Hæstiréttur íslands

Mál nr. 386/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 18

 

Miðvikudaginn 18. október 2000.

Nr. 386/2000.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Sigurður Gísli Gíslason fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                                   

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en tími varðhaldsins lengdur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 16. október 2000 og krefst þess að gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila verði markaður tími allt til föstudagsins 27. október 2000 kl. 16.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Í ljósi umfangs málsins þykir mega verða við kröfu sóknaraðila um lengd gæsluvarðhaldsins, sem verður því markaður tími eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. október 2000 kl. 16.

 

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2000.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til  a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að X [...] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. október  2000 klukkan 16:00.

[...]

 

Eins og um getur í greinargerð lögreglustjóra var kærði handtekinn á Keflavíkurflugvelli með tæp 2 kg af hassi og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan.  Verður ekki séð að þetta sakarefni eitt sér gefi tilefni til að kærði verði látinn sæta gæsluvarðhaldi öllu lengur.  Hins vegar er fallist á það með lögreglu að ýmislegt það komi fram í útskriftum úr símhlustunum sem lagðar hafa verið fyrir dóminn, sem styðji grunsemdir um að kærði eigi meiri þátt í fíkniefnasmygli en hann vill vera láta.  Þá verður ekki fram hjá því litið að framburður hans hér fyrir dómi um símhlustanirnar veldur því að að hætta getur verið á að kærði torveldi rannsókn málsins, hafi hann óskert ferðafrelsi.  Það er því niðurstaða dómsins, með vísan til heimildar í a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að taka kröfu lögreglunnar til greina að öðru leyti en því að hæfilegt þykir að kærði sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 20. október nk.  kl. 16:00.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. október nk. kl. 16:00.