Hæstiréttur íslands
Mál nr. 59/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Þriðjudaginn 12. febrúar 2002. |
|
Nr. 59/2002. |
Ákæruvaldið(enginn) gegn X (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
X var ásamt öðrum manni gefið að sök að hafa staðið að innflutningi frá Hollandi á fíkniefninu MDMA. Verjandi X óskaði eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að svara því hverjar væru líkur á dauðsfalli í hlutfalli við fjölda neytenda fíkniefnanna MDMA, amfetamíns og heróíns, annars vegar með hliðsjón af niðurstöðum íslenskra rannsókna og hins vegar erlendra rannsókna. Kröfu verjandans var hafnað meðal annars með vísan til þess að hann hefði áður fengið dómkvadda tvo menn sem hefðu svarað því til að ekki væri vitað um dauðsföll hér á landi, þar sem fíkniefnin MDMA, amfetamín og heróín hefðu verið talin aðalorsök dauða. Væri því bersýnilega ástæðulaust að dómkveðja matsmann á ný til að svara því til hverjar niðurstöður hefðu orðið af íslenskum rannsóknum um líkur á dauðsfalli í hlutfalli við fjölda neytenda hvers þessara fíkniefna, að því leyti, sem rætt yrði um þau sem aðalorsök dauða. Að öðru leyti var talið að borin von væri að afla viðhlítandi upplýsinga um fjölda neytenda þessara fíkniefna, hér á landi eða erlendis, til að geta lagt mat á hlutfallslegan fjölda þeirra, sem biðu bana af neyslu efnanna, auk þess sem óljóst væri á grundvelli hvaða erlendra rannsókna ætti að vinna slíkt mat. Var talið að öflun matsgerðarinnar væri sýnilega þarflaus til upplýsingar í málinu, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar sl., þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að dómkvaddur yrði matsmaður í máli sóknaraðila á hendur sér. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmann.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Með ákæru 17. júlí 2001 höfðaði ríkissaksóknari opinbert mál á hendur varnaraðila og öðrum nafngreindum manni, þar sem þeim var gefið að sök að hafa brotið gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, með því að hafa 16. apríl 2001 staðið að innflutningi frá Hollandi á fíkniefninu MDMA, annars vegar 2.779 töflum og hins vegar 9,23 g af töflumulningi. Við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 7. september 2001 lagði verjandi varnaraðila fram beiðni um að dómkvaddir yrðu tveir sérfræðingar til að svara tilteknum spurningum varðandi fíkniefnin MDMA, amfetamín og heróín. Lutu spurningarnar í meginatriðum að því hversu mikið af hverju þessara fíkniefna þyrfti til að kalla fram vímu, hver væri að meðaltali styrkleiki skammts af þeim, hversu lengi vímuáhrif stæðu, hvort neyslu þessara efna fylgdu fráhvarfseinkenni, hvort þau væru vanabindandi og hvort dauðsföll hefðu verið rakin til neyslu þeirra, annars vegar hér á landi og hins vegar erlendis. Um síðastgreindu spurninguna var sérstaklega tekið fram í matsbeiðni að óskað væri eftir að matsmenn gerðu „grein fyrir því á hvern hátt dauðsföll (ef einhver eru) tengjast hættueiginleikum hvers efnis fyrir sig og hversu tíð slík tilfelli eru í hlutfalli við fjölda neytenda efnanna.“ Héraðsdómari varð við matsbeiðninni og dómkvaddi í þinghaldi 19. september 2001 tvo nafngreinda prófessora við Háskóla Íslands, lækni og lyfjafræðing, til að leysa af hendi matsstörfin.
Dómkvöddu mennirnir luku mati sínu 11. janúar 2002. Í matsgerð þeirra var fyrrgreindum spurningum svarað í einstökum atriðum, þar með talið þeirri síðustu, sem laut að tíðni dauðsfalla vegna neyslu umræddra fíkniefna. Um öll þessi efni gáfu matsmennirnir samhljóða svör að því leyti að hér á landi væri ekki vitað um dauðsföll, þar sem þessi fíkniefni væru talin aðalorsök dauða. Um fíkniefnin MDMA og amfetamín sögðu matsmenn að talið hafi verið „í fáeinum tilvikum“ að þau hafi verið meðverkandi orsök dauða með öðrum efnum, án þess þó að um eitrun af völdum þeirra væri að ræða. Þá var í matsgerðinni greint frá upplýsingum um tíðni dauðsfalla erlendis af völdum allra þessara þriggja fíkniefna. Í framhaldi af því sagði eftirfarandi í matsgerðinni: „Í lok matsbeiðninnar er óskað eftir að matsmenn meti „slík tilfelli“ í hlutfalli við fjölda neytenda efnanna. Hér eru matsmenn beðnir að upplýsa fjölda neytenda efnanna. Enginn veit fjölda neytenda, hvorki hér á landi né annars staðar, nema þá söluaðilarnir, ef þeir þá hafa hugmynd um það sjálfir. Matsmenn hafa því engin tök á að fá þessar upplýsingar og geta því ekki svarað þessari beiðni matsbeiðanda.“ Matsgerðin var lögð fram í þinghaldi 18. janúar 2002.
Þegar málið var næst tekið fyrir á dómþingi í héraði 25. janúar 2002 leitaði verjandi varnaraðila eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að svara því hverjar væru líkur á dauðsfalli í hlutfalli við fjölda neytenda fíkniefnanna MDMA, amfetamíns og heróíns, annars vegar með hliðsjón af niðurstöðum íslenskra rannsókna og hins vegar erlendra rannsókna. Sóknaraðili mótmælti því að dómkvaðning matsmanns færi fram í þessu skyni. Héraðsdómari hafnaði beiðni varnaraðila með hinum kærða úrskurði.
II.
Eins og ráðið verður af áðursögðu hafa dómkvaddir menn þegar svarað því til í áðurgreindri matsgerð frá 11. janúar 2002 að ekki sé vitað um dauðsföll hér á landi, þar sem fíkniefnin MDMA, amfetamín eða heróín hafi verið talin aðalorsök dauða. Er því bersýnilega ástæðulaust að dómkveðja matsmann á ný til að svara því hverjar niðurstöður hafi orðið af íslenskum rannsóknum um líkur á dauðsfalli í hlutfalli við fjölda neytenda hvers þessara fíkniefna, að því leyti, sem rætt verði um neyslu þeirra sem aðalorsök dauða.
Þótt hugsanlega megi afla vitneskju um hversu margir hafi látist hér á landi á tilteknu árabili, þar sem neysla umræddra fíkniefna geti talist hafa verið meðverkandi orsök dauða, er borin von að matsmaður, af hvaða sérfræðisviði sem væri, geti fært fram haldbærar niðurstöður um fjölda þeirra manna, sem hafi neytt hér þessara efna á sama tímaskeiði. Er að auki með öllu óljóst af málatilbúnaði varnaraðila hvort taka ætti þar mið af öllum, sem að minnsta kosti einu sinni hafi neytt þessara fíkniefna, eða aðeins af þeim, sem hafi á einhvern nánar tilgreindan hátt lagt það í vana sinn.
Að því leyti, sem beiðni varnaraðila lýtur að athugun matsmanns á niðurstöðum erlendra rannsókna, er til þess að líta að þar er að engu leyti gerð grein fyrir því til hvaða lands, eins eða fleiri, ætti að horfa varðandi slíkar rannsóknir. Þá er heldur ekki tiltekið hvers konar rannsóknir ætti að vera um að ræða á fjölda neytenda fíkniefnanna eða til hvaða sérfræðisviðs ætti að leita þeirra, auk þess sem á sama hátt og áður segir um aðstæður hér á landi hlýtur að vera fjarri lagi að fengnar verði marktækar upplýsingar um hversu margir neyti þessara efna í öðrum löndum.
Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, gæti matsgerð í samræmi við fram komna beiðni varnaraðila ekki komið að haldi sem sönnunargagn í máli sóknaraðila á hendur honum. Öflun matsgerðarinnar er því sýnilega þarflaus til upplýsingar í málinu, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2002.
Úrlausnarefni þessa úrskurðar er krafa Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns fyrir hönd ákærða X, sem dags. er 24. þ.m. um að ,,dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur matsmaður til að leysa úr svofelldum matsspurningum.
Hverjar eru líkurnar á dauðsfalli í hlutfalli við fjölda neytenda.
A) MDMA (ecstasy).
B) Amfetamíns.
C) Heroíns.
Þess er í fyrsta lagi óskað að gerð verði grein fyrir líkunum á dauðsfalli með hliðsjón af niðurstöðum íslenskra rannsókna, sem fram hafi farið, en í annan stað að gerð verði grein fyrir niðurstöðum erlendra rannsókna, sem fram hafi farið.”
Fulltrúi ákæruvaldsins mótmælti því að matsbeiðnin næði fram að ganga, þar sem hún væri óþörf. Einnig var mótmælt á þeim forsendum að hvorugur þeirra matsmanna sem verjandinn nefndi sem hugsanlega matsmenn hefðu að áliti ákæruvaldsins forsendur til að svara spurningunum sem beðið er um svar við. Auk þessa vísaði ákærandinn til röksemda sem fram komu í matsgerðinni sem unnin hefur verið og lögð fram. Vikið verður að matsgerðinni síðar.
Verjandi meðákærða tók ekki afstöðu til matsbeiðnarinnar.
Mál þetta er höfðað með ákæru útgefinni 17. júlí sl. á hendur tveimur ofangreindum mönnum.
Björn L. Bergsson hæstaréttarlögmaður, verjandi ákærða, X, óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna við fyrirtöku málsins 7. september sl. Þá voru dómkvaddir prófessorarnir dr. Magnús Jóhannsson læknir og dr. Sveinbjörn Gissurarson lyfjafræðingur. Þeir luku matsgerð sinni 11. þ.m. og var matsgerðin lögð fram í dómi 25. þ.m. Matsmennirnir svöruðu í matsgerð sinni fjölda spurninga um fíkniefnin MDMA, amfetamín og heróín. Meðal spurninga sem lagðar voru fyrir matsmennina var sú hvort dauðsföll væru rakin til neyslu þessara fíkniefna hérlendis eða erlendis? Vegna þessara spurninga frá matsbeiðanda var þess óskað í matsbeiðninni ,,að dómkvaddir matsmenn geri grein fyrir því á hvern hátt dauðsföll (ef einhver eru) tengjast hættueiginleikum hvers efnis fyrir sig og hversu tíð slík tilfelli eru í hlutfalli við fjölda neytenda efnanna.” Í matsgerðinni segir um þetta: ,,Í lok matsbeiðninnar er óskað eftir að matsmenn meti ,,slík tilfelli” í hlutfalli við fjölda neytenda efnanna? Hér eru matsmenn beðnir að upplýsa fjölda neytenda efnanna. Enginn veit fjölda neytenda, hvorki hér á landi né annars staðar, nema þá söluaðilarnir, ef þeir þá hafa hugmynd um það sjálfir. Matsmenn hafa því engin tök á að fá þessar upplýsingar og geta því ekki svarað þessari beiðni matsbeiðanda.”
Í matsbeiðninni sem nú er til úrlausnar segir að ákærði, X, sé ósáttur við afstöðu matsmannanna sem lýst var hér að ofan og að hann telji hana ekki eiga við rök að styðjast. Er það rökstutt nánar og meðal annars vísað í erlendar vefslóðir.
Matsbeiðnin lýtur að því að svara tilteknum spurningum með hliðsjón af hérlendum og erlendum rannsóknum. Beiðnin er almenns efnis og varðar sjónarmið sem verjandinn telur skipta máli varðandi saknæmi fíkniefnabrota þegar þau þrjú efni sem getið var um eiga í hlut. Að mati dómsins er ekki um eiginlegt mat skv. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 að ræða, heldur lýtur beiðnin að því að gera grein fyrir rannsóknum sem þegar hafa verið unnar og líkist því eiginlegri gagnaöflun. Ekki verður betur séð en að verjanda ákærða, X, sé þannig í lófa lagið að afla þessara gagna á venjulegan hátt eftir atvikum til framlagningar eða fremur sem til stuðngis við munnlegan málflutning eins og tíðkast hefur.
Samkvæmt þessu telur dómurinn að matsbeiðnin uppfylli ekki þær kröfur sem gera verði til matsbeiðni að því er varðar nauðsynleg tengsl þess sem meta á við málið sem til meðferðar er skv. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ber því að hafna því að dómkveðja matsmann í framangreindu skyni.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns fyrir hönd ákærða, X, um að dómkvaddur verði matsmaður eins og krafa er gerð um á dómskjali nr. 10.