Hæstiréttur íslands

Mál nr. 366/2006


Lykilorð

  • Fasteignakaup
  • Galli
  • Skipulag
  • Upplýsingaskylda
  • Stöðvunarréttur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2007.

Nr. 366/2006.

Kristrún Konný Agnarsdóttir

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Karli Tómassyni og

Líneyju Ólafsdóttur

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

 

Fasteignakaup. Galli. Skipulag. Upplýsingaskylda. Stöðvunarréttur.

KA og LÍ höfðuðu mál á hendur KR til greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignar. Stefnufjárhæðin var óumdeild en KR krafðist sýknu þar sem hún taldi sig eiga hærri skaðabótakröfu á hendur KA og LÍ þar sem þau hefðu ekki kynnt henni að breyta yrði aðkomu að eigninni samkvæmt skipulagi. Meðal gagna málsins var úrskurður byggingarnefndar M þar sem fram kom að samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins hefði um langt skeið verið gert ráð fyrir að aflögð yrði sú skipan, sem verið hefði, á aðkomu að eigninni. Þegar kaupin áttu sér stað var aðkoma að eigninni frá B og Á, en í því aðalskipulagi sem í gildi var og þeim uppdráttum að deiluskipulagi sem til voru var eingöngu gert ráð fyrir aðkomu að eigninni frá B. Ekki var talið annað fram komið en að aðilum hefði verið jafn skylt að kynna sér greint skipulag fyrir kaupin, enda hefðu KA og LÍ ekki ábyrgst aðkomu að húsinu frá Á með upplýsingum sínum þegar KR skoðaði eignina. Var því fallist á kröfu KA og LÍ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. júlí 2006. Hún krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjenda en til vara sýknu að svo stöddu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu málinu 18. september 2006. Þau krefjast staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem þau krefjast bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

Mál þetta var í héraði höfðað af gagnáfrýjendum til greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignarinnar að Brekkulandi 3 í Mosfellsbæ. Stefnufjárhæðin mun hafa verið óumdeild en aðaláfrýjandi taldi sig eiga hærri skaðabótakröfu á hendur gagnáfrýjendum vegna galla, sem hún taldi vera á eigninni, og krafðist sýknu af þeim sökum. Við munnlegan flutning fyrir Hæstarétti var sú krafa reist á því helst að gagnáfrýjendur hefðu ekki kynnt henni að samkvæmt aðalskipulagi yrði að breyta aðkomu að eigninni, sem myndi rýra verðgildi hennar.

Aðaláfrýjandi kærði vegna fasteignarinnar bókun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar 15. apríl 2003 varðandi framtíðaraðkomu að lóð hússins til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Í úrskurði nefndarinnar 31. mars 2004 segir að samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar 1992 til 2012 hafi verið gert ráð fyrir að Álafossvegur yrði tengibraut og það sama komi einnig fram í aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002 til 2024. Samkvæmt þessu hafi um langt skeið verið gert ráð fyrir því að aflögð yrði sú skipan, sem verið hafi, að aðkoma sé að lóðinni nr. 3 við Brekkuland frá Álafossvegi. Staðfest deiliskipulag liggi ekki fyrir af þessu svæði en á ósamþykktum skipulagsuppdrætti og lóðablöðum komi fram lega lóða, lóðamörk og götustæði. Ekki er neitt fram komið í málinu, sem styður að þetta álit verði ekki lagt til grundvallar dómi í málinu. Aðkoma var að lóð Brekkulands 3 frá Brekkulandi, auk þeirrar aðkomu sem var frá Álafossvegi, þegar kaupin gerðust. Aðalskipulag sem í gildi var og þeir uppdrættir að deiliskipulagi sem til voru virðast eingöngu hafa gert ráð fyrir aðkomu frá Brekkulandi á þeim tíma. Er ekki annað fram komið, eins og málið liggur fyrir Hæstarétti, en að aðaláfrýjanda og gagnáfrýjendum hafi verið það jafn skylt að kynna sér greint skipulag fyrir kaupin, enda hafi þeir síðarnefndu ekki ábyrgst aðkomu að húsinu frá Álafossvegi með upplýsingum sínum þegar aðaláfrýjandi skoðaði eignina. 

Með framangreindri athugsemd en að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.

                                                              Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, Kristrún Konný Agnarsdóttir, greiði gagnáfrýjendum, Karli Tómassyni og Líneyju Ólafsdóttur, samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2006.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 29. marz sl. sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Karli Tómassyni, kt. 170864-5309, Álafossvegi 18, Mosfellsbæ, og Líneyju Ólafsdóttur, kt. 280765-3849, Álafossvegi 18, Mosfellsbæ, með stefnu þingfestri 19. maí 2005 á hendur Kristrúnu Konnýju Agnarsdóttur, kt. 130665-3659, Brekkulandi 3, Mosfellsbæ.

        Dómkröfur stefnenda eru þær, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnendum kr. 675.641 ásamt dráttarvöxtum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, 15. september 2002 til greiðsludags, gegn útgáfu afsals.  Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

        Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að  hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda, en til vara að hún verði sýknuð að svo stöddu.  Í báðum tilvikum verði stefnendum gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Málavextir

Með kaupsamningi, dags. 26. ágúst 2002, seldu stefnendur stefndu neðri sérhæð sína í húsinu nr. 3 við Brekkuland í Mosfellsbæ, ásamt öllu því, sem eigninni fylgdi og fylgja ber, þ.m.t. hlutdeild í lóðarréttindum.  Umsamið kaupverð var kr. 13.400.000, sem greiða skyldi þannig:

 

1.        Með yfirtöku áhvílandi lána                                                                                     kr.   7.103.253

2.        Með útgáfu fasteignaveðbréfs                                                                                kr.   1.555.535

3.        Með viðbótarláni frá Íbúðalánasjóði                                                                      kr.   3.060.000

4.        Með greiðslu við undirritun kaupsamnings                                                          kr.   1.000.000

5.        Skv. lið A, tl. 2 í kaupsamn, eða  við afhendingu eignar                                      kr.      681.212

                                                                                                                                                          Samtals kr. 13.400.000

        Fyrir lá við gerð kaupsamnings, að eignaskiptayfirlýsing var ekki fyrir hendi, og var tekið fram í samningnum, að eignaskiptayfirlýsing hefði ekki verið gerð fyrir eignina.

        Afhendingardagur eignarinnar var 15. september 2002.  Þegar afhending fór fram, hafði eignaskiptayfirlýsing enn ekki verið gerð, og var lokagreiðslu skv. tl. 5 í kaupsamningi því frestað, en afsal skyldi gefið út við afhendingu.

        Stefnendur kveða eignaskiptayfirlýsingu hafa legið fyrir í apríl 2003, en hún var ekki undirrituð af byggingafulltrúa Mosfellsbæjar fyrr en 9. febrúar 2004.  Stefnendur létu þinglýsa henni sama dag. 

        Í eignaskiptayfirlýsingunni segir m.a. eftirfarandi:

Aðkoma er um lóð Brekkulands 1 samkvæmt deiliskipulagi.  Aðkoma og bílastæði frá Álafossvegi eru eingöngu heimil tímabundin á meðan uppbygging Helgafellshverfis kallar ekki á öfluga vegtengingu við Vesturlandsveg. 

Stefnda greiddi ekki lokagreiðslu, þótt eignaskiptayfirlýsing lægi fyrir, og gerði athugasemdir við, að henni hefði verið þinglýst án vitundar eða samþykkis hennar, í bréfi til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 2. marz 2004, og taldi hana ekki vera í samræmi við lýsingu á þeirri eign, sem hún taldi sig hafa keypt.  Í framhaldi af því afmáði sýslumaður skjalið úr þinglýsingarbók.

        Stefnda gerði kröfu um afslátt af kaupverðinu þar sem eignin hefði ekki þá áskildu kosti, sem hún ætti að hafa.  Þeirri kröfu höfnuðu stefnendur. 

        Stefnda kveður fyrir liggja, að bílastæði, sem fylgdu eigninni verði að víkja fyrir skipulagi.  Þá liggi enn fremur fyrir, að bílastæði, sem stefnda verði að notast við, þegar að því tímamarki komi, sé óásættanlegt og muni hafa töluverðan kostnað í för með sér fyrir stefndu að undirbyggja það.

        Stefnda fékk tvo dómkvadda matsmenn til að meta kostnað við að byggja nýtt bílastæði, sem og þau áhrif, sem það gæti haft á verðgildi eignarinnar að missa bílastæðin, sem voru fyrir framan fasteignina, til framtíðar.  Er matsgerðin dags. í október 2005 og er niðurstaða hennar sú, að kostnaður við gerð bílastæðis á lóð er metinn kr. 670.000, og markaðsverð eignarinnar telja matsmenn að kunni að vera allt að 1.200.000 lægra án bílastæðis en ef bílastæði fylgdi eigninni.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir mál þetta á því að hann eigi samkvæmt undirrituðum og þinglýstum kaupsamningi rétt til lokagreiðslu fyrir eign sína.  Greiðslu þessa hafi borið að inna af hendi hinn 15. september 2002, og sé hún því fallin í gjalddaga.  Krafan sé byggð á meginreglum samninga- og kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og rétt aðila til gagngjalds í gagnkvæmum viðskiptum.  Stefnendur byggi jafnframt rétt sinn til fullra efnda á 1. mgr. 31. gr. og 1. mgr. 50. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup.

        Dómkrafa stefnenda sé byggð á útreikningi Fasteignasölu Mosfellsbæjar, sbr. dskj. nr. 9, en hún sundurliðist svo:

1.  Fjárhæð lokagreiðslu skv. kaupsamningi                  kr.        681.212

2.  Fasteignagjöld greidd af stefnendum                        kr.          24.721

3.  Vextir og verðbætur af lánum                                      kr.         -29.815

4.  Hlutur seljanda í brunatryggingum                            kr.        -     477

                 Samtals                                                                           kr.        675.641

        Liður 1 þarfnist ekki skýringa.  Liður 2 sé hluti stefndu í fasteignagjöldum frá afhendingardegi til áramóta, en stefnendur hafi þá þegar greitt gjöldin út árið, eins og venja sé.  Til frádráttar komi í lið 3 vextir og verðbætur af þeim fjórum lánum, sem stefnda hafi tekið yfir og greitt af hinn 15. september 2002, alls kr. 29.815.  Þá komi einnig til frádráttar kr. 477, sem hafi verið hlutur stefnenda í brunatryggingu fyrir septembermánuð 2002.  Þetta uppgjör hefði með réttu átt að fara fram hinn 15. september 2002, á sama tíma og lokagreiðsla og útgáfa afsals, en vegna afstöðu stefndu hafi ekki enn komið til þess.

        Eins og fram hafi komið, hafi stefnda haldið því fram, að hún eigi rétt til afsláttar af kaupverði vegna þess að núverandi umferðartenging við hús hennar sé ekki á gildandi aðalskipulagi.  Stefnendur hafi þó aldrei fengið formlegt kröfubréf frá stefndu, en þessa ályktun megi draga af tölvupóstskeytum lögmanns stefndu og þeirra krafna, sem hún hafi sett fram gagnvart skipulagsyfirvöldum.

        Að mati stefnenda sé óheimilt að beita stöðvunarrétti á grundvelli fyrirhugaðra skipulagsbreytinga.  Stefnendur bendi á, að samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar fyrir árin 1992 - 2012 hafi ekki verið gert ráð fyrir aðkomu að húsi stefndu, Brekkulandi 3, frá Álafossvegi.  Þegar nýtt aðalskipulag fyrir Mosfellsbæ árin 2002-2024 var samþykkt, hafi engar breytingar verið gerðar þar á.  Skipulag svæðisins hafi því verið óbreytt frá 1992, en stefnendur hafi keypt hina umdeildu eign árið 2000.  Þá bendi stefnendur á, að þau hafi enga vitneskju haft um undirbúning hins nýja skipulags, áður en stefnda keypti eign stefnenda hinn 26. ágúst 2002.  Hið nýja skipulag hafi verið samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 12. febrúar 2003, staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí 2003 og birt í Stjórnar­tíðindum hinn 22. júlí 2003.  Stefnendur hafi því selt stefndu eignina með nákvæmlega sömu upplýsingum og forsendum og þegar þau keyptu hana 2 árum áður.  Engu hafi verið leynt í þeim efnum.

        Stefnendur telji, að kynning á skipulagi sé hluti af skoðunarskyldu kaupanda, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 40/2002.  Um sé að ræða upplýsingar, sem séu öllum aðgengilegar, hvort sem sé á bæjarstjórnarskrifstofum eða á Netinu.  Ef umferðartenging við Álafossveg hefði verið forsenda fyrir kaupum á eigninni, en stefnendur hafi ekki vitað til þess, þá hafi stefndu ekki getað dulizt, að slíkt væri ekki í framtíðarhugmyndum bæjarins um ásýnd Helgafellshverfis. Stefnendur bendi jafnframt á, að skipulagslög feli í sér almenna takmörkun á eignarrétti, sem stefnda verði að þola bótalaust

        Þá mótmæli stefnendur því, að stefnda haldi eftir lokagreiðslu á grundvelli fyrirhugaðra framkvæmda, sem enn hafi ekki verið tímasettar.  Stefnda geti enn ekið beint af Álafossvegi að eign sinni og hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni og hafni stefnendur því útreikningi stefndu um hið meinta tjón, sbr. dskj. nr. 10 og 11.  Þá sé alls óvíst, að stefnda verði eigandi eignarinnar, þegar loksins verði hafizt handa við framkvæmdir. 

        Krafizt sé dráttarvaxta frá umsömdum degi lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi, eða frá 15. september 2002.  Stefnendur telji ekki ástæðu til að upphafsdagur dráttarvaxta verði seinna, t.d. þegar eignaskiptayfirlýsing hafi legið fyrir.  Stefndu hafi verið ljóst við undirritun kaupsamnings, að eignaskiptayfirlýsing hafi ekki verið gerð.  Þrátt fyrir að hafa slíkar upplýsingar undir höndum hafi hún samþykkt að greiða lokagreiðslu hinn 15. september 2002.  Þar sem slíkt hafi verið samþykkt án allra fyrirvara, telji stefnendur ljóst, að dráttarvexti beri að reikna frá umsömdum greiðsludegi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

        Vísað sé til þeirra lagaraka, sem fram komi í kafla stefnanda um málsástæður, þar á meðal ákvæða laga nr. 40/2002, um fasteignakaup, sem og meginreglna fasteignakaupa-, samninga- og kröfuréttar um skuldbingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga.  Krafa um dráttarvexti sé byggð á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Kröfur um málskostnað styðji stefnendur við 129. og 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.  Vísað sé til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Málsástæður stefnda

Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína á því, að hún eigi mun meiri skaðabótakröfu á hendur stefnendum vegna leyndra galla á hinni seldu eign en sem nemi hinum umstefndu eftirstöðvum kaupverðsins.

        Til vara byggi stefnda sýknukröfu sína á því, að forsenda til greiðslu lokakaupsverðs sé ekki fyrir hendi, þar sem ekki verði hægt að gefa út afsal fyrr en eignaskiptayfirlýsingu verði hægt að þinglýsa.

        Þá sé dráttarvaxtakröfu í málinu sérstaklega mótmælt, þar sem ekki sé hægt að ganga frá greiðslu til handa stefnendum fyrr en í fyrsta lagi við útgáfu afsals, sem aftur verði ekki hægt að gefa út fyrr en eignaskiptayfirlýsing liggi fyrir með samþykki beggja aðila málsins.

        Skuldajafnaðarkrafa stefndu byggir á matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 13. október 2005.

        Við skoðun á fasteigninni hafi stefnda þessa máls sýnt nægilega aðgæzlu og talið sig vera að kaupa fasteign, sem hefði bílastæði með góðri aðkomu að fasteign sinni til allrar framtíðar.  Við sýningu eignarinnar hafi stefnendur ekki uppfyllt allt það, sem góður og gegn seljandi eigi að upplýsa. Telja verði yfirgnæfandi líkur á því, að stefnendur hafi haft vitneskju um áfallandi skipulag, sem breyti allri aðkomu að eigninni.

        Stefnda hafi talið sig vera að kaupa séreign (hæð) með góða aðkomu að henni án nokkurs fyrirvara.  Fyrir liggi í dag, að stefnda verði að sætta sig við áfallandi nýtt skipulag, þar sem henni sé gert að nálgast eign sína „Krýsuvíkurleiðina” með mjög þröngri aðkomu.

        Ein af þeim forsendum, sem legið hafi til grundvallar kaupum stefndu á fasteigninni, hafi brostið, sbr. ofangreint.

        Þá megi benda á, að skilyrði til útgáfu afsals liggi ekki fyrir, þar sem ekki sé samþykkt þinglýst eignaskiptayfirlýsing á fasteigninni.  Með vísan til kaupsamnings hafi lokagreiðsla átt að fara fram á sama tíma og afhending eignar og útgáfa afsals.  Afsali verði ekki hægt að ganga frá, fyrr en aðilar málsins hafi komizt að samkomulagi um efnisatriði eignaskiptayfirlýsingarinnar.

        Kröfu um sýknu byggi stefnda m.a. á reglum um skuldajöfnuð og þá einkum 28. gr. laga nr. 91/1991.  Gagnkrafa stefndu sé m.a. reist á reglum íslenzks réttar um skaðabætur innan samninga og almennu skaðabótareglunni.  Kröfur um málskostnað byggi stefnda á 129. gr. og 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991.  Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað styðji stefnda við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Forsendur og niðurstaða

Aðilar gáfu skýrslu fyrir dóminum sem og eignmaður stefndu, Gunnar Þór Atlason, matsmennirnir, Freyr Jóhannesson og Björn Þorri Viktorsson, og Einar Páll Kjærnested fasteignasali.

        Stefnufjárhæðin er í sjálfu sér óumdeild, og óumdeilt að stefndu bar að greiða hana samkvæmt kaupsamningi, en stefnda byggir sýknukröfu sína á því, að hún eigi mun hærri skaðabótakröfu á hendur stefnendum vegna galla á hinni seldu eign.

        Skaðabótakrafa stefndu til skuldajafnaðar byggir á því, að hin selda eign hafi verið haldin leyndum galla, sem felst í því, að í aðalskipulagi fyrir Mosfellsbæ sé ekki gert ráð fyrir núverandi aðkomu að eigninni.  Stefnda hafi talið sig vera að kaupa fasteign, sem hefði bílastæði með góðri aðkomu að fasteigninni til allrar framtíðar.  Yfirgnæfandi líkur séu á, að stefnendur hafi haft vitnesku um áfallandi skipulag, sem breyti aðkomu að eigninni.

        Það liggur fyrir, að breytingarnar voru ákveðnar á árinu 1992, en komu aldrei til framkvæmda.  Með samþykkt nýs aðalskipulags á árinu 2003, eftir að stefnda keypti fasteignina, hélzt fyrri ákvörðun um breytingar á Álafossvegi óbreytt.  Hefur stefnda borið, að til standi á sumri komanda að framkvæma breytingarnar.

        Bílastæði þau, sem eru fyrir neðan húsið og hafa verið nýtt af íbúum þess, sem koma að húsinu frá Álafossvegi, eru, að sögn stefnanda Karls, malarvegur, sem ekki sé búið að jafna út, þetta sé eins konar grasbali með malarbút, þar sem þau hjónin hafi alltaf lagt bílum sínum.  Ekki sé um eiginleg bílastæði að ræða.  Svæðið tilheyri ekki fasteigninni, heldur Mosfellsbæ.

        Stefnda bar, að stefnendur hefðu, við sýningu á húsinu, lagt áherzlu á að kynna þá galla, sem þau vissu að væru á fasteigninni.  Þau hefðu hins vegar ekki kynnt stefndu sérstaklega, að umrædd bílastæði sunnan megin við húsin væru fyrir húsið og stefnda hefði ekki spurt sérstaklega út í bílastæðin eða aðgengi að húsinu.  Hún hefði bara lagt bifreið sinni þar, eins og stefnendur hefðu gert, það hafi legið í augum uppi, að þetta væru bílastæði fyrir húsið, annars staðar við húsið sé ekki hægt að leggja með góðu móti.  Austan við húsið sé þröngur stígur, þar sem íbúar efri hæðar leggi, og sé þar eingöngu pláss fyrir einn bíl.

        Bílastæði þau, sem hér eru til umfjöllunar, voru ekki í eigu stefnenda og ekki hluti af hinni seldu fasteign, og var stefndu um það kunnugt.  Mátti stefndu vera ljóst, að stefnendur höfðu ekki á sínu valdi að selja henni loforð um aðgengi að húsinu frá Álafossvegi og afnot af bílastæðum þar til frambúðar, svo sem stefnda kvaðst hafa talið sig vera að kaupa.  Ekkert liggur fyrir um, að stefnendum hafi mátt vera ljóst, að þessi aðkoma að húsinu hafi verið forsenda fyrir kaupum stefndu á fasteigninni.  Stefnendur báru báðir fyrir dómi, að þeir hefðu ekki haft hugmynd um yfirvofandi breytingar á aðkomu að húsinu.  Stefnandinn, Karl Tómasson, kvaðst aðspurður hafa tekið þátt í pólitík í Mosfellsbæ og verið virkur í menningarmálanefnd.  Hann kvaðst hins vegar ekki eiga sæti í bæjarstjórn eða varastjórn og ekki vera viðkomandi bæjaryfirvöldum að neinu öðru leyti.  Var framburður stefnenda trúverðugur að því er laut að vitneskju þeirra um yfirvofandi skipulagsbreytingar, og verður ekki talið, að aðkoma stefnandans, Karls, að stjórnmálum í Mosfellsbæ, dragi úr þeim trúverðugleika. 

        Samkvæmt framansögðu er ósannað, að stefnendur hafi vísvitandi leynt stefndu mikilvægum upplýsingum, sem máli skiptu varðandi ákvörðun hennar um kaup á eigninni, þannig að skaðabótaskylt sé.

        Kröfu um sýknu að svo stöddu virðist stefnda byggja á því, að ekki sé hægt að gefa út afsal, þar sem eignaskiptayfirlýsingu hafi ekki verið þinglýst, og þar afleiðandi sé gjalddagi lokagreiðslu ekki kominn, þar sem sú greiðsla hafi átt að fara fram á sama tíma og afhending eignarinnar og útgáfa afsalsins.

        Það liggur fyrir, að eignin hefur verið afhent stefndu, eins og um var samið í kaupsamningi.  Þinglýsing eignaskiptayfirlýsingarinnar hefur ekki farið fram vegna atvika, sem stefndu varðar.  Er því ekki fallizt á þessa mótbáru hennar. 

        Samkvæmt framansögðu ber að dæma stefndu til að greiða stefnendum dómkröfuna ásamt vöxtum, allt eins og nánar greinir í dómsorði, og dæmast dráttarvextir frá þeim tíma, sem eignaskiptayfirlýsingu var þinglýst upphaflega, en þá hefðu öll skilyrði átt að vera til staðar, svo mætti gefa út afsal og ganga endanlega frá uppgjöri aðila.  Þá ber stefndu að greiða stefnendum in solidum málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 280.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.

        Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

        Stefnda, Kristrún Konný Agnarsdóttir, greiði stefnendum, gegn útgáfu afsals fyrir neðri sérhæð fasteignarinnar Brekkulandi 3, Mosfellsbæ, kr. 675.641, ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2004 til greiðsludags og kr. 280.000 í málskostnað.