Hæstiréttur íslands
Mál nr. 131/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 13. mars 2006. |
|
Nr. 131/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. maí 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Svo sem þar greinir hefur aðalmeðferð í máli varnaraðila verið ákveðin 20. og 21. mars 2006. Er þess þá að vænta að málið verði dómtekið og dæmt innan þess frests sem greinir í 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991. Með vísan til þessa þykir rétt að stytta það tímabil sem varnaraðila verður gert að sæta gæsluvarðhaldi til þess tíma sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 21. apríl 2006 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. mars 2006.
Ríkissaksóknari krefst þess með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að ákærða X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þegar núverandi gæsluvarðhaldi lýkur þann 10. mars 2006 kl. 16:00, allt til föstudagsins 5. maí 2006 kl. 15:00, en þó eigi lengur en þar til dómur fellur í máli hans, sbr. 106. gr. s.l. vegna ætlaðra brota hans gegn 217. gr., 2. mgr. 218. gr. og 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni. Hann krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
I.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með þremur ákærum ríkissaksóknara, dagsettum 31. janúar sl., hafi ákærði X m. a. verið ákærður fyrir tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir og tilraun til manndráps, en við síðastnefnda brotið hafi ákærði beitt stórum hníf eða sveðju og höggvið ítrekað í höfuð og líkama A svo af hlutust stórfelldir áverkar.
Að mati ákæruvaldsins þykir fullnægt skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi ákærða samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Mál á hendur ákærða og fimm öðrum einstaklingum hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness og fer aðalmeðferðin fram dagana 20. og 21. mars nk. Ákærði neitar sök.
Í dómi Hæstaréttar 18. janúar sl. þar sem staðfestur var úrskurður Héraðsdóms Reykjaness um að ákærði skyldi sæta gæsluvarðhaldi áfram allt til föstudagsins 10. mars nk. segir: „Í dómi Hæstaréttar 12. október 2005 í máli nr. 442/2005 og aftur í dómi 8. desember sama ár í máli nr. 519/2005 var því slegið föstu að sterkur grunur léki á að varnaraðili hafi brotið gegn 211. gr., sbr. 20. gr. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga og fyrir hendi væru skilyrði til að hann sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ekkert hefur komið fram í máli þessu sem breytir framangreindu mati.”
Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar í dag kom ekkert nýtt fram sem haggað gæti framangreindu mati. Þykja skilyrði til að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 því vera fyrir hendi. Er því rétt að verða við kröfu ríkissaksóknara um að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi er núverandi gæsluvarðhaldi lýkur nk. föstudag eins og hún er sett fram. Þykir ekki ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 5. maí 2006, kl. 16:00, en þó eigi lengur en þar til dómur fellur í máli hans.