Hæstiréttur íslands
Mál nr. 662/2014
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Galli
- Skoðunarskylda
- Riftun
|
|
Miðvikudaginn 13. maí 2015. |
|
Nr. 662/2014.
|
Skúli Gunnar Sigfússon (Heiðar Örn Stefánsson hrl.) gegn Hólsfelli ehf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Lausafjárkaup. Galli. Skoðunarskylda. Riftun.
S, sem keypt hafði dráttarvél og flutningavagn af H ehf., höfðaði mál gegn H ehf. og krafðist riftunar á kaupsamningnum vegna galla sem hann taldi vera á dráttarvélinni. S hafði aflað matsgerðar dómkvadds manns, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að dráttarvélin hefði verið haldin verulegum ágöllum sem ekki hefðu verið sýnilegir venjulegum kaupanda. Í dómi héraðsdóms var talið að S hefði vanrækt skoðunarskyldu sína við kaupin, enda hefði hann mátt sjá að vélin væri ekki í því ástandi sem ætla hefði mátt af auglýsingu H ehf. Var H ehf. því sýknað af kröfum hans. Hæstiréttur komst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu og staðfesti riftun S á kaupsamningnum. Í dómi hans kom fram að þrátt fyrir að S hefði látið undir höfuð leggjast að skoða dráttarvélina nákvæmlega hefði hann mátt treysta því sem fram kom í auglýsingu H ehf. um ástand vélarinnar og ekki þurft að staðreyna það með skoðun á vélinni, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Hann gæti því borið fyrir sig þá galla sem vélin var haldin og ekki voru augljósir honum sem kaupanda, en hann bjó ekki yfir sérþekkingu á slíkum vélum. Með vísan til niðurstöðu matsgerðarinnar um ástand vélarinnar var krafa S um riftun tekin til greina og H ehf. gert að endurgreiða honum kaupverðið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. október 2014. Hann krefst þess aðallega að staðfest verði riftun 15. ágúst 2011 á kaupsamningi sínum og stefnda 25. júlí sama ár um dráttarvélina Massey Ferguson 4245, árgerð 1997, með skráningarnúmerið MJ-238, gegn afhendingu vélarinnar í núverandi ástandi. Þá krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.339.156 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júlí 2011 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.316.516 krónur með dráttarvöxtum frá 25. júlí 2011 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málsatvik eru í stuttu máli þau að í júlímánuði 2011 sá áfrýjandi, sem er eigandi jarðarinnar Ósgerði í Ölfusi, dráttarvél auglýsta til sölu í Bændablaðinu. Í auglýsingunni sagði meðal annars: „Til sölu Massey Ferguson 4245 dráttarvél 90 hö. árg. ´97, öll nýuppgerð og yfirfarin. Allt rafkerfi nýtt. Er í Borgarfirði. Einnig til sölu öflugur flutningavagn“. Þá kom fram í auglýsingunni að upplýsingar væru veittar í tveimur tilgreindum símanúmerum. Að beiðni áfrýjanda hringdi Ólafur Hafsteinn Einarsson í annað númerið og mun Jón Þórðarson, sem að sögn stefnda þekkti vel til dráttarvélarinnar, hafa orðið fyrir svörum. Í framburði Ólafs fyrir héraðsdómi kvaðst hann hafa spurst „aðeins út í vélina“. Hafi viðmælandi sinn lýst „henni bara sem góðum grip og lítið notaðri með nýtt rafkerfi eins og hann orðaði það og í topp standi.“ Í framhaldinu hringdi áfrýjandi í hitt númerið og ræddi við fyrirsvarsmann stefnda, Svein Eyjólfsson. Í því símtali falaðist áfrýjandi eftir að kaupa dráttarvélina og sagðist hann í símtalinu auk annars hafa spurt um verð hennar. Af hálfu stefnda er því haldið fram að áfrýjandi hafi „ólmur“ viljað kaupa vélina óséða, en honum hafi verið gerð grein fyrir því að hún yrði ekki seld fyrr en væntanlegur kaupandi hefði kynnt sér ástand hennar.
Daginn eftir að síðastgreint símtal átti sér stað, 15. júlí 2011, kom áfrýjandi að Efranesi í Borgarfirði í þeim tilgangi að sækja dráttarvélina og flutningavagninn sem hann ætlaði að festa kaup á. Áðurnefndur fyrirsvarsmaður stefnda sagði fyrir dómi að áfrýjandi hafi strax viljað fá upp gefið reikningsnúmer stefnda og viljað borga vélina þá þegar. Fórust fyrirsvarsmanninum meðal annars svo orð: „Ég sagði honum að hann yrði að skoða hana fyrst, hún stæði þarna fyrir neðan hús og hann skyldi fara og setja hana í gang og skoða hana áður en hann keypti hana. Hann sagðist ekkert hafa vit á vélum og ég sagði ég hef það ekki heldur en farðu samt og skoðaðu vélina ef þú ert að kaupa hana.“ Hafi áfrýjandi síðan kallað í Ámunda Sigurðsson sem hafi verið nærstaddur við smíðar og beðið hann um að kenna sér að setja dráttarvélina í gang. Hafi Ámundi gert það. Fyrir dómi bar Ámundi að hann hafi sett vagninn aftan í vélina og ekið henni síðan upp á veg. Þar hafi áfrýjandi tekið við, en átt „bágt með“ að setja vélina í gír og verið greinilega óvanur. Hafi hann sýnt áfrýjanda helstu stjórntæki hennar og beðið hann um að fara varlega „því þetta er náttúrulega viðkvæmt tæki.“ Fyrir dómi var áfrýjandi spurður hvort það hefði komið til tals að hann skoðaði vélina áður en gengið yrði frá kaupunum. Því svaraði hann: „Alls ekki man ég eftir því, en útiloka það ekki.“
Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi greiddi kaupverð dráttarvélarinnar og flutningavagnsins, samtals 2.500.000 krónur, umræddan dag. Í héraðsdómsstefnu er staðhæft að kaupverð vélarinnar hafi numið 2.200.000 krónum og vagnsins 300.000 krónum og hefur stefndi ekki mótmælt því. Eftir að kaupin voru um garð gengin ók áfrýjandi vélinni ásamt vagninum að Ósgerði og fór um Uxahryggi á þeirri leið. Hinn 25. júlí 2011 var svo undirritaður kaupsamningur milli aðila um dráttarvélina þar sem meðal annars var tekið fram: „Vélin er öll nýuppgerð og yfirfarin. Allt rafkerfi nýtt.“ Að sögn áfrýjanda bilaði vélin tveimur dögum síðar og kvaðst hann þá hafa farið með hana í „söluskoðun“ hjá Vélaverkstæði Þóris ehf. á Selfossi. Við skoðunina hafi komið í ljós fjöldi galla á vélinni og hafi það engan veginn samrýmst þeirri lýsingu sem stefndi hafi gefið á ástandi og gæðum hennar. Með bréfi til stefnda 15. ágúst 2011 lýsti áfrýjandi yfir riftun á kaupum dráttarvélarinnar, en þeirri kröfu var mótmælt af hálfu stefnda 31. sama mánaðar.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að dráttarvélin hafi verið yfirfarin áður en hún var auglýst til sölu og fært fram gögn því til staðfestingar, þar á meðal reikninga fyrir viðgerð á vélinni hjá Vélabæ ehf. í Borgarfirði sem fram fór í febrúarmánuði 2011. Samkvæmt þeim reikningum var skipt um framrúðu í vélinni og að auki skipt um nokkra aðra hluti og einhverjar lagfæringar gerðar á henni.
II
Hinn 3. október 2011 fór áfrýjandi fram á að dómkvaddur yrði sérfróður matsmaður til að svara sex nánar greindum spurningum um ástand dráttarvélarinnar. Í matsgerð hins dómkvadda manns 8. maí 2012 var komist að svofelldri niðurstöðu um hverju hafi verið ábótavant við vélina við afhendingu hennar: „Með tilvísun í framangreinda greiningu á ástandi dráttarvélar MJ-238 ... er ástand ljósa, spegla, hlífa, rúðusprautu framrúðu, fóðringar fyrir moksturstæki, miðliðs framhásingar, sætis, tröppu vinstra megin, framfelgu vinstra megin, pumpu fyrir afturhlera, stjórnstangar fyrir beisli, gírskiptistangar, kúplingar, pakkninga fyrir vökvatengi og vél, ásamt vélarhljóðs, ábótavant. Dráttarvélin er tiltæk, virði hennar er skert og hætta er á frekara tjóni. Notkun tækisins veldur slysahættu.“ Þá taldi matsmaðurinn að smellir frá vél dráttarvélarinnar væru „annað hvort ventlabank eða of mikil rýmd stimpla í stimpilshúsi.“ Einnig kom fram í matsgerðinni að viðgerð, sem áfrýjandi hafi látið fara fram á vélinni, hafi verið „fólgin í því að skipta út vökvahraðtengjum sem láku, vökvasíum og pakkningum.“ Í matsbeiðni var meðal annars óskað eftir því að lagt yrði mat á hverjar úrbætur þyrfti að gera á dráttarvélinni og hver yrði kostnaður vegna þeirra. Niðurstaða matsmannsins var að mikil óvissa væri um það hver viðgerðarkostnaður yrði og gæti hann numið á bilinu 922.000 til 2.177.000 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Þeirri spurningu hvort dráttarvélin hafi við afhendingu 15. júlí 2011 verið nýuppgerð og yfirfarin með nýju rafkerfi svaraði matsmaðurinn að ástand hennar hafi „ekki verið í samræmi við það að hún væri nýuppgerð og yfirfarin. Það skal tekið fram að hluti af því sem ábótavant er var augljós galli þegar vélin var keypt en aðrir þættir eru einungis greinanlegir fyrir sérfræðinga“. Að lokum var á það bent í matsgerðinni að samkvæmt akstursmæli hafi dráttarvélin verið keyrð í 8 klukkustundir frá því að hún var keypt. Taldi matsmaður að framangreind „frávik“ væru þess eðlis að þau hafi ekki getað stafað af keyrslu vélarinnar frá Borgarfirði í Ölfus.
Hinn dómkvaddi matsmaður kom síðar fyrir dóm og staðfesti þar skýrslu sína. Ennfremur skýrði hann út þá aðferð sem hann kvaðst hafa notað við að meta ástand dráttarvélarinnar. Spurður hvort rafkerfi hennar væri nýtt svaraði matsmaðurinn að svo væri ekki miðað við nánar tilgreinda þætti. Ef rafkerfið hefði verið yfirfarið og endurnýjað „hefði verið búið að laga þessa þætti.“ Þá kom fram hjá matsmanninum að bilanir í vélinni hafi allar verið „vegna slits eða öldrunar ... ekki vegna óhapps.“ Átta klukkustunda akstur gæti valdið óhappi, en engar bilanir í vélinni væru þess eðlis. Matsmaðurinn taldi að sumt af því sem ábótavant hafi verið væri sýnilegt og því átt að koma í ljós við skoðun vélarinnar. Önnur „frávik“ hafi verið þess eðlis að fagmaður hefði átt að sjá þau, svo sem við „söluskoðun“ þar sem „bróðurparturinn“ af göllunum á vélinni hefði átt að koma fram.
Stefndi hefur ekki aflað yfirmats eða reynt að hnekkja matsgerð hins dómkvadda manns með öðrum hætti. Verður því að leggja hana til grundvallar við úrlausn málsins.
III
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sem gilda um kaup áfrýjanda á dráttarvélinni af stefnda, skal söluhlutur, hvað varðar gæði og eiginleika að öðru leyti, fullnægja þeim kröfum sem leiðir af samningi. Eins og áður greinir var í kaupsamningi aðila tekið fram, í samræmi við auglýsingu stefnda, að dráttarvélin væri öll nýuppgerð og yfirfarin, auk þess sem allt rafkerfi hennar væri nýtt. Samkvæmt íslenskri orðabók merkir „uppgerður“ fullreistur, fullsmíðaður, sem hefur verið endurnýjaður. Með matsgerð hins dómkvadda manns og framburði hans fyrir héraðsdómi telst sannað að vélin hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem leiddi af samningnum þegar hún var afhent 15. júlí 2011, þar á meðal hafi rafkerfi hennar ekki verið nýtt. Vélin var því gölluð samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 50/2000, sbr. og 1. mgr. 18. gr. sömu laga.
Af því sem áður greinir verður að ganga út frá því að áfrýjandi hafi látið undir höfuð leggjast að skoða dráttarvélina nákvæmlega áður en kaupin voru gerð þrátt fyrir hvatningu fyrirsvarsmanns stefnda. Á hinn bóginn mátti áfrýjandi treysta því sem fram hafði í komið í auglýsingu stefnda um ástand vélarinnar og hafði því ekki ástæðu til að staðreyna það með skoðun á henni, sbr. fyrri málslið 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000. Samkvæmt því getur áfrýjandi borið fyrir sig þá galla sem vélin var haldin og ekki voru augljósir honum sem kaupanda, en hann bjó ekki yfir sérþekkingu á slíkum vélum.
Af áðurgreindri matsgerð er ljóst að þegar dráttarvélin var afhent var hún haldin mjög verulegum ágöllum, sem ekki voru sýnilegir venjulegum kaupanda, þar á meðal mátti áfrýjandi ganga út frá því samkvæmt framansögðu að vél hennar væri sem ný og því kæmi ekki til álita að taka þyrfti hana upp. Af þeim sökum verður krafa áfrýjanda um riftun á kaupum dráttar vélarinnar gegn afhendingu hennar í núverandi ástandi tekin til greina samkvæmt 1. mgr. 39. gr. og 2. mgr. 64. gr. laga nr. 50/2000, en hann lýsti eins og áður er fram komið yfir riftun kaupanna án ástæðulauss dráttar, sbr. 2. mgr. fyrrnefndu lagagreinarinnar. Samkvæmt þessu verður jafnframt fallist á kröfu áfrýjanda um að stefndi endurgreiði honum kaupverðið, 2.200.000 krónur. Þar sem stefndi hefur ekki mótmælt kröfu áfrýjanda um dráttarvexti, þar á meðal upphafstíma þeirra, verður sú krafa tekin til greina óbreytt.
Samkvæmt framansögðu verður ráðið að áfrýjandi hafi haft einhver not af dráttarvélinni eftir að hann festi kaup á henni þótt þau hafi verið takmörkuð. Að teknu tilliti til þess verður stefndi sýknaður af skaðabótakröfu hans.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Staðfest er riftun áfrýjanda, Skúla Gunnars Sigfússonar, á kaupsamningi hans og stefnda, Hólsfells ehf., 25. júlí 2011 um dráttarvélina Massey Ferguson 4245, með skráningarnúmer MJ-238, gegn því að afhenda stefnda hana í núverandi ástandi. Stefndi greiði áfrýjanda 2.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júlí 2011 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 11. júlí 2014.
Mál þetta sem dómtekið var 23. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 18. desember 2012.
Stefnandi er Skúli Gunnar Sigfússon, Ósgerði, Ölfusi.
Stefndi er Hólsfell ehf., Efra-Nesi, Búðardal.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
Aðallega að staðfest verði með dómi riftun stefnanda 15. ágúst 2011 á kaupsamningi aðila, sem gerður var 25. júlí 2011 um dráttarvélina Massey Ferguson 4245, árgerð 1997 með skráningarnúmerið MJ-238 gegn alhendingu dráttarvélarinnar i núverandi ástandi. Einnig er gerð krafa um að stefndi endurgreiði stefnanda 2.200.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu frá 25. júlí 2011 til greiðsludags og krafa um greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 139.516,- auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu frá. 25. júlí 2011 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.316.516 í bætur eða afslátt af kaupverði dráttarvélarinnar Massey Ferguson 4245, árgerð 1997 með skráningarnúmerið MJ-238 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu frá. 25. júlí 2011.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Til vara krefst stefndi sýknu af riftunarkröfu stefnanda og að afsláttarkrafa stefnanda verði stórlega lækkuð og aðeins tekin til greina að óverulegu leyti.
Þá er krafist málskostnaðar.
MÁLSATVIK
Hinn 7. júlí 2011 birtist svohljóðandi auglýsing í Bændablaðinu:
„Til sölu Massey Ferguson 4245 dráttarvél 90 hö. árg. '97, öll nýuppgerð og yfirfarin. Allt rafkerfi nýtt. Er í Borgarfirði. Einnig til sölu öflugur flutningavagn, Deves GV100, 10 tonn, einnig í Borgarfirði. Upplýsingar í símum 893-3892 og 899- 6855."
Stefnandi sem kvaðst hafa verið að leita að dráttarvél þessarar gerðar hafði samband við fyrirsvarsmann stefnda, Svein R. Eyjólfsson. Kveður forsvarsmaður stefnda stefnanda hafa óskað eftir upplýsingum um bankareikning sem hann gæti lagt kaupverð tækjanna inn á. Honum hafi verið var gerð grein fyrir því að vélin yrði ekki seld án þess að kaupandinn skoðaði hana fyrst. Stefnandi hafi ólmur viljað festa sér tækið, en stefndi ekki gefið sig með það að vélin yrði ekki seld án þess að kaupandi kynnti sér ástand hennar fyrst. Kom og fram í skýrslu stefnanda að hann hafi verið mjög áhugasamur um að kaupa vélina. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir því að nokkrir menn væru búnir að boða komu sína næstu daga til að kynna sér ástand vélarinnar með kaup í huga. Stefnanda hafi einnig verið gefin upp nöfn þeirra manna og verkstæða sem komið hefðu að viðgerðum og viðhaldi vélarinnar. Hann hafi einnig fengið upp gefið nafn bónda sem hefði haft umráð vélarinnar undanfarin misseri, en sá væri einnig vélvirki og hefði m. a. notað vélina fyrir fyrirsvarsmann stefnda í sambandi við hrossahald í Efra-Nesi í Stafholtstungum.
Fór stefnandi að Efra-Nesi þar sem dráttarvélin og vagninn voru 15. júlí 2011. Varð úr að stefnandi keypti dráttarvélina og flutningavagninn á 2.500.000 krónur. Tók hann við hinu selda þar og þá. Illa gekk að koma vélinni í gang en stefnandi þurfti aðstoð við það og að koma henni í gír og einnig að aka af stað með vagninn sem var tengur við dráttarvélina. Ók hann síðan að Reykholti og síðan um Uxahryggi að Ósgerði í Ölfusi þar sem hann býr. Kveður stefnandi fyrirsvarsmann stefnda hafi gefið þær upplýsingar áður en gengið var frá kaupunum að búið væri að aka vélinni í 3.900 klst. Einnig að fugl hefði gert sér hreiður í vélarhólfi dráttarvélarinnar sem hafi gert það að verkum að rafkerfi vélarinnar hafi brunnið yfir og því hafi verið skipt um allt rafkerfið í vélinni. Þá hafi hann sagt að vélin hefði öll verið nýuppgerð og yfirfarin. Gengið var frá undirritun kaupsamnings um dráttarvélina og flutningavagninn 25. júlí 2011. Fram kemur í kaupsamningnum að staða á mæli dráttarvélarinnar væri 3.900 klst. og ástandslýsingu seljanda í kaupsamningnum segir að vélin sé öll nýuppgerð og yfirfarin og allt rafkerfi nýtt. Ekki hafi verið gengið frá afsali um vélina þar sem seljandi hafi þá átt eftir að aflétta veðskuldabréfi að fjárhæð 1.500.000 krónur sem hvíldi á 1. veðrétti í vélinni. Stefnandi kveður verulega galla hafa komið í ljós eftir afhendingu dráttarvélarinnar. Lýsi þeir sér m.a. í göllum á vél og rafkerfi en olía leki af gírkassa og vökvakerfi. Stefnandi fór með dráttarvélina á vélaverkstæði Þóris á Selfossi og bað þá jafnframt um söluskoðun á vélinni. Í skýrslu um skoðunina eru gerðar ýmsar athugasemdir varðandi ástand vélarinnar, t.d. um slag í spindli hægra megin, slit í fóðringu á miðjuhlið á framhásingu, kúpling taki ofarlega sem bendi til þess að kúpling sé orðin döpur, leka með vökvadælukerfi, tikk sé í mótor, ljós virki ekki, rúðuþurrkur og rúðusprautur virki ekki o.fl. Lét stefnandi laga aðalleka á gírkassa og vökvakerfi vélarinnar en eftir er að laga leka víðar og rífa þarf út vökvadælu til að koma í veg fyrir leka. Hafi stefnandi fengið þær upplýsingar að viðgerðarkostnaður kunni að nema á bilinu 1.000.000 til 1.500.000 króna.
Með bréfi lögmanns stefnanda dags. 15. ágúst 2011 var lýst yfir riftun kaupanna og gerð krafa um endurgreiðslu kaupverðsins gegn skilum á dráttarvélinni og flutningavagni sem og kröfu um endurgreiðslu á viðgerðarkostnaði. Bauð hann jafnframt að hann héldi vélinni gegn endurgreiðslu 1.139.516 krónum og annaðist þá sjálfur viðgerð á vélinni. Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 31. ágúst 2011 á dskj. nr. 12 var riftun mótmælt.
Stefnandi óskaði eftir dómkvaðningu matsmanns vegna dráttarvélarinnar og lagði fyrir hann sex spurningar og 21. nóvember 2011 var Magnús Þór Jónsson prófessor í vélaverkfræði dómkvaddur til að meta hvort ástand og frágangur á dráttarvélinni MJ-238 hafi verið fullnægjandi ofl. Í niðurstöðu hans í matsgerð dagsettri 8. maí 2012 segir að ástand ljósa, spegla, hlífa, rúðusprautu framrúðu, fóðringar fyrir moksturstæki, miðliðs framhásingar, sætis, tröppu vinstra megin, framfelgu vinstra megin, pumpu fyrir afturhlera, stjórnstangar fyrir beisli, gírskiptistangar, kúplingar, pakkninga fyrir vökvatengi og vél, ásamt vélarhljóði væri ábótavant. Virði dráttarvélarinnar væri skert og hætta á frekara tjóni. Jafnframt, að notkun tækisins ylli slysahættu. Um orsök leka frá vökvadæluhúsi og vél hægra megin segir að það væri vegna ófullnægjandi þéttinga í samskeytum. Á vélinni séu það samskeyti í smurolíurás væntanlega við olíupönnu en á vökvadæluhúsi væru það pakkningar, rörasamskeyti eða pakkdósir sem lækju. Smellir frá vél væru annað hvort ventlabank eða of mikil rýmd stimpla i stimpilhúsi. Um það hvers vegna stefnandi þurfti að láta framkvæma viðgerð vegna olíuleika á kassa og skipta um olíur og síur á gírkassa og skipta um vökvahraðtengi á ámoksturstækjum þá tilgreinir matsmaður að hann hafi ekki verið viðstaddur viðgerð og geti því ekki lagt mat á ástæðum viðgerðar en samkvæmt reikningi hafi viðgerðin verið fólgin í því að skipta út vökvahraðtengjum sem láku, vökvasíum og pakkningum. Kostnaður vegna úrbóta væri 2.177.000 krónur.
Um það hvort vélin hafi við afhendingu hennar þann 15. júlí 2011 öll verið nýuppgerð og yfirfarin og rafkerfi í vélinni nýtt hafi svo ekki verið. Um það hvort gallar hafi getað komið til vegna aksturs hennar frá Efra-Nesi að Ósgerði segir að samkvæmt akstursmæli hefði dráttarvélin verið keyrð 8 klst. frá kaupum. Frávik væru þess eðlis að þau geti ekki verið talin vegna þess aksturs.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi byggir kröfu sína um riftun á því að hin selda dráttarvél hafi við afhendingu verið haldin verulegum göllum og ástand hennar ekki það sem auglýst hafi verið og stefnandi gert ráð fyrir. Er á því byggt að jafnvel þótt stefnda hafi ekki verið kunnugt um galla á vélinni sé um svo verulega vanefnd að ræða að skilyrði riftunar séu til staðar enda hið selda ekki í samræmi við afdráttarlausa lýsingu um eiginleika hins selda í auglýsingu og kaupsamningi. Hið keypta hafi verið auglýst þannig að vélin hafi öll verið nýuppgerð og yfirfarin og rafkerfi í vélinni nýtt sem síðar kom í ljós að var rangt og vélin beinlínis hættuleg þar sem hún getur valdið slysahættu. Beri stefndi ábyrgð á því að þessir kostir hafi ekki reynst vera til staðar en ástand vélarinnar reyndist til muna verra en stefnandi hafið ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti.
Gallar á vélinni séu verulegir eins og framlögð matsgerð sýni fram á og hefðu haft úrslitaáhrif á ákvörðun stefnanda um kaupin hefði honum verið kunnugt um þá. Stefnandi sé ekki sérfræðingur um dráttarvélar og eru gallarnir þess eðlis að þeir fari auðveldlega fram hjá venjulegum kaupanda sem ekki er sérfróður um dráttarvélar. Stefnandi hafi strax tilkynnt stefnda um gallanna er hann varð þeirra var.
Á því er byggt að gallar á dráttarvélinni feli í sér verulega vanefnd af hálfu stefnda á kaupsamningi aðila og eigi stefnandi því skýlausan rétt til að rifta kaupunum og krefjast fullrar endurgreiðslu kaupverðsins. Jafnframt sé gerð krafa um skaðabætur vegna þess útlagða kostnaðar sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda stefnda, en útlagður viðgerðarkostnaður nemi nú 139.516 krónum.
Verði ekki krafist á kröfu stefnanda um viðurkenningu á yfirlýsingu hans um riftun dags. 15. ágúst 2011 og greiðslu skaðabóta sé gerð varakrafa um greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar að mati dómsins. Krafan byggi á sömu málsástæðum og aðalkrafan.
Er á því byggt að hin selda dráttarvél hafi við afhendingu verið haldin verulegum göllum. Hafi hið selda ekki verið búið þeim kostum sem auglýstir hafi verið og tilgreindir séu í kaupsamningi um að vélin væri nýuppgerð og yfirfarin og rafkerfi í vélinni nýtt. Með lýsingu í auglýsingu um vélina og kaupsamningi felist yfirlýsing, sem jafna megi til ábyrgðar á tilteknum kostum hins selda, sem ekki reyndust vera fyrir hendi. Beri stefndi því skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á því tjóni sem rekja má til þessara galla á vélinni. Um galla á vélinni vísast til matsgerðar. þar sem fram komi að viðgerðarkostnaður nemi samtals 2.177.000 krónum.
Jafnframt sé á því byggt að bifreiðin hafi verið haldin leyndum göllum og vísist þar um til 30.- 40. gr. kaupalaga. Stefnandi hafi orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna viðskipta sinna við stefnda en dráttarvélin sé í dag nánast verðlaus.
Skaðabótakrafa stefnanda sem byggi að stærstum hluta á matsgerð nemi samtals 2.316.516 krónum auk dráttarvaxta frá kaupsamningsdegi.
Verði ekki fallist á að stefnandi eigi rétt til skaðabóta sé gerð sú krafa að stefnda verði gert að greiða honum sömu fjárhæð sem afslátt af kaupverði enda hafi gallarnir valdið verðrýrnun á dráttarvélinni sem nemi því að gallarnir væru ekki fyrir hendi.
Á því er byggt að um beint fjártjón sé að ræða sem sé fullsannað með matsgerðinni og framlögðum reikningi.
Stefnandi vísar til almennra reglna kröfuréttar, skaðabótaréttar og reglna samningaréttar um gagnkvæma samninga, skuldbindingargildi loforða og efndir fjárskuldbindinga, vanefndir og afleiðingar þeirra. Þá vísar hann til samningalaga nr. 7/1936, laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 17., 18., 19., 21., 25., 27., 30., 37., 38., 39., 40., 67. og 71. gr. laganna. Um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti er vísað til III. kafla laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum. Um malskostnaðarkröfu vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt byggir á á lögum nr. 50/1988.
Sýknukrafa stefnda aðalkröfu stefnanda er á því reist að hin selda dráttarvél hafi ekki verið haldin neinum þeim göllum þegar kaupin fóru fram sem geti verið grundvöllur riftunar á viðskiptunum.
Afhending söluhlutar í skilningi 2. mgr. 6. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 hafi farið fram 15. júlí 2011. Um leið hafi áhættan af söluhlutnum flust yfir til kaupandans, sbr. 13. gr. sömu laga. Athygli kaupanda hafi verið rækilega á því vakin áður en afhent var að nauðsyn bæri til að rannsaka söluhlut áður en kaupin yrðu afráðin. Nánast megi segja að stefnanda hafi verið þröngvað til að kynna sér ástand tækisins fyrir afhendingu þess. Hann hafi þó ekki hirt um að hafa samband við þá menn sem honum hafi verið tjáð að gætu veitt honum allar upplýsingar um vélina, ástand hennar og viðhald, áður en kaupin voru gerð. Hafi þó verið sérstök ástæða til þess í ljósi þeirrar augljósu staðreyndar að um var að ræða 14 ára gamla dráttarvél sem stefnandi hafði aldrei augum litið áður. Getur stefnandi því ekki borið fyrir sig neitt það sem hann hefði með forsvaranlegri skoðun getað áttað sig á áður en kaupin voru afráðin. Um þetta vísar stefndi til 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000 og til 3. mgr. sömu lagagreinar eftir því sem við á.
Samkvæmt 21. gr. laga nr. 50/2000 skuli við mat á því hvort söluhlutur er gallaður miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flytjist yfir til kaupanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram síðar. Í þessu sambandi vísar stefndi til þess að stefnandi hafi verið alvarlega varaður við því að leggja í ferðalag um hálendisvegi á vélinni um leið og hann veitti henni viðtöku. Stefndi hafi ekki getað aftrað því vegna þess að stefnandi hafi verið búinn að greiða kaupverðið og hafi haft fulla heimild til að fara með vélina eins og honum sýndist. Enginn galli hafi komið fram á ferðalaginu, svo kunnugt sé, a. m. k. hafi stefnandi engan áskilnað gert um slíkt þegar formlegur kaupsamningur var undirritaður 10 dögum síðar. Stefndi telur þess vegna augljóst að stefnandi beri sjálfur alla áhættu af vélinni eftir afhendingu hennar og hafi alla sönnunarbyrði um að vélin hafi ekki verið búin áskildum kostum þegar hún var afhent í Efra-Nesi 15. júlí 2011. Þá sönnunarbyrði hafi stefnandi ekki axlað og ekki lagt fram nein haldbær sönnunargögn um að vélin hafi á því tímamarki verið haldin göllum í skilningi laga nr. 50/2000.
Ekki verði því þó haldið fram að stefnandi hafi ekki reynt að færa fram sönnun um galla á hinu selda. Hann hafi fengið dómkvaddan matsmann til að meta tiltekin atriði varðandi hina seldu dráttarvél. Stefndi telur að matsgerð þessi renni engum stoðum undir kröfugerð stefnanda í málinu. Vélin sé metin miðað við ástand hennar við skoðun matsmanns 20. janúar 2012. Matsmaður geti augljóslega ekki metið hvert ástand umræddra hluta hafi verið við afhendingu vélarinnar hálfu ári fyrr, eftir þá meðferð sem hún hafi hlotið hjá stefnanda strax eftir að hann festi kaup á henni. Stefndi telji augljóst að fjölmörg þeirra atriða sem fram komi í upptalningunni séu þess eðlis að þau hafi verið augljós um leið eða ekki síðar en stefnandi hafi sest upp í vélina, t. d. ástand á gírstöng, stjórnstöng, rúðuþurrkur, rafgeymi, ámoksturstæki o. fl.
Ekkert verði ráðið af svörum hans um það að,,... orsök leka með vökvadæluhúsi og víðar og tikks í mótor." hafi verið ófullnægjandi þegar afhending vélarinnar fór fram.
Um hverjar úrbætur þurfi að gera á dráttarvélinni og hver sé kostnaður vegna þeirra endurbóta sé til þess að líta að ekki hafi verið áskilnaður um það að vél og kúpling væru nýupptekin í vélinni þegar viðskiptin fóru fram. Stefnandi hafi tekið mikla áhættu varðandi meðferð bæði vélar og kúplingar þegar hann hafi ákveðið að fara þá leið á vélinni sem hann fór í framhaldi af kaupum á tækinu. Þá sé ekki heldur tekið tillit til þess í þessu kostnaðarmati hvað af þessum ágöllum hljóti að hafa komið í ljós við venjulega skoðun á vélinni, enda ekki um það spurt í matsbeiðninni. Svar matsmannsins taki þess vegna ekki aðeins til kostnaðar við að gera við það sem virðist hafa farið aflaga eftir viðtöku stefnanda á vélinni, heldur einnig kostnað við aðgerðir sem gera vélina miklu verðmeiri en hún var þegar hún var seld. Um það hvort dráttarvélin hafi við afhendingu hennar verið „öll nýuppgerð og yfirfarin og rafkerfi í vélinni nýtt" segi að ástand dráttarvélarinnar hafi ekki verið í samræmi við það að hún væri nýuppgerð og yfirfarin en tekið sé fram að hluti af því sem ábótavant sé hafi verið augljós galli þegar vélin hafi verið keypt en aðrir þættir séu einungis greinanlegir fyrir sérfræðinga. Hér verði að gæta þess að matsmaðurinn hafi ekki skoðað vélina fyrr en hálfu ári eftir afhendingu hennar. Um akstur frá Efranesi til Ósgerðis í Ölfusi sé þess að gæta að í matsspurningu hafi verið spurt um akstur frá Borgarnesi til Ölfuss en akstursleiðin frá Borgarnesi um þjóðveg 1 til Ölfuss sé verulega frábrugðin hálendisveginum um Uxahryggi. Hafi mat matsmannsins á hugsanlegum orsökum þess sem ábótavant taldist við vélina ekki byggst á réttum forsendum og verði því ekki lagt til grundvallar í málinu um ástand vélarinnar við afhendingu hennar 15. júlí. 2011.
Stefndi mótmælir því samkvæmt framansögðu að skilyrði 39. gr. laga nr. 50/2000 um riftun kaupa séu fyrir hendi, en skilyrði riftunar samkvæmt því ákvæði sé að söluhlutur sé haldinn galla sem seljandi beri ábyrgð á og verði jafnað til verulegra vanefnda á samningi aðila.
Stefndi mótmælir því sérstaklega að honum verði gert að greiða reikning fyrir skoðun eftir kaupin án samráðs við stefnda. Hér sé um að ræða skoðun sem stefnandi hefði sjálfsagt átt að láta framkvæma áður en kaupin voru afráðin og meðan vélin var enn í því ástandi sem hún var þegar afhending fór fram. Þessi kostnaður sé stefnda óviðkomandi.
Samkvæmt 66. gr. laga nr. 50/2000 sé það forsenda riftunar að kaupandi geti skilað söluhlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og hluturinn var í þegar kaupandi veitti honum viðtöku. Samkvæmt því geti riftun ekki náð fram að ganga í þessu tilviki nema því aðeins að lagt verði fyrir stefnanda að skila dráttarvélinni á þann stað sem hann tók við henni og í því ástandi sem hún þá var í. Stefndi telur raunar að þetta sé verulegum vandkvæðum bundið vegna meðferðar stefnanda á vélinni eftir viðtöku hennar og að það geti engum komið koll öðrum en honum sjálfum. Hann hafi allt frá því í ágúst 2011 látið vélina standa eftirlitslausa á útistæði við verkstæði á Selfossi og ekkert hirt um hana, trúlega aldrei gangsett hana hvað þá meir (nema þegar matsmaðurinn skoðaði hana).
Stefndi byggir sýknukröfu sína ennfremur á þeirri málsástæðu að tómlæti stefnanda um að fylgja eftir ætluðum kröfum sínum á hendur stefnda valdi því að hann hafi fyrirgert riftunarrétti sínum, hafi hann einhvern tíma verið til staðar. Stefnandi hafi sent stefnda tilkynningu 15. ágúst 2011 þar sem hann hafi lýst yfir riftun kaupanna en gert stefnda jafnframt boð um að leysa málið með greiðslu afsláttar að fjárhæð 1.139.516 krónur. Bréfinu hafi verið svarað 31. sama mánaðar og því mótmælt að skilyrði riftunar væru til staðar. Stefnandi hafi fengið dómkvaddan matsmann 23. nóvember 2011 til að meta ástand dráttarvélarinnar og matsgerðin legið fyrir í maí 2012. Með bréfi 21. maí 2012 hafi stefnandi gert kröfu með vísan til matsgerðarinnar og boðað að dómsmál yrði höfðað um kröfurnar innan. 7 daga ef greiðsla bærist ekki. Ekkert hafi síðan heyrst frá stefnanda í heila sjö mánuði, en stefnda hafi verið birt stefnda 18. desember 2012, en hafi verið liðið tæpt 1 ½ ár frá afhendingu vélarinnar. Telur stefndi að þessi langi dráttur á því að fylgja riftunarkröfunni eftir valdi því að riftunarkrafa geti ekki komið til greina, enda ljóst að verðmæti slíks tækis sem allan tímann sé væntanlega látið standa ónotað hljóti að rýrna verulega.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda gerir hann kröfu um að kröfur stefnanda verði aðeins teknar til greina að hluta, þ. e. að stefndi verði dæmdur til að veita stefnanda afslátt af kaupverði vélarinnar, sbr. 37. gr. laga nr. 50/2000. Afsláttur geti þó aldrei orðið vegna annarra þátta en þeirra sem sannað teljist að hafi verið áfátt við vélina á þeim tíma er stefnandi tók við henni og dómurinn telur að ekki hefðu komið fram við vandlega skoðun ef kaupandi hefði látið framkvæma hana áður en kaupin fóru fram. Raunar telur stefndi að sönnun um slík atriði sé nánast útilokuð, og að stefnandi beri hallann af því.
Í kröfu um riftun felist eins og áður segir að hvor aðili skuli skila til baka því sem hann tók við í viðskiptunum. Fari svo, gegn væntingum stefnda, að riftunarkrafa stefnanda verði tekin til greina gerir stefndi kröfu til þess að hvor aðili um sig skili því sem hann tók við. Í því felst að leggja verði skyldu á stefnanda að skila umræddri dráttarvél til stefnda þangað sem hann tók við henni og í því ástandi sem hún þá var. Verði af einhverjum ástæðum talið að slíkt sé ekki unnt hljóti slíkt að leiða til þess að endurgreiðslukrafa stefnanda verði lækkuð sem nemi kostnaði við að koma vélinni á áfangastaðinn, svo og kostnaði við að lagfæra það sem aflaga hafi farið eftir að stefnandi tók við vélinni. Gerir stefndi kröfu um að dómurinn meti þessi atriði sjálfstætt, verði riftunarkrafan á annað borð samþykkt.
Stefndi vísar um málskostnaðarkröfu sína til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þess er krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefndi ber kostnað af virðisaukaskatti vegna þóknunar lögmanns.
NIÐURSTAÐA
Eins og hér að framan er rakið kom stefnandi að Efra-Nesi 15. júlí 2011 til þess að sækja dráttarvél þá og vagn sem hann hugðist kaupa. Sjálfur sagðist hann ekki hafa þekkingu á dráttarvélum, hefði þó ekið Massey Fergusson traktor hjá ömmu sinni í sveit. Hann skoðaði vélina í stuttan tíma, kannski hálftíma, að því er hann sagði og var ekki búinn að aka henni áður en hann keypti. Hann greiddi kaupverðið á staðnum og að því búnu bjó hann sig til farar frá Stafholtstungum í Borgarfirði að Ósgerði í Ölfusi. um Uxahryggi. Fram kom hjá vitninu Magnúsi Þór Jónssyni dómkvöddum matsmanni að fagmaður myndi sjá greinilega hvað að var við söluskoðun og vitnið Þórir L. Þórarinsson sem framkvæmdi söluskoðun hinn 27. júlí 2011 sagði að þetta hafi blasað við um leið og litið var á vélina. Stefnandi tók þannig við hinu selda og greiddi kaupverð eftir að hafa skoðað dráttarvélina í einungis um hálftíma og án þess að hafa reynt að aka henni. Það er álit dómsins að þegar litið er til framburðar vitnanna Þóris og Magnúsar hafi stefnandi mátt sjá að gallar voru á vélinni og hún ekki í því ástandi sem ætla hafi mátt af auglýsingu. Þá er fram komið að forsvarsmaður stefnda beindi því til stefnanda að láta skoða vélina áður en hann keypti hana en stefnandi skeytti því engu og tók við henni við svo búið. Þykir stefnandi hafa vanrækt skoðunarskyldu sína í þeim mæli að hafna ber öllum kröfum hans á hendur stefnda og samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskattur.
Við uppkvaðningu dóms er gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Allan Vagn Magnússon dómstjóri kvað upp þennan dóm.
DÓMSORÐ
Stefndi, Hólsfell ehf., skal sýkn af krögum stefnanda, Skúla Gunnars Sigfússonar.
Stefnandi greiði standa 500.000 krónur í málskostnað.