Hæstiréttur íslands
Mál nr. 376/2010
Lykilorð
- Aflaheimild
- Lausafjármunir
- Tómlæti
- Ógilding samnings
|
Fimmtudaginn 27. janúar 2011. |
|
|
Nr. 376/2010. |
Þórsberg ehf. (Björn L. Bergsson hrl.) gegn Kvóta- og skipasölunni ehf. (Jónas Þór Jónasson hrl.) |
Aflaheimildir. Lausafjármunir. Tómlæti. Ógilding samnings.
Þ ehf. keypti aflahlutdeild og aflamark vegna fiskveiðiársins 2006/2007 af K ehf., þ. á m. 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju, í mars 2007. Eftir kaupin leitaði Þ ehf. lánafyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka og hlaut hann vilyrði fyrir greiðslu að undanskildu kaupverði aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju. K ehf. höfðaði mál þetta gegn Þ ehf. og krafði hann um greiðslu kaupverðs vegna aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju, gegn afhendingu hennar. Hæstiréttur féllst ekki á með Þ ehf. að krafa K ehf. væri fallin niður fyrir tómlæti hans. Þá taldi rétturinn ósannað að Þ ehf. hefði gert K ehf. ljóst við kaupin að þau væru háð fyrirvara um fjármögnun. Þá hefði Þ ehf. ekki leitast við að sanna að kaupverð aflahlutdeildarinnar hefði vikið svo frá gangverði að ósanngjarnt gæti talist. Var krafa K ehf. því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að höfuðstóll hennar beri fyrst dráttarvexti frá dómsuppsögu og málskostnaður falli niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms en þó þannig að áfrýjanda verði gert að greiða sér 42.258.944 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 73.442.470 krónum frá 1. maí 2007 til 31. ágúst sama ár, af 67.840.130 krónum frá 1. september sama ár til 31. ágúst 2008, af 61.356.160 krónum frá 1. september sama ár til 31. ágúst 2009, af 51.677.584 krónum frá 1. september sama ár til 31. ágúst 2010, en af 42.258.944 krónum frá 1. september 2010 til greiðsludags, gegn afhendingu 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Fyrirsvarsmaður stefnda samþykkti sölutilboð stefnda 5. mars 2007 um kaup á aflahlutdeild og aflamarki vegna fiskveiðiársins 2006/2007 sem stefndi hafði í umsýslusölu fyrir ónafngreindan seljanda, sem síðar reyndist vera Skarfaklettur ehf. Um var að ræða nánar tiltekna aflahlutdeild í þorski og skötusel ásamt aflamarki í þorski, en að auki 25% aflahlutdeild í svonefndri Skagafjarðarrækju. Kaupverðið var 215.976.576 krónur, sem greiðast áttu á tiltekinn bankareikning stefnda „þegar færsla er tilbúin til flutnings til Fiskistofu.“
Áfrýjandi kveðst eftir samþykki tilboðsins hafa leitað lánafyrirgreiðslu vegna kaupanna hjá viðskiptabanka, en erindi hans hafi verið hafnað að því leyti sem það varðaði kaupverð aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju. Í framhaldi af því virðist áfrýjandi hafa greitt til stefnda 19. og 23. mars 2007 kaupverð annarra veiðiheimilda en þeirra, sem tengdust Skagafjarðarrækju, en það nam 84.884.940 krónum. Aðrar veiðiheimildir, sem samningurinn frá 5. mars 2007 tók til, hafa verið framseldar áfrýjanda og eru kaupin á þeim ekki til umfjöllunar í málinu. Stefndi leitar á hinn bóginn dóms um skyldu áfrýjanda til að inna af hendi kaupverð aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju að teknu tilliti til afsláttar sem áfrýjanda var boðinn af því verði áður en mál þetta var höfðað, en að auki hefur stefndi lækkað kröfu sína sem svarar verðmæti aflamarks, sem hann kveður hafa verið úthlutað árlega í skjóli þeirrar aflahlutdeildar, nú síðast á yfirstandandi fiskveiðiári eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms.
II
Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að stefndi hafi sýnt af sér tómlæti við að halda fram kröfu sinni.
Upplýst er að málsaðilar og fyrirsvarsmaður Skarfakletts ehf. héldu fund 25. maí 2007 til þess að reyna að leysa ágreining þeirra. Á fundinum kom fram að fyrirsvarsmaður Skarfakletts ehf. vildi ekki gefa áfrýjanda afslátt og að krafist yrði efnda á samningnum samkvæmt efni hans. Skarfaklettur ehf. höfðaði mál með stefnu 27. júní 2007 til efnda á framangreindum kaupsamningi á hendur áfrýjanda. Með dómi Hæstaréttar frá 5. mars 2009 í máli nr. 392/2008 var áfrýjandi sýknaður vegna aðildarskorts þar sem stefndi hefði komið fram sem umsýslumaður við sölu veiðiheimildanna. Höfðaði þá stefndi mál þetta með stefnu 16. mars 2009. Samkvæmt framansögðu var áfrýjandi grandsamur um það eftir fundinn 25. maí 2007 að efnda yrði krafist samkvæmt samningi aðila 5. mars 2007 og var því fylgt eftir með málsókn. Stefndi höfðaði síðan mál á hendur áfrýjanda án tafa eftir að fyrir lá með dómi Hæstaréttar að hann væri einn bær um að halda kröfunni til laga. Að þessu athuguðu verður ekki fallist á með áfrýjanda að krafa stefnda sé fallin niður fyrir tómlæti hans.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá málsástæðu sem hann hélt fram í héraði á grundvelli 3. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.
Ósannað er að áfrýjandi hafi gert stefnda ljóst við samþykki tilboðsins að það væri háð fyrirvara um fjármögnun kaupanna. Þá hefur áfrýjandi ekki leitast við að sanna að kaupverð aflahlutdeildarinnar í Skagafjarðarrækju hafi vikið svo frá gangverði að ósanngjarnt gæti talist. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður niðurstaða hans staðfest svo sem í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Þórsberg ehf., greiði stefnda, Kvóta- og skipasölunni ehf., 42.258.944 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 73.442.470 krónum frá 1. maí 2007 til 31. ágúst sama ár, af 67.840.130 krónum frá 1. september sama ár til 31. ágúst 2008, af 61.356.160 krónum frá 1. september sama ár til 31. ágúst 2009, af 51.677.584 krónum frá 1. september sama ár til 31. ágúst 2010, en af 42.258.944 krónum frá 1. september 2010 til greiðsludags, gegn afhendingu 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms skal vera óröskuð.
Áfrýjandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2010.
Mál þetta var tekið til dóms 5. mars sl.
Stefnandi er Kvóta- og skipasalan ehf., Fjarðargötu 11, Hafnarfirði.
Stefndi er Þórsberg ehf., Strandgötu 25, Tálknafirði.
Í þinghaldi 5. mars sl., var gerð breyting á dómkröfum stefnanda, sem eru eftir breytingu þessar:
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi, Þórsberg ehf., kt. 690875-0129, verði dæmdur til að greiða stefnanda 51.677.584 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 73.442.470 krónum frá 1. maí 2007 til 31. ágúst 2007, af 67.840.130 krónum frá 1. september 2007 til 31. ágúst 2008, af 61.356.160 krónum frá 1. september 2008 til 31. ágúst 2009 og af 51.677.584 krónum frá 1. september 2009 til greiðsludags gegn afhendingu 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju.
Krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda.
Í aðalkröfu er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991.
Til vara krefst stefndi lækkunar á aðalkröfu og þá er gerð krafa um að vextir reiknist ekki á dómkröfu stefnanda fyrr en frá dómsuppsögu, með vísan til 2. ml. 7. gr. laga nr. 38/2001. Í varakröfu er þess krafist að hvor málsaðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsatvik
Mál þetta snýst um sölutilboð sem undirritað er af Kvóta- og skipasölunni ehf., og fyrirsvarsmanni stefnda, Guðjóni Indriðasyni, dagsett 5. mars 2007. Um er að ræða sölutilboð um aflahlutdeild og aflamark vegna fiskveiðiársins 2006/2007, sem stefnandi hafði í umsýslusölu fyrir eiganda aflaheimildanna, Skarfaklett ehf. Um var að ræða blöndu af aflaheimildum, nánar tiltekið aflahlutdeild í þorski 0.0150367%, úthlutað magn 23.256 og óveitt aflamark 129.696, skötusel 0.9740321%, úthlutað magn 26.322, Skagafjarðarrækju 25% hlutdeild í úthlutun, þorski (bætur), úthlutað magn 35.252, ýsu (bætur) úthlutað magn 19.265, ufsa (bætur), úthlutað magn 15.869, steinbít (bætur), úthlutað magn 2.565. Kaupverðið var 215.975.576 krónur sem greiðast skyldi inn á reikning Kvóta- og skipasölunnar ehf., þegar tilflutningur aflaheimildanna hjá Fiskistofu hefði farið fram.
Aflaheimildir þessar voru fluttar af bátum Skarfakletts ehf., m.s. Arney HU-36 (2102) og ein aflahlutdeild af m.s. Silla SU-152, yfir á bát stefnda, m.s. Kóp BA-175 (1063).
Stefndi greiddi stefnanda, 10.000.000 krónur 19. mars 2007 og síðan aftur 23. mars 2007, 117.058.273 krónur, eða alls 127.058.273 krónur af kaupverði. Voru þá ógreiddar af kaupverði 88.613.306 krónur, en af þeim áttu 4.033.363 krónur að renna til stefnanda, Kvóta- og skipasölunnar ehf. í söluþóknun. Fyrirsvarsmaður stefnda kvaðst fyrir dómi hafa leitað eftir lánafyrirgreiðslu vegna kaupanna hjá viðskiptabanka sínum, en þar hafi verið hafnað erindi hans, að því leyti er varðaði kaupverð veiðiheimilda í tengslum við Skagafjarðarrækju.
Viðskiptabanki stefnda, Landsbanki Íslands, sendi tölvuskeyti til stefnanda 13. apríl 2007 og ítrekaði að enn væru ógreiddar 88.613.306 krónur af kaupverðinu. Fiskistofa staðfesti flutning 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju 16. apríl 2007, en flutning á öðrum aflahlutdeildum hafði Fiskistofa staðfest áður. Stefndi sendi bréf til Fiskistofu 18. apríl 2007, þar sem hann tilkynnti að flutningur aflaheimilda vegna Skagafjarðarrækju hefði farið fram án vitneskju fyrirsvarsmanns stefnda. Var í bréfinu farið fram á, af hálfu stefnda að aflahlutdeildarfærslan yrði bakfærð án tafar.
Með bréfi Fiskistofu 22. maí 2007 var Skarfakletti ehf. tilkynnt um kröfu stefnda um bakfærslu á aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju og gefinn frestur til 1. júní 2007 til að gera athugasemdir við það. Mótmælti lögmaður stefnanda ofangreindri bakfærslu, eins og fram kemur í ódagsettu, framlögðu bréfi lögmanns hans. Fiskistofa tók ákvörðun um að afturkalla tilflutning af framangreindri Skagafjarðarrækju frá Arney HU-36 til Kóps BA-175 og var aflahlutdeildin færð að nýju á Arney HU-36. Bakfærslan fór fram 1. júní 2007.
Dómur í máli Skarfakletts ehf. gegn stefnda var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. maí 2008, en í því máli var tekist á um hliðstæðan ágreining og uppi er hafður í þessu máli.
Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar sem sýknaði stefnda af kröfu Skarfakletts ehf. á grundvelli aðildarskorts. Málið var þá höfðað að nýju af hálfu Kvóta- og skipasölunnar, sem umsýslumanns.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2009 var hafnað kröfu stefnda um að dómari í málinu viki sæti, en þess hafði verið krafist á þeim grundvelli að dómari hefði þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna sem ætla mætti að niðurstaða hans í hinu nýja máli yrði byggð á. Með dómi Hæstaréttar 23. október 2009 var úrskurður héraðsdóms staðfestur.
Stefnandi lagði fram við upphaf aðalmeðferðar breytta kröfugerð, þar sem tekið hafði verið tillit til samtals leiguverðmætis vegna 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju fiskveiðiárin 2007, 2008 og 2009, samtals 21.764.886 krónur.
Ágreiningur málsins lýtur að skyldu stefnda til að inna af hendi kaupverð veiðiheimilda sem tengjast Skagafjarðarrækju.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur fyrirsvarsmaður stefnanda, Árni Sigurður Guðmundsson, fyrirsvarsmaður stefnda, Guðjón Indriðason og vitnið Theodór Kristinn Erlingsson.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður að hann hafi sem umsýslumaður boðið fram og selt stefnda aflaheimildir af bátum umsýsluveitanda, Skarfakletts ehf., þ.e. af bátunum ms. Arney HU-36 (2102), þ.m.t. 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju og mb. Sillu SU-152 (7023), sem Fiskistofa hafi síðan yfirfært á skip stefnda, Kóp BA-175.
Hvað Skagafjarðarrækjuna snerti, liggi fyrir í málinu og sé óumdeilt, að Skagafjarðarrækju hafi ekki verið úthlutað síðustu ár vegna slæms ástands rækjustofnsins. Þess í stað hafi verið úthlutað aflahlutdeildarbótum í bolfiski, þ.e. þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Hafi sú úthlutun eðlilega verið breytileg á milli ára og háð ákvörðun um heildaraflaúthlutun á bolfiski á hverju kvótaári á sama hátt og gildi almennt vegna úthlutunar aflaheimilda. Sala á Skagafjarðarrækjunni svonefndri hafi því í raun verið sala á aflahlutdeild í hefðbundnum bolfisktegundum í formi aflabóta og háð markaðsverði á hverjum tíma á þeim bolfisktegundum.
Skarfaklettur ehf. sem umsýsluveitandi hafi falið stefnanda, umsýslumanni, að bjóða til sölu á fastákveðnu verði, aflaheimildirnar, ,,pakkann“ samtals á 215.976.576 krónur, sem stefnandi hafi sem umsýsluaðili verið bundinn af. Hann hafi boðið stefnda þær, sem samþykkt hafi að kaupa, án nokkurra fyrirvara um bankafyrirgreiðslu eða annarra fyrirvara. Stefndi hafi síðan greitt allar aflaheimildirnar, nema andvirði aflahlutdeildarinnar í Skagafjarðarrækju, að fjárhæð 84.884.940 krónur, sem Skarfaklettur ehf. hafi síðan lækkað í 73.442.470, sem var upphafleg stefnufjárhæð máls þessa og kom til vegna þess að Skarfakletti ehf. nýttist sjálfum aflamarkið vegna viðtökudráttar stefnda. Stefnandi hefur svo lækkað stefnufjárhæð í51.677.584 krónur, en sú lækkun byggi á varakröfu stefnda.
Stefnandi kveður að fyrir liggi að kominn hafi verið á bindandi samningur milli aðila, þ.e. samþykkt sölutilboð um kaup á öllum aflaheimildum þ.m.t. 25% í Skagafjarðarrækju, sem forvígismaður stefnda, Guðjón Indriðason hafi skrifað undir fyrir hönd stefnda, án nokkurs fyrirvara og skilyrða.
Þá liggi fyrir að andvirði aflaheimildanna hafi verið greitt, nema andvirði Skagafjarðarrækjunnar. Við þann hluta kaupanna vilji stefndi ekki standa, þar sem hann telji sig m.a. hafa keypt þann hluta ,,pakkans“ of dýru verði og komið því til leiðar að Fiskistofa hafi bakfært millifærsluna á Skagafjarðarrækjunni. Hafi það verið gert á grundvelli þeirra ósanninda stefnda, að yfirfærslan hafi orðið gegn vitund og vilja stefnda, þótt fyrir liggi að forvígismaður stefnda hafi sjálfur skrifað undir kaupin á aflaheimildunum í viðurvist forsvarsmanns stefnanda, umsýslumanns. Ekki hafi enn fengist skýring á því hjá stefnda hvers vegna samningur vegna kaupa á hinum aflaheimildunum sé þá ekki einnig gerður gegn vitund og vilja stefnda. Megi ætla að stefnda hafi fundist það verð ásættanlegt þar sem bankafyrirgreiðsla hafi fengist fyrir þeim. Því hafi sá hluti kaupanna að mati stefnda verið gerður með vitund og vilja hans, en ekki kaupin á Skagafjarðarrækjunni, sem stefndi hafi þó verið tilbúinn að greiða 60.000.000 króna fyrir.
Þrátt fyrir að lögmaður Skarfakletts ehf. hafi bent Fiskistofu á þessi ósannindi og lagt áherslu á það að einhliða yfirlýsing annars aðilans í viðskiptum rifti ekki tvíhliða löggerningi um kaup, hafi Fiskistofa ekki sinn því og bakfært aflahlutdeildarfærsluna í Skagafjarðarrækjunni, í stað þess að hafa ekki afskipti af málinu meðan aðilar deildu fyrir dómi um þessi viðskipti.
Stefnandi byggir má1 sitt á þeirri meginreglu samningaréttar, að samninga skuli halda, ,,pacta sunt servanda“ Einnig byggir stefnandi á þeirri reglu, sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. kaupalaga nr. 50/2000 þess efnis, að seljandi geti haldið fast við kaup og krafið kaupandann um greiðslu alls kaupverðsins, sem stefnandi og geri.
Þá bendir stefnandi á að stefndi geti ekki rift lögmætum kaupum, þótt hann telji að hluti þeirra hafi verið of dýru verði keyptur og seljandi hlutarins vilji ekki gefa honum afslátt af kaupverði. Fái slíkur skilningur ekki staðist, þ.e. að samninga þurfi ekki að halda.
Af hálfu stefnda hafi kaupin á aflaheimildunum ekki verið bundin neinum fyrirvara eða skilyrðum. Þá hafi forvígismaður stefnda verið þrautreyndur útgerðarmaður og hafði oft áður átt í viðskiptum með aflaheimildir. Hafi því verið jafnræði með aðilum. Við gerð kaupsamnings um aflaheimildir hafi báðir aðilar tekið áhættu vegna þeirrar þróunar mála, sem verða kynni varðandi verðlagningu aflaheimilda. Eftir að kaupin hafi átt sér stað hafi verð á aflaheimildum hækkað á öðrum tegundum en á Skagafjarðarrækjunni. Hafi stefndi notið góðs af þeim hækkunum. Almennt sanngirnismat dugi ekki til riftunar hluta kaupa stefnda á aflaheimildunum. Telji stefndi sig hafa keypt aflahlutdeildina í Skagafjarðarrækjunni of háu verði, verði kaupunum ekki rift af þeim ástæðum, frekar en í öllum þeim tilvikum öðrum, þegar slíkt kunni að eiga sér stað.
Stefnandi mótmælir harðlega öllum framkomnum fullyrðingum lögmanns stefnda, að stefnandi hafi beitt stefnda blekkingum í þessum umsýsluviðskiptum hans við stefnda. Jafnframt mótmæli stefnandi því sem alröngu að hann hafi leynt forvígismann stefnda upplýsingum eða brugðist einhverjum upplýsingaskyldum gagnvart honum. Leggi stefnandi áherslu á, að það leysi stefnda ekki undan ábyrgð, að hann hafi ekki sjálfur hirt um að kynna sér verðlagninguna á aflaheimildunum eða vera áður búinn að tryggja sér bankafyrirgreiðslu eða setja fyrirvara um það, áður en hann undirritaði sölutilboð. Stefndi beri sjálfur hallann af þessu. Stefndi hafi gert skuldbindandi samning við stefnanda vegna Skarfakletts ehf. Við þennan samning sé stefndi bundinn. Skylda stefnanda, sem umsýsluaðila, hafi verið að bjóða til sölu og selja ,,pakkann“ á því verði sem umsýsluveitandi, Skarfaklettur ehf. hafi viljað fá.
Þá bendir stefnandi á að meginröksemdafærsla stefnda hafi í hinu fyrra máli verið að Skarfaklettur ehf., eigandi hins selda, hafi ekki sjálfur mátt krefjast efnda á samningi aðila, heldur stefnandi sem umsýslumaður. Þrátt fyrir það hafi stefndi enga tilraun gert til þess að greiða andvirði Skagafjarðarrækjunnar beint til stefnanda, umsýslumanns, eða láta geymslugreiða þá fjárhæð, meðan leyst væri úr ágreiningi aðila um kaupin. Sýni þetta berlega að stefndi hafi aldrei ætlað sér að standa við kaupin á Skagafjarðarrækjunni.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða kaupalaga nr. 50/2000, einkum 1. mgr. 52. gr., samningalaga nr. 7/1936 og þeirrar grundvallarreglu samningaréttar, að samninga skuli halda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi bendir á að samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 5. mars 2009, sé stefnandi ekki umboðsmaður við undirritun stefnanda á sölutilboð, heldur hafi hann verið í stöðu umsýslumanns. Stefndi sé því ekki bundinn af undirritun á sölutilboð 5. mars 2007 gagnvart öðrum en mögulega stefnanda sem umsýslumanni.
Af málsatvikalýsingu stefnanda megi ráða að stefnanda hafi verið ljóst 23. mars 2007, þegar stefndi greiddi ekki þann hluta kaupverðs er nam sömu fjárhæð og verðmæti 25% Skagafjarðarrækju, að stefndi ætlaði ekki að greiða söluverð 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækjunni. Þá hafi forsvarsmaður stefnda verið í sambandi við forsvarsmann stefnanda á sama tíma, þar sem afstaða stefnda hafi komið fram. Þrátt fyrir vitneskju stefnanda krefji stefnandi stefnda ekki um efndir, fyrr en með stefnu, dagsettri 17. mars 2009, rétt tveimur árum eftir að afstaða stefnda liggi fyrir.Gagnvart stefnda sé stefnandi seljandi, samkvæmt beinum texta sölutilboðsins, auk þess sem Hæstiréttur staðfesti þá skoðun stefnda.
Málarekstur umsýsluveitanda stefnanda gegn stefnda, sem lokið hafi verið með ofangreindum dómi Hæstaréttar, breyti ekki skyldu stefnanda sem seljanda, sem lögfest sé í 3. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000.
Hluti veiðiheimilda hafi verið afhentur stefnda og hafi verið greitt fyrir þann hluta að fullu. Hluta veiðiheimilda hafi stefnandi ekki getað afhent stefnda, vegna mótbáru stefnda, sem hafi verið stefnanda ljós, eða mátt vera honum ljós með ákvörðun Fiskistofu 31. maí 2007. Bið stefnanda á framsetningu á kröfu í tvö ár, frá 23. mars 2007 til útgáfu stefnu 17. mars 2009, sé óhæfileg og hafi stefnandi glatað rétti sínum til þess að krefjast efnda.
Stefnanda megi vera ljóst að stefndi hafi verulega hagsmuni af því að stefnandi fylgdi eftir rétti sínum, þar sem stefndi hafi ekki umráð aflahlutdeildar að eigin ósk frá 31. maí 2007. Ákvæði 3. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 tryggi rétt kaupanda er ekki hafi fengið efndir með afhendingu eða kröfu um afhendingu í óhæfilegan tíma. Ef stefnandi hefði fylgt kröfu eftir hefði legið fyrir niðurstaða nú þegar, en með tómlæti stefnanda liggi ekki fyrir endanleg niðurstaða um kröfu stefnanda. Stefndi byggi einnig kröfu um sýknu á almennum ólögfestum reglum um tómlæti.
Stefndi bendir á að söluumboð frá Skarfakletti ehf. til stefnanda sé dagsett 5. mars 2007. Samkvæmt 4. gr. samrunaáætlunar, hafi réttindum og skyldum félagsins Skarfakletts ehf., verið lokið 31. desember 2006. Söluumboð frá félagi sem dagsett sé 5. mars 2007, þar sem ljóst sé að félagið hafi engin réttindi eða skyldur frá og með 31. desember 2006, sé ógilt að mati stefnda og kveður stefndi að stefnandi geti ekki byggt rétt á söluumboði þessu sem umsýslusamningi í málarekstri gegn stefnda. Sama eigi við um efni sölutilboðs er tilgreini stefnanda sem eiganda aflahlutdeilda og aflamarks, þar á meðal 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju. Ekkert liggi fyrir í gögnum stefnanda um eignarrétt stefnanda á þessari aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju.
Þá byggi stefndi aðalkröfu um sýknu einnig að því að stefnanda sé ómögulegt að efna efndaskyldu. Stefnandi eigi ekki 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju. Slík aflahlutdeild sé ekki, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu, skráð á bát í eigu eða umráðum stefnanda.
Stefndi gerir kröfu til þess að þeim hluta samþykkts sölutilboðs sem varði sölu og afhendingu á aflahlutdeild á Skagafjarðarrækju gegn greiðslu stefnda á 84.884.940 krónum verði vikið að fullu til hliðar og vísar stefndi til III. kafla laga nr. 7/1936, aðallega 30 og 36. gr. III. kafla laganna, því til stuðnings.
Stefndi bendir á að starfsmaður stefnanda hafi útbúið afsal 23. febrúar 2007, þar sem allir hlutir í einkahlutfélaginu Mánarnir ehf. voru seldir Skarfakletti hef. Samkvæmt 2. gr. þess samnings voru einu eignir Mána ehf., Skagafjarðarrækja og aflamark í þorski 35.114 kg. Kaupverð Skagafjarðarrækjunnar var 23. febrúar 2007, 56.225.152 krónur. Veiðiheimildir sem stefnda voru boðnar til sölu, með sölutilboð 5. mars 2007 voru metnar á 215.976.576 krónur, þar af var Skagafjarðarrækjan metin á 84.884.940 krónur. Stefnandi, og eða Skarfaklettur ehf. hækkuðu því verð Skagafjarðarrækjunnar úr 56.225.152 krónum í 84.884.940 krónur og nam hækkunin því 28.659.788 krónum á tímabilinu frá 23. febrúar 2007 til 5. mars 2007.
Stefndi bendir á að stefnanda hafi verið ljóst að hann leitaði eftir leigu á aflamarki í þorski. Söluverð aflahlutdeilda í algengum fisktegundum og leiguverð aflamarks, algengra kvótabundinna fisktegunda, sé verð, sem mótist á markaði vegna umtalsverðra viðskipta. Fyrirtæki sem annast hafi þessi viðskipti hafi haldið skrá um markaðsverð, auk þess sem Fiskistofa fylgdist með og birt á heimasíðu Fiskistofu leiguverð fisktegunda. Bætur vegna skerðingar á leyfilegum heildarafla innfjarðarrækju í Skagafirði, séu framseljanleg réttindi. Þar sem réttindin séu framseljanleg séu þau metin til peninga við eigendaskipti. Hin vegar séu viðskipti með Skagafjarðarrækju ekki skráð á kvótamarkaði og framsal réttinda séu fátíð. Viðskipti með aflahlutdeild í fisktegund sem ekki er veidd vegna banns við veiðum, eins og Skagafjarðarrækju, séu mjög fátíð, auk þess sem mikil óvissa sé með úthlutun bóta, vegna skerðingar á veiðirétti. Aðili sem taki að sér hlutverk miðlara, í þessu tilviki sölu veiðiheimilda, viti eða eigi að vita að forsenda stefnda hafi verið möguleg fjármögnun kaupanna. Grandsemi stefnanda hafi verið sérstaklega mikil í þessum viðskiptum þar sem stefnanda var eða átti að vera ljóst að mjög ólíklegt var að stefndi fengi lán til kaupa á jafn ótryggum veiðiheimildum og aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju sé. Stefndi geri þá kröfu að stefnandi gæti hagsmuna kaupanda jafnt og seljanda.
Til stuðnings varakröfu sinni bendir stefndi á að stefnandi og eða Skarfaklettur ehf. hafi hækkað verð Skagafjarðarrækju úr 56.225.152 krónum í 84.884.940 krónur á tímabilinu 23. febrúar 2007 til 5. mars 2007.
Stefnandi hafi sem milligöngumaður annast viðskipti 23. febrúar 2007, auk þess sem stefnanda hafi verið ljóst að stefndi leitaði eftir leigu á aflamarki í þorski. Þá komi fram í stefnu að stefnandi hafi þegið 4.033.363 í söluþóknun.
Stefndi vísi, líkt og í aðalkröfu til laga nr. 99/2004, einkum til leiðbeinandi ákvæða 14. og 15. gr. laganna, sbr. einnig 8. gr. reglugerðar nr. 939/2004. Þá vísar stefndi til 248. gr. laga nr. 19/1940.
Stefndi krefst þess að krafa stefnanda verði lækkuð með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 og er þá stuðst við kaupverð er stefnandi hafði milligöngu um 23. febrúar 2007, þóknunar stefnanda og til þess að stefnandi gætir ekki hagsmuna stefnda, sem leitt hafi til þessa kostnaðarsama máls, svo og málarekstrar sem leitt hafi til niðurstöðu með dómi Hæstaréttar 5. mars 2009.
Auk lækkunar kaupverðs með vísan til heimildar í 36. gr. laga nr. 7/1936, krefjist stefndi í varakröfu frekari lækkunar á dómkröfu stefnanda, með vísan til þeirrar staðreyndar að stefnandi sé sjálfstæður samningsaðili gagnvart stefnda. Stefnandi beri þá skyldu gagnvart stefnda að takmarka tjón sitt. Umsýsluveitandi stefnanda beri þá sömu skyldu gagnvart stefnanda. Umsýsluveitandi stefnanda hafði eða átti að hafa umtalsverðar tekjur af aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju frá 31. maí 2007, þegar aflahlutdeild var skilað til umsýslumanns stefnanda, til þess dags er endanlegur dómur liggi fyrir um dómkröfur stefnanda.
Umsýsluveitandi stefnanda hafi fengið aflamarki úthlutað vegna umráða yfir aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju, sbr. til dæmis reglugerðir 718/2007 og 740/2008. Öðrum réttindum eða verðmetanlegum gæðum verði væntanlega úthlutað vegna aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju á árinu 2009 og áfram, sem umsýslumaður stefnanda hafi beinar tekjur af, eða fyrir framsal. Stefndi skori á stefnanda að upplýsa um allar tekjur er umsýslumaður stefnanda haf haft af aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju frá 31. maí 2007. Gera megi ráð fyrir tekjum af 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju, allt að þrettán milljónum en þá séu ekki taldar vaxtatekjur af þeirri fjárhæð.
Niðurstaða
Með dómi Hæstaréttar frá 5. mars 2009 var því slegið föstu að stefnandi máls þessa, Kvóta- og skipasalan ehf., hafi verið í stöðu umsýslumanns í viðskiptum stefnda og Skarfakletts ehf. um veiðiheimildir þær sem mál þetta er sprottið af. Sá dómur fjallar um sömu atvik og deilt er um í máli þessu, en stefndi var sýknaður vegna aðildarskorts, þar sem stefndi þótti hafa bakað sér skuldbindingu við Kvóta-og skipasöluna ehf., stefnanda í þessu máli, en ekki gagnvart Skarfakletti ehf., sem var stefnandi hins fyrra máls.
Í málinu er einvörðungu deilt um það hvort stefnda beri að inna af hendi kaupverð veiðiheimilda sem tengjast Skagafjarðarrækju. Stefnandi hefur lækkað kröfur sínar frá upphaflegri kröfugerð og tekið tillit til verðmætis aflamarks uppbóta vegna 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju fiskveiðiárin 2007, 2008 og 2009.
Stefndi hefur krafist sýknu á þeim grundvelli að stefnandi hafi dregið það of lengi að setja fram kröfu sína og því glatað rétti til að krefjast þess, sbr.3. mgr 52. gr. laga nr. 50/2000. Eins og að framan greinir féll dómur í Hæstarétti 5. mars 2009, þar sem tekist var á um sömu ágreiningsefni og í máli þessu. Aðeins nokkrum dögum eftir að sú niðurstaða lá fyrir, eða 17. mars 2009, þingfesti stefnandi mál þetta. Verður því ekki talið að stefnda hafi ekki verið ljóst að stefnandi hygðist krefjast efnda kröfu sinnar og fellst dómurinn ekki á að 3. mgr. 52. gr. laga nr. 50/200 eigi við um stefnanda. Með sömu rökum er ekki heldur fallist á að stefnandi hafi glatað kröfu sinni á hendur stefnda fyrir tómlæti.
Þá hefur stefndi krafist sýknu á þeim grundvelli að ekkert liggi fyrir í gögnum málsins um eignarrétt stefnanda að aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju og vísar í því efni til sölutilboðs frá 5. mars 2007, er tilgreinir stefnanda sem eiganda aflahlutdeilda og aflamarks. Fyrir liggur að Skarfaklettur ehf. var eigandi þeirra veiðiheimilda sem sölutilboðið tók til. Sölutilboð þetta hljóðar á um tilboð í blöndu af veiðiheimildum þar á meðal 25% aflahlutdeild í svonefndri Skagafjarðarrækju. Fyrir liggur að við tilboðið var staðið og stefndi greiddi stefnanda fyrir andvirði allra þeirra aflaheimilda sem tilboðið kvað á um, nema fyrir þann hluta er laut að svonefndri Skagafjarðarrækju. Stefndi getur því ekki borið fyrir sig nú að stefnanda sé ómögulegt að efna efndaskyldu og ekkert hefur komið fram í málinu til sönnunar því að stefnanda sé ómögulegt að afhenda stefnda 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju.
Þá hefur stefndi krafist þess að þeim hluta sölutilboðs sem varðar sölu á og afhendingu á aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju gegn greiðslu stefnda á 84.884.940 krónum verði vikið að fullu til hliðar og vísar stefndi í því sambandi til 30. og 36. gr. laga nr. 7/1936.
Til stuðnings kröfu sinni um að samningi aðila verði vikið til hliðar hefur stefndi bent á að stefnandi hafi keypt Skagafjarðarrækju þá sem hann seldi stefnda, aðeins nokkrum dögum fyrr, á mun lægra verði en nam söluverði til stefnda.
Við mat á því hvort samningi verði vikið til hliðar, á grundvelli þess að ósanngjarnt væri að bera hann fyrir sig, er horft til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar koma til, en almennt mat á því hvort samningur teljist ósanngjarn nægir ekki.
Fyrir liggur í málinu að fyrirsvarsmaður stefnda er útgerðarmaður og bar fyrir dómi að hann hefði margoft átt viðskipti við Kvóta- og skipasöluna ehf., um kaup á aflaheimildum. Stefndi keypti blandaðar aflaheimildir og hefur verið á það bent af hálfu stefnanda að verð á aflaheimildum í öðrum tegundum en Skagafjarðarrækju hafi hækkað eftir að kaup gerðust og stefndi notið góðs af því. Hefur stefndi ekki hnekkt þeirri staðhæfingu.
Þegar framangreint er virt er ekkert sem bendir til annars en að fullt jafnræði hafi verið með aðilum við samningsgerð. Þegar samningurinn er virtur í heild sinni hefur heldur ekki verið sýnt fram á að sérstök atvik hafi verið við samningsgerðina, eða síðar til komin atvik, sem réttlætt geti ógildingu hluta samningsins, eða að efni samningsins hafi verið óvenjulegt. Eru því ekki lagaskilyrði til að ógilda þann hluta samnings aðila sem varðar sölu og afhendingu á aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju. Þá verður ekki fram hjá því horft að dómkrafa stefnanda hefur lækkað við meðferð málsins fyrir dómi og fer endanleg dómkrafa hans saman við varakröfu stefnda.
Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfu stefnanda og varakröfu stefnda að þessu leyti og stefndi dæmdur til greiðslu endanlegrar stefnufjárhæðar, auk dráttarvaxta eins og í dómsorði greinir.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði hvor aðila sinn kostnað af málinu.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Þórsberg ehf., greiði stefnanda Kvóta-og skipasölunni ehf.
51.677.584 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 73.442.470 krónum frá 1. maí 2007 til 31. ágúst 2007, af 67.840.130 krónum frá 1. september 2007 til 31. ágúst 2008, af 61.356.160 krónum frá 1. september 2008 til 31. ágúst 2009 og af 51.677.584 krónum frá 1. september 2009 til greiðsludags, gegn afhendingu 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju.
Málskostnaður fellur niður.