Hæstiréttur íslands

Mál nr. 324/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Faðerni
  • Börn
  • Mannerfðafræðileg rannsókn


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. ágúst 2005.

Nr. 324/2005.

X

(Sigurður Georgsson hrl.)

gegn

Y

(Logi Guðbrandsson hrl.)

 

Kærumál. Faðerni. Börn. Mannerfðafræðileg rannsókn.

Tekin var til greina krafa Y um að mannerfðafræðileg rannsókn færi fram á honum og X og lífsýni úr A til sönnunarfærslu í máli sem hann hafði höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2005, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að mannerfðafræðileg rannsókn færi fram á aðilum málsins og lífsýni úr A. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að hin umbeðna rannsókn nái fram að ganga. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt gögnum málsins munu aðilar málsins hafa verið í sambúð en upp úr henni slitnað árið 1975. Sóknaraðili ól soninn A [...] 1976 og gekkst varnaraðili við faðerni barnsins með skriflegri yfirlýsingu sinni fyrir fulltrúa dómara 28. júní sama ár. A lést [...] 2002. Í héraðsdómsstefnu var því lýst að varnaraðili hefði haft efasemdir um faðerni barnsins og eftir andlát A hafi hann látið rannsaka barnatönn úr A ásamt lífsýni úr honum sjálfum hjá sænskri rannsóknarstofnun. Niðurstaða þessarar stofnunar hafi verið sú að hann gæti ekki verið faðir þess barns sem tönnin væri úr. Í stefnunni benti varnaraðili á að þrátt fyrir að þessi rannsókn væri ekki tæk sem sönnun þess að hann væri ekki faðir barnsins, gæfi hún hins vegar fullt tilefni til þess að kanna málið frekar og yrði við rekstur málsins gerð krafa um að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn á lífssýnum úr sér, sóknaraðila og A. Sóknaraðili hefur haldið uppi vörnum í málinu. Fyrir héraðsdómi krafðist hún aðallega frávísunar á málinu en til vara sýknu. Með úrskurði héraðsdóms 14. júní 2005 var kröfu sóknaraðila um frávísun málsins hafnað. Þegar málið var tekið fyrir á dómþingi 23. júní sama ár krafðist varnaraðili að mannerfðafræðileg rannsókn yrði gerð. Gegn andmælum sóknaraðila féllst héraðsdómari á kröfuna með hinum kærða úrskurði.

Í máli þessu neytir varnaraðili þeirrar heimildar sem honum er veitt í 2. mgr. 21. gr. barnalaga til að höfða mál til ógildingar á fyrrgreindri faðernisviðurkenningu. Í slíkum tilvikum gildir sú regla samkvæmt 3. mgr. þeirrar lagagreinar að málinu skuli beint að móður barns. Samkvæmt 15. gr. barnalaga getur mannerfðafræðileg rannsókn farið fram til að leita sönnunar í dómsmáli, sem rekið er til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Þar sem fyrrgreind skilyrði eru uppfyllt verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, X, greiði varnaraðila, Y, 80.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2005.

Sóknaraðili er Y, en varnaraðili er X.

Sóknaraðili krefst þess að mannerfðafræðileg rannsókn, svo sem kveðið er á um í 15. gr. barnalaga nr. 76/2003, verði gerð á aðilum málsins og lífssýni, sem til er frá A, sem lést þann [...] 2002.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði að slík rannsókn fari fram.

 

Helstu málavextir eru að málsaðilar voru í sambúð en slitu henni á árinu 1975.  Varnaraðili ól son [...] 1976 er skírður var A.  Sóknaraðili undirritaði yfirlýsingu um að hann væri faðir A hjá dómara 28. júní 1976 og var þá úrskurðað að sóknaraðili skyldi greiða meðlag með barninu frá fæðingu þess til fullnaðs 17 ára aldurs þess.

             Sóknaraðili greinir frá því að hann hafi farið fram á að faðernið yrði sannað með blóðrannsókn, en varnaraðili hefði neitað að undirgangast slíka rannsókn.  Sóknaraðili hafi þá kosið að treysta því að A væri sonur hans og undirritað faðernis-viðurkenningu.

Þá greinir sóknaraðili frá því að grunur um að hann væri ekki faðir A hafi alltaf aukist hjá honum með aldrinum og er DNA rannsóknir urðu almennar hafi hann fengið þau svör hjá Landspítalanum að DNA rannsókn yrði ekki gerð nema með leyfi móður.  Þar sem hann hafi vitað að varnaraðili myndi ekki fallast á það, hafi hann ekki farið fram á það, en haft í huga að sannreyna málið seinna, þegar A væri orðinn nógu gamall til að taka ákvörðun um það sjálfur með honum.

Er A lést [...] 2002 - en hann var þá búsettur [...]- kveðst sóknaraðili hafa farið að kanna málið á eigin spýtur.  Hafi hann fengið þær upplýsingar hjá Marlik Gregersen, lækni við Retsmedisinsk Institut í Danmörku, að þar væru varðveitt lífssýni frá A, en að ekki mætti nota þau til rannsókna nema eftir fyrirmælum þar til bærra yfirvalda.

Sóknaraðili kveðst hafa geymt hjá sér barnatennur A frá æskuárum hans.  Hafi hann látið rannsaka tönn ásamt lífssýni frá honum sjálfum hjá sænskri rannsóknarstofnun.  Niðurstaða þessarar stofnunar hafi verið sú að hann gæti ekki verið faðir þess barns, sem tönnin væri frá.

 

Sóknaraðili byggir á því að dómsmál til vefengingar á faðerni barns eða ógildingar á faðernisviðurkennin fari samkvæmt III. kafla barnalaga nr. 76/2003.  Samkvæmt 15. gr. laganna geti hann krafist þess að dómari ákveðið með úrskurði að mannerfðafræðileg rannsókn skuli fara fram á aðilum máls og barninu, sbr. 22. gr. sömu laga.

 

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki heimild til að krefjast þess að mannerfðafræðileg rannsókn verði gerð á varnaraðila og lífsýni, sem til sé frá A.  Varnaraðili vísir til dóms Hæstaréttar nr. 174/2005 í því sambandi.

 

Ályktunarorð:  Í dómi Hæstaréttar nr. 174/2005 var því hnekkt að nýta mætti lífsýni úr látinni móður varnaraðila málsins og látnum föður sóknaraðila málsins við mannerfðafræðilega rannsókn til sönnunarfærslu í faðernismáli, sem varnaraðili rak á hendur sóknaraðilum.  Hér er hins vegar ekki um dómsmál til feðrunar barns að ræða, sbr. II. kafla barnalaga nr. 76/2003, svo sem var í því tilviki sem Hæstiréttur fjallaði þá um, heldur dómsmál til vefengingar á faðerni barns eða ógildingar á faðernisviðurkenningu samkvæmt III. kafla sömu laga.  Ákvæði 2. mgr. 10 gr. laganna sem Hæstiréttur vísar til í málinu nr. 174/2005 eiga því ekki við málsókn þá er hér um ræðir.

             Fallist verður á með sóknaraðila að full lagastoð sé fyrir því að ákveðið verði með úrskurði að mannerfðafræðileg rannsókn fara fram á aðilum máls og lífsýni frá látnum syni sóknaraðila, A.

             Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

             Mannerfðafræðileg rannsókn skal fara fram á lífsýni frá A, sem lést [...] 2002, og aðilum þessa máls, Y og X.