Hæstiréttur íslands

Mál nr. 213/2017

A (Elva Ósk S. Wiium hdl.)
gegn
B (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
  • Lögskilnaður
  • Opinber skipti

Reifun

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hennar, þar sem hún krafðist lögskilnaðar frá B, var vísað frá dómi á þeim grundvelli að hvorki lægi fyrir samkomulag aðila um fjárskipti né væru opinber skipti hafin vegna fjárslita þeirra, sbr. 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þar sem úr fyrrgreindum annmarka var bætt undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 12. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2017 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi án kröfu. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Mál þetta höfðaði sóknaraðili í því skyni að henni yrði veittur lögskilnaður frá varnaraðila. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá dómi af þeirri ástæðu að hvorki lægi fyrir samkomulag aðila um fjárskipti né væru opinber skipti hafin vegna fjárslita þeirra, sbr. 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2017 þar sem bú aðila var tekið til opinberra skipta. Fyrrgreint ákvæði hjúskaparlaga felur ekki í sér skilyrði fyrir málshöfðun heldur að skilnaður verði veittur. Þar sem úr þessu hefur verið bætt verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

               

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2017.

I.

         Mál þetta er þingfest 12. janúar 2017 og tekið til úrskurðar 20. mars 2016. Stefnandi er A, til heimilis að [...], en stefndi er B, sem er með óþekkt heimilisfang.

         Stefnandi krefst þess aðallega að henni verði með dómi veittur lögskilnaður frá eiginmanni sínum, stefnda B. Þá krefst hún málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

         Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 20. maí 2016.

         Í þinghaldi 5. september sl. var Þyrí Halla Steingrímsdóttir hrl. skipuð málsvari stefnda sbr. 2. mgr. 117. gr. laga nr. 31/1993 og óskaði hún eftir fresti til þess að reyna til þrautar að ná sambandi við stefnda. Þá lagði lögmaður stefnanda fram gögn um tölvupóstsamskipti lögmannsins við [...] sendiráðið þar sem fram kemur að sendiráðinu hafi ekki borist neinar upplýsingar frá  [...]  yfirvöldum varðandi stefnda. Við fyrirtöku málsins, 28. febrúar sl. óskaði málsvari stefnda eftir lengri fresti til þess að ná sambandi við stefnda. Loks lýsti málsvari stefnda því yfir í þinghaldi, 10. mars sl. að reynt hefði verið að hringja í símanúmer vinar stefnda í [...] og að sendur hefði verið tölvupóstur til sama aðila, án árangurs. Aðstoðarmaður dómara bókaði að hún teldi tilefni til að skoða hvort málinu yrði vísað frá dóminum án kröfu. Málið var því næst tekið fyrir 20. mars 2017 og var það þá tekið til úrskurðar um frávísun.

II.

         Stefnandi kveður báða aðila hafa  [...]  ríkisfang en hún sé jafnframt með íslenskt ríkisfang. Þau hafi kynnst í [...] árið 1990 og gengið í hjúskap, 22. júní 1992. Þau eigi ekki börn saman. Stefnandi hafi flust til Íslands árið 1999 og stefndi hafi komið hingað til lands ári síðar. Í byrjun árs 2008 flutti stefnandi til [...] en stefndi hafi flutt til hennar nokkrum mánuðum síðar. Þau hafi slitið samvistum í desember 2012 en þá hafi stefnandi snúið aftur til Íslands og hafi hún búið hér á landi til dagsins í dag. Stefnandi kveðst hafa reynt að ná sambandi við stefnda til þess að ganga frá skilnaði. Hún hafi fengið hjálp til þess frá [...] en þrátt fyrir það hafi ekki gengið að hafa uppi á stefnda. Stefnandi taldi stefnda búsettan í [...] og leitaði bæði til norska sendiráðsins á Íslandi og til [...] sendiráðsins í [...] til að afla upplýsinga um stefnda. [...] sendiráðið á Íslandi hafi staðfest að stefndi væri skráður úr landi í [...] með óþekkt heimilisfang. [...] sendiráðið á Íslandi hafi reynt að afla upplýsinga um dvalarstað stefnda en það hafi ekki tekist. Engin vitneskja sé um hvar stefndi sé staddur eða eigi heimili. Stefnanda sé því nauðugur sá einn kostur að höfða þetta mál til þess að fá lögskilnað frá stefnda.

         Stefnandi vísar til 37. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 kröfu sinni til stuðnings og bendir á að hún og stefndi hafi ekki verið í samskiptum síðan í desember 2012. Stefnandi hafi ekki náð á stefnda og sé ókunnugt um dvalarstað hans, henni sé því nauðsynlegt að dómstólar fjalli um kröfu hennar, sbr. 2. mgr. 41. gr. hjúskaparlaga.

         Um lögsögu vísast til 114. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og um varnarþing sé vísað til 115. gr. sömu laga, sbr. 43. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um málskostnað vísast til 130. gr. laga um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé vísað til laga nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.

         Um stefnubirtingu og stefnufrest vísast til a-liðar 89. gr. og 3. mgr. 91. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi sé með óþekkt heimilisfang og sé engin vitneskja um hvar hann megi finna. Stefna málsins hafi því verið birt í Lögbirtingablaði samkvæmt a-lið 89. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

         Stefnandi vísar til þess að hún og stefndi eigi engar sameiginlegar eignir. Stefnandi geri engar fjárkröfur á hendur stefnda og stefndi hafi ekki gert fjárkröfur á hendur stefnanda. Stefnandi telur því að líta beri svo á að samkomulag liggi fyrir milli aðila, sbr. 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

III.

         Samkvæmt 37. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 getur hvort hjóna krafist lögskilnaðar þegar samvistarslit hafa staðið í tvö ár hið skemmsta. Þykir með fullnægjandi hætti sýnt fram á að samvistarslit aðila hafi staðið í tvö ár.

         Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 31/1993 skal annað tveggja vera, samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti hafin vegna fjárslita, áður en skilnaður er veittur. Þó geta hjón lýst yfir eignaleysi fyrir dómara í skilnaðarmáli í samræmi við 1. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993. Í þinghaldi 10. mars 2017 lagði lögmaður stefnanda fram yfirlýsingu um eignaleysi þar sem stefnandi lýsir því yfir að hún hafi verið eignalaus í desember 2012 þegar hún sleit samvistum við stefnda. Þá liggja meðal málsgagna fyrir afrit af skattframtölum stefnanda, árin 2012 og 2014. Í málinu liggur hins vegar ekkert fyrir um eignaleysi stefnda, eins og áskilið er samkvæmt fyrrgreindri 1. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993. Eignaleysisyfirlýsing annars hjóna nægir ekki til að veita þeim skilnað á grundvelli hjúskaparlaga nr. 31/1993. Verður því ekki talið að fullnægt sé skilyrðum laganna til að lögskilnaður verði veittur svo sem stefnandi krefst.

         Að því athuguðu sem rakið er að framan verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi án kröfu.

         Eins og að framan greinir nýtur stefnandi gjafsóknar við rekstur málsins fyrir héraðsdómi.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Elvu Óskar Wiium hdl., 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

         Þóknun skipaðs málsvara stefnda, Þyríar Höllu Steingrímsdóttur hrl., þykir hæfilega ákveðin 180.000 krónur og greiðist hún úr ríkissjóði.

         Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.

         Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Elvu Óskar Wiium hdl., 500.000 krónur.

         Þóknun skipaðs málsvara stefnda, Þyríar Höllu Steingrímsdóttur hdl., 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.