Hæstiréttur íslands

Mál nr. 406/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Skuldabréf
  • Veðréttur
  • Óðalsréttur


Föstudaginn 2

 

Föstudaginn 2. nóvember 2001.

Nr. 406/2001.

Grétar Björgólfsson

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

gegn

Olíuverzlun Íslands hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Skuldabréf. Veðréttur. Óðalsréttur.

J lýsti því yfir á árinu 1952 að hann gerði eignarjörð sína, Þ, að ættaróðali. Árið 1955 ritaði J undir byggingarbréf, þar sem hann ráðstafaði fjórðungi jarðarinnar til sonar síns, B, til lífstíðarábúðar. Sagði í bréfinu að um réttindi B og skyldur færi að öllu leyti eftir ,,ákvæðum laga nr. 116/1943 um erfðaábúð og óðalsrétt, svo og öðrum lagaákvæðum er þessi mál snerta.” Einnig var tekið fram að ,,leigutaki hefur fullt leyfi til veðsetningar á þessum ¼ hluta jarðarinnar.” Tók B upp nafnið T á nýbýlið sem hann reisti á þessum jarðarfjórðungi. Með þessari skiptagerð J urðu þannig til tvær jarðir. J lést í maí 1960 og síðar sama ár luku erfingjar skiptum í dánarbúi hans, án þess þó að geta um að jarðirnar Þ og T væru meðal eigna búsins. Að fengnu leyfi sýslumanns luku erfingjar J aftur einkaskiptum á árinu 1998, að því er varðaði jörðina T. Í maí 1994 gaf G, sonur B, út skuldabréf, tryggt með veði í jörðinni T. Var bréfið áritað af B og V ,,sem þingl. eigendur.” Að kröfu O hf., handhafa bréfsins, var jörðin seld nauðungarsölu 24. október 2000. Krafðist G þess fyrir dómi að nauðungarsalan yrði felld úr gildi. M.a. með hliðsjón af meginreglu 21. gr. laga nr. 7/1936 var ekki litið svo á að andlát J hefði haggað gildi þeirrar óskilyrtu heimildar sem hann hafði veitt B til að veðsetja fjórðung Þ. Með því að ekki hafði verið sýnt fram á að önnur atvik hefðu síðar raskað þessari heimild yrði að líta svo á að með áritun B á skuldabréfið hafi verið fullnægt því skilyrði að þinglýstur eigandi jarðarinnar hafi samþykkt að á hana yrðu lögð veðbönd samkvæmt skuldabréfinu, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 39/1978. Að atvikum málsins athuguðum þótti ekki fært annað en að líta svo á að við umrædda skiptingu á landi Þ og þær ráðstafanir sem henni tengdust, hafi verið staðið þannig að verki að sérreglur um ættaróðul í lögum nr. 116/1943, sbr. nú lög nr. 65/1976 með áorðnum breytingum, hefðu í reynd aldrei tekið til jarðarinnar T. Veðrétti fyrir skuldabréfi O hf. yrði því ekki hnekkt á þeim grunni að brostið hafi heimild til að setja þá jörð að veði vegna ákvæða 57. gr. jarðalaga, sbr. 11. gr. laga nr. 90/1984. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfu G um ógildingu nauðungarsölunnar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 18. september 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi nauðungarsala sýslumannsins á Eskifirði á jörðinni Tungufelli í Breiðdalshreppi, sem fór fram að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að nauðungarsalan verði felld úr gildi og varnaraðili dæmdur til að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins lýsti Jón Björgólfsson því skriflega yfir 5. ágúst 1952 að hann gerði eignarjörð sína, Þorvaldsstaði í Breiðdal, að ættaróðali. Var yfirlýsing þessi afhent 6. október sama árs sýslumanninum í Suður-Múlasýslu til þinglýsingar og hún jafnframt færð í skrá hans um óðul í umdæminu. Hinn 17. mars 1955 ritaði Jón undir byggingarbréf, þar sem hann ráðstafaði fjórðungi jarðarinnar til sonar síns, Björgólfs Jónssonar, til lífstíðarábúðar. Kom fram í bréfi þessu að Björgólfur hefði ákveðið að stofna nýbýli á þessum hluta jarðarinnar. Skyldi hann greiða skatta og skyldur af jarðarhlutanum, sem engin veðbönd hvíldu á, og væri eignin „þegar heimil til ábúðar.“  Um réttindi Björgólfs og skyldur færi að öllu leyti eftir „ákvæðum laga nr. 116/1943 um erfðaábúð og óðalsrétt, svo og öðrum lagaákvæðum er þessi mál snerta.“ Einnig var tekið sérstaklega fram að „leigutaki hefur fullt leyfi til veðsetningar á þessum ¼ hluta jarðarinnar.“ Byggingarbréfið var afhent sýslumanni 9. desember 1955 til þinglýsingar. Um leið voru afhent til þinglýsingar skiptagerð frá 30. október 1955 um skiptingu fjórðungshlutans úr landi Þorvaldsstaða, þar sem greint var frá landamerkjum, og yfirlýsing menntamálaráðherra 29. nóvember sama árs um heimild handa Björgólfi til að taka upp nafnið Tungufell á nýbýlið, sem hann hefði reist.

Jón Björgólfsson gaf út afsal 17. júní 1958 fyrir öðrum fjórðungi jarðarinnar Þorvaldsstaða til sonar síns, Guðmundar, og var því þinglýst 4. ágúst sama árs. Þá gerði Jón yfirlýsingu, sem dagsett var 30. júlí 1960, um að hann hefði afhent syni sínum, Pétri, hálfa jörðina ásamt þeim húsum, sem Jón ætti á henni. Var tekið fram í yfirlýsingunni að Jón hefði áður afhent sonum sínum Björgólfi og Guðmundi „sinn einn fjórða hluta jarðarinnar hvorum til nýbýlastofnunar.“ Fyrir liggur að þessari yfirlýsingu var þinglýst sem eignarheimild Péturs að hálfri jörðinni.

Jón Björgólfsson mun hafa látist 10. maí 1960. Með ódagsettri erfðafjárskýrslu frá sama ári og greiðslu erfðafjárskatts samkvæmt henni luku þrettán börn Jóns skiptum á dánarbúi hans. Var þar í engu getið um fasteignir í eigu þess, hvorki jarðarinnar Þorvaldsstaða né Tungufells.

Hinn 17. maí 1994 gaf Guðmundur Björgólfsson út skuldabréf til handhafa að fjárhæð 2.335.762 krónur, sem greiðast áttu ásamt nánar tilgreindum ársvöxtum með tólf jöfnum afborgunum á tveggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 3. júlí 1994. Til tryggingar skuldinni var jörðin Tungufell sett að veði með sjötta veðrétti. Skuldabréfið var áritað af Björgólfi Jónssyni og Valborgu Guðmundsdóttur um samþykki þeirra „sem þingl. eigendur“. Af gögnum málsins verður ráðið að skuldabréfi þessu hafi verið þinglýst 13. júlí 1994. Vanskil munu hafa orðið á skuldinni allt frá fyrsta gjalddaga hennar og krafðist varnaraðili sem handhafi skuldabréfsins nauðungarsölu á jörðinni Tungufelli 15. ágúst 1995 til fullnustu á kröfu samkvæmt því. Nauðungarsölunni var beint að Björgólfi Jónssyni sem gerðarþola. Sýslumaðurinn á Eskifirði ákvað 26. ágúst 1996 að stöðva nauðungarsöluna. Sú ákvörðun var staðfest með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 9. maí 1997 á þeirri forsendu að fullnægjandi gögn lægju ekki fyrir um að Björgólfur væri eigandi Tungufells. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 19. júní sama árs, sem birtur er í dómasafni 1997, bls. 2058.

Erfingjar Jóns Björgólfssonar rituðu 10. september 1998 umsókn til sýslumannsins á Eskifirði um leyfi til einkaskipta á dánarbúi hans, en annarra eigna þess var þar ekki getið en jarðarinnar Tungufells. Einkaskiptunum var lokið 12. október 1998 með greiðslu erfðafjárskatts. Heimilaði sýslumaður sama dag að þinglýst yrði skiptayfirlýsingu frá 11. september 1998 um að jörðin hafi komið í hlut sóknaraðila, þótt hann væri ekki meðal erfingja eftir Jón, enda yrðu greidd gjöld við þinglýsingu yfirlýsingarinnar eins og ef um afsal væri að ræða.

Varnaraðili krafðist á ný nauðungarsölu á jörðinni Tungufelli 19. janúar 2000 til fullnustu á kröfu samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi frá 17. maí 1994, en að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði kvað hann skuldina þá nema 5.127.767 krónum. Sýslumaður tók nauðungarsölu samkvæmt þessari beiðni fyrir í fyrsta sinn 8. júní 2000. Var þá hafnað mótmælum gegn nauðungarsölunni, sem sóknaraðili hafði fært fram skriflega 6. sama mánaðar, og ákveðið að uppboð á eigninni skyldi byrja 9. ágúst 2000. Virðist byrjun uppboðs hafa verið frestað til 27. september sama árs og það þá háð, en hæsta boð í eignina komið frá varnaraðila. Uppboði var síðan fram haldið 24. október 2000, þar sem jörðin var slegin nafngreindu félagi á 5.100.000 krónur.

Með bréfi, sem barst Héraðsdómi Austurlands 15. nóvember 2000, leitaði sóknaraðili úrlausnar um gildi framangreindrar nauðungarsölu. Var mál þetta þingfest af því tilefni 19. desember sama árs.

II.

Í byggingarbréfi Jóns Björgólfssonar til Björgólfs Jónssonar 17. mars 1955 var mælt fyrir um óskilyrta heimild þess síðarnefnda til að veðsetja þann fjórðungshluta Þorvaldsstaða, sem þar um ræddi, en Jón var á þeim tíma þinglýstur eigandi allrar jarðarinnar. Meðal annars með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 21. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga verður ekki litið svo á að andlát Jóns á árinu 1960 hafi haggað gildi þessarar heimildar, enda var að auki kveðið á um hana í byggingarbréfinu um lífstíðarábúð Björgólfs á hluta Þorvaldsstaða, sem stóð óháð því hvort eigendaskipti yrðu að jörðinni. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að önnur atvik geti síðar hafa raskað þessari heimild verður að líta svo á að með áritun Björgólfs á skuldabréfið frá 17. maí 1994 hafi verið fullnægt því skilyrði að þinglýstur eigandi jarðarinnar hafi samþykkt að á hana yrðu lögð veðbönd samkvæmt skuldabréfinu, sbr. 1. mgr. 24. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Af þessum sökum verður ekki fallist á röksemdir sóknaraðila, sem að þessu lúta.

Svo sem áður greinir gerði Jón Björgólfsson yfirlýsingu 5. ágúst 1952 um að Þorvaldsstaðir yrðu ættaróðal og var henni þinglýst 6. október sama árs. Liggur og fyrir að sýslumaður færði jörðina á skrá um ættaróðul í umdæmi sínu, sbr. 2. mgr. 3. gr. þágildandi laga nr. 116/1943 um ættaróðal og erfðaábúð. Með fyrrnefndri skiptagerð frá 30. október 1955 var landi Þorvaldsstaða skipt þannig að úr urðu tvær jarðir, annars vegar samnefnd jörð, sem ¾ hlutar landsins voru lagðir undir, og hins vegar nýbýlið Tungufell, sem afgangur landsins féll til. Verður ekkert ráðið af gögnum málsins um að gætt hafi verið að reglum 11. gr. laga nr. 116/1943 um heimild til að skipta óðalsjörð þegar þetta var gert. Þótt upphaflegu jörðinni hafi verið skipt á þennan hátt voru báðir hlutarnir eftir sem áður í eigu Jóns. Sú skipan fékk ekki staðist fyrirmæli 24. gr. laga nr. 116/1943, þar sem boðið var að enginn óðalseigandi gæti átt nema eitt ættaróðal. Með byggingarbréfinu 17. mars 1955 veitti Jón ábúandanum „fullt leyfi til veðsetningar“ á jarðarhlutanum, sem lagður var undir Tungufell. Svo rúm heimild til að veðsetja óðalsjörð var ekki samrýmanleg ákvæði 12. gr. laga nr. 116/1943, sbr. 2. gr. laga nr. 16/1950. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að Tungufells hafi fyrr eða síðar verið getið í skrá um ættaróðul í því umdæmi, sem nú heyrir undir sýslumanninn á Eskifirði. Að öllu þessu athuguðu er ekki annað fært en að líta svo á að við þessa skiptingu á landi Þorvaldsstaða og þær ráðstafanir, sem henni tengdust og hér var getið, hafi verið staðið þannig að verki að sérreglur um ættaróðul í lögum nr. 116/1943, sbr. nú VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976 með áorðnum breytingum, hafi í reynd aldrei tekið til jarðarinnar Tungufells. Verður því veðrétti fyrir skuldabréfi varnaraðila ekki hnekkt á þeim grunni að brostið hafi heimild til að setja þá jörð að veði vegna ákvæða 57. gr. jarðalaga, sbr. 11. gr. laga nr. 90/1984.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Dæma verður sóknaraðila til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Grétar Björgólfsson, greiði varnaraðila, Olíuverzlun Íslands hf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 18. september 2001.

Mál þetta barst Héraðsdómi Austurlands með málskoti dags. 7. nóvember 2000 og var að lokinni aðalmeðferð og munnlegum málflutningi tekið til úrskurðar 12. júní 2001. Úrskurður var upp kveðinn í málinu þann 23. júlí sl. og kærði sóknaraðili hann til Hæstaréttar með kæru dagsettri 6. ágúst sl. Með dómi Hæstaréttar 27. ágúst sl. var hinn kærði úskurður ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar á ný. Var málið tekið fyrir og fór málflutningur fram að nýju í dag, 14. september og var málið tekið til úrskurðar í dag.  

Sóknaraðili er Grétar Björgólfsson, kt. 110151-4609, Sæbergi 16, Breiðdalsvík.  Varnaraðilar eru Olíuverslun Íslands hf., kt. 500269-3249, Héðinsgötu 10, Reykjavík, veðhafi og uppboðsbeiðandi, Íbúðalánasjóður, veðhafi, Lind hf., veðhafi og Dal-Björg ehf., uppboðskaupandi.  Hefur Olíuverslun Íslands hf., einn varnaraðila, tekið til varna í þessu máli.

Sóknaraðili hefur á grundvelli 80. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90, 1991, krafist þess að nauðungarsala á jörðinni Tungufelli í Breiðdal, sem fram fór þann 24. október 2000, verði felld úr gildi. Jafnframt gerir uppboðsbeiðandi kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili gerir þær kröfur að kröfum sóknaraðila verði hafnað og viðurkennt verði, að nauðungarsala á jörðinni Tungufelli í Breiðdal, sem fram fór 24. október 2000, sé gild að öllu leyti. Þá gerir varnaraðili kröfu um að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins. 

Með byggingarbréfi, dags. 17. mars 1955, lýsti Jón Björgólfsson, Þorvaldsstöðum, Breiðdal, Suður-Múlasýslu, því yfir að hann byggði Björgólfi syni sínum 1/4 hluta af ,,eignar og óðalsjörð minni Þorvaldsstöðum í Breiðdalshreppi í Suður-Múlasýslu”, eins og segir í byggingarbréfinu.  Ennfremur sagði í byggingarbréfi að Björgólfur hafi ákveðið að stofna nýbýli á þessum hluta jarðarinnar og að um skyldur og réttindi leigutaka fari eftir ákvæðum laga nr. 116/1943 um erfðaábúð og óðalsrétt, svo og öðrum lagaákvæðum er þessi mál snerta.  Þá segir orðrétt í byggingarbréfinu: ,,Leigutaki hefur fullt leyfi til veðsetningar á þessum ¼ hluta jarðarinnar.”

Sótt var um heimild til stofunar nýbýlis á framangreindum jarðarhluta með umsókn til Nýbýlastjórnar ríkisins, dags. 15. mars 1955.  Með skiptagerð, dags. 30. október 1955, var framangreindum jarðarhluta skipt úr jörðinni Þorvaldsstöðum og segir í skiptagjörðinni að nýbýlið skuli fá 15 ha ræktanlegs lands úr jörðinni og auk þess sem svarar ¼ hluta úr landi jarðarinnar. Þá var Björgólfi Jónssyni með bréfi menntamálaráðherra, dags. 29. nóvember 1955, veitt leyfi með skírskotun til laga nr. 35/1953 að taka upp nafnið Tungufell á framangreint nýbýli. 

Þann 17. maí 1994 gaf Guðmundur Björgólfsson út skuldabréf til handhafa með 6. veðrétti í jörðinni Tungufelli, að fjárhæð kr. 2.335.762.  Ritaði Björgólfur Jónsson samþykki sitt sem eigandi hins veðsetta.  Var skuldabréfinu þinglýst þann 13. júlí 1994 af sýslumanninum á Eskifirði án athugasemda.  Veðskuldabréfið lenti í vanskilum og þann 15. ágúst 1995 var óskað eftir uppboð á veðandlaginu.  Við framhaldssölu þann 26. ágúst 1996 reis ágreiningur með aðilum um, hver ætti að teljast réttur varnaraðili við framkvæmd nauðungarsölunnar. Ákvað sýslumaðurinn á Eskifirði þá að stöðva nauðungarsölu á jörðinni. Var ágreiningi um þá ákvörðun sýslumanns skotið til Héraðsdóms Austurlands til úrskurðar og var Olíuverslun Íslands hf., eigandi ofangreinds veðskuldabréfs, sóknaraðili í því máli, en varnaraðilar voru þeir Björgólfur Jónsson, Grétar Björgólfsson og Jón Björgólfsson.  Með úrskurði, dags. 10. desember 1995, vísaði héraðsdómur málinu frá ex officio með þeim rökum að dánarbú Jóns Björgólfssonar væri réttur aðili að málinu og að þeim aðila hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna.  Með dómi Hæstaréttar frá 20. janúar 1997 var sá úrskurður að hluta felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að því er laut að kröfum sóknaraðila, Olíuverslunar Íslands hf. á hendur varnaraðilanum Björgólfi Jónssyni.  Sagði í dómi Hæstaréttar að fallast yrði á með héraðsdómara, að ekki yrði á því byggt að Björgólfur Jónsson hafi öðlast eignarheimild yfir jörðinni Tungufelli með þeim löggerningum frá árinu 1955 sem getið var hér að ofan. Þá sagði ennfremur í dómi Hæstaréttar, að í gögnum um skipti dánarbús Jóns Björgólfssonar sé hvergi vikið að eignarréttindum að jörðunum Þorvaldsstöðum eða Tungufelli.  Verði því ekki annað ráðið af þeim en að réttilega verði að telja jarðirnar enn í eigu dánarbús Jóns Björgólfssonar.  Héraðsdómur Austurlands úrskurðaði að nýju í máli þessu þann 9. maí 1997 og var hin umdeilda ákvörðun sýslumannsins á Eskifirði, þess efnis að stöðva nauðungarsölu á jörðinni Tungufelli í Breiðdal, staðfest á þeirri forsendu að Björgólfur Jónsson gæti ekki með réttu talist gerðarþoli við þá nauðungarsölu sem sóknaraðili krefðist.  Var úrskurður þessi staðfestur með dómi Hæstaréttar frá 19. júní 1997 með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar.

Með beiðni, dags. 10. september 1998, óskuðu erfingjar Jóns Björgólfssonar eftir einkaskiptaleyfi á búinu.  Veitti sýslumaðurinn á Eskifirði leyfi til einkaskipta á búinu þann 20. september 1998 og þann 12. október 1998 lauk skiptum dánarbúsins með áritun sýslumanns á erfðafjárskýrslu.  Samkvæmt eignarskiptayfirlýsingu, dags. 11. september 1998, kom jörðin Tungufell, Breiðdalshreppi, ásamt öllum gögnum og gæðum í hlut Grétars Björgólfssonar við skipti dánarbúsins.  Var yfirlýsingu þessari þinglýst á jörðina þann 29. október með athugasemd um áhvílandi veðskuldir.

Með beiðni, dags. 19. janúar 1999, óskaði Olíuverzlun Íslands hf. að nýju eftir nauðungarsölu á jörðinni Tungufelli í Breiðdal.  Við fyrirtöku uppboðsmálsins þann 6. júní 2000 mótmælti lögmaður gerðarþola, Grétars Björgólfssonar, framgangi uppboðsins en sýslumaður féllst ekki á mótmæli gerðarþola og var uppboðinu haldið áfram.  Fór framhaldsuppboð fram þann 24. október 2000, sem lauk með því að eignin var seld hæstbjóðanda, Dal-Björgu ehf.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um, að nauðungarsalan verði felld úr gildi, á því að veðskuldabréf það, sem nauðungarsölunnar er krafist út af, njóti í raun ekki veðréttar í uppboðsandlaginu, enda hafi ekki legið fyrir veðleyfi frá sóknaraðila né fyrri eigendum fasteignarinnar til þessarar veðsetningar. Þá sé jörðin Tungufell ¼ hluti jarðarinnar Þorvaldsstaða í Breiðdal, sem hafi verið gerð að ættaróðali árið 1952.  Takmarkist því heimildir til veðsetningar á jörðinni við ákvæði laga um veðsetningar ættaróðala og verði því ekki fallist á að heimilt hafi verið að veðsetja jörðina til tryggingar skuldabréfi þessu jafnvel þó að veðleyfi eiganda jarðarinnar hefði verið fyrir hendi.  Um lagarök vísar sóknaraðili til 24. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og ákvæða jarðarlaga nr. 65/1976, sérstaklega 57. gr.

Varnaraðili telur að hafna beri kröfu sóknaraðila þar sem við veðsetningu jarðarinnar hafi legið fyrir leyfi frá Björgólfi Jónssyni sem hafi haft fullt leyfi til veðsetningar á grundvelli ákvæðis í byggingarbréfi frá 7. febrúar 1955, þar sem sérstaklega hafi verið mælt fyrir um, að leigutaki hafi fullt leyfi til veðsetningar á uppboðsandlaginu.  Liggi ekkert fyrir að veðleyfi þetta hafi verið afturkallað.  Hafi dánarbú Jóns Björgólfssonar verið bundið af veðleyfinu og jafnframt sé núverandi eigandi jarðarinnar bundinn af því.  Þá verði ekki byggt á ákvæðum laga um óðalsjarðir þar sem ekkert liggi fyrir um, að uppboðsandlagið hafi nokkurn tíma verið gert að óðalsjörð, enda sé þess hvergi getið, hvorki í skrá sýslumannsins á Eskifirði yfir óðalsjarðir né í gögnum um skipti dánarbús Jóns Björgúlfssonar.  Engin gögn liggi fyrir um, að jörðin Þorvaldsstaðir hafi raunverulega verið gerð að óðalsjörð ef frá er talin yfirlýsing frá 5. ágúst 1952 og jafnvel þó að jörðin Þorvaldsstaðir hafi verið gerð að óðalsjörð þá hafi uppboðsandlagið verið leyst úr óðalskvöð með heimild Nýbýlastjórnar ríkisins skv. VI. kafla laga nr. 20/1952, sbr. IX. kafla laga nr. 116/1943.  Þá hafi sóknaraðili ekki búsetu á jörðinni sem sé skilyrði skv. b. lið 68. gr. jarðarlaga né sé þar stundaður búskapur og jörðin þannig nýtt til landbúnaðar sbr. 1. gr. jarðarlaga og geti því ákvæði jarðarlaga um óðalsjarðir ekki átt við uppboðsandlagið.  Einnig beri að líta til þess að 21 veðskuld hafi verið þinglýst á jörðina án athugasemda og hafi a.m.k. 8 þeirra fallið utan ákvæðis 57. gr. jarðalaga um veðskuldir, sem heimilt sé að þinglýsa á óðalsjarðir.  Til hliðsjónar verði að líta til þess að jörðin Tungufell hafi verið laus undan óðalskvöðum í hefðartíma fullan, sbr. ákvæði laga nr. 46/1905 og að við úrlausn málsins verði að hafa að leiðarljósi meginreglur eignaréttar um frjálsar heimildir til ráðstöfunar á eign sinni og beri því að skýra þröngt þau ákvæði jarðarlaga nr. 65/1976 sem setji skorður við ráðstöfunarheimild eigenda jarða.

Niðurstaða.

Eins og áður er getið sagði í byggingarbréfi, dags. 17. mars 1955,  að leigutaki hafi fullt leyfi til veðsetningar á uppboðsandlaginu.  Ekkert hefur í máli þessu komið fram sem rennir stoðum undir staðhæfingar þess efnis, að framangreinda veðheimild beri að túlka þröngt, enda er veðheimildin ekki bundin neinum skilyrðum.  Verður því að telja að leigjandi skv. byggingarbréfi þessu, Björgólfur Jónsson, hafi haft þinglýsta heimild til þess að veðsetja jörðina Tungufell, sbr. 1. mgr. 24. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.  Fyrir liggur að Björgólfur Jónsson áritaði veðskuldabréf það, sem hin umdeilda nauðungarsala er byggð á um samþykki sitt. Verður því að hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að þinglýsing veðskuldabréfsins á uppboðsandlagið stafi af mistökum við þinglýsingu. 

Með yfirlýsingu, dags. 5. ágúst 1952, lýsti Jón Björgólfsson því yfir að hann gerði eignarjörð hans Þorvaldsstaðir í Breiðdalshreppi í S-Múlasýslu að ættaróðali, sbr. 47. gr. laga nr. 116/1943 um ættaróðöl og erfðaábúð.  Samkvæmt framangreindu lagaákvæði höfðu ábúendur þjóð- og kirkjujarða og annarra opinberra stofnana og sjóða rétt til að fá ábúðarjarðir sínar keyptar að tilteknum skilyrðum uppfylltum, þ.á m. því að viðkomandi ábúandi skuldbindi sig við undirskrift kaupsamnings að gera jörðina að ættaróðali.  Samkvæmt 3. gr. laga þessara skyldi jarðeigandi, sem óskar að gera jörð sína að ættaróðali, afhenda sýslumanni yfirlýsingu þar að lútandi ásamt lýsingu af jörð og jarðarhúsum og skilríkum fyrir því að fullnægt sé skilyrðum 1. gr. laganna fyrir því að jörð verði gerð að ættaróðali.  Þá sagði í 3. gr. að þegar sýslumaður hafi sannfært sig um, að fullnægt sé ákvæðum laganna um stofnun ættaróðals, skuli hann færa jörðina á skrá um ættaróðul í sérstaka bók, er fylgi embættinu.  Samkvæmt skrá sýslumannsins á Eskifirði um óðul í Suður-Múlasýslu er jörðin Þorvaldsstaðir í Breiðdal ættaróðal.

Í 11. gr. laga nr. 116/1943 segir að heimilt sé eiganda ættaróðals að skipta því milli erfingja í tvö eða fleiri býli, enda fullnægi hin nýju býli ákvæðum 1. gr laganna.  Var skipting háð ákveðnum skilyrðum sem nánar eru tilgreind í ákvæðinu.  Þegar uppboðsandlaginu var skipt úr jörðinni Þorvaldsstöðum voru skiptin ekki byggð á ákvæði 11. gr. laganna, þar sem ekki var um það að ræða að ættaróðali væri skipt á milli erfingja heldur var hinn sami eigandi að báðum býlunum.  Ekki verður hér tekin afstaða til þess, hvort eiganda Þorvaldsstaða hafi verið heimilt skv. ákvæðum laga nr. 116/1943 að skipta ættaróðali sínu með þessum hætti.  Skiptin voru hins vegar gerð og fengin heimild til stofnunar nýbýlis á hinum úrskipta jarðarhluta, sem síðar fékk nafnið Tungufell. Ekki var um það að ræða, að nýbýlið væri afhent til eignar, heldur var Björgólfi Jónssyni byggð jörðin til lífstíðarábúðar.  Verður ekki talið að nýbýlið hafi verið nýtt ættaróðal, þó svo að því hafi verið skipt úr jörð sem bundin var lagaákvæðum um ættaróðal, enda sagði í 24. gr. laga nr. 116/1943 og nú í 67. gr. laga nr. 65/1976, að enginn óðalseigandi geti átt nema eitt ættaróðal. Það styður þessa niðurstöðu að ekkert í gögnum málsins bendir til þess, að nokkru sinni hafi verið farið með jörðina Tungufell eins og um ættaróðal sé að ræða. Þannig kemur ekkert fram í þeim gögnum sem liggja fyrir um skipti á dánarbúi Jóns Björgólfssonar, að við þau skipti hafi verið fylgt ákvæðum jarðarlaga um óðalsjarðir. Var t.a.m. greiddur fullur erfðafjárskattur af fasteignamati jarðarinnar við skiptalok, en skv. 54. gr. jarðarlaga nr. 65/1976 greiðist erfðafjárskattur ekki af ættaróðali eða fylgifé þess við afhendingu óðalsins til erfingja eða viðtakanda. 

Samkvæmt erfðafjárskýrslu um endanleg skipti á dánarbúi Jóns Björgólfssonar, féll jörðin Tungufell í arf að jöfnum hluta til þrettán barna og barnabarna Jóns.

Hins vegar kom jafnframt fram eignarskiptayfirlýsing um, að við skiptin hafi jörðin Tungufell komið ásamt öllum gögnum og gæðum í hlut Grétars Björgólfssonar, sóknaraðila í máli þessu. Í bréfi sýslumannsins á Eskifirði dags 25. september 1998, bendir sýslumaður á, að sóknaraðili sé ekki einn af erfingjum búsins og verði því litið svo á, að um afsal sé að ræða, sem beri að greiða stimpilgjalda af. Ekki hefur komið fram neinn gerningur að öðru leyti um, hvernig þessi eigendaskipti urðu. Hvergi kemur fram í þessum gögnum, að litið sé á Tungufell sem ættaróðal.

Við þinglýsingu eignarskiptayfirlýsingarinnar var gerð athugasemd um að á eigninni hvíldi veð, tryggingarbréf kr. 2.000.000 til Lindar hf. og það veðskuldabréf, sem deilt er um í máli þessu. Þá hefur komið fram, að jörðin hefur áður verið veðsett, án athugsemda, til tryggingar skuldum við aðra aðila en taldir eru í 57. gr. jarðalaga.

Hvort sem jörðin Tungufell er, eftir að henni var skipt frá Þorvaldsstöðum og gerð að sérstakri jörð, talin vera óðalsjörð, eða hluti af óðalsjörð, verður einnig að líta til þess, að heimild Björgólfs Jónssonar til veðsetningar á ábúðarrétti sínum á jörðinni og mannvirkjum á henni verður ekki talin lúta neinum þeim lagatakmörkunum á eignarrétti, sem óðalsréttur á jörðinni er háður.

Með hliðsjón af framangreindu ber því að hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að óheimilt hafi verið að veðsetja jörðina Tungufell til tryggingar skuldabréfi því, sem hin umdeilda nauðungarsala er byggð á, þar sem uppboðsandlagið sé óðalsjörð og falli undir þær takmarkanir á veðsetningu óðalsjarða sem talið er, að 57. gr. jarðarlaga nr. 65/1976 mæli fyrir um.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, er þeirri kröfu sóknaraðila, Grétars Björgólfssonar, að nauðungarsala á jörðinni Tungufelli í Breiðdal, sem fram fór 24. október 2000, verði úr gildi felld, hafnað. 

Sóknaraðili, Grétar Björgólfsson, greiði varnaraðila, Olíuverslun Íslands hf., kr. 200.000 í málskostnað.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfu sóknaraðila, Grétars Björgólfssonar, um að nauðungarsala á jörðinni Tungufelli í Breiðdal, sem fram fór þann 24. október 2000, verði úr gildi felld, er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Olíuverslun Íslands hf. kr. 200.000 í málskostnað.