Hæstiréttur íslands
Mál nr. 63/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Skýrslugjöf
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 22. janúar 2015 |
|
Nr. 63/2015. |
Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Skýrslugjöf. Vitni.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að X yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan þrjú vitni gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Var ekki talið að sýnt hefði verið fram á að skýrslutakan væri vitnunum sérstaklega til íþyngingar og kynni að hafa áhrif á framburð þeirra
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan þrjú nafngreind vitni gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2015.
Mál þetta er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 19. ágúst 2014, á hendur X, kt. [...], fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga, laga um ávana- og fíkniefni, vopnalaga, og almennra hegningarlaga. Í ákærulið III.8 er ákærða gefið að sök að hafa laugardaginn 15. mars 2014, inni í strætisvagni á leið frá [...] í [...] að [...] í [...], í tvígang slegið vagnstjórann A, kt. [...] hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að tönn nr. 23 (incicalt) brotnaði. Telst háttsemin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur neitað sök. Ákærandi krefst þess að ákærða verði vikið úr dómsal, þegar vitnin B, C og D, allar 17 ára gamlar, beri vitni við aðalmeðferð málsins. Af hálfu ákærða er þess krafist að kröfu ákæranda verði hafnað. Fór fram munnlegur málflutningur um þennan þátt málsins og málið tekið til úrskurðar 16. janúar sl.
I
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi verið handtekinn skammt frá vettvangi hinnar meintu líkamsárásar og neitað aðild sinni að málinu. Í málinu liggja meðal annars fyrir framburðir af vettvangi og símaskýrslur framangreindra þriggja vitna.
II
Ákærandi vísaði til 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að vitnunum yrði það afar þungbært að þurfa að gefa skýrslu að ákærða viðstöddum, og að það myndi hafa áhrif á framburð þeirra. Samkvæmt skýrslum lögreglu hafi ákærði verið mjög ógnandi þegar atvik áttu sér stað og vitnin orðið hrædd. Hafi vitnin síðar séð í blöðum hver ákærði væri og töldu að sér stæði ógn af honum og treystu sér ekki til þess að bera vitni, enda ákærði þekktur af ofbeldisverkum. Vitnin hafi verið 16 ára þegar atburðir áttu sér stað en væru nú 17 ára og því ung að árum. Þá hafi vitnið C verið greind með kvíða og verið hjá sálfræðingi. Einnig hafi komið fram í samtali ákæranda við forráðamenn þeirrar D og C að vitnin væru hrædd við ákærða. Ekki hafi fengist afstaða forráðamanns B.
Í máli ákærða kom fram að öll frávik frá þeirri meginreglu að ákærði eigi rétt á því að vera viðstaddur skýrslutökur, verði að skýra mjög þröngt. Vitnin í máli þessu hafi enga ástæðu til þess að óttast ákærða. Hann hafi aldrei ógnað eða hótað þeim, hvorki þegar atburðir áttu sér stað eða síðar. Hræðsla eða ótti vitna verði að byggja á raunverulegum ótta en ekki sögusögnum úr dagblöðum. Ákærandi hafi ekki séð ástæðu til þess leggja fram þessa kröfu fyrr en eftir boðun vitnanna og þá þegar tveir forráðamenn höfðu samband við hann, en engin krafa hafi komið frá forráðamanni eins vitnisins. Þá hafi engin gögn verið lögð fram um það skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga um meðferð sakamála að nærvera ákærða geti haft áhrif á framburð þeirra, svo sem með framlagningu vottorða frá sálfræðingum.
III
Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er hverjum manni sem er orðinn 15 ára, skylt að koma fyrir dóm, þó viðkomandi sé enn barn í skilningi laga. Í 166. gr. sömu laga segir að ákærði eigi rétt á því að vera við aðalmeðferð máls. Ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 eru frávik frá þeirri meginreglu um að ákærði eigi rétt á því að vera viðstaddur þinghöld í máli sínu. Samkvæmt ákvæðinu þarf nærvera ákærða að vera vitnunum bæði til sérstakrar íþyngingar og að hafa áhrif á framburð þeirra. Í framburðarskýrslu lögreglu er ekki getið sérstaklega um hræðslu vitna við ákærða þó að vitni hafi borið að ákærði hafi verið ógnandi. Í símaskýrslum vitnanna hjá lögreglu kom meðal annars fram; „Þarna hafi verið maður sem allir voru hræddir við“, „Og hafi margir farþegar strætisvagnsins orðið mjög hræddir“. Vitnin eru ekki brotaþolar í meintri líkamsárás og ekki hefur verið sýnt fram á nein samskipti þeirra við ákærða á meintum brotavettvangi eða síðar. Ekki verður af gögnum málsins ráðið að nærvera ákærða geti orðið nefndum vitnum sérstaklega til íþyngingar. Engin vottorð hafa verið lögð fram svo sem frá sálfræðingum um að nærvera ákærða gæti haft áhrif á framburð vitnanna. Hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á með nægjanlegum hætti eins og máli þessu er háttað, að skýrslutakan sé vitnunum sérstaklega til íþyngingar og kunni að hafa áhrif á framburð þeirra.
Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu ákæranda um að ákærða, X, verði vikið úr þinghaldi á meðan vitnin B, C og D gefa skýrslu.