Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
  • Farbann


Fimmtudaginn 8

Fimmtudaginn 8. apríl 1999.

Nr. 146/1999.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi)

gegn

Osaito Phamzet Iyorah

(Halldór Jónsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. Farbann.

O, erlendur ríkisborgari búsettur á Íslandi, hafði verið ákærður fyrir skjalafals og fjársvik. Ekki þótti nægilega hafa verið sýnt fram á að þörf væri frekara gæsluvarðhalds O til þess eins að tryggja návist hans í þágu meðferðar málsins, en krafa um framlengingu gæsluvarðhalds var eingöngu studd við b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Var úrskurður héraðsdóms um að O sætti gæsluvarðhaldi því felldur úr gildi, en hann þess í stað látinn sæta farbanni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hjörtur Torfason.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. apríl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 21. apríl nk. kl. 16:00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að í stað gæsluvarðhalds verði honum meinuð brottför af landinu eða lagt fyrir hann að halda sig á ákveðnu svæði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Varnaraðili er erlendur ríkisborgari, en hefur verið búsettur hér á landi um nokkurt skeið. Hinn 30. mars sl. var gefin út á hendur honum og Sixtusi Mbah Nto ákæra fyrir skjalafals og fjársvik. Hann var fyrst látinn sæta gæsluvarðhaldi með dómi Hæstaréttar 3. mars sl. Vegabréf varnaraðila er nú í vörslum lögreglu.

Af hálfu sóknaraðila er krafa um gæsluvarðhald nú eingöngu studd við b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Hefur ekki nægilega verið sýnt fram á að þörf sé gæsluvarðhalds varnaraðila til þess eins að tryggja návist hans í þágu meðferðar málsins. Verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi, en varnaraðila bönnuð brottför af landinu samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991, eins og greinir í dómsorði.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðila, Osaito Phamzet Iyorah, er bönnuð brottför frá Íslandi allt til miðvikudagsins 21. apríl 1999 kl. 16:00.