Hæstiréttur íslands
Mál nr. 423/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
Fimmtudaginn 26. ágúst 2010. |
|
|
Nr. 423/2010. |
Stjórn SevenMiles ehf. samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 2. júlí 2009 (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn stjórn SevenMiles ehf. samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 9. október 2009 (enginn) |
Kærumál. Kæruheimild. Frávísun frá Hæstarétti.
S ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu um að dómari viki sæti í máli þar sem hann krafðist endurupptöku á máli þar sem bú S ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Eftir uppkvaðningu úrskurðarins kvað dómarinn upp úrskurð þar sem endurupptökunni var hafnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki væri unnt að kæra úrskurð um réttarfarsatriði eftir að máli væri að efni til ráðið til lykta með dómi eða úrskurði. Skorti lagaheimild til kærunnar og var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Jón Finnbjörnsson héraðsdómari viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Hinn 14. júní 2010 var á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur tekin fyrir krafa sóknaraðila um endurupptöku á úrskurði héraðsdómsins 16. nóvember 2009 um að taka bú SevenMiles ehf. til gjaldþrotaskipta. Í upphafi dómþingsins gerði sóknaraðili kröfu um að héraðsdómarinn sem með málið fór viki sæti. Dómarinn kvað við svo búið upp úrskurð og synjaði kröfunni. Eftir að úrskurðarorðið hafði verið lesið í réttinum var gerð eftirfarandi bókun: „Rætt er stuttlega um hvort heimilt sé að kæra úrskurð þennan. Dómari lýsir því viðhorfi sínu að kæra sé ekki heimil, en sóknaraðili kveðst telja að hún sé heimil. Fellst hann á að meðferð málsins verði nú fram haldið, en kveðst áskilja sér rétt til að vefengja hæfi dómara.“ Af gögnum málsins virðist mega ráða að héraðsdómari hafi talið aðalmeðferð málsins hafna og byggt afstöðu sína til kæruheimildar á 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu loknu fór fram munnlegur málflutningur um kröfuna um endurupptöku á úrskurðinum 16. nóvember 2009. Var það mál síðan tekið til úrskurðar og í sama þinghaldi kveðinn upp úrskurður þar sem kröfunni var hafnað.
Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar er ekki unnt að kæra úrskurði um réttarfarsatriði til Hæstaréttar eftir að dómur gengur í máli, sjá til dæmis dóm í dómasafni réttarins 1992, bls. 1431. Með vísan til 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991 verður talið að hið sama eigi við í tilvikum þar sem máli er að efni til ráðið til lykta með úrskurði eins og hér er raunin. Þegar af þessari ástæðu skortir lagaheimild til kæru þessarar og verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.