreiðina sem hér um ræðir heimildarlaust. Ákærði kvaðst hafa fengið bifreiðina lánaða til reynsluaksturs en lögreglan hefði stöðvað aksturinn. Hjá lögreglunni viðurkenndi ákærði nytjastuld og kvað sig hafa vantað bíl. Fyrir dómi kvað ákærði þennan framburð sinn hjá lögreglu hafa verið rugl og hann muni ekki eftir skýrslutökunni.
Vitnið D kvað ákærða hafa komið í Suzuki umboðið á þessu tíma. Í ljós kom að ákærði hafði ekki ökuskírteini en ákærði hefði sagt að hann væri að athuga bíl fyrir föður sinn og vildi fá að skoða bílinn. D hefði þá sýnt ákærða bílinn en greindi honum jafnframt frá því að hann mætti ekki aka honum þar sem ökuskírteinið var ekki til staðar. Ákærði hefði fengið leyfi til að gangsetja bílinn án þess að aka honum. Ákærði hefði þá sett bílinn í gang og ekið í burtu heimildarlaust. Vitnið kvaðst þegar hafa hringt í lögreglu og lagt fram kæru fyrir nytjastuld.
Niðurstaða ákæruliðar VII.
Engum haldbærum rökum hefur verið skotið undir breyttan framburð ákærða fyrir dómi frá framburði hans hjá lögreglu þar sem hann játaði nytjastuld. Er sannað með framburði ákærða hjá lögreglu og með vitnisburði D, að ákærði hafi gerst sekur umháttsemina sem hér um ræðir og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákærði Q hefur frá árinu 1999 hltið 12 refsidóma fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnabrot, skjalafals, þjófnað, nytjastuld og rán. Hinn 26. júní 2008 var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana og fíkniefni. Hinn 7. júlí 2008 var ákærða dæmd sekt fyrir brot gegn umferðarlögum og 7. ágúst 2008 hlaut hann sekt fyrir nytjastuld og brot gegn umferðarlögum. Þá hlaut hann dóm 24. september 2008, 60 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot, nytjastuld og fíkniefnabrot. Nú ber að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, við dómanna sem að ofan voru raktir. Sýnt þykir að hylmingarbrot ákærða nú hefði ekki orðið til þess að honum hefði verið gerð frekari refsing. Ákærða Q er ekki gerð sérstök refsing.
Ákærði X hefur frá árinu 1996 hlotið 10 refsidóma fyrir eignaspjöll, þjófnað, fíkniefnabrot, rán, stórfellda líkamsárás og umferðarlagabrot.
Undir dómsmeðferð málsins komu fram upplýsingar um að ákærði X tæki út refsivist á Réttargeðdeildinni á Sogni. Eftir þetta var að beiðni dómsins aflað upplýsinga um þroska og heilbrigðisástand ákærða, sbr. d lið 1. mgr. 71. gr. laga ne. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Engin gögn þar um fylgdu upphaflegum gögnum málsins. Þessi gagnaöflun reyndist tímafrek og dróst málið nokkuð af þeim sökum. Verður nú vikið að þessum gögnum.
Tómas Zoëga geðlæknir vann geðrannsókn á ákærða X. Geðrannsóknin er dagsett 15. september 2008, og niðurstöðukafli í geðrannsókninni er svofelldur: ,,Tuttugu og átta gamall ára einhleypur karlmaður sem frá unga aldri hefur átt við margvísleg vandamál að stríða. Fyrir 10 ára aldur er hann greindur með ofvirkni og athyglisbrest, Skólaganga gekk illa. Hegðunartruflanir í skóla og strax um 11-12 ára aldur var hann farin að stunda innbrot með félögum sínum í Hólmavík, þar sem hann bjó. Um svipað leyti hófst áfengisneysla hans, sem aðrir urðu lítið varir við. Sautján ára gamall flutti hann til Reykjavíkur og þá hófst strax neysla sterkra efna. Hann hefur notað ýmis örvandi lyf, sterk verkjalyf og önnur efni auk áfengis. Hann hefur sprautað sig með lyfjum um árabil. Greindur með lifrarbólgu, bæði B og C. Geðslag X hefur sveiflast til, hann hefur orðið mjög þunglyndur. Hann hefur gert, í endurtekin skipti, alvarlegar sjálfsvígstilraunir. Á köflum hefur hann verið mjög ofbeldisfullur gagnvart öðrum og hefur meðal annars þess vegna þurft að sitja í fangelsi. Um árabil hefur hann að minnsta kosti af og til heyrt raddir sem stundum eru fyrirskipandi og segja honum að meiða eða jafnvel deyða aðra. X hefur margsinnis legið inni á deild 33A á Landspítala og læknar þar hafa átt í erfið1eíkum með að átta sig á hvort að raddir X eru eingöngu til staðar þegar hann er undir áhrifum efna. Við skoðun á gögnum og í viðtali við X auk móður hans, virðist hann stundum heyra raddir þegar hann er sannarlega ekki að taka nein lyf og virðist ekki vera í fráhvarfi, X hefur einnig af og til haft aðsóknareinkenni (paranoid), Hann hefur sýnt af sér reiði, stjórnleysi og haft ofbeldishugmyndir gagnvart öðrum. Meðferðarheldni X hefur verið sárlega lítil. Samt hafa komið tímabil, þar sem hann hefur verið án efna getað stundað vinnu.
Það er mat sumra þeirra lækna sem hafa stundað X, móður hans og X sjálfs að meðferðstofnunar sé mjög erfið. Meðferðarheldni hans og innsæi mjög lítið.
X fær reiðiköst og ofbeldishugmyndir. Langoftast virðist hann í neyslu þegar það gerist. Kannski ekki alveg alltaf. Hann heyrir jafnvel fyrirskipandi raddir sem skipa honum aõ ráða bana ákveðnum einstaklingum.
Ljóst er að X er haldinn alvarlegri persónuleikaröskun með andfélagslegri hegðun. Þess utan mjög erfiðum og stjórnlitlum fíknisjúkdómi. Auk þess fær hann af og til geðrofseinkenni, sem aðallega lýsa sér með ofheyrnum og aðsóknarhugmyndum, líklega er ekki hægt að segja það með vissu hvort að þær hugmyndir eru algjörlega óháðar fíkniefnanotkuninni. Augljóst er að sú notkun gerir þessar raddir og ofbeldishugmyndir mun verri.
Að mati undirritaðs er hér um að ræða mjög erfitt álitamál. Spurningin er að hvað miklu leyti geðrofseinkennin eiga í ofbeldisverkum hans. Þess utan er orsök geðrofseinkennanna ekki ljós.
Að mati undirritaðs eru geðrofseinkennin ein og sér ekki þess eðlis að þau verði til þess að X sé algjörlega stjórnlaus þegar hann fremur hin endurteknu brot. Persónuleikaröskunin og fíkniefnanotkunin eru þar í aðalhlutverki.
Niðurstaða undirritaðs er að X kt. [...] sé ekki haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun, sem hafi orðið til þess að hann væri ófær að stjórna gerðum sínum.
Áframhaldandi stjórnlítil neysla X à fíkniefnum og áfengi samfara þeim persónuleikabrestum, sem hann hefur, getur leitt til voðaverka í framtíðinni. Nauðsynlegt er að hann verði áfram meðhöndlaður með sterkum geðlyfjum, Mikilvægt er að meðferð haldi áfram á lokaðri meðferðardeild eins og Sogni eða þá í svipuðum einingum í fangelsi.“
Tómas kom fyrir dóminn, skýrði og staðfesti rannsókn sína.
Í geðrannsókn Tómasar er rakið bréf, dagsett 6. desember 2006, sem Sigurður Örn Hektorsson geðlæknir ritar eftir meðhöndlun á ákærða X. Þar segir meðal annars: ,,Tuttugu og sex ára maður, sem nú er alvarlega veikur vegna geðrofs- og fíknisjúkdóms, en hefur ekki getað nýtt sér hefðbundin meðferðarúrræði. Ég tel vonlaust að meðhöndla X utan spítala og að hann sé sjálfum sér og öðrum mjög hættulegur. Ég tel afar brýnt að X fái meðferð á sérhæfðri meðferðardeild. Móðir hans er tilbúin að krefjast sjálfræðissviptingar ef með þarf.“
Fram kom undir rekstri málsins að ákærði X hefur verið vistaður til meðferðar á Sogni. John Donne de Niet, geðlæknir á réttargeðdeildinni á Sogni, ritar bréf, dagsett 26. maí 2008. Þar segir m.a. um ákærða ,,Undir áhrifum fíkniefna og með ranghugmyndir er hann stórhættulegur sjálfum sér og öðrum í samfélaginu.“
Sami geðlæknir ritar annað bréf, dagsett 16. júní 2008. Þar segir m. a. um ákærða. ,,Sjúklingurinn er með geðklofagreiningu, við fylgjum honum eftir með daglegu klínísku meðferðarprogrami og hann er á lyfjameðferð.“
Ljóst er af því sem nú hefur verið rakið að ákærði X er alvarlega veikur. Hann hefur m.a. hlotið geðklofagreiningu og geðrofssjúkdóm. Þrír geðlæknar sem hafa haft með ákærða X að gera telja hann ,,mjög hættulegan“ og ,,stórhættulegan“ sjálfum sér og öðrum, og að ástand hans geti leitt til voðaverka í framtíðinni verði ekki brugðist við. Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að heilsufar ákærða X sé þannig að ekki beri að refsa honum enda mat dómsins að ólíklegt sé refsing geti borið árangur, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Eins og ástandi ákærða er háttað er hins vegar nauðsynlegt, vegna réttaröryggis og til að varna því að háski verði af honum, að beita úrræðum samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga. Ber því samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga að ákveða, að ákærði X sæti öruggri gæslu á viðeigandi stofnun. Áfrýjun dómsins frestar ekki áhrifum þess dómsákvæðis.
Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru, dagsettri 18. mars 2008, skal ákærði X sæta sviptingu ökuréttar í 4 ár frá birtingu dómsin að telja.
Ákærði X greiði 321.590 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærðu greiði óskipt 311.250 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, en ákærði X greiði verjandanum 129.231 krónur vegna vinnu á rannsóknarstigi. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts í fjáræðunum að framan.
Dagmar Ösp Vésteinsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærða, Q, er ekki gerð sérstök refsing.
Ákærði, X, sæti öruggri gæslu á viðeigandi stofnun. Áfrýjun frestar ekki áhrifum þessa dómsákvæðis.
Ákærði X skal sviptur ökurétti í 4 ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði X greiði 321.590 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærðu greiði óskipt 311.250 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, en ákærði X greiði verjandanum 129.231 krónu vegna vinnu á rannsóknarstigi.