Hæstiréttur íslands
Mál nr. 375/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
|
|
Föstudaginn 20. júlí 2007. |
|
Nr. 375/2007. |
M(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn K (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að K hefði forsjá barna málsaðila til bráðabirgða, sem og niðurstaða um umgengnisrétt M. Einnig var staðfest að M og K væri óheimilt að fara með börnin úr landi meðan forsjármálið væri til meðferðar fyrir dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2007, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um forsjá tveggja barna þeirra til bráðabirgða og umgengni við þau. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að sér verði falin forsjá barnanna A og B til bráðabirgða. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2007.
Mál þetta sem þingfest var 7. júní sl., var tekið til úrskurðar 25. júní sl. Sóknaraðili er K, [...], Reykjavík, en varnaraðili er M, [...], Reykjavík.
Sóknaraðili krefst úrskurðar um að henni verði falin forsjá barna aðila, A og B, til bráðabirgða, þar til endanlegur dómur gengur um forsjá þeirra. Þá er þess krafist að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar varnaraðila og barnanna meðan forsjármálið er rekið. Loks er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila. Þá krefst hann þess að honum verði falin forsjá barnanna til bráðabirgða þar til forsjármál milli aðila verður til lykta leitt. Varnaraðili krefst þess, verði sóknaraðila fengin bráðabirgðaforsjá drengjanna, að kveðið verði á um það í úrskurðinum að ekki megi fara með þá úr landi að óloknu forsjármálinu. Loks krefst hann málskostnaðar.
Aðilar máls þessa gengu í hjónaband [...] 2002 í Úkraínu og fluttu í kjölfarið til Íslands. Eiga þau saman tvo drengi, A, fæddan [...] 2002, og B, fæddan [...] 2004. Bæði sóknar- og varnaraðili, ásamt börnunum, eru með lögheimili að [...].
Í apríl sl. kom upp ágreiningur milli aðila og fór varnaraðili af heimilinu 23. apríl, ásamt eldri syni þeirra, A. Fyrir dómi kvaðst hann fyrst hafa farið til móður sinnar, með drenginn, og ætlað að vera þar í tvo til þrjá daga, en þaðan hafi þeir farið í sumarbústað þar sem þeir dvöldust í eina viku. Varnaraðili kvað þá feðga hafa búið hjá móður varnaraðila eftir þetta, en hafa fengið íbúð á leigu fyrir um þremur til fjórum vikum síðan. A hefur verið hjá föður sínum þennan tíma og hefur ekki verið í leikskóla síðan 23. apríl sl., en varnaraðili kveðst hafa fengið fyrir hann pláss hjá dagmömmu. Var A áður á leikskólanum [...]. Yngri sonur aðila, B, hefur búið hjá móður sinni sem býr á [...], þar sem aðilar bjuggu áður saman, og hefur hann haldið áfram á [...].
Skilnaðarmál mun vera til meðferðar hjá sýslumanninum í Reykjavík.
Sóknaraðili höfðaði forsjármál á hendur varnaraðila hinn 11. maí sl. og var það þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. maí.
Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um bráðabirgðaforsjá barna aðila á 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Telur sóknaraðili að brýna nauðsyn beri til að ákvarða forsjá til bráðabirgða til að tryggja að börnin hafi aðgang að báðum foreldrum á meðan forsjárdeila þeirra sé til lykta leidd. Kveður hún varnaraðila hafa farið með eldra barn þeirra í felur í apríl sl. og ekki hafa svarað áskorunum um að skila barninu eða ræða hvernig forsjá verði best fyrir komið.
Sóknaraðili kveðst telja það vera börnunum fyrir bestu að henni verði falin forsjá þeirra á meðan forsjármálið er rekið. Kveðst hún hafa áhyggjur af eldri syni aðilanna þar sem óvissa ríki um aðstæður hans, honum sé nauðsynlegt að sækja leikskóla og fylgja daglegri venju sem hann þekki og hafi alist upp við. Telur hún ástæðu þess að varnaraðili fari ekki með drenginn í leikskóla vera þá að hann vilji koma í veg fyrir að sóknaraðili hafi aðgang að barninu. Sóknaraðili kveðst vera í fullri vinnu í [...], og hefur lagt fram vottorð vinnuveitanda um það.
Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi tálmað því að hún umgangist son sinn en varnaraðili hafi ítrekað hafnað umgengni. Telur hún að tálmun þessari verði ekki aflétt með öðrum hætti en að henni verði fengin forsjá drengjanna. Sóknaraðili vísar þessu sínu til stuðnings til 34. og 46. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Við flutning málsins kvað lögmaður sóknaraðila fráleitt að sóknaraðili myndi fara með synina til Úkraínu á meðan á forsjármáli sem hún hefði höfðað stæði, enda hefði hún enga hagsmuni af því. Þá hefði sóknaraðili boðist til að láta vegabréf drengjanna af hendi til dómara meðan málið væri til meðferðar, en því verið hafnað af hálfu varnaraðila. Loks vísaði lögmaðurinn til þess að milli Íslands og Úkraínu gilti samningur um brottnám barna.
Varnaraðili kveðst krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sér verði falin forsjá drengjanna til bráðabirgða.
Varnaraðili styður kröfur sínar þeim rökum að hann hafi um langt skeið haft miklar áhyggjur af velferð sonanna vegna skapbresta sóknaraðila. Kveður hann hana hafa hegðað sér gagnvart þeim á máta sem ekki sé móður sæmandi, en hún hafi meðal annars beitt eldri drenginn ofbeldi. Hafi varnaraðili lagt fram kæru á hendur sóknaraðila til Barnaverndar Reykjavíkur af þessum sökum. Varnaraðili telur öll rök hníga að því að mjög varhugavert sé að veita sóknaraðila bráðabirgðaforsjá barnanna.
Kveðst varnaraðili hafa tekið þann kost að fara með A að heiman í nokkra daga í lok apríl þar sem sóknaraðili hafi verið í miklu ójafnvægi, öskrað og verið með svívirðingar, sem ekki hafi verið við hæfi að börnin heyrðu eða væru vitni að. Hafi það sérstaklega átt við A sem hafi mun frekar en B, sem sé töluvert yngri, orðið fyrir óheppilegum áhrifum af æðisköstum móður sinnar. Þegar varnaraðili hafi ætlað að snúa heim aftur hafi sóknaraðili verið búin að skipta um læsingu, og varnaraðili hafi ekki síðan fengið að ná í föt sín eða persónulega muni, þrátt fyrir ósk þar að lútandi.
Varnaraðili kveður sóknaraðila ítrekað hafa haft í hótunum um að fara með synina til heimalands síns, Úkraínu, og meðal annars hafa tekið vegabréf þeirra traustataki. Við munnlegan flutning málsins kvað lögmaður varnaraðila hann ekki hafa þorað að fara með A á leikskólann vegna hótana móðurinnar, en hins vegar hafa fundið dagmömmu sem gæti hugsað um báða drengina. Kveðst hann vera hræddur um að sjá syni sína ekki aftur.
Varnaraðili kveður aðstæður sínar vera góðar, hann keyri leigubíl í fullu starfi, og hafi fengið íbúð á leigu.
Sóknaraðili styður kröfu sína um forsjá sona þeirra varnaraðila einkum þeim rökum að umgengni hennar við eldri drenginn, A, hafi verið tálmað af hálfu varnaraðila. Þá vísar hún til þess að með því að fela henni forsjá beggja drengjanna væru þeir í því umhverfi sem þeir þekktu og meiri festa í lífi þeirra.
Tekin var skýrsla af varnaraðila fyrir dóminum. Hann sagði svo frá að hann hefði farið með A til móður sinnar í tvo til þrjá daga, eftir rifrildi við sóknaraðila í apríl sl. Kvað hann sóknaraðila hafa komið þangað í tvígang og ætlað að taka drenginn með sér, hafi hann viljað leyfa henni að hitta drenginn en ekki fara með hann. Vegna þess að hún hafi verið æst og reynt að rífa drenginn af þeim hafi varnaraðili farið með hann í sumarbústað í eina viku. Varnaraðili kvað A ekki hafa farið á leikskóla síðan þetta var. Kom fram hjá varnaraðila að hann hafi ekki farið með A á leikskóla af ótta við það að móðir drengsins myndi ná í hann þar. Kvað varnaraðili A hafa verið hjá dagmömmu í Kópavogi síðustu viku, sem héti D, en fram að því hafi varnaraðili verið frá vinnu að mestu, til að geta verið með drengnum á daginn. Þá kvaðst varnaraðili hafa fengið íbúð á leigu í [...] fyrir þremur til fjórum vikum, en kvaðst ekki vilja gefa upp heimilisfangið.
Varnaraðili styður kröfu sína um forsjá meðan máli aðila er ráðið til lykta einkum við það að vegna skapofsa móður drengjanna og hættu á að hún fari með þá til Úkraínu sé ekki ráðlegt að hún hafi forræði þeirra.
Til stuðnings staðhæfingum sínum um skapofsa sóknaraðila hefur varnaraðili lagt fram bréf C þar sem fram kemur að C hafi séð er sóknaraðili var stödd í verslun C að hún hafi verið ströng við syni sína og löðrungað eldri strákinn. Sóknaraðili kveður ekki rétt að hún hefði lagt hendur á son sinn, svo sem haldið hefur verið fram af hálfu varnaraðila, og kannast ekki við staðhæfingar varnaraðila um skapofsa. Þá hafa verið lögð fram gögn frá vinnuveitendum sóknaraðila, samstarfsfélögum og kennurum við Háskóla Íslands, sem þykja styðja mál hennar. Einhliða fullyrðingar varnaraðila og fyrrnefnt óstaðfest bréf, þykja ekki leiða líkur að því að sóknaraðili eigi við skapbresti að stríða þannig að áhrif geti haft á ákvörðun um forsjá til bráðabirgða.
Sóknaraðili hefur höfðað mál fyrir dóminum til að fá forsjá beggja barna sinna og er málinu ólokið. Bauðst hún til að afhenda vegabréf A og B meðan á málinu stæði. Þá hefur varnaraðili krafist þess að úrskurðað verði að ekki megi að óloknu forræðismálinu fara með börnin úr landi.
Í máli þessu hefur ágreiningur foreldranna leitt til þess að samstarf um umönnun þeirra hefur ekki verið gott. Lögð hafa verið fram bréf frá leikskólanum [...] til Barnaverndar Reykjavíkur sem send voru í tilefni af kvörtun föður drengjanna til nefndarinnar 18. maí sl. Í bréfunum kemur fram að drengirnir virðist hafa orðið fyrir sorg og skynji að líkindum höfnun vegna brotthvarfs bróður og annars foreldris.
NIÐURSTAÐA
Engin könnun hefur farið fram á hæfni aðila til að fara með forsjána. Við ákvörðun um forsjá barnanna þar til forsjárdeilu foreldra þeirra verður ráðið til lykta verður að líta til þess hvernig unnt sé að skapa festu um forsjána meðan könnun og frekari gagnaöflun fer fram. Mikilvægt er að sem minnst röskun verði á högum barnanna og dvalarstað. Þá er mikilvægt að drengirnir njóti umgengni við báða foreldra og samvista hvor við annan, eftir því sem unnt er. Þykir samkvæmt þessu verða að líta til þess að varnaraðili hefur tálmað umgengni eldri sonarins við móður, en sóknaraðili mun ekki hafa hitt eldri son sinn síðan í apríl. Þá hefur drengurinn verið tekinn úr leikskóla þar sem hann hafði áður gengið og feðgarnir flutt í sumarbústað, næst til móður varnaraðila, og loks í íbúð sem varnaraðili kveðst hafa fengið á leigu. Þykir eins og hér stendur á virðast sem meiri festa og reglusemi fælist í því að drengirnir héldu áfram leikskólagöngu sinni, á þeim leikskóla sem þeir voru báðir fram að samvistarslitum foreldra, og byggju jafnframt á sínu gamla heimili, ásamt móður sinni, og ömmu sem upplýst er að búi hjá sóknaraðila. Vegna deilu aðilanna þykir varlegast að fela móðurinni einni forsjá drengjanna þar til dómur gengur í forsjármálinu.
Við ákvörðun um umgengni til bráðabirgða verður litið til þess að mikilvægt er að börnin njóti umgengni og haldi góðum tengslum við báða foreldra sína. Verður umgengni varnaraðila við börnin ákveðin þannig að hann hafi umgengni við þau aðra hverja helgi. Skuli hann sækja börnin á leikskóla í lok skóladags á miðvikudegi og skila þeim aftur þangað við upphaf skóladags á mánudegi.
Kröfu varnaraðila um að kveðið verði á um að ekki megi að óloknu máli fara með börnin úr landi hefur ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila, og verður hún tekin til greina eins og hún er fram sett, sbr. 4. mgr. 35. gr. barnalaga nr.
Ákvörðun málskostnaðar bíður dóms í forsjármáli aðila.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Sóknaraðili, K, skal fara með forsjá barna sinna og varnaraðila, M, til bráðabirgða.
Varnaraðili skal hafa umgengni við börnin aðra hverja helgi. Hann skal sækja börnin á leikskóla í loks skóladags á miðvikudegi og skila þeim aftur þangað við upphaf skóladags á mánudegi. Skal umgengni hefjast miðvikudaginn 11. júlí.
Aðilum er óheimilt að fara með börnin úr landi meðan forsjármálið er til meðferðar fyrir dómi.
Ákvörðun málskostnaðar bíður dóms í forsjármáli aðila.