Hæstiréttur íslands

Mál nr. 214/2009


Lykilorð

  • Höfundarréttur
  • Aðild
  • Málsóknarumboð
  • Lögbann
  • Skaðabætur


                                                        

Fimmtudaginn 11. febrúar 2010.

Nr. 214/2009.

Istorrent ehf. og

Svavar Lúthersson

(Tómas Jónsson hrl.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

gegn

Sambandi tónskálda og eigenda

flutningsréttar

(Hróbjartur Jónatansson hrl.

Guðrún Björk Bjarnadóttir hdl.)

Höfundarréttur. Aðild. Málsóknarumboð. Lögbann. Skaðabætur.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði 19. nóvember 2007 lögbann við því að I og SL starfræktu vefsíðuna www.torrent.is. S höfðaði mál og krafðist þess meðal annars að lögbannið yrði staðfest með dómi og viðurkennd yrði bótaskylda I og SL gagnvart S. Með dómi héraðsdóms var fallist á þessar kröfur S. I og SL áfrýjuðu dóminum og kröfðust þess aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi eða ómerkingar dómsins, þar sem aðild að málinu væri önnur en að lögbannsgerðinni og ennfremur að ekki kæmi fram í stefnu á hvaða grundvelli viðurkenningarkrafa S væri byggð. Þessum málsástæðum var hafnað, enda væri krafa S um staðfestingu lögbannsins takmörkuð við hljóð- og myndefni, sem hefði að geyma tónlist sem umbjóðendur S ættu höfundarétt að. Þá mátti ljóst vera af stefnu að viðurkenningarkrafa S væri reist á sakarreglunni. I og SL kröfðust til vara sýknu. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna því að aðildarskortur leiddi til þess að sýkna bæri I og SL. Þá var talið að ábyrgðartakmarkanir V. kafla laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu ættu ekki við þegar með þjónustunni væri gagngert stuðlað að því að brotið væri gegn lögvörðum rétti höfunda og listflytjenda samkvæmt höfundalögum. Líta yrði svo á að þeir, sem setja efni sem varið er af höfundarétti á netið þannig að aðrir geti nálgast það, teldust birta það í merkingu höfundalaga og brytu með því gegn einkarétti höfundar og eftir atvikum listflytjenda væri það gert án heimildar. Talið var að I og SL hefðu með starfrækslu vefsvæðisins og tækniuppbyggingu þess komið því til leiðar með markvissari hætti að fram gætu farið greið og umfangsmikil skráarskipti með efni, sem háð væri höfundarétti, og þannig beinlínis stuðlað að brotum notenda vefsvæðisins. Hefðu I og SL því brotið gegn lögvörðum rétti S og lagaskilyrði því verið uppfyllt til að leggja lögbannið á. Var krafa S um staðfestingu þess því tekin til greina. Þá var talið að I og SL hefði verið eða mátt vera ljóst að háttsemi þeirra var ólögmæt og til þess fallin að valda umbjóðendum S tjóni. Þótt tjónið yrði fyrst og fremst rakið til háttsemi notenda vefsvæðisins og hún því aðalorsök tjóns hefði hin saknæma og ólögmæta háttsemi I og SL verið meðorsök þess. Samkvæmt þessu var fallist á að I og SL bæru skaðabótaskyldu gagnvart S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 4. maí 2009. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi eða hinn áfrýjaði dómur ómerktur, en til vara krefjast þeir sýknu. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi varð sýslumaðurinn í Hafnarfirði 19. nóvember 2007 við beiðni stefnda og þriggja annarra samtaka höfundaréttarhafa, Samtaka myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagsins-SÍK og Félags hljómplötuframleiðenda, 1. sama mánaðar um að lagt yrði lögbann við því að áfrýjendur starfræki vefsíðuna www.torrent.is og geri notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundaréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur gerðarbeiðenda væru rétthafar að. Þessi fjögur samtök höfðuðu 30. nóvember 2007 mál til staðfestingar á lögbanninu, viðurkenningar á þeim réttindum, sem það tók til, og greiðslu skaðabóta. Með úrskurði 27. mars 2008 var því máli vísað frá dómi. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar, sem með dómi 8. maí 2008 í máli nr. 194/2008 vísaði kröfum Samtaka myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagsins-SÍK og Félags hljómplötuframleiðenda frá Hæstarétti, en staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um frávísun málsins að því er varðaði stefnda. Stefndi höfðaði í kjölfarið mál þetta með réttarstefnu útgefinni 15. maí 2008. Því var að hluta vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 26. september 2008, en þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar, sem felldi úrskurðinn að hluta úr gildi með dómi 6. nóvember sama ár í máli nr. 559/2008.

Rekstur vefsíðunnar torrent.is, sem mál þetta varðar, mun hafa hafist á árinu 2005. Lén með því heiti var skráð 16. nóvember 2005 og var áfrýjandinn Svavar Lúthersson skráður fyrir því í rétthafaskrá ISNIC, sem mun hafa að geyma upplýsingar um rétthafa allra íslenskra léna, ásamt upplýsingum um tengiliði þeirra. Áfrýjandinn Istorrent ehf. var stofnað í ágúst 2007 af áfrýjandanum Svavari, sem jafnframt var í stjórn félagsins og framkvæmdastjóri þess. Áfrýjendur kveða félagið hafa tekið við rekstri vefsíðunnar í október 2007, en lénið torrent.is var skráð á það í rétthafaskrá ISNIC 16. nóvember 2007, eftir að framangreind lögbannsbeiðni var fram komin en þremur dögum áður en lögbannið var lagt á. Í málinu er þessu vefsvæði lýst þannig að það byggi á svonefndri BitTorrent tækni sem sé aðferð til skráaskipta. Forsenda allra samskipta á svæðinu sé svokallaður leiðarþjónn, sem stjórnendur þess setji upp. Í gegnum vefsíðuna geti notendur síðan með aðstoð leiðarþjónsins náð í svokallaðan leiðarvísi, sem vísi til þess hvernig nálgast megi gagnaskrá sem staðsett sé hjá öðrum notanda. Með aðstoð leiðarþjónsins geti notendur þannig hlaðið niður skrám sem geymdar séu hjá öðrum notendum. Með lögbannsbeiðninni voru lögð fram gögn sem sýna að á vefsvæðinu torrent.is voru geymdar leiðarlýsingar um fjölbreytilegt efni, svo sem tónlist, kvikmyndir, sjónvarpsmyndir og tölvuleiki, en notendur hennar á því tímabili munu hafa verið um 26.000 talsins. Efnið sjálft var hins vegar ekki geymt á vefsvæðinu eða netþjóninum, sem því tengdist, heldur hjá notendum vefsíðunnar. Aðilana greinir ekki á um að tæknilegri uppbyggingu og virkni vefsvæðisins sé rétt lýst í hinum áfrýjaða dómi.

II

Áfrýjendur reisa kröfu sína um að málinu verði vísað frá héraðsdómi í fyrsta lagi á því að aðild að málinu sé önnur en að lögbannsgerðinni 19. nóvember 2007, sem krafist er staðfestingar á, þar sem að henni hafi auk stefnda staðið þrjú önnur samtök höfundarétthafa. Krafa stefnda uppfylli því ekki skilyrði 2. málsliðar 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Höfundaréttarsamtökin fjögur stóðu á sínum tíma saman að lögbannsbeiðninni og fyrri málsókninni í framhaldi af lögbanninu á grundvelli samlagsaðildar, sbr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Af því leiðir að hver samlagsaðilanna um sig gat haldið sínum þætti málsins til streitu án atbeina hinna. Krafa stefnda um staðfestingu lögbannsins er takmörkuð við hljóð- og myndefni, sem hefur að geyma tónlist sem umbjóðendur hans eigi höfundarétt að. Verður þessari málsástæðu áfrýjenda því hafnað þegar af þessum sökum.

Í annan stað krefjast áfrýjendur að kröfu stefnda um viðurkenningu skaðabótaskyldu þeirra gagnvart honum verði vísað frá héraðsdómi þar sem ekki komi fram í stefnu á hvaða grundvelli krafan sé byggð. Það hafi fyrst komið fram við munnlegan málflutning í héraði að hún væri reist á sakarreglunni og hafi þeirri málsástæðu þá þegar verið mótmælt sem of seint fram kominni. Í stefnu er því haldið fram að í háttsemi áfrýjenda hafi falist brot á höfundarétti umjóðenda stefnda, sem hafi valdið þeim fjártjóni, og á því byggt að það varði stefndu fébótaábyrgð samkvæmt 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Því má ljóst vera af stefnunni að viðurkenningarkrafa stefnda er reist á sakarreglunni og verður þessari málsástæðu áfrýjenda því hafnað.

Samkvæmt framansögðu og þar sem áfrýjendur hafa engin haldbær rök fært fyrir öðrum málsástæðum að baki kröfum um frávísun málsins frá héraðsdómi eða ómerkingu hins áfrýjaða dóms verður þeim hafnað.

III

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna því að aðildarskortur, hvort sem er til sóknar í málinu eða varnar, leiði til þess að sýkna beri áfrýjendur. Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á að með framlögðum gögnum hafi nægilega verið sýnt fram á að á vefsvæðinu torrent.is hafi verið í boði mikið af efni, sem háð var höfundarétti umbjóðenda stefnda, og að notendur hafi með þeim búnaði, sem vefsvæðið bauð upp á, miðlað því sín á milli í umtalsverðum mæli án þess að heimild rétthafa hafi verið fyrir hendi. Má því leggja til grundvallar við úrlausn málsins að tilgangur með starfrækslu vefsvæðisins hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir því að notendur gætu með skjótum hætti miðlað sín á milli efni, sem háð er höfundarétti, án tillits til þess hvort fyrir hendi væri tilskilin heimild til slíkrar miðlunar frá rétthafa.

 Fallist verður á með héraðsdómi að ábyrgðartakmarkanir V. kafla laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu eigi ekki við þegar með þjónustunni er gagngert stuðlað að því að brotið sé gegn lögvörðum rétti höfunda og listflytjenda samkvæmt höfundalögum. Í ljósi þess, sem að framan segir um eðli og tilgang rekstrar áfrýjenda, geta þær ábyrgðartakmarkanir ekki náð til starfrækslu þeirra á vefsvæðinu torrent.is.

 Líta verður svo á, eins og gert var í héraðsdómi, að þeir, sem setja efni sem varið er af höfundarétti á netið þannig að aðrir geti nálgast það, teljist birta það í merkingu 3. mgr. 2. gr. höfundalaga og brjóti með því gegn einkarétti höfundar og eftir atvikum listflytjanda sé það gert án heimildar. Án tillits til þess verður einnig að fallast á að áfrýjendur hafi með starfrækslu umrædds vefsvæðis og tæknilegri uppbyggingu þess komið því til leiðar með markvissum hætti að fram gætu farið greið og umfangsmikil skráarskipti með efni, sem háð er höfundarétti, og þannig beinlínis stuðlað að brotum notenda vefsvæðisins. Með þessu hafa áfrýjendur brotið gegn lögvörðum rétti umbjóðenda stefnda. Verður því fallist á með héraðsdómi að lagaskilyrði hafi verið uppfyllt til að leggja á lögbann það, sem um ræðir í málinu, og verður því krafa stefnda um staðfestingu þess tekin til greina.

Héraðsdómi hefur ekki verið gagnáfrýjað af stefnda og kemur því ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti sú niðurstaða að sýkna áfrýjendur af kröfu hans um að þeim verði bannað að gera notendum vefsvæðisins torrent.is kleift að fá aðgang og deila innbyrðis án samþykkis rétthafa hljóð- og myndefni sem hefur að geyma tónlist, sem umbjóðendur stefnda eiga höfundarétt að.

Stefndi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda áfrýjenda gagnvart sér. Kröfu þessa verður að skilja svo að í henni felist að leitað sé viðurkenningar á skaðabótaskyldu áfrýjenda vegna þess fjártjóns, sem umbjóðendur stefnda hafa beðið vegna brota á höfundarétti þeirra sem framin hafa verið með notkun margnefndrar vefsíðu til að dreifa hljóð- og myndefni, sem hefur að geyma tónlist. Verður á það fallist með héraðsdómi að stefndi geti í skjóli málsóknarumboðs haft uppi slíka kröfu til viðurkenningar á skyldu áfrýjenda til greiðslu bóta. Eins og áður segir gerði háttsemi áfrýjenda notendum vefsvæðisins torrent.is kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis efni sem varið var af höfundarétti. Áfrýjendum var eða mátti vera ljóst að þessi háttsemi þeirra var ólögmæt og til þess fallin að valda umbjóðendum stefnda tjóni. Þótt tjónið verði fyrst og fremst rakið til háttsemi notenda vefsvæðisins og hún því aðalorsök tjóns er hin saknæma og ólögmæta háttsemi áfrýjanda meðorsök þess. Samkvæmt þessu verður að fallast á að áfrýjandinn Svavar beri skaðabótaskyldu gagnvart stefnda vegna höfundaréttarbrota gegn umbjóðendum stefnda frá því að rekstur vefsíðunnar hófst og til 16. nóvember 2007, þegar skráning á léninu torrent.is færðist frá þeim áfrýjanda til áfrýjandans Istorrent ehf. Í málinu hafa áfrýjendur byggt á því að félag þetta hafi í október 2007 tekið við rekstri vefsvæðisins og ber það því til samræmis á sama hátt skaðabótaskyldu gagnvart stefnda upp frá því. Samkvæmt þessu bera áfrýjendur óskipta bótaábyrgð vegna brota frá byrjun október 2007 til 16. nóvember sama ár. Að þessu gættu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um viðurkenningu á bótaskyldu áfrýjenda.

Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Istorrent ehf. og Svavar Lúthersson, greiði óskipt stefnda, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. febrúar 2009.

Mál þetta, sem var dómtekið 7. f.m., er höfðað 20. maí 2008 af Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), Laufásvegi 40 í Reykjavík, á hendur Istorrent ehf., Borgartúni 25 í Reykjavík, og Svavari Lútherssyni, Burknavöllum 17C, Hafnarfirði.

Í málinu gerir stefnandi eftirfarandi dómkröfur.

„Að stefndu verði bannað með dómi að gera notendum vefsíðunnar www.torrent.is kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem hefur að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarétt að án samþykkis rétthafa.

Að lögbann sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði þann 19. nóvember 2007, við því að stefndu starfræki vefsíðuna www.torrent.is sem gerir notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að verði staðfest með dómi.

Að viðurkennd verði bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda.“

Að auki er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þeir gera jafnframt þá kröfu að stefnanda verði gert að greiða þeim skaðabætur fyrir ólögmætar lögbannsaðgerðir, þannig: Stefnda Istorrent ehf. 20.000.000 krónur auk 6.000.000 króna fyrir hvern mánuð sem lögbann stendur yfir eða aðra upphæð að álitum. Stefnda Svavari 5.000.000 krónur auk 500.000 króna fyrir hvern mánuð sem lögbann stendur yfir eða aðra upphæð að álitum. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Upphaflega gerði stefnandi þá kröfu „að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra sambærilega vefsíðu sem gerir notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarrétt að án samþykkis rétthafa“. Þeim hluta þessarar kröfu sem snýr að vefsíðu sem talist gæti sambærileg www.torrent.is var vísað frá dómi með úrskurði dómsins 26. september 2008, sem staðfestur var að þessu leyti með dómi Hæstaréttar 6. nóvember 2008. Frá þeim hluta þessarar viðurkenningarkröfu sem eftir stóð féll stefnandi síðan í þinghaldi við upphaf aðalmeðferð. Eftir stendur þá sú krafa sem stefnandi nú gerir auk kröfu sinnar um staðfestingu lögbanns og viðurkenningu á bótaskyldu, en hún var í stefnu sett fram sem varakrafa að frágenginni framangreindri viðurkenningarkröfu. Málsástæður stefnanda fyrir þeim báðum eru í meginatriðum þær sömu.

II.

Í stefnu er málavöxtum lýst svo að stefndu hafi frá árinu 2005 starfrækt vefsíðuna torrent.is. Sé vefsíðan vettvangur netsamfélags sem stefndi Svavar hafi stofnað til og kallast „Istorrent“ og hafi þann tilgang að dreifa milli meðlimanna allskyns hljóð- og myndefni án endurgjalds. Tæknilega sé vefsíðan reist á svokallaðri torrent/BitTorrent tækni sem sé skráarskiptikerfi sem nýti netið (internetið) sem gagnaflutningsleið. Vefsíðan virki þannig að einn leiðarþjónn (e. Tracker) er settur upp, en þar geti síðan netnotendur hlaðið upp litlum leiðarvísi (.torrent) sem sé tilvísun í hvernig nálgast megi ákveðna skrá hjá öðrum. Einn notandi geti þá séð leiðarvísinn fyrir þessa tilteknu skrá hjá öðrum og sótt efnið frá honum og raunar öllum þeim sem dreifa sömu skrám í gegnum vefsíðuna. Það sem geri þetta kleift sé leiðarþjónninn (BitTorrent) sem auðkenni alla tengda notendur og hjálpi leitarhugbúnaði þeirra að skipta á milli sín brotum af þeim skrám sem leitað er að við aðra notendur á öðrum tölvum sem tengdar eru inn á leiðarþjóninn. Leiðarþjónninn sem tengir saman notendur torrent.is og geri skráarskiptin á þeirri vefsíðu möguleg sé starfræktur af stefndu. Aðild að vefsíðunni sé grundvölluð á svokölluðum boðslyklum. Þeir einir fái aðgang að vefsíðunni og skráarskiptum þar sem fái um það sérstakt boð frá stefndu. Aðildin sé síðan bundin ákveðnum kvöðum. Stefndu hvetji með þeim til þess að þeir sem nota vefsíðuna deili með sér sem mestu efni. Stefndu heimili þó einstökum notendum vefsíðunnar lausn undan þeirri kvöð með því að greiða stefndu tiltekna peningaupphæð. Tekjur stefndu af þessari tilhögun hafi numið 500.000 krónum í októbermánuði 2007 og fari vaxandi eftir því sem stefndi Svavar hafi sjálfur upplýst við fyrirtöku lögbannsgerðar 19. nóvember 2007. Ljóst sé því að stefndu hafi verulegan fjárhagslegan ávinning af brotum á höfundaréttindum umbjóðenda stefnanda. Meðlimafjöldi torrent.is hafi aukist jafnt og þétt ár frá ári og notendur vefsíðunnar verið um 26 þúsund talsins þegar gripið var til lögbannsaðgerða gegn starfrækslu hennar 19. nóvember 2007. Í skilmálum síðunnar hafi verið lagt bann við því að samtök höfundarétthafa, lögregla eða aðrir sem gæta hagsmuna höfundarétthafa fái notendaaðgang að vefsíðunni. Hafi stefnandi því ekki haft tækifæri til þess að kanna í þaula umfang skráarskipta á höfundaréttarvörðu efni meðal notenda torrent.is.

Það hljóð- og myndefni sem notendur síðunnar hafi fengið aðgang að og deilt með sér sé að langmestu leyti efni sem njóti höfundarréttarverndar, svo sem íslensk og erlend tónlist, kvikmyndir, sjónvarpsefni ýmiskonar og tölvuleikir,  svo það helsta sé nefnt. Öll  birting og dreifing á efni þessu sé án heimildar hlutaðeigandi rétthafa. Auk framangreinds hljóð- og myndefnis fari fram töluverð dreifing á vefsíðunni á tölvuforritum sem einnig njóti höfundaréttarverndar. Þannig hafi notendur síðunnar deilt sín í milli nýútkominni tónlist, stundum áður en til formlegrar útgáfu hennar hefur komið, nýjum kvikmyndum sem verið er að sýna í kvikmyndahúsum hér á landi og íslenskum sjónvarpsþáttum sem framleiddir eru fyrir áskriftarsjónvarp, svo dæmi séu tekin. Vefsíðan hafi því verið vettvangur fyrir skipulögð og stórtæk höfundaréttarbrot. Að auki dreifi notendur vefsíðunnar sín í milli klámefni og brjóti með því gegn almennum hegningarlögum, en ætla verði að stór hluti notenda síðunnar séu börn og ungmenni og klámefnið því aðgengilegt þeim.

Í stefnu segir að stefnandi hafi ítrekað bent stefnda Svavari á að milliganga torrent.is til þess að birta og fjölfalda höfundaréttarvarið efni brjóti gegn höfundalögum og árangurslaust skorað á hann, meðal annars bréflega, að láta af þessari starfsemi. Stefndu hafi lýst því yfir að með milligöngu sinni brjóti þeir ekki höfundalög, það sé á ábyrgð notenda síðunnar að þeir hafi heimild til dreifingar á efni. Stefndu geri það hins vegar tæknilega mögulegt fyrir notendur síðunnar að deila með sér efni í gegnum leiðarþjón sem þeir starfrækja og sem tengir saman notendur vefsíðunnar, en það sé tæknileg forsenda þess að þeim sé kleift að skiptast á efninu. Án starfrækslu stefndu á leiðarþjóninum og því sem honum tilheyrir væri notendum torrent.is ókleift að fá aðgang að og deila með sér efni sem nýtur höfundaréttarverndar. Að auki hafi stefndi Svavar lýst því yfir opinberlega að dreifing slíks efnis á vefsíðunni fari ekki á bága við lög.

Þegar í ljós var komið að framangreindar tilraunir stefnanda til þess að stöðva dreifingu höfundaréttarvarins efnis á vefsíðunni torrent.is báru ekki árangur og sökum aðgerðarleysis lögreglu hafi stefnandi sjálfur farið að kanna möguleika á að staðreyna umfang höfundaréttarbrota á torrent.is. Þar sem stefnanda hafi verið bannaður aðgangur að vefsíðunni hafi verið leitað til einstaklinga sem höfðu aðgang að henni um aðstoð til þess að afla þessara upplýsinga. Hafi þá komið í ljós að nánast eingöngu sé um að ræða miðlun á efni sem nýtur höfundaréttarverndar og sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að.

Þessu næst og á grundvelli útprentana af torrent.is í október og nóvember 2007 er staðhæft í stefnu að notendur vefsíðunnar hafi á þessu tímabili meðal annars deilt sín í milli efni sem ýmisst innihaldi íslenska tónlist sem sé í höfundareigu félagsmanna stefnanda eða umbjóðenda erlendra systursamtaka stefnanda sem hann hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hér á landi. Eru þar tilgreindar íslenskar og erlendar kvikmyndir, teiknimyndir, hljómdiskar með íslenskum og erlendum flytjendum og sjónvarpsþættir. Rétthafar hafi ekki gefið leyfi til birtingar eða fjölföldunar á þessu efni meðal notenda torrent.is með þeim hætti sem fyrrgreindar útprentanir beri með sér. Af þeim sökum hafi stefnandi og önnur höfundaréttarsamtök óskað eftir því við sýslumann að lagt yrði lögbann við starfrækslu vefsíðunnar www.torrent.is og því að stefndu gerðu notendum vefsíðunnar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundaréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að. Hafi sýslumaður fallist á beiðni um lögbann 19. nóvember 2007. Stefnandi og önnur höfundaréttarsamtök sem að lögbannsbeiðninni stóðu hefðu síðan  höfðað mál til staðfestingar á lögbanninu. Því máli hafi hvað stefnanda varðar verið vísað frá dómi, en Hæstiréttur hafi kveðið upp dóm þess efnis 8. maí 2008. Hafi stefnandi í kjölfarið lagt málið að nýju fyrir dóm til staðfestingar lögbanninu og viðurkenningar á öðrum kröfum sínum í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar.

Stefnendur byggja kröfur sínar á því að stefndu hafi ýmist sjálfir eða fyrir hlutdeild staðið að stórfelldum brotum á höfundarétti umbjóðenda stefnanda með því að halda úti vefsíðunni torrent.is í því skyni að skapa vettvang fyrir þúsundir einstaklinga til þess að skiptast með ólögmætum hætti á höfundaréttarvörðu hljóð- og myndefni, það er birta efnið og dreifa því án heimildar rétthafa. Þar sem samþykki þeirra rétthafa sem eru meðlimir í samtökum stefnanda skorti fyrir þessari birtingu og dreifingu efnis meðal notenda www.torrent.is sé um að ræða brot á höfundarétti rétthafanna, sem falli undir fébóta- og refsiábyrgð höfundalaga nr. 73/1972 með síðari breytingum. Vísar stefnandi um þetta til 3. gr. laganna, en samkvæmt því ákvæði hafi höfundur einkarétt á að gera eintök af verki sínu og birta það. Verk teljist birt þegar það er með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega eða eintök af því hafa verið gefin út, sbr. 2. gr. laganna og ákvæði 3. gr. tilskipunar 2001/29/EB, sem tekin hafi verið upp í EES-samninginn. Ákvæði tilskipunarinnar vísi til birtingar á netinu. Það að setja hljóð- eða myndefni á netið þannig að það verði aðgengilegt almenningi teljist birting í skilningi höfundalaga og sé birting ólögmæt ef ekki nýtur við heimildar frá rétthafa. Grannréttindi veiti sömu réttindi til flytjenda, það er til eintakagerðar og dreifingar á flutningi, sbr. 2. mgr. 45. gr. höfundalaga, og framleiðenda, sbr. 2. mgr. 46. gr. laganna, það er til eftirgerðar og dreifingar á hljóðritum og myndritum. Upp- og niðurhal á hljóð- og myndefni af netinu teljist vera eintakagerð í skilningi höfundalaga. Samkvæmt 46. gr. laganna sé eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplatna, óheimil án samþykkis framleiðanda uns 50 ár eru liðin frá gerð frumupptökunnar. Af þessu leiði að sú dreifing á höfundaréttarvörðu hljóð- og myndefni sem eigi sér stað á www.torrent.is  án samþykkis rétthafa sé skýlaust brot á framangreindum einkarétti til dreifingar efnisins.

Með vísan til framanritaðs heldur stefnandi því fram að bersýnilegt sé að birting og dreifing notenda að www.torrent.is á höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni umbjóðenda stefnanda sé brot á höfundalögum nr. 73/1972 og varði bæði refsingu og fébótaábyrgð samkvæmt þeim.

Með því að reka, stjórna og nota www.torrent.is hafi stefndu brotið gegn framangreindum ákvæðum höfundalaga. Hvað svo sem þeirra eigin birtingu og deilingu á höfundarréttarvörðu efni líður þá hafi stefndu, með því að hvetja notendur að www.torrent.is til að birta og deila með sér höfundarréttarvörðu efni, orðið hlutdeildarmenn í framangreindum brotum notenda vefsíðunnar, sbr. 22.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í stefnu og af gefnu tilefni er sérstaklega tekið fram að það sé skoðun stefnanda að starfsemi vefsíðunnar www.torrent.is falli ekki undir lög nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. 

Þá tiltekur stefnandi sérstaklega að af 8. gr. höfundalaga leiði að stefndu verði að sýna fram á að þeir hafi haft heimild til þess að standa fyrir dreifingu á framangreindu höfundarréttarvörðu efni. Stefnandi þurfi einungis að sýna fram á höfundarétt félagsmanna sinna að efninu. Vísar stefnandi meðal annars hvað þetta varðar til athugasemda sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 57/1992, en með þeim var gerð breyting á tilvitnuðu ákvæði höfundalaga.

Við ákvörðun um hvort skilyrði lögbanns hafi verið uppfyllt beri að hafa í huga að tilskipun 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu hafi verið tekin upp í EES- samninginn og efnislega innleidd í gildandi höfundalög. Vísar stefnandi til þess að 8. gr. tilskipunarinnar hafi þýðingu við úrlausn málsins. Sambærileg ákvæði séu meðal annars einnig í samningi Íslands um Alþjóðaviðskiptastofnunina, sbr. fylgisamning um hugverkarétt í viðskiptum (e. Trade Related Aspects of Intellectual Property Rights). Inntak framangreindra ákvæða sé að tryggja að ekki séu gerðar um of íþyngjandi kröfur til rétthafa höfundarvarins efnis við að vernda réttindi sín, meðal annars með lögbanni.

Stefnandi bendir sérstaklega á að réttarreglur um refsingar og/eða skaðabætur úr hendi gerðarþola tryggi með engu móti þá fjárhagslegu hagsmuni sem hér um ræðir. Í því efni skipti öllu máli að fjárhagslegt tjón af ólögmætri dreifingu á höfundaréttarvörðu efni í gegnum www.torrent.is skipti hundruðum milljóna króna og bersýnilegt sé að stefndu hafa ekki fjárhagslega getu til að standa undir greiðslu fullra skaðabóta til tjónþola. Önnur úrræði en lögbann hafi ekki verið stefnanda fær svo sem hér stendur á. 

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur stefnandi ótvírætt að skilyrðum lögbanns samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. hafi hér verið fullnægt og því beri að staðfesta lögbannsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði 19. nóvember 2007.

Stefnandi heldur því fram að háttsemi stefndu hafi valdið honum fjártjóni. Með því að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is gagngert í því skyni að gera notendum hennar kleift að skiptast á höfundaréttarvörðu hljóð- og myndefni án heimildar rétthafa hafi rétthafarnir orðið fyrir verulegu fjártjóni. Í ljósi þessa telur stefnandi að stefndu séu skaðabóatskyldir gagnvart honum og skilyrði séu til slíks viðurkenningardóms, enda sé hinu meinta tjóni lýst í stefnu með nægilega glöggum hætti og sýnt fram á í hverju það sé fólgið. Því sé fullnægt  áskilnaði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað.

Um aðild vísa stefnendur til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og almennra reglna um umboð og dómvenju um málsóknarumboð höfundaréttarsamtaka fyrir hönd félagsmanna sinna.

III.

Í greinargerð segir að Istorrent ehf. sé félag sem stofnað hafi verið í kringum frjáls skráarskipti yfir Internetið. Félagið hafi rekið samfélagið Istorrent og vefsíðuna www.torrent.is frá október 2007 og allt þar til sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði lögbann á starfsemi vefsins 19. nóvember sama ár. Stefndi Svavar sé einn af eigendum Istorrent ehf. og starfsmaður fyrirtækisins. Hann hafi verið einn af þeim aðilum sem önnuðust rekstur vefsíðunnar www.torrent.is áður en stefndi Istorrent ehf. tók við rekstri hennar.

Stefndu mótmæla málsatvikalýsingu stefnanda hvað varðar flest meginatriði. Þannig séu tæknilegar skýringar stefnanda ófullnægjandi og rangar, en slíkar skýringar hafi þýðingu fyrir lagalega stöðu aðila. Öllum fullyrðingum um ólögmæta hegðun stefndu er sérstaklega mótmælt.

Þeirri fullyrðingu að stefndu geri engan greinarmun á frjálsum skráarskiptum og ólögmætum brotum á höfundarétti er mótmælt sérstaklega. Hið rétta sé að í reglum stefnda Istorrent ehf. séu hvers konar brot gegn höfundarétti bönnuð, sem og önnur lögbrot. Það sé einfaldlega rangt að öll skráarskipti séu ólögleg eða feli í sér brot á höfundarétti þar til annað sé sannað. Öll samskipti á netinu byggist á því að upplýsingar fari á milli notenda og einungis hluti þeirra upplýsinga sé varinn  höfundarétti.

Skráarskipti á Internetinu sé það kallað þegar einn notandi þess sendir öðrum notanda Internetsins gögn með rafrænum hætti. Skráarskipti geti átt sér stað með margvíslegum leiðum og tækni, til dæmis með venjulegum tölvupósti eða samskiptaforritum líkt og MSN og með milligöngu spjallrása (IRC). Einnig fari skráarskipti fram með aðstoð símtækja, til dæmis GSM síma. Ein leið til að skiptast á skrám sé með þar til gerðum vefsíðum, líkt og www.torrent.is, en þar sé tækni sem nefnd hafi verið BitTorrent tækni, notuð við skráarskiptin. Margvíslegar leiðir séu þannig færar fyrir notendur nútímatækni til að fá aðgang að og deila hljóð- og myndefni.

Því verði ekki neitað að sumir notendur Internetsins brjóta gegn lögum um höfundarétt. Notendur www.torrent.is hafi verið um 26.500 þegar umrætt lögbann var sett á og ekki sé hægt að fullyrða að öll skráarskipti þeirra hafi verið í samræmi við höfundaréttarreglur. Slík mál hafi komið upp hjá Istorrent ehf. eins og flestum eða öllum fyrirtækjum sem veita þjónustu yfir Internetið. Óhjákvæmilegt sé til dæmis annað en Síminn hf., Vodafone ehf. og Hive ehf. hafi lent í því að tæknibúnaður þeirra og vefsíður hafi verið notaður við skráarskipti sem brotið hafi höfundarétt.

Í hvert skipti sem Istorrent ehf. barst lögleg tilkynning frá rétthafa um að einhver notandi www.torrent.is væri að dreifa því með tilstuðlan vefsíðunnar án leyfis rétthafans hafi verið brugðist við eins skjótt og mögulegt var og slíkt efni fjarlægt af vefsíðunni. Reglur vefsíðurnar séu skýrar og brot á þeim reglum ekki liðin.  Að mati stefndu sé ekki hægt að gera ríkari kröfur á Istorrent ehf. og aðra þjónustuveitendur Internetsins til þess að koma í veg fyrir hugsanleg brot notendanna á höfundarétti. 

Fullyrðingu stefnanda um að hann hafi ekki haft aðgang að vefsvæði stefnda þegar lögbannskrafan var sett fram er mótmælt. Á þeim tíma hafi ekkert verið í reglum eða skilmálum Istorrent ehf. sem takmarkað hafi rétt stefnanda til þess að nýta sér þá þjónustu til samskipta og skráarskipta við jafningja sem finna má á vefsvæðinu www.torrent.is. Tilvitnanir í eldri reglur hafi hér enga þýðingu. Við aðalmeðferð fyrra staðfestingarmálsins hafi ennfremur verið upplýst að framlögðum gögnum um meint höfundaréttarbrot hafi verið safnað saman af forsvarsmanni Smáís, eins lögbannsbeiðenda.

Ásakanir um dreifingu klámefnis til ungmenna séu vart svaraverðar enda engum gögnum studdar. Telji stefnandi sig búa yfir upplýsingum um hegningarlagabrot beri honum að tilkynna það til lögreglu. Slíkar ásakanir hafi áður verið rannsakaðar af lögreglu, sem ekki hafi talið ástæðu til þess að aðhafast frekar, enda hvorugur stefndu ábyrgur fyrir hugsanlegum lögbrotum þriðja aðila. Auk þess sé allt efni sem hugsanlega gæti sært blygðunarkennd yngri notenda aðeins aðgengilegt notendum 18 ára eða eldri. Verði því að telja að hér sé um frekari rangfærslur að ræða af hálfu stefnanda og tilraun til þess að meiða mannorð stefndu.          

Þessu næst er í greinargerðinni fjallað um tæknilega hlið BitTorrent samskiptastaðalsins. Þykir rétt að taka þá umfjöllun hér upp í heild sinni. Í greinargerðinni segir svo um þetta:

„Um BitTorrent:

BitTorrent er samskiptastaðall sem nýtir jafningjanet til að flytja mikið gagnamagn án þess að upphafsmanneskjan þurfi að taka á sig allan þungann við að dreifa því. Um leið og einhver er kominn með ákveðinn bút af efni er hann um leið að bjóðast til þess að hjálpa til við að dreifa honum. Álagið dreifist eftir því sem fleiri eru komnir með bútinn. Þeir sem eru komnir með alla bútana kallast deilendur en hinir sækjendur. Allir aðilar sem taka þátt í ferlinu kallast jafningjar. Öll samskiptin eru í höndum ákveðinna forrita sem bjóða upp á stuðning við BitTorrent staðalinn.

Deiliskrá inniheldur upplýsingar um gagnabeininn sjálfan og auk þess upplýsingar um efni tiltekinna skráa („metadata“), sem innihalda efnið sjálft.  Deiliskráin er útbúin af þeim aðila sem ætlar að dreifa efninu (upphafsaðili eða “A”) en deiliskráin sjálf inniheldur ekki efnið sjálft heldur aðeins upplýsingar um það.  Upphafsaðilinn setur einnig inn tilkynningaslóð en hún beinist að þeim stað á Internetinu þar sem gagnabeinarnir eru staðsettir. Upphafsaðili kemur deiliskrá á framfæri, t.d. með því að setja hana á Internetið eða koma henni á einhvern annan hátt í hendur annarra. Hver sem kemst síðan yfir deiliskránna notar tilkynningarslóðina sem fylgir henni til að hafa samband við gagnabeinana til þess að sækja efnið sjálft.

Til að samskipti milli jafningja geta farið fram þurfa þeir að vita af hver öðrum en þar koma gagnabeinar inn í myndina. Gagnabeinirinn heldur um upplýsingarnar sem jafningjar þurfa á að halda til að geta haft samband við hvern annan. Þegar einhver (“B”) hefur áhuga á að sækja ákveðið efni og rekst á deiliskrána, þá sækir B hana og notar hana til að hafa samband við gagnabeininn. Gagnabeinirinn lætur B vita að A er einnig jafningi og hversu mikið af efninu hann hefur ásamt því að afhenda nauðsynlegar upplýsingar til að B geti haft samband við hann á eigin vegum til að ná í efnið. Gagnabeinirinn, t.d. vefsíðan www.torrent.is sem rekin er af stefnda Istorrent ehf., hefur því eingöngu hlutverk upplýsingaveitu og þarf því ekki að geyma bútana sjálfa né vita hvert innihald þeirra er. Allir jafningjar láta gagnabeininn vita reglulega að þeir séu enn þá virkir og hversu mikið efni þeir hafa. Sum forrit sem bjóða upp á BitTorrent stuðning geta einnig gegnt hlutverki gagnabeina.

A hefur heilt eintak af efni sem spannar 2000 búta og hefur haft samband við gagnabeininn þar sem hann skráir sig sem jafningja. B hefur áhuga á að ná í efnið og nær í deiliskrána. Þegar B skráir sig sem jafningja fær hann upplýsingar um að A sé [jafningi] og hafi allt efnið. B tekur sig til og ákveður að ná fyrst í búta nr. 1, 302, 1423 og 1872. Nú bætist aðili C inn í hópinn eftir að hafa fengið upplýsingar um A og B frá gagnabeininum og spyr B hvaða búta hann hefur. C þarf ekki að spyrja A í þessu tilviki frekar en hann vill þar sem gagnabeinirinn tilkynnti að A hefði alla bútana. Nú hefur C um tvo staði að velja þegar hann óskar eftir bútunum sem B hefur en eingöngu einn fyrir aðra búta. Þá getur C sótt frá bæði A og B á sama tíma og fær því betri hraða ásamt því að A þarf ekki að sjá um að dreifa því sem C nær frá öðrum aðilum. Eftir því sem að fleiri bætast við jafningjalistann því meiri bandvídd er í boði til dreifa bútum.“

BitTorrent staðallinn sé alls ekki ólögmætur. Rétt lýsing á honum leiði í ljós að stefndi Istorrent ehf. og vefsíða fyrirtækisins er ekki beinn aðili að dreifingu efnis á Internetinu og að samskipti þeirra sem komast í samband í gegnum vefsvæði Istorrents ehf. eru á þeirra eigin ábyrgð. Istorrent ehf. geti ekki borið ábyrgð á hegðun notenda sem hafa samskipti í gegnum vefsvæði fyrirtækisins frekar en símafyrirtæki getur borið ábyrgð á því sem notendur þess ræða í samtölum sín á milli.

Í málinu færa stefndu fram eftirfarandi málsástæður fyrir sýknukröfu sinni:

Í fyrsta lagi er á því byggt að valdi aðildarleysi stefnanda og annarra gerðarbeiðenda ekki frávísun málsins þá leiði það til sýknu samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ljóst sé að upprunalegir gerðarbeiðendur, Samtök myndréttarhafa á Íslandi (SMÁÍS), Framleiðendafélagið SÍK og Félag hljómplötuframleiðenda, gátu ekki átt aðild að lögbannsgerðinni. Sama eigi við um stefnanda sýni hann ekki fram á að hann hafi fullnægjandi umboð. Er um þetta vísað dóma Hæstaréttar frá 13. nóvember 2007 í máli nr. 575/2007 og frá 11. apríl 2008 í máli nr. 146/2008. Breyting á aðild geti ekki veitt lögbannsgerð afturvirkt lögmæti hafi aðild verið ófullnægjandi við gerðina sjálfa.  Sýslumanni hafi því þegar af þessari ástæðu borið að hafna kröfu gerðarbeiðenda um lögbann og af sömu ástæðu beri dómstólum að hafna kröfu um staðfestingu þess og sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Að auki sé varðandi þetta til þess að líta að í málinu sé stefnandi að gera viðurkenningakröfur sem varði myndefni en ekkert liggi fyrir um stefnandi eða félagsmenn hans eigi rétt til. Hljóti stefndu því að verða sýknaðir að þessum hluta dómkrafna stefnanda.

Stefndi Svavar byggir ennfremur sérstaklega á aðildarskorti að því er hann varðar og vísar í því sambandi til 2. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála. Að sögn stefnanda og gerðarbeiðenda stafi aðild hans af því að vefslóðin www.torrent.is sé skráð á nafn hans hjá ISNIC, það er Internet á Íslandi ehf. Er þeirri fullyrðingu gerðarbeiðenda mótmælt og vísast því til stuðnings til dómskjals þar sem fram komi að umrædd vefslóð sé skráð á stefnda Istorrent ehf.

Stefndu byggja sýknukröfu sína í annan stað á því að hin meintu réttarbrot séu ósönnuð með öllu og ósannað sé að starfsemi umræddrar vefsíðu hafi brotið á lögvörðum hagsmunum gerðarbeiðenda eða stefnanda. Í stefnu ásaki stefnandi stefndu um að hafa staðið fyrir stórfelldum brotum gegn höfundarétti, ýmist sjálfir eða með hlutdeild. Stefndu mótmæla því sem röngu að þeir hafi stundað nokkra athöfn sem brjóti í bága við íslensk lög eða rétt gerðarbeiðenda eða stefnanda. Rekstur vefsvæðisins www.torrent.is feli ekki í sér ólögmætt athæfi. Hvorugur stefndu hafa dreift höfundarvörðu efni með einum eða öðrum hætti án leyfis rétthafa og óljóst sé hvað stefnandi eigi við með því að varpa fram slíkri ásökun, en hún styðjist ekki við gögn. Hafna stefndu því sérstaklega að útprentanir sem fram hafa verið lagðar í málinu og sem stefnandi segir komna af vefsvæði www.torrent.is hafi sönnunargildi í málinu. Benda stefndu á að þessi gögn hafi ekki verið prentuð beint af vefsvæðinu heldur átta dögum eftir að meint brot eiga að hafa átt sér stað. Hið eina sem tengi þessi prentverk við stefndu sé auglýsing í einu horni skjalanna. Við aðalmeðferð fyrra staðfestingarmálsins 11. mars 2008 hafi komið fram í vitnisburði fyrirsvarsmanns gerðarbeiðandans Smáís að hann hafi safnað saman öllum þessum gögnum sjálfur og geymt þau. Dragi þessi háttur stórlega úr trúverðugleika gagnanna. Sé um rétt eftirrit gagna að ræða séu þau einungis upplýsandi um háttsemi notandans „kraft150“, sem samkvæmt framansögðu var fyrirsvarsmaður Smáís, en svo virðist sem hann hafi stundað bæði upp- og niðurhal á efni.  Stefndu hafi ekki aðgang að gögnum um hvers konar efni notandi „kraft150“ hafi dreift, en gögnin sanni hins vegar alls ekki að stefndu hafi haft vitneskju um það sem viðkomandi notandi aðhafðist eða veitt honum til þess aðstoð eða hvatningu. Ekkert þeirra gagna sem fylgdu lögbannskröfu stefnanda til sýslumanns í Hafnarfirði 19. nóvember 2007 bendli stefndu við þau brot gegn höfundarétti sem þar eru tíunduð. Fyrir liggi gögn sem benda til að þessi brot hafi verið framin á vefsvæðinu www.torrent.is en engin hlutlæg sakarregla sé til sem geri stefndu ábyrga fyrir aðgerðum óþekktra og ónafngreindra þriðju aðila, það er einhverra meðal þeirra rúmlega 26.500 notenda sem gengist hafi undir það að hlýða reglum vefsvæðisins án þess að standa við það. Þá liggi ekkert fyrir sem bendi til þess að stefndu hafi hvatt þessa ónafngreindu notendur til að brjóta gegn höfundarétti með þeim hætti sem staðhæft er. Því er og mótmælt að rekstur vefsíðunnar www.torrent.is teljist í sjálfu sér birting eða dreifing á efni. Eins og fram komi í tæknilegum lýsingum beggja aðila á BitTorrent staðlinum sé sá sem starfrækir vefsíðuna hvorki að stunda upp- né niðurhal. Upp- eða niðurhal fari fram milli notenda síðunnar og það efni sem um ræðir sé aldrei hýst á síðunni eða aðgengilegt beint frá henni. Og jafnvel þótt notendur vefsvæðisins www.torrent.is hlaði niður efni og dreifi því megi ekki leggja það að jöfnu við það að stefndu geri það. Af þessum sökum sé því hafnað að beita megi öfugri sönnunarbyrði samkvæmt 8. gr. laga nr. 73/1972 um höfundarétt. Eigi það ákvæði aðeins við um aðila sem dreifa eða flytja verk í umtalsverðu magni en ekki liggi fyrir að stefndu hafi flutt eða dreift einu einasta höfundaréttarvörðu verki án leyfis viðkomandi rétthafa. Rekstur vefsíðunnar www.torrent.is brjóti þannig ekki í bága við lög.

Hvað varðar ásakanir stefnanda um hlutdeild í dreifingu höfundaréttarvarins efnis benda stefndu á að höfundalögin hafi engin hlutdeildarákvæði að geyma. Þá hafna stefndu því að 22. gr. almennra hegningarlaga 19/1940 verði beitt um höfundarréttarbrot með lögjöfnun. Í öllu falli geti ekki verið um hlutdeild að ræða nema ásetningur til liðsinnis eða hvatningar hafi verið til staðar. Stefndu hafna því að hafa veitt liðsinni eða hvatningu til höfundaréttarbrota og benda á að í reglum og skilmálum vefsins sé slíkt athæfi fordæmt og tiltekið að það geti haft í för með sér refsiábyrgð. Það sé rétt að stefndu hafi bæði innan umrædds vefsvæðis og í fjölmiðlum hvatt til frjálsra skráarskipta, en slík skráarskipti séu ekki ólögleg í sjálfu sér og með hvatningu til skráarskipta sé einungis átt við dreifingu á efni sem dreifandi hefur lagalegan rétt til þess að dreifa. Notendur www.torrent.is hafi verið yfir 26.500 þegar stefnandi krafðist lögbanns, en stjórnendur vefsins séu fáeinir sjálfboðaliðar sem gefið hafi vinnu sína að mestu leyti. Istorrent ehf. hafi í starfsemi sinni haft skýrar reglur sem bönnuðu brot gegn höfundarétti og þeim reglum hafi verið framfylgt eftir fremsta megni. Krafa stefnanda sé hins vegar sú að stefndu annist það verk af sjálfsdáðum að rannsaki allt efni sem notendur dreifa í gegnum vefsvæði þeirra. Þessi krafa sé ekki einungis óframkvæmanleg, hún sé einnig óverjandi frá sjónarmiði friðhelgi einkalífsins. Löggæsla og rannsóknir á lögbrotum séu réttilega í höndum lögreglu og ekki sé hægt að gera þá kröfu til einkaaðila að þeir sinni slíkum skyldum en séu að öðrum kosti samsekir glæpamönnum. Telja stefndu óréttmætt að saka þá um hlutdeild vegna þess að tæknilegur búnaður Istorrent ehf. gerði þriðja aðila mögulegt að brjóta gegn höfundarétti. Gera verði sambærilegar kröfur á öll fyrirtæki sem veita einhverskonar aðgang að Internetinu eða þjónustu í samskiptum sem þar fara fram. Sambærileg röksemdafærsla væri að saka Símann hf. eða annað þjónustufyrirtæki á sviði gagnamiðlunar um hlutdeild í öllum lögbrotum sem fara fram yfir fjarskiptanet þeirra. Sé fallist á rök stefnanda megi loka fyrir alla Internet- og símaþjónustu í landinu.  Með sömu rökum megi loka fyrir fjarskipti almennt og sé útvarp og sjónvarp þá meðtalið. Einnig væri hægt að saka bókasöfn um að lána út eintök sem gætu verið ólöglega fjölfölduð af þeim sem taka þau að láni. 

Stefndu tiltaka sérstaklega sem rök fyrir sýknukröfu sinni að höfundaréttur sé takmarkaður með margvíslegum hætti, sbr. 2. kafli höfundalaga. Aldrei sé hægt að útiloka að þær takmarkanir eigi við um það efni sem notendur umræddrar vefsíðu deildu sín á milli. Svo dæmi sé tekið sé leyfilegt samkvæmt 14. gr. höfundalaga að vitna til höfundaréttarvarins verks í tengslum við almenna kynningu þess. Telja stefndu að starfsemi www.torrent.is hafi í öllu falli verið leyfileg með hliðsjón af þessu ákvæði, sem heimili tilvitnun í höfundaréttarvarin verk í tengslum við almenna kynningu þeirra eða í öðrum viðurkenndum tilgangi.

Þá vísa stefndu til stuðnings sýknukröfu sinni til laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Svo virðist sem stefnandi byggi mál sitt á því að hver sá sem veitir rafræna þjónustu sem sé misnotuð beri á því fulla ábyrgð, óháð því hvort reglur séu fyrir hendi sem banni slíka notkun og hvort þeim reglum sé framfylgt. Þessari skoðun sé alfarið hafnað enda sé ábyrgð þjónustuveitenda takmörkuð með tilvitnuðum lögum. Í 1. mgr. 1. gr. þeirra komi fram að lögin gildi um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Í 2. mgr. segi hins vegar að lögin gildi ekki um rafræna þjónustu sem snertir skattamálefni, vernd persónuupplýsinga, ólögmætt samráð eða samstilltar aðgerðir fyrirtækja, hagsmunagæslu lögmanna fyrir dómstólum, fjárhættustarfsemi sem felst í því að leggja fram fé í áhættuleikjum og starfsemi lögbókenda að því marki sem í henni felst beiting opinbers valds. Fullyrt sé í stefnu að starfsemi www.torrent.is sé í „eðli“ sínu ólögmæt og þess vegna geti lögin ekki gilt um starfsemina. Ekki er að sjá hvers vegna lögin geti ekki gilt um starfsemi www.torrent.is en starfsemi síðunnar, sem felist í einhvers konar miðlun upplýsinga, sé ekki tilgreind í 2. mgr. 1. gr. tilvitnaðra laga þar sem talin er upp starfsemi sem lögin taka ekki til. Lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu feli í sér innleiðingu á tilskipun 2000/31/EB um rafræn viðskipti. Markmið ábyrgðarleysisreglna tilskipunarinnar sé að tryggja að ekki verði lögð óeðlileg ábyrgð á milliliði sem sjá einungis um tæknilega miðlun eða hýsingu gagna og sé þá einkum átt við fjarskiptafyrirtæki og aðila sem hýsa vefsíður. Skilyrði fyrir ábyrgðarleysi samkvæmt tilskipuninni sé að viðkomandi milliliður hafi hvorki vitneskju né stjórn á ólöglegu efni sem fer í gegnum netið á grundvelli þjónustu hans, sbr. formálsgrein nr. 42. Jafnframt sé það forsenda ábyrgðarleysisreglnanna að þjónustuveitandi eigi ekki samstarf við þá sem þiggja þjónustuna af honum um ólöglegt athæfi, sbr. formálsgrein nr. 44 í tilskipuninni. Spurningin lúti af þeim sökum að því hvort fyrirsvarsmaður stefnda, Istorrent, hafi haft yfirsýn og stjórn á því sem var dreift, en ábyrgðarleysisreglur tilskipunar 2000/31/EB hafi ekki átt að taka til slíkra milligönguaðila eða umsjónarmanna. Að þessu sögðu sé lögð á það áhersla að fyrirsvarsmaður stefnda hafi ekki getað stjórnað því efni sem fór í gegnum vefsíðuna. Í V. kafla laganna sé síðan fjallað um takmörkun ábyrgðar milligönguaðila. Ákvæði 12. gr. mæli fyrir um takmörkun ábyrgðar þeirra sem gera umrædda miðlun mögulega, að nánari skilyrðum fullnægðum. Ákvæði 12. gr. laganna um takmörkun ábyrgðar vegna miðlunar beri að túlka með hliðsjón af eðli opins kerfis eins og netsins. Skilyrði 12. gr. sé þau að þjónustuveitandi eigi ekki frumkvæði að miðlun, velji ekki viðtakanda þeirra gagna sem er miðlað og velji hvorki né breyti þeim gögnum sem er miðlað. Hins vegar eigi ákvæði um takmörkun ábyrgðar ekki við um þá þjónustuveitendur sem af ásettu ráði eiga samstarf um ólögmætt athæfi við þjónustuþega þar sem slíkt gengur lengra en hrein miðlun eða skyndivistun gagna. Með hliðsjón af þessu beri fyrst að leggja áherslu á að vefsíðan www.torrent.is hafi verið opin öllum, það er hver sem er gat fengið aðgang og sótt það efni sem notendur síðunnar buðu upp á.  Stefndu hafi ekki átt samstarf við notendur um ólögmæta dreifingu, enda hefðu notendurnir sjálfir átt frumkvæði að miðlun alls efnis.  Stefndu hafi ekki getað valið viðtakendur né það efni sem var dreift fyrir milligöngu síðunnar eða breytt því á nokkurn hátt. Stefndi Istorrent ehf. hafi einungis séð um að koma á samskiptum. Taka megi sem dæmi símafyrirtæki sem tengir saman tvo aðila. Þó svo að aðilarnir geti ekki komist í samband hvor við annan án milligöngu símafyrirtækisins eigi það ekki frumkvæði að samskiptum þeirra.  Í 13. gr. laganna sé síðan kveðið á um takmörkun ábyrgðar vegna skyndivistunar og í 14. gr. sé sérstaklega fjallað um takmörkun ábyrgðar vegna hýsingar.  Í 1. mgr. 14. gr. sé mælt fyrir um að þjónustuveitandi sem hýsir gögn sem látin eru í té af þjónustuþega beri ekki ábyrgð á þeim að því tilskildu að hann fjarlægi þau eða hindri aðgang að þeim eftir að hann hefur fengið vitneskju um að sýslumaður hafi lagt lögbann við hýsingu gagnanna eða dómur hafi fallið um brottfellingu þeirra eða hindrun aðgangs að þeim. Sama gildi ef þjónustuveitandi fær tilkynningu um meint brot gegn ákvæðum höfundalaga. Í 2. mgr. 14. gr. sé síðan mælt fyrir um það að ákvæði 1. mgr. um takmörkun ábyrgðar gildi ekki þegar þjónustuþegi kemur fram í umboði eða undir stjórn þjónustuveitanda. Þó svo að stefndi hafi aldrei hýst efni hafi það gerst að notendur settu höfundarréttarvarið efni í heimildarleysi inn í efnislýsingu þess á vefsíðunni. Í hvert sinn sem slíkt gerðist og tilkynning barst stefnda Istorrent samkvæmt 15. gr. laganna hafi efnið verið fjarlægt af vefnum og aðgangur notenda þannig hindraður.

Stefndu byggja sýknukröfu sína ennfremur á því að óljóst sé hvort að íslensku höfundalögin verndi rétt þeirra höfunda sem stefnandi segir að meint réttarbrot beinist gegn. Það sé alls ekki sjálfgefið að allir erlendir höfundar séu verndaðir af íslensku höfundalögunum. Þau lög eigi aðeins við um verk eftir íslenska höfunda og höfunda sem búsettir eru í landi innan EES-efnahagssvæðisins, sbr. 1. mgr. 60. gr. laganna. Einnig verndi þau verk höfunda frá þeim löndum þar sem gagnkvæmni er tryggð, sbr. 2. mgr. 60 gr. þeirra.  Heimildin til útvíkkunar á gildissviði höfundalaga í 61. gr. a. þeirra sé of rúm og telja stefndu að hún feli í sér óheimilt framsal löggjafavalds. Bent sé á að heimildin gerir almenningi erfitt og jafnvel ómögulegt að henda reiður á gildissvið laganna. Auk þess er bent á að Bandaríkin hafa ekki staðfest gagnkvæma alþjóðasamninga um höfundarétti við Ísland eða sáttmálana kennda við Bern og Genf. Því virðist gagnkvæmnisskilyrðið ekki uppfyllt gagnvart Bandaríkjunum.

Sýknukrafa stefndu að því er tekur til lögbanns- og skaðabótakröfu stefnanda byggist einnig á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni eða muni verða fyrir tjóni vegna starfsemi umræddrar vefsíðu. Því sé reyndar ekki haldið fram að stefnandi hafi sjálfur orðið fyrir tjóni heldur félagsmenn samtakanna. Óútskýrt sé hvernig stefnandi hafi eignast skaðabótakröfur félagsmanna sinna sem ætti að leiða til sýknu vegna aðildarskorts. Í lögbannsbeiðni sé því haldið fram að tjón gerðarbeiðenda nemi samanlögðu verðmæti þeirra skráa sem aðgengilegar voru á www.torrent.is eða 225.453.810 krónur. Þetta sé marklaust með öllu enda engum rökum stutt og byggi augljóslega á röngum forsendum. Skjalið eigi augljóslega ekki við um hagsmuni félagsmanna stefnanda nema að litlu leyti. Samkvæmt skjalaskrá sé krafa þessi útfærð á sérstöku fylgiskjali með lögbannskröfunni, en ekkert slíkt skjal hafi þó fylgt með kröfu gerðarbeiðanda eða legið fyrir við lögbannsgerðina, svo sem staðfest sé með fyrirliggjandi yfirlýsingu sýslumanns.  Raunverulegt eða yfirvofandi tjón sé skilyrði lögbanns samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Sé engin sönnun um slíkt lögð fram með lögbannsbeiðni beri að hafna henni. Umrætt vefsvæði hafði verið starfrækt í um það bil tvö og hálft ár þegar lögbanns var krafist og hefðu gerðarbeiðendur haft um það fulla vitneskju. Það bendi til þess að veruleg réttarspjöll hafi ekki vofað yfir stefnanda eða gerðarbeiðendum hefðu þeir kosið leita dóms um kröfu sína. Ennfremur sé dregin í efa aðferðin við að reikna út meint tjón stefnanda og annarra gerðarbeiðenda. Gögn um hagnað stefnanda eða rétthafa fyrir og eftir tilkomu www.torrent.is séu ekki meðal þeirra gagna sem stefnandi kaus að leggja fram og kunni að vera að það sé vegna þess að þær tölur bendi alls ekki til þess að tjón sé fyrir hendi eða yfirvofandi. Að mati stefndu er sala kvikmynda og tónlistar á Íslandi ekki minni eftir tilkomu www.torrent.is. Tengsl milli skráardreifinga á Internetinu, jafnvel ólögmætum dreifingum á höfundaréttarvörðu efni, og tekjutaps rétthafa þeirra séu einfaldlega ekki á þann veg sem stefnandi heldur fram. Hagfræðingar hafi sett fram kenningar um að eftirspurn eftir niðurhlöðnu efni dragi að mjög litlu eða engu leyti úr eftirspurn eftir aðgangsmiðum að kvikmyndum, eintökum af geisladiskum eða öðrum þeim vörum sem rétthafar selja. Í sumum tilvikum sé jafnvel talið að útbreiðsla efnis með skráarskiptum þjóni þeim tilgangi að auka eftirspurn eftir vöru rétthafa á sama hátt og auglýsingar eða góð umræða. Þeirri fullyrðing stefnanda að í hvert skipti sem einhver hlaði niður eintaki af höfundaréttarvörðu efni tapi rétthafi tekjum af því er því mótmælt sem órökstuddri og rangri. Hið raunverulega orsakasamband sé bæði flóknara og margbrotnara og alls óvíst að það sé viðkomandi rétthafa í óhag. Því verði fullyrðing um annað, algerlega án rökstuðnings eða sannana, ekki notuð sem grundvöllur skaðabótakröfu eða lögbanns. Kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu verði auk þess hafna vegna þess að meint tjón sé ekki tengt við athæfi stefndu. Stefnandi leggi fram gögn sem eigi að sýna að þriðju aðilar (notendur vefsvæðisins) noti umrætt vefsvæði til þess að brjóta gegn höfundarétti félagsmanna stefnanda. Hvergi komi hins vegar fram hvernig þær athafnir þriðju aðila baka stefnda skaðabótaábyrgð. Virðist sem stefnandi byggi ábyrgð stefndu á einhverskonar hlutlægri sakarreglu án þess að færa rök fyrir henni. Ákvæði 8. gr. höfundalaga eigi engan veginn við í þessu máli eins og áður sagði.

Þá byggja stefndu á því að skilyrði lögbanns hafi að öðru leyti ekki verið fyrir hendi. Stefnandi hafi haft öll tækifæri til að leita réttar síns á þann hátt sem ylli minni röskun á starfsemi stefnda Istorrent ehf. Honum hafi staðið opinn sá möguleiki að krefjast skaðabóta fyrir dómi eða einfaldlega að vinna að því með stefnda Istorrent ehf. að koma í veg fyrir meint brot gegn höfundarétti. Ekkert sé komið fram um það hvers vegna það hafi ekki talist nægileg trygging á réttindum rétthafa að tilkynna um þau til Istorrent ehf. og láta fjarlægja höfundaréttarvarið efni. Stefndu hefðu samþykkt kröfu gerðarbeiðenda, þar á meðal stefnanda, að þessu leyti við lögbannsgerðina, það er að reynt yrði að koma í veg fyrir að notendur www.torrent.is fengju aðgang að og deildu sín á milli höfundaréttarvörðu efni án leyfis rétthafa. Fyrir liggi að það hafi áður nægt til þess að rétthafar nytu verndar fyrir ólögmætri dreifingu. Leiði þetta eitt og sér til þess að skilyrði 24. gr. laga um kyrrsetningu og lögbann fyrir kröfu um staðfestingu á þeirri lögbannsgerð sem málið tekur til séu ekki uppfyllt, sbr. 1. töluliður 3. mgr. 24. gr. laganna. Stefndu benda ennfremur á ákvæði  2. töluliðar 3. mgr. sömu greinar og þann mikla mun sem hér sé á hagsmunum málsaðila. Stefnandi hafi haft marga aðra valkosti til þess að vernda þau réttindi sem um ræðir og ekkert liggi fyrir sem bendi til þess að hann hefði orðið fyrir verulegum réttarspjöllum ef hann hefði nýtt sér aðrar leiðir. Með lögbanni sé hins vegar öll starfsemi stefnda Istorrent ehf. hindruð og fyrirtækinu gert illmögulegt að standa straum af kostnaði við viðhald tækjabúnaðar. Með lögbanni sé augljóslega vegið að tilvistarrétti stefnda Istorrent ehf. og verði að telja að hagsmunir félagsins vegi þyngra en hagsmunir stefnanda að teknu tilliti til þessa. Lögbannskrafan sé einnig of víðtæk, en nægilegt hefði verið til að stöðva hið meinta ólögmæta athæfi að lögbann næði yfir gagnabeininn sjálfan. Ónauðsynlegt sé að krefjast þess að lögbann sé sett á alla starfsemi vefsvæðisins þar sem ekkert liggi fyrir um að þeir hlutar starfseminnar séu til þess fallnir að valda gerðarbeiðendum réttarspjöllum.

Stefndu halda því loks fram að við framkvæmd lögbanns hafi verið brotið gegn rétti þeirra. Þannig hafi stefndu ekki verið gefinn nægilegur tími til þess að kynna sér framlögð gögn og þannig gert óhægt um vik að taka til varna gegn kröfu stefnanda og annarra gerðarbeiðenda um lögbann. Lögbannsbeiðnin hafi verið tekin fyrir fyrirvaralaust og stefndu einungis verið gefinn klukkustundar frestur til að kynna sér þau fjölmörgu gögn sem gerðarbeiðendur lögðu fram. Með þessu hafi andmælaréttur stefndu verið skertur og beri dómstólum þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu stefnanda staðfestingu á lögbannsgerðinni. Rök þau sem færð hafi verið fram fyrir flýtinum standist ekki nokkra skoðun.

Krafa stefndu um skaðabætur úr hendi stefnanda er á því byggð að lögbann á starfsemi stefnda Istorrent ehf. hafi skiljanlega valdið miklum kostnaði og tekjutapi. Öll starfsemi félagsins liggi niðri og þar sem frjáls framlög, vefverslun og auglýsingasala séu helstu tekjulindir félagsins sé það sérstaklega viðkvæmt fyrir slæmri umfjöllun í fjölmiðlum. Erfitt sé að meta tjón ef lögbannið veldur því að traust gagnvart fyrirtækinu tapast og hætta sé á að langt lögbann geti valdið varanlegu tjóni á rekstrarmöguleikum vefsvæðisins. Internetið sé vaxandi atvinnuvegur í þjóðfélaginu og jafnvel vefsíður sem upphaflega er stofnaðar í öðrum tilgangi geti haft miklar tekjur af auglýsingasölu. Enda þótt Istorrent ehf. hafi ekki verið stofnað í hagnaðartilgangi hafa vinsældir vefsíðunnar www.torrent.is verið slíkar að nýlega hafi þótt ástæða til þess að hefja sölu á auglýsingum. Þar sem notendur að vefsvæðinu séu yfir 26.500 og umferð um það nái að sögn talsmanns eins gerðarbeiðanda í sumum tilvikum allt að 75% af innanlandsumferð vefsins á Íslandi megi ætla að auglýsingar þar séu bæði vinsælar og tekjur af þeim miklar. Skaðabótakrafa stefndu sé því ekki einungis grundvölluð á þeim beina kostnaði sem þeir hafa orðið fyrir heldur einnig þeim tekjum sem þeir verða af og kunna að verða af í framtíðinni. Langtímaáhrif þess að keppinautar geti náð forskoti séu illmælanleg og ljóst megi vera að fjölmiðlaumfjöllun stefnanda hafi einnig verið til þess fallin að skaða lánstraust og viðskiptavild stefnda Istorrent ehf. Einnig sé um að ræða mikinn miska fyrir aðstandendur félagsins sem ásakaðir séu um glæpi án þess að fótur sé fyrir slíkum fullyrðingum. Fjölmiðlaumfjöllun hafi sérstaklega orðið til þess að skaða mannorð stefnda Svavars og atvinnumöguleika hans í framtíðinni. Þá hafi hann orðið fyrir launamissi.

IV.

1.

Svo sem fram er komið er mál þetta höfðað til staðfestingar á lögbanni, sem stefnandi fékk 19. nóvember 2007 lagt við því að stefndu „starfræki vefsíðuna www.torrent.is sem gerir notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að“. Jafnframt og í samræmi við 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er krafist dóms um þau réttindi sem stefnandi leitaði fyrir sitt leyti verndar á til bráðabirgða með lögbanni. Loks er gerð krafa um viðurkenningu á bótaskyldu.

Stefnandi og þrenn önnur félagasamtök, Samtök myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagið–SÍK og Félag hljómplötuframleiðenda, stóðu að beiðni um framangreint lögbann. Máli sem þessi fjögur samtök höfðuðu til staðfestingar á lögbanninu og til viðurkenningar á þeim réttindum sem lögbannið tók til var vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 27. mars 2008. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar, sem með dómi sínum 8. maí 2008 vísaði kröfum stefnanda frá héraðsdómi. Kröfum annarra stefnenda var á hinn bóginn vísað frá Hæstarétti. Stefnandi höfðaði í kjölfar þessa það mál sem hér er til úrlausnar. Stendur hann þannig einn að kröfu um staðfestingu á lögbanni og leitar einn dóms um réttindi sem því var til bráðabirgða ætlað að vernda. Kröfugerð hans í málinu er þó einskorðuð við hagsmuni umbjóðenda hans, svo sem rakið hefur verið. Þannig tekur hún í þeim búningi einvörðungu til hljóð- og myndefnis sem hefur að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að. Þessa hagsmuni eiga umbjóðendur stefnanda ekki óskipt með öðrum. Að þessu virtu verður ekki fallist á það með stefndu að ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standi því í vegi að stefnandi geti einn leitað dóms um þá hagsmuni sem kröfugerð hans felur í sér og sem telja verður að sé með nægilega skýrum hætti bundin við hann einan og umbjóðendur hans.

Að framangreindu sögðu reynir í málinu á það álitaefni hvort og þá með hvaða hætti íslensk lög mæli fyrir um ábyrgð milligönguaðila þegar höfundaréttarvörðu efni er dreift með rafrænum hætti á alnetinu án þess að fyrir liggi samþykki rétthafa. Í grundvallar­atriðum er málatilbúnaður málsaðila byggður á mismunandi afstöðu til þess hvort og þá hvernig ákvæði höfundalaga nr. 73/1972, og eftir atvikum óskráðar reglur skaða­bótaréttar, leysa úr því álitaefni. Þá er vísað af hálfu stefnanda til hlut­deildarákvæðis 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því haldið fram að það eigi hér við beint eða fyrir lögjöfnun.

2.

Ágreiningur málsaðila snýr svo sem fram er komið að starfrækslu vefsvæðisins torrent.is sem byggir á svonefndri BitTorrent tækni og flokkast undir svokallað jafningjanet. Ekki verður séð að um ágreining, sem máli skiptir, sé að ræða milli stefnanda og stefndu um hvernig BitTorrent tæknin virkar, né hvernig virkni vefsvæðisins torrent.is var háttað. Rétt þykir þó að fara hér um þetta nokkrum orðum.

BitTorrent tæknin er vel þekkt aðferð til skráarskipta og hefur verið nýtt í fjölmörg ár, enda tæknilega mikil framför frá hefðbundnum skráarskiptum þar sem margir reyna að niðurhala skrám frá sama netþjóninum á sama tíma. BitTorrent tæknin virkar þannig að setja þarf upp svokallaðan leiðarþjón (stundum nefndur gagnabeinir) sem er forsenda allra samskipta í jafningjanetinu. Þar geta netnotendur, í gegnum vefsíðu, nálgast og hlaðið upp svokölluðum leiðarvísi (torrent skrá), stundum kallað tilvísunarskrá eða deiliskrá. Leiðarvísirinn er tilvísun í hvernig nálgast má ákveðna gagnaskrá sem staðsett er hjá öðrum notendum. Með aðstoð BitTorrent tækninnar geta notendur þannig hlaðið niður skrám sem geymdar eru hjá öðrum notendum með aðstoð leiðarþjónsins.

BitTorrent leiðarþjónar eru vefsvæði þar sem umræddir leiðarvísar eru hýstir og leiðbeina notendum um hvaða skrár eru í boði hjá öðrum notendum til niðurhals. Leiðarþjónar eru oftast gagnagrunnstengd vefsvæði þar sem búið er að byggja inn fjölbreytilega virkni eins og utanumhald um notendur og skráningu þeirra, flokkun og birtingu þess efnis sem hægt er að nálgast, auk spjallmöguleika, vefverslunar-möguleika og svo mætti áfram telja. BitTorrent leiðarþjónninn er ólíkur ýmsum öðrum tegundum skráardeilikerfa. Leiðarþjónninn hýsir þannig ekki þær skrár sem verið er að deila heldur eingöngu leiðarvísa (torrent skrá) sem innihalda meðal annars slóð að þeim skrám sem á að deila milli notenda. Leiðarþjónninn er ekki beint notaður við skráarskiptin sjálf heldur sér sérstakt BitTorrent notendaforrit sem notendur sækja á vefnum og er ótengt leiðarþjóninum um það. Fram hefur komið að forritið µtorrent (www.utorrent.com) var mikið notað til slíkra skráarsamskipta meðal notenda torrent.is vefsvæðisins. Leiðarþjónninn er miðpunktur hvers BitTorrent kerfis. Í raun getur þó notandi dreift efni sínu með torrent leiðarvísinum án aðkomu leiðarþjónsins. Til dæmis gæti notandi sent torrent leiðarvísi (sem sóttur hefur verið frá leiðarþjóninum) til annars notanda í tölvupósti eða með MSN og sá hinn sami hlaðið niður umræddri skrá með µtorrent forritinu án þess að nota leiðarþjóninn.

Á vefsvæðinu torrent.is voru eingöngu geymdar leiðarlýsingar um fjölbreytilegt efni, svo sem kvikmyndir, sjónvarpsefni, tónlist og tölvuleiki. Efnið sjálft (skrárnar) var hins vegar ekki geymt á vefsvæðinu eða netþjóninum sem því tengdist, heldur hjá notendum torrent.is, sem voru um það bil 26500 talsins þegar lögbannið tók gildi.

3.

Samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 á höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt að því með þeim takmörkunum sem í lögunum greinir. Í 3. gr. laganna er síðan mælt fyrir um einkarétt höfundar verks til að gera eintök af því og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum. Hér hefur það og sérstaka þýðingu að með 45. gr. laganna er listflytjendum veittur einkaréttur til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings og samkvæmt 46. gr. þeirra er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, óheimil án samþykkis framleiðanda uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd.

Þegar tekin skal afstaða til ábyrgðar samkvæmt höfundalögum þegar höfundaréttarvörðu efni er dreift með rafrænum hætti á alnetinu án þess að fyrir liggi samþykki rétthafa ber fyrst að nefna að telja verður að réttarstaðan sé ljós þegar kemur að ábyrgð þess sem setur höfundaréttarvarið efni á netið þannig að aðrir geti nálgast það þar. Er enginn vafi á því að með slíkri athöfn er brotið gegn framangreindum einkarétti höfundarins og eftir atvikum listflytjanda, sbr. ennfremur 2. gr. höfundalaga og lög nr. 9/2006 um breyting á þeim, og fer um refsi- og bótaábyrgð vegna þess eftir 54. gr. og 56. gr. höfundalaga. Á hinn bóginn hefur því verið haldið fram að það að hlaða niður skrá sem hefur að geyma höfundaréttarvarið efni á eigin tölvu til einkanota teljist heimil eintakagerð samkvæmt 1. mgr. 11. gr. höfundalaga. Sé slík skrá hins vegar gerð aðgengileg öðrum, til dæmis á jafningjaneti, er um skýlaust höfundaréttarbrot að ræða. Þegar kemur að hugsanlegri ábyrgð milligönguaðila er fyrst til þess að líta að þáttur hans í miðlun höfundaréttarvarins efnis verður ekki með beinum hætti felldur undir ákvæði höfundalaga. Þá kann uppbygging þess vefsvæðis sem milligöngumaður starfrækir að hafa þýðingu þegar tekin er afstaða til hugsanlegrar ábyrgðar hans, en í því sambandi kann að skipta máli hvort jafningjanetin byggi á skráardeiliforritum sem geymi þær skrár sem deilt er á netþjónum þess sem starfrækir viðkomandi þjónustu eða ekki. Loks er það svo að því er refsiábyrgð varðar að lögin hafa ekki að geyma hlutdeildarákvæði.

4.

Menntamálaráðherra hefur veitt stefnanda lögformlega viðurkenningu samkvæmt 23. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. B-deild Stjórnartíðinda nr. 215/1996, þar sem í 1. mgr. 23. gr. laganna er skilyrði að samtök annist gæslu hagsmuna fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda. Þá liggur fyrir að stefnandi hefur gert gagnkvæma samninga um hagsmunagæslu við erlend systursamtök í fjölmörgum ríkjum.

Stefnandi staðhæfir, svo sem fram er komið, að fram að því að umrætt lögbann var lagt á hafi netnotendur í umtalsverðum mæli og með aðstoð vefsvæðisins torrent.is miðlað sín í milli hljóð- og myndefni, sem hafi haft að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eigi höfundarétt að. Með vísan til framlagðra gagna, einkum þeirra sem fylgdu lögbannsbeiðni stefnanda, er fallist á það með honum að viðhlítandi stoðum hafi verið rennt undir þennan grundvöll málsóknar hans. Telur dómurinn þannig hafið yfir allan vafa að með þessum gögnum hafi nægilega verið sýnt fram á að um skjámyndir af torrent.is vefsvæðinu sé að ræða og að þær endurspegli það efni sem þar var í boði. Þarf ekki umfram þetta að taka afstöðu til umfangs þeirrar miðlunar á efni sem átt hafði sér stað þegar til lögbannsins kom. Kemur því ekki til sérstakrar skoðunar sú málsástæðu stefndu sem snýr að 61. gr. a. höfundalaga.  Þá þykja ekki vera efni til annars en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að um sé að ræða höfundaverk og listflutning sem óheimilt hafi verið að miðla með þeim hætti sem gert var án heimildar frá rétthöfum þess, svo og að slík heimild hafi almennt ekki verið fyrir hendi. Skal ennfremur um þetta vísað til 8. gr. höfundalaga og þá sérstaklega til athugasemda sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 57/1992, en með þeim var þessari grein laganna breytt í það horf sem nú er.

Samkvæmt samþykktum Istorrent ehf. 15. ágúst 2007 er tilgangur félagsins að stuðla að og hvetja til frjálsra skráarskipta með notkun BitTorrent staðalsins.

Þegar stefnandi fékk fyrir sitt leyti lagt lögbann við starfrækslu vefsíðunnar torrent.is voru í gildi skilmálar sem stefndi Istorrent ehf. hafði sett 3. október 2007 um notkun vefsvæðisins og birt þar. Í 2. gr. þeirra er farið nokkrum orðum um hýsingarstað efnis og vísast varðandi það til þess sem rakið er í kafla 2 hér að framan. Í 8. gr. skilmálanna segir svo meðal annars: „Istorrent ber ekki ábyrgð á því að ganga úr skugga um hvort einstakir notendur hafa dreifingarrétt á því efni sem þeir dreifa, enda hvílir það á hverjum og einum notanda að afla sér slíks réttar.“ Þá er í 5. gr. skilmálanna mælt fyrir um það að öllum notendum sé óheimilt að gefa upplýsingar, sem aflað er í gegnum vefsvæðið, til þriðja aðila, það er annarra en Istorrent og stjórnenda þess. Í skilmálum sem munu hafa gilt fram til 3. október 2007 var aðilum sem tengdust eða störfuðu hjá höfundarréttarsamtökum, þar á meðal stefnanda, með öllu bannaður aðgangur að vefsvæðinu. Í þeim skilmálum var þó með sambærilegum hætti og í hinum nýju skilmálum mælt fyrir um ábyrgð notenda að því er tekur til dreifingar á höfundaréttarvörðu efni.

Auk skilmála samkvæmt framansögðu setti Istorrent ehf. sérstakar reglur sem meðal annars tóku til aðgangs notenda vefsvæðisins að deiliskrám. Þær reglur sem um þetta giltu þegar lögbannið var lagt á munu hafa tekið gildi 3. október 2007. Í 3. gr. þeirra sagði svo: „1. Hlutfall hvers notanda skal reiknast með því að deila skráðu deilimagni aðgangsins með niðurhalsmagni þess. 2. Aðgangur að nýjustu deiliskránum skal stjórnast af hlutfalli viðkomandi notanda og þarf hann að bíða í ákveðinn tíma þar til hann getur byrjað að sækja eða taka þátt í dreifingu efnis. Biðin skal miðast við þann tíma frá því að deiliskráin var send inn. 1. Notendur með 0,75 eða hærra í hlutföll skulu ekki vera háðir bið. 2. Notendur frá og með 0,50 og minna en 0,75 í hlutföll skulu hafa 12 klukkustunda bið. 3. Notendur frá og með 0,25 og minna en 0,50 skulu hafa 24 klukkustunda bið. 4. Notendur með minna en 0,25 skulu hafa 36 klukkustunda bið.“ Með þeirri tilhögun sem þarna er mælt fyrir um var augljóslega verið að stuðla að því að auka framboð á aðgengilegu efni fyrir notendur vefsvæðisins, sem aftur var til þess fallið að fjölga þeim. Þá liggur það fyrir að notendur gátu með greiðslu til stefnda Istorrent ehf. leyst sig undan þeim takmörkunum á aðgangi sem í framangreindu ákvæði fólust. Við aðalmeðferð málsins gat stefndi Svavar ekki veitt upplýsingar um gjaldskrá sem að þessu laut. 

Notendum vefsvæðisins torrent.is mun hafa fjölgað jafnt og þétt meðan á starfrækslu þess stóð og er óumdeilt, svo sem fram er komið, að þeir voru um það bil 26500 þegar til lögbanns kom. Af þessu og síaukinni ásókn í þá þjónustu vefsvæðisins sem boðið var upp á höfðu rekstraraðilar þess augljósan hag, til dæmis með tilliti til sölu á auglýsingum og varningi sem þar var boðinn til sölu. Skal að öðru leyti hvað þetta varðar vísað til þeirra sjónarmiða sem stefndu hafa sjálfir teflt fram til stuðnings bótakröfum sínum og kröfugerðar þar að lútandi.

Upplýst hefur verið að fyrirhafnarlítið var fyrir þá sem komu að starfrækslu vefsvæðisins torrent.is að kanna hvaða efni var miðlað með aðstoð þess og breytir engu í því sambandi þótt skrárnar sem það höfðu að geyma hafi ekki verið hýstar á vefsvæðinu eða leiðarþjóni þess. Stefndi Svavar hafði tæknilega og rekstrarlega umsjón með vefsvæðinu. Gat hann þannig hæglega gert sér fulla grein fyrir því hvaða efni var í boði og er mjög ótrúverðug sú staðhæfing hans að hann hafi ekki haft um það vitneskju. Á vefsíðunni var að auki greinargóð lýsing á því efni sem í boði var og það var skilmerkilega flokkað þar. Munu svokallaðir stjórnendur, sem voru starfsmenn stefnda Istorrent ehf., hafa yfirfarið allar skráarlýsingar og samþykkt þær eða hafnað þeim.

Fyrir liggur að nokkur rétthafasamtök, þar á meðal stefnandi, rituðu stefnda Svavari bréf 11. október 2006 þar sem staðhæft var að stórfelld höfundaréttarbrot hefðu verið framin af notendum vefsvæðisins torrent.is, honum væri um það kunnugt og að auki væri af hans hálfu hvatt til slíkra brota. Við þessu erindi var ekki brugðist með einum eða öðrum hætti svo séð verði.

Að öllu framangreindu virtu er það álit dómsins að þeir aðilar sem höfðu starfrækslu umrædds vefsvæðis með höndum og báru ábyrgð á því hafi búið yfir vitneskju um að það væri notað í þeim tilgangi sem málsókn stefnanda er samkvæmt framansögðu grundvölluð á. Það er jafnframt niðurstaða dómsins að nægilega sé í ljós leitt að þeir hafi, aðallega með því móti sem hér er að framan er lýst, stuðlað að því að vefsvæðið væri notað í þessum tilgangi. Þykir þannig mega leggja til grundvallar við úrlausn málsins að tilgangur með starfrækslu vefsvæðisins torrent.is hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir því að netnotendur gætu með skjótum og fljótvirkum hætti miðlað á milli sín efni sem er höfundaréttarvarið og án tillits til þess hvort tilskilin heimild til slíkrar miðlunar frá rétthafa þess væri fyrir hendi. Má enda með gildum rökum halda því fram að þörf fyrir þjónustu af þessu tagi helgist aðallega af því að hægt sé án kostnaðar og í öllu falli án endurgjalds til rétthafa að nálgast efni sem notandi ætti að öðrum kosti ekki rétt til aðgangs að án samþykkis rétthafans eða sérstakrar greiðslu til hans og að í þessu horfi miði þessi þjónusta þannig aðallega að því að sniðganga lögvarða hagsmuni rétthafa höfundaréttarvarins efnis í þágu notenda hennar og þeirra sem hana veita. Er og í þessu sambandi til þess að líta að vart verður séð að menn geti yfir höfuð haft teljandi hag af því að halda úti vefsvæði sem einvörðungu er ætlað að gera notendum kleift að miðla á milli sín annars konar efni og að ólíklegt sé að í slíku tilfelli geti verið um fjárhagslegan ávinning að ræða.

5.

Stefndu byggja sýknukröfu sína meðal annars á því að hvað sem líði ábyrgð þeirra á grundvelli höfundalaga leiði ákvæði laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu til þess að engum kröfum verði með réttu beint að þeim þrátt fyrir að notendur vefsvæðisins torrent.is kunni að hafa notað það til miðlunar á höfundaréttarvörðu efni án heimildar rétthafa. Með lögunum skyldi tekin upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum.

Í 2. gr. tilvitnaðra laga er rafræn þjónusta skilgreind á þann veg að um sé að ræða þjónustu sem almennt er veitt gegn greiðslu, úr fjarlægð, með rafrænum hætti að beiðni þjónustuþega. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 30/2002 er þó tekið fram að þjónusta sem ekki er veitt gegn endur­­gjaldi frá þjónustuþega geti fallið undir hugtakið, enda feli hún í sér atvinnu­starfsemi. Þannig geti þjónusta, sem feli í sér upplýsingagjöf sem fjármögnuð er með auglýsingum, fallið undir hugtakið. Einnig geti þjónusta sem felst í leit að gögnum eða aðgengi að þeim talist til rafrænnar þjónustu, jafnvel þótt sá sem biður um leitina eða aðgengið greiði ekki fyrir þjónustuna. Þessu næst segir svo í athugasemdunum: „Samkvæmt þessu telst eftirtalið til rafrænnar þjónustu, enda felur hún í sér atvinnu­starfsemi: upplýsingaþjónusta á netinu, aðgangsþjónusta á netinu, flutningur gagna um netið, hýsing gagna, SMS-skilaboð, WAP-þjónusta og leitarþjónusta á netinu.“ Með þjónustuþega er samkvæmt 2. gr. laganna átt við einstakling eða lögpersónu sem í atvinnuskyni eða í öðrum tilgangi nýtir sér rafræna þjónustu, en þjónustuveitandi er einstaklingur eða lögpersóna sem lætur í té rafræna þjónustu.

Samkvæmt því sem að framan er rakið getur það fallið undir hugtakið rafræn þjónusta í merkingu laga nr. 30/2002 þegar í atvinnustarfsemi er veitt þjónusta, úr fjarlægð, sem felur í sér upplýsinga- eða aðgangsþjónustu á netinu, eða flutning eða hýsingu gagna. Ekki er því fortakslaust áskilið að rafræn þjónusta sé veitt „gegn endur­­gjaldi“ til að lögin eigi við, sbr. orðalagið „almennt“ er veitt gegn endurgjaldi í 1. tölulið 2. gr. laganna. Að þessu sögðu og í ljósi þess sem fyrir liggur um starfrækslu vefsvæðisins torrent.is og áður er rakið lítur dómurinn svo á að ekki séu efni til annars en að telja að sú þjónusta sem er til umfjöllunar í þessu máli sé þess eðlis að hún falli sem slík undir rafræna þjónustu í skilningi laganna.

Í V. kafla tilvitnaðra laga er í ákvæðum 12.-14. gr. fjallað með ítarlegum hætti um takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda vegna „miðlunar“, „skyndi­vistunar“ og „hýsingar“. Í 14. gr. er sérstaklega fjallað um takmörkun ábyrgðar vegna hýsingar. Er í 1. mgr. greinarinnar mælt fyrir um það að þjónustuveitandi sem hýsir gögn sem látin eru í té af þjónustuþega beri ekki ábyrgð á þeim að því tilskildu að hann fjarlægi þau eða hindri aðgang að þeim eftir að hann hefur fengið vitneskju um að sýslumaður hafi lagt lögbann við hýsingu gagnanna eða dómur hafi fallið um brottfellingu þeirra eða hindrun aðgangs að þeim. Hið sama á við ef þjónustuveitandi fær tilkynningu um meint brot gegn ákvæðum höfundalaga, en í 15. gr. laganna er tíundað hvernig slík tilkynning skal úr garði gerð. Í 2. mgr. 14. gr. er síðan mælt fyrir um það að ákvæði 1. mgr. um takmörkun ábyrgðar gildi ekki þegar þjónustuþegi kemur fram í umboði eða undir stjórn þjónustuveitanda. Í inngangskafla almennra athugasemda sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 30/2002 segir svo um ábyrgð milligönguaðila: „Til að eyða lagalegri óvissu og til að tryggja samræmi á milli aðildarríkja er kveðið á um takmörkun á ábyrgð þjónustuveitenda sem eru milligönguaðilar, þ.e. þeirra sem veita aðgang að fjarskipta­neti, miðla gögnum um fjarskiptanet eða hýsa gögn sem þjónustuþegi lætur í té. Kveðið er á um þá meginreglu að milligönguaðilar skuli ekki bera ábyrgð á innihaldi þeirra gagna sem þeir hýsa eða miðla, nema að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, svo sem vitneskju um gögnin.“ Í athugasemdum við V. kafla frumvarpsins er meðal annars mælt fyrir um það að takmörkun ábyrgðar þjónustuveitanda nái til innihalds þeirra gagna sem hann miðlar, vistar með skyndivistun eða hýsir og að takmörkunin taki bæði til refsi­ábyrgðar og skaðabótaábyrgðar. Þá segir meðal annars svo í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins: „Tak­mörkun ábyrgðar samkvæmt greininni er háð því að þjónustuveitandi fjarlægi gögn eða hindri aðgang að þeim án tafar í tilteknum tilvikum. Í greininni hefur verið tekið tillit til þeirra hagsmuna sem vegast á í þessu sambandi, annars vegar tjáningarfrelsis og frekari þróunar rafrænnar þjónustu og hins vegar mikilvægis þess að koma í veg fyrir útbreiðslu ólögmætra gagna á skilvirkan hátt. Í fyrsta lagi skal þjónustuveitandi fjarlægja gögn eða hindra aðgang að þeim ef hann hefur fengið vitneskju um að sýslumaður hafi lagt lögbann við hýsingu gagnanna eða dómur hafi fallið um brottfellingu þeirra eða hindrun aðgangs að þeim. Í þeim tilvikum hefur farið fram lögformleg sönnun á ólögmæti gagna fyrir dómi eða sýslumanni og því brýnt að koma í veg fyrir útbreiðslu þess. Aðilum ætti einnig að vera hægt um vik að tilkynna við­komandi þjónustuveitanda um úrlausn dómstóla eða sýslumanns og stuðla þannig að vitneskju hans. Í öðru lagi eru skilyrði takmörkunar á ábyrgð vegna meintra brota gegn ákvæðum höfundalaga þau að þjónustuveitandi fjarlægi gögn eða hindri aðgang að þeim þegar hann hefur fengið tilkynningu skv. 15. gr. frumvarpsins. Með broti gegn ákvæðum höfundalaga er bæði átt við brot gegn höfundarétti, t.d. 3. og 4. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, og brot gegn ákvæðum sömu laga um svokölluð grann­réttindi, þ.e. réttindi listflytjenda, hljómplötuframleiðenda og útvarpsstöðva, sbr. V. kafla laganna. Minnt er á að nýlega var sett á vegum Evrópusambandsins tilskipun um höfundarétt í upplýsingasamfélagi (tilskipun 2000/29/EB).“

Ábyrgðarleysi þjónustuveitanda samkvæmt lögum nr. 30/2002 er samkvæmt framansögðu bundið skilyrðum. Ekki er að öllu leyti kveðið á um þau í texta laganna. Við það sem að framan er rakið skal því bætt að í formálsgrein 44 við tilskipun 2000/31/EB segir svo: „Þjónustuveitandi, sem af ásettu ráði á samstarf við þann sem þiggur þjónustu hans um ólöglegt athæfi, gengur lengra en hrein áframmiðlun og sjálfvirk, millistigs- og tímabundin geymsla heimila og þar af leiðandi eiga undanþágur frá ábyrgð, sem gilda um þessa starfsemi, ekki við um hann.“ Þá er kveðið á um frekari skilyrði í formálsgrein 42. Er í raun ekki ágreiningur um það á milli aðila að þau skilyrði fyrir ábyrgðarleysi sem í þessum formálsgreinum felast taki til þess ágreinings sem hér er til úrlausnar, en þá greinir hins vegar á um þýðingu þeirra.

Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að sú þjónusta sem er til umfjöllunar í þessu máli sé þess eðlis að hún falli sem slík undir rafræna þjónustu í skilningi laga nr. 30/2002. Út frá orðalagi ákvæða í V. kafla laganna verður ekki með afdráttarlausum hætti ályktað á þann veg að þau skilyrði sem þar eru sett fyrir takmörkun ábyrgðar milligönguaðila séu ekki uppfyllt að því er umrædda þjónustu varðar. Með vísan til þess sem að framan er rakið lítur dómurinn á hinn bóginn svo á að takmörkun ábyrgðar milligönguaðila samkvæmt lögunum sé í reynd og eðli máls samkvæmt háð því skilyrði meðal annars að með þjónustu hans sé ekki gagngert stuðlað að því að brotið sé gegn lögvörðum rétti höfunda og listflytjenda samkvæmt höfundalögum. Að þessu virtu og í ljósi alls þess sem rakið er í kafla 4 hér að framan er það niðurstaða dómsins að sú takmörkun á refsi- og bótaábyrgð sem í tilvitnuðum lagaákvæðum felst geti ekki átt við um starfrækslu vefsvæðisins torrent.is fram til þess tíma er til lögbanns kom. Er þeirri málsvörn stefndu sem reist er á lögum nr. 30/2002 þannig hafnað og breytir þá engu það ákvæði um ábyrgðarleysi sem mælt var fyrir um í skilmálum stefnda Istorrent ehf. frá 3. október 2007 og eldri skilmálum um sama efni, sem áður er gerð grein fyrir.          

6.

Svo sem fram er komið er um skýlaust höfundaréttarbrot að ræða samkvæmt höfundalögum þegar höfundaréttarvörðu efni er dreift með rafrænum hætti á alnetinu án þess að fyrir liggi samþykki rétthafa þess. Slíka háttsemi er vissulega hægt að stunda án þeirrar tækni sem starfræksla vefsvæðisins torrent.is studdist við. Enda þótt ábyrgð á höfundaréttarbrotum af þessu tagi sé fyrst og fremst þeirra sem stunda svokallað upphal, það er þeirra sem setja höfundaréttarvarið efni á netið þannig að aðrir geti nálgast það þar, verður með engu móti litið svo á að aðrir geti ekki borið bótaábyrgð vegna þeirrar ólögmætu dreifingar á höfundaverkum og listflutningi sem í þessu felst. Er í málinu sérstaklega til þess að líta að með starfrækslu umrædds vefsvæðis og tæknilegri uppbyggingu þess var því komið til leiðar með markvissum hætti að greið og umfangsmikil skráarskipti með höfundaréttarvarið efni gætu farið fram. Verður þeim með tilliti til þessa í engu jafnað við þá möguleika á dreifingu efnis sem fram getur farið án þess að þessi tækni komi til.

Það er ein af meginreglum skaðabótaréttar utan samninga að óskipt ábyrgð getur komið til óháð því hversu stóran þátt hver tjónvaldur á í bótaskyldu atviki. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti að því virtu sem greinir í kafla 4 hér að framan er það niðurstaða dómsins að með því að starfrækja vefsvæðið torrent.is í þeirri mynd sem gerð hefur verið grein fyrir í forsendum þessa dóms hafi þeir sem ábyrgð báru á starfsemi þess átt beinan þátt í því að stuðla að framangreindum brotum notenda vefsvæðisins og þannig með virkri aðild bakað sér bótaskyldu á grundvelli almennu skaðabótareglunnar gagnvart þeim rétthöfum höfundaréttarvarins efnis sem þau tóku til.

Stefndu hafa teflt fram þeirri vörn í málinu að hvað sem mögulegri bótaskyldu líður liggi ekki fyrir að félagsmenn stefnanda og aðrir umbjóðendur hans hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirrar dreifingar á höfundaréttarvörðu efni sem hér er slegið föstu að hafi átt sér stað. Með þeirri háttsemi var farið á svig við lögvarða hagsmuni umbjóðenda stefnanda og er engin ástæða til að ætla að fjárhagslegir hagsmunir þeirra séu þar undanskildir. Enda þótt ekkert liggi fyrir um umfang þess tjóns sem af þessu hlaust og að þessu sögðu kemur framangreind málsvörn stefndu ekki til frekari álita við úrlausn málsins.

7.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Dómurinn telur með vísan til þess sem rakið hefur verið að þessi lagaskilyrði hafi verið uppfyllt þá er lögbann það sem um ræðir í málinu var lagt á. Það er sömuleiðis álit dómsins að ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna hafi ekki staðið lögbanni í vegi. Loks telur dómurinn að ekkert hafi komið fram sem gefi ástæðu til að ætla að slíkir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá sýslumanni að ekki sé unnt að fallast á kröfu stefnanda um staðfestingu lögbannsins.

Þegar umrædds lögbanns var krafist, en beiðni um það barst sýslumanninum í Reykjavík 2. nóvember 2007, var stefndi Svavar Lúthersson rétthafi lénsins torrent.is samkvæmt rétthafaskrá Internet á Íslandi hf., sem annast skráningu og stjórnun á þjóðarléninu .is. Var aðild hans að lögbanninu skýrð með vísan til þessa og þess að samkvæmt reglum Internet á Íslandi ehf. bæri rétthafi léns ábyrgð á að notkun þess væri í samræmi við gildandi lög og reglur á hverjum tíma. Af hálfu stefnda hefur þess ekki verið andmælt sérstaklega, en vísað til þess að lénið hafi verið skráð á nafn stefnda Istorrent ehf. 16. nóvember 2007, það er þremur dögum áður en til lögbanns kom. Um aðild félagsins að kröfu um lögbann sagði í lögbannsbeiðni að starfræksla vefsvæðisins torrent.is væri í höndum þess og hefði verið það frá því í ágúst 2007. Í greinargerð er komist svo að orði að félagið hafi „rekið samfélagið Istorrent og vefsíðuna www.torrent.is  frá október 2007“, en að hún hafi fram að því og frá árinu 2005 verið rekin af nokkrum einstaklingum, þar á meðal stefnda Svavari. Svo sem áður er getið verður við það að miða að hann hafi  jafnan haft tæknilega og rekstrarlega umsjón með vefsvæðinu.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og að virtum þeim gögnum sem fyrir liggja um þau brot gegn lögvörðum hagsmunum umbjóðenda stefnanda sem leiddu til þess að lögbanns var krafist og á það fallist af sýslumanni er það mat dómsins að stefnandi hafi með réttu beint kröfu sinni um lögbann og staðfestingu þess að stefndu báðum, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Staðfestingarkrafa stefnanda tekur samkvæmt orðanna hljóðan til  höfundarréttarvarins hljóð- og myndefnis sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að. Dregur kröfugerðin að þessu leyti dám af kröfugerð stefnanda og þriggja annarra höfundaréttarsamtaka sem aðild áttu að lögbanninu. Þessa kröfu stefnanda er nú nærtækt og eðlilegt að skýra á þann veg í ljósi aðildar að staðfestingarmálinu að í hún taki með réttu til höfundaréttarvarins hljóð- og myndefnis sem hefur að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að. Með þessari athugasemd og vísan til annars þess sem hér að framan greinir, svo og 1. og 2. mgr. 41. gr. höfundalaga, er krafa stefnanda um staðfestingu lögbannsins tekin til greina með þeim hætti sem hún er fram sett.

8.

Í málinu hefur stefnandi uppi þá kröfu að stefndu verði bannað með dómi að gera notendum vefsíðunnar www.torrent.is kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem hefur að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarétt að án samþykkis rétthafa.

Niðurstaða dómsins að því er tekur til kröfu stefnanda um staðfestingu á lögbanni er samkvæmt framansögðu á því byggð að fyrir hafi legið þá er til þess kom að með tilgreindum hætti hafi starfræksla vefsvæðisins torrent.is falið í sér brot gegn lögvörðum hagsmunum umbjóðenda stefnanda. Með því að starfrækja vefsvæðið í óbreyttri mynd væri þessum brotum haldið áfram. Það að halda út vefsvæði sem byggir á þeirri tækni sem hér er stuðst við nægir ekki eitt og sér til þess að um slíkt brot geti verið að ræða. Nægir þar um að líta til takmarkana á ábyrgð samkvæmt IV. kafla laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, sem fjallað er um í kafla 5 hér að framan. Í þessu felst svo sem áður er fram komið að ákveðnar aðstæður þurfa að vera fyrir hendi til þess að milligöngumaður í skilningi laganna geti ekki með réttu borið fyrir sig ákvæði um takmörkun á ábyrgð sinni samkvæmt þeim. Er þannig að meginstefnu til gengið út frá því í lögunum að ábyrgð milligönguaðila, jafnt fébóta- og refsiábyrgð, sé takmörkuð og að sérstakar aðstæður þurfi að vera fyrir hendi til þess að þær takmarkanir geti ekki átt við. Af þessu leiðir að yrði framangreind krafa stefnanda tekin til greina og með því girt fyrir að stefndu gætu haldið úti vefsvæði sem gerir þau skráárskipti sem hún tekur til möguleg væri í engu tekið tillit til þess möguleika að starfrækslu þess væri í raun þann veg háttað að reglur um takmörkun ábyrgðar, með þeim réttaráhrifum sem því eru samfara, sbr. einkum 15. gr. tilvitnaðra laga, ættu fyllilega við um hana. Í þessu ljósi hefur stefnandi ekki afmarkað viðurkenningarkröfu sína, sbr. 36. gr. laga nr. 31/1990, á þann veg að taka megi hana til greina. Er því óhjákvæmilegt að sýkna stefndu af henni.

9.

Sú krafa stefnanda sem snýr að skaðabótum er viðurkenningarkrafa. Samkvæmt orðum sínum tekur hún til þess að viðurkennd verði bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda. Af málatilbúnaði stefnanda er á hinn  bóginn ljóst, svo sem rakið hefur verið, að krafan er sett fram í þágu umbjóðenda hans og vegna tjóns sem þeir hafi orðið fyrir.

Í dómi Hæstaréttar 6. nóvember 2008, sem gekk vegna úrskurðar héraðsdóms um frávísun á kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns, segir meðal annars að stefnandi geti átt í eigin nafni aðild fyrir dómi að kröfum er lúta að vernd hagsmuna höfunda sem tengst geta greiðslum fyrir nýtingu á höfundarétti, þar með talið um lögbann og staðfestingu á því, enda hafi höfundar veitt samtökunum umboð til slíkrar hagsmunagæslu. Þá er í dóminum vísað til þess að stefnandi hafi lagt fram í málinu umboð frá rúmlega 150 félagsmönnum og að í þeim öllum sé stefnanda veittur réttur til málshöfðunar til verndar höfundarétti. Var með vísan til þessa og orðalags umboðanna hrundið ákvæði hins kærða úrskurðar um að vísa frá dómi kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns. Í dómi Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 194/2008 kemur fram að þessi málshöfðunarréttur stefnanda geti sætt takmörkunum þegar um er að ræða kröfur sem telst af sérstökum ástæðum óheimilt að sækja á grundvelli umboðs af þessu tagi, svo sem finna megi dæmi um í dómi Hæstaréttar 1997 á blaðsíðu 2691 í dómasafni, en þar var um miskabótakröfu að ræða.

Stefnandi hefur samkvæmt framansögðu heimild til höfðunar máls til staðfestingar á lögbanni og aðgerða sem eru nauðsynlegur undanfari slíkrar málsóknar. Í ljósi þess sem að framan er rakið og þegar litið er til eðlis og inntaks þeirrar kröfu stefnanda sem hér er til umfjöllunar þykja rök ekki standa til annars en að hann geti með sama hætti og í skjóli málsóknarumboðs haft hana uppi í málinu.

Því hefur þegar verið slegið föstu í forsendum dóms þessa að þeir sem ábyrgð báru á starfsemi vefsvæðisins torrent.is hafi með tilgreindum hætti átt beinan þátt í því að stuðla að höfundaréttarbrotum notenda vefsvæðisins og þannig með virkri aðild bakað sér bótaskyldu á grundvelli almennu skaðabótareglunnar gagnvart þeim rétthöfum höfundaréttarvarins efnis sem þau tóku til. Stefndu hafa í málatilbúnaði sínum miðað við að stefndi Istorrent ehf. hafi haft eiginlegan rekstur vefsvæðisins með höndum frá því október 2007 og fram til þess að lögbann var lagt við starfrækslu þess, en það hafi fram að því og allt frá árinu 2005 verið rekið af einstaklingum. Ekki er um það að ræða að bótaskylda vegna höfundaréttarbrota einskorðist við tjónsatvik sem áttu sér stað eftir að stefndi Istorrent ehf. tók við rekstri vefsvæðisins. Að þessu sögðu og í ljósi þess sem fyrir liggur í málinu um aðkomu stefnda Svavars að starfrækslu vefsvæðisins torrent.is verður bótaábyrgð samkvæmt framansögðu felld á stefndu báða. Samkvæmt þessu og með stoð í framangreindri heimild stefnanda til að hafa uppi kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu í þágu umbjóðenda sinna ber að fallast á hana svo sem hún er fram sett.

10.

Það er samkvæmt öllu framansögðu niðurstaða dómsins að fallist er á kröfur stefnanda um staðfestingu lögbanns og viðurkenningu á bótaskyldu, en að sýkna verði stefndu af kröfu hans um að þeim verði bannað með dómi að gera notendum vefsíðunnar www.torrent.is kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem hefur að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarétt að án samþykkis rétthafa. Af þessari niðurstöðu leiðir að engin efni eru til að taka til greina kröfur stefndu um skaðabætur úr hendi stefnanda og er þeim því hafnað.

Samkvæmt þessum málsúrslitum og með hliðsjón af 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndu óskipt gert að greiða stefnanda hluta málskostnaðar hans. Þykir hann hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur.

Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Finnboga H. Alexanderssyni héraðsdómara og Birni Jónssyni rafmagnsverkfræðingi og tölvunarfræðingi.

D ó m s o r ð :

Lögbann, sem stefnandi, Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar, fékk 19. nóvember 2007 lagt við því að stefndu, Istorrent ehf. og Svavar Lúthersson, starfræki vefsíðuna www.torrent.is sem gerir notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að, er staðfest.

Viðurkennd er bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda.

Stefndu eru sýknaðir af framangreindri bannkröfu stefnanda.

Kröfum stefndu um skaðabætur úr hendi stefnanda er hafnað.

Stefndu greiði óskipt stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.