Hæstiréttur íslands

Mál nr. 288/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Lánssamningur
  • Afleiðusamningur
  • Ábyrgð
  • Prókúra


                                                                                              

Mánudaginn 12. maí 2014.

Nr. 288/2014.

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

þrotabúi Baugs Group hf.

(Erlendur Gíslason hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Lánssamningur. Afleiðusamningur. Ábyrgð. Prókúra.

L hf. lýsti kröfu við slit þrotabús B hf. á grundvelli lánssamninga, afleiðusamninga og ábyrgðarskuldbindinga. Aðila greindi ekki á um hvar skipa skyldi kröfu L hf. í réttindaröð, heldur um fjárhæð hennar. Í fyrsta lagi laut ágreiningur þeirra að því hvort einn lánssamninganna væri um lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu eða lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum. Talið var að umræddur lánssamningur væri um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og því í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Var krafa L hf. samkvæmt samningnum því einungis viðurkennd að hluta. B hf. hélt því einnig fram afleiðusamningarnir hefðu fallið niður í kjölfar bréfs skilanefndar L hf. til B hf., þar sem fram hefði komið að afleiðusamningunum yrði lokað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að efni dreifibréfsins hefði ekki haft þýðingu fyrir uppgjör gjaldmiðlaskiptasamninga aðila, enda hefðu skyldur þeirra samkvæmt skilmálum samninganna þegar fallið niður. Hvað varðaði framvirka samninga um kaup á hlutabréfum var tekið fram að þar sem ekki yrði séð að B hf. hefði boðið L hf. greiðslu vegna þeirra á gjalddögum samninganna væri L hf. heimilt að hafa uppi kröfu samkvæmt þeim á hendur B hf. Var því fallist á kröfu L hf. að þessu leyti. Þá var talið að taka bæri til greina kröfu L hf. vegna ábyrgðarskuldbindinganna vegna þess að fjármálastjóri B hf., sem hafði prókúruumboð fyrir félagið, hefði haft heimild til að skuldbinda það með því að rita undir yfirlýsingar þess efnis. Voru kröfur L hf. því einnig teknar til greina að þessu leyti.  

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2014 sem barst héraðsdómi samdægurs og réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2014 þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 24.747.409.131 króna var viðurkennd sem almenn krafa á hendur varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að krafa sín á hendur varnaraðila verði viðurkennd að öllu leyti, samtals að fjárhæð 28.626.294.481 króna. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 4. apríl 2014. Hann krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og „staðfest verði afstaða varnaraðila til umþrættra kröfuliða í kröfulýsingu sóknaraðila“. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

I

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram greinir aðila ekki á um hvar skipa skuli kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila í réttindaröð, heldur hver sé fjárhæð hennar. Nánar tiltekið lýtur ágreiningur þeirra í fyrsta lagi að fjárhæð kröfu sóknaraðila á grundvelli lánssamnings 19. desember 2007, í öðru lagi að því hvort ákveðnir afleiðusamningar séu skuldbindandi fyrir varnaraðila og í þriðja lagi hvort tilteknar ábyrgðaryfirlýsingar séu bindandi fyrir hann.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á þá niðurstöðu að lán samkvæmt áðurgreindum lánssamningi sé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og því í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Einnig að sóknaraðila hafi ekki tekist að færa sönnur á að það hafi verið til hagsbóta fyrir Baug Group hf. að binda lánið við gengi hinna erlendu gjaldmiðla, sbr. 2. gr. sömu laga. Af þeim sökum verður staðfest sú afstaða varnaraðila að viðurkenna kröfu sóknaraðila á grundvelli lánssamningsins aðeins að hluta eða sem nemur 3.322.258.542 krónum.

II

Samkvæmt gögnum málsins er krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila samkvæmt afleiðusamningum reist á fjórtán gjaldmiðlaskiptasamningum, þar sem gjalddagi var ýmist 9. eða 13. október 2008, og fimm hlutabréfasamningum með gjalddaga 1. eða 3. desember sama ár. Hinn 16. október 2008 sendi sóknaraðili dreifibréf, meðal annarra til Baugs Group hf., og er gerð  grein fyrir efni þess í hinum kærða úrskurði. Heldur varnaraðili því fram að með þessu bréfi og eftirfarandi athafnaleysi sóknaraðila hafi samningssamband aðilanna fallið úr gildi og sökum þess beri að hafna kröfu sóknaraðila á grundvelli þessara samninga.

Eins og efni dreifibréfsins 16. október 2008 var orðað gat það ekki haft neina  þýðingu fyrir uppgjör á fyrrgreindum gjaldmiðlaskiptasamningum þegar af þeirri ástæðu að samningunum skyldi samkvæmt efni sínu ljúka 9. eða 13. sama mánaðar. Þeir höfðu því runnið skeið sitt á enda þegar bréfið var sent, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. apríl 2014 í máli nr. 542/2013.

Þeir framvirku samningar um kaup á hlutabréfum, sem að framan greinir, höfðu að geyma samhljóða skilmála. Samkvæmt þeim skuldbatt sóknaraðili sig til að selja og afhenda Baugi Group hf. nánar tiltekin hlutabréf á gjalddaga samninganna, en þann sama dag bar félaginu að leggja samningsfjárhæðina inn á viðskiptareikning sóknaraðila. Uppgjör samkvæmt samningunum átti að fara fram á gjalddaga fyrir klukkan 16, en annars reiknuðust dráttarvextir á samningsfjárhæðina miðað við auglýsta dráttarvexti Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Þá var tekið fram að semja þyrfti sérstaklega með tveggja daga fyrirvara um framlengingu samnings ef þess væri farið á leit. Ennfremur voru ákvæði um hvernig fara ætti með arð af hlutafjáreign á samningstímanum og jöfnunarhlutabréf sem gefin yrðu út á því tímabili. Um vanefndir var tekið fram að hvorum aðila væri óskylt að efna skyldur sínar að því leyti sem næmi vanefnd gagnaðila. Jafnframt sagði að veruleg vanefnd samningsaðila heimilaði gagnaðila að rifta samningi einhliða og án undanfarandi tilkynningar þegar vanefnd hefði varað í tvo bankadaga. Í samræmi við þessa skilmála og að virtum lögskiptum samningsaðilanna bar Baugi Group hf. sem kaupanda að eiga frumkvæði að efndum með því að bjóða fram greiðslu af sinni hálfu og leita eftir því að fá afhent þau hlutabréf sem samningarnir tóku til. Fyrst þá bar sóknaraðila að hafa bréfin tiltæk, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 2. maí 2013 í máli nr. 630/2012. Þar sem ekki verður séð af gögnum málsins að Baugur Group hf. hafi boðið fram greiðslu á gjalddögum samninganna er sóknaraðila heimilt að hafa uppi kröfu samkvæmt þeim á hendur varnaraðila, þrátt fyrir að hafa sent félaginu fyrrnefnt dreifibréf áður en að gjalddögunum kom, enda brást félagið ekki við bréfinu á þann hátt að það liti svo á að með því væru skyldur aðila eftir samningunum niður fallnar.

Sóknaraðili hefur hér fyrir dómi lækkað kröfu sína vegna afleiðusamninganna úr 15.610.555.413 krónum í 15.610.555.143 krónur. Samkvæmt framansögðu verður hún tekin til greina.

III

Samkvæmt gögnum málsins gegndu hvorki Stefán Hilmarsson né Þórdís Jóna Sigurðardóttir starfi framkvæmdastjóra Baugs Group hf. Af þeim sökum hafði hvorugt þeirra stöðuumboð til að skuldbinda félagið eftir 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Á hinn bóginn hafði Stefáni, sem var fjármálastjóri félagsins, verið veitt prókúruumboð fyrir það. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að hann hafi á grundvelli þess umboðs haft heimild til að skuldbinda félagið með því að rita undir yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgð þess á skuldum Waage Jewellery Ltd. og Unity Investments ehf. við sóknaraðila. Þótt Stefán hafi ekki skrifað undir slíka yfirlýsingu vegna hluta af láni Arena Holding ehf. hjá sóknaraðila samkvæmt lánssamningi 5. júlí 2007, heldur Þórdís Jóna, verður talið að hann hafi veitt eftirfarandi samþykki sitt fyrir sjálfskuldarábyrgð Baugs Group hf. vegna þessa lánshluta með undirskrift sinni á viðauka við lánssamninginn 8. apríl 2008 eins og nánar er gerð grein fyrir í úrskurði héraðsdóms.

Með skírskotun til þess sem að framan greinir verður tekin til greina krafa sóknaraðila vegna ábyrgðanna þriggja, samtals að fjárhæð 5.814.595.176 krónur. Að teknu tilliti til áðurgreindra krafna sóknaraðila vegna lánssamningsins 19. desember 2007 og afleiðusamninganna nemur krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila samtals 24.747.406.861 krónu.

Rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Krafa sóknaraðila, LBI hf., á hendur varnaraðila, þrotabúi Baugs Group hf., að fjárhæð samtals 24.747.406.861 króna er viðurkennd sem krafa í búið með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. 

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2014.

Þetta mál var þingfest 26. apríl 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 28. janúar sl. Sóknaraðili er LBI hf., Álfheimum 74, Reykjavík, en varnaraðili er þrotabú Baugs Group hf., Efstaleiti 5, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þesskröfur samkvæmt kröfulýsingu, dags. 19. ágúst 2009, samtals að fjárhæð 28.626.294.481 króna verði viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti varnaraðila svo sem hér nánar greinir:

                Krafa vegna lánssamnings nr. 10454 að fjárhæð 40.781.491,37 svissneskir frankar, 2.489.774.142 japönsk jen og 2.130.414,63 evrur sem umreiknast í 7.201.143.892 krónur.

                Krafa vegna afleiðusamninga að fjárhæð 15.610.555.413 krónur.

Krafa vegna ábyrgðar auðkenndrar nr. 3328, Waage Jewellry Ltd., að fjárhæð 508.708,60 sterlingspund sem umreiknast í 80.523.484 krónur.

Krafa vegna ábyrgðar auðkenndrar nr. 8512, Arena Holding ehf., að fjárhæð 1.025.993.441 krónur.

Krafa vegna ábyrgðar vegna Unity Investments ehf. að fjárhæð 4.708.078.251 krónur.

Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað og staðfest verði afstaða hans til umþrættra kröfuliða í kröfulýsingu sóknaraðila, dags. 19. ágúst 2009. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málavextir

Almennt

Hinn 13. mars 2009 var bú Baugs Group hf. að beiðni stjórnar félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Frestdagur við gjaldþrotaskiptin er 4. febrúar 2009 en þann dag lagði félagið fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar sem var veitt með úrskurði dómsins 11. febrúar 2009.

                Tilgangur varnaraðila var samkvæmt samþykktum hans verslunarrekstur, eignaumsýsla, rekstur fasteigna, fjárfestingar í hlutabréfum og verðbréfum sem og félögum með skylda starfsemi, lánastarfsemi, fjármálaþjónusta, s.s. bankastarfsemi og tryggingastarfsemi, kaup og sala eigna og annar skyldur rekstur.

                Sóknaraðili lýsti kröfum á hendur varnaraðila með tveimur kröfulýsingum. Önnur kröfulýsingin var dagsett 19. ágúst 2009 og var móttekin af skiptastjóra varnaraðila sama dag. Þeirri kröfulýsingu var skipt upp í fimm liði. Í fyrsta lagi var lýst kröfum á grundvelli fjögurra lánssamninga, í öðru lagi kröfum samkvæmt afleiðusamningum, í þriðja lagi kröfum vegna fimm sjálfskuldarábyrgða, í fjórða lagi kröfu vegna hlaupareiknings og í fimmta lagi kröfu vegna bankaábyrgðar.

Í þessu máli er fjallað um ágreining sem reis upp um þrjú atriði. Í fyrsta lagi er ágreiningur um kröfu á grundvelli lánssamnings, sem er auðkenndur nr. 10454. Í öðru lagi deila aðilar um kröfur samkvæmt afleiðusamningum. Í þriðja lagi greinir aðila á um kröfur samkvæmt þremur ábyrgðum. Þessum ágreiningi er nánar lýst hér að neðan. Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila á kröfuhafafundi 15. september 2009. Ekki tókst að jafna ágreininginn á fundi sem var haldinn 24. október 2012 til að leysa úr ágreiningi aðila um kröfuna. Með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 11. febrúar 2013, beindi skiptastjóri varnaraðila ágreiningnum til dómsins með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Lánssamningur nr. 10454

                Varnaraðili hefur samþykkt kröfu sóknaraðila á grundvelli lánssamnings nr. 10454 sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 3.322.258.542 krónur. Sú afstaða byggir á því að lánið sé í íslenskum krónum sem hafi verið verðtryggt miðað við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Sóknaraðili hefur mótmælt þessari afstöðu og telur að um sé að ræða lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum og fjárhæð þess ásamt vöxtum umreiknuð á úrskurðardegi varnaraðila sé 7.201.143.892 krónur. Ekki er deilt um fjárhæðir.

                Umræddur lánssamningur er dagsettur 19. desember 2007. Á forsíðu samningsins er rakið að hann sé ,,ISK 7.000.000.000 Lánssamningur“. Samkvæmt grein 2.1 lofar varnaraðili að taka að láni og sóknaraðili lofaði að lána ,,fjölmyntalán að jafnvirði samtals kr. 7.000.000.000 [...], í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 30% JPY 20% CHF 30% GBP 20%“. Í greinum 2.2 og 2.3 segir að ,,fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins nema um annað sé sérstaklega samið. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Greiði [varnaraðili] afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi [sóknaraðila] á gjalddaga.“ Fram kom í grein 2.4 að varnaraðili skyldi senda sóknaraðila ,,beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skal lánið inn á“. Samkvæmt grein 2.6 skyldi við útborgun lánsins leggja einn milljarð króna inn á bankareikning varnaraðila nr. 0111-15-378010 sem var handveðsettur sóknaraðila. Samkvæmt grein 3.1 skyldi endurgreiða lánið 18 mánuðum eftir útborgunardag. Í grein 3.2 var m.a. tekið fram að varnaraðili óskaði eftir því að bankareikningur nr. 0111-26-289, sem ekki er deilt um að sé tékkareikningur í íslenskum krónum, yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum. Samkvæmt grein 3.3 var varnaraðila heimilt að greiða lánið að fullu fyrir lokagjalddaga án kostnaðar. Í grein 4.1 var mælt fyrir um að lánið bæri vexti, sem yrðu breytilegir og jafn háir LIBOR/EURIBOR/REIBOR-vöxtum, ef ein mynt lánsins yrði íslensk króna, í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,75% vaxtaálags. Í greinum 4.3, 4.4 og 4.5 eru skilgreiningar á mismunandi tegundum vaxta. Fram kemur í grein 5.1 að standi varnaraðili ekki skil á greiðslu á gjalddaga skuli hann greiða dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags. Sóknaraðili hafi um það val hvort hann krefjist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.

                Hinn 20. desember 2007 óskaði varnaraðili eftir útborgun lánsins með því að fylla út meðfylgjandi beiðni þar um. Varnaraðili óskaði þess að 6.800.000.000 króna yrðu greiddar inn á reikning félagsins nr. 111-26-289, en 200.000.000 króna inn á reikning nr. 0111-15-380414. Þann sama dag lagði sóknaraðili samtals 6.789.490.000 krónur inn á reikning varnaraðila hjá sóknaraðila nr. 111-26-289 í átta greiðslum. Í framlagðri kvittun sóknaraðila (e. ,,Settlement receipt“), dags. 20. desember 2007, sem stíluð er á varnaraðila, segir að sóknaraðili hafi greitt 11.019.233,80 sterlingspund, 38.083.000,36 svissneska franka, 2.486.039.481 japanskt jen og 22.913.889,19 evrur, og var þá búið að draga frá þóknun sóknaraðila. Samkvæmt kvittuninni voru þessar erlendu fjárhæðir seldar fyrir 6.989.490.000 krónur og sama fjárhæð greidd varnaraðila.

Afleiðusamningar

                Endanleg krafa sóknaraðila vegna uppgjörs afleiðusamninga aðila er 15.610.555.413 krónur, miðað við úrskurðardag. Varnaraðili hafnar kröfunni á þeim grundvelli að afleiðusamningar aðila hafi fallið niður og þar með skuldbindingar varnaraðila. Sóknaraðili hefur mótmælt þessari afstöðu. Ekki er deilt um fjárhæð kröfunnar eða stöðu kröfunnar sem almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Fyrir liggur að um þessi viðskipti aðila giltu „Almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf.“, sem varnaraðili undirritaði 7. maí 2004. Varnaraðili hafði stöðu viðurkennds gagnaðila í viðskiptum sínum við sóknaraðila.

                Hinn 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að taka yfir starfsemi sóknaraðila. Skipaði Fjármálaeftirlitið þá skilanefnd til að taka við stjórn sóknaraðila. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var Nýi Landsbanki Íslands hf. stofnaður og ráðstafað til hans þar tilgreindum eignum og skuldum sóknaraðila. Í ákvörðuninni var m.a. mælt fyrir um að nýi bankinn tæki við réttindum og skyldum sóknaraðila „samkvæmt afleiðusamningum“ frá klukkan 9 að morgni þess dags. Fjármálaeftirlitið felldi með nýrri ákvörðun 12. október 2008 úr gildi þann þátt í ákvörðun þess 9. sama mánaðar, sem sneri að afleiðusamningum. Þar var meðal annars tekið fram að þetta væri gert sökum þess að fyrir lægi að nýi bankinn gæti ekki komist hjá því að „vanefna skuldbindingar samkvæmt þeim samningum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum“ og yrðu því réttindi og skyldur samkvæmt þeim áfram á hendi sóknaraðila. Óumdeilt er að þessar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins tóku til afleiðusamninga málsaðila.

                Hinn 16. október 2008 sendi skilanefnd sóknaraðila dreifibréf til viðskiptavina sóknaraðila með afleiðusamninga í tilefni af framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um afleiður frá 12. október 2008. Fyrir liggur að bréfið barst varnaraðila með tölvuskeyti sama dag. Í bréfinu sagði eftirfarandi: ,,Í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins dags. 13. október 2008 liggja réttindi og skyldur vegna afleiðusamninga áfram hjá Landsbanka Íslands hf. Að óbreyttu liggur fyrir að umræddum afleiðusamningum verður lokað. Í því felst m.a. að sjóðstreymis- og gengisvarnir á lána- og eignasöfnum viðskiptavina falla niður. Í kjölfarið munu afleiðustöður í hagnaði mynda kröfu viðskiptavinar á Landsbanka Íslands hf., en tapstöður mynda kröfu Landsbanka Íslands hf. á viðskiptavini. Leitast verður við að samræma aðgerðir viðskiptabankanna til að tryggja að allir viðskiptavinir njóti sömu málsmeðferðar. Vinsamlegast sendið fyrirspurnir á afleidur@landsbanki.is.“

                Dagana 7. nóvember 2008, 2. desember 2008 og 5. janúar 2009 sendi starfsmaður varnaraðila tölvuskeyti til sóknaraðila og spurðist fyrir um stöðu gjaldmiðlaskiptasamninga. Í fyrsta skeytinu var spurt um stöðu gjaldmiðlasamninga ,,sem voru á gjalddaga 13.10. og var ekki rúllað áfram“. Í næsta skeyti, 2. desember 2008, var óskað eftir ,,stöðu skuldar/eignar“ á gjaldmiðlasamningum og framvirkum samningum miðað við gengi 30. nóvember. Starfsmaðurinn kvaðst vita að ,,þetta situr eftir í bankanum sem skuld en ég þarf að fá info um þá skuldastöðu“. Þessu skeyti var svarað samdægurs með pósti frá netfanginu afleidur@landsbanki.is og fylgdi með yfirlit yfir ,,allar afleiðustöður á Baug“ miðað við 28. nóvember sem sýndi m.a. ,,opið markaðsvirði“ og ,,heildarvirði“ hvers samnings. Fyrir alla samningana er ,,opið markaðsvirði“ og ,,heildarvirði“ sama talan og í flestum tilvikum er talan sýnd sem mínustala. Þessu síðasta skeyti svaraði starfsmaður varnaraðila með tölvuskeyti, 5. janúar 2009, og bað þá um að fá nýtt yfirlit miðað við 31. desember 2008.

                Hinn 12. febrúar 2009 sendi skilanefnd sóknaraðila bréf til varnaraðila ásamt yfirliti yfir alla afleiðusamninga málsaðila miðað við þann dag. Þar kemur m.a. fram að á öðru yfirlitinu megi sjá samninga sem ekki séu komnir á lokunardag eða verið gjaldfelldir, á hinu yfirlitinu megi sjá yfirlit yfir lokaða eða gjaldfallna samninga. Hafi varnaraðili opna afleiðu- og/eða gjaldeyrissamninga sé honum boðið að loka þeim samningum en við lokun falli samningarnir í gjalddaga og breytist í kröfur. Að öðrum kosti muni samningarnir verða gerðir upp miðað við stöðu þeirra á lokunardegi þeirra eða gjalddaga. Samningar sem þegar séu komnir í gjalddaga séu þegar orðnir að kröfum. Varnaraðila sé veittur 14 daga frestur til að ganga frá eða semja um greiðslu. Samkvæmt meðfylgjandi yfirliti var enginn samningur opinn, en samtals 19 samningar taldir upp sem gjaldfallnir.

Ábyrgðir

                Fyrsta ábyrgðin, sem er auðkennd nr. 3328, er vegna félagsins Waage Jewellery Ltd. og endanleg krafa sóknaraðila vegna þessarar ábyrgðar er 80.823.484 krónur miðað við úrskurðardag. Önnur ábyrgðin, sem er auðkennd nr. 8512, er vegna félagsins Arena Holding ehf. og endanleg krafa sóknaraðila vegna þessarar ábyrgðar er 1.025.993.441 króna. Þriðja ábyrgðin er vegna félagsins Unity Investments ehf. og endanleg krafa sóknaraðila vegna þessarar ábyrgðar er 4.708.078.251 króna. Varnaraðili hafnaði þessum kröfum á þeim grundvelli að sá sem undirritaði skuldbindingarnar fyrir varnaraðila hefði ekki haft heimild til þess að skuldbinda félagið með þeim hætti. Sóknaraðili hefur mótmælt þessari afstöðu. Ekki er deilt um fjárhæð kröfunnar eða stöðu kröfunnar sem almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Í júlí 2005 var undirritaður samningur um ádráttarlínu að fjárhæð 200.000 sterlingspund fyrir Waage Jewellery Ltd. en varnaraðili var eigandi 70% hlutafjár í félaginu. Samkvæmt samningnum var varnaraðili ábyrgðaraðili vegna skuldbindingar aðalskuldarans og náði ábyrgðin til allra efnda samningsins gagnvart sóknaraðila, þ.m.t. greiðslu höfuðstóls, vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar. Stefán Hilmarsson, fjármálastjóri varnaraðila, ritaði undir samninginn fyrir hönd varnaraðila. Skilmálum samningsins var breytt með fimm viðaukum sem voru undirritaðir af Stefáni Hilmarssyni fyrir hönd varnaraðila. Bú Waage Jewellery Ltd. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna ábyrgðarinnar er að fjárhæð 508.708,60 sterlingspund sem umreiknast samkvæmt 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í 80.523.484 krónur.

                Hinn 5. júlí 2007 var undirritaður lánssamningur á milli sóknaraðila og Arena Holding ehf. vegna láns að fjárhæð 1.100.000.000 króna en varnaraðili átti um 40% hlutafjár í félaginu. Varnaraðili gekkst undir sjálfskuldarábyrgð á 70% lánsins. Þórdís Jóna Sigurðardóttir, sem á þessum tíma gegndi starfi framkvæmdastjóra fjölmiðla- og tæknisviðs varnaraðila og sat í framkvæmdastjórn, ritaði undir fyrir hönd varnaraðila. Arena Holding ehf. var eignarhaldsfélag um eignarhluti samstæðu varnaraðila í tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækjum en sá hluti rekstrar varnaraðila var á ábyrgðarsviði framkvæmdastjóra fjölmiðla- og tæknisviðs. Hinn 18. apríl 2008 var skilmálum lánsins breytt. Stefán Hilmarsson undirritaði skilmálabreytinguna fyrir hönd varnaraðila sem sjálfskuldarábyrgðaraðila. Bú Arena Holding ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotskipta. Krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna ábyrgðarinnar er að fjárhæð 1.025.993.441 króna.

                Hinn 11. nóvember 2007 var undirritað samkomulag um sjálfskuldarábyrgð varnaraðila og FL Group hf. á skuldum samkvæmt tilteknum afleiðusamningum Unity Investments ehf. en varnaraðili átti 37,5% hlutafjár í félaginu. Félagið mun hafa verið stofnað í lok árs 2006 af varnaraðila, FL Group hf. og Kevin Stanford og runnu inn í það félag tilteknir framvirkir hlutabréfasamningar varnaraðila í félögum á Bretlandseyjum. Sóknaraðili kveður að með samkomulaginu frá 11. nóvember 2007 hafi verið fest í sessi að til framtíðar skyldi varnaraðili einungis vera í sjálfskuldarábyrgð vegna þeirra afleiðusamninga sem hann hafði ráðstafað inn í félagið. Stefán Hilmarsson undirritaði skjalið fyrir hönd varnaraðila.

                Fyrir liggur að stjórn varnaraðila veitti Þórdísi Jónu og Stefáni ekki sérstakt umboð til þess að skuldbinda varnaraðila með þessum samningum. Í öðrum tilvikum þegar varnaraðili gekkst í ábyrgð fyrir skuldbindingum annarra aðila, þ.m.t. dótturfélaga, veitti stjórn varnaraðila sérstakt umboð til slíkrar samningsgerðar, þar á meðal til Stefáns. Hinn 19 desember 2007 veitti stjórn varnaraðila Stefáni umboð til þess að undirrita lánssamning á milli dótturfélags varnaraðila, BG Holding ehf. sem lántaka, sóknaraðila sem lánveitanda og varnaraðila sjálfs sem ábyrgðaraðila. Hinn 18. mars 2008 veitti stjórn varnaraðila Stefáni umboð til þess að skuldbinda varnaraðila í samræmi við efni ábyrgðaryfirlýsingar gagnvart sóknaraðila vegna krafna samkvæmt lánssamningi á milli Daybreak Acquisitions Ltd. sem lántaka og sóknaraðila sem lánveitanda. Hins vegar liggur fyrir að Stefán hafði prókúru fyrir hönd varnaraðila.

Málsástæður sóknaraðila

Lánssamningur nr. 10454

Sóknaraðili byggir á því að lán samkvæmt lánssamningi, auðkenndum nr. 10454, sé lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum, enda sé ljóst að vilji beggja samningsaðila við samningsgerðina hafi staðið til þess að haga samningsgerðinni á þann hátt.

Við munnlegan flutning málsins vísaði lögmaður sóknaraðila til samningsfrelsis aðila. Til að komast að niðurstöðu um efni samnings aðila þyrfti fyrst að skoða texta samningsins. Sé textinn óljós verði að horfa til vilja málsaðila. Sé viðhorf þeirra óljóst verði að kanna hvernig samningurinn hafi í raun verið framkvæmdur. Samningsformið sem notað hafi verið við gerð samnings aðila sé nokkuð frábrugðið því samningsformi sem Hæstiréttur Íslands hafi fjallað um í málum nr. 155/2011 og 337/2013. Eins og í hæstaréttarmálinu nr. 155/2011 séu myntir tilteknar í prósentum og kveðið á um skuldfærslu af íslenskum reikningi. Í þessum samningi sé hins vegar ekkert ákvæði um myntbreytingu og ákvæði um dráttarvexti sé einnig öðruvísi. Allur munur á þessum samningi og þeim samningi sem á reyndi í hæstaréttarmálinu nr. 155/2011 bendi til þess að um lögmætt erlent lán sé að ræða.

Af ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2007 megi ráða að mestur hluti eigna varnaraðila hafi verið í erlendum félögum, þ.e. verðmæti í erlendri mynt. Í reikningnum segi að um áramótin 2007-2008 hafi skuldum sóknaraðila verið nokkuð jafnt skipt á milli íslenskra skulda og erlendra en þó hafi íslenskar skuldir verið um 13 milljörðum hærri en erlendar. Skuldir við sóknaraðila vegna umrædds láns hafi verið færðar sem skuldir í erlendri mynt í ársreikningnum. Hjá varnaraðila og fyrir hann hafi starfað sérfræðingar sem veittu ráðgjöf um það hvernig staðið skyldi að stýringu fjármála félagsins, s.s. með stýringu gjaldeyrisáhættu og vaxtastigs. Varnaraðili hafi notið sérfræðiaðstoðar frá Kaupþingi banka hf. við að lágmarka áhættu samstæðunnar af sveiflum á gengi gjaldmiðla. Sú ákvörðun að taka erlend lán hjá varnaraðila hafi verið hluti af þeirri stefnu sem mörkuð var að því leyti. Við stýringu á samsetningu gjaldmiðla í samstæðu varnaraðila hafi verið miðað við að umrætt lán væri í erlendum myntum eins og fram kom í ársreikningi félagsins. Þá megi ráða af kvittunum og tilkynningum sóknaraðila til varnaraðila að sóknaraðili hafi litið svo á að um erlent lán væri að ræða og varnaraðili hafi engar athugasemdir gert við það. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að samkvæmt greiðslukvittunum hefði varnaraðili greitt með sterlingspundum þann hluta lánsins sem var í sterlingspundum og að varnaraðili hafi selt sterlingspund fyrir evrur til að greiða inn á hluta lánsins í evrum.

Fallist dómurinn ekki á þetta og telji að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða byggir sóknaraðili á því að á grundvelli lokamálsliðar 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hafi verið heimilt að binda lánið við gengi erlendra gjaldmiðla og víkja þannig frá 13. og. 14. gr. sömu laga, enda verði að líta svo á að við gerð lánssamningsins hafi það verið varnaraðila til hagsbóta að lánið væri veitt með erlendum vöxtum og með verðtryggingu við erlenda gjaldmiðla. Við mat á því hvort umrædd gengistrygging teljist hafa verið til hagsbóta fyrir varnaraðila beri að líta til aðstæðna og stöðu varnaraðila þegar lánssamningurinn var gerður.

Þegar metið sé hvort slíkt lán hafi almennt verið hagstætt beri að líta til fimm ára tímabils fyrir lánveitingu þar sem lánið hafi verið veitt til fimm ára. Erlendir vextir og erlend verðtrygging hafi verið skuldurum almennt séð til hagsbóta síðustu fimm árin fyrir lánveitinguna í desember 2007. Vextir af erlendum gjaldmiðlum hafi verið lægri en íslenskir verðtryggðir eða óverðtryggðir vextir sem í boði voru og gengisstyrking íslensku krónunnar hafi í heild lækkað greiðslubyrði lána.

Verðtrygging skulda varnaraðila með tengingu við erlendar myntir hafi verið til þess fallin að minnka áhættu í rekstri varnaraðila þar sem meginhluti eigna hans voru erlendar. Lánveiting í íslenskum krónum hefði aukið verulega gjaldeyrisáhættu í rekstri varnaraðila vegna þess að gengi íslensku krónunnar hafi tilhneigingu til að sveiflast meira en aðrar erlendar myntir innbyrðis.

Afleiðusamningar

Lögmaður sóknaraðila rakti við munnlegan flutning málsins að Fjármálaeftirlitið hefði ákveðið 9. október 2008 að færa afleiður frá sóknaraðila til Nýja Landsbanka Íslands hf. Hinn 12. október sama ár hefði Fjármálaeftirlitið ákveðið að afleiður skyldu verða eftir hjá sóknaraðila. Nýi bankinn hefði því verið eigandi þeirra dagana 9. til 12. október 2008. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hefði verið skýrð 19. október sama ár. Óvissa hafi því verið til staðar þegar sóknaraðili sendi póst til m.a. varnaraðila 16. október 2008.

Við munnlegan flutning málsins sagði lögmaður sóknaraðila að í dómum Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 245/2011 og 303/2013 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að gjaldmiðlaskiptasamningar hefðu fallið niður með því að litið var svo á að ofangreint dreifibréf hefði falið í sér að sóknaraðili vildi fella niður umrædda samninga og mótaðilinn hafi samþykkt það fyrir sitt leyti.

Sóknaraðili byggir á því að atvik þess máls séu með allt öðrum hætti en í þessu máli. Í því máli hafi stefndi sent skilanefnd sóknaraðila bréf, dags. 11. nóvember 2008, þar sem hann hafi sagst líta svo á að með bréfinu frá 16. október 2008 hafi skilanefnd ákveðið í raun að efna ekki útistandandi afleiðusamninga og því hafi í raun verið um riftun að ræða og haldið fram að líta ætti svo á að samningarnir féllu niður án greiðslu. Vegna þessa hafi stefndi talið að réttarsambandi aðilanna vegna afleiðusamninganna væri að fullu lokið. Í dóminum í máli nr. 245/2011 komi fram að þessu bréfi hafi skilanefnd ekki svarað. Í dóminum í máli nr. 303/2013 komi fram að svar sóknaraðila hefði styrkt þann skilning stefnda að samningar hefðu fallið niður.

Að áliti sóknaraðila byggi niðurstaða Hæstaréttar í þessum málum á því að skilanefnd sendi tölvubréf til margra aðila í októbermánuði 2008 og að efni þess hafi verið með þeim hætti að hver móttakandi gæti lagt sinn skilning í efni þess. Stefndi þessara mála hafi lagt þann skilning í efni bréfsins að í því fælist boð um að fella niður afleiðusamninga án greiðslu og hafi komið þeim skilningi skýrt á framfæri við sóknaraðila sem ekki hafi mótmælt þeim skilningi. Það aðgerðarleysi að leiðrétta ekki rangan skilning stefnda þess máls á efni tölvubréfsins hafi girt fyrir möguleika stefnda þess máls til að rifta samningunum áður en þeir féllu í gjalddaga. Af þessum sökum hafi verið litið svo á að samningssambandið hafi fallið niður.

Öll framangreind skilyrði og atvik þurfi að vera fyrir hendi svo unnt sé að byggja niðurstöðu á sömu forsendum og gert var í dómum Hæstaréttar í málum nr. 245/2011 og 303/2013. Á tímabilinu frá 16. október 2008 til úrskurðardags varnaraðila hafi aldrei komið fram hjá varnaraðila að hann liti svo á að umrætt dreifibréf, eða eftir atvikum önnur atvik, hefðu leitt til þess að afleiðusamningar málsaðila hefðu með einhverjum hætti fallið niður án greiðslu eða slíkt stæði varnaraðila til boða. Þvert á móti hafi skuldir vegna þessara afleiðusamninga verið taldar meðal skulda varnaraðila þegar fyrirsvarsmenn hans leituðu eftir samkomulagi við lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu varnaraðila síðustu mánuði ársins 2008 og við öflun heimildar til greiðslustöðvunar á árinu 2009. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að þessar skuldir hefðu verið tilgreindar án fyrirvara. Ekki gangi upp að varnaraðili hafi ekki mátt segja frá vafa um þessa skuld. Samkvæmt þessu hafi framangreindir hæstaréttardómar ekki fordæmisgildi við úrlausn þessa máls.

Engin önnur sjónarmið eða aðrar málsástæður geti leitt til þeirrar niðurstöðu sem varnaraðili byggi afstöðu sína á. Lögmaður sóknaraðila reifaði við munnlegan flutning málsins að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 493/2013 hefði því verið hafnað að afleiðusamningar við sóknaraðila hefðu fallið niður. Í því máli hefðu engin samskipti verið milli aðila. Skiptu samskipti aðila engu máli hefðu allir afleiðusamningar fallið niður. Í nokkrum dómum Hæstaréttar hafi verið fallist á að sóknaraðili eigi lögvarðar kröfur á grundvelli afleiðusamninga, sbr. dóma réttarins í málum nr. 561/2010, 77/2011 og 630-633/2012. Samkvæmt því sé ljóst að fall sóknaraðila haustið 2008 leiði ekki sjálfkrafa til þess að afleiðusamningar falli með einhverjum hætti niður með þeim afleiðingum að greiðsluskylda verði ekki fyrir hendi.

Ábyrgðir

Varðandi ábyrgðir vegna Waage Jewellery Ltd. og Unity Investments ehf. byggir sóknaraðili á því að Stefán Hilmarsson hafi haft bæði prókúruumboð og einnig stöðuumboð til þess að skuldbinda varnaraðila við þessar sjálfskuldarábyrgðir.

Þegar Stefán undirritaði ábyrgðirnar hafi hann haft prókúruumboð frá stjórn varnaraðila í samræmi við þriðja kafla laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Samkvæmt 25. gr. þeirra laga feli slíkt umboð í sér heimild til að annast allt það er snertir rekstur atvinnu umbjóðandans og að rita firmað, annað en að selja eða veðsetja fasteignir hans. Miðað við tilgang atvinnu varnaraðila, eins og honum hafi verið lýst í samþykktum varnaraðila, hljóti samþykki á að gangast í ábyrgð fyrir skuldum hlutdeildarfélags að vera innan heimilda prókúruhafa. Við munnlegan flutning málsins sagði lögmaður sóknaraðila að lánastarfsemi hafi verið hluti af starfsemi varnaraðila. Það hafi því verið hluti af starfsemi varnaraðila að gangast í ábyrgðir fyrir tengd félög. Markmið ábyrgðanna hafi verið að auka verðmæti og tekjur dótturfélaga varnaraðila og þannig hafi þær verið varnaraðila til hagsbóta. Engu máli skipti þótt stjórn varnaraðila hafi stundum veitt Stefáni sérstakt umboð. Ekki hafi verið sýnt fram á neina takmörkun prókúru. Það hafi einnig verið innan stöðuumboðs Stefáns sem fjármálastjóra og meðlims framkvæmdastjórnar varnaraðila að samþykkja ábyrgð vegna skuldbindinga hlutdeildarfélags varnaraðila. Við mat á því hvað falli undir stöðuumboð megi líta til þess að um lága fjárhæð var að ræða miðað við fjárhagslegt umfang varnaraðila. Loks beri varnaraðili sönnunarbyrði fyrir því hvort þessar ábyrgðir hafi verið færðar í bókhaldi varnaraðila, en ekki verði séð af ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2007 hvort ábyrgðir hafi verið skráðar.

Verði litið svo á að Stefán hafi ekki haft heimild til skuldbindingarinnar telur sóknaraðili að stjórn varnaraðila hafi verið kunnugt um ábyrgðina og með aðgerðum og aðgerðaleysi samþykkt hana og heimild Stefáns.

Varðandi ábyrgð vegna Arena Holding ehf. byggir sóknaraðili á því að vegna skilmálabreytingar sem Stefán Hilmarsson undirriti, þar sem sjálfskuldarábyrgð varnaraðila sé staðfest, skipti ekki máli hvort Þórdís Jóna Sigurðardóttir teljist hafa verið innan heimilda þegar hún undirritaði upphaflega yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð varnaraðila. Staðfesting Stefáns feli að minnsta kosti í sér eftirfarandi samþykki fyrir veitingu ábyrgðarinnar.

Stefán hafi einnig haft prókúruumboð og stöðuumboð til þess að skuldbinda varnaraðila við þessa sjálfskuldarábyrgð. Verði litið svo á að heimild Þórdísar hafi úrslitaþýðingu um skuldbindingu varnaraðila byggir sóknaraðili á því að hún hafi haft stöðuumboð til þess að skuldbinda varnaraðila við umrædda ábyrgð vegna stöðu hennar sem meðlims framkvæmdastjórnar og verksviðs sem framkvæmdastjóra þess hluta varnaraðila sem starfsemi aðalskuldarans heyrði undir. Við mat á því hvað falli undir stöðuumboð Stefáns og Þórdísar megi líta til þess að um lága fjárhæð var að ræða miðað fjárhagslegt umfang varnaraðila í heild.

Verði litið svo á að Þórdís og/eða Stefán hafi ekki haft heimild til skuldbindingarinnar telur sóknaraðili að stjórn varnaraðila hafi verið kunnugt um ábyrgðina og veitt eftirfarandi samþykki fyrir henni og heimild þeirra með aðgerðum og eftir atvikum aðgerðaleysi.

                Sóknaraðili byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Um umboð vísar sóknaraðili til þriðja þáttar laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð og III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Krafa sóknaraðila um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og beri því nauðsyn til þess að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður varnaraðila

                Lánssamningur nr. 10454

Lögmaður varnaraðila vísaði til þess við munnlegan flutning málsins að Hæstiréttur Íslands hefði dregið skýrar meginlínur við mat á því hvort lán teljist vera lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum eða gengistryggt lán í íslenskum krónum.

Varnaraðili byggir á því að um sé að ræða lán í íslenskum krónum. Í upphafi samningsins hafi meðal annars verið tekið fram að lánið væri fjölmyntalán að jafnvirði 7.000.000.000 króna „í neðanskráðum myntum og hlutföllum“. Síðan voru tilgreindar skammstafanir fjögurra gjaldmiðla og hlutföll þeirra. Eina tilgreiningin í samningnum á fjárhæð lánsins hafi verið í íslenskum krónum, en hvergi hafi verið getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum. Fjárhæð lánsins hafi þannig í grunninn verið tiltekin í íslenskum krónum.

Sóknaraðili hafi efnt aðalskyldu sína 20. desember 2007 með því að greiða 6.789.490.000 krónur inn á íslenskan tékkareikning lántaka í samræmi við útborgunarbeiðni hans í fylgiskjali með samningnum. Ljóst sé af grein 3.2 í lánssamningnum, þar sem varnaraðili hafi óskað eftir því að íslenskur tékkareikningur hans hjá sóknaraðila yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu, að ætlun aðila hafi verið að greiðslur á gjalddögum þess yrðu í íslenskum krónum. Því  hafi verið gengið út frá því við gerð samningsins að báðir samningsaðilar skyldu efna aðalskyldur sínar með greiðslum í íslenskum krónum.

Meðal gagna málsins er „kaupnóta“ sóknaraðila (e. „settlement receipt“), dags 20. desember 2007, og stíluð á varnaraðila, þar sem sé getið ætlaðra viðskipta með tilgreindar fjárhæðir í breskum pundum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum. Þetta skjal sé einhliða samið af sóknaraðila og geti ekki haft þýðingu við úrlausn málsins, enda hafi hann enga aðkomu haft að þessum ætluðu viðskiptum og þau séu honum því óviðkomandi. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að ekki skipti máli þótt varnaraðili hefði ekki gert athugasemdir við kvittanir. Glöggt megi ráða af yfirliti yfir bankareikning varnaraðila nr. 0111-26-289 að aðalskylda sóknaraðila hafi sannanlega verið efnd með greiðslu í íslenskum krónum inn á tékkareikning varnaraðila í þeirri mynt hjá sóknaraðila.

Lánsféð hafi einungis verið tilgreint í íslenskum krónum, það hafi verið greitt út í íslenskum krónum og samningur aðila hafi gert ráð fyrir því að aðilar skyldu efna skyldur sínar í íslenskum krónum. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar megi skýrt ráða að við slíkar aðstæður sé um að ræða lánsfé í íslenskum krónum. Tenging þess við gengi erlendra gjaldmiðla sé því í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það geti enga þýðingu haft með hvaða hætti aðilar máls vísuðu til lánsins í gögnum sínum, enda verði eðli lánsfjárskuldbindingar ekki breytt eftirá með slíkum hætti.

Við munnlegan flutning málsins kom fram hjá lögmanni varnaraðila að engu máli skipti þótt varnaraðili hefði endurgreitt lánið að hluta með erlendri mynt. Varnaraðili hafi ekki getað breytt samningi aðila með annarri greiðslu en umsamin hafi verið. Þar sem lánið sé gengistryggt skipti ekki máli hvernig það hafi verið endurgreitt. Þá skipti staða varnaraðila engu máli við mat á því hvort lánið teljist vera gengistryggt lán í íslenskum krónum eða lögmætt erlent lán.

Hæstiréttur hafi ítrekað hafnað þeirri málsástæðu að samkvæmt lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hafi lánveitendum ekki tekist að sýna fram á að það skilyrði ákvæðisins, að slík binding hafi verið til hagsbóta fyrir skuldara, hafi verið uppfyllt við gerð lánssamnings. Varnaraðili hafnar þessari málsástæðu sóknaraðila sem rangri og í öllu falli ósannaðri. Láni í íslenskum krónum, bundnu við gengi erlendra gjaldmiðla, hafi fylgt töluverð áhætta eins og raunin varð, þar sem höfuðstóll þess um það bil tvöfaldaðist. Ómögulegt sé að fallast á það með sóknaraðila að fyrrgreindu skilyrði sé fullnægt um að víkja megi frá ákvæðum laga nr. 38/2001 til hagsbóta fyrir skuldara, feli það frávik í sér slíka raunhæfa og verulega áhættu hans. Fram kom hjá lögmanni varnaraðila við munnlegan flutning málsins að varnaraðili hafi endurgreitt um 4,5 milljarða króna, en upphafleg lánsfjárhæð hafi numið um sjö milljörðum króna. Krafa sóknaraðila sé um 7,2 milljarðar króna. Sóknaraðili vilji því fá endurgreiddar samtals 11,5 milljarða króna.

Afleiðusamningar

Varnaraðili byggir á því að bréf sóknaraðila, dags. 16. október 2008, verði ekki skilið öðruvísi en svo að hann væri með því að tilkynna ákvörðun sína um að fella niður afleiðusamninga aðila. Það sé í raun eina eðlilega túlkunin á bréfi sóknaraðila, bæði í ljósi orðalags og aðdraganda, þ.e. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 12. október 2008, og ógjaldfærni sóknaraðila og yfirtöku hans. Varnaraðili hafi vart getað lagt þann skilning í orðalag bréfsins um að afleiðusamningum yrði „lokað“, að sóknaraðili hygðist láta þá renna skeið sitt á enda til gjalddaga, eins og krafa hans byggir á. Samningarnir hafi byggt á „almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf.“, þeim sömu og til umfjöllunar voru í dómi Hæstaréttar í máli nr. 245/2011. Fram kom hjá lögmanni varnaraðila við munnlegan flutning málsins að ekki væri um það deilt að skilmálarnir hefðu gilt um viðskipti málsaðila. Í skilmálunum hafi ekki verið heimild fyrir annan samningsaðilann til að segja upp samningi eða fella hann á annan hátt einhliða niður. Lögmaður varnaraðila sagði einnig við munnlegan flutning málsins að sóknaraðili hefði ekki boðið fram efndir á sínum hluta samninga sem verið hefðu á gjalddaga 13. október 2008 og 3. desember sama ár.

Sóknaraðili hafi ekki gert frekari tilraunir til að krefjast efnda á umræddum samningum á árinu 2008 eða skýra efni bréfsins með nokkrum hætti. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að sóknaraðili hefði ekki sýnt frekari viðbrögð fyrr en með bréfi til varnaraðila 12. febrúar 2009. Með aðgerðaleysi sínu hafi sóknaraðili ekki aðeins vakið traust varnaraðila á því að skilningur hans á því að samningarnir væru fallnir niður væri réttur, heldur einnig girt fyrir að varnaraðila gæfist tilefni til að taka afstöðu til þess hvort hann vildi leitast við að rifta samningunum vegna ógjaldfærni varnaraðila, með stoð í riftunarákvæðum skilmálanna sem giltu um viðskiptin. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að málsatvik í dómi Hæstaréttar í máli nr. 303/2013 væru nánast samhljóða þessu máli. Ekki verði séð að í öðrum málum hafi verið byggt á þessari málsástæðu.

Lögmaður varnaraðila fullyrti við munnlegan flutning málsins að tölvupóstar starfsmanns varnaraðila frá nóvember og desember 2008 og janúar 2009, þar sem starfsmaðurinn spurði um stöðu afleiðusamninga, skipti engu máli fyrir réttarstöðu varnaraðila, enda hefði sá starfsmaður sem sendi póstinn ekki haft heimild til að skuldbinda varnaraðila.

Tilgreining varnaraðila á samningunum meðal skuldbindinga sinna við tilraunir til fjárhagslegrar endurskipulagningar sinnar geti ekki haggað framangreindu, enda verði að telja það varfærnara af hálfu varnaraðila að gera það á því stigi þar sem sú afstaða kynni að verða umdeild á síðari stigum. Þannig kynni það að varða refsingu samkvæmt XII. kafla laga nr. 3/2006 um ársreikninga að tilgreina slíkar kröfur ekki í ársreikningi, ef í ljós kæmi á síðari stigum að enn væri um gilda skuldbindingu að ræða. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að á þessum tíma hefðu aðeins drög að ársreikningi verið tilbúin.

Ábyrgðir

Varnaraðili byggir á því að þeir sem undirrituðu ábyrgðir vegna Waage Jewellery Ltd., Arena Holding ehf. og Unity Investments ehf. hefðu ekki haft umboð til þess að undirgangast hina umþrættu skuldbindingar fyrir hönd varnaraðila. Ljóst sé að undirritun Þórdísar Jónu Sigurðardóttur geti ekki skuldbundið varnaraðila. Á þessum tíma hafi hún gegnt stöðu framkvæmdastjóra fjölmiðla- og tæknisviðs varnaraðila og hafði ekki prókúruumboð. Undirritun ábyrgðar á 70% láns að fjárhæð 1,1 milljarður króna geti með engu móti fallið undir stöðuumboð hennar.

Varnaraðili hafnar því að undirritun Stefáns Hilmarssonar á skilmálabreytingu láns Arena Holding ehf. geri það að verkum að varnaraðili teljist skuldbundinn af hinni upphaflegu ábyrgð. Breytingin hafi einungis snúið að innbyrðis réttarsambandi lántaka og lánveitanda, þ.e. breytingum á lánstíma, vaxtakjörum og tryggingum. Breytingin hafi því verið varnaraðila sem ábyrgðaraðila í raun óviðkomandi þó undirritun hans hafi þurft á skjalið formsins vegna. Sú undirritun geti ekki falið í sér skuldbindingu varnaraðila á ábyrgð sem ekki hafi verið stofnað til með skuldbindandi hætti. Allt að einu hafi Stefán ekki haft umboð til þess að skuldbinda varnaraðila.

Hvað sem líði stöðu- og prókúruumboði Stefáns teljist ákvörðun um að gangast í hinar umþrættu ábyrgðir til óvenjulegra ráðstafana í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Ákvörðun um að gangast í ábyrgð fyrir skuldum annarra félaga, án þess að neitt sjáanlegt endurgjald komi fyrir, geti ekki talist falla innan daglegs rekstrar varnaraðila. Engu breyti þó varnaraðili hafi verið hluthafi í viðkomandi lántakendum. Þetta megi glögglega ráða af því að stjórn varnaraðila veitti Stefáni umboð til undirritunar í öðrum sambærilegum tilvikum. Þá verði ekki séð að slíkar ráðstafanir hafi verið algengar í rekstri varnaraðila, sé mið tekið af almennum umsvifum hans.

Veiting ábyrgðar fyrir skuldum Arena Holding ehf., og alveg sérstaklega Unity Investments ehf., verði jafnframt að teljast mikils háttar ákvarðanir í skilningi sama ákvæðis. Þannig hafi ábyrgðirnar hlutlægt séð numið háum fjárhæðum, eins og kröfur sóknaraðila vegna ábyrgðanna beri með sér. Ábyrgð á skuldbindingum sem nema slíkum fjárhæðum, án þess að neitt sýnilegt endurgjald komi fyrir, verði að telja til mikils háttar ákvarðana. Fram kom hjá lögmanni varnaraðila við munnlegan flutning málsins að skoða verði hlutfall ábyrgða út frá rekstri varnaraðila en ekki efnahagsreikningi. Varnaraðili hafi engan rekstur haft undir höndum.

Sóknaraðili hafi verið grandsamur um að veiting varnaraðila á ábyrgðum sem þessum féllu undir 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995. Í öðrum sambærilegum tilvikum í viðskiptum aðila hafi sérstaklega verið hlutast til um að samþykki stjórnar lægi fyrir áður en gengist var undir skuldbindinguna. Sóknaraðila hafi þannig mátt vera ljóst að gilt umboð hafi ekki verið til staðar og hann geti ekki gegn betri vitund krafist efnda samkvæmt slíkum samningi.

Verði ekki fallist á framangreint hafnar varnaraðili því að veiting slíkra ábyrgða falli undir prókúruumboð Stefáns. Heimild prókúruumboðs takmarkist við ráðstafanir sem falla innan skráðs tilgangs hlutafélags. Veiting hárra ábyrgða, án þess að sýnilegt endurgjald komi fyrir, falli ekki innan skráðs tilgangs varnaraðila.

Að lokum hafnar varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að stjórn varnaraðila hafi verið kunnugt um ábyrgðina og veitt eftirfarandi samþykki sitt, sem órökstuddri og ósannaðri. Varnaraðili hafi ekki greitt kröfur sóknaraðila sem á ábyrgðunum byggðu og ekki verði séð með hvaða hætti varnaraðili hafi veitt samþykki sitt fyrir þeim eftir á, hvort sem er með ætluðum aðgerðum eða aðgerðaleysi. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að tilgreining ábyrgða í ársreikningi sanni ekki samþykki stjórnar eftirá. Auk þess sé samþykki eftirá haldlaust.

Um lagarök vísar varnaraðili einkum til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 2/1995 um hlutafélög, einkum 2. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 68. gr., og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 2., 13. og 14. gr. Einnig er vísað til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og meginreglna samninga- og kröfuréttar. Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Lánssamningur nr. 10454

Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar Íslands í málum þar sem málsaðilar hafa deilt um það hvort lán væri í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, verður við úrlausn slíks ágreinings fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í þeim gerningum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 155/2011, 3/2013, 337/2013 og 391/2013. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er að þessu leyti hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 155/2011, 3/2012, 66/2012, 386/2012 og 602/2013.

Að framan er efni samningsins nánar lýst. Við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum er að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum verður að líta til þess að fjárhæð lánsins var skýrt tilgreind í íslenskum krónum, bæði á forsíðu og í samningsgrein 2.1, ,,í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR 30% JPY 20% CHF 30% GBP 20%“. Fjárhæðar hinna erlendu gjaldmiðla var hins vegar hvergi getið. Samið var um að við útborgun lánsins yrði einn milljarður króna lagður inn á tiltekinn reikning og nam sú fjárhæð einum sjöunda lánsfjárhæðarinnar. Samið var um að lánið yrði endurgreitt með því að sóknaraðili skuldfærði bankareikning varnaraðila í íslenskum krónum fyrir afborgunum og vöxtum. Í beiðni varnaraðila um útborgun lánsins var beðið um að það yrði greitt út í íslenskum krónum í tvennu lagi, annars vegar 200 milljónir króna inn á bankareikning nr. 0111-15-380414, hins vegar 6,8 milljarðar króna inn á bankareikning nr. 0111-26-289. Skýrt kemur fram í kvittun sóknaraðila til varnaraðila, dags. 20. desember 2007, að sóknaraðili efndi aðalskyldu sína með því að greiða lánið út í íslenskum krónum. Bendir þetta eindregið til þess að umrætt lán hafi verið í íslenskum krónum og bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, andstætt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 155/2011. Tilvísun sóknaraðila til þess að í samningi aðila sé ekki kveðið á um heimild til myntbreytingar og að ákvæði samningsins um dráttarvexti sé ólíkt því sem hafi verið í þeim samningi sem um var deilt í hæstaréttarmálinu nr. 155/2011 getur ekki haggað þessari ályktun.

Meðal gagna málsins eru tvær greiðslukvittanir, sem eru báðar dagsettar 18. júlí 2008. Samkvæmt annarri kvittuninni greiddi varnaraðili 11.590.493,02 sterlingspund og er tekið fram að með þessari greiðslu sé ,,leggur“ í sterlingspundum uppgreiddur. Samkvæmt hinni kvittuninni seldi varnaraðili 17.476.025,98 sterlingspund fyrir 21.932.763,53 evrur og notaði til að greiða inn á lánið. Eftirstöðvar þess hluta lánsins sem var í evrum voru þá samkvæmt kvittuninni 2.032.051,56 evrur. Hlutfall lánsins í sterlingspundum var tilgreind 20% og hlutfall í evrum 30%. Samkvæmt þessu er ljóst að varnaraðili greiddi lánið að verulegu leyti til baka með þeim gjaldmiðlum sem tilgreindir voru í láninu. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi gert athugasemdir við þennan greiðslumáta.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að bæði íslenskar krónur og fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur, þrátt fyrir að samið hafi verið um að eingöngu íslenskar krónur ættu að skipta um hendur. Er aðstaðan að þessu leyti verulega önnur en í dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011, þar sem svo háttaði til að efndir beggja aðila voru uppfylltar með greiðslum í íslenskum krónum. Fram hjá því verður þó ekki litið að samningur aðila gerði eingöngu ráð fyrir greiðslum í íslenskum krónum og að sóknaraðili innti sína aðalskyldu af hendi með greiðslu í íslenskum krónum. Þegar efndir aðila á samningnum eru virtar í heild verður að telja að þær hafi ekki falist að svo miklu leyti í því að erlendar myntir skiptu um hendur að hægt sé að leggja til grundvallar að lánið hafi verið í erlendum myntum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 602/2013. Því verður að líta svo á að umrætt lán sé í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 var leyst úr þeirri málsástæðu hvort það hefði verið til hagsbóta fyrir stefnda þess máls að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og þar með heimilt samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001. Rétturinn sló því föstu að reynslan sýni ekki aðeins þegar til lengri tíma sé litið að gengi íslensku krónunnar hafi farið lækkandi miðað við gengi algengustu erlendu gjaldmiðla, heldur einnig að þessar gengisbreytingar hafi á stundum komið í stökkum og ekki verið fyrirsjáanlegar með löngum fyrirvara. Láni í íslenskum krónum til fimm ára, sem bundið var við gengi erlendra gjaldmiðla, hafi því augljóslega fylgt töluverð áhætta, sem síðar hafi komið í ljós að var í hæsta máta raunhæf, hvað sem leið reynslu af gengisviðmiðun á nákvæmlega fimm ára tímabili fyrir lántökuna. Ekki verði litið svo á að fullnægt sé fyrrgreindu skilyrði um að víkja megi frá ákvæðum laga nr. 38/2001 til hagsbóta skuldara, feli það frávik í sér slíka raunhæfa og verulega áhættu hans. Í þessu máli var lánið tekið til talsvert skemmri tíma, eða 18 mánaða. Sóknaraðili hefur ekki lagt fram gögn til að sýna fram á að 19. desember 2007 hafi lántaka til þessa tíma í íslenskum krónum með gengistryggingu verið hagstæðari fyrir varnaraðila heldur en lán án gengistryggingar til sama tíma. Gegn mótmælum varnaraðila er þessi málsástæða því ósönnuð.

Í samræmi við þessa niðurstöðu verður kröfu sóknaraðila á grundvelli þessa lánssamnings hafnað og staðfest afstaða varnaraðila til þessa kröfuliðar.

Afleiðusamningar

Í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 245/2011 og 303/2013 var leyst úr því hvort afleiðusamningar sem sóknaraðili hafði gert við stefndu þeirra mála hefðu fallið niður á grundvelli fyrrnefnds bréfs skilanefndar sóknaraðila frá 16. október 2008. Í þessum dómum vísaði Hæstiréttur til þess að sóknaraðili hefði kosið að senda dreifibréf til fjölmargra viðtakenda, sem virðist hafa átt það eitt sameiginlegt að eiga hlut að ógjaldföllnum afleiðusamningum við hann, og gerði hann þá ekki greinarmun á því hvers efnis samningarnir væru, hver aðstaða viðsemjandans væri eða á hvorn þeirra hallaði í viðskiptunum. Rétturinn sló því föstu að með þessu hefði sóknaraðili tekið áhættu af því að hver og einn viðtakandi myndi leggja þann skilning í efni bréfsins, sem átt gæti við um aðstöðu sína. Því yrði að skýra tilkynninguna og ákvarða réttaráhrif hennar í hverju tilviki fyrir sig. Í henni kom fram að afleiðusamningum ,,verður lokað“, án nánari tilgreiningar á hvenær það skyldi gert. Þá sagði að í lokun fælist meðal annars að sjóðstreymis- og gengisvarnir á lána- og eignasöfnum viðskiptavina féllu niður.

Varnaraðili brást ekki sérstaklega við fyrrnefndu bréfi sóknaraðila frá 16. október 2008. Ekki var heldur minnst á bréfið eða réttaráhrif þess í þeim tölvuskeytum sem starfsmaður varnaraðila sendi í nóvember og desember 2008 og janúar 2009 og svarskeyti sóknaraðila í desember 2008. Fyrirspurnir starfsmanns varnaraðila um stöðu afleiðusamninga aðila sem fram kom í þessum tölvuskeytum er ekki hægt að skilja sem svo að varnaraðili  hafi hafnað því að fella samningana úr gildi og viljað að þeir yrðu efndir áfram samkvæmt efni sínu. Að þessu leyti eru atvik þessa máls verulega önnur en í hæstaréttarmálunum nr. 245/2011 og 303/2013.

Samkvæmt þessu verður ekki séð af gögnum málsins að varnaraðili hafi litið svo á að með tilkynningunni 16. október 2008 væri sóknaraðili einhliða að fella niður afleiðusamningana og lýsa því yfir að framvegis myndi hann hvorki efna samningana af sinni hálfu né ætlast til efnda af hálfu varnaraðila. Það styrkir þessa ályktun frekar að samkvæmt ,,almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf.“ var öðrum samningsaðila ekki heimilað að segja upp samningi eða fella hann á annan hátt niður einhliða, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 245/2011 og 303/2013. Það rennir einnig styrkari stoðum undir þessa ályktun að varnaraðili taldi skuldir vegna þessara samninga á meðal skulda sinna þegar hann sótti um heimild til greiðslustöðvunar 4. febrúar 2009 án þess að geta vafa um réttmæti þeirra.

Í samræmi við þessa ályktun verður að hafna þeirri málsástæðu varnaraðila að bréf sóknaraðila frá 16. október 2008 hafi þau réttaráhrif að afleiðusamningar málsaðila hafi fallið niður. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila vegna afleiðusamninga.

Ábyrgðir

Fyrir liggur að stjórn varnaraðila veitti Stefáni Hilmarssyni, þáverandi fjármálastjóra varnaraðila, prókúruumboð 12. október 2004 og var umboðið tilkynnt hlutafélagaskrá samdægurs með bréfi. Ekki er um það deilt að prókúruumboði Stefáns voru ekki settar takmarkanir.

Um prókúruumboð er fjallað í 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Þar kemur fram að prókúruhafi hafi vald fyrir umbjóðanda sinn til að annast allt það, er snertir rekstur atvinnu hans, og rita firmað. Þó má prókúruhafi eigi selja né veðsetja fasteignir umbjóðanda síns, nema hann hafi til þess beint umboð. Við mat á því hvers konar athafnir falli undir umboð prókúruhafa hlutafélaga og einkahlutafélaga hefur í dómaframkvæmd verið litið til tilgangs félagsins, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 119/1958, 141/1996, 202/2008 og 142/2012.

Tilgangur varnaraðila var samkvæmt samþykktum hans „verslunarrekstur, eignaumsýsla, rekstur fasteigna, fjárfestingar í hlutabréfum og verðbréfum sem og í félögum með skylda starfsemi, lánastarfsemi, fjármálaþjónusta, s.s. bankastarfsemi og tryggingastarfsemi, kaup og sala eigna og annar skyldur rekstur“. Starfsemi varnaraðila var samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá ,,rekstur eignarhaldsfélaga“. Óumdeilt er að varnaraðili stundaði sjálfur engan rekstur, heldur fólst starfsemi hans í utanumhaldi um hluti í öðrum félögum. Varnaraðili lýsti starfsemi sinni í beiðni um greiðslustöðvun, sem var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. febrúar 2009 á þann veg að varnaraðili væri ,,alþjóðlegt fjárfestingafélag með megináherslu á fjárfestingar í smásöluverslun og tískufyrirtækjum í Bretlandi, Skandinavíu og Bandaríkjunum“. Fjárfestingar varnaraðila væru í ,,gegnum dótturfélög sem eru ýmist að fullu eða að meirihluta í eigu [varnaraðila] og þar með nátengdar [varnaraðila] um fjármögnun og ábyrgðir“. Tekið er fram að þess vegna væru einnig sendar héraðsdómi beiðnir um heimild til greiðslustöðvunar vegna 13 félaga sem þar voru upp talin og er félagið Unity Investments ehf. þar á meðal.

Telja verður að það hafi fallið innan tilgangs varnaraðila að gangast í ábyrgðir fyrir tengd félög, enda verður að telja slíka starfsemi falla undir lánastarfsemi og fjármálaþjónustu og rekstur því skyldum. Þegar litið er til þess að varnaraðili stóð sjálfur ekki í rekstri heldur hélt utan um hlutabréf verður að fallast á það með sóknaraðila að það hafi verið varnaraðila í hag að veita tengdum félögum ábyrgðir þótt beint endurgjald hafi ekki komið fyrir, enda voru slíkar ábyrgðir til þess fallnar að auðvelda öflun lánsfjár, efla þar með starfsemi viðkomandi félaga og auka þannig verðmæti hlutafjár þeirra hluthöfum til góða.

Umræddar ábyrgðarskuldbindingar vegna Waage Jewellery Ltd. og Unity Investments ehf. fólu í sér mikilvægar ráðstafanir. Það eitt takmarkar þó ekki sjálfkrafa prókúruumboð Stefáns. Ræður þá úrslitum að prókúruumboð er víðtækt og prókúruhafi hefur heimild til að gera flesta þá löggerninga sem varða starfsemi umbjóðandans. Undirritun þessara tveggja ábyrgðarskuldbindinga rúmaðist innan tilgangsins, sem starfsemi varnaraðila var mörkuð, og snertu rekstur atvinnu hans í merkingu 25. gr. laga nr. 42/1903, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 141/1996 og 202/1998. Var Stefáni því heimilt að undirrita samning um ádráttarlínu að fjárhæð 200.000 sterlingspund fyrir Waage Jewellery Ltd. fyrir hönd varnaraðila sem ábyrgðaraðila, og samkomulag um sjálfskuldarábyrgð varnaraðila og FL Group hf. á skuldum samkvæmt tilteknum afleiðusamningum Unity Investments ehf.

Stefán undirritaði ekki lánssamning á milli sóknaraðila og Arena Holding ehf. vegna láns að fjárhæð 1.100.000.000 króna þar sem varnaraðili gekkst undir sjálfskuldarábyrgð á 70% lánsins, heldur annar starfsmaður varnaraðila og liggur fyrir að sá starfsmaður hafði ekki prókúruumboð. Hins vegar undirritaði Stefán 18. apríl 2008 viðauka við lánssamninginn fyrir hönd varnaraðila sem sjálfskuldarábyrgðaraðila. Í viðaukanum er vísað til númers lánssamningsins og dagsetningar. Einnig er vísað til þess að varnaraðili hafi verið aðili að lánssamningnum sem sjálfskuldarábyrgðaraðili pro rata. Vísað er til upphaflegrar lánsfjárhæðar og eftirstöðva lánsins, miðað við 15. janúar 2008. Þar sem Stefán undirritar viðaukann er skýrlega vísað til varnaraðila sem sjálfskuldarábyrgðaraðila. Ekki er hægt að fallast á það með varnaraðila að undirritun Stefáns hafi einungis verið formsatriði og varnaraðila óviðkomandi, enda gat breyting á skilmálum láns sem varnaraðili var í sjálfskuldarábyrgð fyrir fráleitt verið varnaraðila óviðkomandi. Ekkert liggur fyrir um að Stefán hafi gert athugasemdir við undirritun lánssamningsins. Undirritun þessa lánssamnings rúmaðist innan tilgangsins, sem starfsemi varnaraðila var mörkuð, og snertu rekstur atvinnu hans í merkingu 25. gr. laga nr. 42/1903. Því verður að fallast á það með sóknaraðila að með undirritun sinni hafi Stefán samþykkt eftir á sjálfskuldarábyrgð varnaraðila á umræddum lánssamningi.

Að þessari niðurstöðu fenginni þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort undirritanir Stefáns og Þórdísar hafi fallið innan stöðuumboðs samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Verður því fallist á kröfu sóknaraðila vegna ábyrgða.

Í samræmi við þessar niðurstöður er krafa sóknaraðila viðurkennd samtals að fjárhæð 24.747.409.131 króna (3.322.258.542+15.610.555.413+80.823.484 +1.025.993.441+4.708.078.251).

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa sóknaraðila, LBI hf., er viðurkennd sem almenn krafa í þrotabú varnaraðila, Baugs Group hf., samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., samtals að fjárhæð 24.747.409.131 króna.

Málskostnaður fellur niður.