Hæstiréttur íslands

Mál nr. 169/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Vinnusamningur
  • Uppsögn
  • Sjómaður


Miðvikudaginn 17

 

Miðvikudaginn 17. maí 2000.

Nr. 169/2000.

Kælismiðjan Frost hf. og

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

Héðinn-Smiðja hf.

(Lárus L. Blöndal hrl.)

gegn

Baldri Snorrasyni

Birni Snorrasyni

Jurijs Semjonovs

Sergejs Kuznecovs og

Snorra Snorrasyni

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

                                              

Kærumál. Nauðungarsala. Vinnusamningur. Uppsögn. Sjómenn.

Við nauðungarsölu skipsins A lýstu BA, BJ, SE, SN og YU, sem allir störfuðu sem yfirmenn á skipinu, kröfum í söluverð skipsins vegna ógreiddra launa í tvo og hálfan mánuð auk kostnaðar með vísan til þess að kröfurnar nytu sjóveðréttar samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Áður en sýslumaður gerði frumvarp til úthlutunar hækkuðu BA, BJ, SE, SN og YU kröfur sínar og kröfðust greiðslu vangoldinna launa fyrir júlí, ágúst og september 1998, nú samkvæmt framlögðum launaseðlum, launa í uppsagnarfresti, sem stæði til loka sama árs, bóta vegna tapaðra lífeyrisréttinda, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Sýslumaður tók til greina þá liði í kröfunum, sem sneru að launum fyrir júlí, ágúst og september 1998 auk dráttarvaxta og kostnaðar. BA, BJ, SE, SN og YU mótmæltu frumvarpi sýslumanns og kröfðust breytinga á því, sem einkum miðuðust við að fallist yrði á kröfur þeirra um laun í uppsagnarfresti. Talið var að af ákvæði 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þar sem mælt er fyrir um heimild skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi ef skip er selt öðrum innlendum útgerðarmanni, yrði að draga þá gagnályktun að ráðning skipverja stæði óbreytt ef innlendur útgerðarmaður gerðist kaupandi að því, þar á meðal við nauðungarsölu, nema skipverji nýtti sér rétt samkvæmt ákvæðinu til að slíta ráðningunni vegna sölunnar. Vegna þessa hefði nauðungarsala A ekki sjálfkrafa leitt til þess að slitið væri ráðningu BA, BJ, SE, SN og YU til starfa á skipinu, en því hefði ekki verið borið við að fyrri útgerðarmaður skipsins hefði sagt þeim upp störfum eða vikið þeim á annan hátt úr skiprúmi áður en eigendaskipti urðu að skipinu með samþykki boðs við nauðungarsölu. Þegar af þessari ástæðu þótti bresta skilyrði til að BA, BJ, SE, SN og YU gætu krafist launa í uppsagnarfresti samkvæmt 1. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 45. gr. sjómannalaga. Þótti sýslumaður réttilega hafa hafnað í frumvarpi til úthlutunar á söluverði skipsins þeim liðum í kröfum BA, BJ, SE, SN og Y, sem að þessu lutu. Var ákvörðun sýslumanns staðfest.

 

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 10. og 12. apríl 2000, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. mars 2000, þar sem fallist var á kröfur varnaraðila um að ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 2. febrúar 1999 um frumvarp til úthlutunar á söluverði fiskiskipsins Arnarborgar EA 316 við nauðungarsölu yrði breytt á þann veg að í hlut Baldurs Snorrasonar kæmu 1.257.502 krónur, Björns Snorrasonar 853.865 krónur, Jurijs Semjonovs 1.346.223 krónur, Sergejs Kuznecovs 1.056.199 krónur og Snorra Snorrasonar 1.167.388 krónur. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilinn Héðinn-Smiðja hf. krefst þess að staðfest verði áðurnefnd ákvörðun sýslumanns um að láta óbreytt standa frumvarp til úthlutunar 3. desember 1998 á söluverði skipsins að því er varnaraðila varðar. Sóknaraðilinn Kælismiðjan Frost hf. gerir aðallega sömu kröfu, en til vara að úthlutun til varnaraðila verði lækkuð frá því, sem ákveðið var í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðilar krefjast báðir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar kærðu úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 11. apríl 2000. Þeir krefjast þess að úrskurðurinn verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðilar verði í sameiningu dæmdir til að greiða þeim í héraði ásamt kærumálskostnaði.

I.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði var fyrrnefnt skip selt nauðungarsölu á framhaldsuppboði, sem sýslumaðurinn á Akureyri hélt 30. september 1998. Var skipið þá í Færeyjum. Við uppboðið voru lögð fram bréf varnaraðila, þar sem þeir lýstu kröfum í söluverð skipsins. Kom þar fram að varnaraðilar hefðu verið í Færeyjum í tvo og hálfan mánuð við vinnu sem nánar tilteknir yfirmenn á skipinu, en engin laun fengið greidd. Gerðu þeir kröfu um laun fyrir þann tíma, alls 500.000 krónur hver. Að auki kröfðust þeir greiðslu kostnaðar af innheimtu skuldarinnar, gerð kröfulýsingar og móti við uppboð, samtals 60.200 krónur hver, að varnaraðilanum Sergejs Kuznecovs frátöldum, sem krafðist 48.000 króna vegna þessara kostnaðarliða. Var krafist viðurkenningar á sjóveðrétti fyrir þessum kröfum á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Með bréfum til sýslumanns 27. október 1998 gerðu varnaraðilar breytingar á kröfum sínum um úthlutun af söluverði skipsins. Kröfðust þeir hver um sig greiðslu vangoldinna launa samkvæmt framlögðum launaseðlum fyrir mánuðina júlí, ágúst og september 1998, launa í uppsagnarfresti, sem stæði upp frá því til loka sama árs, bóta vegna tapaðra lífeyrisréttinda, sem voru reiknaðar sem 6% af samtölu áðurnefndra kröfuliða, dráttarvaxta af kröfum sínum til þess dags, sem skipið var selt við uppboð, og innheimtukostnaðar ásamt þóknun fyrir ritun kröfulýsingar. Á þessum grunni var heildarfjárhæð kröfu hvers varnaraðila sem hér segir: Baldurs Snorrasonar 1.273.583 krónur, Björns Snorrasonar 863.612 krónur, Jurijs Semjonovs 1.607.834 krónur, Sergejs Kuznecovs 1.229.426 krónur og Snorra Snorrasonar 1.180.617 krónur.

Í frumvarpi til úthlutunar á söluverði skipsins, sem sýslumaður gerði sem áður segir 3. desember 1998, var ráðgert að varnaraðilar fengju greiddar eftirtaldar fjárhæðir: Baldur Snorrason 811.711 krónur, Björn Snorrason 547.973 krónur, Jurijs Semjonovs 957.886 krónur, Sergejs Kuznecovs 753.834 krónur og Snorri Snorrason 623.030 krónur. Þess var getið í frumvarpinu að fresti til að koma fram mótmælum gegn því lyki 22. desember 1998, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/1991. Af gögnum, sem liggja fyrir í málinu, er unnt að ráða að í frumvarpinu hafi sýslumaður tekið til greina þá liði í kröfu hvers varnaraðila, sem sneru að launum fyrir júlí, ágúst og september 1998 og dráttarvöxtum til loka síðastnefnds mánaðar, að viðbættum 60.200 krónum handa hverjum vegna kostnaðar af innheimtu, ritun kröfulýsingar og móti við uppboð.

Með bréfum 10. desember 1998 til sýslumanns mótmæltu varnaraðilar þeirri úthlutun, sem þeim var ætluð með frumvarpinu. Varnaraðilinn Baldur Snorrason krafðist að sér yrði úthlutað 1.166.059 krónum eða 354.348 krónum meira en ráðgert var í frumvarpinu. Varnaraðilinn Björn Snorrason krafðist úthlutunar á 801.944 krónum eða hækkunar um 253.971 krónu. Varnaraðilinn Jurijs Semjonovs krafðist að fá úthlutað 1.462.973 krónum eða 505.087 krónum meira en ákveðið var í frumvarpinu. Varnaraðilinn Sergejs Kuznecovs krafðist 1.126.838 króna eða hækkunar um 373.004 krónur. Loks krafðist varnaraðilinn Snorri Snorrason úthlutunar á 1.359.267 krónum eða 736.237 krónum meira en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Hækkun á úthlutun, sem aðrir varnaraðilar en sá síðastnefndi leituðu eftir, átti eingöngu rætur að rekja til krafna þeirra um laun í uppsagnarfresti mánuðina október, nóvember og desember 1998. Kröfu varnaraðilans Snorra Snorrasonar um hækkun á úthlutun mátti einnig rekja til launa í uppsagnarfresti að því er varðaði 471.424 krónur. Að auki krafðist hann 264.813 krónum meira en áður vegna vangoldinna launa fyrir júlí, ágúst og september 1998 og dráttarvaxta, en hækkun á kröfu hans að þessu leyti var í engu skýrð.

Sýslumaður ákvað eins og áður greinir á fundi, sem hann hélt 2. febrúar 1999 vegna framkominna mótmæla gegn frumvarpinu, að það skyldi standa óbreytt að því er varðar kröfur varnaraðila. Hinn 15. sama mánaðar leituðu varnaraðilar úrlausnar Héraðsdóms Norðurlands eystra um þessa ákvörðun, en sóknaraðilar tóku þar til varna gegn kröfum varnaraðila um breytingar á frumvarpinu. Úrskurði héraðsdóms 28. október 1999 var skotið til Hæstaréttar, sem með dómi 23. nóvember sama árs vísaði málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Í kjölfarið leituðu varnaraðilar 13. desember 1999 á ný eftir úrlausn héraðsdóms um ágreining um breytingar á frumvarpinu. Úr þeim ágreiningi var leyst með hinum kærða úrskurði.

II.

Þegar varnaraðilar lögðu málið upphaflega fyrir héraðsdóm 15. febrúar 1999 gerðu þeir kröfur um að frumvarpi sýslumanns til úthlutunar yrði breytt á þann veg að þeim yrði úthlutað sömu fjárhæðum og þeir kröfðust hver um sig með áðurnefndum bréfum til sýslumanns 10. desember 1998. Þegar varnaraðilar lögðu málið öðru sinni fyrir héraðsdóm hafði fjárhæð krafna þeirra hins vegar tekið nokkrum breytingum. Krafa varnaraðilans Baldurs Snorrasonar var um að frumvarpi sýslumanns yrði breytt þannig að úthlutun til hans næmi 1.257.502 krónum. Var þar um að ræða hækkun á fyrri kröfu um laun í uppsagnarfresti, auk þess sem aftur var gerð krafa vegna missis lífeyrisréttinda, en alls hækkaði þannig krafa hans um 91.443 krónur. Krafa varnaraðilans Björns Snorrasonar var um úthlutun á 853.865 krónum og hafði því hækkað um 51.921 krónu frá því málið var rekið fyrra sinni. Af fyrirliggjandi gögnum virðist mega rekja breytingu á kröfunni til lítilsháttar hækkunar á liðum vegna launa fyrir júlí 1998 og í uppsagnarfresti, en að öðru leyti var á ný gerð krafa um bætur vegna missis lífeyrisréttinda. Varnaraðilinn Jurijs Semjonovs krafðist að fá úthlutað 1.346.223 krónum. Hafði þá krafa hans um laun í ágúst 1998 tekið hækkun og gerð var aftur krafa um bætur vegna missis lífeyrisréttinda, en þannig var krafa hans orðin 94.623 krónum hærri en upphaflega í málinu. Frá þessu dró varnaraðilinn á hinn bóginn greiðslu úr Ábyrgðasjóði launa, 211.373 krónur, sem hann mun hafa fengið greiddar í tengslum við gjaldþrotaskipti á búi útgerðar skipsins. Lækkaði því krafan í heild um 116.750 krónur. Varnaraðilinn Sergejs Kuznecovs krafðist úthlutunar á 1.056.199 krónum. Við upphaflega kröfu hans hafði verið bætt kröfu um bætur fyrir missi lífeyrisréttinda, 88.917 krónum, en krafa um innheimtulaun, 48.000 krónur, var í samræmi við upphaflega kröfulýsingu hans og lækkaði þannig um 12.200 krónur frá því, sem sýslumaður hafði ráðgert í frumvarpi til úthlutunar. Þá dró varnaraðilinn frá kröfu sinni greiðslu úr Ábyrgðasjóði launa, 147.356 krónur. Loks krafðist varnaraðilinn Snorri Snorrason að fá úthlutað 1.167.388 krónum. Sú fjárhæð var sundurliðuð á sama hátt og í áðurnefndri kröfulýsingu hans til sýslumanns 27. október 1998, að því frátöldu að krafa um bætur fyrir missi lífeyrisréttinda var orðin hærri en þar greindi og krafa um innheimtulaun lægri, en hún var þar samræmd kröfu hans um það efni í bréfi til sýslumanns 10. desember 1998.

Eins og áður greinir hækkuðu allir varnaraðilarnir kröfur sínar frá því, sem greindi í upphaflegum kröfulýsingum þeirra við uppboð 30. september 1998, með nýjum kröfulýsingum 27. október sama árs. Gerðist þetta áður en sýslumaður gerði frumvarp til úthlutunar. Þessum breytingum á kröfum varnaraðila mátti koma að á því stigi nauðungarsölu, svo sem ráðið verður af lokamálslið 4. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991. Samkvæmt því, sem áður var rakið, kröfðust varnaraðilar með bréfum til sýslumanns 10. desember 1998 að tilteknar breytingar yrðu gerðar á frumvarpi hans til úthlutunar. Þeim kröfum hafnaði sýslumaður og lögðu þá varnaraðilar ágreining um frumvarpið fyrir héraðsdóm, þar sem þeir kröfðust í öndverðu sömu breytinga á því og þeir höfðu gert fyrir sýslumanni. Var það í samræmi við ákvæði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991. Upp frá því var varnaraðilum hins vegar ekki fært að gera breytingar á kröfum sínum til hækkunar, enda höfðu þær ekki komið til ákvörðunar sýslumanns, sem gat úr því, sem komið var, ekki heldur tekið þær til skoðunar nema að fullnægðum sérstökum skilyrðum 3. mgr. 52. gr. sömu laga. Eru varnaraðilar því bundnir af þeim kröfum, sem þeir gerðu þegar málið var í upphafi lagt fyrir héraðsdóm, með þeim breytingum, sem þeir hafa síðan gert til lækkunar. Koma þannig til frádráttar upphaflegum kröfum varnaraðilanna Jurijs Semjonovs og Sergejs Kuznecovs áðurnefndar greiðslur, sem þeir kveðast hafa fengið úr Ábyrgðasjóði launa. Lækkar krafa þess síðastnefnda jafnframt um 12.200 krónur vegna breytingar, sem hann hefur nú gert undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi á kröfulið vegna innheimtulauna, en með henni var sá liður færður í sama horf og í fyrstu kröfulýsingu hans til sýslumanns. Þá verður og að líta fram hjá þeirri breytingu, sem gerð var í bréfi 10. desember 1998 til hækkunar á kröfulið varnaraðilans Snorra Snorrasonar vegna launa í júlí, ágúst og september 1998, en þess í stað taka mið af fjárhæð þess liðar, sem kom fram bæði í kröfulýsingu 27. október sama árs og yfirliti um sundurliðun kröfu þessa varnaraðila, sem fylgdi greinargerð hans fyrir héraðsdómi. Samkvæmt þessu eru kröfur varnaraðila um úthlutun af söluverði Arnarborgar, sem komið geta til úrlausnar í málinu að efni til, sem hér segir: Baldurs Snorrasonar 1.166.059 krónur, Björns Snorrasonar 801.944 krónur, Jurijs Semjonovs 1.251.600 krónur, Sergejs Kuznecovs 967.282 krónur og Snorra Snorrasonar 1.083.391 króna.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að líta svo á að sóknaraðilar hafi báðir lögvarinna hagsmuna að gæta af mótmælum gegn kröfum varnaraðila um breytingar á frumvarpi sýslumanns til úthlutunar.

III.

Í 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 er mælt fyrir um heimild skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi ef skip er selt öðrum innlendum útgerðarmanni, en skipverjinn verði þá að segja starfi sínu lausu þegar eftir að hann fær vitneskju um þetta. Af þessu ákvæði, sem beitt verður þegar skip er selt nauðungarsölu, verður að draga þá gagnályktun að ráðning skipverja standi óbreytt ef innlendur útgerðarmaður gerist kaupandi að því, nema skipverjinn nýti sér rétt samkvæmt ákvæðinu til að slíta ráðningunni vegna sölunnar. Vegna þessa leiddi nauðungarsala Arnarborgar ekki sjálfkrafa til þess að slitið væri ráðningu varnaraðila til starfa á skipinu. Varnaraðilar hafa ekki borið því við að fyrri útgerðarmaður skipsins hafi sagt þeim upp störfum eða vikið þeim á annan hátt úr skiprúmi áður en eigendaskipti urðu að skipinu með samþykki boðs við nauðungarsölu. Þegar af þessari ástæðu brestur skilyrði til að varnaraðilar geti krafist launa í uppsagnarfresti samkvæmt 1. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 45. gr. sjómannalaga á þeim forsendum, sem þeir reisa málatilbúnað sinn á. Hafnaði sýslumaður því réttilega í frumvarpi til úthlutunar á söluverði skipsins þeim liðum í kröfum varnaraðila, sem að þessu lutu.

Svo sem áður greinir krefjast báðir sóknaraðila að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 2. febrúar 1999 um að láta frumvarp til úthlutunar standa óbreytt. Af þeim sökum kemur hér ekki til skoðunar hvort lækka eigi úthlutun til varnaraðila frá því, sem ráðgert var í frumvarpinu, vegna greiðslna upp í kröfur og annarra atvika, sem áður eru rakin. Samkvæmt öllu framangreindu verður því tekin til greina umrædd krafa sóknaraðila um staðfestingu ákvörðunar sýslumanns.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

 Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 2. febrúar 1999 um að frumvarp til úthlutunar 3. desember 1998 á söluverði Arnarborgar EA 316 við nauðungarsölu skuli standa óbreytt að því er varðar varnaraðila Baldur Snorrason, Björn Snorrason, Jurijs Semjonovs, Sergejs Kuznecovs og Snorra Snorrason.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. mars 2000.

                Mál þetta barst dómnum með bréfi Haraldar Arnar Ólafssonar hdl., dags. 13. desember 1999 og móteknu 15. s.m.  Málið var þingfest þann 7. janúar 2000 en munnlega flutt og tekið til úrskurðar 1. mars s.l.

                Sóknaraðilar málsins eru Baldur Snorrason, kt. 210273-3369, Huldugili 25, Akureyri, Björn Snorrason, kt. 210273-3289, Böggvisstöðum, Dalvík, Sergejs Kuznecovs, Karlsrauðatorgi 10, Dalvík, Snorri Snorrason, kt. 140240-2069, Karlsrauðatorgi 10, Dalvík og Yuriy Semenov, kt. 050658-2289, Karlsrauðatorgi 10, Dalvík.  Varnaraðilar eru Kælismiðjan Frost h.f., kt. 711293-3889, Fiskislóð 125, Reykjavík og Héðinn-Smiðja h.f., kt. 471194-3289, Stórási 6, Garðabæ.

                Í málinu gera sóknaraðilar þær kröfur, að ákvörðun sýslumannsins á Akureyri, sem tekin var á fundi vegna mótmæla við frumvarp til úthlutunar á söluverði skipsins Arnarborgar EA-316, þriðjudaginn 2. febrúar 1999, verði breytt á eftirfarandi hátt:

Baldri Snorrasyni verði úthlutað kr. 1.257.502,-.

Birni Snorrasyni verði úthlutað kr. 853.865,-.

Sergejs Kuznecovs verði úthlutað kr. 1.056.199,-.

Snorra Snorrasyni verði úthlutað kr. 1.167.388,-.

Yuriy Semenov verði úthlutað kr. 1.346.223,-.

Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Kröfur varnaraðila Kælismiðjunnar Frosts h.f. í málinu eru þær aðallega, að framangreind ákvörðun sýslumannsins á Akureyri verði staðfest og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu, en til vara að krafa sóknaraðila verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.

                Kröfur varnaraðila Héðins-Smiðju h.f. í málinu eru þær, að framangreind ákvörðun sýslumannsins á Akureyri verði staðfest með þeirri breytingu, að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað fyrir héraði að mati dómsins.

 

Málsatvik munu vera þau, að sóknaraðilar voru allir fastráðnir skipverjar á Arnarborg EA-316, sem var í eigu Útgerðarfélagssins Áss ehf. og gerð út af félaginu.  Var Snorri Snorrason skipstjóri, Baldur Snorrason 1. stýrimaður, Yuriy Semenov yfirvélstjóri, Björn Snorrason 1. vélstjóri og Sergejs Kuznecovs 2. vélstjóri. Þann 30. september 1998 var skipið selt á uppboði hjá sýslumanninum á Akureyri, en það var þá statt í Færeyjum. Samkvæmt lögskráningabókum sýslumannsins á Akureyri voru 3 sóknaraðila, þeir Sergejs Kuznecovs, Yuriy Semenov og Snorri Snorrason, lögskráðir aftur á skipið 30. október 1998. Við nefnt uppboð lýstu sóknaraðilar áætluðum launakröfum, en með kröfulýsingum dagsettum 27. október 1998 hækkaði lögmaður sóknaraðila fyrri kröfur þeirra og lagði fram ítarleg gögn og útreikninga þeim til stuðnings.  Lýsti lögmaðurinn bæði kröfum vegna launa fram að uppboðsdegi og kröfum um bætur vegna ráðningarslita.  Í frumvarpi sýslumannsins á Akureyri til úthlutunar á uppboðsandvirði Arnarborgarinnar var sóknaraðilum úthlutað fjárhæðum af uppboðsandvirði skipsins sem námu launum þeirra til uppboðsdags, Baldri kr. 811.711,-, Yuriy kr. 957.886,-, Snorra kr. 623.030,-, Birni kr. 547.973,- og Sergejs kr. 753.834,-.  Ekki var úthlutað vegna krafna um bætur vegna ráðningarslita.  Mótmælti lögmaður sóknaraðila niðurstöðu sýslumanns með bréfum dags. 10. desember 1998 og krafðist þess, að tekið yrði tillit til bóta vegna ráðningarslita.  Mótmæltu lögmenn varnaraðila kröfum sóknaraðila með bréfum dags. 22. desember 1998.  Voru mótmæli aðila tekin fyrir á fundi hjá sýslumanni þann 2. febrúar 1999.  Tók sýslumaður þá ákvörðun, að úthlutað skyldi vegna launa fram að sölu skipsins, en ekki vegna krafna um ráðningarslitabætur.  Fyrir hönd sóknaraðila var því lýst yfir, að þeir myndu vísa málinu til héraðsdóms.

                Með bréfi 15. febrúar 1999 vísaði lögmaður sóknaraðila málinu til héraðsdóms með vísan til XIII. kafla nauðungarsölulaga nr. 90, 1991.  Kvað Héraðsdómur Norðurlands eystra upp úrskurð í málinu 28. október 1999 þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Akureyri.  Kærðu sóknaraðilar úrskurðinn til Hæstaréttar, sem vísaði málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar með dómi 23. nóvember 1999.  Lögðu sóknaraðilar því kröfur sínar að nýju fyrir héraðsdóm með áðurnefndu bréfi dags. 13. desember 1999.

 

                Sóknaraðilar krefjast þess, að úthlutað verði af uppboðsandvirði Arnarborgar EA-316 fjárhæð til greiðslu á bótum vegna ráðningarslita.  Kveða þeir um að ræða bótakröfu innan samninga, sem stoð hafi í reglum sjóréttar og vinnumarkaðsréttar, einkum þó 5., 9., 22. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985.

                Byggja sóknaraðilar á því, að þeim sé tryggður uppsagnarfrestur í 9. gr. sjómannalaga og njóti yfirmenn 3 mánaða uppsagnarfrests, en undirmenn á fiskiskipum 1 viku.  Allir sóknaraðilar teljist til yfirmanna samkvæmt 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga og þar sem þeir hafi allir verið fastráðnir á skipið, hafi þeir allir átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti.

                Sóknaraðilar kveða í sjómannalögum ekki til að dreifa ákvæðum sem fjalli sérstaklega um hvernig fari með uppsagnarfrest, þegar skip sé selt á uppboði.  Hins vegar sé í sjómannalögum ákvæði 22. gr. sem fjalli um það þegar skip sé selt frjálsri sölu, úr landi eða innanlands.              Telja sóknaraðilar að þeim reglum hljóti að verða að beita við nauðungarsölu skips með rýmkandi lögskýringu eða í öllu falli með lögjöfnun.  Af ákvæðinu leiði, að ef skip sé selt og skipverja ekki boðin staða hjá nýja útgerðarmanninum eða skipið selt úr landi, þá öðlist skipverjinn bótarétt samkvæmt 25. gr. sjómannalaga.

                Fallist dómurinn ekki á að beita eigi 22. gr. sjómannalaga þá byggja sóknaraðilar á, að þeir eigi sjálfstæðan bótarétt á grundvelli 25. gr. sömu laga.  Í ákvæðinu segi, að ef skipverja sé vikið úr skipsrúmi áður en ráðningartími hans sé liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr., eigi hann rétt á bótum sem nemi launum í uppsagnarfresti.  Telja sóknaraðilar að þeim hafi sjálfkrafa verið vikið úr skipsrúmi í skilningi nefndrar 25. gr., þegar Arnarborg EA-316 hafi verið seld á uppboði 30. september 1998.  Við uppboðið hafi útgerðarmaður þess misst skipið úr sínum höndum og sóknaraðilar þar með stöður sínar, enda hafi þeim ekki verið boðið að halda áfram störfum hjá hinum nýja eiganda.  Sóknaraðilar kveða skipverja ráðna í tilteknar stöður á tilteknu skipi og sé ekki hægt að færa þá á milli skipa hjá sömu útgerð.  Vísist um þetta til 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga.  Þá kveða sóknaraðilar einnig til þess að líta, að Arnarborg EA-316 hafi verið eina skip Útgerðarfélagsins Áss ehf.

                Sóknaraðilar kveða bætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga meðalhófsbætur vegna riftunar á skipsrúmssamningi.  Í því felist að skipverji fái greiddar bætur sem nemi kaupi í þriggja mánaða uppsagnarfresti hvort sem tjón hans sé meira eða minna.

                Þá telja sóknaraðilar óumdeilt, að kröfur sem leiði af 25. gr. sjómannalaga njóti sjóveðréttar í skipi samkvæmt 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34, 1985.  Í greindu ákvæði segi, að laun og önnur þóknun, sem skipstjóri, skipverjar og aðrir þeir, sem á skip séu ráðnir eigi rétt á fyrir störf um borð, njóti tryggingar með sjóveðrétti í skipi.  Kveða sóknaraðilar að með orðunum „laun og önnur þóknun“ sé átt við allar þær kröfur sem stafi af skiprúmssamningi við skipverja.  Hafi þetta verið staðfest í fjölda hæstaréttardóma þar sem staðfestur sé sjóveðréttur fyrir kröfum um laun vegna krafna um bætur vegna fyrirvaralausrar uppsagnar.

                Sóknaraðilar benda á, að ákvæði 1. mgr. 202. gr. siglingalaga gangi jafnt yfir allar kröfur.  Þeirra kröfur séu ekki til komnar eftir uppboðið heldur einmitt vegna þess og hljóti því að komast að.

                Ef talið verði að kröfur sóknaraðila hafi verið bundnar einhverjum skilyrðum, t.d. að sýslumaður samþykkti eitthvert boð í eignina eða að sóknaraðilum yrði ekki boðin áframhaldandi staða á skipinu, þá vísa sóknaraðilar til 7. mgr. 50. gr. nauðungarsölulaga nr. 90, 1991, en í greininni segi, að ef til álita komi að greiða kröfu, sem sé skilyrt eða umdeild, skuli gera ráð fyrir henni í frumvarpi með þeirri fjárhæð, sem ætla megi að hún geti hæst numið.  Sóknaraðilar kveða öll slík skilyrði hafa komið fram fyrir þeirra kröfum, sýslumaður hafi samþykkt boð í eignina, útgerðarmaður skipsins misst umráðarétt og eignarétt til skipsins og sóknaraðilum hafi ekki verið boðin áframhaldandi staða á skipinu.

                Um fjárhæð krafna kveðjast sóknaraðilar vísa til útreikninga sem fylgi greinargerð þeirra og séu hluti hennar.  Byggt sé á launaseðlum fyrir september til október.  Um kauptryggingu, fastakaup, starfsálag, fatapeninga, dagpeninga og orlof vísi þeir til viðkomandi kjarasamninga.  Hvað kröfur sóknaraðila Sergejs og Yuriy varðar, hafi verið tekið tillit til greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa.

                Við þingfestingu málsins þann 7. janúar s.l. kveða sóknaraðilar varnaraðila ekki hafa haft uppi neinar kröfur.  Í 1. mgr. 75. gr. nauðungarsölulaga segi, að ef sættir takist ekki um ágreining í þinghaldi, sem boðað sé til samkvæmt 3. mgr. 74. gr. nefndra laga, skuli aðilar gera grein fyrir þeim kröfum, sem þeir hafi uppi.  Í 1. ml. 4. mgr. 75. gr. laganna segi, að þegar kröfur aðila hafi komið fram skuli þeim veittur skammur frestur til að skila skriflegum greinargerðum og afla sýnilegra sönnunargagna, ef þörf krefji.  Með vísan til nefndra ákvæða verði því að telja kröfur varnaraðila of seint fram komnar.

                Sóknaraðilar kveðjast ítreka mótmæli við aðild Héðins-Smiðju h.f. að málinu þar sem félagið hafi ekki lögvarða hagsmuni af ágreiningsefni þess.

                Um málskostnað kveðjast sóknaraðilar vísa til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, en um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun til laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt.

 

                Varnaraðili Kælismiðjan Frost h.f. kveður þá reglu koma fram í 1. mgr. 202. gr. siglingalaga, að fari fram nauðungarsala skipi hér á landi falli niður sjóveðréttindi, önnur veðréttindi og önnur eignarhöft í skipinu.  Reglan sé byggð á því sjónarmiði, að þar sem eignin sé seld öðrum aðila en hana átti í upphafi, sé ekki um það að ræða að neinar kröfur geti stofnast á hendur nýjum eiganda eftir að slík aðilaskipti hafi farið fram.  Af framangreindu leiði, að þar sem eignin hafi verið seld nauðungarsölu gangi sjóveðréttur fyrir nýjum kröfum ekki lengra en fram að nauðungarsöludegi.  Kveðst greindur varnaraðili vísa til 3. mgr. 197. gr. siglingalaga til stuðnings þessu sjónarmiði, en í greininni sé kveðið á um að sjóveðréttur stofnist um leið og krafa sú sem honum sé ætlað að tryggja.

                Af 1. mgr. 202. gr. siglingalaga kveður varnaraðili Kælismiðjan Frost h.f. mega draga þá ályktun, að krafa um sjóveðrétt geti ekki stofnast á nauðungarsöludegi.  Þá sé hvergi að finna í lögum að nauðungarsala eignar jafngildi uppsögn.  Þvert á móti megi líta svo á, að sóknaraðilar hafi verið áfram í starfi hjá útgerð skipsins, þar til þeim yrði sagt upp störfum.  Þá bendir greindur varnaraðili á, að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga sé það skylda útgerðarmanna að gera skriflega ráðningarsamninga við skipverja og samkvæmt 1. mgr 42. gr. laganna eigi það sama við gagnvart skipstjóra.  Slíkir samningar hafi ekki verið lagðir fram í málinu og verði sóknaraðilar að bera hallann af því.

                Varnaraðili Kælismiðjan Frost h.f. kveður þá hættu skapast, verði sjóveðréttur viðurkenndur vegna launa í uppsagnarfresti fram yfir nauðungarsöludag, að gengið verði með óréttmætum hætti á rétt kröfuhafa sem og veðhafa skipsins.  Telja verði að hagsmunir annarra veðhafa, sem á eftir komi, felist í því að við nauðungarsölu liggi fyrir hvaða veðkröfur hvíli á eigninni og vegi þeir hagsmunir þyngra en þeir hagsmunir skipverja, að fá viðurkenndan sjóveðrétt bóta vegna fyrirvaralausrar uppsagnar.

                Nefndur varnaraðili kveður ýmis réttarúrræði vera til staðar vegna ógreiddra launakrafna, sem ófullnægðir veðhafar geti ekki nýtt sér.  Verði af þeim sökum að líta svo á, að skerðing á kröfum veðhafa vegna ógreiddra launakrafna, sem ekki hafi stofnast þegar nauðungarsala fer fram og ekki er lýst til sýslumanns fyrr en u.þ.b. mánuði eftir að nauðungarsala fer fram, sé óeðlileg og ósanngjörn og ekki í samræmi við anda nauðungarsölulaga, sérstaklega með hliðsjón af öðrum tiltækum úrræðum sóknaraðila til að fá kröfur sínar greiddar.  Það sé meginregla á sviði veðréttar, að lögveðréttur sæti ávallt þrengingum í meðförum og því sé krafa sóknaraðila mjög hæpin enda ljóst að hún sé mjög óviss.

                Þá bendir varnaraðili Kælismiðjan Frost h.f. á ákvæði 51. gr. nauðungarsölulaga þar sem gert sé ráð fyrir, að unnt sé að hækka kröfulýsingu frá því að nauðungarsala fer fram, þar til frumvarp til úthlutunar verði endanlegt.  Komi fram í greinargerð með nauðungarsölulögum, að breytingar í framangreinda átt geti aldrei orðið umfangsmiklar.  Kveður nefndur varnaraðili kröfur sóknaraðila hafa verið óvissar  og óskýrar frá upphafi og einnig þau gögn, sem lögð hafi verið fram á síðari stigum málsins.  Í málinu sé um að ræða gríðarlega hækkun á fjárhæðum frá þeim kröfum, sem fyrst hafi verið settar fram og því sé ósanngjarnt að varnaraðilar, sem veðhafar í skipinu, beri ábyrgð á óvissum og illa rökstuddum kröfum sóknaraðila á fyrri stigum málsins.  Enn sé verið að breyta kröfugerð og sé því sérstaklega mótmælt hækkun á kröfum frá upphaflegri kröfugerð.

                Hvað varðar varakröfu kveðst greindur varnaraðili telja, að reglur sjómannalaga, einkum 25. gr. sbr. 22. gr., eigi ekki við í málinu.  Útgerð eða skipstjóri hafi ekki vikið sóknaraðilum úr starfi á ólögmætan hátt, heldur hafi skipið verið selt nauðungarsölu.  Nauðungarsala sé sérstakt þvingunarúrræði kröfuhafa til að knýja fram greiðslu og gildi sér lagabálkur um réttaráhrif slíkrar sölu.  Það sé því engan vegin hægt að líkja nauðungarsölu skips við frjálsa sölu þess, né heldur geti það staðist að hún hafi sömu réttaráhrif.

                Varnaraðili Kælismiðjan Frost h.f. kveður meginreglur vinnuréttar fela í sér, að launþegi eignist bótakröfu vegna fyrirvaralausrar uppsagnar vegna þess tjóns, sem hann hafi orðið fyrir.  Nefndar meginreglur feli einnig í sér, að launþega beri að takmarka tjón sitt og laun, sem hann fái annars staðar frá, komi til frádráttar.  Regla sú, sem virðist hafa verið viðurkennd af Hæstarétti í dómi sem kveðinn var upp árið 1993, feli í sér undantekningarreglu frá áðurnefndri meginreglu og sé hún studd við 25. gr. sjómannalaga, sem fjalli um meðalhófsbætur.  Beri að túlka greint ákvæði þröngt og eigi það því ekki við þegar skip er selt nauðungarsölu.  Gagnstæð niðurstaða væri í ósamræmi við hagsmuni veðhafa og annarra kröfuhafa, sem treysta megi því að lögveðhafar auðgist ekki með óréttmætum hætti.  Þá séu í málinu umtalsverðar tengingar sóknaraðila við fyrrverandi útgerð skipsins og núverandi stjórnendur, sem hafa verði í huga þegar skoðað sé, hvort eðlilegt teljist að sóknaraðilar fái greitt tvöfalt fyrir vinnu sína á kostnað grandlauss veðhafa nauðungarsöluandlagsins.

                Ofangreindur varnaraðili kveður kröfur sóknaraðila um laun í uppsagnarfresti taka til þriggja mánaða.  Verði krafa þeirra tekin til greina skapist sú hætta að skipverjar njóti launa í 3 mánuði í uppsagnarfresti, en verði jafnframt ráðnir aftur á skipið eftir að það hafi verið selt og fái því tvöföld laun á umræddu tímabili.  Af lögskráningabókum sýslumannsins á Akureyri megi sjá, að 3 sóknaraðila hafi verið lögskráðir á skipið 30. október 1998, þ.e. 1 mánuði eftir að nauðungarsalan fór fram.  Bendi það til að sóknaraðilar hafi ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna nauðungarsölunnar.  Verði því að gera ráð fyrir að sóknaraðilar hafi öðlast rétt til launa strax þann 30. október 1998, til viðbótar við þá kröfu sem þeir geri nú.  Af þessum sökum sé því mótmælt, að sóknaraðilar kunni að eiga kröfu til úthlutunar af söluandvirði skipsins vegna launa í uppsagnarfresti.  Þeir hafi, sbr. ofangreint, hafið störf fyrir hinn nýja eiganda og um starfslok þeirra hjá honum liggi ekkert fyrir.  Verði því annað hvort að miða við að sóknaraðilar hafi starfað hjá honum áfram, eða a.m.k. átt rétt til launa í uppsagnarfresti er störfum þeirra fyrir hann lauk í október 1998.

                Varnaraðili Kælismiðjan Frost h.f. kveður að í þinghaldi 7. janúar s.l. hafi legið fyrir svo til sömu kröfur og gerðar voru 12. mars 1999.  Enginn ágreiningur hafi verið  með aðilum um fyrirliggjandi kröfur og hafi málinu verið frestað til öflunar greinargerðar og gagna í þeim tilgangi að upplýsa málið betur.  Kveðst nefndur varnaraðili mótmæla þeim staðhæfingum sóknaraðila, að kröfur séu of seint fram komnar, þrátt fyrir að kröfur varnaraðila hafi ekki verið taldar upp í þinghaldinu 7. janúar s.l.  Einnig vísist til þess, að meðferð málsins hafi alfarið byggst á ákvörðun héraðsdómara, sem hafi ákveðið að sóknaraðili skyldi leggja fram kröfur sínar áður en varnaraðilar skiluðu inn greinargerð.  Bendir varnaraðili Kælismiðjan Frost h.f. á að hann hafi ekki haft uppi neinar sjálfstæðar kröfur um breytingu á ákvörðun sýslumanns, heldur hafi hann sjálfkrafa orðið aðili varnarmegin vegna mótmæla sóknaraðila vegna ákvörðunar sýslumanns.  Af þeim sökum hafi varnaraðila verið nauðugur kostur að fá í hendur kröfur sóknaraðila, áður en hann gat sett fram sínar röksemdir.

                Nefndur varnaraðili vísar um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991.  Honum hafi verið nauðugur einn kostur að taka til varna í málinu, þar sem síðari veðhafar verði sjálfkrafa varnaraðilar í ágreiningsmálum um úthlutun söluandvirðis.  Þá hafi kröfur sóknaraðila við uppboðið verið mjög á reiki og sú krafa, er mál þetta snúist um, hafi fyrst komið til sýslumanns meira en mánuði eftir nauðungarsöludag.

 

                Varnaraðili Héðinn-Smiðja h.f. kveðst eiga lögvarða hagsmuni í málinu.  Samkvæmt gögnum þess, þ. á m. frumvarpi sýslumanns, sé ljóst að svo eigi við um báða varnaraðila.  Veðréttur þeirra sé samhliða og samkvæmt nefndu frumvarpi hafi báðir varnaraðilar þurft að þola skerðingu á kröfum sínum, þar sem eftirstöðvar kaupverðs greiðist upp í þeirra kröfur.  Varnaraðili Héðinn-Smiðja h.f. kveður ekki geta annað legið fyrir sýslumanni, en að skerða úthlutun honum til handa enn frekar verði kröfur sóknaraðila teknar til greina að hluta til eða öllu leyti.  Þá bendir nefndur varnaraðili á, að í tilkynningu héraðsdóms sé hann tilgreindur aðili málsins og einnig í greinargerð sóknaraðila, sem lögð hafi verið fram þann 14. janúar s.l.

                Hvað ágreiningsmál þetta varði efnislega, þá kveðst varnaraðili Héðinn-Smiðja h.f. taka undir þau sjónarmið, málsástæður og lagarök, sem fram komi í greinargerð varnaraðila Kælismiðjunnar Frosts h.f.

                Varnaraðili Héðinn-Smiðja h.f. kveðst telja, að á grundvelli 1. mgr. 202. gr. siglingalaga nr. 34, 1985 og þegar af þeirri ástæðu, beri að hafna kröfum sóknaraðila.  Ennfremur beri að líta til þess, að þegar Arnarborg EA-316 hafi verið seld nauðungarsölu þann 30. september 1998, hafi legið fyrir kröfulýsingar sóknaraðila, sem hafi byggst á áætluðum launakröfum.  Endanlegar kröfulýsingar hafi hins vegar ekki komið fram fyrr en 27. október 1998, u.þ.b. einum mánuði eftir sölu skipsins.  Síðastnefndar kröfulýsingar hafi falið í sér verulega hækkun á áðurgerðum kröfum og séu þær í andstöðu við 51. gr. laga um nauðungarsölu.

                Þá kveður varnaraðili Héðinn-Smiðja h.f. varnaraðila hafa ákveðið að una við ákvörðun sýslumanns, en sóknaraðilar hafi hins vegar leitað úrlausnar héraðsdóms.  Varnaraðilum hafi ekki verið unnt að hafa uppi kröfur, reifa málsástæður og lagarök sín, fyrr en ljóst hafi verið hverjar kröfur sóknaraðila yrðu.  Eftir framlagningu greinargerðar sóknaraðila hafi varnaraðilar fengið frest til að skila greinargerðum.  Sú málsmeðferð sé ekki í andstöðu við málsmeðferðarreglur nauðungarsölulaganna enda sé ákvæði 3. mgr. 74. gr. laganna ekki fortakslaust.  Þá hafi það og verið ákvörðun héraðsdómara að veita varnaraðilum stuttan frest til að setja fram endanlegar kröfur sínar.  Að endingu kveðst nefndur varnaraðili vísa til 2. mgr. 77. gr. nauðungarsölulaga, þar sem segi að almennum reglum um meðferð einkamála skuli beitt við meðferð mála eins og þessa, eins og þær geti átt við.

 

                Frumvarp sýslumannsins á Akureyri til úthlutunar á söluverði, dags. 3. desember 1998, ber það greinilega með sér, að varnaraðilar nutu báðir 4. veðréttar í Arnarborg EA-316 á uppboðsdegi.  Verði kröfur sóknaraðila teknar til greina að fullu eða einhverju leyti í máli þessu, munu því réttindi beggja varnaraðila skerðast sem því nemur.  Varnaraðilar hafa því báðir að gæta lögvarinna hagsmuna í málinu.

Kröfur sóknaraðila í málinu voru settar fram í þinghaldi þann 7. janúar s.l.  Varnaraðilar gátu ekki sett fram kröfur sínar og málsástæður með fullnægjandi hætti fyrr en þeir höfðu fengið kröfur sóknaraðila í hendur.  Verður því ekki fallist á það með sóknaraðilum, að ákvæði 74. og 75. gr. nauðungarsölulaga leiði til þeirrar niðurstöðu, að kröfur varnaraðila séu of seint fram komnar.

                Sóknaraðilar voru allir yfirmenn á skipinu Arnarborg EA-316 í skilningi 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga er nauðungarsala á skipinu fór fram og nutu þeir því 3 mánaða uppsagnarfrests skv. 2. mgr. 9. gr. laganna.

                Skv. 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga er skipverja heimilt, ef skip er selt öðrum innlendum útgerðarmanni, að krefjast lausnar úr skiprúmi en segja verður þá skipverji skiprúmi sínu lausu þegar eftir að hann fær vitneskju um söluna.  Í 3. mgr. nefndrar lagagreinar er kveðið á um 6 vikna kaup til handa skipverja, sem nýtir sér heimildarákvæði 2. mgr sömu greinar.  Þegar Arnarborg EA-316 var boðin upp var ekki tekið fram að nokkrar kvaðir eða höft ættu að hvíla áfram á skipinu eftir nauðungarsölu þess, en skylt hefði verið að geta um slík höft við uppboðið, sbr. 3. tl. 2. mgr. 31. gr. nauðungarsölulaga.  Verður því að telja ljóst, að skipið hafi verið selt án þeirrar kvaðar, að hinn nýi eigandi tæki við skiprúmssamningum sóknaraðila.  Sóknaraðilar áttu því ekki, eftir nauðungarsölu skipsins, rétt til starfa á skipinu, ólíkt því sem verið hefði ef það hefði verið selt frjálsri sölu, án undangenginnar uppsagnar skipverja úr stöðum sínum.  Sérregla 22. gr. sjómannalaga á því ekki við í málinu.

                Ef skipverja er vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. sjómannalaga á hann, skv. 1. mgr. 25. gr. laganna, rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. nefndra laga.  Við uppboðið 30. september 1998 misstu sóknaraðilar, líkt og getið er að framan, stöður sínar á skipinu, en ekki hefur annað komið fram í málinu, en samningssamband sóknaraðila við fyrri eigendur skipsins hafi eingöngu verið bundið við Arnarborg EA-316.  Er það í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá skipverjum, sbr. ákvæði 1. mgr. 6. gr. og inntak 22. gr. sjómannalaga.  Verður því að telja með vísan til nefndrar 25. gr., að með uppboðinu hafi sóknaraðilum verið vikið úr skiprúmi í skilningi greinarinnar og þeir eigi því rétt til jafngildis launa í 3 mánuði frá uppboðsdegi, sbr. og 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. 

Bætur samkvæmt sérreglu 25. gr. sjómannalaga eru meðalhófsbætur og sæta því ekki skerðingu vegna tekna annars staðar frá í uppsagnarfrestinum.  Möguleg störf sóknaraðila í uppsagnarfrestinum varða því í engu ákvörðun bóta í máli þessu.

Framangreindar kröfur sóknaraðila urðu til við sölu Arnarborgar á uppboði þann 30. september 1998 og stofnaðist um leið sjóveðréttur fyrir greindum kröfum í skipinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 197. gr. siglingalaga.  Að mati dómsins stendur ákvæði 1. mgr. 202. gr. siglingalaga ekki þessari niðurstöðu í vegi, enda verður að telja, að með orðinu „nauðungarsala“ í nefndri grein siglingalaga, sé átt við nauðungarsöluferlið allt, en ekki einungis uppboðsdaginn.

Í 4. mgr. i.f. og 5. mgr. 50. gr., 51. gr. og 54. gr. nauðungarsölulaga og í athugasemdum við nefnd ákvæði í greinargerð með lögunum, er skýrlega gert ráð fyrir, að hægt sé að lýsa kröfum í söluandvirði eignar eftir uppboð á henni.  Sóknaraðilar lýstu fyrir framangreint uppboð kröfum vegna launa fram til uppboðsdags, en tæpum mánuði síðar lýstu þeir kröfum vegna launa í uppsagnarfresti.  Eins og rakið er að framan njóta þær kröfur sóknaraðila sjóveðréttar og ganga því framar kröfum samningsveðhafa.  Ekki virðist 51. gr. nauðungarsölulaga eiga að leiða til þess, að kröfur sóknaraðila komist ekki að, enda eru lögveðskröfur sérstaklega nefndar sem kröfur, sem komist að á síðari stigum í athugasemdum við nefnda 51. gr. í greinargerð.  Verður því ekki talið, að sóknaraðilar hafi glatað rétti sínum til úthlutunar úr söluandvirði Arnarborgar EA-316 til greiðslu krafna sinna, þó svo þeir hafi ekki lýst nefndum kröfum sínum fyrr en tæpum mánuði eftir nauðungarsöludaginn.

 

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu og þess, að varnaraðilar hafa ekki mótmælt sérstaklega tölulegum útreikningi sóknaraðila á kröfum þeirra á annan hátt en þegar hefur verið rakið, er það niðurstaða dómsins, að ákvörðun sýslumannsins á Akureyri, sem tekin var á fundi vegna mótmæla við frumvarp til úthlutunar á söluverði skipsins Arnarborgar EA-316, þriðjudaginn 2. febrúar 1999, skuli breytt á þann hátt, að Baldri Snorrasyni skuli úthluta kr. 1.257.502,-, Birni Snorrasyni kr. 853.865,-, Sergejs Kuznecovs kr. 1.056.199,-, Snorra Snorrasyni kr. 1.167.388,- og Yuriy Semenov kr. 1.346.223,-.

                Rétt er að málskostnaður falli niður.

                Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

 

Á L Y K T A R O R Ð :

                Ákvörðun sýslumannsins á Akureyri, sem tekin var á fundi vegna mótmæla við frumvarp til úthlutunar á söluverði skipsins Arnarborgar EA-316, þriðjudaginn 2. febrúar 1999, er breytt á eftirfarandi hátt:

Baldri Snorrasyni skal úthluta kr. 1.257.502,-,

Birni Snorrasyni skal úthluta kr. 853.865,-,

Sergejs Kuznecovs skal úthluta kr. 1.056.199,-,

Snorra Snorrasyni skal úthluta kr. 1.167.388,-,

Yuriy Semenov skal úthluta kr. 1.346.223,-.

                Málskostnaður fellur niður.