Hæstiréttur íslands

Mál nr. 471/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 8. júlí 2014.

Nr. 471/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á því stæði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2014 sem barst réttinum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júlí 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að kröfu um einangrun verði hafnað.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 18. júlí 2014 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð kemur fram að um klukkan hálffimm í nótt hafi borist tilkynning til lögreglu um að ráðist hefði verið á konu en hún hafði óskað eftir aðstoð frá pari sem hún hitti við [...] í Reykjavík. Lögregla hafi komið á vettvang og hitt þar fyrir A, sem hafi virst vera í annarlegu ástandi, talað hratt og óskýrt og verið í blóðugum fötum. Er lögregla hafi verið að aka með A eftir [...] hafi hún bent á [...] og sagt að árásin hefði átt sér stað þar. Hafi það stemmt við tilkynningu sem borist hafði skömmu áður.

A hafi greint frá því að hún hefði verið með B, C og D á bifreiðinni [...] og að þau hefðu verið að koma í bæinn frá [...]. C hafi ætlað að hitta einhverja menn í bænum sem hafi ætlað að láta hann fá pening og hafi verið ákveðið að hittast á [...] við [...] í Hafnarfirði. Þar hafi þau hitt þrjá menn, þá Y, Z og X, og það hefði orðið eitthvað rifrildi og C ekki fengið þennan pening, en A segist hafa séð Y með mikið af peningum. Þessir þrír menn hafi síðan farið á brott á [...] glæsikerru með [...].

Skömmu síðar hafi B fengið símtal frá Y sem hafi beðið um að fá að tala við C. Y hafi þá viljað hitta C til að láta hann fá peninginn sem um hafi verið rætt. Þá hafi verið ákveðið að hittast við [...] á [...]. C, A, D og B hafi farið þangað og fljótlega hafi komið [...] leigubifreið með skráningarnúmerinu [...]. Þá hafi C sagt að þetta væri „set up“ og beðið D um að aka á brott en einhverra hluta vegna hafi B farið út úr bifreiðinni og gengið að leigubifreiðinni. A hafi sagt að B hafi síðan komið til baka með opið enni og illa farinn og að sömu þrír menn og þau hittu á [...] hafi verið á eftir honum og verið að ýta við honum. Hún hafi þá farið út úr bifreiðinni til að reyna að aðstoða B en þá hafi C og D ekið burt. A hafi sagt þessa þrjá menn hafa lamið hana og B í leigubifreiðinni og ekið með þau af stað. Hún hafi setið vinstra megin að aftan, B við hlið hennar og Y við hliðina á honum. X hafi verið í hægra framsæti. Y hafi slegið A í andlitið og talað um hvernig hann ætlaði að láta þau hverfa ofan í steypugólf. A hafi sagst hafa náð að skríða út um glugga bifreiðarinnar og í kjölfarið gengið á dyr í hverfinu í leit að aðstoð uns hún hafi rekist á par sem hafi hringt á Neyðarlínuna fyrir hana.

Síðar um nóttina hafi komið tilkynning til lögreglu um mann sem hefði verið hent út úr bifreið með áverka á höfði, hugsanlega eftir kúbein, við [...] við [...] í Hafnarfirði. Hafi þar verið um að ræða B og hafi hann verið fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Stuttu síðar hafi sést til [...] bifreiðar sem hafi passað við lýsingu A um glæsikerruna og hún stöðvuð en inni í bifreiðinni hafi þeir, Z, Y og X verið. Hafi þeir allir verið handteknir.

Rannsókn málsins sé skammt á veg komin. Búið sé að finna leigubifreiðina [...] en hún hafi fundist fyrir utan heimili kærða, Z. Á bifreiðinni utanverðri hafi mátt sjá blóð en rannsókn tæknideildar standi nú yfir. Kærði hafi við skýrslutöku í dag neitað að tjá sig um málið.

Eftir sé að taka skýrslur af brotaþolum sem og vitnum málsins. Þá hafi brotaþoli B greint frá því í samtali við lögreglu að áður en þeir hafi sett hann inn í bifreiðina þá hafi þeir sett hettu yfir höfuðið á honum og ekið honum á einhvern ókunnugan stað þar sem þeir hafi farið út úr bifreiðinni og inn í hús. Þar hafi þeir síðan veitt honum enn frekari áverka og í kjölfarið ekið honum að [...] við [...] í Hafnarfirði. Lögregla eigi eftir að finna hvar þetta húsnæði sé en allt kapp sé lagt í að finna það sem fyrst en hugsanlegt sé að þar megi finna áhaldið sem brotaþoli segist hafa verið laminn með. Þá eigi eftir að rannsaka fatnað kærðu og brotaþola.

Samkvæmt bráðabirgðavottorði sé B höfuðkúpubrotinn, nefbrotinn og ristarbrotinn. Þá hafi þurft að sauma þrjá skurði, tvo á enni og einn á kálfa. Samkvæmt bráðabirgðavottorði vegna A þá hafi hún ekki hlotið alvarlega áverka en sé marin og aum víða um líkamann.

Það sé mat lögreglustjóra að hér sé um að ræða mjög grófa atlögu að lífi og heilbrigði brotaþola. Svo virðist vera sem árásin hafi verið algjörlega tilefnislaus. Þá hafi brotaþoli B hlotið mjög alvarlega áverka og hending ein að ekki hafi farið verr. Það sé mat lögreglu að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að reyna að hafa áhrif á framburð vitna og annarra samseka, koma undan vopnum og afmá öll önnur ummerki um árásina en sem fyrr segi hefur lögregla ekki fundið húsnæðið sem kærðu hafi farið með brotaþola í. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að rannsaka málið án hættu á að kærði geti spillt rannsókn þess.

Sakarefni málsins sé talið varða við 2. mgr. 218. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til 2. mgr. 98. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða:

Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um frelsissviptingu og alvarlega líkamsárás síðast liðna nótt. Skilyrðum 1. málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt. Rannsókn málsins er á frumstigi. Kærði hefur ekki viljað tjá sig  um sakargiftir við skýrslutöku hjá lögreglu. Fallast ber á þá ályktun lögreglu að verði kærði látinn laus megi ætla að hann torveldi rannsókn málsins svo sem með því að reyna að hafa áhrif á aðra samseka og vitni, koma undan vopnum og afmá ummerki um árásina, en lögregla hefur ekki fundið húsnæðið sem kærðu eiga að hafa farið með brotaþola í. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt. Samkvæmt framansögðu ber að fallast á kröfu lögreglunnar um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Þess er krafist að kærði sæti gæsluvarðhaldi í 12 daga og þykir sá tími eðlilegur í ljósi atvika. Þá þykir ástæða til þess að kærði verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

X kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 18. júlí 2014 kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.