Hæstiréttur íslands

Mál nr. 300/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Aðalmeðferð


Mánudaginn 2

 

Mánudaginn 2. september 2002.

Nr. 300/2002.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(Berglind Svavarsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Vitni. Aðalmeðferð.

Hæstiréttur staðfesti ákvörðun héraðsdómara um að heimila ákæruvaldinu að leiða fimm nánar tilgreind vitni, sem lögregla hafði ekki tekið skýrslur af á fyrri stigum, í máli þess á hendur X. Í dómi Hæstaréttar segir að í ákvæðum laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu engar skorður settar við því að af hálfu ákæruvalds séu leidd fyrir dóm vitni, sem lögregla hafi ekki tekið skýrslur af á fyrri stigum. Þótt rekstur málsins fyrir dómi hafi af hendi ákæruvalds að nokkru reynst ómarkviss og tafir orðið á því af þeim sökum, hafi því ekki verið hnekkt að skýrslur nýrra vitna gætu stuðlað að því að atvik verði leidd réttilega í ljós, hvort heldur til hagsbóta fyrir X eða honum í óhag.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. júní 2002 um að heimila ákæruvaldinu að leiða fimm nánar tilgreind vitni í máli þess á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdómara verði felld úr gildi.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var lögreglunni tilkynnt aðfaranótt 12. desember 2001 að bifreiðinni [...] hafi verið stolið af bílastæði við loðnubræðslu Hraðfrystistöðvar Þórshafnar. Starfsmaður loðnubræðslunnar greindi lögreglunni frá því að skipverji á tilteknu fiskiskipi, sem var við bryggju á Þórhöfn, hafi fyrr um nóttina komið inn í loðnubræðsluna og verið ofurölvi. Lýsti starfsmaðurinn útliti þessa skipverja. Skömmu síðar fann lögreglan bifreiðina utan vega. Var hún þá í gangi og kveikt á ljósum hennar, en talsverðar skemmdir höfðu orðið á henni vegna ákeyrslu á aðra bifreið. Ekki sást til neins í námunda við bifreiðina, en stuttu síðar hafði lögreglan spurnir af ferðum manns, sem lýsing á fyrrnefndum skipverja kom heim og saman við. Kom lögreglan að þessum manni, þar sem hann var staddur inni í stigagangi í íbúðarhúsi. Reyndist það vera varnaraðili, sem samkvæmt lögregluskýrslu var mjög ölvaður og ekki viðræðuhæfur, og var hann vistaður í fangageymslu. Blóðsýni var tekið úr varnaraðila þá um nóttina og mældist áfengi í því 2,85o/oo. Skýrsla var tekin af honum um hádegisbil 12. desember 2001. Hann kvaðst hafa verið við drykkju með nafngreindum skipsfélaga sínum á veitingahúsi á Þórshöfn kvöldið áður og fram á nótt. Sagðist hann ekki minnast atburða næturinnar eftir að hann yfirgaf veitingahúsið og gat því ekki svarað ákveðið hvort hann hafi ekið áðurgreindri bifreið. Í framhaldi af þessu tók lögreglan skýrslu af fyrrnefndum starfsmanni loðnubræðslunnar, svo og eiganda bifreiðarinnar [...]. Á grundvelli þessarar lögreglurannsóknar gaf sýslumaðurinn á Húsavík út ákæru á hendur varnaraðila 22. mars 2002, þar sem honum var gefinn að sök nytjastuldur, ölvunarakstur og eignaspjöll með því að hafa „stolið“ umræddri bifreið 12. desember 2001, ekið henni ölvaður á kyrrstæða bifreið þannig að miklar skemmdir hafi orðið á báðum bifreiðunum og horfið síðan af slysstað án þess að tilkynna lögreglunni um atvikið.

Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 7. maí 2002 og sótti varnaraðili þing. Hann kvaðst ekki getað játað sakargiftir með vísan til þess að hann hafi verið ofurölvi umrædda nótt og myndi því ekki eftir að hafa brotið af sér eins og í ákæru greindi. Í þinghaldi 4. júní 2002 lagði ákærandi fram lista yfir fjögur vitni, sem óskað var eftir að skýrslur yrðu teknar af við aðalmeðferð málsins. Málið var þessu næst tekið fyrir 14. sama mánaðar þegar tekin var skýrsla af einu vitni, sem varnaraðili óskaði eftir að leiða fyrir dóm, en komið hafði fram að það yrði fjarverandi við fyrirhugaða aðalmeðferð. Málið kom síðan til aðalmeðferðar 20. júní 2002 og voru þá teknar skýrslur af þeim fjórum vitnum, sem ákærandi hafði óskað eftir að leiða fyrir dóm, auk eins annars vitnis. Að því loknu kom fram af hálfu ákæruvalds að tilefni væri til að taka skýrslur fyrir dómi af fimm mönnum til viðbótar, sem nefndir hefðu verið til sögunnar í framburði vitna. Þessu var mótmælt af hálfu varnaraðila. Héraðsdómari tók afstöðu til þessa ágreinings aðilanna með hinni kærðu ákvörðun, en samkvæmt henni var aðalmeðferð málsins frestað til þess að ákæranda gæfist kostur á að fá skýrslur teknar af umræddum mönnum fyrir dómi.

II.

Eins og málið liggur nú fyrir er ljóst að lögreglan rannsakaði það ekki sem skyldi áður en ákæra var gefin út á hendur varnaraðila. Verður að ætla að þessu verði öðru fremur kennt um að ákæranda var ekki ljóst fyrr en undir aðalmeðferð málsins að þörf gæti verið á að afla framburðar fleiri vitna en áður var ráðgert. Til þess verður á hinn bóginn að líta að í ákvæðum laga nr. 19/1991 eru engar skorður settar við því að af hálfu ákæruvalds séu leidd fyrir dóm vitni, sem lögreglan hefur ekki tekið skýrslur af á fyrri stigum. Þótt rekstur málsins fyrir dómi hafi af hendi ákæruvalds að nokkru reynst ómarkviss og tafir orðið á því af þeim sökum, sem hér um ræðir, hefur því ekki verið hnekkt að skýrslur nýrra vitna gætu stuðlað að því að atvik verði leidd réttilega í ljós, hvort heldur til hagsbóta fyrir varnaraðila eða honum í óhag. Eru því ekki efni til annars en að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Dómsorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.