Hæstiréttur íslands

Mál nr. 605/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 26. október 2010.

Nr. 605/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. nóvember 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi hennar verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

      Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. nóvember 2010 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að aðfaranótt fimmtudagsins 21. október sl. hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um yfirstandandi innbrot í hárgreiðslustofu að [...] í Reykjavík.  Er lögregla hafi komið á vettvang hafi mátt sjá hvar búið var að aka bifreið inn um glugga stofunnar.  Íbúi í húsinu hafi skýrt frá því að hann hafi vaknað við mikil læti og litið út um glugga og þá séð bifreiðina [...] fyrir utan húsnæðið.  Kvaðst hann svo hafa séð konu koma út úr stofunni með tvo poka meðferðis, hafi hún sest inn í bifreiðina og ekið á brott.  Samkvæmt frásögn eiganda hárgreiðslustofunnar hafi smámynt verið tekin úr sjóðsvél stofunnar, um 4000 krónur, og snyrtivörur að verðmæti um 21.000 krónur.  Umrædd bifreið sé dökkblá og af gerðinni [...] hafi bifreiðin verið tekin ófrjálsri hendi sömu nótt við bónstöð í [...].

Í gær hafi lögreglu borist upplýsingar frá aðila sem ekki hafi viljað láta nafns síns getið um að kærða X hafi brotist inn í umrætt húsnæði.  Kvaðst upplýsingagjafinn vita til þess að X væri á nýlegum [...], dökkum að lit.

Í gærkvöld hafi lögregla farið að [...] í Kópavogi, heimili A, en fyrir hafi legið upplýsingar um að X héldi til hjá A.  Er lögreglumenn hafi komið að heimili A hafi þeir séð hvar bifreiðinni [...] hafi verið lagt fyrir utan húsið.  Hafi X því næst verið handtekinn, grunuð um ofangreint innbrot og að hafa tekið bifreiðina [...] ófrjálsri hendi.

Í skýrslutökum fyrr í dag hafi kærða kannast við að hafa verið á vettvangi, en muna lítið sökum ölvunar.  Hún kvaðst ekki hafa verið ökumaður í umrætt sinn, heldur hafi það verið einhver karlmaður sem hún hafi ekki þekkt.  Kvað hún þau hafa farið inn í hárgreiðslustofuna og hafi hún einungis tekið einn brúsa af hársápu.

Aðspurð um eigin hagi, hafi hún sagst neyta morfíns daglega og hafa gert það í rúm 20 ár, með hléum þó.  Hún kvaðst fá um 150 þúsund krónur frá Tryggingastofnun á mánuði.  Kvaðst hún vera hjartveik og HIV smituð.

Auk þessa máls sé kærða sterklega grunuð um 15 önnur mál á tímabilinu 3. júní til 1. október 2010, sem séu eftirfarandi:

Þjófnað með því að hafa fimmtudaginn 27. maí 2010 hafa farið inn í bifreiðina [...], á bifreiðastæði norðan megin við [...] í Reykjavík og stolið úr henni fartölvu af gerðinni Macbook pro 15“, netpungi, snyrtibuddu, hleðslutækjum bæði fyrir síma og tölvu, stafrænni myndavél, Diesel kuldaúlpu og veski.  Haft þann sama dag boðið B að fá tölvu sína til baka gegn 100.000 króna borgun sem hún hafi síðar lækkað niður í 50.000 krónur. Kærða neiti sök. Af myndbandsupptöku úr öryggismyndavélakerfi [...] megi þekkja kærðu þar á ferðinni á svipuðum tíma og brotið hafi átt sér stað.

Þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 3. júní 2010 í verslun ÁTVR á [...] í [...], stolið áfengisflösku að verðmæti 3.399 krónur. Kærða játaði ekki en kvaðst þó ráma í þetta. Af myndbandsupptöku úr öryggismyndavélakerfi verslunarinnar megi augljóslega þekkja kærðu sem geranda í þessu máli.

Þjófnað, með því að hafa föstudaginn 4. júní 2010, ásamt öðrum aðila, brotist inn í bifreiðina [...] sem hafi staðið fyrir framan verkstæðið [...] við [...] [...] og stolið þaðan kápu og öðrum munum. Kærða neiti sök en viðurkenni að hafa verið á brotavettvangi í umrætt skipti auk þess sem unnt sé að endurþekkja hana af myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél.

Þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 24. júní 2010, í verslun [...] við [...], Reykjavík, stolið tveimur gosdósum og harðfiski að samtals verðmæti 16.273 kr. Á myndbandsupptöku sjáist þegar kærða taki umræddar vörur.

Þjófnað, með því að hafa laugardaginn 31. júlí 2010 tekið kortaveski sem kærða fann í versluninni [...] við [...], Reykjavík. Ákærða viðurkenni brot sitt við skýrslutöku.

Nytjastuld, með því að hafa mánudaginn 9. ágúst 2010 ekið bifreiðinni [...] frá [...] [...] að [...], með fullri vitneskju um að bifreiðin hafi verið tekin ófrjálsri hendi tveimur dögum fyrr af öðrum manni við bifreiðastæði [...] á [...]. Kærða hafi viðurkennt við skýrslutöku að hafa ekið bifreiðinni í heimildarleysi í umrætt skipti.

Þjófnað, með því að hafa föstudaginn 13. ágúst 2010 í [...], [...] í Reykjavík, stolið ljósmynd. Kærða játaði sök. Af myndbandsupptöku úr öryggismyndavélakerfi í [...] megi þekkja kærðu. 

Þjófnað, með því að hafa laugardaginn 4. september 2010 brotist inn í húsnæði að [...] í Reykjavík með því að brjóta þar rúður, stela þaðan ilmvatni, áfengi og lyklum. Kærða hafi fundist inni í skáp á vettvangi.

Þjófnað með því að hafa mánudaginn 6. september 2010 í versluninni [...] við [...] í Reykjavík, stolið kjól, lopapeysu, tveimur kanínuhúfum, kraga, sokkum, staupi og veski samtals að verðmæti 45.672 krónur. Kærða hafi verið handtekin á vettvangi ætlaðs brots.  Við leit lögreglu hafi umræddir munir fundist sem kærða hafi haft innanklæða og í handtösku sinni. Kærða neiti sök.

 Nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 7. september 2010 ekið bifreiðinni [...] í heimildarleysi og undir áhrifum ávana- og fíkniefna austur um Hringbraut og um aðrein að Bústaðavegi, uns lögregla hafi stöðvað aksturinn stuttu síðar. Bifreiðin hafi verið tekin ófrjálsri hendi tveimur dögum áður fyrir utan [...] í [...]. Tetrahýdrókannbínólsýra hafi fundist í þvagi kærðu. Við skýrslutöku hafi kærða sagst ekki vita að bifreiðin væri stolin.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa laugardaginn 11. september 2010 brotist inn í sólbaðstofuna [...]. Lögregla hafi komið að kærðu í felum inn á sólbaðstofunni. Kærða hafi ekki játað brotið og kveðist ekki muna neitt.

Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 13. september 2010 stolið vörum úr verslun [...] við [...], Reykjavík að samtals verðmæti 76.976 kr. Athæfið hafi náðst á myndbandsupptöku úr öryggismyndavél verslunarinnar og við skýrslutöku hafi kærða sagst ekki rengja upptökuna.

Eignaspjöll, með því að hafa föstudaginn 17. september 2010 valdið skemmdum á sjálfsala við [...], Kópavogi. Af myndbandsupptöku úr öryggismyndavél á vettvangi hafi verið unnt að bera kennsl á kærðu auk þess sem hún hafi viðurkennt við skýrslutöku að hafa verið „að slást við sjálfsala því hann stæli frá sér hundraðkalli.“

Nytjastuld, með því að hafa fimmtudaginn 23. september 2010 setið í farþegasæti bifreiðarinnar [...] er henni hafi verið ekið suður um Reykjanesbraut, en aksturinn hafi verið stöðvaður af lögreglu í [...] við [...]. Bifreiðin hafi verið tilkynnt stolin fyrr sama dag. Við skýrslutöku hafi kærða sagst hafa fengið bifreiðina að láni frá öðrum manni en skráðum eiganda hennar.

Þjófnað, með því að hafa föstudaginn 1. október 2010, í verslun [...] við [...], Reykjavík, stolið skinku í dós og sjö sokkapörum að samtals verðmæti 8.836 kr. Á myndbandsupptöku sjáist þegar kærða taki umræddar vörur.

Kærða eigi að baki nokkurn sakaferil. Á árinu 2006 hafi hún fengið tvo fangelsisdóma, annars vegar 4 mánaða fangelsi fyrir auðgunarbrot, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot, og hins vegar 6 mánaða fangelsi fyrir skjalafals og auðgunarbrot. Í mars 2007 hafi hún svo fengið 12 mánaða fangelsi fyrir ýmis auðgunarbrot og umferðarlagabrot, en ákærða hafi lokið afplánun þess dóms þann 18. ágúst 2009.

Í júlí á þessu ári hafi verið gefin út ákæra á hendur X vegna fjölmargra brota sem þingfesta átti í héraðsdómi Reykjaness hinn 14. október sl., en kærða hafi ekki mætt og hafi í kjölfarið verið gefin út handtökuskipun á hendur henni. Kærða sé m.a. annars ákærð fyrir fjölmörg brot frá og með byrjun september 2009 til og með júlí 2010.

Með vísan til brotaferils kærðu á undanförnum vikum og mánuðum, en brotahrina ákærðu sé samfelld frá september 2009, er hún hafi lokið afplánun ofangreinds dóms, til gærdagsins er kærða hafi verið handtekin, sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærða muni halda áfram brotastarfsemi færi hún frjáls ferða sinna.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til alls framangreinds og gagna málsins að öðru leyti er fallist á það að líkur séu til þess að kærða haldi áfram brotastarfsemi meðan málum hennar er ekki enn lokið, en ákæra hefur verið gefin út á hendur henni vegna fjölda afbrota.  Samkvæmt því er fallist á að skilyrðum til c. -liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt til að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, eins og hún er fram sett og nánar greini í úrskurðarorði.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærða, X, kt. [...], [...],  [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. nóvember 2010 kl. 16.00.