Hæstiréttur íslands

Mál nr. 63/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


         

Þriðjudaginn 5. febrúar 2008.

Nr. 63/2008.

Ríkissaksóknari

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 15. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Það athugast að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerði í héraði kröfu um farbann varnaraðila í umboði ríkissaksóknara. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð ákæra sóknaraðila útgefin í dag á hendur varnaraðila fyrir ætlað brot gegn valdstjórninni með því að hafa í félagi við tvo aðra menn ráðist með nánar tilgreindum hætti að nafngreindum lögreglumanni. Er háttsemin í ákæru talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2008.

             Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, f. […] 1988, verði bönnuð för frá Íslandi, þó eigi lengur en til 15. febrúar nk. kl. 16.00.

             Í greinargerð kemur fram að aðfaranótt föstudagsins 11. janúar sl. um kl. 01.41 hafi fjórir lögreglumenn, óeinkennisklæddir og á vegum fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuð­borgar­svæðinu, haft afskipti af þremur aðilum vegna gruns um fíkniefnamisferli fyrir utan veitingastaðinn Monte Carlo við Laugaveg í Reykjavík.

             Þegar lögreglumennirnir hafi verið að ræða við ofangreinda þrjá aðila, hafi  þeir séð hvar tvær fólksbifreiðar stöðvuðu við vettvanginn og út úr annarri bifreiðinni hafi stigið kona að nafni A, sem gengið hafi að lögreglumönnunum. Hafi henni verið kynnt að um lögregluaðgerð væri að ræða og hún beðin um að trufla ekki störf lögreglu. Í sömu andrá hafi fimm karlmenn veist að lögreglumönnunum með höggum og spörkum.  Þrátt fyrir að mönnunum hafi verið sýnd lögregluskilríki og þeim gerð grein fyrir því að um lögreglumenn væri að ræða, hafi þeir haldið árás sinni áfram. 

             Í átökunum hafi lögreglumenn beitt kylfum og varnarúða og þeim tekist að endingu að yfirbuga árásarmennina. Hafi þrír þeirra verið handteknir á vettvangi, þar á meðal kærði, en tveir komist undan og þeir verið handteknir síðar sama dag á heimili sínu að B í Reykjavík. Hafi kærði í kjölfarið verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, til þriðjudagsins 15. janúar sl.,  sem síðan hafi verið fram­lengt  til dagsins í dag kl. 16.00

             Eftir átökin hafi tveir lögreglumenn verið fluttir með sjúkrabíl á slysadeild, annar meðvitundarlaus með heilahristing og tognun í hálsi eftir höfuðhögg, en hinn með ýmsa yfir­borðs­áverka í andliti. Hinir tveir lögreglumennirnir hafi farið sjálfir á slysadeild og reynst með áverka í andliti.

             Rannsókn málsins sé lokið.  Komið hafi í ljós að umræddir sakborningar hafi veist að lögreglu algjörlega að tilefnislausu með fólskulegum hætti, vitandi að um lögreglumenn væri að ræða. 

             Kærði neitar að hafa tekið þátt í átökum þeim sem lögregla lýsir.

             Kærði var á vettvangi umrætt sinn og vitnaskýrslur fella á hann rökstuddan grun um að hafa átt þátt í árás á lögreglumenn, sem kann að varða hann refsingu samkvæmt 106. gr. almennra hegningarlaga.  Kærði er af erlendu bergi brotinn og hefur að því er séð verður ekki mikil tengsli við landið.  Samkvæmt 110. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður honum bönnuð för af landi brott eins og lögregla krefst. 

             Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

             Kærða, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 15. febrúar 2008 kl. 16.00.