Hæstiréttur íslands

Mál nr. 75/2004


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Handtaka
  • Miskabætur
  • Gjafsókn


Föstudaginn 18

 

Föstudaginn 18. júní 2004.

Nr. 75/2004.

Íslenska ríkið

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

gegn

Guðrúnu Pétursdóttur

(Jóhann H. Níelsson hrl.)

og gagnsök

 

Gæsluvarðhald. Handtaka. Miskabætur. Gjafsókn.

G, sem hafði verið handtekin og sætt gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglu á mannsláti, krafðist miskabóta þar sem hún taldi aðgerðirnar hafa verið ólögmætar. Talið var að G ætti samkvæmt XXI. kafla laga nr. 19/1991 rétt til miskabóta úr hendi Í vegna gæsluvarðhalds sem hún sætti án nægs tilefnis, eftir að því sem talin var lögmæt frelsissvipting hennar lauk. Við ákvörðun um fjárhæð bóta þótti hins vegar ekki verða hjá því komist að taka jafnframt tillit til þess að með háttsemi sinni átti G sjálf nokkra sök á því hve lengi hún sat að óþörfu í gæsluvarðhaldi. Að því virtu þóttu bætur til G hæfilega ákvarðaðar 300.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara, að kröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. mars 2004. Hún krefst þess, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 15.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. apríl 2002 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

I.

Laust eftir miðnætti 10. mars 2002 var lögregla kvödd að [ . . ] í Kópavogi. Skömmu áður hafði gagnáfrýjandi tilkynnt um neyðarlínu að V lægi þar meðvitundarlaus. Við komu lögreglu á vettvang reyndist hann vera látinn. Gagnáfrýjandi var á vettvangi ásamt öðrum manni og voru bæði mjög ölvuð. Af ummerkjum þar og áverkum á líkinu var ljóst að frekari lögreglurannsóknar var þörf. Voru þau handtekin skömmu síðar sömu nótt og yfirheyrð næsta dag, en látin laus að lokinni yfirheyrslu. Gagnáfrýjandi var yfirheyrð á ný 11. mars 2002 og hafði sem fyrr réttarstöðu sakbornings. Daginn eftir var hún úrskurðuð í gæsluvarðhald til 19. mars 2002, sem var framlengt þann dag til 10. apríl sama árs. Hún var látin laus næsta dag í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness, sem hafnaði kröfu lögreglu um frekari framlengingu gæsluvarðhalds yfir henni. Málavöxtum er nánar lýst í héraðsdómi.

Ríkissaksóknari tilkynnti gagnáfrýjanda 16. október 2002, að ákveðið hafi verið með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að aðhafast ekki frekar gagnvart henni í málinu.

Í  málinu krefst gagnáfrýjandi miskabóta. Telur hún að hvorki hafi verið lögmæt skilyrði til handtöku hennar 11. mars 2002 né til að úrskurða hana í gæsluvarðhald 12. til 19. sama mánaðar né að framlengja það gæsluvarðhald þar til hún var látin laus 11. apríl sama árs.

II.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu hans að uppfyllt hafi verið skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 til að handtaka gagnáfrýjanda og    a. liðar 1. mgr. 103. gr. sömu laga til að úrskurða hana í gæsluvarðhald frá 12. mars 2002 til 19. sama mánaðar, en ekki hafi verið alveg næg efni eins og rannsókn málsins stóð þá til frekari frelsissviptingar eftir þann tíma. Er jafnframt fallist á niðurstöðu héraðsdómara um framkvæmd gæsluvarðhaldsins og afleiðingar þess.

Gagnáfrýjandi á samkvæmt XXI. kafla laga nr. 19/1991 rétt til miskabóta úr hendi aðaláfrýjanda vegna gæsluvarðhalds, sem hún sætti án nægs tilefnis frá 19. mars 2002 til 10. apríl sama árs og vegna frelsissviptingar hennar fram að því að héraðsdómari hafnaði kröfu um gæsluvarðhald daginn eftir. Við ákvörðun um fjárhæð bóta verður hins vegar ekki hjá því komist að taka jafnframt tillit til þess að með háttsemi sinni átti gagnáfrýjandi sjálf nokkra sök á því hve lengi hún sat að óþörfu í gæsluvarðhaldi. Er þá meðal annars til þess að líta að samkvæmt frumskýrslu lögreglu var framburður gagnáfrýjanda mjög ruglingslegur. Er bókað eftir henni að ýmist hafi hún komið á vettvang fyrr um daginn, fyrr um morguninn eða verið nýkomin, hún hafi séð að eitthvað væri að V og því hringt eftir aðstoð. Í símtali hennar við neyðarlínu er hófst kl. 00.05 aðfaranótt 10. mars sagði hún ítrekað að hún hafi verið að koma á vettvang, og að V „andi“. Við rannsókn málsins eftir það varð hins vegar ljóst að þessi frásögn hennar stóðst ekki þar sem fram kom að hún hafi dvalið í íbúðinni í nokkrar klukkustundir þegar hún hringdi í neyðarlínuna og að V hafi látist á tímabilinu frá kl. 20 til 23 þann 9. mars 2002. Gagnáfrýjandi var yfirheyrð hjá lögreglu við rannsókn málsins 10. mars, 11. mars 14. mars 16. mars og 9. apríl. Hún var einnig yfirheyrð fyrir dómi í tilefni af kröfu um gæsluvarðhald yfir henni 10. apríl sama árs. Hún tjáði sig um sakarefnið í öll skiptin, en fyrir dómi 12. mars 2002 neitaði hún að tjá sig. Í ljósi rannsóknargagna fær framburður gagnáfrýjanda ekki staðist um nokkur atriði, sem þýðingu höfðu við rannsókn málsins. Kvaðst hún meðal annars ekkert blóð hafa séð á vettvangi, en ljóst er af gögnum málsins að blóð hefur verið þrifið á gólfi við líkið. Gátu ekki aðrir hafa átt þar hlut að máli en hún sjálf eða maðurinn, sem var með henni og V þá um kvöldið. Frá upphafi hefur framburður hennar verið óstöðugur um ýmis atriði. Þannig sagði hún í símtalinu við starfsmann neyðarlínunnar að V væri á lífi, en við rannsókn málsins hélt hún því fram að þá hafi hann verið orðinn kaldur. Þá er ósamræmi í því, sem eftir henni var haft á vettvangi, og framburði hennar í síðari skýrslum um hvernig aðdragandi var að láti V. Þegar framferði hennar við upphaf og rannsókn málsins er virt þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Dráttarvextir af þeim ákveðast eins og segir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Guðrúnu Pétursdóttur, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. apríl 2003 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

 

       

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2003.

I

          Mál þetta var höfðað 15. apríl 2003 og dómtekið 12. nóvember 2003.

          Stefnandi er Guðrún Pétursdóttir, [kt.], Giljalandi 23, Reykjavík, en  stefndi er íslenska ríkið og er dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra stefnt fyrir hönd þess.

          Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 15.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. apríl 2002 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

          Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður.  Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur verði lækkaðar verulega og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.

II

Málavextir eru þeir að kl. 00.05 aðfararnótt sunnudagsins 10. mars 2002 var lögreglan í [...] kölluð að íbúð A að [...].  Þegar lögreglan kom á staðinn var A látinn.  Í íbúðinni umrætt sinn var stefnandi stödd ásamt B.  Lögreglan taldi ljóst af ummerkjum á vettvangi að frekari rannsóknar væri þörf og boðaði rannsóknardeild lögreglunnar á staðinn.

Stefnandi var handtekin kl. 1.15 í þágu rannsóknar á andláti A og 00.50 var áðurnefndur B handtekinn í þágu rannsóknar málsins.  Í kjölfar handtökunnar var stefnandi færð á Landspítalann í Fossvogi þar sem tekið var af henni blóð- og þvagsýni vegna rannsóknar málsins og að því loknu var hún vistuð í fangageymslu. 

Sunnudaginn 10. mars 2003 kl. 15.17 var stefnandi færð til yfirheyrslu hjá lögreglu sem sakborningur og var hún grunuð um að eiga saknæma aðild að andláti A.  Stefnanda var síðan sleppt að loknum yfirheyrslum.

Stefnandi var síðan handtekin á ný þann 11. mars 2002 og daginn eftir var hún úrskurðuð í gæsluvarðhald til 19. mars 2002.  Gæsluvarðhaldið var svo framlengt til 10. apríl 2002 en þann 11. apríl 2002 var stefnandi látin laus eftir að Héraðsdómur Reykjaness hafði hafnað kröfu um frekari framlengingu gæsluvarðhalds yfir stefnanda.

Með bréfi 16. október 2002 var stefnanda tilkynnt að málið væri fellt niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem það sem fram væri komið í málinu væri ekki talið nægilegt eða líklegt til sakfellis.

Með bréfi 28. maí 2003 til sýslumannsins í [...] óskaði lögmaður stefnanda eftir því að haldlagðir munir stefnanda yrðu afhentir.  Þeirri kröfu var hafnað að svo stöddu með bréfi 11. júní 2003 þar sem afstaða hefði ekki verið tekin til óska erfingja A um frekari rannsókn málsins.  Þeirri ósk erfingjanna var síðar hafnað.  Lögmaður stefnanda ítrekaði kröfu sína um afhendingu haldlagðra muna með bréfum 9. júlí og 12. september 2003 og voru þeir loks afhentir stefnanda 9. október 2003.

Stefnandi fékk þann 14. maí 2003 leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til gjafsóknar.

Stefnandi krefst bóta þar sem hún hafi verið handtekin og látin sæta gæsluvarðhaldi og einangrun að ósekju.  Stefndi hafnar bótaskyldu þar sem lögmæt skilyrði hafi verið til handtöku stefnanda og gæsluvarðhaldsvistunar.

 

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að ekki hafi verið lögmæt skilyrði, eða í öllu falli eins og á stóð, ekki nægilegt tilefni til handtöku hennar hinn 11. mars 2002 eða til að úrskurða hana í gæsluvarðhald 12. mars 2002 og því síður að framlengja gæsluvarðhaldið og láta hana sitja í gæsluvarðhaldi allt til 11. apríl 2002.  Hafi framkvæmd gæsluvarðhaldsvistar hennar verið mun hættulegri og meira særandi og móðgandi en þörf hafi verið á.

Stefnandi kveðst hafa verið látin laus úr haldi lögreglu hinn 10. mars 2002 eftir að hafa verið yfirheyrð með réttarstöðu sakbornings þar sem hún hafi lýst því yfir að hafa heyrt A detta inni í herbergi.  Hún hafi síðan breitt yfir hann sæng þar sem hún hafi haldið að hann svæfi.  Hún hafi jafnframt borið að engin átök eða deilur hafi átt sér stað í íbúðinni.

Stefnandi hafi svo verið yfirheyrð á ný hjá lögreglu að kvöldi 11. mars 2002 og hafi þá engin ný gögn legið fyrir hjá lögreglu sem máli skiptu nema bréf réttarmeinafræðings þar sem fram hafi komið að A hefði látist af völdum sljós áverka á kviði sem valdið hefði rifu á lifur og hafi hann látist af völdum innvortis blæðinga.  Þá hafi komið fram í bréfinu að ekki væri hægt að segja hvað hafi valdið áverkanum en ljóst væri að hann hefði ekki valdið dauða samstundis.  Þá virðist hafa legið fyrir að við vettvangsrannsókn hafi fundist leifar af blóði á gólfi og vegg í svefnherbergi og í handlaug á salerni.

Stefnandi telur að gögn þessi hafi ekki gefið tilefni til handtöku hennar.  Hafi þau í fyrsta lagi ekki getað talist veita rökstuddan grun um að stefnandi hafi ráðist á A og valdið honum dauða eða brotið gegn 220. gr. almennra hegningarlaga, en ekki verði af bréfi réttarmeinafræðingsins ráðið að A hefði látist af völdum árásar.  Í öðru lagi verði ekki séð að uppfyllt hafi verið skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um að handtakan hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist stefnanda og öryggi eða til að koma í veg fyrir að hún spillti sakargögnum.  Verði í þessu sambandi að hafa í huga að stefnandi hafði að kvöldi 11. mars 2002 gengið laus í um sólarhring og hefði því þá þegar getað verið búin að spilla sakargögnum, hafa áhrif á vitni og aðra hefði hún haft hug á því.  Þá verði ekki hægt að sjá að ástæða hafi verið til að óttast að ekki væri unnt að tryggja návist stefnanda, eða önnur skilyrði verið fyrir hendi sem heimilaði lögreglu handtöku stefnanda.

Af gögnum málsins verði ráðið að stefnandi hafi komið sjálfviljug með lögreglu og gefið skýrslu.  Megi því líta svo á að lögregla hafi ekki talið ástæðu til að handtaka stefnanda á heimili hennar og færa til skýrslutöku.  Þá hafi svör hennar í skýrslutökunni ekki gefið tilefni til handtöku.  Ekki verði séð að rituð hafi verið skýrsla um handtökuna eða hvenær hún hafi átt sér stað, sbr. 19. og 20. gr. reglugerðar nr. 395/1997.  Sé því ekki unnt að miða handtökuna við annað tímamark en upphaf skýrslutöku kl. 20.37 nema ef vera skyldi kl. 21.35 þegar lögreglan hafi hvatt hana til að hafa samband við lögmann sinn.  Samkvæmt framansögðu telur stefnandi að ekki hafi verið lögmæt skilyrði til handtöku hennar greint sinn eða í öllu falli ekki nægilegt tilefni til þess og eigi hún því rétt á skaðabótum úr hendi stefnda.

Stefnandi kveður að rannsókn lögreglu hefði átt að vera venjuleg lögbundin rannsókn vegna mannsláts, sbr. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991.   Markmið hennar hefði átt að vera að leiða í ljós eins og unnt hafi verið hvernig andlátið hafi borið að höndum.  Lögregla virðist hins vegar fljótlega hafa beint rannsókninni að meintri líkamsárás stefnanda og B, svo og meintu broti þeirra gegn 220. gr. almennra hegningarlaga, sbr. skýrslur af þeim, en í kröfum um gæsluvarðhald hafi meint brot þeirra ávallt verið talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Á lögreglu hafi hvílt sú skylda að rannsaka hlutlægt hvernig dauða A hafi borið að.  Í kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir stefnanda 12. mars 2002 komi berlega í ljós að lögreglan hefði þegar gert sér upp skoðun á því hvernig A hefði látist, svo og hver aðdragandi þess hefði verið.  Segi í kröfunni að allt bendi til þess að stefnandi hafi, ein eða ásamt B, lent í rifrildi við A, líklega út af peningum, sem A hefði sagt þeim að hann ætti.  Þetta hafi svo endað með átökum.  Þá hafi A hlotið áverka á lifur þegar hann hafi annað hvort verið kýldur í maga, sparkað hafi verið í hann eða hann laminn í magann með hlut sem ekki hafi verið með hart yfirborð.  Í þeim átökum hafi hann einnig hlotið skurð á vinstri augabrún framan við gagnauga.

Telur stefnandi með ólíkindum hversu langt lögregla hafi gengið í að bera sakir á stefnanda.  Í fyrsta lagi hafi ekkert legið fyrir um að stefnandi og/eða B hafi lent í rifrildi við A og því síður að það rifrildi hefði snúist um peninga.  Í öðru lagi hafi þá þegar legið fyrir að bæði stefnandi og B hefðu þvertekið fyrir að þau hefðu staðið í átökum við A í íbúðinni og ekki verið til að dreifa framburði annarra þar um.  Þá hafi lögreglan engan veginn haft tilefni til að fullyrða að slegið eða sparkað hefði verið í kvið A en réttarmeinafræðingurinn hafi ekki getað sagt til um orsakir áverka A.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafi réttarmeinafræðingur talið að A hefði látist milli kl. 20.00 og 23.00 laugardagskvöldið 9. mars 2002.  Í bréfi réttarmeinafræðingsins, dagsettu 11. mars 2002, hafi staðið að áverkar hefðu ekki leitt til dauða samstundis.  Ekki hafi því annað legið fyrir en að A hefði getað orðið fyrir áverkum á kvið löngu fyrir kl. 20.00 umrætt laugardagskvöld.  Þá sé heldur ekkert sem styðji fullyrðingu lögreglu um að A hafi hlotið skurð á vinstri augabrún í átökum við stefnanda og/eða B.

Framangreindum vafasömum ályktunum lögreglu um dauða A og meinta refsiverða háttsemi stefnanda þar að lútandi hafi lögregla haldið óbreyttum síðar þegar kröfur voru gerðar um gæsluvarðhald yfir stefnanda og virðist lögregla frá upphafi hafa verið búin að ákveða sekt stefnanda og hafi allar aðgerðir lögreglunnar því miðast við það.

Stefnandi telur að ekki hafi verið lögmæt skilyrði til að úrskurða hana í gæsluvarðhald hinn 12. mars 2002.  Hafi úrskurður byggst á röngum og villandi upplýsingum og ályktunum lögreglu.  Þá hafi allt verið gert til að tortryggja framburð stefnanda og B.  Þannig hafi í kröfu um gæsluvarðhald verið vísað til þess að engin húsgögn eða munir hefðu verið í svefnherbergi sem gætu hafa valdið A áverka og þannig gefið í skyn að framburður stefnanda væri rangur.  Þó hafi þá legið fyrir að áverki á lifur A hefði ekki valdið dauða samstundis og miðað við upplýsingar réttarmeinafræðings um dánarstund væru allt eins miklar líkur á að hann hefði hlotið áverkann annars staðar og löngu áður en hann kom ásamt gestum sínum að heimili sínu umrætt kvöld.

Þá sé gert tortryggilegt að stefnandi og B hafi ekki hringt í neyðarlínu fyrr en klukkustund eftir að A hafi látist í síðasta lagi.  Hafi þau enga trúverðuga skýringu gefið á þessu.  Þetta telur stefnandi rangt og hafi lögreglan ekkert tilefni haft til að draga slíka ályktun af framburðarskýrslum stefnanda.

Þá sé því slegið fram að framburður stefnanda um hvernig A hafi hlotið áverka hafi verið mjög reikull og ótrúverðugur.  Þessi fullyrðing lögreglu sé engum gögnum studd og beinlínis röng.  Stefnandi hafði verið yfirheyrð tvisvar á þessum tíma og hafði hún neitað að til átaka og deilna hafi komið og hafi hún borið um málsatvik eins skýrt og henni var unnt með tilliti til ölvunar hennar umrætt kvöld.  Hafi bæði stefnandi og B borið að A hafi verið eitthvað slappur og hafi stefnandi getið um að hann hefði verið slappur dagana á undan.  Þá hafi B haldið að A kynni að hafa verið dauðadrukkinn svo sem í ljós hafi komið við krufningu.  Verði ekki séð að lögregla hafi gert nokkuð til að rannsaka þessi atriði sem skýrt hefðu getað andlát A.  Þá verði ekki séð að lögregla hafi aflað sér upplýsinga um hversu löngu fyrir andlátið líklegt væri að hinn látni hafi fengið áverkann sem leiddi hann til dauða.

Sé ljóst að lögregla hafi gengið alltof langt í að draga ályktanir um sekt stefnanda í kröfu sinni um gæsluvarðhald og hafi málið verið kynnt dómara með öðrum og verri hætti fyrir stefnanda en nokkurt tilefni hafi verið til.  Að mati stefnanda hafi ekki verið fram kominn rökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála um að hún hefði framið þann verknað sem henni hafi verið gefinn að sök heldur einungis verið um að ræða getgátur lögreglu, byggðar á vafasömum og órökstuddum ályktunum um atvik máls.

Auk þessa telur stefnandi að ekki hafi verið fyrir hendi það skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um að stefnandi myndi torvelda rannsókn málsins.  Í gæsluvarðhaldskröfu hafi verið tiltekin fjögur atriði sem rannsókn lögreglu myndi beinast að.  Í fyrsta lagi tæknirannsókn á vettvangi og fötum A, stefnanda og B.  Sé ljóst að stefnandi hafi engin tök haft á að torvelda þá rannsókn.  Í öðru lagi að beðið væri eftir endanlegri niðurstöðu krufningar og réttarfræðilegra rannsókna.  Stefnanda hafi verið ógerlegt að torvelda þá rannsókn.  Í þriðja lagi hafi lögregla vísað til þess að eftir ætti að taka skýrslur af stefnanda, B og vitnum án þess að þau væru tilgreind sérstaklega..  Ekki hafi getað verið tilefni til að ætla að stefnandi myndi torvelda þá rannsókn enda hafði hún þegar verið laus í sólarhring.  Í fjórða lagi ætti eftir að skoða símtöl en ljóst sé að stefnandi hafi engin áhrif getað haft á þá rannsókn.

Verði talið að efni hafi verið til að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald þann 12. mars 2002 byggir stefnandi á að ekki hafi verið fyrir hendi lögmæt skilyrði til að úrskurða hana í áframhaldandi gæsluvarðhald með úrskurði 18. mars 2002.

Við fyrirtöku kröfunnar um framlengingu gæsluvarðhaldsins hafi stefnandi verið yfirheyrð annað sinn fyrir dómi um málsatvik.  Þá hafi hún verið yfirheyrð af lögreglu fjórum sinnum.  Hafi hún ávallt borið eins um málsatvik.  Hið sama eigi við um B.  Þá hafði lögregla rætt við nágranna, tekið skýrslur af sjö vitnum og gert skýrslur um samtöl við fjögur vitni.  Þá hafði lögregla skoðað myndbandsupptökur og fengið skrár um símhringingar.  Vettvangsskýrsla hafði verið gerð og mappa með ljósmyndum frá krufningu.  Föt stefnanda, B og hins látna höfðu verið rannsökuð.

Þrátt fyrir allt þetta hafi lögregla haldið því fram að rannsókn væri á frumstigi.  Hafi lögreglan byggt málatilbúnað sinn á sömu hæpnu ályktununum og áður að því viðbættu að ljóst væri að yfirborðsáverkar á kvið hefðu verið öðruvísi ef um fall á hlut hefði verið að ræða.  Sú fullyrðing sé órökstudd og engin gögn styðji hana.  Þá sé því og slegið fram að blóð hafi fundist á peysu, gallabuxum og skóm stefnanda.  Þetta sé rangt því að í skýrslu tæknideildar sé tekið fram að fundist hafi litlar flúragnir á skóm og mjög litlar á peysu og buxum sem gætu greinst sem blóð.  Við DNA-rannsókn síðar hafi komið í ljós að prófun fyrir blóði hafi reynst vera neikvæð.  Þá hafi verið tekið fram að íbúar hafi heyrt læti frá íbúðinni umrætt kvöld en þess látið ógetið að nær allir hafi talað um sambærilegan hávaða og þar hefði verið kvöld eftir kvöld um langt skeið.  Þá sé þeirri órökstuddu fullyrðingu slegið fram að ráða mætti af rannsóknargögnum og framburði stefnanda að hún hefði meiri vitneskju um það sem gerst hefði umrætt sinn en fram hefði komið hjá henni.

Í úrskurði héraðsdóms um framlengingu gæsluvarðhalds hafi því verið slegið föstu að rannsókn málsins væri á frumstigi og því ljóst að stefnandi gæti torveldað rannsókn málsins svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða samseka og spilla sakargögnum.  Sé vandséð með hvaða hætti þetta hefði átt að gerast.  Í kröfu lögreglustjóra hafi verið tilgreind fjögur atriði sem rannsóknin myndi beinast að.  Í fyrsta lagi tæknirannsókn á vettvangi, þótt ljóst hafi verið að hún hefði þegar farið fram og stefnandi hafi engin áhrif getað haft á hana.  Í öðru lagi þyrfti að senda blóðsýni utan til DNA-greiningar.  Hafi stefnandi engin tök haft á að spilla þeim sakargögnum.  Í þriðja lagi væri enn beðið niðurstaðna krufningar og réttarefnafræðilegra rannsókna.  Stefnandi hafi ekki getað haft áhrif á þær rannsóknir.  Þá hafi verið bent á að frekari skýrslutökur væru fyrirhugaðar af stefnanda, B og vitnum. 

Stefnandi hafi þegar á þessum tíma verið yfirheyrð í þaula sex sinnum.  Hafi framburður hennar í öllum meginatriðum verið sá sami frá upphafi og hvorki reikull né ótrúverðugur eins og lögregla hafi haldið fram.  Þá hafi hann í öllum aðalatriðum verið í samræmi við framburð B.  Hafi skýrslutökum af vitnum verið að mestu leyti lokið og það sem eftir lifði rannsóknar hafi lögregla einungis séð ástæðu til að taka skýrslur af þremur vitnum til viðbótar og tekið viðtal við þrjá aðila.  Ekki liggi annað fyrir en þegar þann 18. mars 2002 hafi lögregla getað verið búin að taka skýrslur af öllum þessum vitnum og haft til þess næg tækifæri.  Framburður þeirra hafi haft litla þýðingu í málinu og ekki leitt til nýrra upplýsinga.  Engin ástæða hafi verið til að ætla að stefnandi myndi reyna að hafa áhrif á framburði þeirra.  Stefnandi hafi svarað öllum spurningum greiðlega eftir bestu getu og lagt sig alla fram við að upplýsa málið.  Hafi því rannsókn málsins í öllum meginatriðum verið lokið hinn 18. mars 2002 og engin ástæða til að ætla að stefnandi myndi torvelda frekari rannsókn þess.

Verði þrátt fyrir framangreint talið að þörf hafi verið á því að stefnandi sætti áframhaldandi gæsluvarðhaldi sé á því byggt að hún hafi setið lengur í gæsluvarðhaldi en þörf hafi verið á.  Samkvæmt 2. ml. 2. mgr. 105. gr. skuli láta sakborning lausan þegar ástæður til gæslu séu ekki lengur fyrir hendi.  Hafi rannsóknarnauðsynjar verið fyrir hendi 18. mars 2002 sé ljóst að þær hafi fallið niður löngu áður en gæsluvarðhaldstíminn rann út 10. apríl 2002.  Þannig hafi verið lokið við síðustu skýrslu um viðtöl við nágranna að kveldi 18. mars 2002, skýrslugerð um skoðun á myndbandsupptökum frá veitingastað í [...] hafi lokið 20. mars, lögreglu hafi borist öll gögn formlega frá tæknideild 25. mars 2002 og skýrslutökum af vitnum hafi lokið 8. apríl 2002.  Þá hafði lögregla yfirheyrt stefnanda fimm sinnum og B sex sinnum hinn 3. apríl 2002 og enn og aftur hafi þau verið yfirheyrð 9. apríl 2002.  Var því að mati stefnanda ekkert tilefni til þess að hún væri látin sitja svo lengi í gæsluvarðhaldi sem raun varð á.

Verði talið að tilefni hafi verið til að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi í allan þann tíma sem raun varð á sé á því byggt að framkvæmd þess hafi verið særandi og móðgandi og óþarflega hættulegt með tilliti til heilsu hennar en hún hafi verið 65% öryrki.  Hafi hún sætt einangrun allan tímann sem sé andstætt meginreglu c-liðar 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.  Þá hafi hún sætt bréfaskoðun og heimsóknar-, síma- og fjölmiðlabanni meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stóð, sem sé í andstöðu við meginreglur 1. mgr. 108. gr. og ákvæði reglugerðar um gæsluvarðhaldsvist nr. 179/1992.  Hafi augljóslega verið gengið lengra en tilefni hafi verið til, sér í lagi eftir að líða tók á gæsluvarðhaldsvistina.  Eigi stefnandi því af þessum sökum rétt til bóta.

Um rétt sinn til bóta vísar stefnandi til 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mælt sé fyrir um það að maður skuli eiga rétt til skaðabóta hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju.  Þá byggi hún bótarétt sinn ennfremur á ákvæðum 175. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála enda hafi lögmæt skilyrði skort til handtöku hennar og 31 dags frelsissviptingar í einangrun eða í öllu falli hafi ekki verið nægilegt tilefni til slíkra aðgerða.  Beri stefnanda því bætur úr ríkissjóði.  Fyrir liggi að mál á hendur stefnanda hafi verið fellt niður og ákæra ekki gefin út.  Eigi stefnandi því rétt til bóta enda verði stefnandi hvorki sökuð um að hafa valdið eða stuðlað að aðgerðum lögreglu og dómstóla gagnvart henni þannig að efni séu til að lækka eða fella niður bætur.

Ljóst sé að stefnandi sem sé öryrki hafi orðið fyrir stórfelldum miska í kjölfar aðgerða lögreglu.  Sé krafan sett fram í einu lagi vegna ólögmætrar handtöku og gæsluvarðhalds að ósekju.  Við mat á miska verði að hafa í huga að stefnandi hafi verið ranglega sökuð manndráp sem sé alvarlegasti glæpur sem hægt sé að fremja.  Hafi henni verið gefið að sök að vera völd að dauða besta vinar síns.  Henni hafi verið gert að sitja í einangrun í sorg sinni og ekki verið leyft að vera við útför hans eða skrifa minningargrein um hann.  Hafi einangrunarvistin haft í för með sér verulegar þjáningar fyrir stefnanda, sem meðal annars hafi þjáðst af svefnleysi, alvarlegum kvíðaköstum, þunglyndi og innilokunarkennd.  Henni hafi verið bannað að fá heimsóknir og nota síma, auk fjölmiðlabanns og bréfaskoðunar.  Hún hafi verið sárkvalin af einmanakennd og andlegri vanlíðan.  Hafi bæði líkamlegri og geðrænni heilsu hennar hrakað mjög vegna einangrunarvistunarinnar og örorka hennar aukist úr 65% í 75%.

Þá sé þess að geta að ásakanir og aðgerðir lögreglu og dómstóla hafi gert það að verkum að stefnandi geti enn þann dag í dag ekki um frjálst höfuð strokið.  Hafi þær orðið tilefni mikillar fjölmiðlaumræðu sem valdið hafi stefnanda og fjölskyldu hennar verulegum þjáningum.

Þegar litið sé til framangreinds, lengd frelsissviptingar stefnanda í algerri einangrun og að öðru leyti til atvika máls, sérstaklega þess hversu langt lögregla gekk í að fella sök á stefnanda verði að telja miskabótakröfu stefnanda mjög í hóf stillt.

Um lagarök að öðru leyti en rakið er að framan vísar stefnandi til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979.  Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt við ákvæði laga nr. 50/1988.  Um varnarþing vísar hún til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Stefndi telur að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir handtöku stefnanda, sbr. 97. gr. laga nr. 19/1991.  Hafi aðstæður á vettvangi verið þannig að grunur hafi vaknað um að andlát A hefði ekki borið að með eðlilegum hætti.  Hinn látni hafi legið á gólfinu í svefnherbergi íbúðarinnar.  Á gólfinu hafi verið bleyta og föt hins látna blaut.  Þá hafi hár hans einnig verið blautt og í því verið greiða.  Sæng og koddi sem hann hafði hafi einnig verið blaut.  Þá hafi hinn látni verið með skrámur í andliti en ekkert blóð eins og ætla hefði mátt miðað við skrámurnar.  Stefnandi hafi verið á staðnum og verið ölvuð þannig að ekki hafi verið hægt að yfirheyra hana.  Því var hún verið færð í fangageymslur og látin sofa úr sér og síðan yfirheyrð daginn eftir og sleppt eftir það.  Hún hafi svo verið handtekin á ný þann 11. mars 2002 en þá hafi legið fyrir niðurstaða réttarmeinafræðings.  Í ljósi aðkomu á vettvangi og niðurstöðu réttarmeinafræðings hafi verið rökstuddur grunur um að stefnandi hefði framið brot sem gæti sætt ákæru og hafi verið nauðsynlegt að tryggja návist hennar og öryggi til að koma í veg fyrir að hún gæti spillt sönnunargögnum.

Þá telur stefndi að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir gæsluvarðhaldi stefnanda, enda krafa um gæsluvarðhald tekin til greina með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2002.  Sá úrskurður hafi ekki verið kærður af hálfu stefnanda.

Í rökstuðningi fyrir gæsluvarðahaldskröfunni komi fram að réttarmeinafræðingur hafði krufið hinn látna að morgni 11. mars 2002 og niðurstaða hennar hafi verið sú að A hefði látist af völdum sljós áverka á kvið.  Í bréfi réttarmeinafræðingsins til lögreglu segi um niðurstöður krufningarinnar að áverkinn hafi valdið rifu á lifur sem blætt hafi frá og hafi A blætt út innvortis.  Einnig hafi áverkinn valdið mari í rót mjógirnishengisins og í kringum brisið.  Ekki sé unnt að segja til um hvað hafi valdið áverkanum en ljóst sé að áverkinn hafi ekki valdið dauða samstundis.  Þeir áverkar er sáust á höfði hafi verið minni háttar.  Þá kemur fram að réttarefnafræðilegum mælingum sé ólokið en ljóst að niðurstöður þeirra rannsókna muni ekki breyta neinu um dánarorsökina.  Hafi réttarmeinafræðingurinn talið að A hafi látist milli kl. 20.00 og 23.00 að kvöldi laugardagsins 9. mars 2002.  Á þeim tíma hafi stefnandi verið ásamt B á heimili hins látna.  Þau hafi enga viðhlítandi skýringu getað gefið á því hvers vegna þau hafi ekki hringt á lögreglu fyrr en um einni klukkustund eftir að A hafi látist í síðasta lagi.  Þá hafi verið ljóst að þegar þau þrjú komu að heimili hins látna hafi hann ekki haft áverka.  Megi ráða það af framburðum svo og af myndbandi sem tekið hafi verið upp í bílageymslu í [...], þar sem sjá megi hann koma í leigubifreið um kl. 19.30 um kvöldið ásamt stefnanda og B.

Þá hafi krufning leitt í ljós röð marbletta á kvið hins látna, á handlegg og ofarlega á bringu.  Svo virðist sem hinn látni hafi fengið marbletti á kvið þegar hann hafi fengið högg það sem valdið hafi honum áverkanum í kviðarholinu.  Marblettirnir hafi bent til þess að ólíklegt væri að A hafi sjálfur fallið á hlut og þannig hlotið áverkana.  Þá hafi blóð verið þvegið af hinum látna og blóð fundist í svefnherbergi sem reynt hefði verið að þrífa.  Þá hafi blóð verið þrifið í baðherbergi.

Í símtali sínu til Neyðarlínunnar hafi stefnandi reynt að villa um og segja ósatt um aðstæður.  Vegna menntunar hennar hefði henni átt að vera ljóst að A væri látinn þegar hún hringdi.  Í símtalinu hafi hún oft tekið fram að hún væri nýkomin á staðinn og ætlaði ekki að taka ábyrgð á því sem hefði gerst.

Komi fram í framburði B frá 10. mars 2002 að þau hefðu þrjú setið við drykkju að kvöldi 9. mars 2002.  Síðan hafi A annaðhvort orðið slappur eða dauðadrukkinn og þá hafi þau, B og stefnandi, stutt hann inn í herbergi og lagt hann á rúmið.  Hann hafi svo haldið áfram drykkju ásamt stefnanda  en síðan sofnað.  Stefnandi hafi svo vakið hann og sagt honum að A væri dáinn og hún hefði þegar hringt á lögreglu.  B hafi sagst hafa kíkt inn í herbergið og séð að A væri dáinn en hann hafi ekki tekið eftir áverkum á honum.   Þá sé einnig haft eftir B að engin átök hafi verið í íbúðinni, allt hafi þar farið fram í friði og spekt. 

Í skýrslu sem tekin hafi verið af B þann 12. mars 2002 segi hann hins vegar að hann hafi heyrt stefnanda og A jagast um peninga.  Sé því ljóst að ósamræmi hafi verið í framburði B og hann ekki í samræmi við framburð stefnanda sem hefði borið að hún hefði heyrt A detta og í framhaldi af því séð hann liggjandi á gólfi í svefnherberginu.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2002 komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að sterkur grunur sé kominn fram um að stefnandi hafi framið afbrot sem varðað gæti við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á því ákvæði geti varðað allt að 16 ára fangelsi.  Því hafi verið fallist á að gæsluvarðhald yfir stefnanda væri nauðsynlegt til að tryggja að hún torveldaði ekki rannsókn málsins og hafi hún verið látin sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 til 19. mars 2002.  Það gæsluvarðhald hafi svo verið framlengt til 10. apríl 2002 með úrskurði héraðsdóms.  Rökin fyrir framlengingunni hafi verið þau að um rökstuddan grun væri að ræða fyrir því, að stefnandi hafi framið alvarlegt brot sem varðað gæti allt að 16 ára fangelsi, samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Rannsóknin væri á frumstigi og ef stefnandi yrði látin laus gæti hún torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni eða samseka og spillt sakargögnum og hafi verið vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Stefnandi hafi síðan verið látin laus þann 11. apríl 2002.

Stefndi leggur áherslu á að áverkar hafi verið á hinum látna sem hafi ekki verið á honum þegar þau þrjú komu á heimili hins látna og engum öðrum en stefnanda og B til að dreifa sem hefði getað veitt A áverkana.  Ekki hafi verið neinir húsmunir sem hinn látni hefði getað dottið á sem hefðu getað valdið áverkunum.  Í framburðum vitna hafi komið fram að hávaði hefði verið í íbúðinni og eitt vitni  hafi sagst hafa heyrt högg og dynki. 

Í símtali stefnanda við Neyðarlínuna villi hún um með því að gefa rangar upplýsingar, segi meðal annars að ekki sé hægt að vekja A og það sé eitthvað á hausnum á honum.  Þá liggi fyrir að stefnandi og A hafi farið frá heimili stefnanda fyrr um daginn ásamt C.  Komi fram í framburði C að á heimili A hafi þeir sótt peninga.  Kunni að vera að stefnandi hafi ekki vitað um það og því hafi hún og hinn látni verið að jagast um peninga eins og B hafi borið.

Er það mat stefnda að framburður stefnanda hafi verið ótrúverðugur og ætla megi af gögnum málsins að hún hafi vitað meira um það sem gerst hafi í íbúðinni umrætt sinn en hún hafi upplýst hjá lögreglu.  Þá liggi fyrir lögregluskýrsla af D þar sem hún segi að B hafi lýst átökum á vettvangi fyrir henni og að stefnandi hafi verið í átökum við A.  Dóttir D hafi einnig gefið skýrslu hjá lögreglu um að hún hafi heyrt samtal móður sinnar og B.   Þá hafi fundist blóð í fatnaði stefnanda sem ekki hafi verið hægt að DNA-greina. 

Hafnar stefndi því alfarið að stefnandi hafi setið í gæsluvarðhaldi lengur en þörf hafi verið á.  Hafi verið nauðsynlegt að yfirheyra hana áður en hún yrði látin laus, yfirheyra vitni og fá niðurstöður úr þeim rannsóknum sem beðið hafði verið um. Séu því ekki uppfyllt skilyrði XXI. kafla laga nr. 91/1991 til greiðslu bóta og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Í kaflanum séu tæmandi talin þau tilvik sem geti orðið grundvöllur bóta, en þar sé mælt fyrir um heimild en ekki skyldu og er það mat stefnda að skilyrðum 175. og 176. sé gr. ekki fullnægt til að fella bótaskyldu á stefnda.  Aðrar tilvitnanir til lagaheimilda veiti stefnanda ekki ríkari rétt til bóta en mælt sé fyrir um í XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála.  Þá sé því hafnað að stefnandi eigi rétt til bóta vegna ætlaðs miska vegna fjölmiðlaumfjöllunar.  Slík umfjöllun sé ekki á ábyrgð ríkissjóðs.  Hafi gæsluvarðhaldið verið í samræmi við XIII. kafla laga nr. 19/1991.

Stefndi rökstyður varakröfu sína um lækkun með vísan til þess að kröfur stefnanda séu ekki í neinu samræmi við dómvenju í sambærilegum málum.  Þá sé ósannað að örorka hennar hafi aukist vegna gæsluvarðhaldsins.  Upphafstíma dráttarvaxtakröfu mótmælir stefndi og vísar til 9. gr. laga nr. 38/2001 hvað það snertir.  Um málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga um meðferð einkamála.

V

Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála má dæma bætur, ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana eða sakborningur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu.  Þó má fella niður bætur eða lækka þær, ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á.  Samkvæmt 176. gr. laganna má dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsókn á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða, sem hefur frelsisskerðingu í för með sér, aðra en fangelsi, ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt enda sé jafnframt uppfyllt skilyrði 175. gr.

Í 5.mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 segir að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta.  Hefur ákvæði þetta með áorðnum breytingum verið skýrt svo að það veiti ekki ríkari bótarétt en tilgreind ákvæði í 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991.

Stefnandi byggir á því í fyrsta lagi að ekki hafi verið lögmæt skilyrði til handtöku hennar þann 11. mars 2002 eða í öllu falli ekki nægilegt tilefni til þess og því eigi hún rétt á bótum.  Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 er lögreglu rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtakan nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. 

Þegar stefnandi var handtekin þann 11. mars 2002 lá fyrir niðurstaða tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík um að blóð sem verið hafi í svefnherbergi A hefði verið þrifið og tuskan skoluð í vaskinum.  Þá hafi verið hellt úr vatnsfötu með blóðmenguðu vatni í salerni.  Einnig var fyrirliggjandi skýrsla Þóru Steffensen réttarmeinafræðings dagsett 11. mars 2002 þar sem niðurstaðan er sú að A hafi látist af völdum sljós áverka á kvið.  Áverkinn hafi valdið rifu á lifur sem blætt hafi frá og hafi A blætt út innvortis.  Þá kemur fram að áverkinn hafi einnig valdið mari í rót mjógirnishengisins og í kringum brisið.  Ekki sé unnt að segja til um hvað hafi valdið áverkanum en ljóst sé að hann hafi ekki valdið dauða samstundis.  Þá hafi sjáanlegir áverkar á höfði verið minniháttar.  Þá kemur fram að réttarefnafræðilegum mælingum sé ólokið en ljóst að niðurstöður þeirra rannsókna muni ekki breyta neinu um dánarorsökina.

Í málinu liggur fyrir afrit af samtali stefnanda við starfsmann Neyðarlínunnar þegar hún óskaði eftir að sendur yrði sjúkrabíll á staðinn.  Í því samtali ítrekaði stefnandi nokkrum sinnum að hún væri nýkomin á staðinn og að hún ætlaði ekki að taka ábyrgð á þessu.  Þá hélt hún því fram ítrekað aðspurð að A andaði.  Í skýrslu sem tekin var af stefnanda hjá lögreglu þann 10. mars 2002 kom fram að hún gerði sér ekki grein fyrir hvenær hún hefði komið á heimili hins látna, líklega þó um kvöldmatarleytið og hafi þau þrjú setið að drykkju og ákveðið að fara niður á veitingahúsið [...] og hafi A farið inn í svefnherbergi að sækja peninga og svo hafi hún heyrt hann detta.  Hún hafi kíkt á hann og séð hann liggja á bakinu með galopinn munninn.  Hún hafi svo farið fram aftur til B en kíkt síðar aftur á A og þá fundið að hann væri kaldur.  Þá hafi hún eða B hringt eftir aðstoð.

Þessi vitnisburður stangast á við það sem fram kom í samtali stefnanda við Neyðarlínuna um að hún væri nýkomin á staðinn og að A andaði og eru þessir misvísandi framburðir til þess fallnir að draga úr trúverðugleika stefnanda.  Þá er þess að geta að stefnandi var ölvuð umrætt kvöld og kann sú staðreynd að skýra að einhverju leyti þetta misræmi.

Í fyrirliggjandi frumskýrslu lögreglu sem gerð er af Stefáni Jónssyni lögreglumanni kemur fram að framburður stefnanda á vettvangi aðfararnótt sunnudagsins 10. mars 2002 væri mjög ruglingslegur.  Hafi hún ýmist sagst hafa komið fyrr um daginn, fyrr um morguninn eða að hún væri nýkomin á staðinn.  Hún hafi séð að eitthvað væri að A og því hringt eftir aðstoð, þá hafi hún séð hann fá krampakast og detta á gólfið og að lokum að hún hafi séð hann hoppa í rúmi sínu og detta á gólfið.  Þá hafi hún sagt lögreglunni að hún væri búin að þurrka af hillusamstæðunni og hafi það ýmist verið á föstudag þann 8. mars eða í dag þann 9. mars.  Þá hafi hún sagt að A hefði bitið sig, ýmist í síðustu viku eða fyrr um kvöldið.

Samkvæmt gögnum málsins þykir liggja fyrir að stefnandi kom ásamt A og B á heimili þess fyrrnefnda um sjöleytið laugardagskvöldið 9. mars 2002 og af viðtölum sem tekin voru af íbúum í húsinu dagana 10. og 11. mars 2002 kom fram að nokkrir þeirra urðu varir við fólkið þegar það kom.  Kom fram hjá tveim þeirra að umrætt sinn hefði verið hávaði úr íbúð A, svipað og venjulega, kannski heldur meiri, en oft hefði verið hávaði þar og “fylleríisröfl”.  Hjá öðrum íbúa kom fram að oft hafi verið hávaði frá íbúðinni en hann hefði ekki orðið þess sérstaklega var þetta kvöld, en hann væri hættur að veita því athygli og annar íbúi bar að lítill hávaði hefði verið umrætt kvöld miðað við oft áður. Einn íbúinn bar að hafa heyrt konu gráta í íbúð A um kl. 11.00 um kvöldið.

Samkvæmt gögnum málsins voru aðstæður á vettvangi þannig að allt benti til þess að andlát A hafi ekki borið að með eðlilegum hætti.  Hinn látni lá á gólfinu í svefnherbergi og á gólfinu var bleyta og föt hans voru blaut.  Þá var hinn látni með skrámur í andliti.  Stefnandi og B voru á vettvangi þegar A lést og höfðu dvalið þar hjá honum frá því um kl. 19.00.  Eins og rakið hefur verið lá fyrir þann 11. mars 2002 bráðabirgðaniðurstaða krufningar sem sýndi fram á að dánarmein hins látna yrði rakið til áverka á kvið.  Þá lá einnig fyrir niðurstaða tæknideildar um að blóð hefði verið þrifið í svefnherberginu þar sem hinn látni lá. 

Þegar framangreint er virt og litið til hins ruglingslega framburðar stefnanda á vettvangi og samtals hennar við Neyðarlínu verður að telja að stefnandi hafi verið undir rökstuddum grun um að hafa átt þátt í refsiverðum verknaði og bar því nauðsyn til að handtaka hana til þess að koma í veg fyrir að sakargögnum væri spillt.  Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 til að handtaka stefnanda greint sinn.  Breytir það engu í þessu sambandi að stefnandi hafi verið frjáls ferða sinna sólarhring eftir að hún hafði verið yfirheyrð fyrst af lögreglu og hefði hugsanlega á þeim tíma getað spillt einhverjum sakargögnum, skilyrðin til handtöku voru uppfyllt þegar hún fór fram. 

Með sömu rökum voru uppfyllt lagaskilyrði til að kveða á um gæsluvarðhald yfir stefnanda þann 13. mars 2002 sbr. a-liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og var dómsúrlausn í þá átt því reist á lögmætum grunni og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994.  Þá þykir sá tími sem gæsluvarðhaldinu var markaður síst of langur með hliðsjón af þeim rannsóknarhagsmunum sem í húfi voru.

Enda þótt lagaskilyrði hafi verið til að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald þann 13. mars 2002 vegna rannsóknarnauðsynja verður að telja aðfinnsluverða þá fullyrðingu, sem fram kemur í kröfugerð sýslumannsins í [...] 12. mars 2002 um gæsluvarðhald yfir stefnanda og síðan var ítrekuð í kröfu um framlengingu á gæsluvarðhaldi þann 18. mars 2002, um að allt bendi til þess að stefnandi, ein eða ásamt B hafi lent í rifrildi við A, líklega út af peningum sem A hefði sagt þeim að hann ætti.  Þetta hafi svo endað með átökum.  Þá hafi A hlotið áverka á lifur þegar hann annaðhvort var kýldur í maga, sparkað hafi verið í hann eða hann laminn í maga með hlut sem ekki hafi verið með hart yfirborð  Í þeim átökum hafi hann einnig fengið skurð á vinstri augabrún framan við gagnauga.  Þessar ályktanir lögreglu um háttsemi stefnanda sýnast að miklu leyti byggðar á getgátum sem ekki voru studdar haldbærum gögnum. 

Sýslumaðurinn í [...] óskaði síðan eftir að gæsluvarðhald yrði framlengt yfir stefnanda allt til 17. apríl 2002 og féllst dómari á þá kröfu en þó eigi lengur en til 10.apríl 2002.  Krafan var enn studd við ákvæði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og rökstudd með því að rannsókn málsins væri mjög viðamikil og á frumstigi og muni á næstu dögum beinast að tæknirannsókn á vettvangi, blóðsýni úr fatnaði send erlendis til DNA-greiningar til athugunar úr hverjum það sé, beðið sé eftir endanlegri niðurstöðu úr krufningu og réttarefnafræðilegum rannsóknum auk þess sem frekari skýrslutökur séu fyrirhugaðar af stefnanda, B og fleiri vitnum án þess að tiltekið væri sérstaklega hver þau væru. 

Flest framangreind atriði eru þess eðlis að útilokað var fyrir stefnanda að torvelda frekari rannsókn fengi hún frelsi sitt að nýju.  Þannig verður ekki af gögnum ráðið annað en að tæknirannsókn á vettvangi hefði þegar farið fram og því vandséð hvernig stefnandi gæti torveldað frekari rannsókn þar.  Þá verður heldur ekki séð hvernig stefnandi gat torveldað rannsókn á blóðsýnum sem senda átti erlendis til DNA-greiningar eða hvernig frelsi hennar kæmi í veg fyrir að endanleg niðurstaða úr krufningu og réttarefnafræðilegum rannsóknum skilaði sér.  Þá verður heldur ekki séð að gæsluvarðhald hafi verið nauðsynlegt vegna fyrirhugaðrar skýrslutöku af stefnanda og fleirum, en á þessum tíma hafði stefnandi verið yfirheyrð alls sex sinnum um málsatvik og bar þeim B nokkuð saman um þau.  Bæði neituðu þau því að til átaka hafi komið við hinn látna.  Verður ekki séð annað en að lögreglu hefði átt að gefast nægur tími til að yfirheyra nauðsynleg vitni á þeim tíma sem stefnandi sat í einangrun í gæsluvarðhaldi án þess að stefnandi hefði getað haft áhrif á þann þátt rannsóknarinnar.   Þá verður af gögnum málsins ráðið að rannsókn málsins hafi verið vel á veg komin þann 18. mars 2002 og vart á frumstigi eins og fullyrt var. 

Þegar allt framangreint er virt þykir ekki eins og á stóð hafa verið nægilegt tilefni til að kveða á um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir stefnanda þann 18. mars 2002 og sat stefnandi því lengur í gæsluvarðhaldi en rannsóknarnauðsynjar gáfu tilefni til eða í 24 daga.  Er því fullnægt skilyrðum b-liðar 176. gr. og 175. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum til að dæma stefnanda bætur fyrir miska sem gæsluvarðhaldið leiddi til.

Ekki verður fallist á það með stefnanda að framkvæmd gæsluvarðhaldsins hafi verið særandi, móðgandi og óþarflega hættulegt þótt vissulega hljóti það að hafa verið íþyngjandi fyrir hana. Stefnandi hefur ekki stutt þá fullyrðingu sína haldbærum gögnum að endurmat á örorku hennar úr 65% í 75% verði rakið til afleiðinga gæsluvarðhaldsins.  Þá ber stefndi ekki ábyrgð á fjölmiðlaumfjöllun um málið eða á framkomu fólks gagnvart stefnanda á opinberum vettvangi. 

Stefnandi á svo sem áður segir rétt á miskabótum úr hendi stefnda vegna gæsluvarðhalds sem hún sætti án nægilegs tilefnis eftir 18. mars 2002 til 11. apríl 2002.  Við ákvörðun miskabóta verður að gæta að því að fram til þess tíma sætti hún gæsluvarðhalds sem réttmætt tilefni var til.  Að því athuguðu og að virtum atvikum málsins að öðru leyti þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 600.000 krónur og skulu þær bera dráttarvexti samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá deginum í dag að telja sbr. 9. gr. laganna.

          Stefnandi hefur notið gjafsóknar í málinu.  Eru því ekki efni til að dæma íslenska ríkið til greiðslu málskostnaðar sem þannig er felldur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda samtals að fjárhæð 988.500 þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl. sem þykir hæfilega ákveðin 985.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðjón Ólafur Jónsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Sigrún Guðmundsdóttir hrl.

          Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

          Stefndi íslenska ríkið greiði stefnanda, Guðrúnu Pétursdóttur, 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. desember 2003 til greiðsludags.

          Málskostnaður fellur niður.

          Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 988.500 krónur þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., 985.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist  úr ríkissjóði.