Hæstiréttur íslands
Mál nr. 121/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
- Umferðarlagabrot
- Vitni
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 11. október 2012. |
|
Nr. 121/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn X (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Líkamsárás. Umferðarlagabrot. Vitni. Sératkvæði
X var auk umferðarlagabrota ákærður fyrir tvær líkamsárásir samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sem beindust að A, fyrrum sambýliskonu hans og barnsmóður. Taldi héraðsdómur sannað að X hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök og dæmdi hann til 12 mánaða fangelsisrefsingar með vísan til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt og gert að greiða A miskabætur. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að ekki yrði litið til framburðar tveggja barna A um átök milli X og A á heimili þeirra í tengslum við fyrsta ákærulið þar sem ekki hefðu verið teknar skýrslur af börnunum fyrir dómi. Þótt framhjá framburði þeirra yrði horft taldi Hæstiréttur að málsatvik væru hins vegar nægilega vel upplýst til þess að dómur yrði lagður á málið og yrði héraðsdómur ekki ómerktur af þessum sökum. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af sakargiftum samkvæmt ákæru 28. júní 2011 og 2. lið ákæru 16. ágúst sama ár. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er meðal annars reist á því að í forsendum hans fyrir sakfellingu ákærða samkvæmt I. kafla ákæru 28. júní 2011 sé byggt á framburði tveggja barna brotaþola hjá lögreglu án þess að þau hafi komið fyrir dóm. Þá sé þar jafnframt vísað til framburðar vitnis, sem ekki hafi verið á staðnum þegar brot ákærða hafi átt að eiga sér stað, og hafi sá framburður því ekkert sönnunargildi. Loks telur ákærði að leiða eigi til ómerkingar hins áfrýjaða dóms að héraðsdómari hafi neitað að aflétta trúnaðarskyldu af Ágústínu Ingvarsdóttur sálfræðingi þegar hún hafi ætlað að greina frá atriðum sem vörðuðu sakarefnið, en framburður hennar hafi getað ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins.
Eins og fram kemur í gögnum málsins gáfu börn brotaþola, B, átta ára, og C, tólf ára, skýrslu hjá lögreglu þar sem þau skýrðu meðal annars frá átökum milli ákærða og brotaþola á heimili þeirra 29. júní 2010. Hvorki ákærði né verjandi hans voru viðstaddir þá skýrslugjöf. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Við úrlausn um sekt eða sýknu ákærða er þó heimilt, eins og fram kemur í 3. mgr. sömu greinar, að líta til skýrslu, sem vitni hefur gefið hjá lögreglu eða öðrum stjórnvöldum meðan málið var til rannsóknar, enda sé þess ekki kostur að leiða vitnið fyrir dóm. Þar sem unnt hefði verið að taka skýrslu af börnunum tveimur fyrir dómi, annaðhvort á rannsóknarstigi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 111. gr. þeirra, eða við aðalmeðferð málsins í héraði, á umrætt undantekningarákvæði ekki við. Af þeirri ástæðu verður ekki litið til framburðar barnanna við úrlausn málsins. Þótt framhjá honum sé horft eru málsatvik hins vegar nægilega vel upplýst til þess að dómur verði lagður á málið. Verður héraðsdómur því ekki ómerktur af þessum sökum.
Vitnið D gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins í héraði og getur sú skýrsla því haft sönnunargildi samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008, enda þótt vitnið hafi ekki verið statt á heimili ákærða og brotaþola umrætt sinn. Samkvæmt 109. gr. og 126. gr. laganna metur dómari hvert er sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls, þar á meðal metur hann það eftir 2. mgr. 109. gr. hvert gildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það.
Í b. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 er meðal annars svo fyrir mælt að vitni sé óheimilt, án leyfis þess sem í hlut á, að svara spurningum um einkahagi manns sem vitninu hefur verið trúað fyrir í starfi sem sálfræðingur. Eftir 3. mgr. sömu greinar getur dómari þó ákveðið að vitnið skuli svara spurningum um tiltekin atriði, enda telji hann að vitnisburður geti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls og ríkari hagsmunir séu af því að spurningunum sé svarað en trúnaði haldið. Fallist verður á með héraðsdómara að ekki hafi verið skilyrði til þess samkvæmt síðastgreindu ákvæði að Ágústína Ingvarsdóttir skýrði frá því, er fram hafi komið í trúnaðarsamtölum hennar sem sálfræðings við ákærða og brotaþola, án þess að samþykki þeirra beggja lægi fyrir. Hefði sá vitnisburður ekki getað ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins miðað við þau sönnunargögn önnur sem fyrir liggja og sönnunargildi hafa samkvæmt því sem að framan greinir.
Með skírskotun til alls þessa er kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms hafnað.
II
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi og þar er gerð ítarleg grein fyrir skýrslum ákærða og vitna fyrir dómi.
Samkvæmt I. kafla ákæru 28. júní 2011 er ákærða gefið að sök að hafa 29. júní 2010 ráðist á A, fyrst með hrindingum þannig að hún féll fram fyrir sig og á magann og í framhaldi slegið hana nokkur högg með flötum lófa í andlitið, en hún hafi þá verið gengin rúmar 27 vikur með sitt þriðja barn. Þetta hafi leitt til þess að brotaþoli hafi hlotið mar á vinstri kinn og hægra kinnbeini, mar og bólgu á hægra herðablaði, hægri olnboga og hægra hné og legvatn farið að leka. Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem að framan greinir, að öðru leyti en því að talið var ósannað að hann hafi slegið brotaþola oftar en einu sinni í andlitið. Var þessi niðurstaða byggð á framburði brotaþola, sem héraðsdómari áleit trúverðugan og studdist við framburð annarra vitna fyrir dómi, þar á meðal um áverka á brotaþola og sennilegar orsakir þeirra. Framburður ákærða var hins vegar metinn um margt ótrúverðugur. Í ljósi þessa og þegar virt eru þau sönnunargögn, sem færð voru fram við meðferð málsins fyrir héraðsdómi, er fram komin nægileg sönnun fyrir sekt ákærða samkvæmt umræddu ákæruefni, sbr. 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008.
Sakarferill ákærða er rakinn í hinum áfrýjaða dómi, að öðru leyti en því að áður en dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2001 gekk hafði ákærði tvisvar á árunum 1997 og 1998 hlotið refsingu og verið sviptur ökurétti vegna ölvunaraksturs.
Með þessum athugasemdum, en annars með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 478.846 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Ég er samþykkur atkvæði meirihluta dómenda um annað en ályktun um atvik samkvæmt I. kafla ákæru 28. júní 2011 er lýtur að því að ákærði hafi hrint A, er hún var ófrísk, þannig að hún hafi fallið á magann. Ég tel eins og meirihlutinn að ekki beri að vísa málinu heim í hérað þótt ekki verði byggt á framburði B og C, en fram er komið að þau hafi ekki verið sjónarvottar að þessum tiltekna þætti í atburðarrásinni.
A og ákærða bar saman um að hún hafi viljað komast inn í svefnherbergi á heimili þeirra í því skyni að ræða við ákærða sem hafi ætlað að fara að heiman. Ákærði hafi á hinn bóginn varnað henni inngöngu með því að ýta henni út úr svefnherberginu og loka dyrunum. Í framhaldi af því hafi þau rifist og togast á um hurðina. A lýsti þessu svo fyrir dómi: „Þá reyni ég að komast inn til hans og hann vill ekki hleypa mér inn þannig að við reynum eitthvað að togast á með hurðina þannig að ég dett utan í vegg beint á kúluna þannig að fór að finna verki“. Síðar sagði hún aðspurð: „Ég var að reyna að komast inn og hann vildi ekki leyfa mér að koma inn og hann kom svo fram og ýtti svona við mér og ég datt það var bara svona mjór gangur.“ Hjá lögreglu 27. september 2010 var A ítrekað spurð um málsatvik að þessu leyti og kvaðst hún ekki muna lengur hvernig það atvikaðist að hún féll umrætt sinn. Eins og greinir í héraðsdómi lýsti ákærði því að A hafi ekki fallið er hann ýtti henni út úr herberginu heldur hafi hún runnið á gólfinu er hún komst þangað inn eftir að hann sleppti taki á hurðinni. Um atburðarrásina hvað þetta varðar verður einungis byggt á framburði ákærða og A.
Samkvæmt framansögðu og með með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála tel ég varhugavert annað en að miða við að A hafi fallið á magann er ákærði sleppti hurðinni að svefnherbergisdyrunum. Framanritað breytir þó ekki þeirri niðurstöðu að ákærði gerðist umrætt sinn sekur um líkamsárás sem heimfærð verður undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem hann hafi í önnur skipti umrætt sinn bæði ýtt A til og slegið hana einu sinni í andlitið eins og héraðsdómur kemst að niðurstöðu um.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. janúar 2012.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 15. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 28. júní 2011, á hendur X, kt. [...], nú til heimilis að [...], [...], en áður að [...]. [...] „fyrir líkamsárás á hendur þáverandi sambýliskonu og barnsmóður sinni, A, á heimili þeirra að [...] í [...],
I
með því að hafa, þriðjudaginn 29. júní 2010, ráðist á hana, fyrst með hrindingum þannig að A féll fram fyrir sig og á magann og í framhaldi slegið hana nokkur högg með flötum lófa í andlitið en A var þá gengin 27 vikur og 3 daga með sitt þriðja barn, með þeim afleiðingum að A hlaut mar á vinstri kinn og hægra kinnbeini, mar og bólgu á hægra herðablaði, hægri olnboga og hægra hné og legvatn fór að leka.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 1971940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
II
með því að hafa, að morgni sunnudagsins 19. september 2010, veist að henni, þar sem hún hélt á 5 daga gömlu barni þeirra, með hrindingum þannig að A féll með barnið utan í glerskáp, sem við það brotnaði og féll ofan á barnið í sófa í stofunni, með þeim afleiðingum að A hlaut mar á framhandlegg, hendi og litla fingri hægri handar, mar á vinstri upphandlegg, skrámu á vinstri öxl.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 1971940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A kennitala [...], er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000,-, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtyggingu nr. 38/2001 frá 29. júní 2010 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“
Mál nr. S-95572011 var sameinað þessu máli í þinghaldi 26. september 2011. Er það höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 16. ágúst 2011, á hendur ákærða „fyrir eftirtalin umferðarlagabrot, með því að hafa:
1. Þann 22. desember 2010, í Grindavík, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum, suður Grindavíkurveg, austur Hópsbraut og suður Vesturhóp að húsi nr. [...], þar sem aksturinn var stöðvaður og lögregla hafði afskipti af honum.
Mál nr. [...]
2. Þann 8. júní 2011, í Reykjavík, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana-, fíkniefna og áfengis (kókaín í blóði 20 ng/ml og vínandamagn í blóði 1,62) niður Laugaveg og þaðan um Austurstræti og Tryggvagötu þar sem aksturinn var stöðvaður og lögregla hafði afskipti af honum.
Mál nr. [...]
Teljast brot í 1. og 2. lið varða við 1. mgr. 48. gr. og brot í 2. lið auk þess við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 5. gr. laga nr. 66/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993.“
Mál nr. S-1395/2011 var sameinað þessu máli í þinghaldi 14. desember 2011. Er það höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 14. desember 2011, á hendur ákærða „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. nóvember 2011, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,98), vestur Kringlumýrarbraut að gatnamótum Miklubrautar, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.
Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48.gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 5. gr. laga nr. 66/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993.“
Við upphaf framhaldsaðalmeðferðar hinn 15. desember sl. var af hálfu ákæruvalds fallið frá 1. lið ákæru, útgefinnar 16. ágúst 2011.
Af hálfu ákærða er krafist sýknu af ákæru, útgefinni 28. júní 2011 og af 2. lið ákæru, útgefinnar 16. ágúst 2011. Þá er þess aðallega krafist að framkominni bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af bótakröfunni. Að því er varðar ákærðu, útgefna 14. desember sl. er af hálfu ákærða krafist vægustu refsingar sem lög leyfa Loks er krafist hæfilegra málsvarnarlauna.
II.
Ákæra, útgefin 28. júní 2011.
Ákæruliður I.
Hinn 20. ágúst 2010 barst lögreglu kæra barnaverndarnefndar [...], dags. 17. sama mánaðar, á hendur ákærða vegna ofbeldis gagnvart tveimur börnum brotaþola. Einnig segir í kærunni að brotaþoli og ófætt barn hennar hafi orðið fyrir ofbeldi af hendi ákærða, sem börnin hefðu orðið vitni að.
Í kærunni segir að skrifleg tilkynning hafi borist frá fæðingardeild Landspítalans hinn 16. júlí 2010. Áður eða hinn 30. júní 2010 hafi borist tilkynning símleiðis frá lækni meðgöngudeildar spítalans, en þangað hafi brotaþoli komið að kvöldi 29. júní ásamt móður sinni og dóttur eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu barnsföður síns. Hún hafi þá verið gengin tæpar 27 vikur með barn sitt.
Í kærunni segir að í bréfi Guðnýjar Ægisdóttur, ljósmóður á fæðingardeild Landspítala, frá 1. júlí 2010, komi m.a. fram að ákærði hafi ráðist á brotaþola og hent henni fram og til baka með þeim afleiðingum að hún datt beint á kviðinn. Hún hafi verið með verk í hægri handlegg, baki og upp í höfuð og haft miklar áhyggjur af ófæddu barni sínu. Eftir skoðun hafi komið í ljós að legvatn var farið að leka, væntanlega eftir áverka á kvið, sem hún hafi hlotið við fallið á kviðinn og hafi hún því verið lögð inn á deildina. Börn brotaþola, þau C og B, hafi bæði orðið vitni að þessu, en C hafi verið í heimsókn hjá móður sinni.
Í kærunni segir ennfremur að faðir barna brotaþola, E, hafi tilkynnt málið til barnaverndarnefndar [...] þar sem hann hafi óttast um B son sinn, sem búið hafi hjá móður sinni. B sé með [...] og þurfi mikinn stuðning og eftirfylgni í daglegu lífi. Þá segir í kærunni að grunur hafi verið um að drengurinn væri beittur tilfinningalegu ofbeldi og að framkoma ákærða gagnvart drengnum væri harðneskjuleg.
Í meðferðarseðli fæðingardeildar, dags. 29. júní 2010, klukkan 22.53, er eftirfarandi lýsing:
„A er gengin 26 vikur og 4 daga með sitt 3. barn. Hringdi á fg eftir að barnsfaðir hafði lagt á hana hendur eftir rifrildi. Var þá með stöðugan verk í kúlunni eftir að hann hafði hent henni til og lenti hún á kviðnum. Hún er ekki viss hvort hún er með samdrætti eða hvort henni sé svona brugðið og illt í maganum vegna þess. Við komu er kviður mjúkur og eymslalaus, hefur ekkert blætt frá vag eða lekið vökvi þaðan. Er greinilega aum í skrokknum, kveinkar sér við hreyfingu. Segist aum í hæ. handlegg baki og er með höfuðverk.“
Síðar í meðferðarseðlinum segir eftirfarandi:
„Fer á wc og eru nærbuxurnar rennandi blautar, tala við deildarlækni sem gerir burknapróf sem er greinilega pós, sást ekki klín legvatn renna, ekki þegar hóstar. Fær stera, Inj. Benesol 12 mg. im. kl. 00 Fer á meðgöngudeild.“
Á meðal gagna málsins er vottorð Hildar Harðardóttur, yfirlæknis á meðgöngu- og fæðingadeild á kvenna- og barnasviði Landspítala við Hringbraut, dags. 28. febrúar 2011. Þar segir m.a.:
„A lagðist inn á meðgöngudeild Kvennadeildar LSH þann 29.06.2010 vegna legvatnsleka í kjölfar heimilisofbeldis. A var þá gengin 26 vikur og 4 daga með sitt þriðja barn., en hún hafði samband við Kvennadeild eftir að barnsfaðir hafði lagt á hana hendur eftir rifrildi. Hún var þá með stöðugan verk í leginu eftir að hann hafði hent henni til og hún lenti á kviðnum, þ.e.a.s. á þunguðu leginu.
Skömmu eftir komu á deild rennur tært legvatn og einnig eru samdrættir til staðar. Skoðun leiddi í ljós að hún var greinilega í andlegu uppnámi og leið illa í skrokknum, átti erfitt með hreyfingar.
Skoðun daginn eftir komu sýndi mar á vinstri kinn og hægra kinnbeini, á hægra herðablaði var bólga og byrjandi mar ca 5x5 cm. Blátt og rautt mar var einnig til staðar og veruleg eymsli og bólga á hægri olnboga, einnig var bólgið hægra hné og blátt mar þar yfir.
Þar sem legvatn er farið að renna er það upphaf fæðingar og því voru gerðar ráðstafanir ef barnið myndi fæðast á undan áætlun, gefin steralyf til að örva lungnaþroska og konan var hér í hvíld og fékk andlegan og líkamlegan stuðning. Atvikið var tilkynnt til Barnaverndarnefndar í [...] þar sem hún býr. Hún fékk viðtal við félagsráðgjafa og sálfræðing.
A lá á Kvennadeild frá 29.06.-14.07. 2010 en legvatnslegi stöðvaðist á 5-6 dögum og útskrifaðist hún síðan þann 14.07.2010. Fyrirhugað að hún myndi þá dvelja hjá foreldrum sínum eftir útskrift.“
Í samantekt vottorðsins segir eftirfarandi:
„Alvarlegir áverkar sem leiða til þess að legvatn fer að leka og verulegar líkur á fyrirburðafæðingu. Áverkarnir stefndu því ófæddu barni A í verulega hættu.“
Ákæruliður II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 5. október 2010, barst lögreglu tilkynning þann 19. september sama ár, klukkan 07:06, um að maður væri að ganga í skrokk á konu að [...] í [...]. Í skýrslunni kemur fram að tveir lögreglumenn hafi farið á vettvang og er þeir hafi komið þangað hafi fólk verið komið út úr íbúðum sínum og fram á stigaganginn. Þeim hafi verið vísað á íbúð brotaþola og ákærða. Jafnframt hafi nágrannarnir tekið fram að þeir væru orðnir þreyttir á ástandinu og einhver hefði sagt: „Lögreglan ætti að þekkja hann.“
Er þeir hafi komið inn í íbúðina hafi ákærði staðið í anddyrinu. Hafi hann verið greinilega ölvaður, en hann hafi bæði verið voteygður og rauðeygður og talað með drafandi röddu. Einnig hafi hann riðað nokkuð á fótum. Brotaþoli hafi gengið um fyrir innan með kornabarn í fanginu. Ákærði hafi gengið á milli lögreglumannanna og hennar og reynt að fá þá á eintal við sig inni í stofu. Í skýrslunni segir að blóðdropi hafi verið á hægri nasavæng ákærða, en aðra áverka hafi verið að sjá á honum. Ákærði hafi tjáð þeim að brotaþoli væri móðursjúk og gerði mikið úr öllu sem aflaga færi. Hann hefði verið á ættarmóti til morguns og drukkið svolítið áfengi. Þegar hann hefði komið heim hefði brotaþoli ausið yfir hann skömmum og ráðist á hann. Í skýrslunni segir að annar lögreglumannanna hafi haldið áfram að ræða við ákærða á meðan hinn ræddi við brotaþola. Brotaþoli hafi haft á orðið að nú væri allt búið á milli þeirra því ákærði hefði svikið það loforð að hann beitti hana ekki ofbeldi framar. Hún hafi tjáð lögreglu að ákærði hefði komið ölvaður heim um morguninn, en í stað þess að fara að sofa hefði hann tekið barnið upp og gengið af stað riðandi á fótunum og kjassandi barnið. Hún hefði orðið yfir sig hrædd um að hann, í ölvunarástandi sínu, skaðaði barnið, dytti með það í fanginu eða ræki það utan í. Hún hefði leitast við að fá hann til að afhenda sér barnið, en ákærði hefði þá ýtt henni frá sér. Ákærði hefði reiðst henni vegna þessa og athygli hans hefði þá farið af barninu. Hún hefði þá náð barninu af honum, en þá hefði ákærði orðið mjög reiður, tuskað hana til og m.a. hefðu þau dottið í sófa og hann ofan á. Brotaþoli tjáði lögreglu að hún hefði verið með barnið í fanginu allan tímann og hugsað um það eitt að það yrði ekki fyrir hnjaski hvernig sem ákærði léti. Það hefði tekist, en hún væri aum í öllum skrokknum eftir átökin, enda hefði barnið verið tekið með keisaraskurði nokkrum dögum fyrr.
Í skýrslunni segir að brotaþoli hafi farið með nýfætt barn sitt til vinkonu sinnar skammt frá, en ákærði hafi samþykkt að fara að sofa og nota síðan daginn til að flytja sig og sitt hafurtask úr íbúðinni.
Á meðal gagna málsins er læknisvottorð Ólafs Ragnars Ingimarssonar, sérfræðings á slysa- og bráðasviði Landspítala, Fossvogi, dags. 11. október 2010. Þar segir m.a. eftirfarandi:
„Þessi kona kom á slysadeild þann 20.09.2010 kl. 11.46 eftir heimilisofbeldi sem skráð er hafa gerst 19.09.2010 kl. 20.00. Sagt að þetta sé heimilisofbeldi á [...] í [...]. Sagt að sambýlismaður hafi komið heim ölvaður og hann hafi farið inn í svefnherbergi og tekið upp nýfætt barn þeirra 5 daga gamalt. A mun ekki hafa kært sig um að hann væri að halda á barninu undir áhrifum áfengis þar sem hann var valtur á fótum. Æstist sambýlismaðurinn að sögn við það og byrjaði að ýta henni endurtekið upp að vegg og ýtti bæði á brjóstkassa og axlarsvæði. Gerðist þetta mjög hratt en hún ekki eftir því nákvæmlega hvað gerðist að sögn. Var með barnið í fanginu meðan á þessu stóð. Einnig var henni ýtt upp að glerskáp og brotnaði glerið yfir hana. Hún datt í sófann og byrjaði hann þá að ýta henni niður með hendur á miðju baki. Hún öskraði á hjálp og reyndi að berjast á móti með spörkum og stympingum.“
Um skoðun á brotaþola segir eftirfarandi í vottorðinu:
„Við komu á slysadeild þá segist hún vera aum alls staðar í líkamanum en ekki eymsli á einhverjum ákveðnum stað að sögn. Lífsmörk eru eðlileg við komu, þ.e. blóðþrýstingur, púls og mettun á fingri. Hún er áttuð á stað og stund. Hjarta- og lungnahlustun eðlileg, kviður mjúkur og ekki fyrirferð við þreifingu. Við skoðun á vi. framhandlegg þá sést mar lófamegin á framhandleggnum ca 5 x 3 cm með aðeins miðlægum roða. Einnig sést mar í olnbogabót litlafingurs megin ca 2 cm. Ekki mikil eymsli við þreifingu. Hreyfigeta er sögð eðlileg í hendinni og taugaskoðun perifert eðlileg.
Á hæ. hendi sést á miðjum framhandlegg mar og roði og einnig á hendinni sjálfri. Dorsalt sést mar yfir MC-III-V (handarbaksbein). Einnig mar á vi. upphandlegg 2 x 1 cm og á vi. öxl er 4 cm skráma að sögn.“
Í samantekt vottorðsins segir að áverkarnir séu fremur mildir og ekki lífshættulegir.
Mánudaginn 27. september 2010 gaf brotaþoli skýrslu í málinu vegna atvika hinn 29. júní og 19. september 2010. Kvaðst hún ekki vilja kæra ákærða fyrir fyrra atvikið frá 29. júní þar sem hún myndi það ekki nógu vel, en kvaðst vísa til kæru barnaverndarnefndar. Hún kvaðst hins vegar kæra ákærða fyrir atlöguna að henni og barninu hinn 19. september og kvaðst áskilja sér rétt til að leggja fram bótakröfu á síðari stigum málsins.
Hinn 20. desember 2010 lagði brotaþoli fram skriflega kæru, dags. 3. sama mánaðar, á hendur ákærða fyrir ofbeldi gagnvart henni og eldri börnum sínum tveimur hinn 29. júní 2010 á heimili sínu að [...] og vísaði til framburðar síns í skýrslu hinn 27. september 2010.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 8. febrúar 2011, ræddi lögreglumaður við brotaþola og kynnti henni að ákærði hefði lagt fram gagnkæru á hendur henni við yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 2. febrúar 2011. Hafi ákærði viljað meina að brotaþoli hefði ráðist á hann að fyrra bragði inni í svefnherbergi á heimili þeirra að [...] í [...] hinn 29. júní 2010 og slegið hann ítrekað í andlitið. Þá hefði ákærði sagt að brotaþoli hefði ráðist á hann að fyrra bragði þegar hann hefði komið heim eftir að hafa verið að skemmta sér hinn 19. september 2010. Brotaþoli hefði slegið hann og klórað hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann hefði fengið blóðnasir og klórfar við vinstra munnvik, sem hann bæri enn merki eftir.
Brotaþoli kvaðst ekkert hafa að fela og kvaðst lýsa sig saklausa af þessum ásökunum ákærða og vísaði til skýrslu sinnar í málinu.
Á meðal gagna málsins eru ljósmyndir teknar á vettvangi í íbúð að [...] í [...] og er myndamappa lögreglu dags. 7. október 2010.
Þá er á meðal gagna málsins bréf Ágústínu Ingvarsdóttur, sálfræðings til Ingibjargar Bjarnardóttur lögmanns, dags. 28. september 2010. Þar staðfestir sálfræðingurinn að ákærði hafi sótt til hennar hjónabandsráðgjöf í þrjú skipti og sé nú í áframhaldandi samtalsmeðferð eftir skilnað við brotaþola. Í þau skipti er bæði ákærði og brotaþoli hafi komið til hennar hafi þau bæði staðfest að ekki hafi verið greint rétt frá atviki í sumar, sem barnaverndarnefnd hafi fengið til meðferðar. Hafi brotaþoli viðurkennt að hafa skreytt málið full vel og sagt ákærða hafa beitt sig ofbeldi, en hún hafi staðfest við hana að það hafi ekki verið rétt. Nú sé komið annað mál, sem hljómi mjög líkt, þar sem hún endurtaki þessa sögu.
Þá hafi komið fram á fundum að brotaþoli sé verulega þunglynd og alvarlega kvíðin og að ákærði stríði við mikinn kvíða. Svona tilfinningalegt ástand geri að fólk sé bæði viðkvæmt, mikli hlutina fyrir sér, eigi erfitt með að takast á við einföldustu verkefni og eigi auðvelt með að ýkja.
Loks er á meðal gagna málsins vottorð Ólu Bjarkar Eggertsdóttur sálfræðings, dags. 4. október 2011 og staðfesting Körlu Daggar Karlsdóttur starfskonu Kvennaathvarfsins, dags. 29. nóvember 2011.
Í vottorði Ólu Bjarkar Eggertsdóttur sálfræðings kemur fram að hún hafi verið með brotaþola í viðtalsmeðferð á stofu, m.a. vegna ofbeldis sem hún hafi tvívegis orðið fyrir af hendi barnsföður hennar.
Í vottorðinu segir að hinn 20. júlí 2010 hafi brotaþoli komið til hennar í viðtal, en þá hafði hún legið inni á spítala eftir að ákærði réðist á hana. Í vottorðinu segir að hún hafi einnig hringt í sálfræðinginn af spítalanum til að segja henni frá stöðu mála. Hafi hún verið í miklu uppnámi, bæði í símtalinu og í viðtalinu á stofunni. Hafi hún ekki skilið hvernig ákærði gat gert henni þetta. Jafnframt hafi brotaþoli tjáð henni að ákærði reyndi allt til að fá hana til að fyrirgefa sér. Hún hafi þó ekki þorað að fara heim til sín þegar hún útskrifaðist af spítalanum og fengið að vera inni á foreldrum sínum. Ákærði hafi haldið áfram að hringja í hana og á endanum hafi hún látið undan honum að vera viðstaddur fæðinguna.
Í vottorðinu segir síðan að í viðtali 14. október 2010 hafi brotaþoli greint henni frá því að ákærði hefði ráðist á hana í annað sinn hinn 19. september 2010. Í vottorðinu segir að eftir þessa árás hafi verið eins og brotaþoli hefði fengið endanlega nóg og ekki verið lengur í vafa um að ákærði væri hættulegur maður. Hún hafi grátið mikið í viðtölum, fundið fyrir miklu óöryggi og virst óttast að ákærði gerði henni aftur mein. Fljótlega hafi farið að bera á depurðareinkennum hjá brotaþola og hafi hún sofið illa, nærst illa og verið mjög framtakslítil. Brotaþoli hafi verið mjög ráðvillt á þessum tíma og í raun í hálfgerðu áfalli sem gerði það að verkum að hún hafi þurft aðstoð í fyrstu við að mynda eðlileg geðtengsl við dóttur sína. Tilfinningar hennar í garð ákærða hafi haft truflandi áhrif á tilfinningar sem hún bar til dóttur sinnar.
Í vottorðinu segir að í byrjun nóvember 2010 hefðu depurðareinkennin aukist hjá brotaþola og hún mælst með alvarleg þunglyndiseinkenni. Einnig hafi hún verið því kvíðin hvað tæki við hjá sér. Hafi hún átt erfitt með að koma sér út úr húsi og verið mikið ein heima með barnið. Hafi brotaþoli farið á þunglyndislyf og smám saman farið að líða aðeins betur.
Í lok vottorðsins segir að það andlega og líkamlega ofbeldi sem brotaþoli hafi orðið fyrir af hendi ákærða hafi komið í veg fyrir að brotaþoli nyti meðgöngunnar og fyrstu mánaðanna eftir fæðingu barnsins. Hún hafi verið hrædd, kvíðin, reið, döpur og lengi vel í hálfgerðu áfalli yfir því hvað gerst hafði. Hvort ofbeldið muni hafi varanleg áhrif á brotaþola sé erfitt að skera úr um, enda sé það mjög einstaklingsbundið hvort og þá hversu vel fólk nái sér eftir áföll af ýmsu tagi.
Í vottorði kvennaathvarfsins er staðfest að brotaþoli hafi leitað þangað árið 2010. Hún hafi fengið viðtal á meðgöngudeild Landspítalans 8. júlí 2010 og síðan komið í þrjú viðtöl í kvennaathvarfinu í framhaldi af því á tímabilinu 19. til 28. september 2010.
Ákæra, útgefin 16. ágúst 2011, 2. ákæruliður.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 8. júní 2011, barst lögreglumönnum, sem voru við reglubundið eftirlit, tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglu um að hugsanlega væri ölvaður ökumaður að aka niður Laugaveg á bifreiðinni [...] af gerðinni Mercedes Benz. Stuttu síðar hafi komið önnur tilkynning um að bifreiðinni væri ekið niður Austurstræti. Þegar lögreglumenn hafi verið að aka Tryggvagötu til vesturs hafi þeir séð að umræddri bifreið hafði verið lagt í bílastæði við Tryggvagötu á móts við Bæjarins bestu. Í ökumannssæti bifreiðarinnar hafi setið maður, sem hafi kynnt sig sem X og framvísað persónuskilríkjum því til staðfestingar. Fyrir utan bifreiðina hafi einnig verið stúlka, sem hafi kynnt sig sem F.
Aðspurður hafi ákærði ekki sagst hafa ekið bifreiðinni, en hann hafi ekki getað gefið upp nafn ökumanns. Hann hafi heldur ekki vitað hvar kveikjuláslyklar bifreiðarinnar voru. Síðar hafi komið í ljós að F var með kveikjuláslyklana meðferðis og hafi hún afhent þá lögreglu. Þegar F hafi verið spurð að því hver hefði verið ökumaður hafi hún tjáð lögreglu að hún hefði ekið bifreiðinni. Síðar hafi hún dregið það til baka og gefið í skyn að ákærði hefði ekið bifreiðinni.
Á þessum tímapunkti hafi lögreglumenn fengið upplýsingar frá fjarskiptamiðstöð um að vitni gætu staðfest að ákærði hefði ekið bifreiðinni niður Laugaveg. Ákærði hefði því verið færður í lögreglubifreiðina til viðræðna. Í viðræðum við ákærða hafi lögreglumenn fundið áfengislykt frá vitum hans og hafi ákærði viðurkennt að vera undir áhrifum áfengis. Hafi ákærði verið sjáanlega í annarlegu ástandi, óstöðugur og illa viðræðuhæfur sökum áberandi ölvunar.
Í skýrslunni segir að ákærða hafi verið kynnt að hann væri grunaður um ölvun við akstur og kynnt réttarstaða grunaðs manns. Hafi ákærði verið handtekinn klukkan 17:40. Á leið á lögreglustöðu hafi ákærði viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni [...] niður Laugaveg og að bifreiðastæðinu við Bæjarins bestu. Á lögreglustöð hafi ákærði látið í té þvag til skimunar fíkniefna klukkan 17:50 og hafi það sýnt svörun við kókaíni. Hafi ákærði þá viðurkennt neyslu sína á því efni. Klukkan 18:15 hafi hjúkrunarfræðingur komið á stöðina og tekið blóðsýni úr ákærða til rannsóknar og klukkan 19:15 hafi seinna blóðsýnið verið tekið.
Í skýrslunni segir að haft hafi verið símasamband við tvö vitni, þau G og H. Þau hafi bæði borið um það hafa séð ákærða aka niður Laugaveginn og að sögn G hafi bifreiðinni verið ekið niður Bankastræti og síðar hafi hann séð að henni hafði verið lagt í bifreiðastæði við Bæjarins bestu. Þar hafi hann séð þegar lögreglan hafði afskipti af ökumanni bifreiðarinnar. Þau hafi bæði borið um það að ökumaðurinn hefði orðið æstur þegar flautað hefði verið á hann á Laugaveginum, hann rokið út úr bifreið sinni, gengið að bifreið H og verið þar með ógnandi tilburði. Því næst hefði hann farið aftur upp í bifreið sína og ekið á brott.
Samkvæmt vottorði Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði mældust 2,54 alkóhóls í þvagi ákærða, 1,79 alkóhóls í fyrra blóðsýninu og 1,62 í seinna blóðssýninu. Samkvæmt matsgerð sömu rannsóknastofu, dags. 1. júlí 2011, mældist magn kókaíns í blóði mældist 20 ng/ml, en einnig fannst kókaín í þvagi ákærða.
Ákæra, útgefin 14. desember 2011.
Um málsatvik er vísað til ákæru, en ákærði hefur játað sakargiftir að því er þessa ákæru varðar.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir að því er varðar málsatvik í ákæru, útgefinni 28. júní 2011:
Ákærði var fyrst spurður út í atvik, sem samkvæmt gögnum málsins áttu sér stað 29. júní 2010, sbr. I. kafla ákæru, útgefinnar 28. júní 2011. Ákærði neitaði sök. Hann sagði að umræddan dag hefði hann verið á leið heim úr vinnu þegar brotaþoli hefði haft samband og hún verið pirruð því hann hefði ekki verið kominn heim úr vinnu. Hefði brotaþoli verið á leið heim til foreldra sinna í mat og ætlað að taka eldri dóttur hans með, en hún hefði dvalið hjá þeim á þessum tíma í sumarfríi. Hann sagði að eina ágreiningsefnið á milli hans og brotaþola hefði verið það að honum hefði ekki fundist brotaþoli sinna dætrum hans nægjanlega á meðan þær voru í umgengni hjá þeim. Sagðist ákærði því hafa farið beint heim til foreldra brotaþola, sótt dóttur sína og farið með hana heim, þ.e. á sameiginlegt heimili þeirra brotaþola. Sagðist ákærði síðan hafa ákveðið að fara á hótel í eina til tvær nætur því hann hefði verið ósáttur við brotaþola. Sagðist ákærði ekki muna eftir því hvort hann tilkynnti brotaþola það í síma að hann væri að fara út eða þegar brotaþoli kom heim, en þegar hún kom heim hefði hann staðið í svefnherberginu og verið að pakka niður. Hefði brotaþoli þá brjálast, ráðist á hann og slegið hann ítrekað í höfuðið og skrokkinn að viðstaddri fimm ára gamalli dóttur hans, sem hefði farið að hágráta. Hann sagði að brotaþoli hefði verið mjög ósátt við það að hann væri að fara. Sagðist hann hafa ýtt brotaþola út úr herberginu og skellt hurðinni. Hann sagði aðspurður að brotaþoli hefði ekki dottið við það að hann ýtti henni út úr herberginu. Sagðist hann síðan hafa haldið við hurðina í smá stund því brotaþoli hefði hamast á henni, en síðan snúið sér að dóttur sinn, sem hefði verið sturluð af hræðslu, og þá hefði hann sleppt hurðinni. Við það hefði brotaþoli runnið á gólfinu og komist inn í herbergið. Hann sagði að börn brotaþola hefðu verið í næsta herbergi og heyrt hvað gekk á, en hann sagðist ekki vita hvað þau sáu af því sem gerðist. Lætin og öskrin hefðu síðan færst fram og hefði atburðarásin snúist um það eitt að koma honum og dóttur hans út úr íbúðinni, en þau hefðu ekki fengið tækifæri til að pakka niður. Allt hefði þetta gerst mjög hratt og hefði atburðarásin síðan færst fram í eldhús þar sem hann hefði slegið brotaþola einu sinni, þ.e. gefið henni kinnhest, ekki með átaki, en eingöngu til að róa hlutina. Í framhaldi af því hefðu hann og dóttir hans náð að koma sér út og rétt svo náð að koma sér í skó. Ákærði sagði að dóttir sín hefði verið sturluð af hræðslu, enda væri hún viðkvæm, og hefði hann hugsað um það eitt að gæta hagsmuna hennar og koma í veg fyrir að hún þyrfti að upplifa þetta.
Ákærði sagðist því næst hafa farið á hótel og fengið þar herbergi, en sagðist síðan hafa skilað því aftur því í símtölum hans og brotaþola hefði verið tekin ákvörðun um að hann kæmi aftur heim. Þegar hann hefði komið heim hefði brotaþoli enn verið hjá foreldrum sínum og síðar um kvöldið hefði móðir hans hringt og tjáð honum að brotaþoli væri farin á sjúkrahús því hún hefði misst svolítið legvatn. Sagðist ákærði vita að það hefði gerst vegna æsingsins í brotaþola, en hún hefði verið sturluð. Sagðist ákærði vita að brotaþoli hefði verið undir eftirliti þar sem hún hefði átt fatlaðan dreng fyrir.
Ákærði sagðist síðan hafa heimsótt brotaþola á sjúkrahúsið og sagðist hann ekki hafa skilið af hverju fólk horfði svona einkennilega á hann. Sagðist ákærði margoft hafa heimsótt brotaþola á sjúkrahúsið, enda hefði hann ekki vitað hvað brotaþoli var búin að segja fólki eða hvað var í gangi.
Aðspurður sagði ákærði að ekki væri rétt að hann hefði hrint brotaþola. Hann sagði að rétt væri að brotaþoli hefði hrasað og fallið fram fyrir sig en það hefði gerst vegna þess að hann sleppti hurðinni til að sinna dóttur sinni. Hann sagði að brotaþoli hefði runnið á gólfinu, en ekki fengið högg á sig, enda væru aðeins um 30-40 sm frá hurðinni og að rúminu. Þá sagði hann að upp við rúmið hefði staðið svartur ruslapoki. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa séð brotaþola detta í gólfið þarna, en sagðist þó ekki vilja útiloka það þar sem langt væri um liðið. Allt hefði þetta gerst mjög hratt og sagðist hann ekki minnast þess að hafa séð brotaþola detta á kviðinn. Sagðist hann vera þess fullviss að brotaþoli hefði misst legvatnið af æsingnum einum saman, enda hefði brotaþoli verið sturluð. Þá sagði hann að ekki væri rétt að hann hefði slegið brotaþola nokkrum sinnum í eldhúsinu. Aðspurður kvaðst hann ekki geta skýrt þá áverka sem brotaþola var með samkvæmt ákæru og sagðist vita það eitt að þeir væru ekki af sínum völdum.
Ákærði sagði að brotaþoli hefði verið upphaflegi gerandinn í málinu. Hann kvaðst aðspurður ekki muna hvaða áverka hann hlaut af völdum árásar brotaþola.
Ákærði var því næst spurður út í atvik, sem samkvæmt gögnum málsins áttu sér stað 19. september 2010, sbr. II. kafla ákæru, útgefinnar 28. júní 2011. Ákærði sagði að brotaþoli hefði sagt miklar lygasögur vegna þessa máls og ekkert gert til að leiðrétta þær. Sagðist hann hafa vitað til þess að vinkona brotaþola hefði verið búin að stilla henni upp við vegg, þ.e. að hún yrði að velja á milli vinskaparins við hana eða sambandsins við ákærða. Sagðist ákærði hafa fundið að þetta lá í loftinu. Ákærði sagðist hafa farið á ættarmót umrætt kvöld og komið heim mjög seint eða undir morgun. Sagðist ákærði hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann sagðist hafa farið inn í herbergi og tekið upp barnið sitt til að skoða það. Brotaþoli hefði verið eitthvað ósátt við það og hefði hún rifið af honum barnið með látum. Ákærði sagði að atburðarásin væri ekki mjög skýr, en hann sagðist ekki hafa viljað afhenda barnið alveg strax og hefði brotaþoli þá orðið brjáluð, ráðist á hann og rifið af honum barnið. Þetta hefði allt gerst mjög hratt og tekið aðeins nokkrar sekúndur. Brotaþoli hefði ráðist á hann með sömu stælum og í fyrra skiptið og sagðist ákærði hafa tekið í axlirnar á henni og ýtt henni frá sér í áttina að sófanum og síðan hefði hann ýtt henni í stólinn. Við þetta hefði hann rekist aðeins í glerskáp í stofunni, en í honum hefði verið mjög þunnt gler og fínir póstar og því hefði ekki þurft mikið högg til að brjóta glerið. Sagðist ákærði hafa brotið glerið óvart með öðrum hnúanum og skorist við það á hnúanum. Sagðist hann einnig gera ráð fyrir að brotaþoli hefði rispast eitthvað við þetta, en hann sagðist ekki vita hvort brotaþoli rakst einnig utan í skápinn. Sagðist ákærði aðeins hafa haldið brotaþola frá sér því hún hefði verið að berja hann. Aðspurður sagðist hann minna að brotaþoli hefði haldið á barninu á meðan á þessu stóð. Í því hefði lögreglan komið. Sagðist ákærði ekki muna hvort nágranni þeirra kom á undan lögreglunni, en hann sagðist halda að nágranninn hefði hringt á lögregluna. Allt hefði þetta gerst mjög hratt. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna mjög ljóst eftir þessu þar sem langt væri um liðið síðan þetta gerðist.
Ákærði sagði að ekki væri rétt hjá brotaþola að hann hefði ráðist á brotaþola og hrint henni þannig að hún hefði fallið á glerskápinn. Sagðist hann að þetta stæðist ekki. Aðspurður um áverka brotaþola sagði ákærði að hann gæti ekki skýrt þá, en hann sagðist aðeins vita hvað hann gerði og hverju hann olli. Ákærði sagðist hafa fengið blóðnasir vegna högga brotaþola og ör frá munni og út á kinn þar sem brotaþoli hefði klórað hann. Ákærði sagði að glerskápurinn hefði verið í stofunni við ganginn. Sagðist ákærði hafa ýtt brotaþola frá ganginum, framhjá glerskápnum, sem hann hefði rekist utan í, og að stólnum, sem hefði verið í stofunni. Hann sagði að í skápnum hefðu verið margir fínir póstar og hefði aðeins ein rúðan í skápnum brotnað. Ákærða var bent á að hjá lögreglu hefði hann sagt að hann hefði rekið olnbogann í skápinn. Sagði ákærði þá að hann hefði verið sár á hnúunum og því hefði hnúinn rekist í skápinn. Einnig var ákærða bent að í lögregluskýrslu kæmi fram að ákærði hefði ekki verið með neinn áverka og aðeins verið með einn blóðdropa á hægri nasavæng. Sagði ákærði þá að andlit hans hefði allt verið í blóði og annað hvort fengi maður blóðnasir eða ekki. Ákærði sagði að lögreglan hefði strax tekið afstöðu í þessu máli, þ.e. með brotaþola.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 30. september 2010 vegna atvika þeirra, sem greinir í ákæru, útgefinni 28. júní 2011. Er hún í megindráttum í samræmi við framburð ákærða hér fyrir dómi, þ.e. hann bar þar um að brotaþoli hefði í báðum tilvikum ráðist á hann og að hann hefði aðeins varist árás hennar. Þó viðurkenndi ákærði að hafa slegið brotaþoli einu sinni utan undir 29. júní 2010.
Brotaþoli, A, sagði að þriðjudaginn 29. júní 2010 hefði þeim ákærða verið boðið í mat heim til foreldra hennar. Ákærði hefði enn verið við vinnu og því hefði hún farið á undan honum til foreldra sinna með krakkana og þar með talda dóttur ákærða. Hefði ákærða mislíkað þetta og komið stormandi og frekar reiður inn til foreldra hennar og tekið dóttur sína og farið heim. Nokkru síðar hefði hún einnig farið heim með börnin sín og ætlað að athuga hvað gengi á. Hefði ákærði þá verið inni í herbergi og að pakka. Sagðist hún hafa reynt að fara inn í herbergið til að ræða við ákærða en hann hefði alls ekki viljað hleypa henni inn. Þau hefðu síðan togast eitthvað á um hurðina, þ.e. hún hefði reynt að komast inn, en ákærði hefði varnað henni inngöngu. Einnig hefðu þau byrjað að öskra og æpa hvort á annað. Hún sagði að ákærði hefði varnað henni inngöngu, bæði með því að halda við hurðina og með því að ýta við henni með höndunum. Ákærði hefði síðan komið fram og ýtt við henni með þeim afleiðingum að hún datt aftur fyrir sig utan í vegginn á móti, en fyrir framan herbergið væri mjór gangur, en síðan hefði hún dottið í gólfið og lent beint á maganum. Sagðist hún þá hafa byrjað að finna fyrir verkjum. Hún sagði að því næst hefði ákærði tekið dóttur sína og farið, en sjálf hefði hún hlaupið yfir til foreldra sinna með krakkana. Þar hefði hún farið að finna fyrir svo miklum verkjum að þau hefðu hringt niður á Landspítala og hefði henni verið sagt að koma strax.
Brotaþoli var spurð að því hvort einhver frekari átök hefðu átt sér stað þarna, en hún kvaðst ekki þora að fara með það. Hún sagði að þetta hefði allt gerst mjög hratt. Henni var þá bent á að hjá lögreglu hefði hún greint frá því að ákærði hefði slegið hana nokkrum sinnum í andlitið, en vitnið kvaðst ekki minnast þess nú. Hún sagði að reyndar hefðu þau farið inn í eldhús og þar hefðu þau farið að rífast og þar gæti það hafa gerst. Hún sagði að þar hefði ákærði rifið í hana og hrist hana til. Sagðist hún hafa verið mjög hrædd því hún hefði verið barnshafandi. Sagðist hún ekki muna eftir því nú að ákærði hefði slegið hana í andlitið á þessum tímapunkti.
Aðspurð sagðist hún ekki hafa orðið reið þegar hún kom að ákærða að pakka niður, heldur hefði hún frekar orðið hissa því lítil ástæða hefði verið fyrir þessum viðbrögðum ákærða, þ.e. það eitt að hún skyldi ekki hafa beðið eftir ákærða heldur farið á undan honum með krakkana heim til foreldra sinna. Hún sagði að sig minnti að ákærði hefði talað um að fara á hótel. Aðspurð sagðist hún ekki hafa ráðist á ákærða, heldur hefði hún aðeins viljað ræða við hann. Sagðist hún ekki hafa viljað að ákærði færi frá henni á þennan hátt.
Brotaþoli bar um þessi atvik á svipaðan hátt hjá lögreglu 27. september 2010. Þar lýsti brotaþoli því að hún hefði reynt að komast inn í herbergið til ákærða, en hann hafði alltaf reynt að ýta henni í burtu. Hún sagði að sig minnti að í eitt skiptið hefði hann ýtt það harkalega við henni að hún hefði dottið á vegginn á móti og niður á gólf. Hún sagðist þó ekki muna þetta skýrt og ekki muna alveg hvernig hún datt. Sagðist hún hafa verið í miklu uppnámi þegar hún kom upp á sjúkrahús og skýrði frá því hvað gerst hefði. Sagðist hún ekki vita hvort hún væri búin að loka á þetta og sagðist hún því ekki muna glöggt hvernig þetta gerðist. Hún sagðist hafa verið með áverka þegar hún kom á sjúkrahúsið og sagðist nánast hafa sofið sleitulaust fyrstu þrjá dagana eftir að hún var lögð þar inn.
Aðspurð um atvik hinn 19. september 2010 sagði brotaþoli fyrir dómi að hún hefði verið heima með nýfædda dóttur þeirra ákærða og nýkomin úr keisaraskurði. Hún sagði að ákærði hefði farið eitthvað út og komið mjög seint heim um morguninn. Sagðist hún hafa orðið svolítið sár yfir því hversu seint ákærði kom heim þar sem hún hefði átt erfitt með að sinna barninu vegna keisaraskurðarins. Hún sagði að ákærði hefði verið ölvaður þegar hann kom heim og sagðist hún hafa ákveðið að segja ekki neitt við hann. Ákærði hefði þá farið inn í herbergi til barnsins, sem hefði verið sofandi, og byrjað að kyssa það og knúsa þrátt fyrir að hann væri blindfullur. Sagðist hún hafa beðið ákærða að vera ekki að þessu og fara bara að sofa. Sagðist hún þó hafa reynt að vera eins róleg eins og hún gat til að æsa ákærða ekki upp. Sagðist hún síðan hafa farið fram og haldið að ákærði væri að fara að leggja sig, en þá hefði ákærði komið fram með barnið í fanginu og sagðist hún hafa verið hrædd um að ákærði myndi detta með barnið því hann hefði verið það drukkinn. Sagðist hún hafa reynt að vera eins róleg og hún gat og beðið ákærða um að rétta sér barnið, en hann hefði ekki viljað það. Henni hefði þó tekist að taka barnið af ákærða, en það hefði verið vafið inni í sæng. Ákærði hefði þá orðið alveg brjálaður. Sagðist brotaþola hafa reynt að vefja barnið eins fast og hún gat inn í sængina og halda því upp að bringunni á sér þegar ákærði hefði byrjað að kasta henni til og frá, þ.e. ýta við henni, en við það hefði hún dottið utan í veggi. Hún hefði reynt að komast undan ákærða, en hann hefði elt hana út um allt, en hún sagðist varla hafa getað gengið vegna keisaraskurðarins. Hún sagði að allan tímann hefði hún verið með barnið í fanginu vafið inni í sæng. Sagðist hún aldrei hafa orðið eins hrædd á ævinni. Ákærði hefði ætlað að taka barnið og sagt henni að koma með það, hann ætlaði að fá barnið. Hún hefði sagt honum að hann hefði ekkert með barnið að gera. Hún sagði að ákærði hefði elt hana út á svalir og síðan hent henni í sófann og sagðist hún hálfpartinn hafa dottið ofan á barnið, en þó sett olnbogann fyrir. Ákærði hefði þá ýtt ofan á hana. Sagðist hún síðan hafa snúið sér við og reynt að sparka í ákærða því ákærði hefði verið að reyna að ná barninu af henni, en hún sagðist hafa gert allt til að koma í veg fyrir það. Sagðist hún hafa reynt að fara rólega að ákærða og reynt að ná til hans, en allt hefði komið fyrir ekki. Þau hefðu síðan staðið upp og hefði ákærði þá ýtt henni upp að glerskáp í stofunni og hefði glerið brotnað og farið yfir hana og barnið. Hún sagðist halda að höfuðið á henni hefði skollið í skápinn þannig að glerið í annarri skápshurðinni brotnaði. Sagðist hún hafa öskrað eins hátt og hún gat í þeirri von að einhver kæmi henni til aðstoðar. Áður hefði hún verið búin að reyna að hringja á lögregluna, en ákærði hefði náð af henni símanum. Hún sagði að nágrannarnir hefði síðan komið og bankað og lögreglan skömmu síðar. Hún sagðist ekki vita hver hringdi á lögregluna, en sagðist hafa heyrt að íbúarnir í næsta stigagangi hefðu heyrt í henni öskrin.
Aðspurð sagðist hún ekki hafa ráðist á ákærða á meðan hann hélt á barninu. Hún sagðist hins vegar hafa náð barninu af ákærða, en það hefði ekki gerst með neinum látum. Hún sagðist ekki muna eftir að hafa slegið ákærða eða klórað hann og kvaðst heldur ekki muna eftir því að ákærði fengi blóðnasir eða einhverja aðra áverka. Hún kvaðst viðurkenna að hafa verið mjög æst þegar ákærði reyndi að ná barninu af henni og sagðist hafa gert allt til að koma í veg fyrir það.
Brotaþoli sagði að ákærði hefði beitt hana mikilli andlegri kúgun á meðan á sambandi þeirra stóð. Hún sagði að eftir þetta hefði henni liðið mjög illa yfir því hvernig þetta endaði og að hún stæði ein uppi með barnið. Sagðist hún hafa slitið sambandi þeirra ákærða í kjölfar atviksins 19. september 2010 og búið hjá vinkonu sinnar, en farið í viðtöl í kvennaathvarfinu. Einnig hefði hún gengið til sálfræðings. Þá sagðist hún eiga góða að, bæði fjölskyldu og vini, sem hefðu hjálpað henni í gegnum þetta. Hún sagði að henni liði aðeins betur í dag, en þessi reynsla væri eitthvað sem ekki gleymdist. Hún sagðist enn vera mjög hrædd við ákærða og sagðist hún ekki hafa rætt við hann frá því að atvik málsins áttu sér stað 19. september 2010. Þá sagði hún að ákærði hefði ekki haft samband og ekki enn séð barnið sitt, sem væri orðið 15 mánaða gamalt.
Skýrsla brotaþola hjá lögreglu um atvik málsins hinn 19. september 2010 er í samræmi við skýrslu hennar hér fyrir dómi.
Þóra Guðný Ægisdóttir ljósmóðir sagðist hafa verið við vinnu á kvöldvakt á fæðingardeild Landspítala umrætt kvöld þegar móðir brotaþola hefði hringt og tjáð sér að dóttir hennar, barnshafandi, væri hjá henni og það hefði orðið smá óhapp. Sagðist hún síðan hafa rætt við brotaþola og hefði hún tjáð sér að sambýlismaður hennar hefði í kjölfar rifrildis hent henni til og að hún hefði lent beint á kúlunni. Þá hefði brotaþoli sagt henni að henni liði illa og væri með verki. Sagðist hún hafa sagt brotaþola að koma strax. Brotaþoli hefði síðan komið á deildina í fylgd móður sinnar og dóttur og sagðist hún hafa gert á brotaþola fyrstu skoðun og metið stöðuna. Ekki hefði farið fram kvenskoðun á þessu stigi málsins. Allt hefði litið vel út hvað fóstrið varðaði. Hún sagði að brotaþola hefði hins vegar liði mjög illa andlega og þá hefði hún kveinkað sér vegna eymsla við hreyfingu, t.d. þegar hún hefði lagst upp á bekkinn. Einnig hefði hún talað um verki í baki og handlegg og að hún væri með höfuðverk. Hún sagði að brotaþoli hefði sjálf viljað fara heim til að vera með börnunum sínum. Brotaþoli hefði síðan farið á salernið og þá hefði komið í ljós að nærbuxurnar hennar voru rennandi blautar og hefði þá verið gert á henni ákveðið próf, sem leitt hefði í ljós að legvatn var farið að leka frá brotaþola. Brotaþoli hefði þá verð kyrrsett á sjúkrahúsinu.
Hún sagði að við högg og áverka væri aukin áhætta á því að belgurinn rofnaði og legvatn færi að renna. Hún sagði að legvatn gæti einnig farið að leka vegna undirliggjandi sýkingar, en sagði að ekki væri líklegt að legvatn færi að leka vegna uppnáms eða kvíða og streitu. Hún sagði að koma þyrfti högg á kviðinn til belgurinn rofnaði og vatn færi að leka. Aðspurð sagðist hún ekki geta útilokað það að rof hefði getað komið á belginn við það að brotaþoli réðist að ákærði og einhver átök átt sér stað á milli þeirra. Vitnið staðfesti vottorð á skjölum merktum I, 2-5 og I, 2-6.
Hildur Harðardóttir, yfirlæknir kvenna- og barnasviðs Landspítala, sagðist hafa skoðað brotaþola nokkrum dögum eftir innlögn. Hún sagði að brotaþoli hefði verið með áverka á kjálkabeini og mar á öxl og fleiri stöðum. Hún sagði að alvarlegast væri að legvatnið hefði verið farið að renna, sem yfirleitt væri merki um upphaf fæðingar. Hætta hefði verið á því að brotaþoli fæddi fyrirbura, en hún hefði aðeins verið gengin 26 og hálfa viku með barn sitt þegar þetta var. Hún staðfesti að áverkarnir hefðu stefnt lífi ófædda barnsins í mikla hættu. Hún sagði að brotaþoli hefði kvartað mest um verki í kúlunni, eins og hún orðaði það, þ.e. í leginu og virðist það hafa orsakað það að vatnið fór að renna. Hún sagði legvatn gæti komið í einni gusu eða lekið smám saman, en misjafnt væri með hvaða hætti það gerðist. Vitnið staðfesti vottorð sitt, dags. 28. febrúar 2011. Aðspurð sagði hún að eitthvað meira þyrfti til en æsing og áreynslu til að rof kæmi á belginn, t.d. inngrip, svo sem legvatnsástungu eða högg. Hún sagði að afar ólíklegt væri að það, að brotaþoli hefði slegið frá sér, hefði valdið því að rof kom á belginn. Koma þyrfti áverki beint á legið eða kúluna til þess að það gerðist. Þá gæti andlegt uppnám eða stress ekki valdið því að rof kæmi á belginn.
D sagði að hún og brotaþoli hefðu hist að degi til hinn 29. júní 2010, en þennan sama dag hefðu þær ákveðið að leyfa dætrum sínum að fara í bíó. Sagðist hún síðan hafa sótt stelpurnar í bíóið og ekið C, dóttur brotaþola, heim til móður brotaþola. Sagðist hún hafa sagt við C að ef eitthvað væri að gæti hún alltaf hringt í sig. Síðar um kvöldið hefði C hringt í hana og tjáð henni að brotaþoli og ákærði væru að rífast vegna hennar, þ.e. vegna vitnisins. Sagðist hún hafa sagt C að hafa ekki áhyggjur af því og sagðist hafa reynt að róa C niður, en hún hefði viljað að hún kæmi og sækti hana. Nokkru síðar hefði C hringt aftur í hana og þá hefðu þau systkinin, C og B, verið lokuð inni í þvottahúsi og hefði brotaþoli verið grátandi. C hefði tjáð sér að ákærði hefði tekið í mömmu sína, farið á eftir henni út á svalir og þar hefði hún haldið hurðinni. Sagðist hún hafa reynt að róa C niður, en einnig hefði hún talað við D, sem hefði sagt sér að ákærði hefði verið að lemja mömmu hans og að hann væri vondur við hana. Einnig hefði hann sagt henni að hann væri hræddur og þá hefði hann beðið hana um að sækja sig. Sagðist hún hafa heyrt í brotaþola grátandi á bak við. Einnig sagðist hún hafa talað stuttlega við brotaþola og hefði hún tjáð sér að ákærði hefði farið í hana, en hún hefði ekki lýst því nánar. Vitnið sagðist hafa gert þau mistök að hringja í föður brotaþola í stað þess að hringja í lögregluna.
I sagði að brotaþoli hefði sagt sér frá árás, sem átt hefði sér stað 19. september 2010. Sagðist hún hafa verið stödd hjá kærasta sínum í [...] þetta kvöld og hefði brotaþoli hringt í hana og tjáð henni að hún sæti í lögreglubifreið fyrir utan íbúð vitnisins í [...]. Hún sagði að brotaþoli hefði verið miður sín og grátandi. Sagðist vitnið hafa tjáð brotaþola að hún kæmi strax og hefði hún klætt sig og brunað út í [...]. Þar hefði lögreglumaður tekið á móti henni með barnið í bílastól og brotaþola hágrátandi. Sagðist hún hafa farið með hana inn í íbúð og komið barninu fyrir inni í rúmi. Hún sagði að brotaþoli hefði tjáð sér að ákærði hefði komið heim og viljað halda á barninu á meðan hann var undir áhrifum áfengis. Hún hefði ekki viljað það og náð barninu af honum. Ákærði hefði þá orðið reiður og hent henni utan í skáp á meðan hún hélt á barninu og hefði skápurinn brotnað við það. Þá hefði hann þrýst henni ofan í sófa með barnið undir sér. Einnig hefði hann tuskað hana til og frá. Nágrannar hefðu síðan heyrt í henni öskrin og komið og bankað hjá þeim. Þá hefði verið hringt á lögregluna og hefði lögreglan ákveðið að taka brotaþola og barnið af heimilinu. Hún sagðist hafa séð áverka á brotaþola, þ.e. marbletti og hefði hún náð að sannfæra brotaþola um að fara á sjúkrahús til að láta skrá þetta og taka myndir af áverkunum.
Ólafur Ragnar Ingimarsson, yfirlæknir á bráða- og göngudeild G3 á Landspítala, staðfesti vottorð sitt á skjali merktu II, 2-1. Hann sagði að mar á handleggjum gætu hafa komið við átök, þ.e. að tekið hefði verið utan um handlegginn. Skráma á vinstri öxl gæti hafa komið við það er viðkomandi var hrint á glerskáp, sem brotnaði.
Óla Björk Eggertsdóttir sálfræðingur staðfesti að hafa ritað bréf, dags. 4. október 2011, sem stílað er á Ingu Lillý Brynjólfsdóttur og liggur frammi í málinu.
Ágústína Ingvarsdóttir sálfræðingur sagði að ákærði og brotaþoli hefðu leitað hennar í hjónabandsráðgjöf, aðallega vegna þess að þau hefðu ekki verið sammála um uppeldisaðferðir. Þá hafði borið á afbrýðisemi gagnvart börnum hvors um sig, þ.e. hvort um sig hafi talið að hitt væri að hygla sínu barni umfram börn hins. Þá hefðu verið hnökrar á sambandi þeirra og barn á leiðinni. Hún staðfesti bréf sitt, dags. 28. september 2010, á skjali merktu II, 5-1.
Ekki lá fyrir samþykki frá brotaþola um að vitnið greindi frá því sem fram kom um einkahagi hennar á fundum hennar og vitnisins og féllst dómari ekki á að aflétta trúnaðarskyldu samkvæmt b-lið 2. mgr.119. gr. sakamálalaga nr. 88/2008, sbr. 3. mgr. sömu laga.
B, 8 ára gamall sonur brotaþola, gaf skýrslu hjá lögreglu 5. október 2010 vegna atviksins 29. júní sama ár. Sagðist hann hafa verið inni í herbergi þegar þau ákærði og mamma hans hefðu verið að rífast, en hann hefði samt séð þetta. Hann sagði að ákærði hefði tekið J dóttur sína og farið með hana heim til sín. Ákærði hefði lamið mömmu hans og mamma hans lamið ákærða. Nánar aðspurður sagði hann að ákærði hefði lamið mömmu hans „ógeðslega fast“ og sýndi að höggið hefði komið á vangann á mömmu sinni. Þá hefði hann séð ákærða ýta mömmu sinni. Hann, C systir hans og mamma hefðu læst sig inni í þvottahúsi og þar hefði mamma verið hágrátandi. Aðspurður sagði hann að mamma sín hefði meitt sig í bakinu. Loks sagði hann að C, mamma og hann hefðu síðan hlaupið heim til ömmu og afa frá ákærða.
C, 12 ára gömul dóttir brotaþola, gaf skýrslu hjá lögreglu 10. desember 2010 um atvikið 29. júní 2010. Hún sagði að ákærða hefði mislíkað það að mamma hennar skyldi hafa farið með börnin á undan honum í matarboðið hjá foreldrum sínum og hefði hann komið snarbrjálaður heim til afa hennar og ömmu. Hefði hann skammað mömmu hennar fyrir að fara á undan honum og síðan rokið heim með dóttur sína. Mamma hennar hefði síðan farið heim með þau og þegar þau hefðu komið þangað hefði ákærði beðið mömmu hennar um að tala við sig inni í herbergi. Sagðist hún hafa farið í tölvuna inni hjá sér og síðan hefði hún heyrt að sparkað var í skápa og öskrað. Hún sagði að þau væru vön að öskra hvort á annað og því hefði hún bara hækkað tónlistina, en síðan hefði hún allt einu heyrt að herbergisdyrnar voru opnaðar og að eitthvað eða einhver datt og skall í vegginn. Hún hefði síðan heyrt mömmu sína öskra eitthvað á þá leið: „Ái, ég er með barn í maganum.“ Sagðist hún þá hafa farið fram og séð mömmu sína á gólfinu grátandi og þá hefði hún verið farin að finna til í maganum. Mamma hennar hefði síðan staðið upp og þá hefði ákærði slegið hana mjög oft og af öllum kröftum utan undir hann, þ.e. með flötum lófa og einnig hefði hann öskrað á hana. Hún sagði að mamma sín hefði reynt að slá ákærða til baka til að losna undan honum og tekist að slá hann u.þ.b. tvisvar sinnum. Sagðist hún ekkert hafa getað gert og ekki hafa þorað að hreyfa sig. Sagðist hún hafa farið inn í herbergið og hringt í D vinkonu mömmu sinnar, sem hefði ætlað að koma, en maðurinn hennar hefði bannað henni það. Mamma hennar hefði síðan hlaupið af stað. Bróðir hennar, sem hefði verið farinn að sofa, hefði komið fram og mamma hennar hefði tekið hann og þau hlaupið út á svalir. Ákærði hefði hlaupið á eftir þeim og hrint öllum diskum niður og hefðu glerbrot verið um allt. Ákærði hefði síðan lamið á svalahurðina og kallað mömmu hennar öllum ljótum nöfnum. Þau hefðu síðan farið inn aftur og hefði ákærði ýtt henni sjálfri til því hann hefði ætlað að grípa í mömmu hennar. Þau hefðu náð að sleppa og hlaupið inn í þvottahús og læst sig þar inni. Rétt áður en þau náðu að læsa sig inni í þvottahúsinu hefði ákærði slegið mömmu hennar í eldhúsinu. Hefði ákærði slegið mömmu hennar svo fast að mamma hennar hefði haldið að það myndi fara að blæða. Sjálf sagðist hún ekki hafa séð það alveg því hún og B hefðu verið komin inn í þvottahús og verið að kalla á mömmu sína að koma þangað inn líka, en hún hefði verið að reyna að losa sig frá ákærða. Hún sagði að mamma sín hefði verið eldrauð á eyranu og þar í kring og verið mjög illt. Þau hefðu verið mjög hrædd og mamma hennar alveg að verða klikkuð og ætlað að hringja á lögregluna. Ákærði hefði lamið á hurðina og reynt að opna. Allt hefði verið í klessu. Ákærði hefði síðan byrjað að pakka saman í ferðatösku og síðan hefði hann bara farið út og tekið með sér bíllykla mömmu hennar og lyklana að íbúðinni. Hún sagði að þau hefðu ekki þorað að opna fram fyrr en þau voru búin að sjá hann aka í burtu. Hún sagðist síðan hafa fengið mömmu sína til að fara yfir til ömmu sinnar og afa, sem byggju hinum megin við götuna, og þá hefði mömmu hennar verið orðið svo illt í maganum að hún hefði varla getað hreyft sig. Mamma hennar hefði síðan farið á sjúkrahús.
K gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 18. október 2010, vegna atviksins 19. september 2010, en hann býr að [...] í [...]. Kvaðst hann hafa vaknað upp um klukkan 07:00, 19. september sl., við mikinn hávaða sem borist hefði úr íbúðinni fyrir ofan hann, en þar byggju brotaþoli og ákærði. Kvaðst vitnið hafa heyrt mikil öskur í brotaþola og húsgögn á fleygiferð. Þegar hann hefði heyrt brothljóð kvaðst hann hafa ákveðið að kanna hvað væri í gangi. Sagðist hann hafa klætt sig, hlaupið upp tröppurnar og bankað á dyrnar. Ákærði hefði opnað og kvaðst vitnið hafa séð brotaþola fyrir innan þar sem hún hefði staðið með ungabarn í fanginu, skjálfandi og greinilega dauðhrædd. Hann sagði að barnið hefði verið vafið inn í eitthvað í fanginu á brotaþola. Hann hefði spurt ákveðið hvað gengi á og hefði ákærði þá viljað ræða málin, en vitnið kvaðst hafa sagt honum að hann væri búinn að fá nóg af þessum látum og hefði ekkert við hann að tala. Hefði ákærði þá skellt á hann hurðinni. Hann sagði að talsverð áfengislykt hefði verið af ákærða og hann hefði greinilega verið ölvaður, en ekki tiltakanlega óstöðugur. Kvaðst hann hafa ætlað að hringja eftir lögregluaðstoð, en áður en til þess kom hefði hann séð að lögreglumenn voru að koma á vettvang og kvaðst hann því ekki hafa skipt sér af þessu frekar. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa tekið eftir áverkum á brotaþola, en sagðist hafa tekið eftir því að ákærði var með klórfar við annað augað.
Ákærði var fyrir dómi spurður út í atvik, sem samkvæmt gögnum málsins áttu sér stað 8. júní 2011, sbr. 2. tölulið ákæru, útgefinnar 16. ágúst 2011. Ákærði neitaði sök. Sagðist hann ekki hafa ekið bifreiðinni. Hann sagði að F hefði verið ökumaður bifreiðarinnar. Ákærði sagði að lögreglan komið að honum þar sem hann hefði verið við Bæjarins bestu og verið að spjalla við strák, sem hefði verið aftur í bílnum. Dyrnar á bifreiðinni hefðu verið opnar og kvaðst ákærði hafa setið í framsætinu með fæturna út. F hefði síðan komið að bifreiðinni með bíllyklana. Ákærði sagði að lögreglan hefði þrýst mjög á að hann játaði að hafa ekið bifreiðinni og sagðist ákærði hafa gert það til að losna úr haldi lögreglu því hann hefði verið á leið til Danmerkur daginn eftir með eldri dóttur sína. Ákærði sagðist ekki nota fíkniefni að staðaldri og sagðist ekki vera fíkill, en hann sagðist hafa prófað að nota kókaín af gáleysi umræddan dag. Hann játaði að hafa verið undir áhrifum áfengis þennan dag, en sagðist ekki hafa ekið bifreiðinni. Ákærði sagði að rétt væri að hann væri með húðflúr á báðum handleggjum. Hann sagði að ekki væri hægt að sjá inn um rúðurnar á umræddri Bens-bifreið.
Kristín Ósk Guðmundsdóttir lögreglumaður sagði að 8. júní 2011 hefði borist tilkynning frá fjarskiptamiðstöð um ökumann, sem væri hugsanlega ölvaður og væri að aka niður Laugaveginn, en vitni höfðu tilkynnt fjarskiptamiðstöðina um aksturinn. Skömmu síðar hefðu borist upplýsingar um að bifreiðinni hefði verið ekið niður Austurstrætið, en eitt vitnanna hafði veitt bifreiðinni eftirför. Hún sagði að þau hefðu því ekið Tryggvagötuna í vestur og séð að búið var að stöðva bifreiðina við Bæjarins bestu. Þá hefði stúlka setið í framsætinu farþegamegin og með kveikjuláslyklana á sér, en ákærði hefði setið í ökumannssætinu. Þau hefðu síðan fengið staðfest frá fjarskiptamiðstöð að vitnið, sem hafði fylgt bifreiðinni eftir og verið í sambandi við fjarskiptamiðstöðina, hafði lagt sinni bifreið álengdar og látið fjarskiptamiðstöð vita að lögregla væri að ræða við ökumanninn. Aðspurð sagðist hún ekki muna hvort ákærði sat í ökumannssætinu með fæturna út úr bifreiðinni þegar þau höfðu afskipti af honum. Nánar aðspurð kvaðst hún ekki geta fullyrt hvort stúlkan sat í farþegasætinu þegar þau komu að bifreiðinni eða hvort hún kom síðar að bifreiðinni með lyklana í hendinni, en kvaðst vísa til frumskýrslu lögreglu í málinu.
Baldur Ólafsson lögreglumaður sagði að 8. júní 2011 hefði verið tilkynnt um ökumann á Laugavegi, sem væri hugsanlega undir áhrifum og hefðu þeir fundið hann niðri í bæ við Bæjarins bestu. Vitnið sem tilkynnt hefði um aksturinn hefði síðan séð þau tala við ákærða við Bæjarins bestu og staðfest að það væri ökumaðurinn. Þá hefði annað vitni lýsti ökumanni á sama hátt og fyrra vitnið. Loks hefði ákærði viðurkennt í lögreglubifreiðinni að hann hefði ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Hann sagði að stúlkan, sem var með ákærða í bifreiðinni, hefði fyrst ætlað að taka þetta á sig, en síðan hefði hún dregið það til baka. Hann sagðist hafa rætt við vitnið G á vettvangi og hefði hann staðfest að hafa fylgst með akstri ákærða þar til lögregla hafði afskipti af honum. Einnig sagðist hann hafa rætt við vitnið H, sem hefði lýst ökumanni á þann veg að hann hefði verið í hvítri stutterma skyrtu og með húðflúr á báðum handleggjum og hefði sú lýsing komið heim og saman við ákærða.
F sagðist hafa ætlað að sækja ákærða niður í bæ umræddan dag og þá hefði komið í ljós að hann var búinn að drekka talsvert, en einnig hefði hann verið búinn að neyta kókaíns. Hún sagðist vera fyrrverandi kærasta ákærða og sagðist alltaf hafa verið svolítið hrædd við hann. Sagðist hún hafa ætlað að fá að aka bifreiðinni, en ákærði hefði orðið brjálaður og neitað því. Hann hefði sagt henni að koma inn í bifreiðina og hefði ákærði ekið niður Laugaveginn. Sagðist hún hafa rifist við ákærða í bifreiðinni og þá hefði ákærði stöðvað bifreiðina til rífast við hana á móti. Einhver hefði þá flautað til að koma umferðinni af stað og sagðist hún halda að ákærði hefði farið tvisvar brjálaður út úr bifreiðinni til að ráðast á fólkið. Ákærði hefði síðan farið niður á Bæjarins bestu og hefði hann stöðvað þar. Þar hefðu þau hitt vin ákærða og síðan hefðu þau séð lögregluna koma. Hefði ákærði þá látið hana fá bíllyklana og sagt henni að segja lögreglunni að hún hefði verið að keyra. Þá hefði hann sagt henni að hlaupa í burtu. Sagðist hún þá hafa hlaupið í burtu ásamt strák, sem einnig hefði verið í bifreiðinni. Hún sagðist síðan hafa komið til baka 5-6 mínútum síðar og þá hefði hún sagt lögreglunni að hún hefði verið að keyra. Þegar búið hefði verið handtaka ákærða og setja hann inn í lögreglubifreiðina og hann hefði ekki heyrt til hennar hefði hún hins vegar sagt lögreglunni sannleikann. Sagðist hún hafa búið með ákærða á sínum tíma og sagði að hann hefði beitt sig miklu andlegu ofbeldi og kúgun. Á endanum hefði hann einnig lagt á hana hendur. Sagðist hún alltaf hafa verið hrædd við hann. Hún sagðist geta staðfest að ákærði hefði ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Hún sagði að ekki væri rétt að hún hefði ekið bifreiðinni.
H sagðist hafa verið að aka ein niður Laugaveginn 8. júní sl. þegar bifreiðin á undan henni hefði verið stöðvuð neðarlega á Laugaveginum og hún stöðvað alla umferð. Væntanlega hefði einhver fyrir aftan hana flautað til að reka á eftir umferðinni. Ökumaðurinn í bifreiðinni fyrir framan hana hefði rokið út úr bifreiðinni í mikilli vonsku og lamið alla bifreiðina hennar að utan og ætlað sér að fara inn í hana, en hún sagðist hafa náð að að læsa bifreiðinni áður. Einnig hefði maðurinn kallað hana mörgum ljótum orðum og ásakað hana um hafa flautað á hann og sagt að hún hefði engan rétt til þess. Hún sagði að ökumaðurinn hefði verið í hvítum jakka eða skyrtu með uppbrettar ermar og með húðflúr á báðum handleggjum. Hún sagði að maðurinn hefði verið rosalega reiður og sagðist hún hafa verið hrædd við hann. Hún sagði að sig minnti að maðurinn hefði verið á hvítum jeppa. Hún sagði að maðurinn hefði stigið út úr ökumannssætinu, hellt sér yfir hana og síðan hefði hann sest aftur upp í bifreiðina og ekið niður Laugaveginn. Hún sagðist halda að kona hefði setið í framsætinu farþegamegin.
G sagðist hafa búið fyrir norðan á þessum tíma og sagðist hafa verið í bæjarferð með konunni sinni umræddan dag. Hann sagði að þau hefðu veitt því athygli að bifreið hafði verið stöðvuð fyrir framan veitingastaðinn Monakó og fyrir utan hann hefði staðið maður og bílstjórahurðin verið opin. Hann sagði að ein bifreið hefði verið á milli hans og bifreiðarinnar sem var stopp og hefði ökumaður hennar flautað. Maðurinn hefði þá gengið í átt að bifreiðinni, sem var fyrir framan vitnið, og verið með ógnandi í framkomu. Af þeim sökum hefðu hann og konan hans ákveðið að læsa sinni bifreið. Maðurinn hefði síðan snúið við, sest upp í bifreiðina og ekið af stað. Hann sagði að sig minnti að hann hefði þá strax hringt í lögreglu og tilkynnt um atvikið. Sagðist hann vera fyrrverandi lögreglumaður og slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og á grundvelli þeirrar reynslu sinnar sagðist hann ekki hafa talið þetta vera eðlilega hegðun. Þau hefðu síðan ekið áfram niður Laugaveginn og hefði þeim fundist ökumaðurinn stöðva bifreiðina óeðlilega oft. Við mót Laugavegar og Smiðjustígs hefði bifreiðinni verið ekið út í kant og þar hefði hann sjálfur stöðvað sína bifreið og ákveðið að fylgjast með ökumanninum. Þarna hefði bifreiðin verið stopp í nokkrar mínútur, en síðan verið ekið langt yfir hámarkshraða niður Laugaveg og Bankastrætið og síðan beint inn á Austurstrætið á milli stólpa, en þá hefði verið nýbúið að loka Austurstrætinu fyrir umferð bíla. Þegar hann var kominn í Bankastrætið sagðist hann hafa hringt aftur í lögreglu og tilkynnt um þetta. Hann sagðist sjálfur hafa ekið hefðbundna leið, þ.e. um Pósthússtrætið og þegar þau hefðu komið að Bæjarins bestu hefðu þau séð að bifreiðinni hafði verið lagt í bílastæði við Bæjarins bestu. Þar hefði ökumaðurinn staðið yfir utan og verið að tala við annan mann. Sagðist hann þá aftur hafa haft samband við lögregluna og tjáð henni að hann myndi bíða þar til lögregla kæmi á staðinn. Hann sagðist síðan hafa séð lögregluna hafa afskipti af manninum og staðfesti að um hefði verið að ræða sama mann og staðið hefði fyrir utan bifreiðina við veitingastaðinn Mónakó og sem síðan hefði sest undir stýri á bifreiðinni. Hann sagði að ökumaðurinn hefði verið þrekinn, með snöggklippt hár, í hvítri skyrtu og dökkum buxum.
L sagðist hafa verið að aka niður Laugaveginn í umrætt sinn ásamt kærasta sínum. Umferðin hefði gengið mjög hægt því fyrir framan þau hefði verið bifreið, sem keyrði mjög hægt og hefði alltaf verið að stoppa. Hún sagði að ein bifreið hefði verið á milli þeirra og bifreiðarinnar sem ákærði ók og fór fremst. Hún sagði að ökumaður bifreiðarinnar, sem var fyrir framan þau, hefði flautað því umferðin hefði gengið mjög hægt og hefði ökumaður fremstu bifreiðarinnar þá rokið út og verið með ógnandi framkomu við ökumann bifreiðarinnar fyrir aftan hann. Hún sagði að þau hefðu læst bifreiðinni því þau hefðu haft á tilfinningunni að maðurinn ætlaði að rjúka inn í bifreiðina fyrir framan þau. Maðurinn hefði síðan farið aftur inn í bifreiðina og ekið áfram og hefði aksturslag hans verið áfram hálf furðulegt. Hún sagði að kærastinn hennar, G, hefði á þessum tímapunkti ákveðið að tilkynna þetta til lögreglu. Þau hefðu síðan ekið áfram á eftir bifreiðinni og hefði hún síðar verið stöðvuð aðeins til hliðar. Þau hefðu þá komist fram hjá bifreiðinni, en ákveðið að stoppa aðeins framar og fylgjast með bifreiðinni. Maðurinn hefði síðan tekið af stað og brunað á mjög miklum hraða niður Laugaveginn. Sagðist hún þá hafa tekið eftir því að kona sat í framsætinu farþegamegin. Þau hefðu síðan séð að bifreiðinni var ekið inn í Austurstrætið og hefði þau þá ákveðið að keyra Lækjargötuna og fram hjá Hótel Borg og að Tryggvagötunni. Þar hefðu þau síðan stöðvað við hótel 1919 og séð að bifreiðinni hafði verið lagt við Bæjarins bestu. Hún sagði að annar grár bíll hefði verið við hliðina á honum. Ökumaðurinn hefði þá verið að tala við annan mann á staðnum, en konan hefði enn setið inni í jeppanum. G hefði þá hringt aftur í lögregluna og þau ákveðið að bíða þar til lögreglan kæmi á staðinn. Þau hefðu þá tekið eftir að konan fór út úr bifreiðinni og gekk í burtu ásamt hinum manninum, sem ökumaðurinn var að tala við. Hefði verið eins og hún væri að forðast það að einhver sæi til hennar. Hún sagðist síðan hafa séð lögregluna koma og hafa afskipti af ökumanni jeppans. Hún sagði að ökumaðurinn hefði verið svolítið þrekinn og massaður, í hvítri skyrtu og með snöggklippt hár.
Einnig kom fyrir dóminn Stefán Fróðason lögreglumaður, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans þar sem fallið hefur verið frá 1. lið ákæru, útgefinnar 16. ágúst 2010.
III.
Ákæra, útgefin 28. júní 2011.
Ákæruliður I.
Samkvæmt þessum ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa ráðist á brotaþola, fyrst með hrindingum þannig að brotaþoli féll fram fyrir sig og á magann, og í framhaldi slegið hana nokkur högg með flötum lófa í andlitið með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru.
Ákærði hefur neitað því að hafa ráðist á brotaþola og að hafa hrint henni. Hann hefur hins vegar viðurkennt að hafa slegið brotaþola einu sinni utan undir þegar þau voru stödd í eldhúsinu.
Ákærði hefur borið um það að brotaþoli hafi verið upphafsmaður átaka þeirra. Hún hafi ráðist á hann þar sem hann hafi verið að pakka niður í tösku í svefnherberginu og slegið hann ítrekað í höfuðið og skrokkinn. Hann kvaðst þó ekki muna hvaða áverka hann hlaut af völdum árásar brotaþola. Sagðist ákærði hafa ýtt brotaþola út úr herberginu og skellt hurðinni, en brotaþoli hefði þó ekki dottið við það. Brotaþoli hefði hamast á hurðinni og hann haldið við hana þar til hann sleppti hurðinni til að sinna dóttur sinni. Við það hefði brotaþoli runnið á gólfinu og komist inn í herbergið. Ákærði sagði jafnframt að rétt væri að brotaþoli hefði hrasað og fallið fram fyrir sig, en það hefði gerst vegna þess að hann sleppti hurðinni til að sinna dóttur sinni. Hún hefði þó ekki fengið högg á magann við það. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa séð brotaþola detta í gólfið og á kviðinn, en sagðist þó ekki vilja útiloka það þar sem langt væri um liðið frá atvikinu.
Framburður ákærða um málsatvik þennan dag er um margt ótrúverðugur. Þykir lýsing hans á atvikum óskýr og óákveðin og að mörgu leyti mótsagnakennd. Hefur hann ýmist borið um það að brotaþoli hafi runnið á gólfinu þegar hann sleppti hurðinni eða að brotaþoli hafi hrasað og fallið fram fyrir sig, en þó kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa séð brotaþola detta í gólfið og á kviðinn. Sagðist hann þó ekki vilja útiloka það. Þá hefur ákærði borið um það að brotaþoli hafi verið mjög ósátt við það að hann væri að fara, en í sama mund bar ákærði um það atburðarásin hefði snúist um það eitt að koma honum og dóttur hans út úr íbúðinni. Lýsti hann því að hann hefði ekki einu sinni haft tækifæri til að pakka niður og að hann og dóttir hans hefðu rétt náð því að koma sér í skó áður en þau sluppu út úr húsinu. Skömmu áður hefði hann þó slegið brotaþola einu sinni utan undir, en það hefði hann gert í þeim tilgangi einum að róa hlutina, eins og ákærði orðaði það. Þykir þessi lýsing ákærða á atburðarásinni afar ótrúverðug.
Brotaþoli bar um það hér fyrir dómi að hún hefði reynt að fara inn í herbergið þar sem ákærði var að pakka niður til að ræða við hann, en ákærði hefði ekki viljað hleypa henni inn. Þau hefðu togast eitthvað á um hurðina, þ.e. hún hefði reynt að komast inn, en ákærði hefði varnað henni inngöngu, bæði með því að halda við hurðina og með því að ýta við henni með höndunum. Hún sagði að ákærði hefði síðan komið fram og ýtt við henni með þeim afleiðingum að hún hefði dottið aftur fyrir sig á vegginn á móti dyrunum og síðan hefði hún dottið á gólfið og lent beint á maganum.
Brotaþoli bar um þessi atvik á svipaðan hátt hjá lögreglu, þ.e. að hún hefði reynt að komast inn í herbergið til ákærða, en hann hefði alltaf reynt að ýta henni í burtu. Í eitt skiptið hefði hann ýtt það harkalega við henni að hún hefði dottið á vegginn á móti og niður á gólfið, en brotaþoli kvaðst þó ekki muna það skýrt hvernig hún datt. Þá fær framburður brotaþola einnig stuðning í framburði vitnisins Þóru Guðnýjar Ægisdóttur ljósmóður, sem tók á móti henni á sjúkrahúsinu umrætt kvöld, en hún bar um það hér fyrir dómi að brotaþoli hefði tjáð sér að sambýlismaður hennar hefði hent henni til í kjölfar rifrildis með þeim afleiðingum að hún hefði lent beint á kúlunni. Er þetta og í samræmi við vottorð, sem vitnið ritaði vegna málsins 1. júlí 2010 og liggur frammi á meðal málsgagna.
Framburður brotaþola um þessi atvik hefur samkvæmt framansögðu verið stöðugur og þykir trúverðugur, enda þykir lýsing brotaþola á atburðarás samrýmast áverkum þeim, sem brotaþoli var með eftir atvikið. Vitnin Þóra Guðný Ægisdóttir ljósmóðir og Hildur Harðardóttir læknir báru báðar um það að högg eða annar áverki þyrfti að koma á kviðinn til að belgurinn rofnaði og legvatn færi að leka. Þá bar vitnið Hildur um það að andlegt uppnám eða stress gæti ekki valdið því að rof kæmi á belginn og er það og í samræmi við framburð vitnisins Þóru Guðnýjar. Þá kvað vitnið Hildur það afar ólíklegt að það eitt, að brotaþoli hefði slegið frá sér, hefði valdið því að rof kæmi á belginn. Í ljósi framangreinds þykir staðhæfing ákærða um að brotaþoli hefði misst legvatnið af æsingnum einum saman mjög ótrúverðug.
Þá fær framburður brotaþola stuðning í skýrslu barna hennar, B og C, hjá lögreglu og þá sérstaklega í skýrslu C, sem bar um það að hafa heyrt móður sína og ákærða rífast og að allt í einu hefðu herbergisdyrnar opnast og hún heyrt að eitthvað eða einhver datt og skall í vegginn. Hún hefði síðan heyrt móður sína öskra upp og þegar hún hefði farið fram hefði hún séð móður sína grátandi á gólfinu. Skýrslur barnanna hjá lögreglu samrýmast framburði vitnisins D hér fyrir dómi, en hún kvaðst hafa verið í símasambandi við börnin og brotaþola meðan á hluta átakanna stóð. Kvaðst hún hafa heyrt í brotaþola grátandi á bak við þegar hún ræddi við B. Þá kvaðst hún hafa rætt stuttlega við brotaþola og hefði hún tjáð sér að ákærði hefði farið í hana, en ekki lýst því nánar. Í ljósi framangreinds þykir mega líta til áðurgreindra skýrslna barnanna hjá lögreglu þrátt fyrir að þau hafi ekki komið fyrir dóminn sem vitni, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með vísan til alls framangreinds þykir sannað að ákærði hafi hrint brotaþola með þeim afleiðingum að hún féll fram fyrir sig og á magann eins og í ákæru greinir.
Eins og áður greinir hefur ákærði viðurkennt að hafa slegið brotaþola einu sinni með flötum lófa í andlitið þegar átökin höfðu borist inn í eldhúsið. Hér fyrir dómi kvaðst brotaþoli ekki muna eftir því að ákærði hefði slegið hana í andlitið og þá virðist hún ekki hafa minnst á það í skýrslu sinni hjá lögreglu. Hún sagðist þó muna eftir því að þau ákærði hefðu farið inn í eldhús og að þar hefðu þau rifist og ákærði rifið í hana og hrist hana til. Sagðist hún hafa verið mjög hrædd því hún hefði verið barnshafandi. Skýra verður framburð brotaþola í ljósi ástands hennar og þess að hún var hrædd og nýbúin að falla í gólfið og beint á kviðinn. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt það hvernig brotaþoli hlaut áverka þá, sem greinir í ákæru, en gat sér þess til að ef til vill hefði brotaþoli veitt sér þá sjálf eftir atvikið. Þykir þessi framburður ákærða fráleitur. Samkvæmt framlögðum gögnum var brotaþoli m.a. með áverka í andliti. Samrýmast þeir framburði ákærða um að hann hafi slegið brotaþola í andlitið. Fær þessi framburður ákærða og stuðning í skýrslum barna brotaþola hjá lögreglu og skýrslu vitnisins D fyrir dóminum. Gegn neitun ákærða og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins er hins vegar ósannað að ákærði hafi slegið brotaþola oftar en einu sinni í andlitið. Með vísan til alls framangreinds þykir því sannað að ákærði hafi hrint brotaþola eins og áður greinir með þeim afleiðingum að hún féll fram fyrir sig og á magann eins og í ákæru greinir, svo og að ákærði hafi slegið hana einu sinni með flötum lófa í andlitið, allt með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Háttsemi ákærða er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður II.
Samkvæmt þessum ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa veist að brotaþola, þar sem hún hélt á fimm daga gömlu barni þeirra, með hrindingum þannig að brotaþoli féll með barnið utan í glerskáp, sem við það brotnaði, og féll ofan á barnið í sófa í stofunni, með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru.
Ákærði hefur neitað sök hvað þennan ákærulið varðar. Ákærði hefur borið um það að hann hafi komið mjög seint heim eða undir morgun og verið ölvaður. Hann hafi tekið barnið upp til að skoða það, en við það hafi brotaþoli ekki verið sátt. Hún hafi því ráðist á hann og rifið af honum barnið með látum. Þá sagði hann að brotaþoli hefði ráðist á hann með sömu stælum og í fyrra skiptið og sagðist hann hafa tekið í axlirnar á henni og ýtt henni frá sér í átt að sófanum og ýtt henni síðan í stólinn. Við þetta hefði hann rekist aðeins í glerskáp í stofunni, sem við það hefði brotnað, en í skápnum hefðu verið margir fínir póstar og þunnt gler og hefði aðeins ein rúðan í skápnum brotnað. Hann sagðist ekki vita hvort brotaþoli rakst einnig utan í skápinn. Sagðist ákærði aðeins hafa haldið brotaþola frá sér því hún hefði verið að berja hann. Þá sagðist hann minna að brotaþoli hefði haldið á barninu meðan á þessu stóð.
Eins og áður greinir hefur ákærði viðurkennt að hafa verið ölvaður þegar hann kom heim undir morgun og er það í samræmi við framburð brotaþola og önnur gögn málsins, en í frumskýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi verið greinilega ölvaður, en hann hafi bæði verið voteygður og rauðeygður og talað með drafandi röddu. Einnig hafi hann riðað nokkuð á fótum. Þykir framburður ákærða, bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi um þessi atvik, bera þess merki að hann hafi verið nokkuð drukkinn þegar umrædd atvik áttu sér stað, enda viðurkenndi ákærði hér fyrir dómi að atburðarásin væri ekki mjög skýr í huga sér. Þá sagðist hann ekki muna vel eftir atvikum þar sem langt væri um liðið síðan þetta gerðist.
Ákærði hefur borið um það að hafa fengið blóðnasir vegna högga brotaþola og sagði hann að andlit hans hefði allt verið í blóði eftir átökin. Þá sagðist hann hafa skorist á hnúanum þegar hann rakst utan í glerskápinn. Loks sagðist hann hafa fengið ör frá munni og út á kinn eftir klór brotaþola. Í skýrslu sinni hjá lögreglu sagðist ákærði hafa skorist á mörgum stöðum á hendinni og þá hefði brotaþoli klórað hann í andliti. Brotaþoli kvaðst ekki muna eftir að hafa slegið ákærða eða klórað hann. Þá kvaðst hún ekki muna eftir því að ákærði hefði fengið blóðnasir eða aðra áverka. Í frumskýrslu lögreglu segir að blóðdropi hafi verið á öðrum nasavæng ákærða, en aðra áverka hafi ekki verið að sjá á honum. Í skýrslu, sem vitnið K gaf hjá lögreglu vegna málsins, kvaðst hann hafa tekið eftir því að ákærði var með klórfar við annað augað. Með vísan til framangreinds er lýsing ákærða á áverkum þeim, sem hann kveðst hafa hlotið í greint sinn, því ekki í fullu samræmi við önnur gögn málsins.
Ákærði bar um það hér fyrir dómi og í skýrslu sinni hjá lögreglu að margir fínir póstar hefðu verið í skápnum, sem brotnaði og að aðeins ein rúðan hefði brotnað, en hún hefði verið í olnbogahæð. Þá sagði ákærði að ekki hefði þurft mikið högg til að rúðan brotnaði. Af framlögðum ljósmyndum af vettvangi má sjá að á umræddum skáp eru tvær hurðir og að heilt gler er í hvorri um sig, en á myndunum má sjá að annað glerið hefur brotnað. Er það í samræmi við framburð brotaþola, bæði hér fyrir dómi og hjá lögreglu, um að glerið í annarri skápshurðinni hafi brotnað. Með vísan til framangreinds þykir ljóst að lýsing ákærða á atvikum málsins er ekki í samræmi við framlögð gögn.
Brotaþoli bar um það hér fyrir dómi að hún hefði beðið ákærða um að rétta sér barnið, en ákærði hefði ekki viljað það. Henni hefði þó tekist með lagni að ná barninu af ákærða. Ákærði hefði þá orðið brjálaður og byrjað að kasta henni til og frá, þ.e. ýta við henni og við það hefði hún dottið utan í veggi. Sagðist hún hafa reynt að komast undan ákærða, en hann hefði elt hana út um allt, en hún hefði varla getað gengið vegna keisaraskurðarins. Allan tímann hefði hún verið með barnið í fanginu vafið inni í sæng. Þá bar hún um það að ákærði hefði hent henni í sófann og sagðist hún hálfpartinn hafa dottið ofan á barnið en náð að setja olnbogann fyrir. Hefði ákærði þá ýtt ofan á hana. Hún hefði síðan snúið sér við og reynt að sparka í ákærða því hann hefði haldið áfram að reyna að ná barninu af henni. Þau hefðu síðan staðið upp og hefði ákærði þá ýtt henni upp að glerskáp í stofunni og hefði glerið brotnað og farið yfir hana og barnið. Sagðist hún halda að höfuðið á sér hefði skollið í skápinn. Brotaþoli bar á sama veg um þessi atvik í skýrslu sinni hjá lögreglu. Þá er sams konar lýsing á atvikum höfð eftir brotaþola í áverkavottorði, en brotaþoli fór til skoðunar á slysadeild daginn eftir. Einnig kom vitnið I fyrir dóminn, en brotaþoli fór heim til hennar með barnið eftir átökin, og bar hún um það að brotaþoli hefði tjáð sér hvað komið hefði fyrir. Samræmist frásögn vitnisins lýsingu brotaþola á því sem gerðist.
Í frumskýrslu málsins og skýrslu vitnisins K hjá lögreglu kemur fram að ákærði hafi komið til dyra, bæði þegar vitnið K og lögregla knúði dyra á íbúðinni. Fyrir innan hafi brotaþoli hins vegar gengið um með barnið og er haft eftir vitninu K að brotaþoli hafi verið skjálfandi og greinilega dauðhrædd.
Við skoðun á slysadeild daginn eftir kom í ljós að brotaþoli var með mar lófamegin á vinstri framhandlegg, u.þ.b. 5x3 sm að stærð, mar á vinstri upphandlegg, 2x1 sm að stærð, og með 4 sm skrámu á vinstri öxl. Þá sást mar í olnbogabót litlafingurs megin. Á miðjum hægri framhandlegg og á hendinni sjálfri, þ.e. yfir handarbaksbeini, sást mar og roði. Þá segir í vottorðinu að brotaþoli hafi verið aum alls staðar í líkamanum, en ekki með eymsli á einhverjum ákveðnum stað. Ákærði hefur ekki getað skýrt það hvernig brotaþoli fékk áverka þá, sem greinir í ákæru. Þykja áverkarnir samrýmast frásögn brotaþola af atvikum, þ.e. að ákærði hafi ýtt henni til og m.a. ýtt henni upp að glerskáp, en brotaþoli var með skrámu á vinstri öxl. Þá þykir klórfar, sem vitnið K greindi frá í lögregluskýrslu að hafa séð við annað auga ákærða, geta samræmst framburði brotaþola um að hún hafi reynt að sparka í ákærða þegar hann reyndi að ná af henni barninu í sófanum.
Óumdeilt er að brotaþoli var með fimm daga gamalt barn sitt og ákærða í fanginu meðan á átökunum stóð og var auk þess nýkomin úr keisaraskurði. Ljóst er því að brotaþoli gekk ekki til skógar og átti erfitt með gang og aðrar hreyfingar, eins og hún hefur sjálf borið um. Í ljósi þess þykir framburður ákærða um að brotaþoli hafi ráðist á hann að fyrra bragði, með nýfætt barnið í fanginu, og slegið hann svo að úr honum blæddi, afar ótrúverðugur og í raun fráleitur. Þá þykir framburður ákærða að öðru leyti ónákvæmur og óskýr, enda hefur komið fram að ákærði var töluvert drukkinn þegar atvik málsins áttu sér stað. Eins og framan hefur verið rakið þykir framburður hans einnig að ýmsu leyti vera í ósamræmi við önnur gögn málsins. Allt þykir þetta draga mjög úr trúverðugleika framburðar hans.
Framburður brotaþola er greinargóður og þykir trúverðugur, enda hefur hann verið stöðugur og fær stoð í framlögðum læknisvottorðum og öðrum gögnum málsins. Með hliðsjón af honum og öðrum gögnum málsins þykir því sannað að ákærði hafi veist að brotaþola með hrindingum þannig að brotaþoli féll með barnið utan í glerskáp, sem við það brotnaði. Með sömu rökum þykir sannað að brotaþoli hafi við hrindingar ákærða fallið ofan á barnið í sófa í stofunni, allt með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru. Þykir háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæra, útgefin 16. ágúst 2011, 2. ákæruliður.
Með framburði vitnanna F, H, G, L, samanber og framburð lögreglumannanna Kristínar Óskar Guðmundsdóttur og Baldurs Ólafssonar, er komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi ekið bifreiðinni [...] niður Laugaveg og þaðan um Austurstræti og Tryggvagötu hinn 8. janúar 2011. Með framlögðum vottorðum og matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði er og sannað að ákærði var undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna við akstur bifreiðarinnar umræddan dag. Með vísan til framangreinds og annarra gagna málsins er því sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem greinir í 2. tölulið ákæru, útgefinnar 16. ágúst 2011 og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæra, útgefin 14. desember 2011.
Ákærði játaði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru. Þykir með játningu ákærða sem á sér stoð í gögnum málsins sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði var ákærði 24. september 2001 dæmdur í 30 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir ölvunarakstur. Hinn 13. nóvember sama ár var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir tékkalagabrot og fjársvik. Þá var ákærði í Danmörku 21. nóvember 2001 dæmdur til greiðslu sektar og sviptur ökurétti í tvö ár og sex mánuði frá 25. apríl 2002 fyrir ölvunarakstur og fleiri umferðarlagabrot. Hinn 4. mars og 26. apríl 2004 gekkst ákærði undir 60.000 króna sektargreiðslu í hvort skipti fyrir akstur sviptur ökurétti. Þá var ákærði hinn 2. mars 2005 dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur, akstur sviptur ökurétti og brot gegn 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga. Jafnframt var ákærði sviptur ökurétti ævilangt. Næst var ákærði hinn 11. apríl 2006 dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti. Hinn 15. ágúst 2006 var ákærða veitt reynslulausn í eitt ár á 35 daga eftirstöðvum refsingar síðastgreindra tveggja dóma. Loks var ákærði hinn 3. mars 2011 dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir ölvunar-, sviptingar- og hraðakstur og var ákærði jafnframt sviptur ökurétti ævilangt. Var dómurinn birtur ákærða 14. mars 2011.
Brot ákærða samkvæmt ákæru, útgefinni 28. júní 2011, eru framin áður en dómurinn frá 3. mars 2011 var kveðinn upp og ber því að dæma ákærða hegningarauka við þann dóm að því er þau brot varðar, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur gerst sekur tvær grófar líkamsárásir á hendur sambýliskonu sinni, í fyrra skiptið þegar hún var gengin rúmlega 27 vikur með barn þeirra, en hina þegar hún var nýkomin úr keisaraskurði og hélt á fimm daga gömlu barni þeirra í fanginu. Að mati læknis stefndu áverkar þeir, sem brotaþoli hlaut í fyrri árásinni, lífi ófædda barnsins í mikla hættu. Þá þykir ljóst að með síðari árásinni stefndi ákærði heilsu brotaþola og nýfædds barns síns og brotaþola í stórfellda hættu. Er þetta virt ákærða til refsiþyngingar, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt er litið til þess að fyrri árásin átti sér stað að viðstöddum ungum börnum brotaþola og dóttur ákærða. Þykir ákærði ekki eiga sér neinar málsbætur.
Brot ákærða samkvæmt 2. tölulið ákæru, útgefinni 16. ágúst 2011 og ákæru, útgefinni 14. desember 2011 eru framin eftir uppkvaðningu dómsins 3. mars 2011 og hefur dómurinn því ítrekunaráhrif á síðari brotin. Ákærði hefur nú gerst sekur um ítrekaðan ölvunarakstur í sjötta sinn og hefur nú í fimmta sinn ítrekað brot gegn 48. gr. umferðarlaga með því aka bifreið sviptur ökurétti.
Refsing ákærða, sem ákveðin er með hliðsjón af ákvæðum 77. almennra hegningarlaga, þykir með vísan til alls framangreinds hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti. Þá er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð.
Loks er ákærði gert að greiða 637.377 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar B. Ólafssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 313.750 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur, sem þykir hæfilega ákveðin 200.800 krónur, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari. Uppkvaðning dómsins hefur dregist lítillega vegna embættisanna dómarans.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði brotaþola, A, 500.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. júní 2010 til 2. mars 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 637.377 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar B. Ólafssonar hrl., 313.750 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur, 200.800 krónur.