Hæstiréttur íslands
Mál nr. 78/2009
Lykilorð
- Líkamsárás
- Hættubrot
- Skilorð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2009. |
|
Nr. 78/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) (Árni Pálsson hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsmeiðing. Hættubrot. Skilorð. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir hættubrot með því að hafa á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi eða heilsu A í augljósan háska er hann í kynmökum við A setti gúmmíbolta, sem hún taldi vera kynlífsleikfang upp í leggöng hennar og skildi þar eftir án vitneskju hennar. Afleiðingar háttseminnar urðu þær að þremur vikum síðar þegar í ljós kom að boltinn var enn í leggöngum A var hún komin með bólgur og alvarlega sýkingu í leggöng og þurfti að fjarlægja boltann með aðgerð. Var talið að X hefði ekki átt að geta dulist að stúlkan væri í augljósum háska ef hann skildi boltann eftir í leggöngum hennar án þess að hún vissi að hann hefði gert svo. Var háttsemi hans talin varða við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kröfu X um ómerkingu héraðsdóms var hafnað, enda þóttu engir þeir annmarkar á rannsókn málsins sem leitt gætu til þess að dómurinn yrði ómerktur. X lagði fyrir Hæstarétt matsgerð tveggja sérfræðinga í smit- og kvensjúkdómalækningum, þar sem fram kom að framhald tilgreindrar kynlífsathafnar hefði ef ekkert hefði verið að gert getað leitt til alvarlegra hliðarverkana og jafnvel sýkinga sem hefðu getað ógnað lífi og heilsu A. Í þessu tilviki hefði ástandið ekki gengið það langt að líffæri sködduðust né höfðu skapast þær aðstæður að líf væri í hættu. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem taldar voru fá aukinn stuðning af framangreindri matsgerð sérfræðinga, var hann staðfestur. Þá var X einnig sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglumönnum við störf lífláti. Var háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar var talið að líta bæri til þess að hótanirnar hefðu verið settar fram í ölæði og ekki væri ástæða til að ætla að sterkur ásetningur hefði búið þar að baki til að valda lögreglumönnunum ótta um líf sitt og heilbrigði. Þótti refsing X hæfilega ákveðin skilorðsbundið fangelsi í sex mánuði. Þá var honum gert að greiða A 807.290 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. febrúar 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.516.180 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. júní 2008 til 29. september sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað til héraðsdóms til málsmeðferðar á ný. Til vara krefst hann sýknu en að því frágengnu að honum verði gerð vægasta refsing sem lög heimila og að hún verði skilorðsbundin. Þá krefst ákærði þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
I
Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms styður ákærði í fyrsta lagi með því að brotaþoli hafi ekki komið fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð málsins og að ekki hafi verið lagaskilyrði til að taka skýrslu fyrir dómi af henni á rannsóknarstigi, þar sem rannsókn hafi beinst að líkamsmeiðingu af gáleysi en ekki að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Auk þessa telur ákærði rannsókn málsins hafa að öðru leyti verið óburðuga þar sem hvorki hafi verið upplýst um hvenær samskipti ákærða og brotaþola hafi átt sér stað né um eiginleika og gerð boltans, sem um ræðir í málinu. Skýrslur á rannsóknarstigi miða að því að leiða í ljós málsatvik og fer gildi framburðar í lögreglu- eða dómskýrslu ekki eftir því hvort brot í ákæru séu síðar heimfærð undir önnur refsiákvæði en upphaflega var talið að verknaður brotamanns varðaði við. Af hálfu ákærða var þess heldur ekki óskað að skýrsla yrði tekin af brotaþola á ný við aðalmeðferð málsins. Brotaþoli skýrði frá því við komu sína til læknis 27. júní 2008 að atburðurinn hefði gerst 8. sama mánaðar og beindist ákæra að hættubroti „í júní 2008“. Boltinn lá fyrir í héraðsdómi til skoðunar og var þar sýndur ákærða. Að þessu virtu eru engir þeir annmarkar á rannsókn málsins sem leitt geta til þess að héraðsdómur verði ómerktur.
II
Þegar málið skyldi tekið til munnlegs málflutnings fyrir Hæstarétti fór ákærði með bréfi 26. maí 2009 þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir kunnáttumenn á sviði smit- og kvensjúkdómalækninga til þess „að skoða sakargögn málsins og á þeim grundvelli gefa skriflegt álit á því hvort að notkun bolta sem hjálpartækis sé líkleg til þess að stofna lífi eða heilsu í augljósan háska.“ Af hálfu ríkissaksóknara var þess krafist að beiðninni yrði hafnað þar sem hún hefði komið eftir framlagningu greinargerðar fyrir Hæstarétti og því of seint, auk þess sem framburður læknis lægi fyrir í héraðsdómi og þar hafi setið meðdómandi sérfróður um kvensjúkdóma.
Með úrskurði héraðsdóms 10. júní 2009 var matsbeiðni ákærða hafnað með vísan til 1. mgr. 128. gr. laga nr. 80/2008 um meðferð sakamála þar sem ekki væri sýnt að þörf væri á umbeðnu mati til þess að dómur yrði lagður á málið. Ákærði skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. sama mánaðar og með dómi réttarins 15. sama mánaðar var lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja matsmenn samkvæmt matsbeiðni ákærða. Hann hefur lagt fyrir Hæstarétt matsgerð dr. Arnars Haukssonar sérfræðings í fæðinga- og kvensjúkdómum og Karls G. Kristinssonar yfirlæknis sýklafræðideildar Landspítala háskólasjúkrahúss 24. september 2009, þar sem þeir svara eftirfarandi spurningu: „Hvort aðili ... hafi stofnað lífi eða heilsu ... í augljósan háska, er hann í kynmökum setti gúmmíbolta, sem kynlífsleikfang, upp í leggöng hennar.“ Niðurstaða matsmanna var þessi: „Framhald þeirrar kynlífsathafnar sem um er spurt hefði ef ekkert hefði verið að gert, getað leitt til alvarlegra hliðarverkana og jafnvel sýkinga sem hefðu getað ógnað lífi og heilsu ... Grundvallaratriði er að boltinn sé fjarlægður í tæka tíð. Tíminn skiptir miklu máli. Vísast í því sambandi til meðfylgjandi greinargerðar. Í þessu tilfelli hafði ástandið ekki gengið það langt að líffæri sködduðust né höfðu skapast þær aðstæður að líf ... væri í hættu. Ekki er hægt að segja hvað olli því að ekki var leitað læknis fyrr, né hvað hefði gerst hefði umræddur bolti fengið að vera lengur í leggöngum en varð í þessu tilfelli.“ Læknarnir staðfestu mat sitt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 13. október 2009 og hefur endurrit þinghaldsins verið lagt fyrir Hæstarétt.
III
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem fá aukinn stuðning af framangreindri matsgerð sérfræðinga, verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 30. september 2008 og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis. Jafnframt verður héraðsdómur staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 17. nóvember 2008 með vísan til forsendna hans. Með vísan til röksemda héraðsdóms þykir refsing ákærða þar hæfilega ákveðin. Jafnframt verður fallist á að refsing verði skilorðsbundin.
Brotaþoli hefur krafist skaðabóta eins og nánar greinir í héraðsdómi. Hún hefur lagt fyrir Hæstarétt umsögn sálfræðings 4. desember 2009, þar sem því er lýst að hún hafi komið í meðferð vegna beiðni frá Barnavernd [...] vegna mikillar vanlíðunar sem rakin verði til erfiðrar reynslu hennar í júní 2008. Hún hafi komið átta sinnum til sálfræðingsins síðan í september 2008 og megi gera ráð fyrir að meðferð sé um það bil hálfnuð, enda virðist atburðurinn hafa haft verulega slæm áhrif á líðan hennar. Með þessari athugasemd og vísan til forsendna héraðsdóms þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Nægilega er í ljós leitt að hún hafi verið rúmliggjandi í þrjá daga og verða þjáningabætur því ákveðnar samtals 7.290 krónur. Verða skaðabætur, samtals 807.290 krónur, dæmdar ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, X, og sakarkostnað.
Ákærði greiði A 807.290 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. júní 2008 til 29. september sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 778.844 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. desember 2008.
Mál þetta, sem var dómtekið 28. nóvember sl., höfðaði ríkissaksóknari hér fyrir dómi þann 30. september sl. með ákæru á hendur X, kt. [...], [...], [...];
„aðallega fyrir hættubrot, með því hafa í júní 2008 að [...],[...], á ófyrirleitinn hátt, stofnað lífi eða heilsu A, í augljósan háska, en til vara fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi, er hann í kynmökum við A setti gúmmíbolta, sem hún taldi vera kynlífsleikfang upp í leggöng hennar og skildi þar eftir án vitneskju hennar. Afleiðingar háttseminnar urðu þær að þremur vikum síðan þegar í ljós kom að boltinn var enn í leggöngum A var hún komin með bólgur og alvarlega sýkingu í leggöng og þurfti að fjarlægja boltann með skurðaðgerð.
Telst þetta aðallega varða við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 en til vara við 219. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakrafa:
Af hálfu B, kennitala [...], fyrir hönd A, kennitala [...], er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð 2.511.100 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 7. júní 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags.“
Mál nr. [...] var sameinað þessu. Það höfðaði ríkissaksóknari 17. nóvember sl. með ákæru á hendur ákærða;
„fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 2. nóvember 2008, utandyra við veitingastaðinn [...] við [...], [...], hótað [...] aðstoðarvarðstjóra og [...] lögreglumanni, sem þar voru við störf, lífláti.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 25, 2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Ákærði krefst sýknu af sakargiftum í ákæru 30. september sl. en til vara og að öðru leyti að verða dæmdur í vægustu refsingu sem lög leyfa og að hún verði bundin skilorði. Þá krefst hann aðallega frávísunar bótakröfu sem höfð er uppi í ákæru, en til vara þess að hún verði lækkuð verulega.
I.
Ákærði hefur komið hér fyrir dóminn og játað sök samkvæmt ákæru 17. nóvember 2008. Með játningu hans, sem er í samræmi við efni rannsóknargagna lögreglu, er sök hans nægilega sönnuð og varðar háttsemi hans við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 með áorðnum breytingum.
II.
Að kvöldi 7. júní 2008 fór stúlkan A út að skemmta sér og hitti þá ákærða sem hún kannaðist við og hafði einu sinni haft kynmök við. Bæði munu hafa verið eitthvað ölvuð. Um nóttina fóru þau heim til stúlkunnar og höfðu samfarir. Óumdeilt er að ákærði setti bolta upp í leggöng stúlkunnar og yfirgaf hana um nóttina án þess að fjarlægja hann.
Stúlkan leitaði til læknis á slysadeild [...] 27. júní sl. Í skýrslu Edwards Kiernan kvensjúkdómalæknis um réttarlæknisfræðilega skoðun, hefur hann eftir stúlkunni að hún hafi verið drukkin, fundið til sársauka og beðið ákærða að hætta en síðan muni hún ekki meir. Undanfarið hafi hún verið með verki og stöðugt meira illa lyktandi útferð. Í skýrslunni segir að við skoðun 27. júní hafi stúlkan verið komin með slæma bakteríusýkingu í leggöng og hafi þurft að fjarlægja boltann úr leggöngum hennar í svæfingu á skurðstofu. Síðan hafi hún verið sett á fúkkalyf. Í niðurstöðu læknisins kemur fram að um hafi verið að ræða mikið andlegt „tráma“ fyrir stúlkuna. Lífshættulegt sé að ganga um með aðskotahlut í leggöngum í þetta langan tíma og hefði hún getað fengið blóðeitrun. Mjög slæm sýking hafi verið í leggöngum sem krefjist fúkkalyfjameðferðar í töflu- og kremformi.
Í læknabréfi Edwards 10. júlí sl. kemur fram að stúlkan hafi komið í skoðun og hafi slímhúð þá verið eðlileg og enga sýkingu að sjá lengur.
Í málinu liggur einnig frammi vottorð Edwards, ritað 4. október sl. að beiðni réttargæslumanns stúlkunnar. Kemur þar m.a. fram að hann telur að stúlkan muni ekki hafa beðið varanlegan líkamlegan skaða, en erfiðara sé að dæma um andlegu hliðina.
Lögregla tók skýrslu af ákærða þann 15. júlí 2008. Verður sú skýrsla ekki reifuð hér í einstökum atriðum, en framburður hans hljóðaði um að hann hefði sett boltann upp í leggöng stúlkunnar með vilja hennar. Hann hefði farið út úr húsinu til að reykja og læst sig óvart úti, en áður hefði hann spurt hana hvort hún vildi ekki að hún tæki hann (boltann) út áður en hann færi út að reykja. Hún hafi sagt: „Nei“ og hann þá spurt hana: „Ertu viss, það er ekkert sérstakt að hafa þetta þarna lengi inni?“, en hún hefði sagst ætla að fara að sofa og sagt honum að fara bara út að reykja.
III.
Stúlkan var yfirheyrð hér fyrir dómi þann 17. júlí sl. Liggur endurrit yfirheyrslunnar frammi í málinu og kaflar úr myndbandsupptöku af henni voru sýndir í réttinum við aðalmeðferð málsins.
Stúlkan skýrði svo frá að hún hefði verið orðin frekar drukkin er hún hitti ákærða, en samt ekki svo að hún muni ekki eftir atvikum. Þau hafi farið heim til hennar og haft kynmök í hjónarúmi foreldra hennar. Hún lýsti því að ákærði hefði verið harkalegur og viljað að sumu leyti hafa mök með hætti sem hún vildi ekki. Hann hafi m.a. spurt hvort hún ætti sleipiefni, „dildó“, titrara eða egg en hún neitað. Síðan hafi hann sagt: „Ég er með leikfang handa þér.“ Hann hafi farið eitthvað fram. Hún hafi legið með lokuð augu, verið þreytt og ölvuð og eiginlega helst viljað sofna. Síðan hafi ákærði sett eitthvað upp í leggöngin á henni. Sér hefði þótt það vont og sagt: Á, á! hættu þessu!, ekki gera þetta!, þetta er ógeðslega vont“, en hann hafi sagt: „Þú fílar þetta, þetta er eins og að afmeyjast aftur, þú veist þú vilt hafa þetta svona.“ Hún hafi látið gott heita og haldið að þetta hefði verið eitthvert leikfang sem hann síðan hefði bara tekið út.
„Stúlkan kvaðst hafa hringt í vinkonu sína daginn eftir og sagst vera að „drepast þarna uppi“, ákærði hefði verið með leikfang og sér væri ógeðslega illt.
Stúlkan tók fram að hún vissi ekki í sannleika sagt hvort ákærði hefði sagt henni að hann hefði sett eitthvað inn í hana. Hún vissi það ekki, en hún myndi alla vega ekki almennilega eftir því. Það eina sem hana rámaði í væri að hann hefði sagt „eitthvað svona, „ætlar þú að taka þetta út“ eða eitthvað svona og ég bara, ég veit það ekki, þetta er það eina sem mig rámar í.“ Ákærði hefði sagst ætla út að reykja og koma síðan aftur inn. Hún hefði heyrt hann ganga niður útitröppur. Kemur fram í skýrslu hennar að henni sárnaði að hann yfirgaf hana með þessum hætti.
Stúlkan kvaðst hafa fundið til óþæginda daginn eftir, en hún hefði talið að það hefði verið eftir harkaleg kynmök við ákærða. Síðan hefði hún byrjað á blæðingum stuttu síðar og fundið til mikilla verkja, en tekið verkjatöflur og talið að þetta væru tíðaverkir. Síðan hefði hún farið að finna einkennilega lykt og loks leitað til kvensjúkdómalæknis. Það hefði komið sér mjög á óvart er hún komst að því að hún væri með bolta uppi í leggöngunum.
Stúlkan var spurð nánar út í það sem hana rámaði í, að ákærði hefði spurt hvort hann ætti að taka eitthvað út. Svaraði hún svo að sig rámaði í að hann hefði sagt: „Ætlar þú ekki að taka þetta út eh, he, he?“ og ég eitthvað svona: „Ég tek þetta bara, geri það á morgun eða eitthvað“. Síðan lýsti hún ástandi sínu þannig: „/.../ ég er ógeðslega þreytt, ég er ógeðslega orðin eitthvað þreytt, sljó, eitthvað svona sofa þú veist og ég æi ef hann hefði haft einhvern part af samvisku í sér, einhvern líkamlegan snefil, notað part af heilanum á sér þá hefði hann látið mig vita daginn eftir, það hefði ekki skipt neinu máli hvort hann hefði sagt, það hefði skipt máli þá hefði ég ekki verið með þessa óskaplegu sýkingu í leggöngunum í vikur og þurft að fara í aðgerð /.../“. Enn frekar aðspurð um þetta svaraði hún: „Ég man bara þú veist ég lá þarna ógeðslega þreytt og X veit alveg hvernig að ég verð, X á alveg að þekkja mig þú veist ágætlega vel, hann á alveg að vita hvernig að ég verð þegar ég verð ógeðslega full þá verð ég ógeðslega þreytt, ég verð bara svona, það sem hann er að segja við mig það fer ekkert almennilega inn í heilann á mér, þetta er bara svona ef að þú myndir segja: „Ég elska þig“, þá myndi ég bara: „mmmm“ og fara bara að sofa. Hann átti að skilja eftir miða þú veist, mér er drullusama hvað hann átti að gera, hann stakk af, hann lét mig ekki vita bara daginn eftir þegar að ég er edrú, ég heyrði ekkert í honum, svo fer ég til læknis:, „Hæ! þú ert með bolta í leggöngunum, þú þarft að fara í aðgerð /.../““
Stúlkan var spurð hvort hún hefði sagt við ákærða að hann skyldi láta það flakka og neitaði hún að hafa sagt eitthvað slíkt. Þá lýsti hún mikilli reiði í garð ákærða fyrir að hafa skilið boltann eftir uppi í leggöngum hennar.
Ákærði skýrir svo frá að hann hafi legið á rúminu, teygt höndina niður á gólf og fundið þar bolta. Hann hafi tekið boltann og kastað honum frá sér í ofn. Stúlkan hafi spurt hvað hann væri með og hann sagt að hann væri með leikfang. Hún hafi sagt honum að koma með það. Hann hafi þá sett boltann upp í leggöng hennar og síðan haft mök við hana. Hann tók fram að áður en hann hefði sett boltann upp í leggöng hennar hefði hann farið með hann fram á bað og þrifið hann. Hann hafi spurt stúlkuna hvort hann ætti að taka boltann út en hún sagt honum að hann skyldi bara fara út að reykja. Hann hafi læst sig úti og bankað án árangurs. Hann hafi ekki átt inneign á síma sínum og því ekki getað hringt í hana. Hann hafi þá hringt til vinar síns, sem hafi greitt símtalið, til að semja um greiðslu kostnaðar af leigubíl og síðan farið heim. Daginn eftir hafi hann sagt vini sínum frá atvikum í helstu atriðum. Það sama kvöld hafi hann farið með vini sínum að skemmta sér. Þá hafi hann hitt stúlkuna, sem hafi verið reið við hann og skammað hann. Hún hafi hringt nokkrum sinnum í hann eftir þetta til að segja honum hvaða álit hún hefði á honum. Hann hafi aldrei komist að til spyrja hana um boltann og hafi talið að hún hefði tekið hann sjálf og verið reið við hann vegna hans.
Ákærða var sýndur í réttinum boltinn sem tekinn var úr leggöngum stúlkunnar og kveðst hann ekki kannast við hann sem boltann sem hann setti upp í leggöng hennar. Kveður hann það hafa verið minni bolta og annarrar gerðar. Ákærði ber eindregið að hann hafi sett boltann upp í leggöng stúlkunnar með vilja hennar og hún hafi neitað er hann spurði áður en hann fór hvort hún vildi að hann tæki hann út aftur.
Faðir stúlkunnar, B, var kallaður fyrir dóm til skýrslugjafar. Hann ber að sig og móður stúlkunnar hafi verið farið að gruna að hún væri með sýkingu í leggöngum og þau lagt að henni að leita til læknis. Taldi hann að liðið hefðu ein til tvær vikur sem þau hefðu verið að spyrja hana hvort allt væri í lagi. Hann segir að stúlkan sé hvatvís en skynsöm og er viss um að hún hefði lagt saman tvo og tvo ef hún hefði vitað um að bolti hefði verið settur upp í leggöng hennar. Hann upplýsti að stúlkan hafi ekki leitað til sálfræðings eftir þetta atvik en það hafi valdið henni andlegum óþægindum og hún lýsi því að hún finni til vantrausts í garð pilta og vanlíðunar í návist þeirra. Líkamlega hafi hún jafnað sig að fullu.
Edward Kiernan kvensjúkdómalæknir, en vottorð hans eru rakin hér að framan, gaf skýrslu fyrir réttinum símleiðis. Staðfesti hann að stúlkan hefði komið á slysavarðstofu er hann var á vakt og kvartað yfir verkjum í móðurlífi og útferð. Hefði komið í ljós að bolti var á kafi í leggöngum hennar og greinilega verið mikil sýking í leggöngum. Stúlkan hefði þá farið að rifja upp að líklega hefði þetta gerst einum þremur vikum fyrr. Þá hefði hún fundið fyrir sársauka en ekki gert sér grein fyrir því að bolti hefði verið skilinn þarna eftir. Læknirinn kvað aðskotahlut sem þennan í leggöngum geta valdið miklum móðurlífsbólgum og jafnvel dauða. Stúlkan hafi svarað meðferð mjög vel og muni ekki hafa varanlegar líkamlegar afleiðingar. Hann tók fram að stúlkan hefði verið mjög undrandi þegar hann fann boltann en hún hefði áttað sig fljótt á því hvenær þetta hefði gerst.
Vitnið Hannesína Scheving hjúkrunarfræðingur kveður stúlkuna hafa komið til sín í viðtal eftir aðgerðina. Frásögn hennar hefði hljóðað um að hún hefði haft harkalegar samfarir við ákærða sem hefði notað kynlífsleikfang. Hún hefði alls ekki gert sér grein fyrir því að eitthvað hefði verið skilið eftir uppi í leggöngum hennar.
Vitnið C, sem yfirheyrður var símleiðis, skýrði svo frá að ákærði hefði sagt sér daginn eftir að hann fór heim með stúlkunni að hann hefði sett bolta upp í leggöng hennar og hefði það verið hluti af „leiknum“. Hefði ákærði sagt sér svo frá að stúlkan hefði sagt ákærða að láta flakka, eða láta það koma. Hann hefði reynt að ná boltanum út en hún hefði bannað honum það og sagt honum að fara út að reykja.
Vitnið D kveður stúlkuna hafa sagt sér daginn eftir að ákærði fór heim með stúlkunni að hann hefði notað leikfang og það hefði verið vont. Ekki hefði henni dottið í hug að þetta leikfang hefði verið bolti, en hún hefði skilið það þannig að það hefði verið „dildó“ eða sambærilegt áhald.
IV.
Boltinn sem var fjarlægður úr leggöngum stúlkunnar var sýndur í réttinum við aðalmeðferð málsins, auk þess sem mynd af honum er meðal rannsóknargagna lögreglu. Boltinn er ekki lengur í heilu lagi. Hann er tæpir sex sentimetrar í þvermál. Hugsanlegt er að hann hafi verið minni er hann var settur upp í leggöng stúlkunnar og breyst þar til stækkunar, en frekari rannsóknar þarf við til að sá möguleiki verði staðfestur eða útilokaður. Engin skynsamleg ástæða er til að ætla, þrátt fyrir framburð ákærða, að þessi bolti sé annar en sá sem hann setti upp í leggöng stúlkunnar.
Sé aðskotahlutur sem þessi skilinn eftir uppi í leggöngum er það til þess fallið að valda hættu á heilsu- og jafnvel líftjóni. Átti ákærða ekki að geta dulist að stúlkan væri í augljósum háska, ef hann skildi boltann eftir í leggöngum hennar án þess hún vissi að hann hefði gert svo.
Framburður stúlkunnar hljóðar um að henni hafi ekki verið ljóst að ákærði hefði sett bolta upp í leggöng hennar, hvað þá að hann hefði ekki fjarlægt hann, þótt hana hafi seinna rámað í að ákærði hafi sagt: „Á ég að taka hann út?“ eða eitthvað slíkt.
Með tilliti til framburðar vitnisins D um samtal sitt við stúlkuna daginn eftir, framburðar föður stúlkunnar um að hún hafi verið grunlaus um hvað ylli verkjum, útferð og ólykt, framburðar Edwards Kiernan um undrun hennar er hann tjáði henni að bolti væri uppi í leggöngum hennar og framburðar Hannesínu Scheving um samtal sitt við stúlkuna eru ekki efni til að rengja framburð stúlkunnar um að henni hafi alls ekki verið ljóst að ákærði hefði sett bolta upp í leggöng hennar og skilið hann þar eftir. Verður því ekki metinn trúverðugur framburður ákærða um að hann hafi tryggt að stúlkunni væri ljóst að hann setti bolta upp í leggöng hennar. Þá lét hann undir höfuð leggjast að gera henni nægilega ljóst eftir á að boltinn væri þar, hvorki áður en hann yfirgaf hana ölvaða, þreytta og svefndrukkna um nóttina né í þeim símtölum sem hann segir hana hafa átt við sig, fleiri en einu, á tímabilinu frá 7.27. júní sl. Verður fallist á það með ákæruvaldinu að ákærði hafi á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi eða heilsu stúlkunnar í augljósan háska er hann setti boltann, sem hún taldi vera kynlífsleikfang, upp í leggöng hennar og skildi þar eftir án vitneskju hennar, með þeim afleiðingum sem í ákæru er lýst, þó með þeirri breytingu að ekki þurfti að fjarlægja boltann með skurðaðgerð, heldur með aðgerð, eins og tekið var fram af hálfu ákæruvaldsins við munnlegan málflutning. Varðar þetta við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
V.
Ákærði, sem er rúmlega 19 ára gamall, er með hreinan sakaferil. Hann er hér sakfelldur fyrir alvarlegt brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga. Þá er hann sakfelldur fyrir brot gegn 106. gr. sömu laga, en líta ber til þess að hótanir sem hann viðhafði í garð lögreglumanna voru settar fram í ölæði og ekki er ástæða til að ætla að sterkur ásetningur hafi búið þar að baki til að valda lögreglumönnunum ótta um líf sitt eða heilbrigði.
Refsing ákærða ákveðst eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, sem með tilliti til aldurs ákærða og sakaferils er rétt að skilorðsbinda eins og greinir nánar í dómsorði.
Bótakröfu er getið í ákæru. Við munnlegan málflutning var henni breytt á þann veg að krafist er miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur og var þess getið að bótakrafan væri lækkuð með tilliti til þess að nú liggur fyrir að læknir telur ekki líkur á að verknaður ákærða valdi því að stúlkan verði ófrjó. Þá er krafist þjáningabóta að fjárhæð 16.180 krónur. Krafist er vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 7. júní 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 29. september sl. og til greiðsludags.
Stúlkan á rétt til miskabóta úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. laga nr. 50, 1993 með áorðnum breytingum. Við ákvörðun bóta ber að líta til þess að stúlkan hefur orðið fyrir verulegum líkamlegum og andlegum þjáningum vegna verknaðar ákærða og mátti um tíma búa við það að hætta væri á að hún yrði ófrjó. Með þetta í huga þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Krafa um þjáningabætur er ekki studd læknisvottorði um veikindi. Verða því aðeins dæmdar þjáningabætur í einn dag, þ.e. þann dag sem stúlkan þurfti að gangast undir aðgerð, eða 2.430 krónur, en að öðru leyti verður að vísa kröfu um þjáningabætur frá dómi. Dæma ber vexti eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði. Var gerð grein fyrir kröfu um upphafstíma dráttarvaxta við munnlegan málflutning og verða dráttarvextir dæmdir frá þeim tíma er mánuður var liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafa.
Málsvarnarlaun og réttargæslulaun verður ákærði dæmdur til að greiða og ákveðast þau eins og greinir í dómsorði að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða 20.000 krónur í annan sakarkostnað vegna læknisvottorðs sem réttargæslumaður aflaði.
Dóm þennan kveða upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari, Karl Ólafsson kvensjúkdómalæknir, og Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði. Fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Ákærði greiði B fyrir hönd A, 602.430 krónur, auk vaxta af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 7. júní 2008 til 29. september sama ár, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Ákærði greiði 704.750 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gunnars Sólness hrl., 435.750 krónur og réttargæslulaun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hdl., 249.000 krónur.