Hæstiréttur íslands

Mál nr. 338/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 28

 

Miðvikudaginn 28. júní 2006.

Nr. 338/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Bragi Björnsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengi í máli hans, þó ekki lengur en til föstudagsins 4. ágúst 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Meðal gagna málsins er vottorð Sigurgeirs Kjartanssonar læknis þar sem fram kemur að A hafi hlotið djúpa hnífsstungu í hægri síðu, sem gengið hafi í gegnum lifrarblað og einnig skaddað efri pól hægra nýra, en varanlegar afleiðingar þessa áverka séu enn ekki að fullu ljósar. Er það mat læknisins að A hafi hlotið alvarlegan áverka sem hefði getað ógnað lífi hans, ef ekki hefði komið til skjótrar læknismeðferðar. Hnífur sá sem talið er að beitt hafi verið er með um 16 cm löngu oddhvössu blaði.

Fallist er á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa veitt A framangreinda áverka. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms þykir skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fullnægt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2006.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi  á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 4. ágúst 2006  kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að aðfaranótt laugardagsins 17. þ.m. hafi lögreglan verið kvödd að veitingahúsinu V, Laugavegi [...], Reykjavík.  Er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi A legið á gólfi fyrir innan afgreiðsluborð staðarins með áverka á síðu.  Sjúkralið, sem hafi komið á vettvang skömmu síðar, hafi flutt A á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Nokkur vitni hafi verið að atviki þessu sem tjáðu lögreglumönnum að kærði, sem er sonur A, hafi stungið föður sinn með hnífi. Hafi kærði verið handtekinn í eldhúsi veitingahússins sem fjölskyldan reki. 

Samkvæmt vottorði Sigurgeirs Kjartanssonar, skurðlæknis á Landspítala, dags. 20. þ.m., hafi komið í ljós við skoðun á spítalanum að A hafði hlotið djúpa hnífsstungu í hægri síðu sem gengið hafði í gegnum lifrarblað og einnig skaddað efri pól hægra nýra. Þá komi fram í vottorðinu að um væri að ræða alvarlegan áverka sem ógnað hefði lífi A ef hann hefði ekki komist undir læknishendur svo fljótt sem raun bar vitni.  Ekki væri enn ljóst hvort afleiðingar af hnífstungunni yrðu varanlegar.

Kærði hafi viðurkennt að hafa stungið föður sinn með hnífi á veitingastaðnum umrætt kvöld.  Hann hafi lýst atvikum þannig að hann og faðir hans hafi verið ósáttir um nokkurt skeið vegna vandamála í fjölskyldunni. Hann segist hafa verið heima hjá sér kvöldið fyrir atvikið þegar faðir hans hafi hringt í hann en hann hafi þá verið staddur á veitingahúsinu. Þeir hafi rifist í símanum en faðir hans hafi komið heim stuttu síðar og hafi þá komið til átaka með þeim. Faðir hans hafi síðan farið aftur á veitingahúsið og segist kærði hafa farið þangað á eftir honum í því skyni að lemja hann.  Á veitingahúsinu hafi deilur þeirra haldið áfram og hafi þær endað með því að hann hafi gripið hníf og stungið föður sinn.  Í skýrslu sem tekin hafi verið af kærða sama dag og atvikið átti sér stað segist hann hafa verið mjög reiður og hafa ætlað að drepa föður sinn. Í skýrslu sem tekin hafi verið af honum í gær segist hann hafa gripið hnífinn og stungið föður sinn í mikilli reiði en honum hafi ekki gengið það til að ráða honum bana heldur skaða hann þar sem hann hafi verið að ögra honum og æsa hann upp. Lýsingar kærða á atvikinu sé í meginatriðum í samræmi við það sem fram hafi komið við rannsókn málsins og framburð vitna.     

Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 17. þ.m. Rannsókn málsins sé nú vel á veg komin og þykir ekki þörf á því að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna úr því sem komið sé. Reynt verði að hraða rannsókn málsins svo sem kostur sé og verði málið að rannsókn lokinni sent ríkissaksóknara til ákærumeðferðar, sbr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt gögnum málsins sé sterkur grunur um að kærði hafi framið alvarlegt brot. Kærði hafi beitt mjög hættulegu vopni en áverkar sem A hlaut af hnífstungunni hafi verið lífshættulegir. Teljist sök sönnuð geti ætlað brot kærða varðað samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 allt að 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu fangelsi samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr., sömu laga. Sé brot kærða þess eðlis að telja verður nauð­synlegt með tillit til almannahagsmuna að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.

Kröfu þessari til stuðnings sé vísað til dóma Hæstaréttar nr. 563/2002, 268/2003, 44/2004, 331/2004, 521/2004, 396/2005, 33/2006 og 139/2006. Varðandi þau sjónarmið sem liggi til grundvallar gæsluvarðhaldi samkvæmt nefndu ákvæði sé og bent á rit Evu Smith, Straffeproces, 1999, bls. 70.

Lögreglan í Reykjavík rannsaki nú ætlað brot kærða sem geti varðað við  211. gr., sbr. 20. gr., eða eftir atvikum við 2. mgr. 218. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga eins og hún er fram sett.

Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú þann atburð er faðir kærða, A, hlaut alvarlega stunguáverka með hnífi.  Samkvæmt gögnum málsins um rökstuddur grunur um að kærði hafi valdið föður sínum þessum áverka með hnífi.  Um er að ræða stunguáverka í hægri síðu sem gengið hafði í gegnum lifrarblað og einnig skaddað hægra nýra.  Kærði hefur játað fyrir lögreglu að hafa stungið föður sinn.  Samkvæmt gögnum málsins er sá hnífur með 18 cm löngu blaði, sem telja verður ákaflega hættulegt vopn.  Samkvæmt vottorði Sigurgeirs Kjartanssonar skurðlæknis á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, frá 20. júní 2006 eru varanlegar afleiðingar þessa áverka ekki enn að fullu ljósar en að mati hans teljast áverkar A hafa verið lífshættulegir.  Brot þetta getur varðað við 211. gr., sbr. 20. gr. eða eftir atvikum við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, með síðari breytingum.  Brot skv. fyrra ákvæðinu getur varðað allt að ævilöngu fangelsi, en skv. því síðara allt að 16 ára fangelsi.  Að þessu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er sakaður um teljast uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991.  Verður krafa lögreglu því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 4. ágúst 2006  kl. 16.00.