Hæstiréttur íslands
Mál nr. 651/2017
Lykilorð
- Skuldamál
- Yfirdráttarheimild
- Sjálfskuldarábyrgð
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. október 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.180.991 krónu með 13,45% yfirdráttarvöxtum frá 29. apríl 2016 til 27. júní sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Hinn 30. október 2008 sótti einkahlutafélagið Sólco um að opna reikning hjá Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis. Undir umsóknina ritaði stefndi ásamt þáverandi eiginkonu sinni en þau áttu hvort um sig helming hlutafjár og skipuðu stjórn félagsins. Þá ber umsóknin með sér að þau myndu bæði hafa prókúru á reikninginn sem var nr. 1129-26-06810. Með yfirlýsingu 15. apríl 2014 gengust þau í sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttar á reikningnum að fjárhæð 3.600.000 krónur.
Við sameiningu Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, Sparisjóðs Svarfdæla 4. júlí 2013 og Sparisjóðs Bolungarvíkur 30. júní 2014 mun Sparisjóður Norðurlands ses. hafa orðið til. Með samþykki Fjármálaeftirlitsins 4. september 2015 var sá síðastnefndi sameinaður áfrýjanda á grundvelli 1. mgr. 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Við þá sameiningu tók áfrýjandi við öllum réttindum og skyldum Sparisjóðs Norðurlands og voru félögin sameinuð undir nafni áfrýjanda sem er því réttur aðili að máli þessu.
Bú Sólco ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 24. júlí 2015 og lýsti áfrýjandi kröfu vegna yfirdráttarins að fjárhæð 2.499.798 krónur í búið og var sú krafa viðurkennd af skiptastjóra búsins. Skiptum mun hafa lokið 22. mars 2016 með því að til úthlutunar upp í kröfur komu 1.915.866 krónur, þar af greiddust 467.536 krónur upp í kröfu áfrýjanda. Þá mun meðábyrgðarmaður stefnda að skuldinni hafa greitt 1.131.000 krónur inn á hana 20. apríl 2016. Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um eftirstöðvar skuldarinnar.
II
Af greinargerð stefnda fyrir Hæstarétti verður ráðið að hann reisi sýknukröfu sýna meðal annars á því að sparisjóðurinn hafi farið á svig við eigin lánareglur í þeim viðskiptum sem hér um ræðir. Ekki verður séð að í greinargerð stefnda eða undir rekstri málsins í héraði hafi verið á þessu byggt og standa því ekki til þess lagaskilyrði samkvæmt 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að sú málsástæða komist að hér fyrir dómi.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn er með ábyrgðarmanni átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Þar sem sjálfskuldarábyrgð stefnda var í þágu atvinnurekstrar félags sem hann átti helmingshlut í eiga lög þessi ekki við um sjálfskuldarábyrgð hans og koma málsástæður þær sem á þeim lögum eru reistar því ekki til skoðunar.
Sýknukrafa stefnda er einkum á því reist að sparisjóðurinn hafi ekki látið meta greiðslugetu Sólco ehf., en það hafi verið forsenda þess að hann hafi undirgengist sjálfskuldarábyrðina. Af þeim sökum sé það óheiðarlegt, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af áfrýjanda að bera fyrir sig og byggja rétt á henni, sbr. 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Í umræddri yfirlýsingu stefnda um sjálfskuldarábyrgð er vísað til skilmála sem um hana gilda og kemur fram í 13. grein þeirra að um ábyrgðina gildi samkomulag fjármálafyrirtækja, Neytendasamtakanna og stjórnvalda frá 1. nóvember 2001, sem ber yfirskriftina „Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga“. Samkvæmt 1. mgr. 3. greinar samkomulagsins ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda sé skuldaábyrgð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Í 3. mgr. 3. greinar segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi nemi meira en 1.000.000 krónum. Þótt samkomulag þetta eigi, eins og nafn þess bendir til, aðeins við um ábyrgð á skuldum einstaklinga verður ekki fram hjá því litið að til þess er vísað í ábyrgðaryfirlýsingunni auk þess sem fram kemur í meginmáli hennar að greiðslumat skuli ávallt fara fram ef ábyrgð sé hærri en 1.000.000 krónur. Samkvæmt þessu gerði sparisjóðurinn ráð fyrir að farið yrði eftir þessu samkomulagi í tilviki stefnda, þótt lántaki væri félag, en ágreiningslaust er að greiðslumat var ekki gert á Sólco ehf. Þetta leiðir þó ekki sjálfkrafa til þess að áfrýjandi geti ekki byggt rétt á ábyrgðaryfirlýsingunni gagnvart stefnda heldur verður stefndi að sýna fram á að það sé óheiðarlegt, ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hana fyrir sig. Þegar tekin er afstaða til málsástæðna stefnda sem reistar eru á 36. gr. laga nr.7/1936 verður að beita heildstæðu mati á fyrirliggjandi atvikum með tilliti til þeirra atriða, sem um ræðir í 2. mgr. sömu lagagreinar og meginreglna fjármunaréttar um skuldbindingargildi samnings. Við það mat skiptir öðru fremur máli að stefnda, sem var helmingseigandi í Sólco ehf. og annar tveggja stjórnarmanna félagsins, mátti vera fullkunnugt um fjárhagsstöðu og þar með greiðsluhæfi félagsins á þeim tíma sem hann undirgekkst ábyrgðina auk þess sem fyrir liggur að rekstur félagsins var seldur 4. mars 2015 fyrir 7.500.000 krónur. Er engum haldbærum gögnum til að dreifa um að fjárhagur félagsins hafi, á þeim tíma er stefndi undirritaði ábyrgðaryfirlýsinguna, verið með þeim hætti að félagið hafi ekki getað greitt skuldir sínar. Að öllu framangreindu virtu eru ekki efni til að víkja til hliðar ábyrgðaryfirlýsingu stefnda á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Með sömu rökum verður ekki fallist á að ógilda beri yfirlýsingu stefnda á grundvelli 33. gr. sömu laga.
Hvað snertir aðrar málsástæður stefnda fyrir sýknukröfu sinni þess efnis að umrædd ábyrgðaryfirlýsing hafi verið fölsuð og að hann hafi ekki verið upplýstur um aðilaskipti á kröfunni þá eru þær ekki studdar viðhlítandi rökum og því haldlausar. Þá hefur hann ekki sýnt fram á að áfrýjandi eða forveri hans Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis og síðar Sparisjóður Norðurlands hafi farið á svig við lög nr. 161/2002 í viðskiptum sínum við stefnda.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður krafa áfrýjanda tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Það athugist að í hinum áfrýjaða dómi er ekki yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því heldur látið við það sitja að vísa til málsatvika eins og þau horfa við aðilum máls. Er þetta ekki í samræmi við d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Stefndi, Örvar Sigþór Guðmundsson, greiði áfrýjanda, Landsbankanum hf., 1.180.991 krónu með 13,45% yfirdráttarvöxtum á ári frá 29. apríl 2016 til 27. júní sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. október 2017.
Mál þetta var höfðað 24. ágúst 2016 og dómtekið 14. september 2017. Stefnandi er Landsbankinn hf., Fjarðarvegi 5, Þórshöfn. Stefndi er Örvar Sigþór Guðmundsson, Skipalóni 21, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.180.991 króna, ásamt 13,45% yfirdráttarvöxtum frá lokunardegi reiknings 29. apríl 2016 til 27. júní 2016 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Einnig gerir stefndi kröfu um málskostnað.
I.
Í stefnu málsins segir að hinn 31. október 2008 hafi Sólco ehf. stofnað reikning nr. 6810 við Sparisjóð Norðurlands. Yfirdráttarheimild á reikningnum hafi runnið út án þess að uppsöfnuð skuld hans væri greidd og hafi reikningnum í kjölfarið verið lokað hinn 29. apríl 2016. Uppsöfnuð skuld hafi þá numið 1.180.991 krónu. Með sjálfskuldarábyrgð nr. 0179-63-114212, dags. 15. apríl 2014, hafi stefndi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð gagnvart stefnanda sem sjálfskuldarábyrgðaraðili, fyrir allt að 3.600.000 krónum, auk vaxta og annars kostnaðar við innheimtu skuldarinnar. Sólcó ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 24. júlí 2015. Skiptum hafi lokið 22. mars 2016 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur og sé félaginu því ekki stefnt í málinu. Stefnda hafi verið sent innheimtubréf 27. maí 2016. Krafist sé dráttarvaxta frá lokun reiknings til þess dags þegar mánuður var liðinn frá dagsetningu innheimtubréfs, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál þetta.
Hvað varðar aðild stefnanda þá hafi Fjármálaeftirlitið samþykkt hinn 4. september 2015, með vísan til 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, samruna Sparisjóðs Norðurlands ses. við stefnanda og samruninn tekið gildi á þeim degi, en stefnandi hafi tekið við öllum réttindum og skyldum sjóðsins frá 1. janúar 2015.
Um lagarök vísar stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti úr hendi stefnda.
II.
Stefndi telur málið vanreifað af hálfu stefnanda og því hljóti að koma til skoðunar hvort vísa beri málinu frá dómi ex officio af þeim sökum.
Stefndi kveður að ranglega sé fullyrt í stefnu að yfirlýsing stefnda um sjálfskuldarábyrgð, dags. 15. apríl 2014, útgefin á Þórshöfn, sé númer 0179-63-114212. Eins og skjalið beri með sér sé hið rétta númer 0179-63-006275, en þriðja og síðasta hluta númersins hafi verið breytt með því að strika yfir 006275 og handritað þess í stað 114212. Hafi sú breyting skjalsins, sem stefndi telur fölsun, ekki verið heimiluð af stefnda og verði ekkert um það ráðið af skjalinu hvenær eða hver hafi gert þessa óheimilu breytingu. Sama sé að segja um handritunina 8579-11 neðst á yfirlýsingunni.
Stefndi bendir á að Sóley Indriðadóttir sé einnig sjálfskuldarábyrgðaraðili á yfirlýsingunni, en þess geti stefnandi ekki í málatilbúnaði sínum. Stefndi kveðst kannast við nafnritun sína undir yfirlýsinguna, en tekur fram að hann hafi ekki ritað nafn sitt á þeim stað og með þeirri dagsetningu sem í skjalinu greinir. Hann hafi fyrir löngu verið fluttur frá Þórshöfn.
Þá segir stefndi að hann hafi aldrei fengið sent yfirlit frá sparisjóðnum né heldur stefnanda um þessa sjálfskuldarábyrgð, eins og skylt sé samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Tilkynning sem lögð hafi verið fram í málinu, 8. janúar 2016, hafi ekki borist stefnanda.
Hafi stefnandi ekki lýst kröfu þessari í þrotabúið krefst stefndi lækkunar á henni sem nemi þeirri fjárhæð sem ella hefði fengist úr þrotabúinu, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009.
Stefndi bendir á að samkvæmt kaupsamningi og afsali, sem hann hefur lagt fram í málinu, dags. 4. mars 2015, hafi Sólco ehf. selt Feðginum ehf. rekstur sinn ásamt tækjum og tólum félagsins samkvæmt tækjalista, ásamt lagerbirgðum félagsins, fyrir 7.500.000. Söluverðið skyldi greiðast þannig: Við undirritun samningsins 4.720.000 krónur, með viðskiptakröfum 280.000 krónur og 2.500.000 krónur hinn 1. október 2015. Þá segi í samningnum: „Sem tryggt er með skuldabréfi gefið út af kaupanda og með samþykki Sparisjóðs Þórshafnar.“ Þar sé bersýnilega verið að vísa til greiðslunnar 1. október 2015. Annar vottanna á samningnum sé Ragnar Þorgeirsson, sem þá hafi verið sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Þórshafnar. Hann hafi komið að þessari samningsgerð sem slíkur og unnið í henni með Jóni Stefánssyni, lögregluvarðstjóra á Þórshöfn, sem hafi undirritað samninginn af hálfu Feðgina ehf. Þarna hafi verið um það samið að nefnd greiðsla með skuldabréfi, að upphæð 2.500.000 krónur, gengi til greiðslu skulda Sólco ehf. við sparisjóðinn vegna yfirdráttar á reikningi 0179-63-006275 og skyldi hann (Ragnar/sparisjóðurinn) annast gerð og frágang skuldabréfsins. Af hálfu stefnanda sé engin grein gerð fyrir þessu né heldur umræddri innborgun á skuld Sólco ehf. við sparisjóðinn. Þá sé engin grein gerð fyrir mismun á vanskilafjárhæð, 2.658.897 krónum, og 1.180.991 krónu.
Stefndi telur að sparisjóðurinn eða stefnandi hafi þegar fengið fullnaðargreiðslu á yfirdráttarskuldinni frá Sóleyju Indriðadóttur í byrjun árs 2016 er hún hafi selt fasteign sína að Langholti 8 á Þórshöfn. Þá hafi stefnandi neitað að aflétta veði sínu í þeirri húseign nema hún greiddi yfirdráttarskuldina sem hún hafi verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Af hálfu stefnanda hafi engin grein verið gerð fyrir þessu og hvers vegna Sóleyju hafi ekki einnig verið stefnt í máli þessu.
Stefndi byggir á því að í sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingunni sjálfri sé lýst yfir af hálfu lánveitanda, Sparisjóðs Norðurlands, að greiðslumat fari ávallt fram ef ábyrgð er hærri en 1.000.000 króna. Þá segi í skilmálum á baksíðu skjalsins, 13. tl.: „Að öðru leyti en greinir í skilmálum þessum gildir Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem að standa Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, f.h. aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða, f.h. sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda frá 1. nóvember 2001.“ Samkomulag þetta taki ótvírætt til sjálfskuldarábyrgðar stefnda.
Stefndi heldur því fram að ekki hafi verið farið að reglum um mat á greiðslugetu o.fl. samkvæmt framangreindu samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001.
Sparisjóðnum hafi borið að meta greiðslugetu Sólco ehf., enda hafi ábyrgðin verið langt umfram þá 1.000.000 króna sem slíkt greiðslumat skyldi ávallt fara fram um, en stefndi hafi vanrækt þessa skyldu sína. Ekkert slíkt greiðslumat hafi verið gert og hefði hann gert það hefði niðurstaða matsins óhjákvæmilega bent til þess að Sólco ehf. gæti ekki efnt skuldbindingar sínar. Það hljóti sparisjóðnum sem viðskiptabanka Sólco ehf. að hafa verið ljóst, án þess að gert væri formlegt greiðslumat, og blasað við honum vegna fjárhagserfiðleika félagsins og vangetu til að standa við skuldbindingar sínar, sem þá hafi verið í langvarandi vanskilum, og vegna kröfu sparisjóðsins um umrædda sjálfskuldarábyrgð til tryggingar skuldum félagsins við sparisjóðinn. Það megi einnig leiða af ársreikningi félagsins fyrir árið 2013, og þeirri staðreynd að ársreikningum og skattframtali hafi ekki verið skilað fyrir félagið eftir það, og sparisjóðnum hlaut að vera kunnugt, hefði hann rækt skyldur sínar og upplýsingaöflun til grundvallar mati á greiðslugetu félagsins. Byggir stefndi á því að sparisjóðnum hafi því borið að vara stefnda við að ganga í ábyrgðina. Engar upplýsingar hafi sparisjóðurinn veitt stefnda í samræmi við fyrirmæli 4. gr. samkomulagsins.
Stefndi byggir einnig á því að hafi slíkt greiðslumat verið framkvæmt hafi það ekki verið kynnt honum eins og borið hafi að gera. Lánveitandinn hafi því á þessum tíma vanrækt að gæta að reglum samkomulagsins um mat á greiðslugetu og fleira beint og persónulega gagnvart stefnda. Sjálfskuldarábyrgðina, dags. 15. apríl 2014, beri því að virða að vettugi.
Hafi sparisjóðurinn aftur á móti framkvæmt greiðslumat hafi honum borið að varðveita það og gögn sem lágu því til grundvallar. Hvorki greiðslumat né slík gögn hafi stefnandi lagt fram í málinu og slík gögn hefðu leitt til þeirrar niðurstöðu að Sólco ehf. gæti ekki efnt skuldbindingar sínar. Stefndi telur að félagið hefði ekki staðist greiðslumat hefðu fullnægjandi og réttar upplýsingar legið því til grundvallar. Stefndi byggir á því að stefnandi, sem réttartaki sparisjóðsins, verði að bera hallann af þeirri óvissu sem um þetta sé, svo og því hvort stefndi hefði gengist í ábyrgðina ef réttilega hefði verið staðið að gerð greiðslumats. Sparisjóðurinn hafi ekki heldur tryggt, svo sem honum hafi borið, að stefndi gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats, áður en hann gekkst í hina meintu ábyrgð. Þá hafi sparisjóðurinn og stefnandi algjörlega vanrækt upplýsingagjöf til stefnda eftir að til ábyrgðarinnar var stofnað og fyrirmæli séu um í 5. gr. samkomulagsins og lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009.
Með vísan til framangreinds byggir stefndi á því að sjálfskuldarábyrgð hans sé ógild. Forveri stefnanda hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða og samkvæmt þeim ströngu kröfum sem gerðar séu í þeim efnum til banka og fjármálafyrirtækja um vandaða og faglega framkvæmd og tillitsskyldu gagnvart samningsaðilanum, sem séu einstaklingar, stefndi í þessu tilviki. Því hafi ekki við lánveitinguna og ábyrgðartökuna verið gætt að því meginmarkmiði samkomulagsins að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga gerðu sér eftir atvikum ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem þeir tækjust á herðar með því að gangast í slíka ábyrgð. Sönnunarbyrði um þetta hvíli á stefnanda og þá sönnunarbyrði verði hann að axla. Það sé á áhættu stefnanda að hafa látið hjá líða að meta greiðslugetu Sólco ehf. og eftir atvikum gera stefnda sem ábyrgðarmanni grein fyrir því ef niðurstaða mats benti til að félagið gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum.
Stefndi byggir einnig á því að hann sé ábyrgðarmaður í skilningi 2. og 3. mgr. 2. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og stefnandi og sparisjóðurinn, þ.e. sá sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, lánveitandi í skilningi 1. mgr. 2. gr. þeirra. Þeir hafi ekki tilkynnt stefnda um framsal réttinda sem reist séu á ábyrgðinni eða láni því sem ábyrgðin stóð til tryggingar á, svo sem skylt hafi verið samkvæmt 3. gr. laganna. Stefndi hafi ekki sem ábyrgðarmaður glatað mótbárurétti gagnvart framsalshafa sem stefnandi þessa máls kveður sig vera. Lögin um ábyrgðarmenn hafi tekið gildi 4. apríl 2009 og taki samkvæmt 12. gr. þeirra til þeirrar ábyrgðar sem hér um ræðir. Byggir stefndi á því að umrædd lánveiting sparisjóðsins og ábyrgðartaka sé andstæð markmiðum þeirra laga sem fram koma í 1. gr. þeirra og ábyrgð stefnda einnig ógild af þeirri ástæðu. Til stuðnings sýknukröfu stefnda byggir stefndi einnig á því að sparisjóðurinn hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt fyrirmælum þeirra laga um mat á greiðslugetu skv. 1. mgr. 4. gr. laganna, sbr. reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat nr. 920/2013, og annað framangreint, sbr. 4., 5. og 6. gr. laganna. Stefndi heldur því fram að sparisjóðnum hafi verið óheimilt að veita Sólco ehf. yfirdráttarlánið þar sem mat á lánshæfi eða greiðslumat hefði leitt í ljós að félagið hafði ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið, sbr. 3. mgr. 7. gr. nefndrar reglugerðar.
Stefndi byggir einnig sjálfstætt á því að hann hafi mátt treysta því að sparisjóðurinn sem fjármálafyrirtæki, með sérfræðinga og mikla þekkingu í lánsviðskiptum á sínu sviði, gætti að skyldum sínum um gerð vandaðs og trúverðugs greiðslumats hvað sem liði samkomulaginu og jafnframt að hagsmunir viðskiptavina almennt og lántaka, og þess sem veitti ábyrgð til tryggingar umræddu yfirdráttarláni, þ.e. stefnda í því tilviki sem hér um ræðir, væru þá sérstaklega hafðir að leiðarljósi, sbr. 4. gr. og 6. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og reglur um góða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja og venjur, sbr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þess hafi hér ekki verið gætt af hálfu sparisjóðsins sem fjármálafyrirtækis miðað við þær skyldur sem hafi hvílt á honum sem lánveitanda og samsamaðar verði stefnanda og hann beri ábyrgð á sem réttartaki. Af þeim ástæðum einnig beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Samkvæmt framangreindu og með vísan til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga heldur stefndi því jafnframt fram að það sé óheiðarlegt, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnanda að bera fyrir sig og byggja rétt á fyrrgreindri sjálfskuldarábyrgð stefnda vegna framangreindra atvika. Samningsstaða aðila hafi verið mjög ójöfn við veitingu yfirdráttarlánsins og sjálfskuldarábyrgðartökuna, enda lánveitandinn stórt og sérhæft fjármálafyrirtæki sem hafi starfað á grundvelli opinbers leyfis og að til þess hafi mátt gera ríkar kröfur um sérfræðiþekkingu á sviði lánastarfsemi og vönduð vinnubrögð samkvæmt óskráðum reglum og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. og 6. gr. laga nr. 33/2003. Skyldur sparisjóðsins hafi því verið enn ríkari en ella að misnota ekki aðstöðu sína til þess að ná óeðlilega hagstæðum kjörum fyrir sig gagnvart stefnda. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að gæta að því að ekki væri brotið á rétti stefnda með ólögmætum samningsákvæðum eða samningsskilmálum. Það sé andstætt góðum viðskiptaháttum sparisjóðsins sem lánveitanda og auk þess ósanngjarnt og verulega íþyngjandi fyrir stefnda. Stefndi hafi aftur á móti ekki búið yfir neinni sérstakri menntun eða þekkingu á því sviði sem hér um ræðir. Samningurinn sem um sé deilt í þessu máli hafi verið liður í starfsemi annars aðilans, lánveitandans sem fjármálafyrirtækis, en ekki liður í starfsemi hins aðilans, stefnda í þessu máli, og honum algjörlega óviðkomandi. Þá áréttar stefndi að lánveitandinn hafi ekkert gert til þess að uppfylla skyldur sínar um upplýsingagjöf til stefnda sem ábyrgðarmanns og hafi hann undirritað sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsinguna utan starfsstöðvar hans og án þess að lánveitandinn veitti honum nokkrar upplýsingar sem ábyrgðarmanni, eins og honum hafi verið skylt. Atvik sem síðar komu til, svo sem gjaldþrot Sólco ehf. sem sparisjóðurinn hafi mátt sjá fyrir, geri einnig meinta ábyrgð stefnda meira íþyngjandi en ella. Það sé því einnig bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera ábyrgðina fyrir sig vegna atvika sem síðar hafi komið til og valdið því að verulega halli á stefnda hvað þetta varðar. Samkvæmt öllu framangreindu sé skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 til að ógilda sjálfskuldarábyrgð stefnda fullnægt. Krefst stefndi sýknu á þeim grunni verði ekki á áðurgreindar sýknuástæður fallist.
Sýknukröfu sína byggir stefndi einnig á óskráðum réttarreglum um brostnar forsendur þar sem ljóst sé að fullnægjandi og rétt mat á greiðslugetu skuldara hafi afgerandi og afdráttarlausa þýðingu fyrir upplýsta ákvörðum manns um að gangast í ábyrgð. Slíkt mat hafi ekki verið framkvæmt og stefndi því undirgengist ábyrgðina á röngum forsendum.
Til ýtrasta öryggis mótmælir stefndi réttmæti stefnufjárhæðarinnar sem sé ósönnuð að öllu leyti.
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda í stefnu sem röngum og þýðingarlausum.
Dráttarvaxtakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt sem vanreifaðri og órökstuddri og dráttarvextir, ef til koma, verði ekki dæmdir frá fyrra tímamarki en uppkvaðningu héraðsdóms.
Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. og 2. mgr. 130. gr.
III.
Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 1.180.991 krónu vegna yfirdráttar á viðskiptareikningi Sólco ehf., en stefndi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð með yfirlýsingu 15. apríl 2014 gagnvart Sparisjóði Norðurlands, nú stefnanda, á greiðslu yfirdráttarskuldar Sólco ehf. fyrir allt að 3.600.000 krónum, auk vaxta og annars kostnaðar. Í stefnu málsins kemur skýrt fram hvaða fjárhæðar er krafist og hvernig skuldin er tilkomin og eru engir annmarkar á málinu sem geta varðað frávísun.
Stefndi átti helmingshlut í einkahlutafélaginu Sólco og átti fyrrverandi eiginkona hans, Sóley Indriðadóttir, helminginn á móti honum. Við aðalmeðferð málsins greindi stefndi frá því að hann og Sóley hefðu skilið á árinu 2012 og stefndi flutt suður. Eftir það hefði hann ekki komið að rekstri félagsins. Á árinu 2014 hefði Sóley haft samband við hann og beðið hann um að gangast í sjálfskuldarábyrgð vegna félagsins og hann hefði að lokum látið tilleiðast. Hann hefði fengið skjalið, yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð, sent í pósti frá Sóleyju og hann hefði ritað undir það og sent til baka. Vottar á skjalinu hefðu ekki verið viðstaddir þegar hann ritaði undir það. Þá kvaðst stefndi ekki vita hvernig greiðslumat gengi fyrir sig og hann hefði gert ráð fyrir því að það færi fram í framhaldinu. Í vitnaskýrslu Sóleyjar fyrir dómi kom fram að sparisjóðurinn hefði gert kröfu um að gefið yrði út skuldabréf til að sparisjóðurinn hefði betri tryggingar fyrir skuldum Sólco ehf., en á þessum tíma hafi fjárhagsstaða félagsins ekki verið góð og félagið verið í skuld við sparisjóðinn. Þá greindi vitnið frá því að það hefði séð um rekstur félagsins eftir skilnaðinn á árinu 2012.
Umrædd sjálfskuldarábyrgð sem stefndi tókst á hendur var í þágu atvinnureksturs félags sem stefndi átti helmingshlut í og eiga ákvæði um greiðslumat í lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn því ekki við í máli þessu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Í yfirlýsingunni um sjálfskuldarábyrgðina, sem var á stöðluðu eyðublaði sparisjóðsins, var hins vegar gert ráð fyrir því að greiðslumat færi fram. Í skjalinu eru eftirfarandi reitir: „Greiðslumat: ( ) Ábyrgðarmaður/menn hafa óskað eftir því að greiðslugeta greiðanda verði ekki metin ( ) Ábyrgðarmaður/menn hafa óskað eftir því að greiðslugeta greiðanda verði metin og hafa kynnt sér niðurstöðu greiðslumats.“ Síðan segir í skjalinu: „Greiðslumat fer ávallt fram ef ábyrgð er hærri en kr. 1.000.000.“ Einnig eru á skjalinu eftirfarandi reitir: „Niðurstaða greiðslumats: ( ) Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að greiðandi geti efnt skuldbindingar sínar ( ) Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar.“ Í 13. tl. á bakhlið skjalsins segir svo að að öðru leyti en greinir í skilmálum skjalsins gildi Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, þótt sjálfskuldarábyrgð stefnda hafi tekið til skuldar einkahlutafélags. Samkvæmt téðu samkomulagi ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Fjármálafyrirtæki er þó alltaf skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð nemur meira en 1.000.000 kr.
Í skjalinu sem stefndi undirritaði var hvergi merkt í framangreinda reiti um greiðslumat og er óumdeilt að sparisjóðurinn lét ekki greiðslumeta skuldarann, þrátt fyrir að í skjalinu kæmi skýrt fram að greiðslumat færi ávallt fram ef ábyrgð væri hærri en 1.000.000 kr. ásamt tilvísun til þess að samkomulagið frá 1. nóvember 2001 ætti að gilda um lögskipti aðila. Upplýst hefur verið að Sólco ehf. átti á þessum tíma í fjárhagserfiðleikum en stefnda var ekki kunnugt um það þar sem hann hafði ekki komið að rekstri félagsins frá árinu 2012. Sparisjóðnum sem viðskiptabanka félagsins hlaut hins vegar að vera kunnugt um stöðu félagsins og hefði greiðslumat farið fram og stefnda kynntar niðurstöður þess er óvíst hvort hann hefði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgðina. Í málflutningsræðu lögmanns stefnanda kom fram að það hefði verið „óheppilegt“ hvaða eyðublað var notað. Stefnandi, sem var fjármálafyrirtæki, verður að bera hallann af því að hafa notað umrætt skjal og látið hjá líða að kanna greiðslugetu skuldara og gera stefnda grein fyrir niðurstöðu þeirrar könnunar. Eins og atvikum er háttað verður að telja ósanngjarnt af stefnanda að bera fyrir sig ábyrgðaryfirlýsingu stefnda. Með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, verður umræddri ábyrgðaryfirlýsingu því vikið til hliðar og stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 900.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Örvar Sigþór Guðmundsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Landsbankans hf.
Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.