Hæstiréttur íslands
Mál nr. 25/2014
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 5. júní
2014. |
|
Nr. 25/2014. |
Bakarameistarinn ehf. (Sigurður G.
Guðjónsson hrl.) gegn Hildu ehf. (Friðbjörn
Garðarsson hrl.) |
Lánssamningur. Gengistrygging.
D hf. höfðaði mál gegn B ehf. til innheimtu kröfu
samkvæmt lánssamningi en aðilar deildu um hvort samið hefði verið um lán í
erlendum myntum eða íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Krafa D hf.
var síðan framseld til H ehf. Fyrirsögn samningsins bar með sér að um væri að
ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum og var hún nákvæmlega tilgreind í
þeim, þótt einnig hefði verið vísað til jafnvirðis lánsfjárhæðarinnar í
íslenskum krónum. Var því fallist á fjárkröfu H ehf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús
Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur
hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar
13. janúar 2014. Hann krefst aðallega sýknu
af kröfum stefnda, en til vara að sér verði aðeins gert að greiða stefnda
19.739.222 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu frá 6. október 2010 til 5. desember 2013, að frádreginni greiðslu
síðastgreindan dag að sömu fjárhæð. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar
í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms,
en þó þannig að til frádráttar kröfu sinni komi greiðsla áfrýjanda 5. desember
2013 að fjárhæð 19.739.222 krónur. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir
Hæstarétti.
Eftir áfrýjun héraðsdóms fékk stefndi
framselda kröfuna sem mál þetta varðar frá Dróma hf. sem var stefnandi þess í
héraði.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi
gerði áfrýjandi lánssamning 22. október 2004 við Sparisjóð Reykjavíkur og
nágrennis, sem eftir fyrirsögn samningsins var „í erlendum myntum“. Í honum
lofaði sparisjóðurinn að lána áfrýjanda „jafnvirði ISK 48.000.000 í
eftirfarandi myntum: USD 138.870,- CHF 169.015,- JPY 11.203.000,- EUR
247.450,-“. Skuld þessi, sem átti að endurgreiða á tólf árum, skyldi bera
svonefnda LIBOR vexti af framangreindum gjaldmiðlum með 1,7% álagi. Skilmálum
samningsins var breytt tvívegis, annars vegar 12. apríl 2006 á þann hátt að
skuldin yrði upp frá því í svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum og
hins vegar 11. nóvember 2008 að því er greiðsluskilmála varðar, en í báðum
tilvikum var fjárhæð skuldarinnar tilgreind í erlendu gjaldmiðlunum í skjölum
um skilmálabreytingu. Vanskil munu hafa orðið á greiðslu skuldarinnar frá 8.
nóvember 2010, en áður en til þess kom hafði Drómi hf. fengið kröfuna framselda
26. maí 2009.
Samkvæmt framansögðu bar fyrirsögn lánssamningsins,
sem málið varðar, með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum
og var hún þar nákvæmlega tilgreind í þeim, þótt einnig hafi verið vísað til jafnvirðis
lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum. Í skilmálabreytingum var skuldin einungis
tilgreind í erlendum gjaldmiðlum. Þegar af þessum ástæðum verður fallist á með
héraðsdómi að samningurinn hafi tekið til gildrar skuldbindingar í erlendum
gjaldmiðlum, en niðurstaða hins áfrýjaða dóms um aðrar málsástæður áfrýjanda
verður staðfest með vísan til forsendna hans.
Í héraðsdómsstefnu gerði stefnandi málsins
kröfu um að staðfestur yrði veðréttur fyrir skuld áfrýjanda í tveimur nánar
greindum fasteignum, svo og að viðurkenndur yrði réttur hans til að ,,fá gert
fjárnám í veðinu fyrir skuldinni auk dráttarvaxta og kostnaðar.“ Stefndi féll
frá síðastgreindri kröfu við flutning málsins fyrir Hæstarétti og verður
héraðsdómur því staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir, þar á meðal
ákvæði hans um málskostnað.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða
stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Áfrýjandi,
Bakarameistarinn ehf., greiði stefnda, Hildu ehf., 51.348.819 krónur með
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu frá 8. nóvember 2010 til greiðsludags, allt að frádreginni
innborgun 5. desember 2013 að fjárhæð 19.739.222 krónur.
Ákvæði
hins áfrýjaða dóms um staðfestingu veðréttar og málskostnað skulu vera óröskuð.
Áfrýjandi
greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms
Reykjavíkur 12. nóvember 2013.
Mál
þetta, sem var dómtekið 15. október 2013, að loknum munnlegum málflutningi, er
höfðað af Dróma hf., Lágmúla 6, Reykjavík, með stefnu birtri 14. janúar 2013, á
hendur Bakarameistaranum ehf., Stigahlíð 45-47, Reykjavík.
Endanlegar
dómkröfur stefnanda eru aðallega þær, að hið stefnda félag verði dæmt til að
greiða stefnanda 51.348.819 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr.
laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. nóvember 2010 til greiðsludags.
Stefnandi
krefst þess til vara að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda
49.130.843 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001,
frá 8. nóvember 2010 til greiðsludags.
Stefnandi
krefst þess í öllu falli að hið stefnda félag verði dæmt til að þola
staðfestingu á 1. veðrétti stefnanda í eignarhluta félagsins í fasteign að
Stigahlíð 45-47, Reykjavík, með fastanúmer 224-4006, ásamt öllum rekstrartækjum
sem tilheyra þeim rekstri sem fer fram í eigninni, samkvæmt tryggingarbréfi,
útgefnu 21. ágúst 1998, að fjárhæð 17.000.000 króna, og staðfestingu á 2.
veðrétti stefnanda í sömu fasteign, samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 20.
október 2004, að fjárhæð 33.000.000 króna bundið vísitölu neysluverðs með
grunnvísitölu 235,6 stig, fyrir dæmdri fjárkröfu og að staðfestur verði með
dómi réttur stefnanda til að fá gert fjárnám í veðinu fyrir kröfunni auk
dráttarvaxta og kostnaðar.
Stefnandi
krefst þess jafnframt að hið stefnda félag verði dæmt til að þola staðfestingu
á 1. veðrétti stefnanda í fasteign að Álfheimum 74, Reykjavík, með fastanúmer
226-2366, samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 20. október 2004, að fjárhæð
33.000.000 króna bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 235,6 stig,
fyrir dæmdri fjárkröfu og að staðfestur verði með dómi réttur stefnanda til að
fá gert fjárnám í veðinu fyrir kröfunni auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Þá
krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi hins stefnda félags, að skaðlausu
samkvæmt mati dómsins.
Endanlegar
dómkröfur hins stefnda félags eru þær, að félagið verði sýknað af
fjárkröfum stefnanda gegn greiðslu á
19.739.222 krónum, sem beri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr.
38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010 frá 6. október 2010 til greiðsludags.
Hið
stefnda félag krefst þess einnig að félagið verði sýknað af öllum kröfum um
staðfestingu veðréttinda í fasteignum þess að Stigahlíð 45-47 og Álfheimum 74,
Reykjavík.
Þá
krefst hið stefnda félag málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málsatvik
þessa máls eru að mestu óumdeild. Hið stefnda félag gaf út tryggingarbréf til
Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON hf.) 21. ágúst 1998 til
tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum félagsins við SPRON hf.,
að fjárhæð 17.000.000 króna, tryggt með 4. veðrétti í fasteign hins stefnda félags
að Stigahlíð 45-47, Reykjavík, með fastanúmer 224-4006, ásamt öllum
rekstrartækjum sem tilheyra rekstri þeim sem fram fer í eigninni. Bréfið hvílir núna á 1. veðrétti.
Hinn
20. október 2004 gaf hið stefnda félag út annað tryggingarbréf til SPRON hf.
til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum við SPRON hf., að
fjárhæð 33.000.000 króna bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 235,6
stig, tryggt með 3. veðrétti í fasteign hins stefnda félags að Álfheimum 74,
Reykjavík, með fastanúmer 226-2366, og með 4. veðrétti í framangreindri
fasteign félagsins að Stigahlíð 45-47, Reykjavík, með fastanúmer 224-4006. Bréfið hvílir nú á 2. veðrétti í fasteigninni
að Stigahlíð 45-47 og á 1. veðrétti í fasteigninni að Álfheimum 74.
Hinn
22. október 2004 var skrifað undir lánssamning fyrir hönd SPRON hf. sem
lánveitanda og fyrir hönd hins stefnda félags sem lántaka. Samningurinn, sem virðist vera á stöðluðu
formi frá SPRON hf., ber heitið „Lánssamningur í erlendum myntum“. Í samningnum, grein 2.1, kemur fram að lántaki
lofi að taka að láni og bankinn lofi að lána jafnvirði 48.000.000 íslenskra
króna í eftirfarandi myntum: 138.870 Bandaríkjadali, 169.015 svissneska franka,
11.203.000 japönsk jen og 247.450 evrur. Tvær greinar eru númeraðar 2.2 og í seinni
þeirra er kveðið á um að lántaki lofi að endurgreiða ofangreindar lánsfjárhæðir
þannig að 1/144 (12 ár) af höfuðstól verði greiddur á eins mánaðar fresti og
108/144 í einni greiðslu í lokin. Samningurinn
gildi í þrjú ár en hann megi framlengja þrisvar sinnum til þriggja ára í senn
náist samkomulag um kjör. Samkvæmt grein
2.4 skyldi greiðslustaður lánsins vera hjá bankanum. Lántaki heimilaði bankanum að skuldfæra
reikning sinn nr. 1158-26-000039 fyrir greiðslum afborgunar og vaxta. Skuldfærslan skyldi fara fram án
undangenginnar tilkynningar til lántaka og vera heimil þar til lánið yrði að
fullu greitt. Yrðu vanskil af hálfu
lántaka hefði bankinn heimild til að skuldfæra sama reikning fyrir
gjaldfallinni afborgun lánsins, auk vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar af
láninu. Lántaki skuldbatt sig til að
hafa innistæðu á reikningnum til greiðslu afborgana og vaxta. Í grein 2.6 er kveðið á um að greiði lántaki
afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum, skuli
hann greiða samkvæmt sölugengi bankans. Í
3. kafla samningsins er kveðið á um vexti. Lánið beri breytilega LIBOR-vexti
eins og þeir ákvarðist fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, tveimur virkum
bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 1,7% vaxtaálagi. Vextir reiknist frá 25. október 2004
(útborgunardegi) og greiðist í fyrsta skipti 6. desember 2004 en síðan á mánaðarfresti
allt til lokagjalddaga samningsins. Standi
lántaki ekki skil á greiðslu á gjalddögum beri honum að greiða dráttarvexti af
gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Beri þá að greiða dráttarvexti samkvæmt 1.
mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Bankinn hafi þá um það val hvort krafist verði
dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í
íslenskar krónur. Í 6. kafla samningsins
er fjallað um uppsögn lánssamningsins. Í
grein 6.2 er kveðið á um að verði láninu sagt upp eða falli það í gjalddaga sé
bankanum heimilt að umreikna allt lánið í íslenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi
miðað við skráð sölugengi bankans í þeim myntum sem lánið sé í og krefja
lántaka um greiðslu lánsins í samræmi við ákvæði samningsins.
Samkvæmt
greinargerð hins stefnda félags greiddi SPRON hf. hinu stefnda félagi aldrei
neinar erlendar myntir við útgreiðslu lánsins heldur 48.000.000 íslenskra króna,
að frádregnum lántökugjöldum.
Af hálfu beggja aðila, SPRON hf. og hins
stefnda félags, var undirrituð breyting á greiðsluskilmálum lánssamningsins 12.
apríl 2006. Í skilmálabreytingunni er
vísað til lánssamningsins sem skuldabréfs og greint frá helstu skilmálum hans. Upphafleg fjárhæð lánsins er tilgreind 138.870
Bandaríkjadalir, 169.015 svissneskir frankar, 11.203.000 japönsk jen og 247.450
evrur. Eftirstöðvar lánsins 6. apríl
2006 eru jafnframt tilgreindar 122.475,68 Bandaríkjadalir, 149.061,91
svissneskur franki, 9.880.428 japönsk jen og 218.237,25 evrur. Fram kemur að, að beiðni skuldara, breytist
eftirstöðvar lánsins í eftirfarandi myntir: 306.965,51 svissneskan franka,
9.880.428 japönsk jen og 218.237,25 evrur. Vextir reiknist frá 6. apríl 2006. Greiðslur verði áfram skuldfærðar af reikningi
nr. 1158-26-39 og skuldbindi lántaki sig til að eiga næga innistæðu til
ráðstöfunar greiðslu gjaldfallinnar skuldar. Þá var SPRON hf. veitt heimild til að
skuldfæra skilmálabreytingargjald og myntbreytingargjald af sama reikningi. Aðrir skilmálar lánssamningsins skyldu haldast
óbreyttir.
Af
hálfu beggja aðila, SPRON hf. og hins stefnda félags, var undirritaður viðauki
við lánssamninginn 11. nóvember 2008. Í
viðaukanum kemur fram að lán samkvæmt upphaflegum samningi hafi verið að
jafnvirði 48.000.000 íslenskra króna í eftirtöldum myntum: 138.870
Bandaríkjadalir, 169.015 svissneskir frankar, 11.203.000 japönsk jen og 247.450
evrur. Láninu hafi verið myntbreytt 12.
apríl 2006 með eftirfarandi stöðu mynta: 306.965,51 svissneskur franki,
9.880.428 japönsk jen og 218.237,25 evrur. Eftirstöðvar lánsins 6. nóvember 2008 eru
jafnframt tilgreindar 234.453,97 svissneskir frankar, 166.685,15 evrur og
7.546.468 japönsk jen auk áfallinna vaxta, 918,60 svissneskir frankar, 974,96
evrur og 17.440 japönsk jen. Í
viðaukanum segir að SPRON hf. samþykki, að beiðni skuldara, skilmálabreytingu á
láni samkvæmt lánssamningi og skuli tilgreindir skilmálar gilda um endurgreiðslu
á skuldinni. Greiða skuli 1/96 af
höfuðstól lánsins á mánaðarfresti, í fyrsta sinn 6. maí 2009. Vexti skuli greiða á mánaðarfresti, í fyrsta
sinn 6. nóvember 2008. Lokagjalddagi
lánsins sé 6. nóvember 2010. Lánið megi
framlengja tvisvar sinnum til þriggja ára í senn með sama greiðslufyrirkomulagi
náist samkomulag um kjör þess. Vextir
reiknist frá 6. október 2008 og vaxtaálag á LIBOR-vexti
sé 1,7%. Greiðslur verði áfram
skuldfærðar af reikningi nr. 1158-26-39 á gjalddaga og lántaki skuldbindi sig
til að eiga næga innistæðu til ráðstöfunar greiðslu gjaldfallinnar skuldar. SPRON hf. sé veitt heimild til að skuldfæra
kostnað samkvæmt verðskrá af sama reikningi.
Viðaukinn teljist hluti af fyrri lánssamningi aðila og aðrir skilmálar
þess samnings haldist óbreyttir.
Samkvæmt
ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 var stofnað sérstakt
hlutafélag, Drómi hf., stefnandi málsins, í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og
nágrennis hf., sem tók við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum
tryggingaréttindum, þar með talið öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum
sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON um aðilaskipti að
kröfuréttindum í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Í kjölfarið fór lánssamningur sem mál þetta
varðar í innheimtu hjá Nýja Kaupþingi banka hf. sem svo varð Arion banki hf.
Í
október 2010 leitaði hið stefnda félag eftir því að lánið yrði framlengt í
samræmi við ákvæði greinar 2.2 í lánssamningi aðila en ekki var orðið við
þeirri beiðni. Hið stefnda félag greiddi
síðast af láninu á gjalddaga 6. október 2010. Eftir það hætti Arion
banki hf. innheimtu lánsins. Hið stefnda
félag hafði þá greitt 28.260.778 krónur inn á höfuðstól lánsins og 9.468.312
krónur í vexti.
III
Stefnandi
byggir kröfur sínar á ákvæðum framangreinds lánssamnings milli aðila málsins,
tryggingarbréfum og viðaukum og almennum reglum samninga- og kröfuréttar um
skuldbindingargildi loforða og greiðslu skulda. Hið stefnda félag hafi lofað að greiða
skuldina á gjalddaga og skuldbundið sig til þess að hafa á gjalddaga til
ráðstöfunar á reikningi sínum fjárhæð sem svaraði til uppgreiðslu lánanna, það
er, höfuðstóls og vaxta auk afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá í íslenskum
krónum. Skuld samkvæmt lánssamningi nr.
9473 hafi verið í vanskilum frá 8. nóvember 2010. Innheimtuaðgerðir hafi engan árangur borið og
því sé málshöfðun nauðsynleg.
Krafa
stefnanda sundurliðist þannig:
|
Höfuðstóll í
evrum |
135.431,68 |
|
Samningsvextir
í evrum |
295,16 |
|
Samtals skuld
í evrum |
135.726,84 |
|
Höfuðstóll í
japönskum jenum |
6.131.505 |
|
Samningsvextir
í japönskum jenum |
10.342 |
|
Samtals skuld
í japönskum jenum |
6.141.847 |
|
Höfuðstóll í
svissneskum frönkum (leggur 3) |
92.503,47 |
|
Samningsvextir
í svissneskum frönkum (leggur 3) |
156,45 |
|
Höfuðstóll í
svissneskum frönkum (leggur 6) |
97.990,38 |
|
Samningsvextir
í svissneskum frönkum (leggur 6) |
165,73 |
|
Samtals skuld
í svissneskum frönkum |
190.816,03 |
Tveir
leggir séu fyrir höfuðstól í svissneskum frönkum og helgist það af því að með
skilmálabreytingu lánsins 12. apríl 2006 hafi láninu verið breytt á þann hátt
að eftirstöðvar lánsins í Bandaríkjadölum hafi verið breytt yfir í svissneska
franka.
Næsta
virka bankadag eftir gjalddaga lánsins 8. nóvember 2010 hafi sölugengi evru
verið skráð 157,79, sölugengi japansks jens 1,36885 og sölugengi svissnesks
franka 114,94. Samtals nemi því krafa
stefnanda vegna lánsins 51.348.819 krónum og sé það stefnukrafa málsins. Krafan beri vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga
nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá gjalddaga 8. nóvember 2010 til
greiðsludags.
Stefnanda
beri nauðsyn til að fá veðrétti samkvæmt tryggingarbréfum, dagsettum 21. ágúst
1998 og 20. október 2004, staðfesta með dómi til þess að geta gengið að hinum
veðsettu eignum. Því krefjist stefnandi
þess jafnframt að hið stefnda félag verði dæmt til að þola staðfestingu á
veðrétti og að staðfestur verði með dómi réttur stefnanda til að fá gert
fjárnám í veðunum fyrir skuldinni, auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Stefnandi
byggir kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988
um virðisaukaskatt. Kröfu um
dráttarvexti byggir stefnandi á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu.
Stefnandi
lagði fram bókun í þinghaldi 17. maí 2013.
Í bókuninni kemur fram að í greinargerð stefnda sé skorað á stefnanda að
leggja fram endurreikning skuldarinnar byggðan á lögum nr. 151/2010 um
breytingu á lögum nr. 38/2001. Í tilefni
af þeirri áskorun leggi stefnandi fram endurreikning samhliða bókuninni og
setji jafnframt fram fjárkröfu til vara í málinu um að stefndi verði dæmdur til
að greiða stefnanda 49.130.843 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6.
gr. laga nr. 38/2001, frá 8. nóvember 2010 til greiðsludags. Aðrar kröfur á hendur stefnda séu þær sömu í
varakröfu og í aðalsök, að teknu tilliti til lægri fjárhæðar varakröfu.
IV
Hið
stefnda félag kveðst hafa á gjalddaga lánsins 6. október 2010 greitt alls
28.260.778 krónur inn á höfuðstól lánsins og 9.468.312 krónur í vexti. Heildargreiðsla afborgana og vaxta á þeim degi
hafi því numið 37.767.795 krónum. Hið
stefnda félag byggir á því að lánssamningur aðila hafi falið í sér ólögmæta
verðtryggingu samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu og að félagið hafi því, hinn 8. nóvember 2010, ekki skuldað
51.348.819 krónur, eins og byggt sé á í stefnu, heldur að hámarki 19.793.222 krónur.
Máli
sínu til sönnunar bendir hið stefnda félag á að hefði lánið verið í erlendum
myntum hefði verið tilgangslaust að tilgreina íslenskar krónur eða jafnvirði
þeirra í tilteknum erlendum myntum í samningi aðila. Þá hafi báðir aðilar samningsins efnt
aðalskuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningnum í íslenskum krónum. Lánveitandi hafi greitt lánsfjárhæðina út í
íslenskum krónum en engin beiðni sé til um útgreiðslu í erlendum
gjaldmiðlum. Lánveitandi hafi einnig
skuldfært reikning lántakanda í íslenskum krónum fyrir afborgunum og vöxtum á
gjalddaga lánsins. Engu skipti því fyrir
niðurstöðu þessa máls þótt lánveitandi hafi látið líta svo út á pappírum að
hann hefði lánað í erlendum myntum og að lánið væri tryggt með veði í
fasteignum lántakanda að Álfheimum 74 og Stigahlíð 45-47, samtals að
höfuðstólsfjárhæð 50.000.000 króna. Höfuðstólsfjárhæðir
samkvæmt tryggingarbréfunum hafi verið verðtryggðar miðað við vísitölu
neysluverð sem sé heimil verðtrygging að íslenskum rétti. Með skáldsögunni um lánssamning í erlendri
mynt, tryggðan með veði í fasteign hafi lánveitandi getað þanið út
efnahagsreikning sinn þar sem hin meintu fasteignalán í erlendum myntum hafi
haft mun minni áhrif á eiginfjárgrunn lánveitandans í skilningi ákvæða 84. og
85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Lánveitandinn hafi svo getað notað sama
gjaldeyri og hann hafi talið stjórnvöldum trú um að væri bundinn í áhættulitlum
fasteignalánum í aðrar og áhættumeiri lánveitingar með vinveittum lántökum gegn
lakari tryggingum. Þær kunni nú að vera
að einhverju leyti glataðar og því hangi stefnandi eins og hundur á roði á
lánssamningum tryggðum beint eða óbeint með veði í fasteignum og reyni að þvinga
sem mest út úr þeim, líkt og gert sé í máli þessu.
Stefnandi
eigi að fá það fé til baka sem hann hafi lánað en ekki meir. Stefnandi eigi að fá sanngjarna og eðlilega
leigu fyrir það fé sem hann hafi lánað en ekki meir. Stefnandi, sem hafi verið sérfræðingur í
samningssambandi aðila, verði að bera allan halla af óskýrleika samninga sinna.
Hann verði líka að þola það að þegar
atvik breytist eftir samningsgerð kunni að vera nauðsynlegt að víkja
ósanngjörnum samningum til hliðar, í heild sinni eða að hluta. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að
samningur hins stefnda félags og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., sem
gerður hafi verið 20. október 2004, feli í sér lögmæta gengistryggingu, beri
dóminum að víkja samningnum til hliðar, lækka höfuðstól skuldarinnar í
19.739.222 krónur og dæma á hana vexti samkvæmt lögum nr. 151/2010 frá og með
gildistökudegi þeirra laga til greiðsludags. Með því sé gætt fyllstu sanngirni í uppgjöri
þessarar skuldar. Um lagarök fyrir
þessari niðurstöðu megi bæði vísa til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð,
umboð og ógilda löggerninga og til óskráðra reglna kröfuréttar um brostnar
forsendur. Hér á landi hafi orðið
bankahrun með tilheyrandi óðaverðbólgu og gengisfalli krónunnar. Skuldir fyrirtækja og einstaklinga hafi
margfaldast. Hrunið verði ekki lagt á
herðar skuldara einna heldur verði að leggja það einnig að nokkru á kröfuhafa,
eins og stefnanda þessa máls. Engin vá
sé fyrir dyrum þótt stefnandi fái minna fé til að spila úr en stjórnendur
búsins hafi gert sér vonir um. Vá sé
hins vegar fyrir dyrum verði þrotabúum fallinna fjármálafyrirtækja gert
mögulegt að innheimta uppblásnar kröfur sínar að fullu hjá einstaklingum og
fyrirtækjum.
Hið
stefnda félag mótmæli málatilbúnaði stefnanda að öðru leyti. Kröfu um dráttarvexti sé sérstaklega mótmælt
þar sem ekki hafi staðið á hinu stefnda félagi að efna lögmætar skuldbindingar
sínar gagnvart stefnanda. Stefnandi hafi
auk þess verið skuldbundinn til að framlengja lánið í þrjú ár frá og með
gjalddaga 6. október 2010. Stefnandi
hafi komið sér undan því en áður hefði það gengið snurðulaust fyrir sig í
samskiptum lánveitanda og hins stefnda félags. Stefnandi eigi ekki að hagnast á því að beita
bolabrögðum í viðskiptum eins og hann hafi reynt allt frá haustdögum 2010.
Hinn
17. janúar 2013, þremur dögum eftir að stefna hafi verið gefin út í þessu máli,
hafi gengið dómur í Hæstarétti Íslands, í máli nr. 386/2012, sem hafi
fordæmisgildi í þessu máli.
Kröfu
um málskostnað byggir hið stefnda félag á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála.
V
Í
máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu eftirstöðvar skuldar á
grundvelli lánssamnings aðila. Lýtur
ágreiningur aðila aðallega að því hvort skilmálar samningsins feli í sér að
lánið sé í erlendri mynt eða í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra
gjaldmiðla með ólögmætum hætti, samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001
um vexti og verðtryggingu.
Samkvæmt
dómum Hæstaréttar Íslands verður við úrlausn framangreinds ágreiningsefnis
fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til
grundvallar skuldbindingum. Í því
sambandi skiptir einkum máli hvernig skuldbindingin sjálf er tilgreind í þeim
gerningum og skal þá litið til heitis samnings eða skuldabréfs, tilgreiningar
lánsfjárhæðar og hvort vaxtakjör séu í samræmi við það að lán sé í erlendri
mynt.
Í
málinu eru lögð fram þrjú skjöl sem mynda lánssamning aðila, upphaflegur
lánssamningur milli SPRON hf. og hins stefnda félags, dagsettur 22. október
2004, breyting á greiðsluskilmálum þess samnings, undirrituð 12. apríl 2006, og
viðauki við samninginn, undirritaður 11. nóvember 2008.
Á
forsíðu upphaflega samningsins, sem er dagsettur 22. október 2004, stendur
„Lánssamningur í erlendum myntum“. Í
samningnum kemur fram að lántaki lofi að taka að láni og bankinn lofi að lána
jafnvirði 48.000.000 íslenskra króna í eftirfarandi myntum: 138.870
Bandaríkjadali, 169.015 svissneska franka, 11.203.000 japönsk jen og 247.450
evrur. Lánið skyldi bera LIBOR-vexti með 1,7% álagi. Þá skyldi tékkareikningur hins stefnda félags
í íslenskum krónum skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu.
Í
skilmálabreytingu lánsins, undirritaðri 12. apríl 2006, kemur viðmiðunarfjárhæð
lánsins í íslenskum krónum ekki fyrir. Upphaflegur
höfuðstóll lánsins er tilgreindur erlendum gjaldmiðlum í samræmi við ákvæði
upphaflegs lánssamnings. Eftirstöðvar
lánsins 6. apríl 2006 eru tilgreindar í sömu gjaldmiðlum, 122.475,68 Bandaríkjadalir,
149.061,91 svissneskur franki, 9.880.428 japönsk jen og 218.237,25 evrur. Fram kemur að eftirstöðvar breytist, að beiðni
skuldara, í eftirfarandi myntir: 306.965,51 svissneskan franka, 9.880.428
japönsk jen og 218.237,25 evrur. Sami
reikningur hins stefnda félags skyldi áfram skuldfærður.
Í
viðauka við lánssamninginn, sem var undirritaður 11. nóvember 2008, kemur fram
að upphaflega hafi lán samkvæmt samningi SPRON hf. og hins stefnda félags verið
að jafnvirði 48.000.000 íslenskra króna í eftirtöldum myntum: 138.870
Bandaríkjadalir, 169.015 svissneskir frankar, 11.203.000 japönsk jen og 247.450
evrur. Láninu hafi verið myntbreytt 12.
apríl 2006 með eftirfarandi stöðu mynta: 306.965,51 svissneskur franki,
9.880.428 japönsk jen og 218.237,25 evrur.
Eftirstöðvar lánsins 6. nóvember 2008 eru jafnframt tilgreindar
234.453,97 svissneskir frankar, 166.685,15 evrur og 7.546.468 japönsk jen auk
áfallinna vaxta, 918,60 svissneskir frankar, 974,96 evrur og 17.440 japönsk
jen. Samkvæmt viðaukanum skyldi
vaxtaálag á LIBOR-vexti vera 1,7%. Greiðslur skyldu áfram skuldfærðar af sama
reikningi hins stefnda félags og áður.
Sé
litið til framangreindra ákvæða upphaflegs lánssamnings, skilmálabreytingar og
viðauka við hann, í heild sinni, verður séð að fjárhæð skuldbindingar hins
stefnda félags er skýrt tilgreind í hinum erlendu myntum og er án tilvísunar
til íslenskrar krónu eða jafnvirðisviðmiðunar við hana eftir
skilmálabreytinguna 12. apríl 2006. Lánið
bar frá upphafi og eftir skilmálabreytingu og viðauka LIBOR-vexti
með tilgreindu álagi og þykir það renna frekari stoðum undir það að lánið hafi
verið í hinum tilgreindu erlendum gjaldmiðlum en ekki í íslenskum krónum. Í upphaflegum lánssamningi er hvergi kveðið á
um að við útborgun lánsins skuli miðað við gengi á einhverjum tilteknum degi en
tekið fram að greiði lántaki afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar
greiðslur í íslenskum krónum, skuli hann greiða samkvæmt sölugengi bankans. Enn fremur sést af viðauka lánsins 11.
nóvember 2008 að vextir eru reiknaðir af höfuðstól lánsins í svissneskum
frönkum evrum og japönskum jenum.
Þegar
samningur aðila, ásamt skilmálabreytingu og viðauka, er virtur í heild sinni,
verður að líta svo á að hann kveði ótvírætt á um gilda skuldbindingu í erlendum
gjaldmiðlum.
Af
hálfu hins stefnda félags er meðal annars byggt á því að félagið hafi aldrei
fengið neinar erlendar myntir þegar komið hafi að útgreiðslu lánsins og
jafnframt að tékkareikningur félagsins í íslenskum krónum hafi verið
skuldfærður fyrir greiðslum afborgana og vaxta af láninu. Báðir aðilar hafi því í raun efnt skyldur
sínar samkvæmt samningi þeirra í íslenskum krónum. Af dómum Hæstaréttar Íslands, meðal annars frá
2. maí 2013 í máli nr. 715/2012, verður hins vegar ályktað að ekki skipti máli
þótt greiðslur fari fram í íslenskum krónum þegar skýrt komi fram í
lánssamningi að skuldin sé í erlendri mynt og haggar sú greiðslutilhögun því
ekki fyrrgreindri niðurstöðu.
Einnig
er, af hálfu hins stefnda félags, vísað í dóm Hæstaréttar Íslands, í máli nr.
386/2012. Í dóminum er komist að þeirri
niðurstöðu að lán hafi verið í íslenskum krónum gengistryggt með ólögmætum
hætti þar sem lánsupphæðin hafi aðeins verið tilgreind með viðmiðunarfjárhæð í
íslenskum krónum en hvergi tilgreint í hvaða erlendu gjaldmiðlum lánið gæti
verið, upphæð þeirra gjaldmiðla eða hlutföll. Atvik í því máli svara þar af leiðandi ekki til
atvika í þessu máli. Af hálfu hins
stefnda félags er jafnframt vísað til dóms Hæstaréttar Íslands, í máli nr. 155/2011.
Atvik þess máls voru með þeim hætti að á
forsíðu lánssamnings var tilgreint að hann væri um lán að fjárhæð „ISK
150.000.000.-“. Í samningnum var kveðið
á um að samið væri um fjölmyntalán til fimm ára að jafnvirði 150.000.000 króna.
Hvergi var í þeim samningi getið um
fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendum gjaldmiðlum heldur aðeins hlutföll þeirra
og viðmiðun að virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun
lánsins. Atvik þess máls voru því ekki sambærileg
atvikum í þessu máli og breytir niðurstaða Hæstaréttar Íslands í máli nr.
386/2012 þar af leiðandi ekki fyrrgreindri niðurstöðu um að lán samkvæmt samningi
aðila teljist kveða á um gilda skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum.
Skilja má málatilbúnað hins stefnda félags á þann
veg að komist dómurinn að framangreindri niðurstöðu, um að lán samkvæmt
samningi aðila sé gild skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum, þá sé ósanngjarnt af
hálfu stefnanda að bera samninginn fyrir sig.
Byggt er á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda
löggerninga og meginreglu kröfuréttar um brostnar forsendur með vísan til þess
að hér hafi orðið hrun með tilheyrandi óðaverðbólgu og gengisfalli krónunnar
sem hafi leitt til þess að skuldir hafi margfaldast. Stefnandi verði að þola það að atvik eftir
samningsgerð geti orðið til þess að nauðsynlegt kunni að vera að víkja
ósanngjörnum samningum til hliðar, í heild sinni eða að hluta. Ekki verður fallist á það með hinu stefnda
félagi að þróun efnahagsmála á Íslandi verði virt sem brostin forsenda sem geti
haft áhrif á greiðsluskyldu félagsins eða að víkja beri samningnum til hliðar samkvæmt
36. gr. laga nr. 7/1936 eða meginreglu kröfuréttar um brostnar forsendur.
Varðandi mótmæli hins stefnda félags við
dráttarvaxtarkröfu stefnanda er til þess að líta að samkvæmt orðalagi
samningsins var aðeins um að ræða heimild fyrir aðila til framlengingar á
lánstíma, næðist samkomulag um kjör. Stefnandi
var því ekki skuldbundinn til þess að framlengja lánið í þrjú ár frá og með
gjalddaga 6. október 2010. Stefnanda var
þar af leiðandi heimilt að hafna beiðni hins stefnda félags um framlengingu
lánsins. Þá var síðast greitt af láninu
á gjalddaga 6. október 2010 og er því réttmæt sú krafa að dráttarvextir
reiknist frá og með fyrsta ógreidda gjalddaga, 8. nóvember 2010, fram að
greiðsludegi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Eins
og að framan greinir hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að samningur aðila
hafi verið um gilda skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum. Að því gefnu verður ekki séð að útreikningi að
baki aðalkröfu stefnanda sé mótmælt af hálfu stefnda og verður því á hana
fallist.
Með
vísan til framangreindrar niðurstöðu verður staðfestur veðréttur stefnanda í
fasteigninni að Stigahlíð 45-47, Reykjavík, með fastanúmer 224-4006, ásamt
öllum rekstrartækjum sem tilheyra þeim rekstri sem fram fer í eigninni,
samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 21. ágúst 1998, í samræmi við kröfu stefnanda
þar um. Þá verður staðfestur réttur hans
til að fá gert fjárnám í veðinu. Einnig
verður staðfestur veðréttur stefnanda í sömu fasteign samkvæmt tryggingarbréfi
útgefnu 20. október 2004, í samræmi við kröfu stefnanda þar um, og réttur hans
til að fá gert fjárnám í veðinu. Jafnframt
verður staðfestur veðréttur stefnanda í fasteigninni að Álfheimum 74,
Reykjavík, með fastanúmer 226-2366, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 20.
október 2004, í samræmi við dómkröfur málsins, og réttur hans til að fá gert
fjárnám í veðinu.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til þess að greiða
stefnanda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 500.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar var tekið tillit
til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Dóminn kveður upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Bakarameistarinn ehf., greiði stefnanda, Dróma hf., 51.348.819 krónur
ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu,
frá 8. nóvember 2010 til greiðsludags.
Staðfestur
er 1. veðréttur stefnanda í fasteigninni að Stigahlíð 45-47, Reykjavík, með
fastanúmer 224-4006, ásamt öllum rekstrartækjum sem tilheyra þeim rekstri sem
fer fram í eigninni, samkvæmt tryggingarbréfi, með þinglýsingarnúmer E-000555/1998,
útgefnu 21. ágúst 1998, að fjárhæð 17.000.000 króna, og 2. veðréttur stefnanda
í sömu fasteign samkvæmt tryggingarbréfi, með þinglýsingarnúmer T-009998/2004,
útgefnu 20. október 2004, að fjárhæð 33.000.000 króna, fyrir tildæmdri fjárhæð.
Staðfestur er réttur stefnanda til að fá gert fjárnám í veðinu fyrir tildæmdri
fjárhæð, dráttarvöxtum og kostnaði.
Staðfestur
er 1. veðréttur stefnanda í fasteigninni að Álfheimum 74, Reykjavík, með
fastanúmer 226-2366, samkvæmt tryggingarbréfi, með þinglýsingarnúmer
T-009998/2004, útgefnu 20. október 2004, að fjárhæð 33.000.000 króna, fyrir tildæmdri
fjárhæð. Staðfestur er réttur stefnanda til að fá gert fjárnám í veðinu fyrir
tildæmdri fjárhæð, dráttarvöxtum og kostnaði.
Stefndi
greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.