Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-169

B (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
A (Auður Björg Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Fjárslit
  • Óvígð sambúð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 27. desember 2022 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, til að kæra úrskurð Landsréttar 13. sama mánaðar í máli nr. 617/2022: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólks samkvæmt XIV. kafla laga nr. 20/1991. Í málinu gerir leyfisbeiðandi aðallega kröfu um að viðurkennd verði helmingshlutdeild hennar í skírri eign búsins eins og þær voru á viðmiðunardegi skipta. Þá krefst hún helmingshlutdeildar í almennum lífeyrissparnaði og séreignarsparnaði gagnaðila.

4. Með úrskurði héraðsdóms var fallist á kröfu leyfisbeiðanda um að skír eign í innbúi og þeim ökutækjum sem skráð voru á aðila á viðmiðunardegi skipta skyldu skiptast til helminga milli þeirra. Þá var fallist á kröfu hennar um hlutdeild í fasteign gagnaðila. Að öðru leyti var kröfum hennar hafnað eða vísað frá dómi.

5. Með úrskurði Landsréttar var kröfu leyfisbeiðanda um hlutdeild í innbúi vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar og öðrum kröfum hennar hafnað. Í úrskurði réttarins var vísað til þess að opinber skráning eigna hefði þýðingu við skiptingu eigna sambúðarfólks við lok sambúðar. Á leyfisbeiðanda hvíldi sönnunarbyrði um að hún hefði innt af hendi bein eða óbein framlög til eignamyndunar á sambúðartímanum enda væri sönnun í þeim efnum forsenda þess að fallist yrði á kröfur hennar. Engin gögn hefðu legið fyrir um innbú aðila og var kröfu hennar um hlutdeild í því vísað frá dómi án kröfu. Að öðru leyti var talið ósannað að hún hefði með vinnu eða á annan hátt skapað grundvöll fyrir hlutdeild í eignum sem skráðar voru á gagnaðila og kröfum hennar þess efnis hafnað.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og varði mikilsverða almannahagsmuni. Með úrskurði Landsréttar hafi verið vikið frá fordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum um eignamyndun á sambúðartíma og viðurkenndum meginreglum við skiptingu á sameiginlegu búi við slit sambúðar. Litið hafi verið fram hjá verðmæti vinnuframlags hennar á heimili og í fyrirtæki gagnaðila. Sæti úrskurður Landsréttar ekki endurskoðun standi leyfisbeiðandi uppi eignalaus og allar eignir falli til gagnaðila. Að mati leyfisbeiðanda er slík niðurstaða bersýnilega ósanngjörn.

7. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um réttarstöðu aðila við slit á óvígðri sambúð. Beiðnin er því samþykkt.