Hæstiréttur íslands

Mál nr. 720/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Riftun
  • Auðgun
  • Endurgreiðsla


                                     

Þriðjudaginn 18. desember 2012.

Nr. 720/2012.

VBS eignasafn hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki.  Slitameðferð. Riftun. Auðgun. Endurgreiðsla.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var riftun á greiðslu VE hf. til L hf., í formi alls hlutafjár í félaginu V ehf., og L hf. gert að skila greiðslunni til VE hf. Báðir aðilar voru fjármálafyrirtæki sem tekin höfðu verið til slita. Ekki var fallist á með L hf. að héraðsdómara hefði borið að leysa úr bæði úr kröfu L hf. um að hafna riftun sem og kröfu L hf. um hafna fjárkröfu VE hf. Vísað var til þess krafa L hf. um að fá sjálfstæða úrlausn um að fjárkröfu VE hf. yrði hafnað, ef þegar hefði verið hafnað kröfu VE hf. um riftun hefði verið markleysa. Þá var ekki talið að L hf. hefði á grundvelli tiltekins samnings aðila notið handveðsréttar í tilteknum eignum VE hf. Stóð samningurinn því ekki í vegi riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fallist var á að greiðslan sem um var deilt í málinu hefði verið riftanleg á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Ekki var talið sannað að starfsmenn L hf. hefðu verið grandsamir um riftanleika greiðslunnar og var L hf. því einungis gert að greiða VE hf. þá auðgun sem L hf. hafði notið. Þá var fallist á með L hf. að fyrirtækinu væri heimilt samkvæmt 144. gr. laga nr. 21/1991 að skila hlutafénu í V ehf. til VE hf., enda ósannað að það væri ekki unnt án óhæfilegrar rýrnunar. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2012, þar sem staðfest var riftun á greiðslu skuldar sóknaraðila við varnaraðila að fjárhæð 4.345.273.656 krónur, hafnað að viðurkenna kröfu hans að sömu fjárhæð sem forgangskröfu samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og fallist á að varnaraðila bæri að skila sóknaraðila öllu hlutafé í Vingþóri ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um riftun á greiðslu framangreindrar skuldar sinnar til varnaraðila og að viðurkennd verði krafa sóknaraðila að sömu fjárhæð við slit varnaraðila sem njóti forgangs samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 og beri vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. nóvember 2009 til 24. september 2010 en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 20. nóvember 2012. Hann krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurðir verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara er þess krafist að hafnað verði kröfu sóknaraðila um staðfestingu riftunar á greiðslu þeirrar skuldar hans sem áður greinir. Að því frágengnu krefst varnaraðili þess að fjárkröfu sóknaraðila verði hafnað. Til þrautavara krefst varnaraðili þess að viðurkenndur verði réttur hans til að skila sóknaraðila öllu hlutafé í Vingþóri ehf. Að öllu þessu frágengnu er þess krafist að fjárkrafa sóknaraðila verði lækkuð. Í öllum tilvikum er gerð krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Nafn sóknaraðila var áður VBS fjárfestingarbanki hf. en hefur verið breytt í VBS eignasafn hf.

I

Kröfuna um ómerkingu hins kærða úrskurðar og heimvísun málsins reisir varnaraðili á því að ranglega sé farið með kröfur hans í úrskurðinum og að niðurstaðan sé þess vegna hvorki í samræmi við málatilbúnað varnaraðila, ,,né forsendur hins kærða úrskurðar.“ Varnaraðili vísar til þess að kröfur hans fyrir héraðsdómi hafi verið tíundaðar í greinargerð hans þar fyrir dómi og séu þær að efni til hinar sömu og hann geri fyrir Hæstarétti. Aðallega hafi verið gerðar tvær kröfur, það er krafa um að hafnað verði staðfestingu riftunar og jafnframt um að hafnað yrði fjárkröfu sóknaraðila. Til vara hafi verið gerð krafa um að varnaraðili yrði sýknaður af fjárkröfu og að viðurkenndur yrði réttur hans til að skila þeirri greiðslu er riftun laut að. Að því frágengnu hafi hann krafist lækkunar á fjárkröfu sóknaraðila og málskostnaðar.

Varnaraðili tók til varna fyrir héraðsdómi og voru kröfur sóknaraðila, sem gegn honum beindust, í fyrsta lagi að staðfest yrði riftun á greiðslu skuldar sóknaraðila við varnaraðila að tilgreindri fjárhæð sem fram hefði farið 13. nóvember 2009 með afsali allra hluta í Vingþóri ehf. Í öðru lagi að viðurkennd yrði krafa sóknaraðila að sömu fjárhæð við slit varnaraðila, sem njóti forgangs samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 og að krafan bæri tilgreinda vexti. Þá var krafist málskostnaðar.

Kröfugerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi verður ekki skilin á annan veg en þann að krafist sé riftunar á þeirri ráðstöfun, sem tilgreind er í kröfugerðinni, og verði á þá kröfu fallist verði krafan sem sóknaraðili þá öðlast viðurkennd við slit varnaraðila þannig að hún njóti tilgreindrar stöðu í kröfuröð við slitin. Af kröfugerðinni verður ályktað að ef synjað yrði staðfestingar á riftun komi fjárkrafa hans ekki til athugunar enda felst í slíkri úrlausn að sóknaraðili yrði að una við að fjárkrafa hans hefði verið greidd með þeirri ráðstöfun, sem hafnað var að rifta.

Héraðsdómara bar að skýra kröfugerð varnaraðila til samræmis við kröfugerð sóknaraðila að því marki sem kostur var. Krafa varnaraðila um að fá sjálfstæða úrlausn um að fjárkröfu sóknaraðila yrði hafnað, ef þegar hefði verið hafnað kröfu sóknaraðila um riftun, var markleysa. Eru kröfur varnaraðila því réttilega teknar til úrlausnar í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt þessu verður kröfu hans um ómerkingu hins kærða úrskurðar hafnað.

II

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði.

Aðila greinir á um hvort veðsetning sú á ,,kröfur skv. veðskuldabréfum og lánssamningum“ sem þeir sömdu um 29. febrúar 2008, en gengu frá 13. maí sama ár, eigi að leiða til þess að almenn skilyrði riftunar séu ekki fyrir hendi. Telur varnaraðili að veðsetning þessi hafi veitt honum tryggingarréttindi í hinu veðsetta og hann því þegar haft forgangsrétt til fullnustu krafna sinna í því. Báðir aðilar hafi ítrekað staðfest að veðsetningin hafi farið fram meðal annars þegar samið var við Seðlabanka Íslands 1. desember 2008 um að bankinn öðlaðist 1. veðrétt í hinum veðsettu eignum en tryggingarréttindi varnaraðila færðust á 2. veðrétt í þeim. Í samningi aðila 29. febrúar 2008 var í 2. gr. kveðið á um að kröfur þær, sem um ræðir, yrðu settar varnaraðila að handveði. Óumdeilt er þó að sóknaraðili afhenti varnaraðila hvorki frumrit þeirra skjala sem lágu kröfunum til grundvallar, né voru gerðar aðrar ráðstafanir sem fullnægðu kröfum 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð til þess að veðrétturinn öðlaðist réttarvernd. Þá var skuldurum að kröfunum ekki tilkynnt um að þær hefðu verði veðsettar varnaraðila. Var því heldur ekki um sjálfsvörsluveð að ræða sem veitt gat varnaraðila réttavernd, sbr. IV. kafla laga nr. 75/1997. Slíka réttarvernd öðlaðist varnaraðili heldur ekki síðar. Við mat á þýðingu þeirrar veðsetningar sem aðilar stofnuðu til með samningnum frá 29. febrúar 2008, í því sambandi sem hér skiptir máli, verður að gera þá kröfu að varnaraðili hefði þurft að öðlast réttarvernd gegn fullnustugerðum. Þá réttarvernd öðlaðist hann ekki, eins og fram er komið, og hefur því samningurinn ekki þau réttaráhrif að hann standi riftun samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 í vegi, sé öðrum skilyrðum þess kafla talið fullnægt, sbr. 140. gr. laganna.

Sóknaraðili afsalaði öllum hlutum í einkahlutafélaginu Vingþóri 13. nóvember 2009 til varnaraðila. Með því og öðrum skjölum sem undirrituð voru sama dag var efnt samkomulag þeirra frá 11. ágúst sama ár, en gerð er grein fyrir efni þess í hinum kærða úrskurði. Verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að með afsalinu hafi sóknaraðili greitt varnaraðila skuld að fjárhæð 6.973.077.574 krónur. Mátu aðilar verðmæti þeirra eigna, sem gengu til greiðslu skuldarinnar, samtals 4.345.273.656 krónur en það var samtala verðmætis eignanna, sem afsalað var, auk stofnfjár einkahlutafélagsins. Frestdagur við slit sóknaraðila er 3. mars 2010 og fór ráðstöfun sú, sem um ræðir, því fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.

III

Sóknaraðili reisir kröfu sína um riftun í fyrsta lagi á 134. gr. laga nr. 21/1991 þar sem með framangreindu afsali tilgreindra eigna hafi skuld hans við varnaraðila verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri og hafi greiðslan ekki verið venjuleg eftir atvikum. Fallist er á með héraðsdómi að greiðslan sé riftanleg á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laganna.

Að þeirri niðurstöðu fenginni deila aðilar um hvernig ákvarða beri endurgreiðslu varnaraðila til sóknaraðila. Sóknaraðili telur sig eiga rétt til skaðabóta úr hendi varnaraðila vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir við hina riftanlegu ráðstöfun. Hann kveður tjónið nema sömu fjárhæð og aðilar mátu verðmæti þeirra eigna, sem notaðar voru til greiðslu skuldarinnar við varnaraðila, eða 4.345.273.656 krónur. Endurgreiðslukröfuna reisir hann á 142. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili krefst á hinn bóginn í þessum þætti málsins að staðfest verði sú niðurstaða héraðsdóms að sér verði heimilt, með vísan til 144. gr. laga nr. 21/1991, að skila sóknaraðila til baka þeim verðmætum sem hann tók við með hinni riftanlegu ráðstöfun.

Eins og fyrr greinir er fallist á riftun á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Sú regla er hlutlæg riftunarregla og hefur því huglæg afstaða riftunarþola, þegar ráðstöfun fór fram, ekki sjálfstæða þýðingu. Um endurgreiðslu við riftun samkvæmt framangreindu ákvæði segir í 142. gr. laganna: ,,Ef riftun fer fram með stoð í 131.-138. gr. skal sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. ... Ef ljóst er að viðsemjanda var kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar skal þó dæma hann til greiðslu tjónsbóta.“ Samkvæmt þessu er það skilyrði þess að skaðabætur verði dæmdar að varnaraðila hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar. Hafnað er röksemdum sóknaraðila um að sannað sé að starfsmenn varnaraðila hafi verið grandsamir um framangreint atriði. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila þá auðgun sem hann naut af hinni riftanlegu ráðstöfun.

Varnaraðili krefst þess, sem fyrr greinir, að hann fái að fullnægja skyldu sinni samkvæmt 142. gr. með því að neyta heimildar 144. gr. og skila þeim verðmætum sem hann tók við. Samkvæmt síðarnefndu greininni er slíkur réttur fyrir hendi, enda er fallist á með héraðsdómi að ósannað sé að það sé ekki unnt án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta. Aðra rýrnun, hafi hún orðið, á sóknaraðili kost á að fá jafnaða samkvæmt niðurlagi 144. gr. en um það atriði verður ekki dæmt í máli þessu.

Samkvæmt öllu framangreindu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

          Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. október sl., var þingfest 11. maí 2011.

Sóknaraðili er VBS fjárfestingarbanki hf. í slitameðferð.

Varnaraðili er Landsbanki Íslands hf.

Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði riftun á greiðslu skuldar sóknaraðila við varnaraðila að fjárhæð 4.345.273.656 krónur sem fram fór 13. nóvember 2009 með afsali allra hluta sóknaraðila í Vingþóri ehf., kt. 420709-0840 til varnaraðila.

Þá krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði krafa hans að fjárhæð 4.345.273.656 krónur við slit varnaraðila sem njóti forgangs samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og beri vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. nóvember 2009 til 24. september 2010, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um staðfestingu riftunar verði hafnað, ,,en verði fallist á riftunarkröfu sóknaraðila er þess krafist til vara að varnaraðili verði sýknaður af fjárkröfu sóknaraðila og að viðurkennt verði að varnaraðila sé heimilt að skila öllu hlutafé í Vingþóri ehf. til sóknaraðila.“ Til þrautavara er þess krafist að fjárkrafa sóknaraðila verði lækkuð verulega. Í öllum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

Málsatvik

Hinn 7. október 2008 beitti Fjármáleftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði, vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. til að taka yfir starfsemi Landsbanka Íslands hf. Skipaði Fjármálaeftirlitið þá skilanefnd til að taka við stjórn bankans. Því næst var Nýi Landsbankinn hf. stofnaður og voru innlendar inneignir Landsbanka Íslands hf. sem og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi hans fluttar yfir til nýja bankans. Þá tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 9. október 2008, sem breytt var 12. og 19. sama mánaðar, um ráðstöfun eigna og skulda til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf. sem fól m.a. í sér að réttindum og skyldum vegna innlendrar starfsemi var skipt milli varnaraðila og nýja bankans.

Lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki tóku gildi 22. apríl 2009. Hinn 29. apríl 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn fyrir Landsbanka Íslands hf. í samræmi við ákvæði laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þær breytingar sem urðu með þeim á stöðu bankans og greiðslustöðvunar hans.

Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna 30. apríl 2009 og var kröfulýsingarfrestur ákveðinn sex mánuðir. Kröfulýsingarfrestur var því á enda 30. október 2009.

Fjármálaeftirlitið skipaði bráðabirgðastjórn í sóknaraðila 3. mars 2010, með heimild í 100 gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr.161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Hinn 9. apríl 2010 var sóknaraðili tekinn til slitameðferðar og skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Telst 3. mars 2010 vera frestdagur í skilningi 2. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Aðilar máls þessa eru því báðir í slitameðferð samkvæmt lögum nr. 161/2002.

Aðdragandi máls þessa er sá að sóknaraðili hafði um margra ára skeið verið í viðskiptum við varnaraðila. Eftir því sem leið á viðskiptasambandið jukust skuldir sóknaraðila við varnaraðila. Í samkomulagi aðila um tryggingar, sem dagsett er 29. febrúar 2008, segir að 13. maí 2008 hafi skuldir sóknaraðila við varnaraðila numið 13,4 milljörðum króna. Dagsetning samkomulagsins er eins og áður greinir 29. febrúar 2008, en skuldir eru þó miðaðar í samkomulaginu við 13. maí 2008. Varnaraðili skýrir þennan mun með því að svo virðist sem þreifingar hafi staðið yfir milli aðila frá febrúar til maí 2008, en í maí hafi samkomulagið verið undirritað.

Samkvæmt samkomulagi þessu skuldbatt sóknaraðili sig til að setja varnaraðila að handveði kröfur sóknaraðila sem taldar eru upp í 2. gr. samkomulagsins, til tryggingar öllum skuldum og skuldbindingum sínum við varnaraðila. Í 2. gr. samkomulagsins segir m.a. að sóknaraðili setji varnaraðila að handveði kröfur samkvæmt veðskuldabréfum og lánssamningum sem tilgreind séu í viðauka I við samkomulagið. Samhliða því afhendi sóknaraðili varnaraðila frumrit allra framangreindra veðskuldabréfa, lánssamninga og tryggingaskjala.

Í 3. gr. samkomulagsins sem ber yfirskriftina skilmálar, segir að hið ofangreinda sé sett að handveði til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum þeim sem sóknaraðili, nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, standi í við varnaraðila, hvort sem það eru víxilskuldir, víxilábyrgðir, yfirdráttur á tékkareikningi, innlendir eða erlendir lánssamningar, erlent endurlán, reikningslán, afurðalán, eða hvers konar aðrar skuldir við varnaraðila, þar með taldar ábyrgðir, er varnaraðili hafi tekist eða kunni að takast á hendur vegna sóknaraðila. Þá sé handveðið jafnframt sett til tryggingar á verðbótum, vöxtum, dráttarvöxtum, lögbundnum og samningsbundnum vanskilaálögum, gjaldeyrisþóknunum, kostnaði af kröfum, málskostnaði, innheimtukostnaði, réttargjöldum og öllum öðrum kostnaði veðhafa vegna ofangreindra skulda.

Í 4. gr. segir að aðilar séu sammála um að á meðan sóknaraðili sé í skilum við varnaraðila með öll lán, muni varnaraðili ekki tilkynna greiðendum þeirra krafna sem settar séu að handveði um veðsetninguna nema með sérstöku samþykki sóknaraðila.

Jafnframt segir í 4. gr. að sóknaraðili veiti varnaraðila heimild til að undirrita framsal á veðskuldabréfum og lánssamningum ásamt viðeigandi tryggingarbréfum til varnaraðila, ef varnaraðili öðlist rétt til að gjaldfella hinar veðsettu kröfur. Verði vanskil á þeim skuldum sem handveðið eigi að tryggja eða ef sóknaraðili brýtur gegn ákvæðum yfirlýsingarinnar, sé varnaraðila heimilt að nota andvirði hins veðsetta, í heild eða að hluta, til fullnustu þeirra skulda og kostnaðar sem handveðið eigi að tryggja, enda hafi varnaraðili áður skorað á sóknaraðila að greiða vanskilin.

Taki varnaraðili hinar veðsettu kröfur til sín, til fullnustu á kröfum sínum, geti varnaraðili valið um hvort sem er:

a)       látið selja hið veðsetta á nauðungaruppboði að því marki sem þörf er á til að varnaraðili fái fullnaðargreiðslu

b)       leyst til sín hið veðsetta að því marki sem þörf er á til að veðhafi fái fullnaðargreiðslu miðað við uppreiknað verðmæti þeirra á þeim degi er fullnusta fari fram.

Í 5. gr. samkomulagsins segir að sóknaraðila skuli vera heimilt, á meðan samkomulagið sé í gildi, að framselja eða innheimta veðsettar kröfur án þess að greiða niður skuldir við varnaraðila samkvæmt samkomulaginu, gegn því að sóknaraðili setji sambærilegar tryggingar að veði til tryggingar framangreindum skuldum sínum við varnaraðila samkvæmt framangreindum lánssamningum. Skuli varnaraðili hverju sinni samþykkja þær kröfur er komi í stað þeirra krafna sem settar hafi verið að veði samkvæmt samkomulaginu.

Í viðauka I við samkomulagið eru taldar upp kröfur samkvæmt veðskuldabréfum og lánssamningum og hafa þeir sem undirrituðu samkomulagið sett upphafsstafi sína við viðaukann. Fyrir liggur að sóknaraðili afhenti ekki varnaraðila frumrit veðskuldabréfa, lánasamninga og tryggingaskjala, eins og 2. gr. samkomulagsins kveður á um.

Hinn 21. maí 2008 lét sóknaraðili skuldabréf, útgefið af varnaraðila að fjárhæð 14,7 milljarðar króna að veði til Seðlabankans gegn endurhverfu láni og endurlánaði þá peninga til varnaraðila.

Hinn 29. september 2008 hækkaði varnaraðili svokallaða lánalínu sóknaraðila upp í 17,8 milljarða króna og var þeim fjármunum sem þá fengust ráðstafað í samræmi við beiðni sóknaraðila.

Hinn 1. desember 2008 voru allflestar kröfur sóknaraðila veðsettar Seðlabanka Íslands með samkomulagi milli varnaraðila, (áður NBI hf.) Seðlabanka Íslands, og sóknaraðila, til tryggingar veðláni dags. 1. desember 2008 að fjárhæð 16,5 milljarða króna. Skuldabréf voru árituð og skuldurum lánasamninga var tilkynnt um veðsetninguna. Með samkomulagi þessu setti sóknaraðili til tryggingar láninu frá Seðlabanka Íslands, lánasafn metið að verðmæti rösklega 25 milljarðar króna.Varnaraðili vék fyrir sitt leyti af 1. veðrétti og færðist á 2. veðrétt varðandi þær eignir sem settar höfðu verið sem trygging fyrir varnaraðila með samkomulaginu frá 29. febrúar 2008. Þá fékk varnaraðili jafnframt 2. veðrétt í eignum sem ekki féllu undir fyrri veðsetningu. Var jafnframt gert ráð fyrir skuldajöfnuði vegna skuldabréfs á hendur varnaraðila sem sóknaraðili hafði keypt og notað í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands.

Við uppgjör aðila í kjölfar falls varnaraðila áttu aðilar í viðræðum á árinu 2009 um hvernig sóknaraðili gæti greitt skuldir sínar og hinn 11. ágúst 2009 gerðu aðilar samkomulag um uppgjör á skuldum sóknaraðila við varnaraðila. Í samkomulagi þessu er lagt á ráðin með að sóknaraðili skyldi láta tilgreind verðmæti í sinni eigu, fasteignir og kröfuréttindi að fjárhæð 4.344.773.656 krónur inn í nýtt einkahlutafélag og afsala síðan hlutunum í því félagi til varnaraðila að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þær eignir sem leggja skyldi inn í hið nýja einkahlutafélag voru tveir lánasamningar við Grjótháls ehf., metnir á 1.082.819.912 krónur, lánasamningur við Framtíð ehf., metinn á 697.663.408 krónur, jörðin Krókur, auk Gagnheiðar 76, Selfossi, metnar á 350.000.000 krónur, lánasamningur við BM Vallá hf., metinn á 441.361.017 krónur, lánasamningur við Kcaj LLp og ábyrgðarkrafa á Kcaj LLp, metin á 1.772.929.319 krónur.

Hinn 27. ágúst 2009 keypti sóknaraðili einkahlutafélagið AB 223 ehf. af KPMG lausnum ehf. og var hlutafé þess 500.000 krónur. Var nafni þess breytt í Vingþór ehf. 28. ágúst 2009. Þá skyldi gera sérstakan kaupsamning milli sóknaraðila og varnaraðila um hlutina í nýja einkahlutafélaginu og skyldi varnaraðili greiða kaupverð félagsins með ,,niðurfellingu útistandandi skulda VBS við GLI samtals að fjárhæð kr. 6.973.077.574“

Samþykkt var í stjórn sóknaraðila 27. ágúst 2009 að gera upp við varnaraðila með samkomulaginu frá 11. ágúst 2009. Á sama stjórnarfundi var kynnt skýrsla Möttuls ehf. um stöðu sóknaraðila, sem unnin var sameiginlega fyrir sóknaraðila og Seðlabanka Íslands. Í henni kom fram að endurmetið eigið fé sóknaraðila næmi 551 milljón króna að mati skýrsluhöfunda og eigið fé bankans því komið undir lögbundið eiginfjárhlutfall.

Hinn 31. ágúst 2009 gerðu aðilar með sér kaupsamning, þar sem sóknaraðili seldi Vingþóri ehf. tilgreindar fjárkröfur sínar. Kaupverð var 4.344.773.656 krónur og skyldi greitt þannig að hlutafé í Vingþóri skyldi hækkað úr 500.000 krónum í 4.345.273.656 króna, með útgáfu nýrra hluta, hverjum að nafnvirði ein króna. Skyldi sóknaraðili leggja fjárkröfur samkvæmt samningnum inn í Vingþór ehf. sem hlutafé í Vingþóri ehf.  Eftir að hafa lagt inn fjárkröfurnar yrði sóknaraðili eigandi að öllu hlutafé í Vingþóri ehf. að nafnverði 4.345.273.655 krónur.

Hinn 6. október 2009 gaf starfsmaður Fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs út yfirlýsingu þar sem aflétt var veðböndum Seðlabanka Íslands af tilteknum lánasamningum, sem leggja skyldi kvaðalaust inn í Vingþór ehf. og 22. október 2009  jók sóknaraðili hlutafé í Vingþóri í 4.345.273.656, með fjármálagerningum og fasteignum sóknaraðila. Aukningin var tilkynnt Ríkisskattstjóra 9. nóvember 2009. Öllum hlutum í Vingþóri ehf. var afsalað til varnaraðila 13. nóvember 2009 og fór greiðsla fyrir hlutina fram með skuldajöfnuði og eftirgjöf krafna á hendur sóknaraðila að fjárhæð 6.973.077.574 krónur sama dag, 13. nóvember 2009, eins og um hafði verið samið.

Í framhaldinu var kosin ný stjórn í Vingþóri ehf.

Sóknaraðili sendi riftunarbréf til varnaraðila 24. ágúst 2010, sem byggðist á því að greiðslan á skuld við varnaraðila með hlutabréfum í Vingþóri ehf. fæli í sér brot gegn jafnræði kröfuhafa og væri riftanleg á grundvelli 134. gr., 136. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili mótmælti riftun 25. nóvember 2010 með þeim rökum að andlag greiðslunnar, þ.e. þau verðmæti sem runnu frá sóknaraðila inn í Vingþór ehf. hefðu nær öll verið veðsett varnaraðila áður með sérstakri yfirlýsingu, sem undirrituð hefði verið 29. febrúar 2008. Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila 15. desember 2010 og sendi sérstaka kröfulýsingu 25. janúar 2011 til varnaraðila á grundvelli 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til fyllingar riftunarkröfunni og var endurgreiðslukröfunni lýst sem búskröfu á grundvelli 110. gr. laganna. Varnaraðili hafnaði kröfunni 3. febrúar 2011. Að loknum árangurslausum jöfnunarfundi 23. febrúar 2011 var ágreiningnum vísað til héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi varnaraðila dagsettu 3. mars 2011.

Varnaraðili óskaði eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta verðmæti tiltekinna fjárkrafna og fasteigna sem lagðar höfðu verið inn í Vingþór ehf. Nánar tiltekið var óskað eftir mati á því hvert sé og hafi verið verðmæti fjárkröfu á Grjótháls ehf., sem framseld var frá sóknaraðila til Vingþórs ehf., miðað við tvær tilgreindar dagsetningar, hvert sé og hafi verið verðmæti fjárkröfu á Framtíðina ehf., miðað við tvær tilgreindar dagsetningar, hvert sé og hafi verið sameiginlegt verðmæti tilgreindra fasteigna sem standi til tryggingar fjárkröfu á hendur Framtíð ehf., miðað við tvær tilgreindar dagsetningar, hvert sé og hafi verið markaðsvirði jarðarinnar Krókur og hvert sé eða hafi verið samanlagt verðmæti ákveðinna fasteignahluta í Gagnheiði 76, Selfossi, miðað við tvær tilgreindar dagsetningar. Matsmennirnir Björn Þorri Viktorsson hrl. og Jóhann Viðar Ívarsson rekstrarhagfræðingur voru dómkvaddir til að meta hið umbeðna. Matsgerð var lögð fram í þinghaldi 9. maí sl.

Niðurstöður þeirra voru þær að verðmæti fjárkröfu sóknaraðila á hendur Grjóthálsi ehf. hinn 31. ágúst 2009 hafi verið 1.060.000.000 krónur. Verðmæti fjárkröfu á hendur Framtíðinni ehf. hafi verið á matsdegi 115.000.000 krónur, en miðað við 31. ágúst 88.000.000 krónur. Þá hafi markaðsverð tilgreindra fasteigna við Gerplustræti 16-22, 24-26 og 15-19, sem staðið hafi til tryggingar fjárkröfu á hendur Framtíðinni ehf., verið samtals á matsdegi 117.000.000 krónur, en miðað við 31. ágúst hafi það verið 90.000.000 krónur. Þá hafi markaðsvirði jarðarinnar Krókur verið 150.000.000 krónur hinn 10. júní 2010, er eignin var seld. Þá hafi markaðsvirði hennar verið 140.000.000 krónur miðað við 31. ágúst 2009.

Markaðsvirði tilgreindra fasteignarhluta í Gagnheiði 76 hafi verið 45.600.000 krónur á söludegi eignarinnar 19. maí 2011, en markaðsvirði miðað við 31. ágúst 2009, hafi verið 42.500.000 krónur.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur Ólafur Magnússon, Jóhann Viðar Ívarsson og Björn Þorri Viktorsson.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að greiðsla á skuld hans með afsali á öllum hlutum í einkahlutafélaginu Vingþóri ehf. frá 13. nóvember 2009 fari gegn 134. gr., sbr. og 100. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 og sé því riftanleg. Beri varnaraðila því að greiða sóknaraðila kaupverð Vingþórs ehf. Sóknaraðili byggir á því í fyrsta lagi að greiðsla skuldarinnar með hlutum í Vingþóri ehf. hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Fyrir liggi að skuldin við varnaraðila hafi verið lengi í vanskilum og ekki hafi verið um það samið, þegar til skuldarinnar var stofnað, að hún yrði greidd í öðru en peningum. Ákvörðun um að skuldin skyldi greidd með afsali á öllum hlutum í sérstöku einkahlutafélagi sem sóknaraðili skyldi stofna og færa tilteknar eignir í, var tekin í ágúst 2009. Sé þessi greiðslumáti því sannanlega ákveðinn löngu síðar, eftir að varnaraðila var ljós vangeta sóknaraðila til að greiða skuldina með peningum og teljist því óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. gr. laganna.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að greiðslan hafi skert greiðslugetu sína verulega. Með því að færa helstu tekjuberandi eignir inn í einkahlutafélagið Vingþór ehf., bæði seljanlegar fasteignir og fjármálagerninga með jöfnu fjárstreymi að fjárhæð um það bil 4,3 milljarðar, og afhenda svo hlutina í Vingþóri ehf. sem greiðslu á skuldum við varnaraðila, hafi sóknaraðili vart haft nokkurt fjárstreymi eftir af lánasamningum sínum og öðrum eignum til þess að fjármagna starfsemi sína, hvað þá til að mæta fjárkröfum annarra kröfuhafa sóknaraðila. Afsal á hlutum í Vingþóri ehf. til varnaraðila hafi farið fram 13. nóvember 2009, innan við fjóra mánuði frá frestdegi, sem verið hafi þann 3. mars 2010. Miða beri við 13. nóvember 2009, enda hafi þá farið greiðsla frá sóknaraðila til varnaraðila og hann hafi öðlast ráðstöfunarrétt yfir hlutunum sem eigandi þeirra með eftirfarandi greiðslukvittun til sóknaraðila.

Jafnframt byggir sóknaraðili á því að ráðstöfun þessi sé riftanleg á grundvelli 136. gr. laga nr. 21/1991, sem kveður á um að ákvæði um riftun greiðslu gildi einnig um skuldajöfnuð ef ekki má beita honum samkvæmt 100. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu sé skuldajöfnuður óheimill ef lánardrottinn er grandsamur um ógjaldfærni skuldara og gilda engir tímafrestir í því sambandi. Miða beri við ógjaldfærni í skilningi 64. gr. laga nr. 21/1991. Ekki leiki vafi á að varnaraðila hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að sóknaraðili væri ófær um að greiða skuldir sínar og að greiðsluörðugleikar sóknaraðila væru það verulegir að þeir myndu ekki líða hjá innan skamms tíma.

Þá byggir sóknaraðili á því að ráðstöfunin sé einnig riftanleg á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. laga nr. 21/1991. Að mati sóknaraðila var varnaraðila ljóst eða mátti vera ljóst að sú ráðstöfun að semja við sóknaraðila um að helstu eignir hans yrðu settar inn í einkahlutafélag sem síðar yrði afhent varnaraðila sem greiðsla á skuldum væri ótilhlýðileg til hagsbóta fyrir hann, á kostnað annarra kröfuhafa sóknaraðila og þeim til tjóns. Af málsgögnum megi ráða að sóknaraðili og varnaraðili hafi um langt skeið átt í viðræðum um uppgjör á skuldum sóknaraðila við varnaraðila og að sóknaraðila var ókleift að greiða gjaldfallnar skuldir sínar við hann með venjulegum hætti. Samkomulagið frá 11. ágúst 2009 um að tilteknar eignir sóknaraðila skyldu settar inn í nýtt einkahlutafélag og síðan yrði það framselt til varnaraðila staðfesti vitneskju varnaraðila um ógjaldfærni sóknaraðila á því tímamarki. Þá sé ljóst af árshlutauppgjöri sóknaraðila 31. ágúst 2009 að sóknaraðili hafi þá staðið frammi fyrir verulegum lausafjárskorti og að stærstur hluti efnahagsreikningsins væri ekki vaxtaberandi og bankinn því ógjaldfær. Á fundi stjórnar sóknaraðila 16. september 2009 hafi verið kynnt úttekt um stöðu bankans þar sem komi fram að bankinn stefni í þrot og erfitt sé að sjá að bankinn standi undir skuldbindingum sínum. Varnaraðila, sem fengið hafi upplýsingar um stöðu sóknaraðila, hafi því ekki getað dulist að sú aðgerð að tína út helstu eignir sóknaraðila og taka þær til sín með þeim hætti sem áður er lýst, hafi verið ótilhlýðileg og mismunað kröfuhöfum með grófum hætti.

Sóknaraðili hafnar því einnig að varnaraðili hafi notið handveðréttinda í þeim eignum sóknaraðila sem framseldar voru Vingþóri ehf. og hann geti byggt rétt á þeim gagnvart slitastjórn sóknaraðila. Aðilar hafi 29. febrúar 2008 gert með sér ,,samkomulag um tryggingar sem VBS setur“ þar sem kveðið sé á um að sóknaraðili setji varnaraðila að handveði kröfur samkvæmt veðskuldabréfum og lánasamningum sem tilgreindir séu í viðauka I við samkomulagið. Ekki sé um eiginlegan veðsamning að ræða milli aðila sem fullnægt hafi áskilnaði laga nr. 75/1997. Í skilmálum samkomulagsins sé kveðið á um að kröfurnar séu settar að handveði. Með samkomulaginu hafi fylgt ómerktur listi sem tilgreint hafi lánasamninga/skuldabréf, en á listanum hafi engin tilvísun verið til framangreinds samkomulags um tryggingar, eða með öðrum hætti skírskotað til veðskjala sem listinn skyldi tilheyra. Listinn sé áritaður ,,samþykkur f.h. LÍ“ með upphafsstöfum ótilgreindra einstaklinga. Skjalið sé hvorki vottað né dagsett.

Samkvæmt 43. gr. laga nr. 75/1997 megi setja viðskiptabréf að handveði eða sjálfsvörsluveði. Sé handveð veitt gildi ákvæði 2.-4. mgr. 22. gr. laganna um réttarvernd veðsetningar. Samkvæmt 22. gr. öðlist handveðréttur réttarvernd við afhendingu veðsins til rétthafa eða til aðila sem taki við veðinu fyrir hönd veðhafa og girði fyrir umráð eiganda að veðinu. Ekki verði séð að viðskiptabréf og lánasamningar sóknaraðila sem vísað sé til í viðauka I, hafi verið færð í vörslur varnaraðila á grundvelli veðsamnings. Samkvæmt þessu hafi varnaraðili ekki öðlast handveð samkvæmt ofangreindu samkomulagi um tryggingar og geti ekki byggt á því að hann hafi átt ríkari rétt til fullnustu af þeim en aðrir kröfuhafar sóknaraðila. Í þessu sambandi beri að hafa í huga að umræddir fjármálagerningar hafi verið veðsettir til Seðlabanka Íslands 1. desember 2008 til tryggingar veðláni og hafi sóknaraðili haft allan ráðstöfunarrétt yfir fjármálagerningunum á þeim tíma. Ekki verði séð að varnaraðili hafi andmælt þeirri veðsetningu.

Sóknaraðili byggir tölulega kröfugerð sína á umsömdu kaupverði varnaraðila á hlutunum í Vingþóri ehf., sem verið hafi fjárhæð greiðslunnar til varnaraðila 13. nóvember 2009, þegar sóknaraðili afsalaði hlutum sínum í Vingþóri ehf. að nafnvirði 4.345.273.656 krónur til hans. Í samningi aðila var verðmæti hlutanna í Vingþóri hef. metið sem greiðsla að fjárhæð 4.345.273.656 krónur til varnaraðila. Samkvæmt mati löggilts endurskoðanda hafi verðmæti þeirra fasteigna  og fjármálagerninga sem lagðir voru inn í Vingþór hf. numið að minnsta kosti 4.345.273.656 krónum.

Þá byggir sóknaraðili endurgreiðslukröfuna á 142. gr. laga nr. 2171991. Hann telur ljóst að varnaraðila hafi verið fullkunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar og beri honum því að greiða tjónabætur eftir almennum reglum. Tjón sóknaraðila af hinni riftanlegu ráðstöfun nemi kaupverði Vingþórs ehf., sem grundvallast hafi á undirliggjandi verðmæti þeirra fjármálagerninga og fasteigna sem sóknaraðili hafi framselt til Vingþórs ehf.

Sóknaraðili krefst vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 13. nóvember 2009 er greiðslan hafi verið innt af hendi, til 24. september 2010, en þá hafi verið liðinn mánuður frá riftun greiðslunnar og endurgreiðslukrafa verið sett fram, sbr. 9. gr. sömu laga.

Sóknaraðili byggir á því að við slit varnaraðila gildi sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Af því leiði að krafan njóti forgangs samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991, þar sem ráðstöfunin falli undir efnisákvæði 3. tl. 110. gr., þ.e. að hin riftanlega ráðstöfun og endurgreiðsluskyldan hafi orðið til vegna samninga slitastjórnar varnaraðila eftir að slitameðferð hófst í október 2008.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili bendir á að handveðssamningur sá sem gerður var, sé skuldbindandi fyrir sóknaraðila. Í 2. gr. samkomulags um tryggingar, komi fram að sóknaraðili setji varnaraðila að handveði kröfur samkvæmt veðskuldabréfum og lánssamningum sem tilgreindir séu í viðauka við samkomulagið til tryggingar öllum skuldum sóknaraðila við varnaraðila, sbr. 3. gr. samkomulagsins. Með samkomulaginu sé fylgiskjal sem tilgreini nákvæmlega hin veðsettu verðmæti. Fylgiskjalið sé áritað með upphafsstöfum sömu manna og undirritað hafi samkomulag um tryggingar. Samtala trygginga sé í samræmi við ákvæði samkomulagsins. Enginn vafi leiki því á að um sé að ræða það fylgiskjal sem vitnað sé til í samkomulaginu. Gert hafi verið ráð fyrir því að sóknaraðili myndi afhenda varnaraðila frumrit allra skjala og að varnaraðili myndi senda tilkynningar til skuldara. Jafnframt hafi sóknaraðili veitt varnaraðila heimild til að undirritað framsöl á þeim skulda- og tryggingarskjölum sem tengst hafi hinum veðsettu kröfum.

Veðréttur hafi stofnast á grundvelli samkomulagsins og það hafi verið mögulegt að afla honum réttarverndar. Engin áhrif hafi á gildi veðréttarins hvort tilkynnt hafi verið um veðsetninguna til skuldara og þannig stofnast til réttarverndar gagnvart þriðja manni. Veðréttur hafi stofnast í eignum sóknaraðila, en lög nr. 75/1997 geri skýran greinarmun á stofnun veðréttar annars vegar og að veðrétti sé aflað réttarverndar hins vegar.

Varðandi veðsetningu til Seðlabanka Íslands 1. desember 2008 bendir varnaraðili á að sú veðsetning hafi verið háð samþykki NBI hf. sem á þeim tíma hafi verið í stöðu varnaraðila.

Þá bendir varnaraðili einnig á að sóknaraðili hafi ítrekað vanefnt skyldu sína til að tryggja réttarvernd fyrir varnaraðila. Þannig hafi sóknaraðili í upphafi lofað að afhenda frumrit allra skjala og undirrita tilkynningar til greiðenda krafnanna, sbr. 2. og 4. gr. samkomulagsins frá 29. febrúar 2008. Þá hafi sóknaraðili einnig lofað að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar væru til að greiðendum hinna veðsettu krafna væri kunnugt um veðrétt NBI hf. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili byggi því á að veðréttur varnaraðila hafi fallið niður eða ekki stofnast vegna atvika er leitt hafi af vanefndum sóknaraðila sjálfs.

Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi ítrekað staðfest og viðurkennt veðrétt varnaraðila í eignum sóknaraðila. Um þetta er vísað til samkomulagsins frá 1. desember 2008, samkomulagsins frá 11. ágúst 2009 og yfirlýsingar um veðbandslausn frá 13. nóvember 2009. Enginn vafi hafi verið á vilja aðila til veðsetningarinnar.

Af þessum sökum mótmælir varnaraðili því að ekki hafi verið gerður eiginlegur veðsamningur, sem fullnægt hafi skilyrðum laga nr. 75/1997 um samningsveð. Þá er því jafnframt mótmælt að meintar ófullnægjandi ráðstafanir til að tryggja réttarvernd, geri það að verkum að veðréttur varnaraðila sé ekki fyrir hendi.

Varnaraðili kveðst fallast á að almennt sé hægt að líta á afhendingu hlutabréfa eða eigna til greiðslu peningaskuldar sem óvenjulegan greiðslueyri. Hins vegar verði að líta til þess að þær eignir sem settar hafi verið inn í Vingþór ehf. hafi verið veðsettar varnaraðila með samningum.

Við mat á því hvort um óvenjulegan greiðslueyri sé að ræða verði að líta til efnis samningsins en ekki forms. Þannig hafi sóknaraðili einfaldlega afhent varnaraðila veðsettar eignir á matsverði í samræmi við ákvæði veðsamnings aðila.

Af yfirlýsingu Seðlabanka Íslands um veðbandslausn megi ráða að allar eignir sem lagðar hafi verið inn í Vingþór ehf. hafi verið háðar 1. veðrétti Seðlabanka Íslands og 2. veðrétti varnaraðila, auk þess sem flestar hafi þegar verið veðsettar varnaraðila með samkomulaginu frá 29. febrúar 2008.

Varnaraðili byggir á því að vegna þessa sé ekki um óvenjulegan greiðslueyri að ræða, heldur aðferð til fullnustu veðsins sem gert hafi verið ráð fyrir í 4. gr. samkomulags aðila frá 29. febrúar 2008. Þá mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila að uppgjör aðila hafi skert greiðslugetu sóknaraðila verulega þar sem ekkert hafi verið eftir af vaxtaberandi eignum eftir uppgjörið. Ekkert hafi verið lagt fram sem styðji þessa fullyrðingu. Raunar liggi fyrir að aðeins lítill hluti lánasafns sóknaraðila hafi verið settur inn í Vingþór ehf.

Varnaraðili mótmælir því að miða eigi tímamark ráðstöfunar við 13. nóvember 2009. Þeim eignum sem málið varði hafi verið ráðstafað með samkomulagi 11. ágúst 2009 og telji varnaraðili að miða beri við það tímamark þegar stjórn sóknaraðila hafi samþykkt samkomulagið á stjórnarfundi 27. ágúst 2009. Verði ekki fallist á framangreint er byggt á því að miða eigi við 31. ágúst 2009, en þann dag hafi sóknaraðili afsalað eignunum til Vingþórs ehf. og hlutabréfunum í Vingþóri ehf. til varnaraðila með óafturkræfum hætti.

Í greinargerð sóknaraðila sé þessum gerningum lýst sem málamyndagerningum. Varnaraðili kveður svo ekki vera, enda hafi tilgangur kaupsamninganna verið að framselja formlega eignir til Vingþórs ehf. annars vegar og að framselja hlutabréfin í Vingþóri ehf. til varnaraðila hins vegar, allt í samræmi við samkomulag aðila.

Varnaraðili vísar jafnframt til árshlutareiknings og fréttatilkynningar sóknaraðila um sex mánaða uppgjör hans fyrir árið 2009, en af þeim megi sjá að sóknaraðili hafi litið svo á að ráðstöfun eigna til varnaraðila og skuldauppgjöri væri að fullu lokið.

Þá vísar varnaraðili til þess að tímamark áhættuskipta hins selda hlutafjár sé við undirritun kaupsamnings 31. ágúst 2009, sbr. grein 4.1 í kaupsamningnum.

Skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 séu því ekki uppfyllt og því beri að hafna riftun á þeim grundvelli.

Varnaraðili mótmælir því að ákvæði 136. gr. laganna eigi við í máli þessu. Um skuldajöfnun geti ekki verið að ræða vegna þess að þegar ráðstöfun fór fram hafi sóknaraðili ekki átt neina skuld á hendur varnaraðila.

Varnaraðili mótmælir því að byggja megi riftun á ákvæðum 141. gr. laga nr. 21/1991. Mótmælt er þeirri fullyrðingu sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila að helstu eignir hans hafi verið afhentar varnaraðila. Þá mótmælir varnaraðili því að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Varnaraðili byggir á því að hann hafi í alla staði hagað sér tilhlýðilega gagnvart sóknaraðila. Þannig hafi varnaraðili ekki komið í veg fyrir skuldajöfnuð á skuldabréfi því sem notað hafi verið í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands, sem leitt hafi til þess að sóknaraðili hafi getað lækkað skuldir sínar við varnaraðila verulega. Þá hafi varnaraðili einungis leyst til sín lítinn hluta af þeim eignum sem veðsettar hafi verið varnaraðila. Varnaraðili hafi gefið tæplega 3 milljarða afslátt af veðkröfu sinni og hafi miðað verðmæti eignanna við bókfært virði hjá sóknaraðila sem í sumum tilvikum hafi reynst langt umfram raunvirði. Frá sjónarhóli varnaraðila hafi sóknaraðili náð mjög hagstæðum samningum við varnaraðila sem hafi verið einn helsti lánveitandi hans. Varnaraðili hafði fengið hjá sóknaraðila ýmsar upplýsingar um einstakar eignir sóknaraðila í tengslum við viðræður um skuldauppgjör. Hafi þetta til dæmis átt við um upplýsingar um lán sóknaraðila til Kcaj LLp, sem að mati varnaraðila hafi verið góð eign.

Varnaraðili hafi hins vegar engar upplýsingar haft, sem bent hafi til þess að sóknaraðili yrði ógjaldfær. Mótmælir varnaraðili því staðhæfingu sóknaraðila þar að lútandi. Þá mótmælir varnaraðili því sérstaklega að fundur stjórnar sóknaraðila 16. september 2009 hafi þýðingu í þessu sambandi. Enginn fulltrúi varnaraðila hafi verið viðstaddur  þann fund og hafi varnaraðili ekki verið upplýstur um hvað þar hafi farið fram.

Varðandi árshlutauppgjör 31. ágúst 2009 bendir varnaraðili á að það hafi fyrst komið fram eftir gerð samkomulagsins milli aðila, en auk þess mótmælir varnaraðili þeim ályktunum sem sóknaraðili dragi af því.

Taka beri sérstaklega fram í þessu samhengi að starfsemi sóknaraðila hafi verið eftirlitsskyld og hafi lögbundinn eftirlitsaðili fylgst með því að sóknaraðili uppfyllti skilyrði til rekstrar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, m.a. varðandi eiginfjárhlutfall. Hafi sóknaraðili haft fullt starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki á þeim tíma sem samkomulag hans við varnaraðila var gert.

Varðandi meinta mismunun kröfuhafa byggir varnaraðili á því að mismunun hafi ekki verið til að dreifa, enda hafi varnaraðili ekki verið almennur kröfuhafi heldur veðkröfuhafi, sem leyst hafi til sín veðsettar eignir með samþykki eins stærsta kröfuhafa sóknaraðila, Seðlabanka Íslands, sem notið hafi veðréttar í umræddum eignum á 1. veðrétti.

Sú ráðstöfun sem sóknaraðili vilji rifta, hafi verið viðleitni stjórnar sóknaraðila til að endurskipuleggja fjárhag sóknaraðila, m.a. með samningum við tvo helstu kröfuhafa hans, þ.e. varnaraðila og Seðlabanka Íslands, sem báðir hafi átt veð í eignum sóknaraðila. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að ráðstöfunin teljist ótilhlýðileg, hafi varnaraðili ekki haft vitneskju um þann ótilhlýðileika. Því beri að hafna riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að taka beri kröfu sóknaraðila um staðfestingu riftunar til greina, krefst varnaraðili sýknu af endurgreiðslukröfu sóknaraðila. Varnaraðili kveður að greiðsla sóknaraðila hafi ekki komið honum að notum í þeim skilningi að staða hans hafi styrkst við greiðsluna, en jafnframt er á því byggt að sóknaraðili hafi ekki orðið fyrir tjóni við ráðstöfunina.

Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að hann hafi verið með veð í þeim eignum sem framseldar hafi verið, auk fjölda annarra eigna. Varnaraðili byggir á því að í raun hafi staða hans versnað við þann gerning, sem krafist er riftunar á og að sóknaraðili hafi ekki orðið fyrir tjóni, heldur þvert á móti hagnast af ráðstöfuninni. Staða skulda sóknaraðila gagnvart varnaraðila við gerð samkomulags aðila hinn 11. ágúst 2009, hafi numið tæpum sjö milljörðum króna. Hafi varnaraðili samþykkt að fá framseldar til sín eignir, sem þegar hafi verið veðsettar honum, upp á rúma 4,3 milljarða króna samkvæmt verðmati sóknaraðila, sem fullnaðargreiðslu á skuldum upp á tæpa 7 milljarða króna. Til viðbótar hafi komið í ljós eftir gerð samkomulags aðila og framsal eigna, að raunvirði eignanna hafi reynst mun lægra.

Sérstaklega er því mótmælt að varnaraðila beri að greiða tjónabætur samkvæmt almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.

Þá byggir varnaraðili á því að sýkna eigi hann af endurgreiðslukröfu, þar sem hann eigi skilyrðislausan rétt á því að skila eignunum sem hann hafi fengið frá sóknaraðila með samkomulagi aðila. Vísar varnaraðili til 5. gr. samkomulagsins um þetta og kveður að sóknaraðili sé bundinn af þeirri uppgjörsaðferð sem þar er lýst.

Með hliðsjón af framangreindu beri að sýkna varnaraðila af kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu. Þá er kröfu um greiðslu vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta mótmælt.

Varakrafa varnaraðila styðst við ákvæði 144. gr. laga nr. 21/1991. Fari svo að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að staðfesta beri riftun sóknaraðila krefst varnaraðili þess að hann verði sýknaður af fjárkröfu sóknaraðila og að honum verði gert að skila hinum ráðstöfuðu verðmætum, þ.e. öllu hlutafé í Vingþóri ehf.

Ákvæði 144. gr. laga nr. 21/1991 mæli fyrir um skýra heimild til að skila verðmætum sem annar hvor aðila geti nýtt sér. Varnaraðili hafi haldið eignum Vingþórs ehf. inni í félaginu og þar með sérgreindum frá öðrum eignum í eignasafni varnaraðila. Ekkert sé því til fyrirstöðu að skila hlutafénu í Vingþóri ehf. Hlutirnir séu enn til, jafn margir og þeir sem varnaraðili fékk afhenta og ávísun á sama félag með öllum þeim réttindum og skyldum sem hlutunum fylgi. Breytingar á verðmæti Vingþórs ehf. komi til vegna eiginleika eigna félagsins sem hafi verið til staðar þegar varnaraðili hafi tekið við hlutabréfunum. Engin verðmætisrýrnun hafi orðið sem rekja megi til saknæmra athafna eða saknæms athafnaleysis varnaraðila. Þá bendir varnaraðili á að verðmætin rýrni ekki við skil á þeim til sóknaraðila að neinu leyti.

Þrautavarakrafa varnaraðila byggist á því að verðmæti þeirra eigna sem framseldar hafi verið og sóknaraðili krefst riftunar á, sé mun minna en endurgreiðslukrafa sóknaraðila gefi til kynna. Byggist minna verðmæti á minni endurheimtum af þeim kröfum sem lagðar voru inn í Vingþór ehf., en upprunalega hafi verið reiknað með af hálfu sóknaraðila, sem og lægra raunvirði fasteigna.

Lánasamningur við Framtíð ehf. hafi verið lagður inn í Vingþór ehf. og sagður að verðmæti 697.663.408 krónur. Lánið sé gjaldfallið og ekki hafi verið greitt af því. Mat varnaraðila á verðmæti lánsins miðist við verðmæti lóða sem settar hafi verið að veði og telji varnaraðili verðmæti veðsins óvíst, en það geti hæst numið 144 milljónum króna.

Lánasamningur við BM Vallá ehf. hafi verið lagður inn í Vingþór ehf. og sagður að verðmæti 441.361.017 krónur. Bent er á að BM Vallá sé gjaldþrota og ekkert hafi fengist upp í veðkröfu Vingþórs ehf. Ekkert muni fást upp í almennar kröfur, þannig að verðmæti kröfu Vingþórs ehf. sé í raun ekkert.

Hvað varði ábyrgðarkröfu á hendur Kcaj LLp vegna sjálfsskuldarábyrgðar á skuldbindingum Ghost ltd., hafi sóknaraðili sjálfur krafist þess að skuldari efni kröfuna til sóknaraðila beint, þrátt fyrir framsal kröfunnar til Vingþórs ehf. Eigi sóknaraðili og Vingþór ehf. í ágreiningi vegna þessa, vegna aðfarar sóknaraðila til greiðslu ábyrgðarkröfunnar. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili geti ekki fengið kröfuna greidda bæði af skuldara og varnaraðila. 

Fasteignirnar Krókur og Gagnheiði 76, Selfossi hafi verið lagðar inn í Vingþór ehf. Í samkomulagi aðila hafi verið miðað við að samanlagt verðmæti þeirra væri 350.000.000 króna. Að fengnu verðmati á fasteignunum frá löggiltum fasteignasölum, hafi fasteignirnar verið seldar á markaðsverði, sem í báðum tilvikum hafi verið nálægt raunhæfu söluverði samkvæmt verðmötum. Samtals hafi fengist fyrir þær 195.600.000 krónur.

Varnaraðili kveður að raunverulegt verðmæti þeirra eigna sem framseldar hafi verið til Vingþórs ehf., að frádregnum kostnaði við umsýslu þeirra, feli í sér þau not sem varnaraðili hafi haft af eignunum og jafnframt tjón sóknaraðila, sbr. 142. gr. laga nr. 21/1991.

Beri að taka til þessa kröfu varnaraðila um lækkun á endurgreiðslukröfu sóknaraðila, ef fallist verður á endurgreiðslukröfu.

Varnaraðili gerir ekki athugasemd við lýsta stöðu kröfunnar í kröfuröð.

Niðurstaða

Í máli þessu er til úrlausnar riftunarkrafa sóknaraðila vegna þeirrar ráðstöfunar sóknaraðila að ráðstafa til varnaraðila öllum hlutum sínum í einkahlutafélaginu Vingþóri ehf. Eins og fram hefur komið skipaði Fjármálaeftirlitið  bráðabirgðastjórn í sóknaraðila 3. mars 2010, með heimild í 100 gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Telst 3. mars 2010 vera frestdagur í skilningi 2. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Allar ráðstafanir sóknaraðila eftir 3. september 2009 falla því innan hins sex mánaða riftunarfrests samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Óumdeilt er að aðilar gerðu samkomulag um tryggingar, sem dagsett er 29. febrúar 2008. Samkvæmt samkomulagi þessu skuldbatt sóknaraðili sig til að setja varnaraðila að handveði ákveðnar fjárkröfur sem tilgreindar eru í viðauka eða fylgiskjali við samkomulagið. Fylgiskjalið er áritað með upphafsstöfum sömu manna og undirrituðu samkomulagið. Óumdeilt er að sóknaraðili afhenti varnaraðila ekki frumrit þeirra skjala sem tilgreind voru í fylgiskjali með samkomulaginu og skuldurum krafnanna var ekki tilkynnt um veðsetningu þeirra til varnaraðila. Engu að síður er ljóst af gögnum málsins að sóknaraðili hefur ítrekað staðfest og viðurkennt veðrétt varnaraðila í þessum tilgreindu fjárkröfum, meðal annars með yfirlýsingu um veðbandslausn frá 13. nóvember 2009 og með samkomulagi frá 11. ágúst 2009.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu hefur sóknaraðili verið í viðskiptum við varnaraðila í mörg ár og var á árinu 2008 farinn að skulda varnaraðila verulegar fjárhæðir, eins og fram kemur á fyrrgreindu samkomulagi aðila um tryggingar frá 29. febrúar 2008, en þá nam skuld sóknaraðila við varnaraðila 13,4 milljörðum króna. Í samkomulagi þessu er kveðið svo á um að þær kröfur samkvæmt veðskuldabréfum og lánssamningum sem tilgreind eru í viðauka, séu sett að handveði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum þeim sem sóknaraðili nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, stendur í við varnaraðila. Þá segir í skilmálum samkomulagsins að verði vanskil á þeim skuldum sem handveðið eigi að tryggja, sé varnaraðila heimilt að nota andvirði hins veðsetta, í heild eða hluta til fullnustu þeirra skulda og kostnaðar, sem handveðið eigi að tryggja. Varnaraðili geti valið að láta selja hið veðsetta á nauðungaruppboði að því marki sem þörf er á, til að fá fullnaðargreiðslu eða leyst til sín hið veðsetta að því marki sem þörf er á til að veðhafi fái fullnaðargreiðslu miðað við uppreiknað verðmæti þeirra á þeim degi er fullnusta fari fram.

Aðilar gerðu með sér samkomulag um uppgjör á skuldum sóknaraðila við varnaraðila 11. ágúst 2009, sem var þó ekki í neinu samræmi við skilmála ofangreinds samkomulags aðila frá 29. febrúar 2008. Í samkomulaginu frá 11. ágúst 2009 var gert ráð fyrir að sóknaraðili léti tilgreind verðmæti í sinni eigu, kröfuréttindi og fasteignir að fjárhæð 4.344.773.656 krónur inn í nýtt einkahlutafélag. Síðan skyldi sóknaraðili afsala hlutunum í því félagi til varnaraðila að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Sóknaraðili keypti einkahlutafélagið AB 223 27. ágúst 2009, í samræmi við samkomulag þetta, en hlutafé félagsins var 500.000 krónur. Nafni félagsins var síðan breytt í Vingþór ehf., 28. ágúst 2009. Skyldi gera sérstakan kaupsamning milli sóknaraðila og varnaraðila um hlutina í nýja einkahlutafélaginu og átti varnaraðili að greiða kaupverðið með niðurfellingu útistandandi skulda sóknaraðila við varnaraðila, samtals að fjárhæð 6.973.077.574 króna. Gekk samkomulag þetta eftir og á stjórnarfundi sóknaraðila 27. ágúst 2009 var samþykkt að gera upp við varnaraðila á grundvelli þessa samkomulags. Í framhaldi þess var gerður sérstakur kaupsamningur milli aðila 31. ágúst 2009 á grundvelli samkomulagsins. Í kaupsamningnum segir í grein 4.1 að afhending á hinu selda hlutafé skuli fara fram við undirritun afsals, sem teljist þá afhendingardagur í skilningi kaupsamningsins. Þá var útgáfa afsals háð ýmsum skilyrðum sem ljóst er af gögnum málsins að gengu ekki eftir fyrr en í október 2009. Ber þar m.a. að nefna yfirlýsingu Seðlabanka Íslands dagsetta 6. október 2009, um veðbandslausn. Þá verður ráðið af gögnum málsins að það var fyrst 22. október 2009 sem sóknaraðili jók hlutafé í Vingþóri í 4.345.273.656 krónur með fjármálagerningum og fasteignum sem varnaraðili hafði samþykkt að taka við úr eignasafni sóknaraðila. Aukning hlutafjár var tilkynnt til fyrirtækjaskrár RSK 9. nóvember 2009 og samkvæmt fundargerð hluthafafundar 13. nóvember 2009 voru samþykktar breytingar á stjórn félagsins, breytingar á heimilisfangi félagsins og breytingar á framkvæmdastjóra og prókúruumboði, í kjölfar kaupa Landsbanka Íslands á öllu hlutafé félagsins. Afsal var svo undirritað 13. nóvember 2009. Af framangreindu verður ráðið að miða ber tímamark greiðslu sóknaraðila til varnaraðila við 13. nóvember 2009, þegar varnaraðili öðlaðist þann rétt til greiðslunnar sem veitt gat honum réttarvernd gegn öðrum kröfuhöfum sóknaraðila. 

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að við mat á því hvort um óvenjulegan greiðslueyri sé að ræða verði að líta til efnis gerningsins en ekki forms. Líta verði til þess að sóknaraðili hafi einfaldlega afhent varnaraðila veðsettar eignir á matsverði í samræmi við ákvæði veðsamnings aðila.

Af því sem að framan er rakið um þá eignatilfærslu frá sóknaraðila til varnaraðila, sem um er deilt í málinu, verður trauðla sagt að um einfaldan gerning hafi verið að ræða. Farnar voru miklar krókaleiðir við að koma þeim gerningum í höfn, sem mál þetta er sprottið af, sem á engan hátt voru í samræmi við það samkomulag um tryggingar sem varnaraðili vísar til. Sóknaraðili lét verðmæti í sinni eigu, kröfuréttindi og fasteignir inn í einkahlutafélag, sem hann áður hafði keypt, breytti nafni þess félags í Vingþór ehf. og afsalaði síðan hlutunum í því félagi til varnaraðila. Greiðsla sóknaraðila á skuld sinni við varnaraðila með hlutabréfum í Vingþóri ehf. var alls ekki venjulegur greiðslueyrir og aðilar höfðu ekki samið um að greiðslur skyldu fara fram með þeim hætti. Þá er með öllu ósannað að slíkur greiðslueyrir hafi verið venjulegur eftir atvikum, og breytir samkomulag aðila um tryggingar engu um það. Er því fullnægt því skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða, sem ekki var venjulegur eftir atvikum, en tímamark greiðslu er 13. nóvember 2009, eins og að framan er rakið. Þegar af þeim ástæðum verður fallist á kröfu sóknaraðila um riftun greiðslu skuldar við varnaraðila að fjárhæð 4.345.273.656 krónur sem fram fór 13. nóvember 2009 með afsali allra hluta sóknaraðila í Vingþóri ehf. til varnaraðila. Við flutning málsins tefldi sóknaraðili fram þeim málsástæðum að líta bæri á sóknaraðila og varnaraðila sem nákomna. Mótmælti varnaraðili þeirri málsástæðu og þar sem hún kom fyrst fram við flutning málsins verður ekki um hana fjallað við úrlausn málsins, enda reynir hvorki á riftunarreglu þá sem á við um nákomna, né aðrar riftunarreglur sem vísað var til af hálfu sóknaraðila, í ljósi ofangreindrar niðurstöðu dómsins.

Samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Varnaraðili hefur krafist sýknu af endurgreiðslukröfu sóknaraðila, verði fallist á staðfestingu riftunar.

Í tillögu stjórnar Vingþórs ehf., um gefnir yrðu út nýir hlutir í félaginu frá 22. október 2009, þar sem ætlað var nafnverð hlutafjár félagsins eftir hækkunina yrði 4.345.273.656 krónur, er finna staðfestingu löggilts endurskoðanda, Sigurðar Jónssonar, um ekkert hafi komið fram sem bendi til annars en þær eignir sem lagðar hafi verið fram til félagsins svari minnsta kosti til nafnverðs þeirra hluta sem gefa skuli út. Á varnaraðila hvílir því sönnunarbyrði þess þær eignir sem lagðar voru inn í félagið hafi verið minna virði og hefur varnaraðili lagt fram matsgerð til sönnunar þess. Niðurstöður matsgerðar Björns Þorra Viktorssonar og Jóhanns Viðars Ívarssonar staðfesta svo hafi verið svo nemur verulegum fjárhæðum. Þeirri matsgerð hefur ekki verið hnekkt. Þá liggur jafnframt fyrir í gögnum málsins staða skuldar sóknaraðila við varnaraðila nam tæpum sjö milljörðum króna, er hann samþykkti framseldar til sín eignir sem þá voru metnar til um 4,3 milljarða króna til uppgjörs á kröfunum, en voru mun minna virði eins og niðurstaða ofangreindar matsgerðar bendir til. Enn fremur liggur fyrir varðandi ábyrgðarkröfu á hendur Kcaj LLp vegna sjálfskuldarábyrgðar á skuldbindingum Ghost Ltd., sóknaraðili hefur sjálfur krafist þess skuldari efni kröfuna beint til sín, þrátt fyrir krafan virðist vera meðal þeirra krafna er framseldar voru Vingþóri ehf. með samkomulagi aðila frá 11. ágúst 2009.

Þegar allt framangreint er virt hefur sóknaraðili hvorki sýnt fram á nokkurt tjón hafi orðið við þá gerninga sem hér eru til umfjöllunar, né hvert umfang tjóns hans , telji hann sig hafa orðið fyrir tjóni, en tjón sóknaraðila er hámark þess sem sóknaraðili getur krafist endurgreiðslu á. Verður því hafna kröfu sóknaraðila um viðurkenningu kröfu hans fjárhæð 4.345.273.656 krónur við slit varnaraðila, sem njóti forgangs samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Varnaraðili hefur krafist þess, verði fallist á riftunarkröfu sóknaraðila, honum verði gert skila hinum ráðstöfuðu verðmætum, þ. e. öllu hlutafé í Vingþóri ehf., til sóknaraðila, sbr. 144. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt 144. gr. laga nr. 21/1991 skal, ef annar hvor aðila krefst þess, skila greiðslum í þeim mæli sem þær eru enn til enda verði það gert án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta. Ekkert hefur verið fært fram í málinu, sem sýnt getur fram á óhæfilega rýrnun þessara verðmæta við skil þeirra, eða rýrnun sem orðið hefur, á ábyrgð varnaraðila. Því ber fallast á þá varakröfu varnaraðila honum verði gert skila hinum ráðstöfuðu verðmætum.

Í ljósi úrslita málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Jón Þór Ólason hdl.

Af hálfu varnaraðila flutti málið Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Staðfest er riftun á greiðslu skuldar sóknaraðila, VBS fjárfestingabanka hf., við varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., fjárhæð 4.345.273.656 krónur sem fram fór 13. nóvember 2009 með afsali allra hluta sóknaraðila í Vingþóri ehf. til varnaraðila.

Hafnað er kröfu sóknaraðila um viðurkennd verði krafa hans fjárhæð 4.345.273.656 krónur við slit varnaraðila, sem njóti forgangs samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., auk vaxta og dráttarvaxta af kröfunni.

Fallist er á kröfu varnaraðila um honum verði gert skila sóknaraðila öllu hlutafé í Vingþóri ehf., sbr. 144. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Málskostnaður fellur niður milli aðila.